Tíu orð sem við eigum ekki að segja við börnin okkar

Ég las góðan pistil í morgun eftir Maureen Healy, – og ætla að fá að láni lista sem hún setur þar upp um tíu verstu orð sem foreldrar segja við börn.  Það má að sjálfsögðu heimfæra það upp á afa og ömmur, eða aðra sem umgangast börnin, en áhrif foreldranna eru yfiirleitt mest, enda má segja þau komast næst guðum í huga barns.  Ef ekki á að trúa foreldrum, hverjum þá?

Uppeldi eða ofbeldi?

Á námskeiði um ofbeldi, sem ég sótti fyrir mörgum árum,  heyrði ég fullorðna konu segja að andstæða uppeldis væri ofbeldi, og ég hef oft gripið í þá setningu síðan.  Orðið sjálft “uppeldi” felur í sér
uppbygginu – það að ala upp en ekki niður.   Ofbeldi,  er í raun bæling, eða það að bæla niður.  Hvað erum við að bæla við ofbeldi? –   Erum við ekki að bæla sál barnsins, eða bara eðli barnsins þegar við notum niðurbrjótandi orð?  

“Aðgát skal höfð í nærveru sálar.”

Að vera eða gera

Það er eitt sem er gott að gera sér grein fyrir, það er að það er munur á því að gera og vera.  Það er munur á að ljúga og vera lygari. –   Það tengist sjálfsmyndinni okkar, – og eftir því oftar sem við erum stimpluð með niðrandi orðum því meira samlagast það sjálfsmyndinni.  Barn sem er sífellt kallað vandræðabarn, – fer hægt og bítandi að trúa að það sé í sjálfu sér vandræði – og það er ekki langt síðan ég talaði við ungan herramann,  sem sagði mér það að hann væri vandamálið í fjölskyldunni. –   Pælið í því: "Ég er vandamál" .. – Hvers konar grunnur er það að byggja á og hvernig er líðanin með þá sjálfsmynd? -

Listinn

Hér er svo listinn kominn og hann kemur á hvolfi,  þ.e.a.s. orðið sem er í 10. sæti kemur fyrst og það
sem er í 1. sæti yfir verstu orðin sem foreldrar kalla börn sín.  Það er eflaust álitamál hvort þetta eru 10 verstu orðin, en þau eru a.m.k. vond og við eigum örugglega einhver orð sem við gætum bætt á listann,  en hér koma þau s.s. í öfugri röð.  -

10.       GRENJUSKJÓÐA

9.         ERFIÐ/UR  (erfitt að gera til hæfis)

8.         AUMINGI

7.         VÆLIN/N

6.         ÓMERKILEG/UR  (ekki verðmæt/ur)

5.         VANDRÆÐABARN  (vandamál)

4.         VEIKLUNDAÐUR/UÐ

3.         DRAMADROTTNING

2.         ÞRJÓSK/UR

1.         FREKJA

Notum uppbyggileg og andstæð orð

Höfundur greinarinnar bendir á að þessi orð eigi öll andstæður – og það sé mikilvægt að nota uppbyggjandi orð í stað þessara sem eru niðurbrjótandi, í stað þess að segja: "Ekki vera svona mikil frekja" – segja "Vertu sanngjörn/sanngjarn" eða eitthvað álíka.

Lítum í eigin barm

Við höfum eflaust flest verið kölluð eitthvað af þessu, – og/eða notað þessi orð á börn okkar eða annarra.  Það er a.m.k. mín reynsla, – og síðastliðinn laugardag gerði ég mig seka um að kalla barnabarnið mitt dramadrottningu, þó ég hafi lofað sjálfri mér að gera það ekki, en það skiptir miklu
máli að vakna til vitundar og ekki bara hugsa: "Já hinir eiga að laga þetta" – við þurfum að gera
það öll.

"The voice of parents is the voice of gods, for to their children they are heaven’s lieutenants." Shakespeare.

Ef smellt er HÉR er hægt að lesa  grein höfundar og meira um hana.

Lokaorð

Gott að hafa ofangreint i huga,  og eins og fram kemur, þá datt ég sjálf í eina af þessum gildrum
nýlega – þó ég sé orðin mjög vel vakandi fyrir áhrifum orða. – Það lifir enn með mér að hafa verið
kölluð "óhemja" þegar ég var barn … og því miður notaði ég eitthvað af þessum orðum á mín börn í uppeldinu, en við lærum svo lengi sem við lifum, ekki satt? …
Höfum í huga orðið "upp-eldi"  við erum að ala upp en ekki niður. Þessi orð eru ekki til upp-örvunar heldur til að stimpla og frekar til niðurbrots.

Mig langar svo að taka það fram hér í "lokalokin" að það skiptir auðvitað máli hvernig orðin eru sögð,
og svo viðmót okkar þegar við segjum þáu.   Það er ekki alltaf að orðin eru sögð í reiði – eða með leiðindum,  en orð hafa áhrif og orð geta orðið álög.

Höfum álögin góð!  

 


"Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða" ... en hangið ekki á húninum ..

Matteusarguðspjall 7:7-8
"Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða."

Þessi texti er í bókinni sem er stundum kölluð "Bók bókanna" - Biblíunni. - 

Mér finnst margir misskilja bænina þannig að þeir nota hana sem einhvers konar suð í Guði.  Ef við suðum nógu lengi fáum við það sem VIÐ viljum. -

Kannski erum við bara eins og barnið sem er að suða og biðja um ís, en foreldrið veit að það er ekki endilga það besta fyrir okkur. - 

En stundum erum við auðvitað að biðja um eitthvað sem er bara gott, biðja um heilsu fyrir vin, biðja um ljós í hjartað okkar, - um að leiðin okkar sé greiðari o.s.frv. -    Þá nægir eitt bank.   Það þýðir að við prófum að banka og treystum því síðan að Guð (æðri máttur - alheimur - eftir hvar við erum stödd í trúnni) heyri í bankinu okkar. -    Við eigum ekki að þurfa að hanga í pilsfaldi Guðs,  og suða - því það er líka eins og við treystum ekki. -

"Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða" -  ef svo á að vera, og svo er bara að sleppa og treysta.

Það er annað í þessu samhengi, sem við getum í raun aldrei gert nóg af.  Það er þakkarbænin.  Við biðjum og óskum og ætlumst til - krefjumst jafnvel.  Og þegar við erum að biðja, erum við að biðja um eitthvað sem vantar. -

Í þakkarbæn þökkum við það sem við höfum, þökkum sjón, heilsu, líf, fjölskyldu .. hér er listinn ótæmandi,  við vitum það öll.  Þegar við förum að þakka það sem við eigum og höfum nú þegar verðum við fljótt ríkari -  "auðæfi" okkar verða augljósari. -  

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, og það er ágætur siður að þakka að kvöldi það sem þú vilt alls ekki vera án þegar þú vaknar morguninn eftir. -   Kannski að þakka það sem er allra næst - eins og þitt eigið líf, líf fjölskyldunnar og alls sem andar.  Það hlýtur að vera okkur kærast og þá áttum við okkur líka á því hvað það er sem skiptir raunverulegu máli. -  

"Takk" er töfraorð, - því að um leið og við veitum því sem við eigum og höfum athygli þá töfrum við það fram og stundum fáum við meira af því. -

Því er yndislegt að beina sjónum að því sem okkur þykri vænt um og þakka það. -

"Leitið og þér munuð finna" .. hvað þarf að finna? -  Þarf ekki bara að opna augun og vakna til vitundar um allt sem við eigum nú þegar?

Hvað syngur Páll Óskar í laginu "Betra líf?" - 

"Svo lít ég bara í kringum mig og sé - alla þessa fegurð kringum mig."

 "Ég opnaði augun og hjartað fann..... " ..

 

Kannski þarf ekki að knýja fast?  - Kannski þarf ekki að leita langt yfir skammt? ..

Kannski er nóg að trúa?

 


Bloggfærslur 18. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband