Ekki láta annað fólk ráða þínu geði ...

Það er stutt að leita í æðruleysisbænina, - þar sem við biðjum um sátt við það sem við getum ekki breytt og kjark til að breyta því sem við getum breytt. -

Getum við breytt öðru fólki? -  Já og Nei.  Við gerum það a.m.k. ekki með handafli.  Við getum sagt manneskju hvað hún á að gera og hvernig hún á að haga lífi sínu, - en það er alltaf hennar ákvörðun hvað hún gerir, og það verður að vera skv. hennar eigin vilja.   Við eigum í raun ekkert með það að stjórna annarra lífi. -   Við getum gefið góð ráð og leiðbeiningar, ef fólk óskar þess af okkur, en óumbeðin ráð eru yfirleitt stjórnsemi, í þá átt að við viljum stjórna og breyta öðrum eða hegðun þeirra.

Það er stundum erfitt að sleppa tökunum, og við getum orðið úrvinda að stjórnast í öllu þessu fólki sem við teljum að kunni ekki fótum sínum forráð. -

"Relax - nothing is under control" - er ágæt setning til að grípa í þegar maður er kominn inn í svona hvirfilbyl, þegar allir og allt eru að "klikka" að okkar mati. -

Þá er best að sækja sér frið hið innra, - hætta að stilla fókus á annað fólk og gjörðir þeirra og bara koma heim í heiðardalinn til sjálfs sín. -   Það kallast "Æðruleysi" -  lognið í storminum. -   Þú slakar á og leyfir fólki bara að takast á við sín vandamál - svo framarlega sem það er orðið sjálfráða.   Það er ekki hægt að taka ábyrgðina af fólki og við getum ekki borið ábyrgð á fullorðnu fólki,  - það er hreinlega ekki í okkar verkahring.

Þarna fer fókusinn inn á við og á okkur sjálf. -   Lífið á að vera skemmtilegt og ef að fólk er með mikið vesen og leiðindi, þá verður lífið leiðinlegt,  - ef við leyfum þessu fólki að skemma fyrir okkur daginn, nú eða lífið. -   Við gefum því of mikið vægi í okkar eigin lífi og þá um leið vald á okkar lífi og ábyrgð. -

Ergelsið - pirringurinn - reiðin - kemur oft þegar fólk gerir ekki eins og VIÐ viljum að það geri. - Það stenst ekki væntingar og það sem VIÐ ætlumst til af þeim. -  Lífið er ekki Barbíleikur,  þar sem við getum ráðið hvað hver "dúkka"  Ken eða Barbí segir eða gerir.  Fólk er ekki dúkkur - og þess vegna gerir það alls konar hluti sem okkur hugnast stundum alls ekki. -

Slökum á, ekkert er undir stjórn! .. nema kannski - jú,  okkar eigið viðhorf - og við getum stjórnað okkur sjálfum,  er það ekki?   Við getum ráðið hvort við látum fólk fara í taugarnar á okkur, - eða hvort við umgöngumst fólk sem vekur með okkur neikvæðni, gremju, o.s.frv. -  Hvort við samþykkjum það sem það segir t.d. um okkur, eða lítum á það sem þeirra sannleika og við höfum okkar eigin.   Við þurfum ekki að fara í það að taka þátt í þeirra "Barbíleik" -   Við stjórnum okkar eigin - en ekki þeirra.

Svoleiðis er það nú bara.

download (7)


Barn er blessun ..

Ég ár þrjú ömmubörn, tvö búa í Danmörku sem eru fimm á tíu ára,  en eitt á Íslandi og er hún yngst, aðeins fjögurra ára. 

Sú fjögurra ára ber nafnið Eva Rós, en nafnið Eva fær hún frá dóttur minni, föðursystur sinni, sem lést í janúar í fyrra. -  Mér þykir vænt um að hún beri þetta nafn, auk þess að nafnið þýðir "líf." -

Eva Rós er mikið ljós í mínu lífi, eins og hin barnabörnin Elisabeth Mai og Ísak Máni, dótturbörnin sem búa í fjarlægu landi með dönskum föður, en þau heimsæki ég eins oft og mér er kostur.

Eva Rós var í pössun i gærkvöldi, - og hún er einstaklega glaðlynt barn og elskuleg.  

Við brugðum okkur eftir kvöldmat í gær, í göngutúr til systur minnar - hér á næsta "bæ." -  Þar heillar hún frænku sína yfirleitt upp úr skónum, - og athyglin beinist að henni meðan við erum í heimsókn, enda Hulda systir  í miklu uppáhaldi og alltaf spennandi að koma í heimsókn. 

Á heimleiðinni skoðuðum við pollana og tókum nokkrar myndir, en svo spurði Eva: "Amma af hverju er himininn svona fallegur?"  -  Það tók mig smá stund að hugsa, en svaraði síðan: "Af því að himininn er spegill og þú ert að horfa í hann"..   Henni þótti þetta augljóslega gott svar, - því hún endurtók það sem ég hafði sagt:  "Himininn er fallegur af því ég er falleg" ..  :-)

Þegar við komum heim, var henni eitthvað illt í tánni og tilkynnti mér að henni væri illt í "þumaltánni" - já - elsku börnin leggja saman tvo og tvo og fá út "þumal-tá!"

Eva Rós fær að sofa í ömmu bóli þegar hún er að gista, - og þegar við vorum að fara að sofa sagði ég við hana: "Mikið er eg heppin að eiga þig" -  og þá leið ekki á löngu að hún sagði á móti "Og ég er heppin að eiga þig".. og síðan bætti hún um betur og lagðist stundarkorn á bringuna á ömmu, til að undirstrika það sem hún sagði, þarna lá hún í nokkrar sekúndur, en nógu lengi til að tárin komu fram hjá ömmunni,  - gleði - og þakkartár fyrir litlu Evuna.

Og þá hugsaði ég: "Barn er blessun."   

<3 

247719_10204054765703200_2040009976862878894_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

"Amma, af hverju er himininn svona fallegur? "


Bloggfærslur 28. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband