"Breaking Up is Hard to Do" ...

Eftirfarandi pistill er þýðing á pistli eftir Suzanne Degges-White  Ph.d.  og heitir á frummálinu

5 Hard Truths About Breakups  eða 5 erfiðar staðreyndir um sambandsslit

Þessar 5 staðreyndir verða nú taldar upp hér (þó styttar og heimfærðar).

1. Það er sjaldnast auðvelt að skilja.

Það er til gamalt lag sem heitir „Breaking Up is Hard to Do." -  Titill lagsins gefur í skyn hversu mikið erfiði getur falist í því að slíta sambandi.  Alveg sama hversu sannfærð við erum að það sé rétti tíminn til að slíta sambandinu, þá getur það kostað blóð svita og tár að skera okkur laus frá maka okkar - eða vini.  (Mín aths. - það er ágætt að nota sögnina að „skera"  því að í raun þurfum við að klippa á eða skera á tilfinningaböndin, - og oft er talað um „clean cut" eða hreinan skurð, -  með því að vera ekki alltaf í „onandoff" sambandi - því þá erum við að tengja og slíta aftur og aftur og það getur verið til að draga sársaukann /sambandið á langinn).

2. Það getur fylgt því sársauki - mikill sársauki.

Sársauki getur fylgt sambandsslitum -  þrátt fyrir að þau hafi verið óhjákvæmileg og til að bjarga okkur andlega.  Þó mörg okkar upplifi létti við að sjá ófullnægjandi samband í andaslitrum,  munu sumir finna ákafan sársauka við það að vera þvinguð til að viðurkenna að samband hefur runnið sitt lokaskeið.  Þegar sambandi lýkur - sama hversu réttmæt ástæða er fyrir hendi -  þá höfum við ekki aðeins misst maka eða vin,  heldur höfum við tapað framtíðarsýninni eða draumnum sem við áður höfðum þar sem makinn var hluti heildarmyndarinnar eða sýnarinnar.

Það eru sérstaklega konur sem sinna öðrum og tengjast vináttuböndum, sem nokkurs konar leið til að „lifa af"  (survival mechanism).  Ef að konur geta ekki viðhaldið sambandi, geta þær upplifað vonbrigði yfir sjálfum sér,  ekki bara með  maka sinn eða vini.  Þær líta á það að geta ekki haldið sambandinu gangandi sem persónulegan ósigur, jafnvel þó að það hafi verið hinum að kenna.  (Það að missa maka getur þýtt að missa heilt net vina.  Þetta getur leitt til þess að fólk hlaupi í ný sambönd og illa ígrunduð).   Ef þú kannast við þig á þessum stað, mundu það að sambandið -  vináttan við þig sjálfa/n fyrst - er nauðsynleg forgangsröðun í að mynda heilbrigð sambönd við aðra.  Haltu þig við persónulegar væntingar og gildi, áður en þú leggur of mikið í nýtt samband.

3. Hætta er á að sameiginlegir vinir tapist. 

Þegar hjónaband eða samband er leyst upp,  - verður væntanlega einhver „varanlegur skaði." - Þetta getur orðið sérstaklega erfitt þegar það að fórna makanum leiðir til þess að missa sameiginlega vini sem þú hélst mikið upp á og voru jafnvel trúnaðarvinir.  Við skilnað er gott að geta leitað til og talað við einhvern sem við getum treyst og sýnir samhug.  Þegar fyrrverandi trúnaðarvinur eða vinkona fer í „lið" með þínum/þinni fyrrverandi,  getur það leitt til aukins tilfinningasársauka og missis. Þetta getur líka aukið reiðina í garð fyrrverandi maka, þar sem þú kennir honum um að þú hafir misst þennan vin/vinkonu.

4. Þú verður einmana. 

Þegar rútína sem áður var ykkar er ekki lengur sameiginleg,  og þú hefur ekki eitthvað annað eða annan til að fylla upp í rýmið þar sem makinn var, getur þú upplifað ákafa einmanakennd,  jafnvel þó þú sért fegin/n að vera laus úr vondu eða jafnve eyðileggjandi sambandi.  Þrátt fyrir að finna skemmtileg áhugamál - getur einmanaleikinn verið viðloðandi.  Það er eðlilegt og ekki endilega merki þess að það hafi verið mistök að slíta sambandi.  En ef að einmanaleikinn vex með tímanum, og truflar eðlilega virkni þína,  getur verið gott að tala við ráðgjafa til að fá hjálp við að vinna úr tilfinningaviðbrögðum.  Að sakna félagaskaparins er eðlilegt, en að fá þráhyggju gagnvart því eða dvelja í eymd sinni er það EKKI. -

5. Það verður léttara. 

Sumir segja að tíminn lækni öll sár,  en það sem er líklegra réttara er að fjarlægðin hjálpi okkur að fókusera eða veita öðru athygli og því sem er að gerast í núinu. Við mannfólkið erum ótrúlega þrautseig, og þrátt fyrir að löngunin eftir fyrrverandi hverfi kannski aldrei alveg, tekur hún minna og minna pláss í höfði okkar og hjarta. Þegar sambandi lýkur,  getur þú upplifað alls konar tilfinningar - reiði og depurð, létti og vonbrigði.  Sem betur fer geta hugur okkar og hjarta aðeins tekið slíka tilfinningalega ofhleðslu í stuttan tíma, svo að það að loginn í  hinni rjúkandi reiði mun minnka og depurðin víkja. (Ef að þú festist í reiðinni - loginn eykst, eða hugsanir um hefnd og endurlausn verða áleitnar, er mjög mikilvægt að leita sér hjálpar - því þessar hugsanir eru ÞÉR hættulegar).

Það kemur að því að missirinn verður meira sem hluti sögu þinnar, ekki nútíðin. 

Það að slíta, jafnvel erfiðu og ófullnægjandi sambandi getur fært okkur nýjar tilfinningalegar áskoranir.  En það að vera fær um að slíta sig lausa/n úr ófullnægjandi sambandi, sem heldur aftur af því að þú njótir lífsins að fullu, eða það að líða vel með sjálfa/n þig,  er vel þess virði að ganga í gegnum þennan sársauka og erfiðleika. Rannsóknir sýna að vond samskipti eða sambönd eru verri fyrir tilfinningalega velmegun þína en það að vera án rómantísks sambands eða vináttusambands.

Hér lýkur þessari grein - sem ég hef íslenskað, en ef þið smellið á nafn höfundar hér í upphafi getið þið lesið orginalinn.

Elskurnar mínar, - það er að mínu mati alltaf best að leysa vandamál  sambanda innan „hringsins" -  eða vinna í sér innan sambands ef það er hægt og ef það er vilji hjá báðum aðilum.   Ef sambandið er farið að gera okkur sorgmædd,  þá þurfum við að líta í eigin barm og spyrja okkur?

„Á ég þetta skilið?" -   og „Hvað er mér bjóðandi?" ..

Þetta snýst um sjálfsvirðingu - sjálfstraust - sjálfsást. - 

Lífið er ekki til að þrauka - við eigum að dafna og blómstra - við eigum að NJÓTA.

Ég verð með námskeið 8. nóvember nk. og eru örfá pláss laus, - námskeið sem heitir „Sátt eftir skilnað" - og hægt að lesa um það ef smellt er HÉR   þetta námskeið er fyrir konur, - hef auglýst fyrir karla en ekki fengið nógu marga til mín nema í eitt skipti.  Að sjálfsögðu var það gott námskeið - eins og námskeiðin hafa verið fyrir konurnar.  Það er fólkinu sjálfu að þakka.  Það að leita sér hjálpar er hluti af því að elska sig. Munið það!

Að elska sig er að taka ábyrgð á sér, og taka sér vald yfir eigin lífi.

ÁST ..


Þegar við erum upptekin af öðru fólki þá gleymum við sjálfum okkur ...

Sumir eru alltaf að hugsa um náungann .. það má segja að það sé bæði jákvætt og neikvætt.  Það er vissulega hægt að hugsa á jákvæðum nótum en líka neikvæðum. 

Konan með stóra rassinn leitar að annarri með stærri rass, til að geta sett út á hann.

Pabbinn sem gagnrýnir son sinn fyrir að vera í tölvunni - er feginn að vera "obbolítið" minna í tölvunni sjálfur.

Þegar við erum að "hugsa" um eða gagnrýna náungann eða pæla í því hvað hann er að gera, er það oft í raun þannig að við erum að bera okkur saman við náungann.  "Ég er nú ekki svona slæm/ur" .. gætum við hugsað.  

Sumir ganga það langt að segja að þegar við gagnrýnum náungann séum við alltaf að gagnrýna okkur sjálf. Við séum í raun að meta og vega okkur sjálf (því hvað er gagnrýni annað en mál og vog?) - 

"Með þeim mæli sem þér mælið munuð þér og mældir verða"  ...  við vegum og metum og fáum það bara til baka. -    

Öfundin kemur stundum undarlega út.  Okkur finnst mikið til einhvers koma, eða vildum gjarnan vera eins og viðkomandi. - Þá má snúa dæminu með stóra rassinn við.   Konan með stóra rassinn sér konu með lítinn rass og óskar sér að vera svoleiðis.   Fer hún að hrósa þessari með litla rassinn? -  Það fer eftir hennar eigin sjálfstrausti, -  og í mörgum tilfellum er það bara þannig að hún fer að leita að göllum hjá hinni konunni, setja út á hana á einn eða annan máta. -

Það þarf varla að taka það fram að þetta "rassatal" er myndlíking.  Þetta gæti verið hvað sem er.   Einhver nær árangri - og annar öfundar og þá fer hann að setja út á þann sem nær árangri.   Þetta er líka þekkt þegar fólk hættir saman og byrjar með nýjum aðila, - þá fer fyrrverandi að leita að göllum hjá þessari/þessum núverandi.  

En hvað skiptir máli? -  Skiptir máli að vera upptekin af öðru fólki, og hvernig hjálpar það okkar eigin hamingju, árangri eða hverju sem er í lífinu? -    

Það er fyrst þegar við stillum fókusinn heim og hættum að bera okkur saman, öfundast eða upphefjast af öðru fólki -  sem við förum að ná einhverjum tökum á okkar eigin lífi. -

Það er lykilatriði í þessu lífi að vera "heima hjá sér" - þ.e.a.s. sáttur við sjálfan sig og veita sjálfum okkur athygli. -  

Snúa heim - í eigin líkama og eigin sál. -   

Það er pinku sorglegt að gleyma okkur sjálfum, - því ef við erum sjálfum okkur gleymd, þá erum við ekki með sjálfum okkur.  

Það er ágætt að vita að við sjórnum ekki öðru fólki, við stjórnum okkur sjálfum, það megum við og við höfum þennan frjálsa vilja til að velja okkur viðhorf.  Viðhorf = hvert og hvernig við horfum.  

Erum við þess virði að horfa á okkur í spegli, í stað þess að spegla okkur í náunganum?  

Það er frelsandi að hætta að vera upptekin af öðrum, að vera að hugsa hvað "hinir" séu að hugsa og vera að hugsa um "hina." -    Fjöldi fólks er í fangelsi "hinna" -  og getur ekki verið það sjálft því það er svo upptekið af "hinum."  

Það er upplagt að muna eftir að taka sjálfa/n sig í fangið og gefa sér gott "kram" eins og danskurinn segir. Rifja sjálfa/n sig svolítið upp.

Við erum öll þess virði.  

Svo sleppum tökum á náunganum, - leyfum honum að taka ábyrgð á sjálfum sér (og sínum rassi) og við tökum ábyrgð á okkur! ..  

 


Ertu í jafnvægi? ..

Þegar við erum að hjóla þurfum við að halda jafnvægi, - ef við stoppum dettum við væntanlega til hliðar.  Ef við höllum okkur of langt til hægri gerist það líka og líka ef við höllum okkur of langt til vinstri.  (Kannski á þetta við um stjórnmálin líka?) ...

Alla veganna, þá eru tveir meginpunktar sem mig langar að skrifa um.

1. Mikilvægi þess að halda jafnvægi.  

2. Mikilvægi þess að stoppa ekki.  

 

  • Í fyrri punktinum, - mikilvægi þess að halda jafnvægi langar mig að minnast á jafnvægi á milli anda og efnis.  Talað er um að fólk sé fast í þessu efnislega þegar það hugsar bara um að eignast hluti og verða ríkt (af peningum).   Andinn er skilinn eftir og þetta fólk upplifir sig tómt því það sem það skortir er andinn (spirit).  Áfengi er líka kallað "spirit" og við tölum um vínanda.  Sumir fara þá að drekka andann úr flösku, - en auðvitað gengur það ekki, - það er algjörlega falskur andi, sem veitir því miður ekki lífsfyllinguna sem fólkið er að leita eftir. Hann getur deyft, eða virkað tímabundið - en hann er ekki alvöru andi. -   Svo er auðvitað fólkið sem er bara andlegt, eða svo að segja og fúnkerar oft ekkert í þessum heimi, sem er svo sannarlega líka efnislegur. -  Við þurfum jú ákveðið "efni" til að lifa.  Þurfum húsaskjól, mat, o.fl.  -  Þetta efnislega, oft eitthvað sem okkur finnst fallegt, getur haft áhrif á andlega líðan,  svo efnið er alls ekki slæmt.   Efnið og andinn vinna saman, eða eiga að vinna saman á meðan að það er jafnvægi á milli.   Það er þessi gullni meðalvegur, - og hann er þannig að hann er ekkert endilega mjó lína, ekki frekar en það sé bara hægt að hjóla og megi ekki halla til hægri né vinstri.   Vegurinn er þannig að það má alveg fara aðeins til vinstri og aðeins til hægri,  en svo eru hættumörkin.  
    Það má setja dæmið upp sem umgengni við mat.  Ef við sveltum okkur - erum við alveg laus við allt efni, - en deyjum úr hungri.  Ef við borðum of mikið - (oft þegar við erum í raun að leita að lífsfyllingu og er sama dæmið og ég nefndi um flöskuna) - þá getum við farið í lífshættulega þyngd og þróað með okkur sjúkdóma.   Hér gætum við verið að tala um anorexíusjúkling  annars vegar og svo offitusjúkling hins vegar.   
    Við setjum okkur innri markmið og ytri markmið, -  innri markmið eru almenn eins og sátt, hamingja, gleði, o.s.frv. -   Ytri markmið eru prófgráða, góður maki, komast á fjalltopp o.s.frv. -  Þessi markmið vinna saman.  Þ.e.a.s. ef við erum glöð - hefur það áhrif á möguleika okkar að ná árangri, og ef við  náum árangri,  þá hefur það áhrif á möguleika okkar að vera glöð.  :-) ..  Samt tala fræðingarnir um að gleðin komi á undan árangri.  Þetta er svona pínku eins og hvort kom á undan - hænan eða eggið. -    Mikilvægast er að ná bæði innri og ytri árangri.   Það er ekki altaf víst að fólk nái að gleðjast þó það nái að eignast húsið, bílinn, makann, ná prófi o.s.frv. -  eins og dæmin hafa sannað.   Það er heldur ekki á vísan að róa að verða hamingjusöm þó við náum að losa okkur við tuttugu kíló.   Mjótt fólk er ekki alltaf ánægt fólk eða hamingjusamt.   Það þarf að vera jafnvægi. -    Að ná veraldegum árangri, - án þess að ná andlegum - eða innri,  gerir fólk jafnvel bara enn óhamingjusamara.    Það fer að skammast sín fyrir að vera óánægt og því er "nuddað" í það.   "How can you tell me your´e lonely" ..  er sungið, og talað um útigangsfólk á götum Lundúnaborgar.  En stundum er útigangsfólkið bara ekki eins einmana eða óhamingjusamt og milljaraðmæringurinn í villunni sinni.   Stundum myndar nefnilega allt þetta veraldar"stuff"  einangrunarvegg. -  Jafnvægi líkama og anda.   Jafnvægi veraldlegs og andlegs.  Og gagnvirkni! - Það er auðvelt t.d. að finna hvernig getur létt á huganum ef við tökum fataskápinn í gegn, sortérum og hendum. -  Þrífum skápinn og endurröðum. -  Það er í raun eins og við séum að taka til í huganum.  Þegar við erum að henda úr fataskápnum er eins og við séum að sleppa tökunum á einhverju sem er í huga okkar og vð þurfum að sleppa!  

 

  •  Síðari punkturinn var um það að halda áfram.   Við erum orka og við erum vatn.  Vatn flæðir og orkan er eitthvað sem er stöðugt á iði. -   Við erum fólk sem er í þróun og þroska.   Ef við bælum, kæfum eða hindrum,  erum við að stöðva lækinn,  stöðva orkuna. -  Þarf ég nokkuð að segja meira? -  Kannski jú.  Þetta þýðir ekki að við megum ekki setjast niður og hvíla okkur, eða að við eigum að vera stanslaust á hlaupum :-) ..  Nei, þessi hreyfing er ekki síður andleg en líkamleg.  Við eigum á hættu að stoppa þegar að við verðum fyrir áföllum.  Vilja gefast upp, - en í raun er málið að halda áfram.  Við höldum áfram með því að "fara í gegnum tilfinningarnar" - í því liggur hreyfing, "að fara í gegnum". -   Tilhneygin er að staðnæmast, deyfa, afneita o.s.frv. -  og þá erum við enn og aftur komin með dæmið um konuna sem setti broskall yfir bensínmælinn þegar bíllinn var tómur. -  Það er pjúra afneitun.   Broskallar eru ágætir, þar sem við á, - hann er andlegi þátturinn,  en í svona tilfellum þarf framkvæmd.  Ekki bara setja broskall,  nú eða sitja og skammast í sjálfum sér eða öðrum fyrir að hafa klikkað á að setja bensín á bílinn. -  Við staðnæmumst nefnilega í "blaming game" - þ.e.a.s. að fara að leita að sökudólgum - og þá dettum við bara (eins og á hjólinu).  Ef við ætlum að komast áfram,  þurfum við að finna leiðir til þess.  Við þurfum annað hvort að biðja einhvern um að hjálpa okkur, eða að fara að sækja það sjálf.  Það veltur alltaf á okkur sjálfum.  Okkar er ábyrgðin.
  • Þegar við lendum í hindrunum - þá er mikilvægt að gera þær ekki að fjalli með því að  tala einungis um þær (það sem þú veitir athygli vex)  - nú eða gera ytri hindranir að innri hindrunum.   (Láta annað fólk draga úr okkur máttinn).   Hreyfing er mikilvæg - hreyfing líkama og hreyfing andans.   Við hreyfum við andanum í andlegri iðkun, eins og hugleiðslu, bæn,  í náttúrunni,  við að hlusta á tónlist, stunda listir o.fl.   Við hreyfum líkamann með að ganga, hlaupa, synda, - nú hjóla! :-)  eða hlaupa ..o.s.frv. -   Eins og áður hefur líkaminn áhrif á andann og andinn líkamann.  Hreyfing er mikilvæg - alltaf.

JAFNVÆGI  er því eitt það mikilvægasta sem við verðum að átta okkur á, -  ef við erum andlega "föst" þá gæti dugað að hreyfa líkamann og ýta þannig við andanum og svo öfugt! :-) .. 

Það er meira að segja búið að sanna, að bara með því að setja okkur í "power-pose" einhvers konar súperman stellingu, - þar sem við stöndum voldug með hendur á mjöðmun, eða í sigurvegarastellingu þar sem við hefjum hendur á loft,  að þá fer okkur að líða svoleiðis.   Við getum líka sett penna í munninn (þvert - ekki borða pennann)  og "þvingað" fram bros, og það hefur jákvæð áhrif á andann. -

 

Hugur og hönd vinna saman, -  það er því ekki nóg að sitja heima í sófa og hugsa "happy thoughts" - og reikna með að heimurinn breytist, - það þarf líka eitthvað sem heitir "framkvæmd" - og þegar við tökum eitt skref áfram - treystum því að heimurinn komi til móts við okkur og stigi næsta skref.

Það er "The Secret" - eða leyndarmálið. -   það liggur í jafnvæginu. -  

 


Fótósjoppað líf?

Skömm er hugtak sem margir þekkja, en hafa kannski ekki íhugað sérstaklega. - Okkur er kennt að skammast okkar fyrir okkur, eða fjölskyldu okkar - allt frá barnæsku.  Við upplifum skömm þegar við göngum gegn gildum okkar.  Þegar við „leyfum"  einhverjum að gera okkur eitthvað.  Þegar við erum beitt ofbeldi og segjum ekki frá því.  Þegar við bregðumst viðmiðum samfélagsins, sem eru samt þannig að ekki er hægt að mæta þeim.  Við viljum vera eins forsíðustúlkan, vera fjölskyldan sem er fullkomin miðað við fullkomnunarstaðla sem enginn getur uppfyllt.  Allar fjölskyldur eiga einhver sár, einhver heldur framhjá, einhver drekkur of mikið, rífst of mikið, ruslar út, dópar, einhver beitir ofbeldi, en samt ...

...allt á að líta vel út, eins og í bíómynd eða glansmynd - einhvern veginn fótósjoppað. -

Skömmin getur alið af sér þunglyndi, einangrun, efasemdir um eigið sjálf, einmanaleika, þráhyggju, fullkomnunaráráttu, minnimáttarkennd og það að finnast að við séum aldrei nóg eða gerum aldrei nóg.

Skömmin þvingar okkur til þess að skapa falska sjálfsmynd vegna þess að þegar við upplifum skömm finnst okkur að við séum gölluð.  Við skömmumst okkur fyrir okkur sjálf og þá er leiðin að þykjast vera önnur en við raunverulega erum.

Við förum að lifa fyrir ímyndina eða hugmyndina um okkur og sambönd okkar.

Fyrirmyndarmanneskja, fyrirmyndarmaki, fyrirmyndarmóðir ... fyrirmyndarfjölskylda o.s.frv.   skv. standard sem í raun ekki til.

Lifum fótósjoppuðu lífi.

Það er ekki fyrr en við viðurkennum veikleikana, og sættumst við sjálf okkur sem við erum frjáls.  Elskum okkur - í fullkomnum ófullkomleika - grímulaus.

Prófum að standa nakin fyrir framan spegilinn eins og barn sem aldrei hefur lært skömm,  eða að skammast sín fyrir líkama sinn, strjúkum á okkur magann sem er stundum mjúkur, stundum stór, stundum lítill, virðum fyrir okkur slit eða appelsínuhúð og elskum okkur samt.

Ekki eftir megrun eða fitun,  ekki eftir cellulite-krem eða nokkra tíma í ljósabekk. -   Elskum okkur NÚNA og sættum okkur við okkur NÚNA:

Við tökum ábyrgð á eigin lífi - tökum móti okkar eigin lífi og eigin líkama og segjum takk.

Verum auðmjúk í veikleika okkar, viðurkennum að við erum breysk og við bara megum vera það.

Við þurfum ekki að viðhalda falskri ímynd, til að lifa með okkur sjálfum,  við þurfum að losa okkur við falska ímynd til að lifa með okkur sjálfum.

Margir eru að vinna í lífstílsbreytingum í kjölfar áramóta, - við breytum engu ef skömmin er staðurinn sem við stöndum á, - þess vegna er mikilvægt að færa sig yfir á annan stað, stað sáttar.

Það er á þeim stað, í sáttinni við okkur sjálf, eins og við erum - sem við förum að vera við sjálf, ekki í spennitreyju skammar eða ótta við að það uppgötvist hver við raunverulega erum,   við uppgötvum að eigin spegilmynd er sönn og nóg og við getum sagt af einlægni við manneskjuna sem birtist okkur:

„Mikið er ég fegin/n að sjá þig, hvar hefur þú verið svona lengi elskan mín?" ..

<3


Öfugmæli - að skulda gjöf ...

Hvernig er hægt að skulda gjöf? - Er það þá ekki bara orðin skuld? - 

Ég veit að fólk tekur svona til orða, en mér finnst eitthvað óskaplega mikið rangt við þetta.  Það ætti í raun að hætta að hafa þessar "skyldugjafir" - á afmælisdögum, jólum o.s.frv. -  Nú nálgast jólin sem eiga að vera hátíð gleði og friðar,  en fullt af fólki fær ekki frið í sálina vegna þess að það fer að hafa áhyggjur hvað á að gefa hverjum og í sumum tilfellum setur þetta fjárhag fólks á hliðina. -

Gjafir eru yndislegar, - en þær einhvern veginn missa tilgang sinn þegar þær eru orðnar "skylda" eða aðgangseyrir t.d. að afmælisveislum. -  

Stundum eru gjafirnar svo margar að þær drekkja hver annarri.  Eins og um jól og í afmælum.  Einhver hefur vandlega valið gjöf,  sem verður svo bara í gjafahrúgu og stundum hverfur ein og ein gjöf í ruslið ef fólk passar ekki allan umbúðapappírinn.   Já, ég hef séð það gerast.

En svo er það með þessar blessaðar gjafir, - hver er í raun besta gjöfin? -  

Auðvitað er það tíminn.  Að fá vini sína í afmæli - eða vera með fólkinu sínu um jól, er lang, lang, langbesta gjöfin.  

Ég vil ekki að neinn skuldi mér neitt,  - eins og heimsókn eða gjöf.  Ef að fólki langar að gefa eða koma í heimsókn þá væri það yndislegt ef það langaði til þess og það væru forsendur gjafarinnar eða heimsóknarinnar,  ekki vegna "skuldar."    

Við erum alveg með þetta á hreinu,  ég og börnin mín tvö,  og einu sinni skrifaði ég pistil sem er í ætt við þetta sem heitir:   "Þú skuldar mér ekki neitt" ..

 

Eftirfarandi skrifaði ég í 5. desember 2012 

 „Ég ætla bara að láta þig vita það, hér og nú, dóttir góð,  að þú skuldar mér ekki neitt! ...

Ég er búin að fæða þrjú börn í þennan heim.  Börn sem ég er endalaust þakklát fyrir, stolt af og elska gríðarlega mikið.

Við eldri dóttir mín vorum að keyra og ræða jólin,  hvar ætti að vera og fyrir hvern ætti að gera þetta og hitt.  Við ræddum um gamla fólkið, unga fólkið og allt þar á milli.   Án þess að ræða það meira á persónulegum nótum þá er kjarninn þessi:

Ég vil ekki að börnin mín umgangist mig eða sinni mér hvorki í dag né í framtíð,  ekki einu sinni í hárri elli vegna þess að „þau skuldi mér" ..

Þau skulda mér ekki,  vegna þess að ef ég hef einhvern tímann gert eitthvað fyrir þau var það ekki til að fá borgað til baka.

Vissulega hefur hluti af því verið að ég þráði að finna væntumþykju frá þeim,  vegna þess að sjálfri þótti mér ekki nógu vænt um mig,  hvað þá að ég væri verðmæt eða nokkurs virði sem móðir án verka minna.

Þegar ég gerði eitthvað fyrir þau gerði ég það ekki vegna skuldar við þau.   Ef ég skulda þeim eitthvað í dag, er það e.t.v. að treysta þeim betur fyrir sjálfum sér.  Ég var ein af mörgum foreldrum sem var of eftirlát „of góð"  á neikvæðan hátt.   Þ.e.a.s. setti ekki nógu stíf mörk,  gerði hluti fyrir þau sem þau hefðu átt að bjarga sjálf o.s.frv.

Ég fékk svo góða lýsingu á svona framkvæmd einu sinni:

„Mér leið eins og barni sem væri farið að ganga sjálft en mamma hélt svo fast í hendurnar á mér að ég komst ekkert áfram" ..

„Þroskaþjófnaður"  er orðið yfir þetta. 

Við ofverndandi mæður eða feður við rænum þroska af börnunum með ofverndinni.   Með því að láta þau ekki fá tækifæri til að ganga og til að detta og reka sig á.   Hann er vandrataður millivegurinn.

Í dag hvet ég börnin mín til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, fylgja SÍNU hjarta og lifa sínu lífi.   Þau taka tillit til aðstæðna,  stundum þarf að hjálpa mömmu „gömlu" eða gera greiða,  en það má aldrei aldrei vera á forsendum þess að þau standi í skuld við mig.   Stundum er bara þannig að það þarf að hjálpa,  jafnvel þó maður sé ekki í stuði.   Stundum þarf að sinna eldra fólki,  heimsækja einhvern á elliheimilið þó það sé stundum erfitt,  en það er ekki vegna skuldar.

Það skuldar mér enginn neitt,  og það sem ég geri er ekki til að fá það endurgreitt.   Að sjálfsögðu þarf ég að fá borgað fyrir vinnuna mína,  því að öll þurfum við að lifa.

En plís ekki gera eitthvað fyrir mig bara vegna þess að þú skuldar mér. -

Ég á ekki börnin mín,   þau eru ekki mín eign.  Ég er þakklát fyrir líf þeirra og ég óska þeim farsældar,  líka barnabörnunum.   Ég viðurkenni alveg að mér þykir vænna um mín eigin börn og barnabörn en annarra börn,  og þau verða alltaf næst hjarta mínu.  En það þýðir ekki að ég geti ekki elskað önnur börn og þótt þau yndisleg.  Ég á mörg uppáhalds og sinni þeim vel - ekki vegna þess að ég skuldi þeim,  heldur vegna þess að mig langar til þess.

Þegar ég hef verið að passa ömmubörnin,  er það ekki til að opna „reikning" hjá þeim til að þau sinni mér sem fullorðinni.  Ég vona vissulega að ég reynist þeim þannig að þau langi til að umgangast mig sem eldri konu,  þegar þau sjálf verða fullorðin og það á við um öll ömmubörnin,  sem væntanlega verða fleiri en þau þrjú sem komin eru.

Nóg komið í bili - skrifa þetta fyrir mig og ykkur hin sem e.t.v. eruð að íhuga svipaða hluti, en þið skuldið mér ekki neitt ;-) ...

Knús á línuna.

--

Viðbót  skrifaði ég: 30.08.2013.  Þessi pistill var upprunalega skrifaður í byrjun desember 2012,  en mánuði síðar var dóttir mín látin, fyrirvarinn var nær enginn.  Við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér,  látum þau sem okkur þykir vænt um hversu mikið við elskum þau og það séu nákvæmlega engar forsendur fyrir því.  Þau þurfa ekki að sanna sig til að vera elskuð.  Það vita börnin mín í dag og það vissi elsta dóttir mín.  Nú segi ég börnunum hennar það,  að amma elski þau fyrir að vera þau og það þurfi ekkert meira til.  <3   Við stelpan mín áttum okkar stundir saman á hennar síðustu metrum og ég var skilin eftir í þessari jarðvist með þær upplýsingar hvað raunverulega skiptir máli.  Þá gjöf vil ég bera áfram,  af því að mig langar það. 

ÁST  


mbl.is Skuldar Clooney brúðargjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanavírus

Ebóla er alvöru,  og hana ber að varast og umgangast af skynsemi. 

Ég hef orðið vör við að margir hérna heima á Íslandi eru logandi hræddir við Ebólu, og kannski bara logandi hræddir við sjúkdóma yfirhöfuð. -

Óttinn getur lamað og óttinn getur gert fólk veikt.

Það er því mikilvægt að slaka aðeins á og fara ekki að verða veik "fyrirfram" - veik af ótta.

Eftirfarandi færslu skrifaði ég á heimsíðuna mína í gærmorgun:

 Einu sinni fór ég til læknis, - ég var í annarri umferð að láta skera burt sortuæxli á öxlinni minni. -  Ég þurfti að bíða yfir jól og áramót til að fá úr því skorið hvort að enn væri eitthvað illkynja í brúnum skurðarins eða hvort að svæðið væri orðið „hreint."   Ég var auðvitað áhyggjufull að allt færi á versta veg,  og læknirinn sá skelfinguna í augum mínum, - en þá sagði læknirinn þessi fleygu orð: „Óttinn getur gert þig veikari en krabbameinið"  og þá ákvað ég að taka æðruleysið á jólin og áramótin og taka því sem að höndum bæri, hver svo sem niðurstaðan yrði.  Þetta var áramót 2008 - 2009 og ég slapp sem betur fer.

Mér datt þetta  hug þegar ég las texta frá Marianne Williamson um óttann við Ebólu og ætla að færa ykkur hann hér á íslensku.

"Ótti við sjúkdóma,  getur laðað að sér sjúkdóma,  vegna þess að hugsanir okkar verða oft að raunveruleika."

Óttinn við Ebóla er hugsanavírus sem er að breiðast út, a.m.k. jafn mikið og sjúkdómurinn sjálfur breiðist út sem líkamlegur sjúkdómur.  Notið þessa daglegu hugleiðslu til að bæta ónæmiskerfið ykkar,  setjið á ykkur andlegan skjöld, og leggið þannig ykkar af mörkum við að leysa upp alla sjúkdóma með því að eyða þeim úr huga ykkar ...

1)  Lokið augunum, og staðfestið að þið hafið lokað ykkar ytra auga, innra augað hefur opnast.

2)  Sjáið fyrir ykkur ljóskúlu sem er heilagt hvítt ljós - það getur verið bara Ljósið almennt- eða ljós Krists, Búdda, eða hvert það ljós sem þið eigið auðveldast með að samsama ykkur við - og finnið það umvefja líkamann.

3)  Biðjið um að hver fruma innra með ykkur og  fyrir utan drekki í sig þetta ljós, þannig að ekkert myrkur eigi þar aðgang.

4) Með innra auganu, sjáið allan líkamann verða gegnsósa af þessu Ljósi og umbreytast af Ljósinu.

5) Haldið þesari sýn í tvær mínútur á dag.

6) Biðjum um vernd með Ljósinu fyrir alla aðra.

Amen"

Þau sem hafa komið til mín á hugleiðslunámskeið hafa oft heyrt mig tala um mikilvægi þess að tala fallega við frumurnar okkar.  Við erum eins og blómin, ef við vanrækjum okkur og bölvum þá visnum við - ef við nærum okkur með kærleika og tölum fallega við okkur blómstrum við frekar.

Það eru engar „aukaverkanir" með þessu og kannski er allt í lagi að leyfa okkur að njóta vafans og elska okkur í 2 mínútur á dag, alveg inn í kjarna.  Ég starfa sjálfstætt og enginn hleypur í skarðið ef ég er veik, svo ég má ekki vera að því og ég hef notað hugleiðslu þar sem ég tala fallega við sjálfa mig sem „lyf" og er óvenju hraust kona í dag! ... Ég er ekki að mæla gegn hefðbundnum lyfjum, - og þau á heldur ekki að taka með ótta eða skömm.  Heldur blessa þau, því þá virka þau betur.  Trúin skiptir máli - það þekkjum við líka í gegnum lyfleysuáhrif o.fl.

Óttumst minna og elskum meira, það er lykillinn að eiginlega öllu!


mbl.is Án búninganna í tvo daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég væri ung (yngri) á ný ...

Ég veit ekki hvað margir hafa hugsað svona? - "Ef" eða "Hefði" .. en það er auðvitað vita gagnslaust, því ekki breytum við fortíð.  Það er ekki nokkur séns að breyta fortíð,  en svo heppilega vill til að við höfum frjálsan vilja og getum gert hlutina (a.m.k. suma) öðruvísi í fortíð.  Við ölum ekki upp börnin okkar aftur, - og það eru ýmsir hlutir sem kannski er ekki hægt að gera á sextugsaldri sem hægt var þegar við vorum rúmlega tvítug. -  En auðvitað sumt. - 

Það sem ég tel að mikilvægt sé fyrir ungt fólk að vita, er það að vera í tengingu við sjálft sig.  Vera skýr í hvað það vill og þá sérstaklega hvað er boðlegt.  Þ.e.a.s. að vera með sín lífsgildi á hreinu. -

Ég fæ stundum ungar konur í viðtöl, - þær kvarta yfir því að kærastinn vilji að þær horfi með þeim á klám og ef þær kvarta og segjast ekki vilja þá kemur eitthvað "Þú ert bara leiðinleg" - eða "engan tepruskap...."  nú eða hvað annað sem sagt er.  Þá spyr ég þessar ungu konur:  "Hvernig líður þér sjálfri með þetta?"  - og auðvitað væru þær ekki mættar til mín að kvarta ef þeim þætti þetta í lagi. -  Og þá viðurkenna þær að þeim finnist þetta óþægilegt og niðurlægjandi eða hvaða orð sem þær nota. - Þær þora ekki að standa með sjálfum sér. - Og þá brjóta þær á sjálfum sér í framhaldinu, - upplifa skömm fyrir að "leyfa" - og í framhaldi skort á sjálfsvirðingu.  Þannig hefst oft vítahringur sjálfsniðurbrots og vanlíðunar. 

Samband byggist að einhverju leyti á málamiðlun.  Sama hvaða sambönd er um að ræða. - Sambönd jafningja byggja á að miðla þannig að báðum líði vel og út komi "Win-win" eins og í viðskiptasambandi. - Ef að stigið er á tærnar á öðrum og honum líður eins og lúser - búið að plata hann upp úr skónum, eða misbjóða,  þá er einn sem vinnur og hinn sem tapar. -  Það er búið að "selja" einhverjum eitthvað sem hann ætlaði aldrei að kaupa.  

Í parasambandi,  þá upplifir sá sem er búinn að láta misbjóða sér, þetta tap.  Tap á eigin gildum, tap á sjálfsvirðingu.  Honum líður hreinlega ekki vel.  Ef þetta er ítrekað eða jafnvel gagnkvæmt,  par er ítrekað að misbjóða hvort öðru, eða annar að misbjóða hinum - og þessu er "leyft" að viðgangast,  fjarar fljótlega undan þessu sambandi.  

Það sem gerist er þó, að sambandið heldur oft allt of lengi og hvorugur aðili kemur sér út úr þessum skaðlegu aðstæðum. -

Ég tók bara klámið sem dæmi.  Það er hægt að misbjóða og misvirða á svo marga lundu eins og fólk veit.

Fólk er hrætt við að standa með sjálfu sér, vegna þess að það er oft hrætt við að missa maka sinn, eða hrætt við að vera kallað "leiðinlegt." -  Engin/n vill vera leiðinleg/ur er það? -

Ef að málamiðlun felur það í sér að brjóta á eigin lífsgildum, - og koma út úr henni óánægð/ur og svekktur og upplifa að það sé verið að nota okkur.   Þá er hún röng og niðurbrjótandi.  

Eftir því sem við erum færari að hlusta á eigin tilfinningar og VIRÐA ÞÆR,  Þess betur áttum við okkur á því hvenær okkur er misboðið og hvenær ekki. -

Þetta er ekki alveg svona einfalt. Því að í ástarsambandi er stundum ótti.  Ótti við að missa.  Þegar óttinn er til staðar, þá getur fólk ekki verið heilt.  Það lýgur frekar eða heldur leyndarmál fyrir hvoru öðru.  Það segir ekki hvernig því líður RAUNVERULEGA.  Allt er gert til að halda sambandi, sem í raun er orðið sjúkt af lygum.  Samband þar sem óheiðarleiki grasserar er auðvitað sjúkt. -

Við eigum ekki að láta bjóða okkur upp á neitt annað en heiðarleika, gagnvart okkur sjálfum líka.  Við eigum líka ekki að bjóða maka upp á neitt annað en heiðarleika.  

HEIÐARLEIKI er besti og eini fasti grunnur í nokkru sambandi. -  Án heiðarleika er ekki virðing, traust og ást. -   Ef ást er sönn,  er hún frjáls.   Hún veitir okkur frelsi til að vera þau sem við erum.   Ef við elskum einhvern sem er að þykjast vera annað en hann er,  eða við þykjumst vera önnur en við erum þá er að sjálfsögðu skekkja í "ástinni" þarna.   Við erum að elska eitthvað sem er ekki. -

Já, ef ég væri ung (yngri) á ný, - myndi ég vilja vita hvað heiðarleikinn skipti miklu máli.  Að ekkert entist - raunverulega entist - ef að sannleikurinn er hulinn.  -  Sannleikurinn kemur alltaf í ljós að lokum. -

Ég er hætt að halda leyndarmál, það get ég á hvaða aldri sem er.  Ég er hætt að leyfa einhverjum eða sjálfri mér að komast upp með að ljúga að mér. -  

Ég veit hvað er mér mikilvægast af öllu, - og það er frelsið til að vera ég sjálf.

Sannleikurinn er frelsandi, - en eins og barnsfæðing, er hann sársaukafullur. -  Eftirfarandi ljóð skrifaði ég þegar ég áttaði mig á "prógramminu" sem ég hafði lifað eftir og því sem ég hafði sjálf notað í mínu uppeldi. -   Í því felst engin ásökun, hvorki á sjálfa mig né móður mína.  Við kunnum ekki betur eða gátum ekki betur. - En margar mæður og margir feður, eru enn að fara eftir rangri formúlu.  Kunna ekki að vera heiðarleg, - og forrita börnin þannig að þau geta ekki staðið með sjálfum sér þegar þau fara í sambönd. -   Það stafar af óöryggi foreldranna sjálfra. -  

 

FLÓTTINN FRÁ SANNLEIKANUM OG SJÁLFRI MÉR

Hún er verndandi og góð

kemur inn í lífi mitt fyrir fæðingu

Hún er vanmátturinn og dýrðin

sem skyggir á sjálfan Guð

Kennir mér að þykjast og þóknast

tipla á tánum og setur mig í hlutverk

þar sem ég er stillt og prúð,

sniðug og ábyrg

til að ég  fái athygli, elsku og þakklæti

viðurkenningu og samþykki

sem ég verð að vinna fyrir

því annars á ég það ekki skilið

Hún kennir mér að fela og ljúga

og til að halda leyndarmál

til að vernda heiður hússins

og fjölskyldunnar

Hún kennir mér að skammast mín

fyrir sjálfa mig

og lifa með sektarkennd

þar sem ég sveigi frá eigin gildum

og sannleikanum sjálfum

kennir mér að  óttast

það að segja frá sársauka mínum

að standa með sjálfri mér

því þá gæti ég misst ...eitthvað og einhvern

og lífið verður einn allsherjar flótti

frá sannleikanum og sjálfri mér

og ég týni því verðmætasta

sem er ég sjálf

Hún er mín meðvirka móðir 

Hún er ég 

 

Jóhanna Magnúsdóttir, ágúst 2012

Í minningu dóttur  

 

Elskum meira og óttumst minna. -  

ÁST  


Heiðarleikinn framar öllu

Ég er ánægð með Kristján Þór Júlíusson að hafa viðurkennt að hafa neytt ólöglegra vímuefna. Ég held að mjög margir hafi a.m.k. prófað, - og mjög margir hafi einnig ekið undir áhrifum áfengis.  Það að enginn viti, þýðir ekki að maður ekki gert það. - 

 


mbl.is Hefur neytt ólöglegra fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matargjafir á facebook - hin sanna "kirkja?" ....

11En hann (Jesús) svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."

Eins og margir vita, - hefur "fólkið" tekið málin í sínar hendur, - þ.e.a.s. nokkrir velviljaðir einstaklingar hafa stofnað síðu/r á facebook undir heitinu "Matargjafir"  og þar er þeim dreift milli landssvæða. -

Inni á síðunni eru margir gefendur,  sem láta vita hvað þeir vilja gefa og margir þiggjendur sem láta vita að þeir eru tilbúnir að þiggja.

Í raun eru allir að gefa og þiggja, - því það að gefa - felur í sér að þiggja og það að þiggja felur í sér að gefa.   Það er þessi dásamlega hringrás gjafarinnar.

Það er sælt að gefa og það er sælt að þiggja.   Það þarf ákveðna auðmýkt til að þiggja, og það þarf í raun styrk til þess. -  Það þarf styrk til að biðja um hjálp og það þarf styrk til að tengja ekki það að þurfa að biðja við eigin sjálfsmynd. -  Öll eigum við nóg - af okkur sjálfum.  En ekki endilega nóg til að fæða og klæða líkamann.

Mér finnst það mjög kristilegur hugsunarháttur,  miðað við textann sem ég birti hér í upphafi, að gefa með sér.  Ef við eigum tvennt af einhverju, að gefa hitt.  

Það er miklu auðveldara t.d. að láta það liggja ofan í skúffu, eða inní skáp,  en að fara með það í Rauða Krossinn.   Margir henda mat, bakarí henda afgöngum af bakkelsi o.s.frv. -

Við vitum alveg af ójafnvæginu í heiminum, - að sumir svelta og aðrir eru að springa úr "seddu" .. (a.m.k. líkamlegri).  

Það er gott að geta jafnað þetta út og hver er hvatningin? - Það hlýtur að vera kærleikurinn. 

Kærleikurinn að gefa af því sem við höfum eignast. 

Kærleikurinn að þiggja þegar við eigum ekki.

Kærleikur er "galdurinn"  við að lifa sem eitt og láta engan í heimsfjölskyldunni hungra.  Það er óþarfi.

Þess meiri kærleikur í heiminum,  þess fleiri geta lifað í fullnægju, anda sem efnis.

<3

Hér er hlekkur á matargjafir á facebook  

 

 


Listin að LEYFA ..

Fortíðin er liðin tíð, svo LEYFÐU henni að fara.

Framtíðin er leyndardómur, svo LEYFÐU henni að koma.

Nútíðin er andartakið NÚNA –

Taktu við því, þér er rétt þessi gjöf andartaksins. –

Til að njóta gjafarinnar, er gagnlegt að losa um allan ótta (byggðan á fortíð) og áhyggjur (byggðar á ímyndaðri framtíð) ……

 Andaðu djúpt, veittu andanum athygli og VERTU.

LEYFÐU ÞÉR AÐ LIFA  

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband