Spurning fyrir fólk sem er að íhuga að taka hliðarspor í hjónabandinu: "Hef ég fundið tilgang lífsins?"

Ég rakst á góða grein í Huffington Post, –  og eftirfarandi er bæði endursögn og þýðing.  Innihaldið er skýrt og á erindi til svo margra. Okkar allra í raun, hvort sem við erum í sambandi eða ekki, – allir þurfa að finna sinn tilgang.  Ég lít reyndar á það að tilgangur minn sé að uppgötva sjálfa mig, – og það er hægt að læra á sig í samskiptum við aðrar manneskjur, en við uppgötvum ekki okkur sjálf í öðrum manneskjum. –  Við þurfum að vera við sjálf, en sjáum hér hvað stendur:

“Til allra þeirra karla og kvenna sem búa nú í innihaldslausu hjónabandi, sem upplifið ykkur einmana (í hjónabandinu)  og upplifið að þið séuð ekki elskuð,  þið sem þráið snertingu og nánd, því þið hafið ekki upplifað það frá maka ykkar í marga mánuði, kannski mörg ár:  Þið vaknið á hverjum morgni og uppfyllið hlutverkið sem þið tókuð að ykkur;  móðir, faðir, fyrirvinna, leigubílstjóri barna ykkar, kokkur, ráðskona/maður – aðeins til að fara í rúmið á kvöldin ófullnægð og kvíðandi öðrum tilbreytingalausum morgundegi.

Til að fylla upp í tómið og tilbreytingaleysið, endurnýjar þú eldhúsið, kaupir hvolp, eignast annað barn, leitar að nýju húsi eða kaupir nýjan bíl.
En samt sem áður, eftir þriðja barnið, nýja eldhúsið, bílinn í bílskúrnum, – upplifir þú þig samt tóma/n.  Eitthvað vantar.

Og þá er það sem hún eða hann birtist, akkúrat í tíma, til að bjarga þér. Það byrjar með brosi, síðan með samtali þar sem ykkur finnst þið hafa þekkt hvort annað í mörg ár. Þið farið að senda sms, og látið eins og það sé bara í vinskap.  Þið ákveðið að hittast, bara í kaffi, bara í klukkutíma, en síðan verða klukkutímarnir að mörgum klukkutímum.

Aha, þetta er það sem ég hef saknað, hugsar þú. Þú byrjar að bera hann eða hana saman við maka þinn, og þessi nýuppgötvaði/a ástmaður/ástkona er orðin/n fulltrúi alls sem þú hefur ekki í hjónabandinu.
Eftir aðeins örfáa mánuði, ertu orðin/n ástfangin/n af þessari manneskju, e.t.v.  meira en þú hefur nokkurn tíma verið af einhverjum. Það vindur fljótt upp á sig, og allt í einu ertu komin í þá stöðu að þurfa að velja á milli makans og ástkonu/manns.


Þetta nýja samband hefur gefið þér einhvers konar tilgang, sem þú gast aldrei náð ein/n.  Þér finnst þú skipta máli. Það sem þú ert að leggja á þig skiptir máli.  Þú upplifir að þér hafi tekist eitthvað og færð eitthvað fyrir það sem þú leggur inn.  Af öllum þínum gjörðum, er það þessi sem þér finnst þú mest metinn.
En leyndarmálið er (skv. höfundi greinar) að þetta samband er dauðadæmt.

Á meðan þú heldur áfram að reiða þig á einhvern annan til að gefa þér tilgang og því að tilheyra, mun ekkert samband ganga upp.  Svo spyrðu þig:  “Hef ég fundið tilgang minn í lífinu?”  – Átt þú drauma, þrár og væntingar utan sambandsins, sem eru enn óuppfylltar?  Þú verður ekki ánægð/ur fyrr en þú hefur fundið þinn tilgang.

Við erum að reyna að láta annað fólk fylla upp í tómarúmið okkar, eins og við erum að láta mat, áfengi, vinnu, nýtt eldhús eða bíl fylla í tómarúmið. -

Við gefum okkur ekki leyfi til að láta okkur dreyma eða taka áhættur – að reyna við draumastarfið, eða hefja eigin rekstur.  Við höfum ekki sjálfstraustið eða öryggið til að koma að okkar eigin væntingum eða þörfum – þessu einhverju sem okkur hefur alltaf langað að gera, og þá líður okkur eins og við séum föst.  Sumt fólk hedur áfram að vera fast og óánægt, en er fast fyrir aðra. Það finnur samband sem gefur þeim tilgang.  Tilgangurinn er þá að vera til staðar fyrir aðra.

Ef þig er farið að langa að halda framhjá makanum, –   reyndu að finna sjálfa/n þig fyrst –  bjóddu þig fram til að vinna við góðgerðarmál, farðu í fjallgönguna sem þig langaði alltaf í, byrjaðu reksturinn sem þig langaði að hefja, prófaðu að dansa salsa, – gerðu eitthvað sem virkjar þig. Hvað sem þú gerir munt þú finna meiri ást og/eða ástríðu í því sem þú skapar en frá nokkrum elskhuga sem liggur við hliðina á þér.  Og það sem er enn mikilvægara, að þú munt forðast það að meiða aðra og sjálfa/n þig.”

Heimild:  Huffington Post

Hægt er að lesa upprunalega grein með að smella HÉR.


Bloggfærslur 9. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband