8.4.2011 | 14:31
ICESAVE Í SVART HVÍTU? ...
Ég las viðtal við Eygló Harðardóttur, þar sem hún talar um að hver kjósandi þurfi að kynna sér IceSave málið í kjölinn. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haft tækifæri, kunnáttu né tíma til þess. Einhvern veginn ímynda ég mér að aðrir séu færari til þess en ég. Mitt starf er að sinna unglingum á daginn, þeirra gleði og sorgum og svo er ég í aukavinnu eitt kvöld í viku. IceSave samningar eru ekki á mínu náttborði, heldur ýmsar bækur um uppbyggingu andans.
Þrátt fyrir þessi orð hér að ofan, er ekki þar með sagt að ég hafi ekki fylgst með umræðu og lesið rök með og á móti og þegar ég tylli niður fingri - til að setja niður pælingar um IceSave koma þeir sem eru fullvissir í sinni sök, hvort sem það er já eða nei. En ég veit að enn eru margir í óvissu og fara inn og út um IceSave dyrnar.
Þegar "Viltu vinna milljón" var sýnt á sínum tíma, var einn möguleikinn fyrir þann sem sat fyrir svörum að spyrja salinn.
Allir höfðu takka til að ýta á, en auðvitað var aðeins ætlast til að þeir svöruðu sem vissu svörin, en það hjálpaði ekki þeim sem sat í heita sætinu að fá eitthvað gisk um rétt svar.
Rökin fyrir IceSave ákvörðunum eru af ýmsum toga, lögfræðileg, siðfræðileg og ekki síst tilfinningaleg.
Mig grunar að margir kjósi út frá tilfinningalegum rökum, en hafi ekkert endilega lesið samninga eða kynnt sér málin í kjölinn, enda ekki margir sem hafa tækifæri til.
Niðurstöður í skoðanakönnunum sýna að þjóðin er klofin í niðurstöðu sinni. En munurinn á svarinu í IceSave og svarinu í Viltu vinna milljón er sá að í því síðarnefnda er aðeins til eitt rétt svar. Hin eru hreinlega röng.
Það væri einfalt ef IceSave væri svona svart/hvítt mál og ég öfunda fólk sem sér það þannig.
Á ég að ýta á takka með svar sem er gisk? .. Ég er hér að færa rök fyrir því að ýta EKKI á takka, ef við erum ekki viss. Það er ekki það að nenna ekki að kjósa, ég er alveg tilbúin að mæta og skila auðu.
Ég er með þessu að játa það að ég hef ekki nægilega visku til að dæma í þessu máli.
Því býð ég þér sem ert þess fullviss, hvað er rétt, að taka afstöðu fyrir mína hönd.
Ég finn mig ekki heiðarlega að svara Já og ekki heiðarlega að svara Nei, en að lifa af heilindum er það sem ég kýs fyrst og fremst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mér finnst bæði verra, en hef spurt mig í nokkurn tíma hvort sé skárra af tvennu illu, að samþykkja samninginn eða samþykkja ekki samninginn. Auðvitað er ég búin að lesa rök, góð og vond rök, en mikið af rökum. Í bæði nei-inu og já-inu felst óvissa og óvissa er erfið og óþægileg.
Hvort er nú betra Honey Nut Cheerios eða Venjulegt Cheerios?
Eða á ég bara að henda út öllu sem heitir Cheerios og fá mér Kornflex?
"Það sem þú veitir athygli vex" .. segja gúrúarnir og það er svo sannarlega satt.
Ætti maður þá bara að hætta að veita IceSave málinu athygli og þá gufar það upp, kannski eins og dögg fyrir sólu. Kannski skuldin lika?
Óvissa er vond, en hún er óumflýjanleg .. væri gott að geta kosið þetta á burt, en ég held að það sé ekki hægt. Hvorki Já né Nei eyðir skuldinni.
Hvað skal taka til bragðs? .. Verð ég að velja og hver segir það? Hver stillti mér svona upp við vegg að þurfa að kjósa um eitthvað svona erfitt. Hvort viltu fá niðurgang eða ælupest?
Ég er að hugsa um að sitja hjá, sitja heima bara eða skila auðu, svei mér þá - ég get varla látið þvinga mig út í að velja á milli einhvers sem ég er svona óviss um! Ég vel að sitja hjá og láta ykkur sem vitið svo vel hvað er rétt og rangt kjósa. Ég skal sjá um að velja eitthvað sem ég hef meira vit á, fjármál eru bara ekki mín deild.
Viðbót:
Svarið er því JEI ..
Þangað til á laugardag ....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.4.2011 | 15:50
Samskipti - hamskipti
An Excerpt from
The 100/0 Principle
eftir Al Ritter
Hver er áhrifaríkasta aðferðin við að skapa og viðhalda frábæru sambandi við aðra? Það er 100/0 meginreglan. Þú axlar fulla ábyrgð á þér og á sambandinu, býst ekki við neinu á móti (eða 0 á móti). (Þarna er verið að tala um skilyrðislausan kærleika, þar sem ekki er alltaf verið að ætlast til einhvers í staðinn ekki: "If youll scratch my back I will scratch yours" ..
Þetta er fæstum okkur eðlislægt að ætlast ekki til að fá eitthvað til baka. það þarfnast mikils sjálfsaga og skuldbindingar í sambandinu og að vera meðvituð um að gefa og gera 100 prósent.
Þessi 100/0 meginregla gildir í samskiptum okkar við fólk sem er okkur of mikilvægt til þess að vera sífellt að dæma það, eða bregðast við því í stað þess að velja okkur viðbrögð gagnvart því. Þetta getur átt við starfsfélaga, viðskiptavini, fjölskyldu og vini.
Hvernig gerum við þetta þá?
Stig 1 - Taktu ákvörðun um að þú getir látið sambandið ganga upp.. gerðu það síðan. Berðu virðingu fyrir hinni manneskjunni og sýndu henni hlýhug, hvort sem hún á það skilið eða ekki.Stig 2 - Ekki búast við neinu í staðinn, núll og nix.
000000
Stig 3 - Ekki leyfa neinu sem hin manneskjan segir eða gerir (hversu pirrandi sem það er)að hafa áhrif á þig. Með öðrum orðum, ekki bíta á agnið.
(- þetta er svaka góð samlíking, þá hugsum við okkur að við séum fiskurinn og hinn aðilinn veiðimaðurinn - um leið og við pirrumst, ergjum okkur, eða látum hafa neikvæð áhrif á okkur, erum við búin að bíta á agnið, föst á önglinum og dinglum þar, kveljumst jafnvel vegna þess)
000000
Stig 4 - Hafðu úthald, með því að halda tign þinni, virðingu og hlýhug. Við gefumst oft of fljótt upp, sérstaklega þegar aðrir svara ekki í sömu mynt. Mundu að búast ekki við neinu á móti.
Stundum, reynist sambandið ögrandi, jafnvel eitrað, þrátt fyrir 100% staðfestu og sjálfsaga. Þegar það gerist þarftu að forðast að vera sá eða sú sem er uppfullur af þekkingu, "Hinn Vitandi" (stundum kallað beturvitringur) og skipta yfir í hlutverk "Þess Lærandi" .. Forðastu yfirlýsingar/hugsanir hins vitandi, eins og "þetta mun ekki virka" "Ég hef rétt fyrir mér, þú rangt" "Ég veit þetta en þú ekki" "Ég skal kenna þér" "Þannig er þetta bara" "Ég þarf að segja þér það sem ég veit" o.s.frv.
Í staðinn skaltu nota yfirlýsingar/hugsanir þess sem Lærir eins og "Leyfðu mér að finna út úr aðstæðum og átta mig á því sem er í gangi." "Ég gæti haft rangt fyrir mér." "Ég er að pæla hvort að þetta hefur eitthvað gildi." o.s.frv. Með öðrum orðum, sem Lærandi, sýndu áhuga, vertu forvitin/n.
Mótsögnin í meginreglunni
Þetta getur hljómað undarlega, en eftirfarandi er mótsögnin: Þegar þú tekur einlæga ábyrgð á sambandi, velur hin manneskjan, oftar en ekki, lika að taka ábyrgð. Þar af leiðir að þetta 100/0 samband breytist fljótlega yfir í eitthvað sem lítur út eins og 100/100. Þegar það gerist, verða straumhvörf í lífi einstaklinganna sem um ræðir, lið þeirra, stofnanir og fjölskyldur.
--
Fyrirsögn mín var samskipti - hamskipti. Hér að ofan skrifaði ég straumhvörf. Getur verið að við getum lært af þessu? Hvernig eru samskiptin í dag. Erum við alltaf að ætlast til að fá borgað? Erum við fúl út í allt og alla því að okkur finnst við vera að gera allt fyrir alla en fáum ekkert til baka. Getur verið að það sé vegna þessa viðhorfs, að vera með tilætlunarsemi? Við foreldrar ættum kannski að hugsa þetta, makar o.s.frv.
Hvað finnst þér? Getur þetta passað? Ég gæti haft rangt fyrir mér?
Annars er sagt að einhver maður hafi sagt einhvers staðar:
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra" ... talandi um meginreglur!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.4.2011 | 05:53
Staðan í skoðanakönnun: 293 kjósa Nei 69 Já ... hversu mikið er að marka þessar tölur?
Ég vil þakka mikla þátttöku í þessari heimagerðu skoðanakönnun, en ég var búin að tilkynna í blogginu á undan að mig langaði að fá 1000 manns, enda bjartsýn manneskja að eðlisfari.
Ég heyrði merkileg rök í gær, með því að við ættum að kjósa Já, en þau voru á þá leið að við værum hvort sem er búin að vera að borga alls konar fyrir einkafyrirtæki og útrásarvíkinga, IceSave væri ekkert öðruvísi.
Ég get ekki tekið undir að þetta séu rök með Já-inu, einmitt öfugt reyndar, því að það er ekki eins og fólk hafi fengið tækifæri til að segja Nei við því sem það hefur verið að greiða hingað til. Þetta er kannski bara kærkomið tækifæri og jafnvel táknræn yfirlýsing fyrir að neita öllu sukkinu? Ég velti því bara upp.
Einnig las ég um að við hefðum látið það viðgangast að þessir reikningar hefðu verið auglýstir sem ríkistryggðar innistæður og að ráðamenn þjóðarinnar hefðu síðan fullyrt eftir hrunið að það yrði samið og skuldir greiddar. Davíð Oddsson, Geir Haarde og Árni Matt skrifuðu haustið 2008 undir samkomulag við Breta og Hollendinga á IceSave innistæðum.
Ábyrgð þessara ráðamanna og annarra sem í þeirra fótspor fylgdu er því mikil - og orðin eru líka býsna stór. Það þykir nú yfirleitt ekki siðlegt að ganga á bak orða sinna.
En eigum við að fylgja þessum ráðamönnum eins og sauðir fram af bjargi, vegna loforða þeirra? Hvar eru þessir loforðaglöðu ráðamenn í dag og hverjir eru þeir?
Ég verð að viðurkenna að mér finnst mikilvægt að við sem þjóð komum fram af heiðarleika, enda heiðarleiki eitt af okkar stærstu þjóðgildum skv. þjóðfundi og á að vera það.
Ef að ríkið hefur lofað ríkisábyrgð og að ráðamenn hafa lofað greiðslum, þá þurfa einhverjir að stíga fram og biðjast afsökunar og segja upphátt að loforðið standi ekki og þeir hafi lofað upp í ermina á sér. Viðkomandi hafi ekki áttað sig á því að verið væri að setja þjóð í ánauð og hún hreinlega neiti að standa undir því, þó seint sé í rassinn gripið.
--
En nú er valdið og valið komið í hendur þjóðar, þetta er ekki auðvelt. Okkur langar að vera ærleg, auðvitað, en er ekki æran ráðamanna að biðjast afsökunar á bullinu og ruglinu og loforðum sem við sem þjóð getum ekki staðið undir?
Ég held að það sé rétt að spyrna við, ekki bara IceSave, heldur líka öllu því sem er í sama dúr og er að endurtaka sig í dag. Hver og einn Íslendingur þarf að líta í eigin barm og íhuga hvort að hann er að styðja það með afskiptaleysi, eða jafnvel þátttöku að ráðamenn, bankastofnanir, útrásar - eða innrásarvíkingar séu að leika sér með heiðarleika þjóðarinnar. Stilla þjóðinni upp við vegg!
Lærum af reynslunni, það sem hér hefur gengið á í efnahagsmálum er eitthvað sem við viljum ekki að endurtaki sig eða haldi áfram.
Það er annað sem hver og einn þarf að skoða hjá sér og það er hvernig hann eða hún er að lifa. Ég nefndi hér áðan hið fína þjóðgildi heiðarleikaog þau hafa mörg flott sprottið fram, eins og jafnrétti, menntun og ég veit ekki hvað. En þegar Gunnar Hersveinn skrifaði bókina um Þjóðgildin þurfti hann að bæta við einu sjálfur, sem var ekki ofarlega á blaði. Það var orðið hófsemd, og held ég að við þurfum að taka það alvarlega til athugunar. (Þar er sú sem þetta ritar engin undantekning).
Við fáum á hverjum degi tækifæri á að snúa við blaðinu. Þegar við snúum við blaði þá reiknum við með því að blaðið sé autt og við byrjum að skrifa söguna upp á nýtt.
Hvað kemur okkur best, hvað kemur sér best fyrir Ísland, hvað kemur heiminum best í heild sinni?
Að taka á okkur ábyrgð og segja "Já, við stöndum við það sem ráðamenn lofuðu, þó okkur finnist ríkisábyrgðin og það sem þeir lofuðu algjör vitleysa?
eða
Að biðjast afsökunar og segja, "Nei við erum ekki tilbúin að taka þátt í svona vitleysu og vorum það reyndar aldrei."
Við höfum tækifæri til að setja fordæmi.
Nýtum það tækifæri vel.
Það erum við sem þjóð sem þurfum að púsla púslinu aftur saman, leiðtogar í pólitík og efnahagsmálum brugðust "BIG TIME" og eru nú búnir að koma þjóðarsálinni í uppnám, hún er tætt og klofin og afleiðing er að hún er farin að verða grimm og orðljót í angist sinni og gagnkvæmum ásökunum. Við elskum öll börnin, vörumst að beita þeim sem vopni í orðaskakinu.
Þjóðarsálinni verður að púsla saman á ný. Notum IceSave en látum ekki IceSave nota okkur.
Hvað sem við gerum, hvernig sem við kjósum leggjum elskuna í atkvæðið okkar, biðjum þess að það verði til góðs.
![]() |
Margir hafa kosið um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
5.4.2011 | 07:31
11 kjósa JÁ, 65 kjósa NEI ... hef þetta opið út vikuna ...
Er með skoðanakönnun í gangi hér vinstra megin á síðunni. Mikill meirihluti hefur hakað við að samþykkja ekki IceSave III samninginn. Ég ætla að halda þessu opnu áfram, fá helst um 1000 manns til að taka þátt.
Vil minna á það að virða hvert annað sem manneskjur þó við séum með andstæðar skoðanir og set hér inn það sem ég sá hangandi upp á kennarastofu í Hagaskóla um Bergmál lífsins, en það er svona eitthvað í þá áttina að brosa til heimsins og heimurinn brosir til þín.
Feðgar voru í göngu upp í fjöllum.
Allt í einu, dettur sonurinn og meiðir sig og öskrar: "AAAhhhhhhhhhhh!!!"
Hann verður voða hissa þegar hann heyrir rödd einhvers staðar í fjöllunum svara sér: "AAAhhhhhhhhhhh!!!"
Af forvitni öskrar hann til baka: "Hver ertu?"
Honum er svarað: "Hver ertu?" Hann öskrar: "Hver ertu?" Honum er svarað: "Hver ertu?"
Sonurinn er orðinn pirraður og svarar: "Heigull!"
Honum er þá svarað: "Heigull!"
Sonurinn horfir á föður sinn og spyr: "Hvað er að gerast ?"
Faðirinn brosir og segir og taktu nú vel eftir:
Faðirinn öskrar upp til fjallana: "Ég dáist að þér!"
Hann fær svar: "Ég dáist að þér!"
Aftur öskrar faðirinn: "Þú ert meistari!"
Honum er svarað um hæl: "Þú ert meistari!"
Sonurinn er hissa, en skilur ekki hvað er um að vera.
Faðirinn útskýrir: Fólk kallar þetta bergmál, en í raun er þetta lífið sjálft.
Lífið gefur til baka allt sem þú segir og gerir.
Lífið endurspeglar gjörðir okkar.
Ef þú vilt meiri kærleik í heiminn í dag, byggðu upp meiri kærleik í hjarta þínu.
Ef þú vilt bæta lið þitt, bættu þig.
Þessi tenging á við um alla hluti lífsins.

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fram fram fylking,
forðum okkur háska frá
því ræningjar oss vilja ráðast á.
Sýnum nú hug, djörfung og dug.
Vakið, vakið vaskir menn
því voða ber að höndum.
Sá er okkar síðast fer
mun sveipast hörðum böndum.
Eins og í þessum leik, "Fram, fram, fylking, sem flest okkar þekkja, þurfum við að velja. Ekki að velja epli eða appelsínu, heldur að velja Já eða Nei. Þeir sem ekki taka þátt í "leiknum" segja auðvitað ekki neitt.
Þjóðin fer í halarófu og togar hitt liðið yfir á sitt svæði og enginn veit fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu hvernig fer. Mér finnst svolítið sorglegt að mikil harka virðist vera komin í "leikinn" og menn farnir að taka býsna djúpt í árinni við þá sem fyrirfram hafa lýst yfir sínu vali.
Kostirnir eru eiginlega báðir vondir, það er ekkert svart né hvítt í þessu og engin/n getur lýst yfir að hann eða hún hafi höndlað stóra sannleikann.
Hver og ein/n verður að fylgja SINNI sannfæringu, við verðum að virða hana og virða hvert annað.
Það má með kannski segja að ræningjar hafi ráðist á okkur, eins og segir í textanum hér að ofan. Reyndar á mun fleiri vígstöðvum en hvað IceSave varðar.
Sýnum nú hug, djörfung og dug! Hver og ein/n verður svo að gera það upp við sig hvað í því felst.
Þú mátt svo gjarnan taka þátt í skoðanakönnunni hér til vinstri
![]() |
Bretar og Hollendingar sagðir óttast dómstólaleiðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
1.4.2011 | 05:55
Vantrúar- og kristinnar trúar, Já - og Nei trúar fólk sameinast í bænahring fyrir IceSave á Ingólfstorgi í hádeginu í dag
Lítill fugl hvíslaði því að mér að við ættum von á hópi fólks úr ólíkum áttum, pólitískt, ópólitísk, trúar og vantrúar, og að sjálfsögðu Já- og Nei sinnum til að mynda hring á Ingólfstorgi og biðja fyrir bestu mögulegu útkomu í IceSave málinu.
Þetta eru mjög áreiðanleg skilaboð sem hægt er að treysta, enda fuglahvísl ávallt óbrigðul og óskeikul (sem páfinn) fréttauppspretta sbr. smáfugla AMX.
Öll sverð munu slíðruð, múrar milli manna felldir og farið verður með möntruna:
"Allt sem við viljum er friður á jörð"
Ath! Yoko mun því miður ekki geta verið á svæðinu, en John hefur boðað komu sína (skv. Sigurði Haraldssyni, eldgosaspámiðli) og búið er að setja ljósaseríur á steinsúlurnar sem tákna öndvegissúlur Ingólfs og munu þær gegna hlutverki friðarsúlna í dag. Hjalti Rúnar, sérlegur áhugamaður um bænahald, mun leiða samkomuna.
You Save - I(ce)Save
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
31.3.2011 | 18:39
Eva Rós, litla ljós ...
EVA RÓS
Eva Rós, litla ljós
bros þitt burt tárin tekur
lítil sæt
svo dýrmæt
með mér hamingju vekur
Megir þú dafna mitt dýrðarljós
lýsa´um ævi alla
Eva Rós, Eva Rós
Heyr þína framtíð kalla
(Lag: Alparós)
(Texti: Amma)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.3.2011 | 07:40
"Ekki gera drauma súra" ..
Eitt af því sem ég heyrði nýlega var þessi setning:
"When the time is on you start and the pressure will be off" ..
Það sem mér datt helst í hug var frásögn systur minnar sem sagðist hafa verið á leiðinni að taka til í geymslunni sinni í langan tíma, var með það hangandi yfir höfði sér og svo loksins þegar hún dreif í því þá tók það 15 mínútur og var mikill léttir. (Ég er reyndar með nokkur svona "unfinished business" sem væri gott að klára og tengi því vel við þetta, efast ekki um að þú sért það líka!)
Að taka til í geymslu er svo sannarlega enginn draumur. En þetta virkar svipað. Við erum með bók í maganum, við erum með alls konar hugmyndir og drauma sem eru að gerjast í okkur. Hugmyndir sem við geymum og geymum og spurningin sem kemur þá upp hversu langt geymsluþolið er. Geta draumar súrnað?
Það er talað um "pressure" í enska máltækinu. Pressan kemur að sjálfsögðu oft innan frá. Pressan getur líka verið tákn um eldmóðinn til að gera hlutina, svona "Carpé Diem" .. grípa daginn, grípa tækifærið þegar það berst upp í hendur þínar. Ekki hika við þegar að tækifærið býðst. Hvort sem þú býður þér það sjálf/ur eða það kemur utan að frá.
Ég á mér drauma og flest eigum við drauma. Spurning hvort að við þurfum að fresta þeim eða hvort við getum byrjað að láta þá rætast, og spyrja okkur - hvað stoppar þig? Er það eitthvað utanaðkomandi eða ert þú að stöðva drauma þína sjálf/ur? Hver er þín stærsta hindrun?
Ég veit svarið fyrir mig: ÉG ...
p.s. pældu aðeins í hver þín stærsta hindrun er - og hvaða úrtölurödd eða raddir þú heyrir. Ég veit að ég er mín stærsta hindrun og stunda niðurbrot með reglulegu eða óreglulegu millibili, ef það er ekki ég þá gef ég út leyfisbréf fyrir aðra að gera það, alveg í tonnum sko, jafnvel raddir úr fortíð eru með leyfisbréf!
.. Eða kannski gaf ég út leyfisbréf sem þarf að ógilda, þykist vera búin að átta mig á þessu öllu, en það er stutt í teygjunni sem kippir manni í gamla farið og þess vegna er mikilvægt að halda henni strekktri og það gerum við með að vera meðvituð um mátt hugans.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2011 | 07:44
Manneskja- ekki eins og þú, heldur bara þú ..
Á frábæru námskeiði í Opna Háskólanum í HR um lífsgæði, fengum við fyrirlestur og æfingar í jóga. Vænt þótti mér um að læra að gælunafnið mitt Jóga þýðir "Union" eða sameining, ekki skóla - heldur líkama og sálar.
Auður Bjarnadóttir hjá Jógasetrinu var leiðbeinandi okkar, með þetta líka nærandi og jákvæða viðmót.
Við gerðum froska-, hunda-, fjalla-, trjáa- og ég veit ekki hvað- æfingar og allt með gleði. Það var mjög áhugavert að prófa þetta og reglan var að dæma okkur ekki.
Úff, það er erfitt og datt ég iðulega í það að dæma mig fyrir stirðleika. Skamma sjálfa mig fyrir að hafa ekki verið að hreyfa mig nóg undanfarið.
Í staðinn fyrir að skammast í sjálfri mér á ég auðvitað bara að byrja á 0 punkti, með hreina blaðsíðu og nýta þessa upplifun og draga af henni lærdóm. Jú, ég þarf að liðka mig og hreyfa meira. Ég held að Jóga gæti alveg orðið leið Jógu!
En þetta er bara forsagan, þó að margt sitji eftir eftir að hlusta á Auði og ég hafi skrifað niður hvaða reykelsi hún notaði og ýmsan fróðleik, þá sagði hún okkur söguna af manni sem fór að læra í Sanford háskóla. Pabbi hans gaf honum í "veganesti" að sama hvað hann lærði og gerði, alltaf yrði einhver sem skaraði fram úr honum. (Stundum "pain in the ass" eða verkur í rass þessir foreldrar!).
Sonurinn svaraði þá, "það er ekki rétt - enginn getur orðið betri ég en ég" ..
Auðvitað eigum við að leitast við að vera besta eintakið af okkur sjálfum. Rækta þær gjafir og gáfur sem okkur eru gefnar. "A gift" er gjöf á ensku, en þýðir líka gáfa. Það er ekki að ástæðulausu. Það er eiginlega bara hirðuleysi að fara ekki vel með það sem okkur er gefið. Gáfurnar okkar, hæfileikar okkar eru fræ sem við þurfum að vökva, gefa birtu og yl, akkúrat til að þær dafni.
(Smá fróðleiksmoli úr Biblíunni - þar er talað um talentur og hvernig við förum með þær, en auðvitað eru talenturnar bara hæfileikar, sbr. talents á ensku.)
Það er mikilvægt að grafa ekki talentur sínar, hylja ekki hæfileika sína, heldur einmitt að láta ljósið skína á þig og hæfileika þína til þess að þú náir að skína.
Allir hafa hæfileika, en á mismunandi sviðum. Það er mikilvægt að lista upp sína hæfileika - sína kosti, því þannig er auðveldara að rækta þá. Ef þú ert í vafa, spurðu þá fólkið í kringum þig. Hvaða kosti hef ég? .. Það á eftir að koma þér á óvart hvað þú hefur í raun marga kosti. Sjálfsþekking er mikilvæg, einmitt til þess að við getum kannast við og ræktað hið góða, það sem við veitum athygli vex. (Það er staðreynd).
Þegar við áttum okkur á því að engin/n verður betri við en við, þá er líka mikilvægt að sættast við okkur sjálf, og reyndar ekki bara að sættast, heldur að þykja vænt um okkur sjálf.
Það verður aldrei neinn betri þér í að vera þú .. takmarkinu er náð þegar við höfum gert okkar besta, en ekki besta einhvers annars!
Þú ert dásamleg sköpun,
sem ert gerð til að blómstra og ilma
Gefa angan þína öðrum
svo þeir fái að blómstra og ilma.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)