... börnin eru byrjuð að borga

Ágæta fólk, nú verðum við aðeins að doka við og íhuga hvað við erum búin að vera að gera og hvernig við höfum hegðað okkur í íslensku samfélagi.  Vildi gjarnan deila þessari vitundarvakningu sem ég fékk í sturtunni í morgun!  Wink

Hvers konar fyrirmyndir erum við komandi kynslóð? 

Ásakanir fram og til baka og uppnefningar eins og þjóðernisrembur og landráðamenn eru okkar daglega brauð í dag og eflaust barnanna líka. 

Því miður hefur myndast, þrátt fyrir vorkomuna, dimmt neikvæðniský yfir Íslandi, sem við verðum að blása á brott. 

Ég hef verið að íhuga hvers vegna svona mikið af fólki líður illa, sérstaklega mikið af ungu fólki. Ég veit að hin neikvæða umræða þar sem óttinn er orðinn eins og átrúnaðargoð hjálpar ekki til. 

Í fyrirsögnum stendur; "börnin munu borga" .. en elsku samferðafólk, þegar litið er að hinni andlegu hlið þá eru þau byrjuð að borga. Þau finna andann sem ríkir, þau heyra á tal okkar og lesa fréttir. 

Samstarfsfélagi minn fór í gufubað nýlega til að slaka á og losa spennu, þar var ekki friður fyrir köllum sem þurftu að æsa sig yfir IceSave.  Hann gerðist svo djarfur að segja við þá að hann hefði komið þarna til að ná hvíld huga og líkama, en þögnin náði bara yfir nokkrar sekúndur svo gátu þeir ekki hamið sig.  Við þurfum samræðupólitík, en ekki ásakanapólitík, hvort sem um er að ræða bankamál eða borgarmál.  Vona að einhver alþingismaður lesi þetta.  Ræðum saman en ekki sundur.

Þó við getum ekki sameinast um "Nei-ið" eða "Já-ið" þá veit ég að við getum sameinast um börnin.  Þau þurfa ekki einungis efnahagslegt öryggi, þau þurfa gleði, frið og jákvæðni .. og það mikilvægasta af öllu - athygli

Getum við hamið okkur, a.m.k. komið fram af virðingu við fólk með andstæðar skoðanir og verið börnunum góð fyrirmynd? 

Ath! Við erum í raun öll sem börn, - gætum að því hvað við erum að innbyrða af andlegu fæði og íhugum hvaða áhrif það hefur á okkur. 

 

 


Froskasaga (sein)froskasaga? ...

Tveir forvitnir froskar féllu ofan í stóra rjómakönnu, ekki spyrja mig hvernig þeir fóru að því! 

Það var hátt upp á brún og annar froskurinn gafst fljótlega upp, sá ekki tilganginn í því að sprikla þarna og lét sig sökkva til botns. 

Hinn froskurinn var þrjóskari og spriklaði og spriklaði og hrópaði á hjálp. 

Allt í einu fann hann fast land undir fótum, og gat gripið í brún rjómakönnunnar og stigið upp úr! Ribbid .. 

Hvað gerðist? ....

 smiling-frog.jpg

Mér var sögð þessi saga fyrir nokkrum árum og hef oft notað hana síðan, ekki síst fyrir nemendur sem eru í uppgjafarhug. Ef við spriklum nógu lengi og gefumst ekki upp þá eru miklar líkur á því að rjóminn þeytist og verði að smjöri! 

Ég þekki ekki uppruna þessarar sögu, en hún er vel þess virði að dreifa áfram. 

 

 p.s.  flestir sjá að "pointið" með þessari sögu er hvatning til að gefast ekki upp þrátt fyrir að aðstæður virki jafnvel vonlausar, en orðið tilgangur skiptir líka stóru máli í sögunni.  Þó við komum ekki auga á tilganginn hér og nú með því sem við erum að gera, þá sjáum við hann oftar en ekki eftir á.

 p.p.s. (tveimur tímum síðar) 

Fann við einfalda leit uppruna sögunnar, sem var reyndar í ljóðformi.  

SMELLIÐ HÉR

 


Lausnin er ..

Að mér sækja mörg mál og spurningar, bæði mín eigin og annarra. Ég fórna oft höndum upp í loft og spyr hvað á ég að gera????  og hef komist að því að  það er bara góð leið - því að þegar ég fórna höndum er ég um leið að biðja almættið um aðstoð. "Come what may" .. 

Eitt af því sem kom í fangið á mér við svona "fórnarhandaathöfn" var að breyta um fókus, setja hann af vandamálinu yfir á lausnina og finna svo leiðir að lausninni.  Lausnin er s.s. markmiðið.  

Hvar er ég stödd í dag svona hamingjulega séð á skalanum 1-10 og svo spyr ég mig, hvar vil ég vera stödd á skalanum 1-10?  Vilja ekki allir vera staddir á 10?..   Ef ég er stödd á skalanum 6 í dag, hvað skortir upp á að ég t.d.  kæmist upp á 7 eða 8? .. 

(Það skal tekið fram að 10 er þegar við toppum, það er flott að vera á 7 - 8! .. Við verðum líka að fara aðeins niður á milli til að toppa aftur). 

Það getur verið ýmislegt tengt: 

 - efnahag  (get ekki greitt reikninga, get ekki leyft mér neitt) 

- sambandslegt  (ósætti við maka, makaleysi,  ósætti við systkini, fjölskyldu, vini) 

- vinnu eða námstengt   (atvinnuleysi, óánægð í vinnu/skóla, gengur illa í vinnu/skóla)

- heilsufarslegt  (veikindi, andleg eða líkamleg, hreyfingarleysi) 

-  tómstundir  (vantar áhugamál, vantar tíma til að sinna áhugamálum) 

 ... 

Eflaust mætti tína fleira til, en þarna eru svona ýmis atriði sem koma í hugann að mætti skoða, stundum er aðeins eitt af þessum fimm sem er vandamál,  stundum er tilveran bara öll einhvern veginn úr skorðum og þessi atriði skarast vissulega stundum.  Heilsan er t.d. hluti af þessu öllu. Hreyfing gæti verið lykill að því að allt þetta færi að rúlla o.s.frv. 

Maður gæti kannski gefið sér einkunn fyrir hvern stað.  Hver er stærsti póllinn hjá þér? ..  Hvar skorar þú lægst?  Hvar skorar þú hæst? 

Ok, ef við höfum fundið það út - þá er næst að spyrja sig, hvert er vandamálið og hvernig leysum við það.  Hvernig komumst við á þann stað sem okkur langar að vera og hvaða úrræði eru í boði?

Oft er þetta spurning um vilja.  Hver og ein/n verður að spyrja sig - hvað vil ég?  Hvernig vil ég að samband mitt sé við aðra, hvernig vil ég standa efnahagslega, náms/atvinnulega, hvað vil ég hafa fyrir stafni í tómstundum o.s.frv. 

Þá er næst að skrifa niður hjá sér framtíðarsýnina, hvernig hún er ef hún er upp á 10! ..  

Dæmi eftir eitt ár (og nú fer ég út fyrir öll persónuleg mörk, vegna þess að ég er að gera þetta til að ÞÚ getir gert þetta fyrir þig). 

Í dag er 27. mars árið 2012,  ég þarf ekki að hafa áhyggjur af peningamálum því að ég er farin að vinna við fyrirlestra og ráðgjöf, sem gefa mér nóg til framfærslu og ég hef efni á að gauka að börnunum mínum við og við,  ég er í góðu sambandi við fjölskyldu mína og við hittumst reglulega og höfum gaman saman,  börnunum mínum gengur vel og líður vel og þau eru miklir vinir, ég er ástfangin af manni sem er sálufélagi minn og samstarfsmaður í blíðu og stríðu og við styrkjum og virðum hvort annað. Við förum reglulega saman í göngutúra, og við stórfjölskyldan gerum það líka, þó ekki eins oft. Ég er að dunda mér við að mála myndir fyrir fólk, með skilaboðum um hvernig það á að taka á sínum málum. Ég nýt hvers dags og tek á málunum þegar þau koma í fang mér. Ég elska lífið. 

Þetta gæti verið 10 hjá mér,  hvernig er 10 hjá þér? 

Eftir að þú hefur skrifað þetta niður, þá þarf að fara að forgangsraða og skoða,  hvað get ÉG gert? 

Ég hef það eftir Sigursteini Mássyni hjá Geðhjálp að fyrsti steinninn sem best sé að setja í krukkuna sé ávallt hreyfingin og ég er sammála honum.  Hreyfa sig og anda að sér frísku lofti daglega er grundvöllur.  (Auðvitað hafa ekki allir þennan möguleika, t.d. þeir sem eru á sjúkrabeði, en þá er t.d. gott að hlusta á hugleiðslu sem innifelur í sér hreyfingu og hægt sé að komast á einhvers konar flug) og fríska loftið er ókeypis fyrir hvern sem er. 

Samskipti koma sterkt inn á eftir hreyfingunni, okkur líður varla vel í nokkru sem við gerum ef að hnökrar eru á samskiptum.  En hvað getur þú gert ef að allir hinir eru leiðinlegir? .. Átt þú þá bara að vera í sama gír, eða getur þú lagað eitthvað hjá þér. Getur verið að þú sért sjálf/ur ekki að tækla fólk eins og þú gætir? 

Samskipti okkar eru því miður oft forrituð inn í okkur frá bernsku, við dettum í sömu svörin og viðbrögðin sem við vitum að eru ekki rétt, sem við pirruðum okkur á varðandi foreldra okkar. Allt í einu erum við orðin dómhörð, leiðinleg, ófús til sátta o. s.frv. allt eins og við viljum akkúrat EKKI vera.  Þá verðum við að fara í "endurforritun" því að það sem við höfum gert hingað til er ekki að virka fyrir okkur.  (Þetta er að vísu efni í annan pistil en t.d hægt að lesa sér til um meðvirkni). 

Áður en pistillinn verður allt of langur - sem hann eflaust er orðinn - ætla ég að endurtaka það sem málið snýst um.  Lausnin er: 

Að átta sig á að um vandamál sé að ræða 

Sjá fyrir sér hvernig maður vill að lífið sé án þessa vandamáls 

Stíga skref fyrir skref að lausn og þá helst með því að horfa inn á við, hvað get ÉG gert, það er miklu auðveldara að breyta sjálfum sér en öðrum (en þegar að aðrir sjá breytinguna á þér, gætu þeir farið að gera slíkt hið sama). 

Einfalt dæmi: Ef þig langar í hrós, en færð aldrei hrós, .. farðu að hrósa! .. Þá ert þú orðin fyrirmynd. 

Ekki sitja ein/n með vandamál, leitaðu hjálpar því það er viska að viðurkenna vanmátt sinn, deila með öðrum sem eiga kannski úrræði og vilja gjarnan hjálpa.  Að biðja aðra um hjálp er ein stærsta gjöf sem þú getur gefið viðkomandi,  því í því felst tilgangur okkar; að hjálpa hvert öðru.  

Hér er ég ekki að tala um algjört hjálparleysi, að gera aldrei neitt sjálf/ur og biðja strax aðra um að gera fyrir sig, þannig er enginn sáttur. Ég er að tala um hjálp í vanda - nú og auðvitað má biðja um hjálp í gleði.  Vinkona mín bað mig nýlega um hjálp varðandi veislustjórnun.  Það gladdi mig, því að með því sýndi hún að hún trúði á að ég gæti hjálpað, hefði eitthvað til málanna að leggja.  

Á sama hátt, þegar þið eruð beðin um hjálp í vandamáli - þá gleðjist, því að viðkomandi hefur það traust á ykkur að hann telur að þið hafið eitthvað til málanna að leggja.  Trúir á vináttu og/eða fagmennsku, innsæi o.s.frv. þitt.  Það er því verið að sýna þér virðingu með því. 

Lausnin er að gera sér grein fyrir stöðu sinni, spyrja sig hvort að maður sé sáttur við hana, ef ekki að leita lausna. Þær eru alltaf til. 

Stundum er djúpt á þeim, en þá þarf að kafa - stundum niðrá botn, en svo er hægt að spyrna frá botni. 

Við verðum að flæða - en ef að rennslið stöðvast í eða úr þá verður til fúll pyttur.  Það flæðir til okkar og það flæðir frá okkur.  "Let the river run" ..

 

71135_186285794719518_5921503_q_1072879.jpg

 

 

 

 


Játning kaup(g)óðrar konu ....

photo_on_2011-03-26_at_17_30.jpg Á þessari mynd er kjóll (sem var á 50% afslætti), lífrænt ræktað "Cakao nibs" og "Mulberry berries" sem konan ætlar að nota út á morgunkornið.  Solid ávaxtaorkudrykkur, sem var frumkvöðlaverkefni nemenda í FG,  smekkur fyrir Evu Rós sem á stendur "Það geta ekki allir verið gordjöss, eins og ég" og samfella fyrir hana sem á stendur "Ég er ekki að kúka ég er bara að hugsa mjög stíft"LoL (amma með frekar spes húmor).  Svo er bolur fyrir Elisabeth Mai sem á stendur "Little Miss Chatterbox"  (gæti tilheyrt ömmunni að vísu) og að lokum einhver ómissandi olíupenni sem á stendur "Deep relief" og það hefur ekkert með kynlíf að gera!

 

Þetta var s.s. uppskeran eftir að fara í Smáralind, sem ég venjulega forðast eins og heitan eldinn - og það sama má segja um Kringluna. Fór í þessa ferð með Huldu systur í þeim tilgangi að skoða sýninguna "Heilsa og hamingja" ..  en hluti af góssinu er að sjálfsögðu fenginn þaðan! 

Ég er að hugsa um að nota ráðið sem ég heyrði hjá konunni, sem setti visakortið sitt ofan í mjólkurfernu fyllta með vatni - og frysti síðan.  Slæmt nefnilega að eyða meira en maður/kona aflar! 

Þetta gerist sem betur fer ekki oft, .....  

Heilsa og hamingja það er málið! 


Hugrekki .. að lifa af heilu hjarta

Ég hlustaði á mjög góðan fyrirlestur á ted.com í gær,  þar sem Brene Brown sagði sína reynslu og frá sínum rannsóknum á Mætti berskjöldunar eða varnarleysis.  "Power of Vulnerability" .. Ég er í vandræðum með þýðingu á þessu!  

Það er hægt að  skoða margt í þessum fyrirlestri,og ég er búin að skrifa marga punkta, en það sem mér er efst í huga núna er það sem hún minntist aðeins á en það er hugrekkið, eða "courage" .. 

Íslenska orðið hugrekki bendir til hugans, en courage bendir til hjartans, en er komið af latneska orðinu core, sem þýðir hjarta. Á frönsku er hjartað coeur.  Enskan tekur core og notar það fyrir kjarna. 

En hugrekkið er eitthvað sem kemur frá kjarnanum, frá hjarta manneskjunnar. Það er þó umdeilt í  andans fræðum hvort að kjarni hugsunar manneskjunnar sé í maganum (gut feeling)  eða hjartanu (follow your heart).  Kannski bara bæði.  Naflinn er a.m.k. miðpunktur og skil ég vel pælingarnar með það - enda með nafnið á blogginu mínu "Naflaskoðun" ..  sem þýðir auðvitað að líta inn á við, líta í sinn innsta kjarna. 

En hvaða hugrekki er Brene að tala um?  Hún er að tala um hugrekkið: 

- við að sætta sig við að vera ófullkomin

- við að leyfa sér að lifa, 

- við að  lifa eins og við viljum sjálf 

-  að lifa eins og við erum í innsta kjarna en ekki eins og utanaðkomandi vilja eða halda að maður vilji lifa

-  til að meta sjálfa sig sem gilda manneskju

 --------

Fólk sem er tilbúið að faðma sjálft sig fyrst og svo aðra, er hugrakkt.

 Fólk sem er tilbúið að vera það sjálft, láta af því að vera það sem aðrir vildu að þeir væru.

- til að samþykkja varnarleysi sitt eða viðkvæmni sína,  varnarleysi er nauðsynlegt.

Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat.  En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum.  

Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást - þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv.  Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.

Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis.  Nýlega var grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.  

Hugrekki - er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við.  Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.

Við þurfum að hafa hugrekki til að ganga inn í aðstæður, án þess að vita hver útkoman verður. Hætta að strengja öryggisnet fyrir tilfinningar. 

Ástæðan fyrir því að við oft höfnum ást er óttinn við að vera hafnað sjálfum, eða óttinn við að særa aðra.   Það þýðir að við erum farin að setja óttann í forgang fyrir ástina.  Hugrekki er að fara af stað þrátt fyrir óttann, þannig sigrumst við á honum. Útkoman verður bara að koma í ljós, en ef við stöðvum okkur vegna óttans verður engin útkoma og við lifum í stöðnun. 

Það sem hér á undan kemur er blanda af mínum eigin hugrenningum og Brene Brown. 

Hlustið endilega á þessa Brene Brown (smellið á nafnið hennar).  það er margt sem hægt er að læra af henni. Ég er að safna mér fyrirmyndum og hugmyndum í mína körfu, hún er komin. 

Fann svo þessa fallegu mynd af jörðinni sem hjarta - það er gott að hugsa til hennar sem hjartað sem slær fyrir okkur öll sem eitt. 

 heart_earth.jpg


Afsakið hlé - - - - - - - - - - - - - - - - -

Ég hef ekki bloggað um pólitík né trú undanfarið - en það er meðvituð ákvörðun. Það eru vist nógu margir um hituna hvað það varðar.  Er ekki frá því að ég sé komin með vægt, nei höfum það heiftarlegt ofnæmi fyrir Æseif - só tú seif mí ákvað ég gera eins og baggalútsmenn og taka Frúnna í Hamborg á þetta, þar sem hvorki má segja Nei eða Já, Svart eða Hvítt,  og segja bara Kannski. 

Lífið á gráa svæðinu er virkilega unaðslegt. Lífið á gráa svæðinu er svona eins og að lifa eftir æðruleysisbæninni.  Að vera ekkert að böggast í því sem maður getur ekkert að gert! Leyfiapólitíkusunum að vinna vinnuna sína  og mér að vinna mína. 

Hjúkkit hvað það er mikill léttir. Ég fæ ekkert samviskubit yfir því að vera ekki brjáluð á blogginu út af öllum fj..... 

Trúmál og kirkja hefur líka fengið að eiga sig á blogginu hjá mér. Guð sér um sig og sína (við erum öll Guðs)  - punktur. Við þurfum ekkert að koma honum/henni/þvi til varnar. 

Ýmsir valdamenn innan þjóðkirkju Íslands eru að naga hana innan frá, það kemur Guði ekkert við - og þessir menn breyta ekki Guði. 

Nú er ég komin út á hálan ís og hætt að hugsa grátt og komin yfir í svart/hvítt. 

Eftir hlé: 

Förum nú aðeins út í föstudagsnotalegheitin ... 

11inpiggy.jpg

 

 


Þakkir fyrir föstudag og konan á leið í velúrinn ....

Vaknaði timbruð í morgun, þrátt fyrir að hafa ekkert drukkið. Sideways  .. Frekar óréttlátt, en reyndar vissi ég orsökina, en hún var sú að ég vaknaði upp í nótt og gat ekki sofið. Það er hugurinn sem er svo upptekinn að hann vekur mig aftur og aftur, það flæðir út fyrir svefninn.  Það er ekki endilega slæmt, en ég held stundum að það sé offramboð af hugmyndum og hugsunum í höfðinu mínu. Nú er bara að koma eitthvað af þessum hugmyndum í framkvæmd.

Ég náði s.s. að sofna, en vakna timbruð eins og áður sagði. Fór í fína svarta Elm kjólinn minn, svartar sokkabuxur og svört stígvél .. alveg eins og ég væri að fara í jarðarför, sem var reyndar á stefnuskránni. Setti meira að segja hnút í hárið, svo ég var orðin ein virðulegasta kona Vesturbæjar. 

Rabbaði við systurnar á Facebook þar sem stóra systir fullyrti að engin minningargrein um Helgu frænku og móðursystur okkar hefði birst á mbl.is - en ég hafði nýlokið við að lesa einmitt æviágripið og minningargreinarnar og þar á meðal þá sem ég hafði sent. En, nei, nei .. einhver vitleysa í mér, fullyrti hún. (Sem var að sjáflsögðu ekki rétt).  Ekki var ég að lesa ímyndaðar greinar! "Standa á sínu Jóhanna"  (þetta var uppbyggilega röddin!) 

Fór svo til vinnu og sat ágætan starfsmannafund, síðan í skólann til að rabba við nemanda, sem kom í ljós að var ekki sama sinnis,  þ.e.a.s. hann ætlaði ekkert að rabba við mig því hann hafði tekið þá vafasömu ákvörðun að mæta bara alls ekki í skólann. Í starfi mínu skiptast á skin og skúrir,  þ.e.a.s. eftir hvernig gengur með nemendur - að virkja þau og vekja,  en stundum er þetta eins og að raða spilum upp í  spilaborg, það þarf svo lítið til að allt hrynji.  Þetta tekur á, en virkilega gaman þegar vel gengur, og þegar ég fer að sjá einhvern blómstra.  Hver og ein/n skiptir gríðarlega miklu máli. 

Fór svo að sækja mömmu á Droplaugarstaði, þar sem yndislegar starfskonur voru búnar að klæða hana upp í jarðarfarardressið og hún var nýbúin í hárgreiðslu. Gat ekki verið betra! 

Útförin var virkilega falleg og sr. Þór Hauksson stóð sig með sóma. Okkur systkinum tóks að villast í Gufuneskirkjugarði,  en "what else is new" ? ... 

Enn og aftur, ákváðum við systkinabörnin í erfidrykkjunni að hætta að hittast einungis í jarðarförum, en spurning hvort og þá hvenær við látum verða af því? .. 

Nú er ég s.s. komin heim - búin að rífa úr mér hnútinn, hárið eins og illgresi um allt (löngu kominn tíma á klippingu) og stefni í velúrbuxur, þægilegan bol og kósý kvöld í sófanum. 

Það verður nú eiginlega ekkert betra - svona miðað við efni og aðstæður! 

Þessar konur eru þó nokkuð meira aðlaðandi í velúrnum en sú sem hér ritar ... 

velur.jpg


Undir áhrifum Creed ....

Með faðminn opinn

böðuð í mætti sólar

göngum hvort öðru í mót

með orðum og tárum 

biðjum bænar

um líf 

innblásið af ást og sátt

allt er gefið

af heilum hug

með opnu hjarta

sem flýtur að fullkomnun

óskirnar rætast sem ilmandi rós

og við verðum heimur án þyrna ..  

 

 

 


Þakkir á fimmtudagsmorgni ..

Það er margt í pípunum hjá konunni, á mörgum vígstöðvum - það eru samt engar "víg" stöðvar!

Eitt af þakkarefnum gærdagsins var þegar að stelpan sem stal pelsi dóttur minnar sl. laugardagskvöld gekk í gærkvöldi inn á veitingastaðinn sem dóttirin starfar á! .. Hversu óheppin er sá þjófur?  - Þetta er eiginlega eins og farsi. En þetta var saga sem endaði vel. Það sem af þessu má m.a. læra  var að dóttir mín var alltaf ákveðin í þvi að finna þennan pels aftur og missti ekki sjónar af því. Gott mál hjá henni.

Ég ákvað í gær að skella upp einu hugleiðslunámskeiði, þrjú kvöld - þar sem ég fer í "andlegt ferðalag" og leyfi fólki að prófa að uppgötva leyndardóma þess sem það á innra með sér.  Skráning á www.lausnin.is 

Í dag er "mömmudagur" þ.e.a.s. ég heimsæki mömmu á Droplaugarstaði, - en á morgun fer fram útför systur hennar og frænku minnar, Helgu Kristjánsdóttur og skrifaði ég smá minningarbrot um hana fyrr í vikunni. Birti það hér á morgun - og væntanlega kemur það í Mogganum líka. Mér fannst notalegt í gær þegar að presturinn sagði að nú væri hún orðin engill.  Við svífum út úr líkama okkar við dauðann, eins og risastór gegnsær hvítleitur fugl - það er mín sýn, þó aðrir sjái þetta öðruvísi. 

Í gær samdi ég vísu sem svar við ljóði Magnúsar Geirs Guðmundssonar, sem hann setti inn á Facebook - status: 

Saurgist mín samviska hrein
og sálar glati ég styrk
þá bíður mín þögnin ein,
þrúgandi döpur og myrk.

(MGG)

Upp rís sálar styrkur

syngja englaraddir

sólin sigrar myrkur

sorgartónar kvaddir. 

(JM) 

Það er svona "Upp, upp, mitt geð og öll mín sál" .. tónn í þessu, enda alin upp við að heyra þessar línur sálmaskáldsins á morgnana þegar mamma var að vekja okkur systkinin. Oft hefur það komið mér á fætur og styrkt mig. 

Ég sá að Ragnheiður Gröndal er að fara að syngja á Græna Hattinum, - verst að vera ekki fyrir norðan! - hún er ein af mínum uppáhaldssöngkonum, röddin einstök og ljóðin ekki af verri endanum sem hún hefur valið að flytja! ..

 


Stöðvum einelti - mín reynsla ...

Varnarsigur ástralska skólastráksins Casey Haynes hefur varla farið fram hjá neinum, nú ef einhverjum set ég hér tengil á myndbrotið þar sem hann springur loksins eftir margra ára einelti og tekur á þeim leggja hann í einelti.

Mér finnst svo sorgleg lokaorðin í ráðinu sem hann gefur, ... að skólinn muni ekki endast að eilífu. "School aint gonna last for ever" .. hann sér ljósið í því. Þessi orð segja mikla sögu. Í hans huga hefur skólagangan augljóslega verið helvíti á jörðu. Hann sér fyrir sér og fyrir aðra að eineltið tengist skólanum og það hætti þegar skóla lýkur.  Það er mikil ádeila, a.m.k. á það skólaumhverfi sem hann hefur verið í. 

Einelti Casey virðist koma föður hans verulega á óvart, en það var skv. honum, stóra systir hans sem hjálpaði honum í gegnum svörtustu hugsanirnar sem voru komnar út í það að hugleiða sjálfsvíg. Það er gífurlega mikilvægt að börn fái styrkingu heiman frá, eigi trúanaðaraðila, fái hlustun og athygli. En jafnvel "fullkomnasta" fjölskylda getur aldrei verið örugg um að barnið þeirra segi frá. 

Ég á svona reynslusögu frá minni bernsku, þar sem systir mín byggði mig upp og ég gat leitað til hennar. Þannig var að ég skipti um skóla þegar ég var 12 ára.  Ég varð einangruð og lokuð við það, mjó (sem var ekki í tísku þá), með gleraugu og útstæð eyru. Mér gekk mjög vel í skólanum - en tilfinningin sem ég fékk þegar að kennarinn tilkynnti upphátt hver væri hæst var mjög blendin. Mér fannst athyglin óþægileg því ég var hrædd við óvinsældir í framhaldi af því og orð sem voru látin falla í minn garð sem voru yfirleitt ákveðin uppnefni, en auðvitað var ég ánægð innst inni að mér gekk vel. Þarna lærði ég það þó að mín velgengni virtist skyggja á aðra og ég gat ekki glaðst yfir henni. 

Þessi neikvæða athygli og útlit mitt varð til þess að mér var strítt, og svo bætti í að mamma saumaði á mig föt svo ég var enn meira öðru vísi. Var að vísu á undan tískunni, en það var erfitt á þessum tíma. Var komin í buxur sem voru beinar niður hálfu ári áður en sú tíska kom á Íslandi, því mamma notaði hugmyndir erlendis frá, og svo kannski hefur systir mín haft áhrif en hún var ákveðin í að verða fatahönnuður, sem hún seinna varð.  

Jæja, einu sinni var ég á leið á skólaball og hef verið ca. 13 ára.  Mig kveið fyrir viðbrögðum stelpnanna, því ég vissi fyrirfram að ég fengi einhver skot. Sérstaklega var það ein stelpa sem var alltaf með leiðinda athugasemdir.  Ég bar þessar raunir upp við Huldu systur og þá gaf hún mér hreinlega upp "uppskrift" hvernig ég skyldi svara þessari stelpu!  .. 

Allt fór eins og ég átti von á,  stelpan horfði á mig rannsakandi augum þegar ég kom,  upp og niður eftir fötunum mínum, setti upp ákv. svip og sagði svo "af hverju ertu í svona skrítnum buxum?" ..  Þá svaraði ég eftir forskrift systur minnar "káfar það upp á þig hvernig ég er klædd?" .. þá svaraði hún (eins og systir mín hafði spáð) "já"  og þá svaraði litla ég - enn eftir forskrift "klóraðu þér þá" .. gekk svo stolt í burtu og ég hugsa að brosið hafi sést á hnakkanum á mér! ..  Hún setti aldrei út á mig aftur þessi stelpa. 

Annað dæmi laut að strák sem var alltaf að sparka í mig í fatahenginu í skólanum, og lét mig hreinlega aldrei í friði. Ég bar þessar raunir upp við Huldu systur sem gaf mér forskriftina að segja næst þegar hann byrjaði "Af hverju ertu alltaf að sækjast eftir mér?" .. Ég var ekki viss um að ég þyrði að segja þetta við hann, en ég treysti Huldu systur í blindni - og ekki þurfti ég að bíða lengi eftir að hann færi að bögga mig og það var fyrir framan fullt af öðrum strákum.  Þá sagði ég hátt og skýrt, þessi spíra með útstæðu eyrun, freknur og gleraugu (svona eins og nördastelpan í amerísku bíómyndunum) "Af hverju ertu alltaf að sækjast eftir mér?" .. Strákurinn hörfaði í angist, varð eldrauður í framan og strákarnir í kringum hann lyppuðust niður af hlátri.  Þeim fannst fyndið að þessi rengla skyldi segja þetta við hann - en mér tókst að hræða hann í burtu. 

Þegar ég var 15 ára lenti ég enn í strákunum, þegar ég spurði í enskutíma hvað "desolate hill" þýddi, en ég var algjörlega flatbrjósta -  sprungu strákarnir yfir þessari eyðihæð, sem orðin þýddu,  og var ég kölluð "desolate hill".. man eftir stað og stund - og hverjir það voru. ...  Ég deildi þessari sögu ekki, ég skammaðist mín svo fyrir brjóstaleysið - sagði engum frá, ekki einu sinni systur minni. Mér finnst sorglegt í dag að ungar konur þurfi að finna sér sjálfstraustið í brjóstunum, eins og fram hefur komið í óteljandi make-over þáttum. En kannski ekki skrítið miðað við viðbrögð umhverfisins eða hvað? 

Krakkar þurfa að þora að standa með sjálfum sér. Foreldrar þurfa að uppfræða börn og vera góðar fyrirmyndir. Setja ekki út á fólk fyrir að vera öðruvísi, of feit eða of mjó. Gildi manneskjunnar er svo sannarlega ekki metið eftir því.  Systir mín var sem engill í mínu lífi og er það reyndar enn, og reyndar í lífi mun fleirri. Litla systir getur heldur betur vitnað um þetta stórkostlega hlutverk stóru systur okkar, en hún t.d. þurfti að taka ábyrgð á henni heilu sumrin þegar mamma var að vinna úti, eftir að pabbi dó. Við erum að tala um tólf ára stelpu sem passaði tveggja ára allan daginn.  Þegar ég var send á Silungapoll að sumri til, og leið illa - fékk ég að koma heim vegna þess að hún samþykkti að passa mig líka. 

Ári síðar var ég send á Jaðar, þá níu ára - aftur á barnaheimili. Þar lagði ég yngri stelpu í einelti ásamt hópi af öðrum stelpum.  Það er í raun það ljótasta sem ég hef gert á ævinni og er í raun stærra ör á sálinni en nokkurn tíma það að hafa verið lögð í einelti.  Ég hef fengið uppreisn æru vegna míns eineltis, en ég hef aldrei beðið afsökunar á því einelti sem ég beitti.  

Nú er Casey Haynes orðin hetja í augum heimsins, en hvað um strákinn sem réðst á hann?  Hvað var að bögga hann - og hvernig ætli hann sé staddur í sálinni eftir að vera úthrópaður sem bully?  Hvernig verður "bully" eða hrekkjusvínið til? 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband