Sala áfengis í matvöruverslunum - hagsmunir hverra? ...

Ég vil taka það fram - hér í upphafi, að ég er fylgjandi frelsi. Frelsinu til að velja og taka ákvarðanir. 

Lög og reglur, boð og bönn eru þó nauðsynleg, - t.d. í umferðinni, - það ríkti væntanlega kaos ef allir hefðu frelsi til að velja þar, hvort þeir keyrðu á vinstri eða hægri vegarhelming,  ækju yfir á rauðu eða grænu ljósi o.s.frv. -  Lög og reglur, boð og bönn eru sett til verndar okkur mannfólkinu. -

Fleiri reglugerðir eru í þessum dúr.

Í Biblíunni eru alls konar lögmál - og þar þykir mikilvægt að það séu lögmál sem séu sett mannsins vegna en ekki bara lögmálsins eða reglunnar vegna.  

Hvað með reglur um áfengiskaup.  Af hverju er ekki frjáls sala á áfengi? -

Kemur nokkrum það við hvað Gunna eða Jón kaupa mikið áfengi og hvar þau gera það?

Það er hættulegt (reyndar stórhættulegt) að aka á móti rauðu ljósi, - en er einhver hætta fólgin í því að aðgengi sé aukið að áfengi? -

Ráða ekki allir við sig, eru með frjálsan vilja og af hverju ætti ekki að mega selja áfengi hvar sem er?

Af hverju má ekki selja kannabis hvar sem er?  Eða af hverju er það ekki löglegt?  Nú eða kókaín?  Má fólk ekki bara velja? -

Áfengi er fíkniefni. -  Við megum aldrei gleyma því.   Fólk missir meðvitund - eða minnnkar meðvitund við neyslu þess.  Það er deyfilyf,  sem deyfir tilfinningar. - 

Óvirkir alkóhólistar þurfa að versla í matinn eins og annað fólk, -  og það hefur verið sannað að aðgengi skiptir máli hvað neyslu varðar. -  Fólk getur átt góða daga, sem það hefur fullan styrk, en fólk getur átt vonda daga og þá skiptir máli hversu fjarlægðin er mikil í flöskuna. -

Það er meðvituð ákvörðun - að aka í sérstaka verslun til að versla áfengi. Það er ákveðin yfirlýsing.  "Ég er komin/n hingað til að kaupa áfengi,  því að í þessari verslun er ekki annað selt." -  

Ef að hinn óvirki fer í matvöruverslun, þá er það auðveldara að "lauma" með í körfuna kippu af bjór, eða flösku af rauðu. - 

Hvern er verið að vernda með lögum um áfengiskaup?  -  Ég tel að það sé verið að vernda fjölskyldurnar í landinu.  Áfengisvandinn er gríðarlegur, - það eru heilu fjölskyldurnar og stundum ættirnar sem falla með alkóhólistanum. - 

Segjum að hann Maggi sé nýkominn heim af Vogi, -  er þá gott að hafa búrið fullt af áfengi? -  Hann eigi bara að geta staðist  freistinguna og þetta sé próf? -   Ég veit ekki hvort þið eruð svoleiðis, en ég er alla veganna þannig að ef ég finn kexpakka uppí hillu, þá er ég líkleg til að klára kexpakkann, þó ég hafi ekki ætlað mér það.   Þess vegna kaupi ég lítið af sætu, vegna þess að ég veit ég á erfitt með að standast freistinguna.    En það fæst kex og nammi útí búð! -   Já,  en það er langur vegur milli alvarleika þess að ein manneskja sé sólgin í sykur,  því það hefur ekki þessi dómínó-áhrif sem alkóhólisminn hefur.  

Það er ákveðin afneitun að halda því fram að allir geti umgengist áfengi sem sitt frjálsa val, því það er áfengið sem velur og alkóhól stjórnar mun fleirum en við viljum oft láta vera. - 

Ég tel að það sé ekki hagsmunir fjölskyldna í landinu að auka aðgengi að áfengi.  Ég tel það séu hagsmunir kaupmanna, og þau aukaspor eða aukaakstur sem þarf til að fara í sérverslun sé alveg þess virði til að vernda hagsmuni barna - og allra þeirra sem eru fórnarlömb áfengisfíknar annarra.

Auðvitað þarf að vinna meira að forvörnum, - styrkja fólk andlega svo það þurfi ekki sinn anda úr flösku. Auðvitað þurfa sumir að spyrja sig, - "What is wrong in my life, that I must get drunk every night" - eins og Fine Young Cannibals sungu um árið. -

Við gætum sagt að það sé menningarlegt að fá rautt og hvítt inn í matvöruverslanir, en spyrjum okkur líka hvort það gæti stuðlað að ómenningu, eða ómennsku? ..

Hagsmunir manna eða mammons? ...  

 


Bloggfærslur 13. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband