"Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða" ... en hangið ekki á húninum ..

Matteusarguðspjall 7:7-8
"Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða."

Þessi texti er í bókinni sem er stundum kölluð "Bók bókanna" - Biblíunni. - 

Mér finnst margir misskilja bænina þannig að þeir nota hana sem einhvers konar suð í Guði.  Ef við suðum nógu lengi fáum við það sem VIÐ viljum. -

Kannski erum við bara eins og barnið sem er að suða og biðja um ís, en foreldrið veit að það er ekki endilga það besta fyrir okkur. - 

En stundum erum við auðvitað að biðja um eitthvað sem er bara gott, biðja um heilsu fyrir vin, biðja um ljós í hjartað okkar, - um að leiðin okkar sé greiðari o.s.frv. -    Þá nægir eitt bank.   Það þýðir að við prófum að banka og treystum því síðan að Guð (æðri máttur - alheimur - eftir hvar við erum stödd í trúnni) heyri í bankinu okkar. -    Við eigum ekki að þurfa að hanga í pilsfaldi Guðs,  og suða - því það er líka eins og við treystum ekki. -

"Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða" -  ef svo á að vera, og svo er bara að sleppa og treysta.

Það er annað í þessu samhengi, sem við getum í raun aldrei gert nóg af.  Það er þakkarbænin.  Við biðjum og óskum og ætlumst til - krefjumst jafnvel.  Og þegar við erum að biðja, erum við að biðja um eitthvað sem vantar. -

Í þakkarbæn þökkum við það sem við höfum, þökkum sjón, heilsu, líf, fjölskyldu .. hér er listinn ótæmandi,  við vitum það öll.  Þegar við förum að þakka það sem við eigum og höfum nú þegar verðum við fljótt ríkari -  "auðæfi" okkar verða augljósari. -  

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, og það er ágætur siður að þakka að kvöldi það sem þú vilt alls ekki vera án þegar þú vaknar morguninn eftir. -   Kannski að þakka það sem er allra næst - eins og þitt eigið líf, líf fjölskyldunnar og alls sem andar.  Það hlýtur að vera okkur kærast og þá áttum við okkur líka á því hvað það er sem skiptir raunverulegu máli. -  

"Takk" er töfraorð, - því að um leið og við veitum því sem við eigum og höfum athygli þá töfrum við það fram og stundum fáum við meira af því. -

Því er yndislegt að beina sjónum að því sem okkur þykri vænt um og þakka það. -

"Leitið og þér munuð finna" .. hvað þarf að finna? -  Þarf ekki bara að opna augun og vakna til vitundar um allt sem við eigum nú þegar?

Hvað syngur Páll Óskar í laginu "Betra líf?" - 

"Svo lít ég bara í kringum mig og sé - alla þessa fegurð kringum mig."

 "Ég opnaði augun og hjartað fann..... " ..

 

Kannski þarf ekki að knýja fast?  - Kannski þarf ekki að leita langt yfir skammt? ..

Kannski er nóg að trúa?

 


"Er þetta skemmtilegt?" .......

Þegar ég var í kennsluréttindanáminu mínu (2006 - 2007), gerði ég könnun hjá framhaldsskólanemum, og spurði hvaða kostir prýddu góðan kennara.  

Þegar ég lýsi góðum kennara sjálf, tel ég upp kosti eins og að hann kveiki áhuga hjá nemendum, sé hvetjandi, noti fjölbreyttar kennsluaðferðir, sé með gott viðmót, skýr markmið o.fl. -

Nemendur svöruðu spurningunni um hvað prýddi góðan kennara oftast með þessu:

"Kennari þarf að vera skemmtilegur." - 

En hvað er að vera skemmtilegur? -  Og hvað þýðir það þegar um kennara er að ræða? - Ég tel það vera ekkert ósvipað og það sem ég tel hér upp sjálf, að hann haldi nemendum við efnið með vekjandi fyrirlestrum og fjöbreyttum kennsluaðferðum, og auðvitað hafa gott viðmót. -

Krafan um skemmtilegheitin er mikil.  Hún er alls staðar í raun.

Sama hvert á land ég kem með mína fyrirlestra, - hvort sem það er á vinnustað eða í skóla, heyri ég
oftast pískrað; "Ætli þetta sé skemmtilegt?" -   Og stundum hef ég hreinlega verið beðin um að vera skemmtileg, jafnvel þegar ég er að tala um meðvirkni, skömm, sektarkennd, höfnun o.s.frv. -

Það að vera skemmtilegur - þarf ekki að þýða fífla-og trúðslæti, eða einhvers konar "stand-up" dæmi.  Það þýðir hreinlega að halda fólki við efnið - vekja áhuga, og jú,  "poppa" efnið svolítið upp, koma með skondnar og/eða persónulegar sögur sem tengjast efninu.

Kennarar þurfa þá að vera skemmtilegir, - fyrirlesarar skemmtilegir - og, haldið ykkur fast: makar þurfa að hafa þennan eiginleika að vera skemmtilegir.  

Ég hef líka gert (óformlega) könnun hjá hópi kvenna, - niðurstaðan sem trónaði á toppnum (ofar trausti og því að hann ætti að vera myndarlegur)  - var að makinn ætti að vera skemmtilegur.   Það liggur í hlutarins eðli að engin/n vill eiga leiðinlegan maka.  

 

Ef við berum þetta nú saman við kennsluna, - þá hlýtur það að vera þannig að makinn þurfi að vekja áhuga, hafa gott viðmót og hafa kannski vera smá uppfinningasamir (eins og fjölbreytni í kennslu). -

Kannski er hægt að læra að vera góður maki, eins og að læra að vera góður kennari? - Ekki satt?

Kannski þarf fólk að læra að vera góðir makar, kannski er það ekkert sjálflært?

Ég ætla ekki að svara því hér, - en langar að velta þessum skemmtilegheitum hér upp og mikilvægi þess að einhver og eitthvað sé "skemmtilegt" .. með áðurnefndum skilgreiningum.  Svo, vegna þess að þetta fína athugasemdakerfi er hér fyrir neðan, væri gaman að fá skilgreiningu þína, sem lest, á því hvað er að vera skemmtilegur og hvort þú ert sammála mikilvægi þess? -

TAKK FYRIR LESTURINN ..  


"Vá hvað þú ert kúl" ...

Eftir að ég skildi við eiginmann og barnsföður í september 2002, hef ég farið í þrjú lengri sambönd, - en þess á milli verið "einstök" kona. -

Börnin eru löngu flogin úr hreiðrinu og það þýðir að ég er mikið ein heima.  Virkir dagar eru rútínudagar, en helgarnar eru stundum einmanalegri. -  Það var í aðstoðarskólastjóratíð minni í Hraðbraut,  að ég sat ein heima á laugardagskvöldi, - það var fyrir tíma fésbókarinnar, - og ég sat ein með sjónvarpinu. -

Það var verið að sýna íslenska mynd í Laugarásbíó, en ég bjó á þessum tíma í Sigtúni og dreif mig á tíubíó - ein, með sjálfri mér. -  Þegar ég var að koma frá því að kaupa miðann, mætti ég tveimur nemendum, - strákum sem voru ca. 18 - 19 ára á þessum tíma. -  Uppáhaldsnemendur úr félagsfræðinni því þeir voru svo virkir í umræðum. -   Þeir litu á aðstoðarskólastjórann sinn, og spurðu svo: "Með hverjum ertu?" -  en ég svaraði um hæl: "Ég er sko bara ein" ..  og þá kom þetta svar sem ég hef ekki gleymt, eftir allan þennan tíma:   "Vá hvað þú ert kúl" ..

Ég heyrði í manni, sem sagði mér að hann hefði farið einn í bíó, og hann hefði keyrt þrjá hringi í kringum Háskólabíó áður en hann treysti sér inn.  Hann var svo meðvitaður um að hann væri einn, og hann var mjög mikið að pæla í því hvað hinir hugsuðu um hann. -  "Æ, greyið maðurinn, hefur engan að fara með í bíó"...  eða eitthvað álíka. - 

Við erum voðalega hrædd við að aðrir viti eða álíti eitthvað um okkur.  T.d. að við séum einmana. Kannski er það fólk sem við erum að pæla í bara einmana sjálft.  T.d. einmana í sínum samböndum? -  Og ekkert endilega voða "kúl?" ..

Kannski eigum við bara að fara í bíó eða leikhús ef okkur langar til þess, en ekki bíða eftir að okkur sé boðið? - Nú eða bara tékka á vini eða vinkonu. 

En hver er boðskapurinn með þessum pistli? - Jú, ekki ætla fólki hugsanir um þig og hvað þú ert að gera, flest fólk er mest upptekið af sjálfu sér og hvað þér finnst um það, ekki satt? -

Ekki vera í höfðinu á öðru fólki, - og ef fólk hefur hugmyndir um þig, þá má það bara hafa það, það kemur okkur í raun ekkert við hvað fólk hugsar, eða er að upplifa gagnvart okkur, - svona á meðan við erum ekki að sveifla höndunum of nálægt nefinu á því. -  

Verum bara "kúl"  ....

 


Langar þig til að fara í megrun eða langar þig í raun að leiðrétta lífsorkuna þína?

Þegar ég tala um megrun - þá er ég að tala um það sem á ensku kallast "diet" en lífsorkan er "vitality" -og má líka segja að um orðið heilbrigði sé að ræða.  

Það er til eitthvað sem heitir "æskileg þyngd" - alveg eins og það er til eitthvað sem heitir æskilegur blóðþrýstingur. -  Blóðþrýstingur kemur útliti ekkert við,  en mataræði getur hjálpað til við að leiðrétta blóðþrýsting.  - Það sama á við um þyngdina, - mataræði getur hjálpað til við að leiðrétta þyngd og við eigum ekki að hengja allt á útlitiið að við séum að leiðrétta þyngdina.

Einhver frávik - efri mörk - neðri mörk í blóðþrýsting eru væntanlega ekki svo hættuleg, og fólk er misjafnt.  Sumir eru frekar lágir alla ævi og sumir frekar háir alla ævi án þess að fara undir eða yfir
þeirra eigin hættumörk.  Það sama gildir um vigtina.  Það er allt í lagi að vera léttari en meðalþyngd og þyngri en meðalþyngd á meðan það hamlar ekki heilsufari - eða lífsorkunni okkar. -

Þegar ég tala um lífsorku, þýðir það að við þurfum ákveðið mikið af þessu og hinu, heilsufarslega, bæði andlega og líkamlega til að vera í jafnvægi orkulega séð.  Við þekkjum það að vera orkulaus, -
og það er oft vegna lélegs mataræðis, nú eða við umgöngumst fólk sem dregur úr okkur orku. -

Til að vera heilbrigð og gæta að okkar lífsorku, - þurfum við bæði að hugsa um andlega og líkamlega næringu.

Þegar við nærumst getum við spurt okkur; - "Er þetta gott fyrir lífsorkuna mína?" -   Í staðinn fyriir að vera í stanslausu hugsanamynstri um hvort við fitnum eða grennumst.  Það hugsanamynstur - er í
sjálfu sér vont, því þá erum við meira að hugsa það út frá útlitinu, og þá hvernig aðrir sjá okkur m.a. -  Hugsum þetta frekar eins og við séum að koma jafnvægi á blóðþrýstinginn.   Markmiðið er góð heilsa, jafnvægi og góð orka.

Það er mikilvægt að koma sér í rétta "stemmingu" eða tíðni - og átta sig á því að forsenda þess að við veljum það sem er okkur gott er vegna þess að við elskum okkur og veljum heilbrigði frekar en að við förum af stað með þá hugmynd að við hötum okkur (útlit okkar) og þurfum að grennast, því að við séum ekki elsku verð öðruvísi. -

Líkaminn er farartækið okkar, - ef líkaminn er hraustur og hefur orku, þá getum við notið lífsins í mun ríkara mæli en ef hann er það ekki.  Það er því okkur í hag að ná jafnvægi.

Það er gott að vakna til vitundar í jafnvægi, - sem þýðir að vegurinn að markmiðinu er jafn góður og markmiðið í sjálfu sér. Um leið og við vöknum (tökum ákvörðun)  erum við komin á rétta braut - á rétta tíðni.   Við höfum valið farveginn, og bara með ákvörðuninni erum við komin á hann. -   Næst þegar við verðum svöng, og ætlum jafnvel að fara að stinga upp í okkur kókósbollu í hugsanaleysi,  - þá getum við hinkrað við (vaknað) og spurt okkur: "Er þetta að þjóna lífsorkunni minni og mér?" -  Var ég ekki að lesa um að sykur væri eitur - jafnvel fíkniefni?"  -  Hvað ætti ég að bjóða mér upp á sem þjónar líkamanum mínum og lífsorkunni, sem stuðlar að því að ég haldist á veginum en fari ekki útaf honum,  því ég veit
að þessi vegur er minn "hamingjuvegur" - og hamingjan er leiðin en ekki ákvörðunarstaðurinn. -

Hugsanabreyting er allt sem þarf - þegar kemur að langa í betri heilsu, jafnvægi í líkama og sál. - 
Það er hugsanabreyting hvernig við hugsum til okkar sjálfra, - þykir okkur vænt um okkur sem heild, - sem líkama og sem sál. Við erum sálir og eigum líkama.  Við þurfum líkama - holdið til að eiga
jarðneska tilveru.  Verum væn við okkur sjálf því við erum væn, - og ræktum okkur til fulls, - þannig að við megum vera sem heilbrigðust, ekki of né van,  hvorki með háþrýsting né lágþrýsting.

Jafnaðargeð og jafnaðarlífsorka er markmiðið,  við erum verðmæt núna - og verðmæti okkar fer ekki
eftir tölum á vigt - ekki frekar en það fer eftir tölum á blóðþrýstingsmæli, eða nokkrum tölum. -

Hlúum að þessu verðmæti - með að halda heilsu, með því að elska okkur núna og með því að elska
okkur tökum við ábyrgð á eigin heilsu, eigin lífsorku og það er yndislegt markmið.

Lifum heil.

Ef þú vilt fræðast meira - vilt ná andlegu og líkamlegu jafnvægi - kíktu þá á þetta námskeið HÉRNA


Ástarljóð

Gefðu mér ljósið þitt
Færðu mér eina rós
En helst af öllu
vel ég nærveru þína
Ilminn þinn
Hjartslátt þinn
Allt heimsins dót
kemur ekki í staðinn fyrir
unaðinn
að eiga við þig stefnumót.

<3 

 Jóhanna Magnúsdóttir

- september 2014


Sala áfengis í matvöruverslunum - hagsmunir hverra? ...

Ég vil taka það fram - hér í upphafi, að ég er fylgjandi frelsi. Frelsinu til að velja og taka ákvarðanir. 

Lög og reglur, boð og bönn eru þó nauðsynleg, - t.d. í umferðinni, - það ríkti væntanlega kaos ef allir hefðu frelsi til að velja þar, hvort þeir keyrðu á vinstri eða hægri vegarhelming,  ækju yfir á rauðu eða grænu ljósi o.s.frv. -  Lög og reglur, boð og bönn eru sett til verndar okkur mannfólkinu. -

Fleiri reglugerðir eru í þessum dúr.

Í Biblíunni eru alls konar lögmál - og þar þykir mikilvægt að það séu lögmál sem séu sett mannsins vegna en ekki bara lögmálsins eða reglunnar vegna.  

Hvað með reglur um áfengiskaup.  Af hverju er ekki frjáls sala á áfengi? -

Kemur nokkrum það við hvað Gunna eða Jón kaupa mikið áfengi og hvar þau gera það?

Það er hættulegt (reyndar stórhættulegt) að aka á móti rauðu ljósi, - en er einhver hætta fólgin í því að aðgengi sé aukið að áfengi? -

Ráða ekki allir við sig, eru með frjálsan vilja og af hverju ætti ekki að mega selja áfengi hvar sem er?

Af hverju má ekki selja kannabis hvar sem er?  Eða af hverju er það ekki löglegt?  Nú eða kókaín?  Má fólk ekki bara velja? -

Áfengi er fíkniefni. -  Við megum aldrei gleyma því.   Fólk missir meðvitund - eða minnnkar meðvitund við neyslu þess.  Það er deyfilyf,  sem deyfir tilfinningar. - 

Óvirkir alkóhólistar þurfa að versla í matinn eins og annað fólk, -  og það hefur verið sannað að aðgengi skiptir máli hvað neyslu varðar. -  Fólk getur átt góða daga, sem það hefur fullan styrk, en fólk getur átt vonda daga og þá skiptir máli hversu fjarlægðin er mikil í flöskuna. -

Það er meðvituð ákvörðun - að aka í sérstaka verslun til að versla áfengi. Það er ákveðin yfirlýsing.  "Ég er komin/n hingað til að kaupa áfengi,  því að í þessari verslun er ekki annað selt." -  

Ef að hinn óvirki fer í matvöruverslun, þá er það auðveldara að "lauma" með í körfuna kippu af bjór, eða flösku af rauðu. - 

Hvern er verið að vernda með lögum um áfengiskaup?  -  Ég tel að það sé verið að vernda fjölskyldurnar í landinu.  Áfengisvandinn er gríðarlegur, - það eru heilu fjölskyldurnar og stundum ættirnar sem falla með alkóhólistanum. - 

Segjum að hann Maggi sé nýkominn heim af Vogi, -  er þá gott að hafa búrið fullt af áfengi? -  Hann eigi bara að geta staðist  freistinguna og þetta sé próf? -   Ég veit ekki hvort þið eruð svoleiðis, en ég er alla veganna þannig að ef ég finn kexpakka uppí hillu, þá er ég líkleg til að klára kexpakkann, þó ég hafi ekki ætlað mér það.   Þess vegna kaupi ég lítið af sætu, vegna þess að ég veit ég á erfitt með að standast freistinguna.    En það fæst kex og nammi útí búð! -   Já,  en það er langur vegur milli alvarleika þess að ein manneskja sé sólgin í sykur,  því það hefur ekki þessi dómínó-áhrif sem alkóhólisminn hefur.  

Það er ákveðin afneitun að halda því fram að allir geti umgengist áfengi sem sitt frjálsa val, því það er áfengið sem velur og alkóhól stjórnar mun fleirum en við viljum oft láta vera. - 

Ég tel að það sé ekki hagsmunir fjölskyldna í landinu að auka aðgengi að áfengi.  Ég tel það séu hagsmunir kaupmanna, og þau aukaspor eða aukaakstur sem þarf til að fara í sérverslun sé alveg þess virði til að vernda hagsmuni barna - og allra þeirra sem eru fórnarlömb áfengisfíknar annarra.

Auðvitað þarf að vinna meira að forvörnum, - styrkja fólk andlega svo það þurfi ekki sinn anda úr flösku. Auðvitað þurfa sumir að spyrja sig, - "What is wrong in my life, that I must get drunk every night" - eins og Fine Young Cannibals sungu um árið. -

Við gætum sagt að það sé menningarlegt að fá rautt og hvítt inn í matvöruverslanir, en spyrjum okkur líka hvort það gæti stuðlað að ómenningu, eða ómennsku? ..

Hagsmunir manna eða mammons? ...  

 


Einn sannleikur í gær, annar í dag og enn annar á morgun ...

 Það fór stundum í taugarnar á fólki, sem átti börn með nokkurra ára millibili og var að senda þau í framhaldsskólann, að þau gætu ekki notað bækurnar frá eldri systkinum. - Af hverju var það? - Jú, það var komin "ný útgáfa" -  einn hafði notað útgáfu þrjú en þremur árum seinna var komin útgáfa fjögur eða fimm. -

Fræðin eru alltaf að endurnýjast, af því að fólk er að vitkast, fá meiri upplýsingar, þróun á sér stað o.s.frv.-  Símaskrá landsmanna er gefin út á hverju ári.  Meira að segja Biblían er endurútgefin, þýdd upp á nýtt, breytt orðfæri og þýðingar lagaðar til.  Þó Biblían sé með íhaldssamari ritum og þar standi margt um félagsfræði og líffræði þeirra tíma, sem er að sjálfsögðu "þeirra tíma" - þó margir taki það sem sannleika dagsins í dag. -

Það er ekki margt sem stendur tímans tönn, þó vissulega séu það ýmis gildi, - og margt er endur-umorðað á þúsund vegu,  í enn fleiri andlegum ritum og sjálfshjálparbókum, - sami sannleikur í nýjum fötum. -  Það finnst margt í fornum bókum sem er "nýtt" í dag því að það er bara umorðað.  Kjarninn í því er sá sami. -

Það er tvennt sem skiptir máli að mínu mati, - það er að við vöknum til meðvitundar - og lifum í og með vitund.  Og að við lærum að virða og meta gjöfina sem lífið er, og það þýðir að við lærum að meta okkar eigið líf sjálf og taka ábyrgð á því.  Það þýðir að elska okkur.

Við erum týnd, - við erum ekki vakandi að því leyti að við erum komin með HÖFÐINGJA  (sem standa reyndar ekki undir því nafni)  við stjórnvölinn á Íslandi, -  og við erum hálfgerðar höfðingjasleikjur.  Við höfum tilhneygingu til að kjósa yfir okkur fólk - sem er á toppnum í fjölskyldukolkröbbum.  Ekki endilega fólk sem hefur samhygð með öðru fólki, eða er andlegt. - Samt þurfum við svo mikið andlega leiðsögn.

Alls staðar er píramídamynstrið, - það eru þau og við.  Ég upplifi þetta sterkt hjá kirkjunni líka.

Hver var Jesús?  Hvað átti Jesús? -  Hver er Jesús dagsins í dag?  Væri hann klæddur purpurakápu með gullbryddingum,  myndi hann krefjast þess að hafa orgelspil undir kórsöng og að allir klæddust í sparifötin við messur þar sem fólk stæði upp, settist niður, og gerði alls konar seremóníur.

Hvert erum við komin með "sannleikann?" -

Er hann ekki týndur í yfirborðsmennsku og hafa "Höfðingjar" ekki stolið honum? -

Mér finnst þetta orðinn hluti í pólitík og líka í þjóðkirkjunni. -  Allt er orðið eitthvað svo mikið gerfi.

Það þarf að fara að gefa út nýja bók, - það þarf að fara að hreinsa til og skrifa heiðarlega.  Ég, persónulega er að ærast af vondri pólitík, - og íhuga ábyrgðina sem ég hef á mínu lífi.  Líka ábyrgðina sem ég á landinu sem ég bý í og jörðinni sem heild. -

Það er mér lífsnauðsyn að vera heiðarleg við sjálfa mig og lífið, og að fylgja sannleikanum þangað sem hann ber mig.  Ekki sannleika gærdagsins eða morgundagsins, - bara sannleikanum eins og hann lítur út í dag. -   Það þýðir að það sem ég skrifa í dag, er minn sannleikur, - en hann var öðru vísi í gær og hann verður e.t.v. öðru vísi á morgun.   Það kemur út ný útgáfa af mér á hverjum degi,  því ég þroskast hratt og hraðar eftir því sem árin líða.

Ég er sannleiksleitandi, - og það er kannski minn tilgangur í þessu lífi að uppgötva sjálfa mig og sannleikann.  

 

"Individual truth is constantly
evolving, and a truth seeker
must be willing to give up last
week&#39;s major truth for whatever
new discovery the innermost
self reveals. "
Bob Luckin
 


Frá sjónarhóli fullnægjunnar ..

Þessi yfirskrift er andstæða “Frá sjónarhóli örvæntingar”  ..

Þetta er munurinn á desperat og satisfied. -

Að lifa í tilfinningu af skorti er að upplifa sig aðþrengda/n eða örvæntingafulla/n.

Að lifa í tilfinningu af því að hafa nóg er að upplifa sig fullnægða/n.

Framkvæmd sem er framkvæmd í örvæntingu er svipað og örvæntingin þegar sumt fólk er að leita
sér að maka.  Ef það er gert af sjónarhóli örvæntingar þá virkar það oft þannig á mótaðilann að
hann flýr í burtu.

Ef að lætin eru slík að það verður helst að “klófesta” hinn aðilann og setja hann í búr,  þá heldur lífið áfram í örvæntingu og jafnvel óttanum um að missa, sem breytist í afbrýðisemi og vantraust. –   Fólk verður að ná saman á réttum forsendum, ekki að “landa laxinum” – því þá er annar veiddur og hinn veiðimaður, – er það jafnræði og er það réttur grunnur?

Við löðum að okkur hið góða með því að líða vel, elska okkur sjálf og virða, og upplifa gott sjálfstraust.

Það á við um alla hluti.

Þegar allt virðist erfitt og áhyggjurnar eru að sliga,  þá er besta ráðið að fara að dansa, leika, syngja, hlusta á fallega tónlist,  njóta barna,  fara út að ganga með voffa og horfa á sólarlagið,  fara að vaða
í á, eða synda í vatni.  Eitthvað sem veitir okkur gleði og fullnægju. -

“Bikar minn er barmafullur”  og “mig mun ekkert bresta” (skorta)  segir í Davíðssálmi 23 – þýðir að
glasið er fullt,  sá sem á barmafullan bikar lifir ekki í skorti, sá eða sú sem upplifir sig vera NÓG, – skilyrðislaust (þá er ég ekki að tala um ytri eigur) – lifir ekki í örvæntingu heldur í fullnægju. -

Við lifum í trausti og trú. -

Þessa tilfinningu er hægt að skapa innra með sér,  það gerist skref fyrir skref, en um leið og við höfum tekið ákvörðun um að losa okkur við byrðarnar,  tekið ákvörðun um hamingju okkar getum við andað léttar og erum komin á veginn. -

“The way to heaven is heaven” – .. 

.. svona er þetta .. njótum þess að lifa þó við höfum ekki náð einhverju ákveðnu markmiði,  – setjum okkur markmið, – að sjálfsögðu,  en í fullvissu þess að markmiðið næst miklu frekar ef við trúum á það, ef okkur líður vel og við erum ekki í örvæntingu að nálgast það.

Aðþrengd manneskja kemst ekki langt, – hún er ekki frjáls.  Að vera aðþrengd er eins og lifa lífinu í spennitreyju og öfugt  við frelsið.

Við þurfum að leyfa okkur að lifa í frelsi en ekki helsi, lifa í lukku en ekki í krukku, lifa lengi en ekki í fatahengi. -

Hver og ein manneskja þarf að leyfa sér að elska án skilyrða,  elska án þess að vera í kvíða um það að vera elskuð á móti. –   Bara njóta þess fyrst og fremst að elska … og lifa skilyrðislaust.

Til að elska annað fólk þurfum við helst að elska okkur sjálf, – að elska okkur sjálf er að þykja vænt
um okkur sjálf, það að vera okkar besta vinkona eða vinur, – höfum það í huga hvort að við tölum eins við okkur sjálf og okkar bestu vini? –  Erum við verri eða betri við okkur?

Ég setti sömu færslu á bloggið mitt naflaskodun en þá með lagi Páls Óskars; – Ó, hvílíkt frelsi að elska þig,  en ætla að setja hér eitt uppáhalds sem mér finnst ekki síðra.

Það er frelsi að elska – bæði sjálfa/n sig og aðra ….


Hanna Birna og hvítu flíkurnar ..

Hún Hanna Birna okkar virðist fylgjast grannt með tískunni, því undanfarnar vikur hef ég ekki séð hana (í fjölmiðlum) nema hvítklædda.  

Ég hélt reyndar að þetta væri pólitískt "trikk" til að líta út fyrir að vera sakleysislegri, - en það er þá bara mín eigin pólitíska (spillta?)  hugsun. - 

Hvítt tengi ég við sakleysi, hreinleika og ljós. - Gúrúar í Kundalíni Yoga klæðast hvítu frá toppi til táar, - en gú þýðir myrkur og rú þýðir ljós.  Það eru s.s. gúrúar sem eru að leiða okkur frá myrkri til ljóss. Kannski er það líka markmið Hönnu Birnu? -  

En það þarf að vanda sig þegar við klæðumst hvítu og þetta gæti því orðið mikil uppgangsár fyrir fatahreinsanir, ef að "lýðurinn" fylgir tískubylgju New York og/eða fetar í fótspor Hönnu Birnu. -

p.s. þegar ég var barn í myndlistartíma - þá var eitt af því fyrsta sem kennarinn sagði: "Hvítt og svart eru ekki litir" -  gildir það enn?


mbl.is Þetta er haustliturinn í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bíða eftir að einhver elski þig, - elskaðu! <3

Elskaðu.  Já elskaðu bara!

Elskaðu borgina þína. Elskaðu heimilið þitt. Elskaðu matinn þinn. Elskaðu draumana þína. 

Elskaðu fólkið þitt. Elskaðu.


Elskaðu hlutina sem auðvelt er að elska og víkkaðu út elskuna með að elska það sem er erfitt að elska.

Þegar þú elskar óttalaust,  lýsir þú.  Þú ert ljós í stormi. Þú ert bros í fjöldanum. Þú ert ferskur andblær.

Leggðu sál þína í allt sem þú gerir og þú munt verða sál þín.

Gerðu samkomulag hér og nú um að líkamna sál þína – til a vera besta útgáfan af þér.  Kjarnaðu þig, ástundaðu þakklætið, lifðu sannleika þinn og elskaðu. 

Helltu úr hjarta þínu, og þú munt, án nokkurs vafa, virka sem segull á alla sem upplifa þau

forréttindi að baða sig í ljósinu þinu.

Mundu, að við græðum öll á geislum þínum, svo ekki halda aftur af þeim.

Vertu sálin sem skín – og laðaðu hið góða að birtu þinni.

Þegar þú lendir í vandræðum, - í ástlausri holu myrkurs gefðu þá ást,

og þú munt skynja og skapa ást sem lýsir þér veginn upp. -

Óttinn er eins og myrkrið, - prófum að setja ást - kærleika -
skilning inn í óttann, mætum honum og sjáum hvað gerist.

Við bætum ekki myrkur með myrkri, við þurfum að bæta með ljósi.
Þá er ekki myrkur lengur. - 

Ást - Ást - Ást kemur okkur í gegnum öll borðin í "lífsleiknum" ..

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband