Af hverju kunna sumir betur á takkana í stjórnborðinu okkar en aðrir? ...

Við getum verið mjög yfirveguð, öguð í framkomu og full af sjálfstrausti og haft góða stjórn á skapi okkar og tilfinningum, þar til .....   einhver ýtir á takkana okkar,  þessa viðkvæmu! 

Það er oft sama fólkið sem kann best á takkana okkar, og hver ætli það sé? - 

Yfirleitt eru það okkar nánustu, það er fjölskyldan - nú eða maki til margra ára. Af hverju er það? - spurði Oprah Winfrey Elisabeth Gilbert, rithöfund.  

Svarið var:  "Af því að þau komu þessum tökkum fyrir" -  Þau eru s.s. með meira próf á okkar stjórnborð, - og geta því auðveldlega hitt beint á rauðu takkana, þessa ofurviðkvæmu sem setja okkur út af laginu, - við missum "kúlið" og allt sem við lærðum á sjálfstyrkingar-eða meðvirkninámskeiðinu, öll vitneskjan hverfur eins og dögg fyrir sólu. Við bregðumst bara við, eins og ósjálfrátt í takt við takkana sem notaðir eru. 

Þetta fólk gerir það kannski ekki viljandi, en við erum s.s. ofurviðkvæm fyrir því. -  Við hleyptum þessu fólki inn, fyrst höfðum við ekki val, þ.e.a.s. gagnvart foreldrum og systkinum til dæmis, - þeims sem voru í lífi okkar sem börn.  Gætu líka verið fleiri í fjölskyldunni, og/eða kennarar.  Þau sem höfðu í raun "aðgang" að stjórnkerfi okkar. -  Svo á unglingsaldri, - þegar við förum að verða ástfangin og hleypum viljandi einhverjum inn, til að fikta í stjórnkerfinu, nú eða óviljandi,  við bara opnum hjartað því að það gerum við þegar við hleypum einhverjum að okkur.  

Stundum hitta ókunnir "óvart" á okkar viðkvæmustu takka, - eða það verður einhvers konar yfirfærsla frá þeim sem settu þá inn yfir á þetta ókunnuga fólk.  Við dettum í gírinn að vera eins og barnið, og upplifum viðbrögð barns við þessu fólki sem meiðir eða særir. 

Það er ábyrgðarhluti að koma inn í líf annars aðila og fara að "fikta" í hans eða hennar stjórnborði. -  Það má kannski segja að við séum að taka ákveðna takka úr sambandi, þegar við erum að "fyrirgefa" -  "sleppa tökunum" - og svoleiðis.   Við föttum oft ekki að það er fyrir okkur sjálf. - Við erum að aftengja til að aðrir hafi ekki stjórn á okkar lífi. - Það er nefnilega hægt, en bara ef VIÐ viljum það og föttum hvernig t.d. fyrirgefningin virkar. 

Málið er kannski að við verðum að skilja hvernig við virkum, - taka stjórn og hafa valdið. Ekki gera annað fólk að stjórnendum sem geta teygt höndina inn fyrir, - og "kabúmm" - sprengt okkur tilfinningalega. 

Það er erfiðast að eiga við takkana frá bernsku og svo úr löngum ástarsamböndum, því takkarnir eru oft orðnir vel fastir og vel "ígræddir" - þræðirnir margir. 

Nú fer í hönd mikil fjölskylduhátíð - það eru margir sem hlakka til, en sumir hreinlega kvíða fyrir að vera mikið með fjölskyldunni, því það rifjast oft upp samskiptin sem kannski voru ekki til fyrirmyndar. Einhver gerir lítið úr öðrum, ýtir á viðkvæma takka o.s.frv. -  

Munkur nokkur sagði: "Okkur ber að elska alla í þessum heimi, en sumt fólk er betra að elska úr fjarlægð." - 

Það er yndislegt að lifa berskjölduð og opin, í hamingjusömu sambandi við okkur sjálf og með þeim sem við getum treyst fyrir sjálfum okkur og "stjórnborðinu" okkar. - En það getur reynt á að vera í kringum þau sem misnota þessa opnun og einlægni, - sem brjóta á traustinu og ýta kannski ítrekað á okkar viðkvæmustu og aumustu takka, það er kannski þá sem við förum að reyna að læsa og loka, og ákveðum að hleypa engum að,  þegar við vitum ekki lengur hverjum er treystandi? - 

 


"Hver er tilgangur lífsins?"

Stórt er spurt enda lífið stórt.  Önnur spurning þessu nátengd: "Hver er ég?" - 

Þegar við ákveðum að keyra hringveginn i kringum landið er upphafsreitur "heima" og áfangastaður "heima" - er þá ekki tilgangslaust að fara af stað? - 

Hver er tilgangurinn með þessari ferð ef við endum á sama stað? -  

Því getur eflaust hver svarað fyrir sig, - en ég myndi keyra hringinn til að upplifa, til að skemmta mér, til að njóta, - og vissulega tæki ég áhættu eins og með því að keyra á þjóðveginum, þar eru alls konar slysagildrur. - En ég gerði það samt vegna þess að mig langaði í ferðalag, mæta öðru fólki o.fl. - kannski með einhverjum sem væri gaman að upplifa með, en það væri ekki aðalatriðið. -  

Í þessu ferðalagi lærum við örlítið meira um landið, við bætum því í reynslubankann að hafa farið hringinn. - Það gæti verið öðru vísi reynsla í annað sinn, - aðrar upplifanir og annað fólk sem við mætum.  Svo má fara stærri hring, þess vegna hringinn i´kringum jörðina! 

Í ferðalaginu og við reynsluna útvíkkum við sjóndeildarhringinn, við vöxum og þroskumst. Þegar fólk ferðast á sjó þá "sjóast" það! 

Nú komum við aftur að spurningunni "Hver er ég?"  Ég er sú eða sá sem geng til. Ég er "tilgangarinn" -  og í raun erum við alltaf að ganga heim til okkar.  Upphafsreiturinn er heima og áfangastaðurinn er heima.  Við breytumst í raun ekki neitt, en við þroskumst og menntumst í gegnum lífsgönguna.  Mismikið þó, eftir "ævintýrunum" sem við mætum. 

Tilgangurinn og "tilgangarinn"  erum við sjálf.  Tilgangur lífsins er upplifun.  Við þurfum ekki alltaf að vera á ferðalagi - til að upplifa, - það er hægt að upplifa við lestur bóka, við hugleiðslu, við samskipti o.s.frv.  Við kyrrsetu líkamans en ferðalag hugans.  Það er hægt að upplifa í kyrrðinni.   Við leggjum af stað en við komum alltaf heim - í lokin. 

Við (mannfólkið) erum leið heimsins til að þekkja sjálfan sig. - 


"Hvað segir fólk?" - "Hvað segir þú?" ..

Ég lærði einu sinni skemmtilega æfingu, þar sem fólk er látið loka augunum.  Ímynda sér síðan að það gangi inn á íþróttaleikvang, eða stórt svæði. - Taka upp plötu sem á stendur: "Ég er yndisleg manneskja og á allt gott skilið"  - í kringum okkur eigum við að ímynda okkur að nánustu ættingjar og vinir séu komnir og fleira fólk, jafnt lifandi sem liðið.  Svo tökum við eftir svipnum á þessu fólki. - 

Niðurstaðan? 

Stundum sá þátttakandi einhvern með efasemdar-eða hæðnissvip.  Stundum sást gleði í andlitum fólks sem fylgist með - og alls konar.  En það sem prófið átti að sýna var í raun sjálfs-álitið,  eða hvernig þátttakandi leit á sig eða þessa yfirlýsingu, hvort hún væri sönn eða út í hött.  -  

Það sem fólk segir er nefnilega ekki satt - og svipirnir eru ekki sannir heldur - NEMA AÐ VIÐ TRÚUM ÞVÍ.  Það erum nefnilega VIÐ sem ákveðum hvort það er satt eða ekki. 

Ef við erum viðkvæm fyrir öðru fólki, og erum alltaf að pæla hvað það segir eða hvað það hugsar, þá tökum við það oft mjög nærri okkur og gerum þeirra álit að okkar. Eða lesum e.t.v. okkar eigin álit á okkur úr augum hinna eða svipbrigðum. Það er ekki víst að við séum endilega voða fær að lesa og erum þá að misskilja. - 

 

Munum það að það sem fólk segir, eða álit fólks á okkur skiptir mun minna máli en eigið álit. Enginn er eins harður dómari í okkar málum og við sjálf. 

Ef við eigum sjálfs-vinsemd og sjálfs-trú,  þá hættum við að vera svona upptekin af hugmyndafræði annarra um okkur, eða að vera í hausnum á öðru fólki. - 

 


Íslandsforeldri og Matargjafasíður ..... kerfi í kerfinu - er ekki eitthvað rangt við þetta?

Eins og ég er hrifin af því að við veitum náunganum hjálparhönd, þá sýnist mér það vera að fara út í öfgar, þegar þarf að búa til kerfi í kerfinu.  Hvað með félagslega kerfið okkar allra?  

Þetta er í raun orðinn einkarekstur.  Þ.e.a.s. eins og Fjölskylduhjálp - en ég var að taka eftir möguleikanum að fara að styrkja það batterí með mánaðarlegum styrk.  Ég styrki nú þegar og hef gert lengi - um dágóða summu á mánuði, börn í vanþróuðum löndum og mun nú bæta í þann sjóð, þar sem ég var að fá fast starf. En er Ísland vanþróað? - Hvert erum við að stefna? 

Eiga kannski útlendingar líka að fara að gerast "Íslandsforeldri" og gefa barni að borða á Íslandi. Finnst okkur þetta ekkert neyðarlegt á meðan hér er í raun fullt af auðlindum, mannauði og alls konar auði, sem er bara svona misskipt? -  

Fólk, - það er eitthvað mikið að! - Forgangsröðunin verður að vera sú að öll börn á Íslandi fari södd að sofa (og auðvitað að fá hollt og gott fæði)  og það á ekki að þurfa einkarekstur til að sjá um það!   SVO má fara að huga að öðru.  Ríkisstjórnin ætti að vera nokkurs konar "mamma" eða "pabbi" sem er ekki sama hvernig fjölskyldan hefur það.  

Ég er ekki fróð um pólitík og peninga.  En það þarf varla snilling til að sjá þennan einfaldleika.  

Þó að fólk sé að gera hlutina af tærri góðmennsku, og í sjálfboðastarfi, þá kallar svona á ýmsar hættur, eins og nú þegar hefur komið fram.  Ég var ein af þeim sem hreifst af góðmennsku náungans - þegar matargjafasíðurnar voru settar upp á facebook, en síðan kom í ljós að það gerir fólk berskjaldaðra fyrir óþökkum.  Það hefur nú þegar komið í ljós, að einhverjir vilja nýta sér neyð fólks, og ætla að fá borgað í blíðu.  Það er s.s. bláókunnugt fólk að koma heim til annarra með mat eða annað - og það þarf að treysta í blindni.   Svona mál ættu að vera í faglegum farvegi, þar sem fyllsta trúnaðar er gætt. Það er meira en að segja það að halda utan um alla þræði, og við höfum til þess félagsráðgjafa og kerfi.  Notum kerfið eða bætum kerfið. 

Þarna er komin a.m.k. ein aðkallandi ástæða til að fara í meðmæli með bættu félagslegu kerfi!

p.s. tvennt sem ég vil taka fram aukalega: Framsóknar - og Sjálfstæðisflokkur þurfa ekki að fara í sérstaka vörn, þetta er ekki nýtt af nálinni, en þetta hefur (að mínu mati) aukist. 

Hitt atriðið er að auðvitað er stigsmunur á fyrirtæki eins og Fjölskylduhjálp og svo bara einstaklingsframtaki eins og matargjafasíðunum, en spurning hvar á að setja mörkin og er ekki draumur okkar allra að þetta komist í betri farveg? 


"Shaming and blaming" .. stundum við (óviljandi) ofbeldi? ..

Ég hlustaði á svo gott viðtal á Rás 2,  við Guðbrand Árna Ísberg sálfræðing og sérfræðing í samskiptum -  í gær, - þar sem hann m.a. ræddi skömmina og hvernig við komum henni (oft óviljandi) inn hjá fólki.  Kannski er bara greið leið, þegar að viðkomandi hefur kannski alist upp við það að vera auðmýktur - eða skammaður? 

Það að vera í "tossabekk" t.d. var það að vekja skömm í okkur. (Ég var sjálf í einum slíkum í sjö ára bekk). - 

Ef þú ert að skamma einhvern ertu að reyna að framkalla skömm, - varnarviðbrögðin við skömmum eru að verja sig.  - 

Skömmin heldur okkur í skefjum, - heldur aftur af svo mörgu góðu í okkar lífi.  

Guðbrandur Árni talar um skömmina sem "leynitilfinningu" - en það er vegna þess að hún er lúmsk og við áttum okkur ekki endilega á hvort við lifum við skömm eða ekki. Okkur líður bara illa og föttum ekki af hverju! 

Brené Brown segir að munur á skömm og sektarkennd sé í grófum dráttum sú að þegar við upplifum skömm, þá skömmumst við okkar fyrir hver við erum,  en sektarkennd er meira tengd því sem við gerum. -  Það er eins og munurinn á því að vera lygari og því að ljúga. Það er annað að vera en að gera.  Skömmin verður samofin sjálfsmyndinni.  Við verðum skömmin.  Þetta er eins og unglingur sem upplifir sig sem vandamál, frekar en að það séu vandamál í hans lífi. (Ég hef rætt nokkra slíka).  

Af hverju er þetta svona vont? - Jú, einmitt vegna þess að - eins og áður sagði, "skömmin heldur í skefjum" - við náum ekki að njóta okkar og skömmin heldur aftur af okkur að dafna og blómstra og að vera við sjálf.  Skömmin er það sem lokar hjartanu, og að við getum fylgt hjartanu og talað frá hjartanu (verið einlæg). -  Skömmin er líka undirrót allra fíkna, og fíkn er þá flótti frá skömm.  Fíkn er verkjalyf við skömminni, því hún meiðir. -  Já, skömmin meiðir og er ofboðslega óþægileg. - 

Við verðum hvert og eitt að líta í egin barm.  Erum við að láta einhverjum líða illa með því að kasta á hann skömm? -  Auðvitað á það að vera þannig að það eru ekki við sem látum öðrum líða svona eða hinsegin, þ.e.a.s. hver ber ábyrgð á sinni líðan. En t.d. ef það er barnið okkar, nemandi - eða maki, einhver sem er berskjaldaður fyrir okkur - náinn okkur, þá tekur viðkomandi því miður við skömminni. Þá erum við (óviljandi) farin að ástunda ofbeldi - jafnvel við þau sem við álítum að við elskum mest.  Erum verst þeim sem við elskum mest- eða hvað? 

Ég segi það alltaf og hef notað í fyrirlestrunum mínum, að hver manneskja er perla.  Það breytist ekki.  En það má segja að skömmin verði eins og drulla eða skrápur utan um perluna, og ef að perlunni er nú alveg drekkt í skömm, mökuð í tjöru og fiður skammar,  þá nær hún að sjalfsögðu ekki að skína. - 

Við tilheyrum mörgum perlufestum, - fjölskylda er t.d. ein perlufesti, vinnustaður annar, heimurinn - þ.e.a.s. allar manneskjur eru í einni stórri perlufesti.  Þegar allar manneskjur fá að skína, er perlufestin fullkomin.   

Þá er það út með skömmina - út með hatrið og inn með ástina. - 

p.s. það er alveg hægt að ala börn upp án þess að gera það með niðurlægingu og skömm. - Það er hægt að gera það á uppbyggilegan hátt! - .. Uppeldi er andstæða ofbeldis. Upp-eldi elur upp, Of-beldi, bælir niður.  Skömmin heldur í skefjum. - Sjáið þið tenginguna? 

 

 


Hvað verður um brotnu börnin? ... eigum við að lesa sögu þeirra?

 

Þessi pistill fjallar m.a. um ástæður mínar fyrir að styrkja útgáfu bókar.  Bók eftir Sævar Poetrix, sem er jafnframt kærasti dóttur minnar. Kalla hann stundum - hér í pistlinum "ófyrirmyndartengdasoninn." 

 

Nýlega las ég frétt um móður sem beitti ungan son sinn ofbeldi, m.a.  lamdi með stólfæti.  Hægt er að sjá fréttina hér á DV

Nú hef ég um nokkurra ára skeið starfað við ráðgjöf. Ráðgjöf við fólk á öllum aldri. Yngsti viðmælandinn átta ára og elsti áttræður. -  Áður starfaði ég í sex ár sem aðstoðarskólastjóri, og þar kynntist ég bakgrunni sumra nemendanna, eða "grunnleysi" frekar.  Sum voru vanrækt og önnur voru "ofrækt" - eða bjuggu við of- eða óttastjórn þannig að lá við taugaáfalli. - 

Börn alast upp við allskonar aðstæður og líklegast elst enginn upp við "fullkomnar" aðstæður og þær verða þá alltaf til að setja einhver brot í börnin eða sjálfsmynd þeirra. 

Frásagnirnar eru svo svakalegar sumar, að ég held að ekkert komi mér á óvart lengur.  Allt þrífst þetta á meðan enginn segir frá - á meðan leyndarmálin eru haldin og allir láta eins og allt sé í lagi þegar það er ekki í lagi. 

Þegar við lifum fótósjoppuðu lífi og fyrirmyndirnar eru falskar. 

Í flestum fjölskyldum (stórfjölskyldum) er einhver sem misnotar alkóhól eða ólögleg fíkniefni, ofbeldi grasserar af einu eða öðru tagi, kynferðislegt, andlegt, líkamlegt, ofbeldi orða, ofbeldi þagnar - stundum allt þetta. Það eru sjúkdómar sem herja á, andlegir sem líkamlegir og oft erfitt að skilja á milli.    Þær eru fáar undantekningarnar, eða fjölskyldurnar sem sleppa. 

En nú er for-formálinn orðinn nógu langur.  Í janúar 2013 missti ég eldri dóttur mína úr sjaldgæfum sjúkdómi.  Það var eins sorglegt og það getur orðið.  Ef sársaukaskalinn toppar sig í 10 þá var það 11.   

Það var við þessar hrikalegu aðstæður að yngri dóttir mín kynnti mig fyrir kærasta sínum, Sævari Peotrix.   Hann kom með henni út, þar sem eldri dóttir mín lá fyrir dauðanum á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.  Þar passaði Sævar upp á kærustuna sína. Síðar var hann með henni þegar hún fékk fréttirnar af andlátinu.  Hann fór í gegnum ferlið með henni og var til staðar fyrir hana.   

Siðan hefur ýmislegt gengið á margt gott, en sumt alls ekki gott í þeirra samskiptum, og það er ekki mitt að fara út í smáatriði eða stór hvað það varðar.

En eitthvað hefur breyst.  Einver vilji - og vakning sem ég hef séð og ég trúi á meðan annað kemur ekki í ljós. 

Sævar var brotið barn, - hann segir frá upplifun sinni í upphafi bókarinnar. - Systir hans birti fljótlega pistil um það að hann væri að ljúga eða segja rangt frá, þannig að síðar neyddist hann til að birta játningu móður sinnar - til að bera af sér að hann væri að ljúga. Það er reyndar ekki einsdæmi og  þetta er vandmeðfarið og börn upplifa eflaust æskuna mismunandi.

Ég veit að hann var ekki að segja frá þessu til að fá vorkunn, ekki frekar en  nokkur þolandi - eða til að finna sökudólga - heldur til að segja frá rótum sínum og bakgrunni því það skipti máli fyrir það sem á eftir kom.  Sagan er einhvers konar ævisaga og upplifanir og þá sleppir þú ekki bernskunni, jafnvel þó það sé sárt fyrir ættingjana.  Að segja frá æsku sinni er ekki "afsökun" fyrir hvernig við erum eða "ásökun" - heldur til að skilja.  Fólk gerir sitt besta miðað við eigið uppeldi og bakgrunn.  Stundum verður þetta "Besta" bara alls ekki gott. 

Börnin mín koma úr meira "fínpússaðra" umhverfi.  En ekki er alltaf betri músin sem læðist en stekkur.  Þar voru öll þessi atriði til staðar í nánustu fjölskyldu.  Ofneysla áfengis, ofbeldið sem ég taldi upp,  gífurleg meðvirkni og óheiðarleiki en allt leit vel út á yfirborðinu.  

Ég var "hin meðvirka móðir" - sem hélt leyndarmálin, ruggaði ekki bátnum o.s.frv. - og kenndi börnunum mínum að halda leyndarmálin "heiður hússins"  með minni hegðun. Ég uppskar mikla skömm, - skömmina við að svíkja sjálfa mig. 

"Ófyrirmyndartengdasonurinn" er að skrifa bók.  "Hvernig á að rústa lífi sínu og vera alveg sama."   Það er alltaf talað um það í meðferðavinnunni að frelsið komi þegar okkur er farið að vera sama um það sem "fólk segir" - að við förum að lifa fyrir okkur sjálf en ekki til að þóknast og geðjast.  Þegar við förum að segja sannleikann, en ekki leita eftir því í augum annarra hvað það vill heyra og segja það síðan. -

Sannleikurinn getur verið dýrkeyptur. - 

Við erum öll brotin börn brotinna barna.  Við erum öll særð börn særðra barna.  -  Málið er að við þurfum að hætta að dæma okkur sjálf og hina líka.  Andstæða dómhörkunnar er samhugur.  Við þurfum á vinsemd að halda og þá líka sjálfsvinsemd.  Það að sýna samhug sýnir að við setjum okkur í spor hinna, eða reynum það af fremsta megni. Við getum það aldrei 100 prósent. - En við dæmum ekki því við höfum ekki gengið í skónum þeirra. -  

Það er mikilvægt að spila vel úr sínum spilum.  Foreldrar eru eiginlega eins og spilin sem við fáum gefin.  Sumir fá "hunda" - þ.e.a.s. að það er næstum vonlaust að sigra í spilinu - eða lífinu því að þessir hundar tæta og rífa börnin í sig. - En stundum sleppa börnin undan álögunum, undan öllum ljótu orðunum, og ákveða að hætta að trúa að þau séu svona mikið vandamál eins og búið er að telja þeim trú um - og rísa upp eins og fönixar.  Aflæra - eða rústa því sem þeim var kennt, um eigin óverðugleika og taka upp á því að lifa eigin lífi.  

Ég tók þá ákvörðun, þegar ég las fyrsta kaflann í sögu "Ófyrirmyndartengdasonarins" að styrkja útgáfuna á Karolina fund.   Nú eru aðeins örfáir tímar til stefnu og aðeins 46 prósent hefur náðst. - 

Reynir Traustason ritstjóri DV setti inn sitt verkefni og fékk fjáröflun á mettíma.

Mér finnst að bókin - eða verkefnið hans Sævars eigi alveg skilið fjármögnun líka.  Hvað ef að drengurinn sem ég minntist á hér í upphafi, - fer að skrifa bók á fullorðinsárum? -  Hver er líkleg saga hans? - Sum börn sem fara þá leið sem Sævar fór lifa ekki til að skrifa sína sögu.

HÉR er hægt að smella á tengil á verkefnið,  lesa og tryggja sér eintak.  Kannski sé ég eftir þessu, eftir að hafa lesið alla bókina, en kannski sæi ég líka eftir að hafa ekki hvatt aðra til að styrkja. Fylgi nú hjarta mínu í þessu eins og öðru, og er hætt að þagga niður eigin rödd. 

Megi englar alheimsins umvefja okkur öll, öll særð börn þessa heims. 

ÁST 


Fullir fataskápar af engu! ...

"Ég hef ekkert til að fara í" .. sagði konan og andvarpaði um leið og hún horfði inn í troðfullan fataskápinn.  - 

Þetta er svolítð viðhorf margra til lífsins.  Þó að við eigum mjög margt og mjög mikið, virðist það aldrei eða sjaldan vera nóg. - 

Þegar konan opnar fataskápinn og segir "Vá hvað ég á mikið til að fara í!" .. 

Þá er hún loksins orðin sátt við sjálfa sig og tilveruna. - 

Það hefur auðvitað ekkert eða lítið með föt að gera. 

Bara viðhorf. 


Svavar Knútur leiðir okkur í Draumalandið ...


Þú ert ekki fórnarlamb ..

Ég vaknaði nýlega  með þessa hugsun í kollinum: "Lykillinn að allri sjálfshjálp - er fólgin í orðinu "sjálf" - Það er að taka sér VALDIÐ yfir eigin lífi, yfir eigin tilfinningum, yfir eigin hamingju, yfir eigin viðhorfum. - Um leið og við erum orðin fórnarlömb aðstæðna eða persóna, og notum þannig aðstæður eða persónur til að ná ekki bata, árangri eða betra lífi, - um leið og við gefum frá okkur valdið til aðstæðna og annars fólks, - þá verðum við valdalaus og þá er ekkert "sjálf" lengur, - þá hafa hinir valdið og aðstæður valdið og við erum orðin strengjabrúður einhvers utanaðkomandi. Þetta getur líka átt við eitthvað úr fortíð. Eitthað sem frænka eða frændi sagði eða gerði fyrir langa langa löngu - er farið að hafa of mikil áhrif á okkur.

ekki bara sitja og fórna höndum og hugsa, æ, æ, aumingja ég - hvað veröldin er vond eða mennirnir eru vondir, nú eða ríkisstjórnin er vond. Það að sitja og röfla í eigin barm, kemur okkur ekkert. -

Við þurfum að taka ákvörðun og játast eigin rétti til hamingju, - taka ábyrgð á eigin lífi og okkur sjálfum. Mér fannst svo fallegt, það sem ég las einu sinni: "Það að elska sig er að taka ábyrgð á sér." -

Umhverfi okkar mótast af hugsunum okkar og það sem við hugsum verða oft aðstæður okkar. Neikvæð hugsun skapar neikvætt andrúmsloft og neikvætt umhverfi.

Stuck in the Blaming Game - eða föst í ásökunarleiknum, - þýðir nákvæmlega það. FÖST. - Manneskjan er orka, og hefur tilgang. Að ganga til einhvers - Um leið og manneskjan er föst eða stöðvar, er það eins og að lífsrythminn stöðvist og hún byrjar að veslast upp. Það er til líkamleg hreyfing og hún er holl fyrir líkama og sál, eins og flestir vita. En það er líka til andleg hreyfing - hún er lífa holl fyrir líkama og sál. - Við þurfum aldrei að festast - við höfum alltaf val. - Sama hversu aðstæður eru erfiðar. Við höfum val um hugsun og hvernig við mætum aðstæðum. - Sem fúll á móti sem er valdalaus og kennir aðstæðum um líðan sína, eða gaurinn sem reiknar út aðstæður og tekur á móti þeim með hugarfarinu: "Hvað get ÉG gert?" -

Ekki alltaf þetta "hvað eiga hinir að gera fyrir MIG" .. Þegar við tökum okkur valdið erum við frjáls. -

Já, já, varð að koma þessu frá mér - á þessum vindasama sunnudagsmorgni. Spennandi vika framundan, með alls konar áskorunum. -

Lífið er ævintýri eins og ævintýrin eru alls konar - það er ekki alltaf logn í ævintýrum, - en allt er gott sem endar vel, - og ef það er ekki gott er það ekki endirinn. -

Óska öllum góðs dags, og góðs lífs - "You have the Power" .. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband