"The Show Must Go On" ...hvað getum við gert til að hjálpa syrgjendum? ...

Þó að flestir sem hafa upplifað sorg, - upplifi eitthvað í þeim dúr sem kemur fram í ljóði Audens um að stöðva allar klukkur o.s.frv. - þá er það ekki þannig.   Lífið heldur áfram allt í kring.  

Ef við viljum hjálpa fólki í sorg, - þá er yfirleitt fátt sem hægt er að segja sem hjálpar, orðin eru svo máttlaus - og það er ekki hægt að taka sorg fólks frá því. - Allir verða að vinna úr sinni sorg sjálfir. Þegar ég tala um sorg, er ég að meina alla sorg. Það getur verið sorg eftir skilnað - sorg eftir dauðsfall - sorg eftir atvinnumissi o.s.frv. -  Það er einstaklingsbundið hversu djúpt hún ristir. 

Við upplifum sorg við missi og verðum svolítið máttlaus. - En hvað geta vinir gert? Jú, þeir geta verið til staðar, - þegar sá eða sú sem hefur misst langar að ræða sorg sína að fyrra bragði, þeir geta líka verið til staðar á praktískan máta, þ.e.a.s. boðið í mat eða kaffi, nú eða komið og eldað eða mætt meðeitthvað með kaffinu í heimsókn til þess sem er í sorg. - Nú svo, vegna þess að allt gengur áfram, - klukkan heldur áfram að tikka, jafnvel farið með bílinn fyrir viðkomandi í skoðun, sótt föt í hreinsun, eða hvaðeina sem venjulega virðist einfalt þegar við erum í jafnvægi og grunnur lífsins hefur ekki hrunið. -

Við erum ekki fædd með þessa vitneskju, - en hér deili ég minni eigin reynslu hvað mér fannst gott í minni sorg og hvað ég hef heyrt aðra tala um.

Ung nýfráskilin móðir sagði mér að hún og börnum hennar eða henni einni væri sárasjaldan boðið í mat, - en manninum hennar fyrrverandi er boðið reglulega í mat. Lyktar smá af "kynjamismun" þarna? - Það má alveg bjóða mömmum og börnum í mat eins og körlunum sem eru einir heima. - Og endilega samt halda áfram að bjóða - líka auðvitað körlum og þeirra börnum - á meðan boðin eru þegin!

Ég held - svona í lokin - að ekki þurfi alltaf missi eða sorg til að við lítum til með vinum okkar, -  bjóðum til okkar, - eða förum til þeirra.  Rafræn nánd er álíka mikil nánd og rafrænn kærasti er mikill kærasti.

Svo ekki bara vera næs á netmiðlum eða síma, og senda hjörtu og knús, -  komum nær. 

Það er nær-veran sem skiptir máli.  


Síðan laug hann. Síðan hélt hann framhjá. Síðan fór hann frá mér.

Nancy Hetrick skrifaði bréf fyrir vefsíðu sem heitir   DivorcedMoms.com

„Mér fannst þetta bréf minna mikið á upplifanir þeirra sem hafa leitað til mín, bæði prívat og á námskeiðið „Sátt eftir skilnað"  sem ég hef haldið reglulega.  Því tók ég mig til og þýddi pistil Nancy á íslensku og hann er hér:

"Hvítur kjóll. Ferskjubleikar rósir sem ilmuðu sem andardráttur barns. Langt slör. Hamingjusöm til æviloka.  Þannig átti það að vera. Ég trúði því. Ég vildi það. Ég þarfnaðist þess.  Síðan laug hann.  Síðan hélt hann framhjá. Síðan fór hann frá mér.

Hann fór frá mér! - Það fer sko enginn frá mér!  Ef einhver ætti að fara, skyldi það sko fjandakornið vera ég!  Þessi trúnaðarbrestur eftir 17 ára hjónaband og 2 börn var lamandi.  Mér fannst eins og hendur mínar og fætur hefðu á hrottafenginn hátt verið slitin af líkama mínum og allt sem ég hafði áður vitað um sjálfa mig hvarf, á stundinni sem hann sagði, „Ég þarf að segja þér svolítið."  Ég var týnd, svamlandi í restinni af vatninu sem varð eftir í lífi mínu, fullviss um að drukknun væri óhjákvæmileg.

Síðan gerðist það einn dag, að hlutirnir fór að breytast.  Um það bil 15 dögum eftir lömun mína, byrjaði umbreytingin.  Sorgin og missirinn, gaf undan fyrir óvægum hugsunum sem færðu mig til fyrstu áranna okkar, þar sem ég áttaði mig á því að hegðun hans meikaði ekki sens (kann ekki betri þýðingu á þessu).  Lygarnar opinberuðust, og ég áttaði mig á því að ég hafði ekki bara verið svikin, heldur hafði ég líka verið algjört fífl.

Og ég varð reið. Ég er ekki að tala um „brjáluð" reið,  ég er að tala um „elta-þig-uppi-setja-gaffal-í andlit-þitt"  reið!!!  Og það tók algjörlega yfir.

Reiðin var með mér allan daginn, í vinnunni, þegar ég var með krökkunum, jafnvel í draumum mínum.  Ég fann fyrir henni í brjósti mér, sem nagandi þunga sem heimtaði að fá rödd sína meðtekna.

Svo, í stað þess að fókusa á minn eigin bata og að vera sterk fyrir börnin mín,  var ég að vakta Facebook - síðuna hans,  að leita að sönnunargögnum fyrir eymd hans. Ég vildi að honum liði hræðilega.  Ég var stödd fyrir framan íbúðina hans, og ímyndaði mér að ég væri að  henda steini í gluggann og rústa bílnum hans.  Ég ímyndaði mér að ég hitti kærustuna hans í dimmu húsasundi og réðist á hana eins og glæpagengi myndi gera.

Og getið bara upp á hvað hann var að gera?  Hann var hamingjusamur með nýju kærustunni í nýja lífinu.  Hver hélt hann að hann væri eiginlega?!  Hvernig dirfðist hann að þjást ekki eins og ég!

Hér er ég 7 árum síðar og skil hversu mikilli orku var eytt.  Vitið þið hverju ég áorkaði?

Hér er það.  Í öllu sínu veldi.

1. Ég var undirlögð af reiði hvern einasta dag og hverja einustu nótt og mér leið hörmulega.  Ekki honum.

2.  Mér mistókst að leggja drög að framtíð fyrir mig og börnin mín. Sex mánuðum síðar var ég næstum peningalaus.

3.  Ég drabbaðist niður heilsufarslega. Ég átti erfitt með svefn. Drakk of mikið og bætti á mig 8 kílóum.

4.  Að viðhalda reiðinni þýddi að ég var ekki í bata.  Ég leit ekki á minn þátt í skilnaðinum.

5. Reiðin mín hélt fókus mínum á fortíðinni í stað þess að hugsa um nútíðina og framtíðina.

Sem betur fer átti ég góða vini sem horfðu í augu mín og sögðu mér að tími væri kominn til að halda áfram.  Sérstaklega var það ein vinkona sem tók í hendur mér einn daginn, og sagði: „Elskan, hann er hamingjusamur.  Hversu lengi ætlar þú að gefa honum valdið til að ákveða hvernig þér líður?  Er ekki kominn tími til að þú takir þitt líf í þínar hendur, og hættir að leyfa honum að vera við stjórn?

Þessi orð hittu beint í mark hjá mér, - og hittu fast og ég ákvað á þessum stað og stund að taka aftur stjórnina á mínu lífi.  Hlutirnir höfðu ekki farið eins og ég hafði ákveðið.  En hvað með það? -  Nú var það undir mér komið að skrifa næsta kafla í lífi míu.   Ég skipulagði helgi þar sem ég var ein - þar sem ég melti þessar nýju hugsanir,  ég var í þögn,  hlustaði á góða tónlist, skrifaði í dagbókina mína og tók ákvörðun um að taka skref áfram.  Ég lokaði hjónabandsbókinni og lét hana fara.  Ég skrifaði honum bréf, þar sem ég fyrirgaf honum og óskaði honum alls góðs.  Ég sendi það ekki.  Það var fyrir mig en ekki hann.   Hann hafði nú þegar haldið áfram.

Næsta morgun, þegar ég opnaði augun, var sólin pinku bjartari. Himininn aðeins blárri. Mér fannst ég jafnvel eitthvað sætari. Ég hafði enga hugmynd um hvað næsti kafli bæri í skauti sér, en ég var tilbúin að fara í stóru stelpu nærbuxurnar og finna út úr því."

Hér er hægt að smella á orginal bréfið HÉR 

Það er vont að vera föst í reiði, - og með fastan fókus á fyrrverandi - því að það þýðir að við erum ekki með fókusinn á okkur sjálfum.  Allir bera ábyrgð á eigin hamingju og heilsu, og það þýðir að elska sig.  Því fyrr sem við treystum okkur að sleppa tökum á fyrrverandi maka  (endilega gefa sér samt tíma)  því betra.   Fara í gegnum allar tilfinningar og ekki flýja þær. -   Þegar hún uppgötvar að hún hafi verið „algjört fífl" - eins og hún segir -  þá er það uppgötvunin að hafa svikið sjálfa sig, sem er svo sár, og þá kemur skömmin svo sterk inn.  Hún svíkur sjálfa sig því hún sér táknin, hennar innri rödd er að reyna að segja henni að það sé ekki allt í lagi, hlutirnir „meiki ekki sens" en hún hefur lifað í afneitun (og ekki viljað eða treyst sér í sannleikann). Reiðin er þá þannig að hún beinist að manninum,  að það sé honum að  kenna að hún hlustaði ekki á sjálfa sig, - og sveik sjálfa sig.  Svo það er mikið að vinna úr.

Næsta námskeið  „Sátt eftir skilnað"  verður haldið 8. nóvember nk.  Hægt að skoða þaðHÉR

Sama hvað „kallinn" var ómögulegur - eða ekki,  þá snýst þetta um að taka sér vald á eigin lífi en ekki gefa eftir valdið á því til hans.   Þessum pistli má alveg snúa við, þ.e.a.s. það getur verið karl sem hefur upplifað sama.

525966_4121119355193_877443323_n


Bloggfærslur 9. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband