"Vá hvað þú ert kúl" ...

Eftir að ég skildi við eiginmann og barnsföður í september 2002, hef ég farið í þrjú lengri sambönd, - en þess á milli verið "einstök" kona. -

Börnin eru löngu flogin úr hreiðrinu og það þýðir að ég er mikið ein heima.  Virkir dagar eru rútínudagar, en helgarnar eru stundum einmanalegri. -  Það var í aðstoðarskólastjóratíð minni í Hraðbraut,  að ég sat ein heima á laugardagskvöldi, - það var fyrir tíma fésbókarinnar, - og ég sat ein með sjónvarpinu. -

Það var verið að sýna íslenska mynd í Laugarásbíó, en ég bjó á þessum tíma í Sigtúni og dreif mig á tíubíó - ein, með sjálfri mér. -  Þegar ég var að koma frá því að kaupa miðann, mætti ég tveimur nemendum, - strákum sem voru ca. 18 - 19 ára á þessum tíma. -  Uppáhaldsnemendur úr félagsfræðinni því þeir voru svo virkir í umræðum. -   Þeir litu á aðstoðarskólastjórann sinn, og spurðu svo: "Með hverjum ertu?" -  en ég svaraði um hæl: "Ég er sko bara ein" ..  og þá kom þetta svar sem ég hef ekki gleymt, eftir allan þennan tíma:   "Vá hvað þú ert kúl" ..

Ég heyrði í manni, sem sagði mér að hann hefði farið einn í bíó, og hann hefði keyrt þrjá hringi í kringum Háskólabíó áður en hann treysti sér inn.  Hann var svo meðvitaður um að hann væri einn, og hann var mjög mikið að pæla í því hvað hinir hugsuðu um hann. -  "Æ, greyið maðurinn, hefur engan að fara með í bíó"...  eða eitthvað álíka. - 

Við erum voðalega hrædd við að aðrir viti eða álíti eitthvað um okkur.  T.d. að við séum einmana. Kannski er það fólk sem við erum að pæla í bara einmana sjálft.  T.d. einmana í sínum samböndum? -  Og ekkert endilega voða "kúl?" ..

Kannski eigum við bara að fara í bíó eða leikhús ef okkur langar til þess, en ekki bíða eftir að okkur sé boðið? - Nú eða bara tékka á vini eða vinkonu. 

En hver er boðskapurinn með þessum pistli? - Jú, ekki ætla fólki hugsanir um þig og hvað þú ert að gera, flest fólk er mest upptekið af sjálfu sér og hvað þér finnst um það, ekki satt? -

Ekki vera í höfðinu á öðru fólki, - og ef fólk hefur hugmyndir um þig, þá má það bara hafa það, það kemur okkur í raun ekkert við hvað fólk hugsar, eða er að upplifa gagnvart okkur, - svona á meðan við erum ekki að sveifla höndunum of nálægt nefinu á því. -  

Verum bara "kúl"  ....

 


Bloggfærslur 16. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband