Segðu frá ... þín vegna

Getur verið að þú hafir lent í einhverju sem þú segir ekki frá – ekki sálu?

Af hverju segir þú ekki frá því?

Gerði einhver eitthvað á þinn hlut? – Finnst þér að þú hafir kannski leyft það? – Samþykkt það að einhverju leyti? – Boðið upp á það? -

Ofbeldi er aldrei ásættanlegt!

Það getur vel verið að þú hafir ekki kunnað mörkin, hvað þá ef þú varst barn.  Það getur vel verið að þú hafir ekki þorað að segja neitt og jafnvel sem fullorðin, en það var samt gengið yfir þig.

Það er vont þegar farið er inn fyrir okkar mörk og við frjósum, getum ekkert sagt, eða þegar við höfum hreinlega ekki kraft hvorki andlegan né líkamlegan til að berjast gegn því.

Við eigum samt sem áður ekki að sitja uppi með skömmina.

Hlutir gerast, vondir hlutir þegar fólk kann ekki eðlileg samskipti.  Það eru særð börn að meiða særð börn.  Við erum öll særð börn særðra barna.  Þar sem ofbeldi kemur við sögu er yfirleitt undirliggjandi sársauki.

Ekki skammast þín, því skömmin skyggir á sálina þína.  Hún fær ekki að skína eins og hún á að gera.

Ekki hafa leyndamálið ein/n  – deildu því hvort sem þú ert gerandi eða þolandi, þó það sé ekki með nema einum aðila sem þú treystir,  til að byrja með.   Það er fyrsta skrefið í eigin frelsun, úr þessu fangelsi skammarinnar.

Skömmin þrífst á leyndinni sem umlykur hana – um leið og við tjáum okkur um hana minnkar hún. Við þurfum að minna okkur á að við erum jafn veik og leyndarmálin okkar segja til um.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem verður fyrir áföllum í lífinu (sérstaklega þeir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi) og deila ekki reynslu sinni – eiga á hættu að leyndin geti orsakað meiri skaða en áfallið sjálft. Við höfum oft orðið vitni af því hvernig fólk talar um að þungu fargi er af því létt við það að tala um erfiða atburði.  (Brené Brown/Anna Lóa).
 
Eitt það mikilvægasta í heimi hér er að vita að við erum ekki ein,  og það er alltaf einhver sem elskar þig.
Við viljum halda andliti,  við viljum ekki fella grímuna. Viljum að allir haldi að það sé allt í lagi þegar það er ekki í lagi.  Það er eins og að sópa undir mottuna og láta eins og ekkert sé þar.   Hversu miklu er hægt að koma undir eina mottu?
Er ekki betra að sópa því fram,  eða koma ruslinu þangað sem það á heima?
Þegar gengið er gegn lífsgildum okkar og prinsipum og við gefum eftir, aftur og aftur,  þá brotnum við hægt og rólega niður,  við förum að skammast okkar.
Skömmin getur birst á svo marga vegu.
Einhver talar endalaust niður til þín,  og ÞÚ skammast þín.
Af hverju?
Kannski vegna þess að þú kannt ekki að svara til baka, eða ert farin/n að trúa því að þetta “niðurtal” sé satt.   Já, þú telur að þú eigir það bara skilið.   Hver ert þú svo sem?
Þú trúir því kannski því einhvers staðar lærðir þú að trúa því.  Trúa því að þú værir ekkert svo verðmæt/ur eða mikilvæg/ur.
Einhvers staðar á lífsleiðinni og yfirleitt í bernsku byrjum við að fá svona ranghugmyndir um þessa annars dýrmætu perlu sem hvert og eitt okkar er.
Hvernig á perlan að skína ef að hún er ötuð tjöru?
Tjöruna hreinsum við með því að tala um hana,  því eins og skömmin hatar hún að láta tala um sig því með því minnkar hún.
 
Þú ert perla og þú mátt skína!
 
 

Bloggfærslur 4. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband