Og upp reis miðvikudagur ..

Það er reyndar miðvikudagsnótt, en mér finnst gott að hugsa á næturnar. Hugsa reyndar stundum of mikið en það er önnur saga.

Ég hef verið að melta spurningu sem ég fékk í gær, þegar ég var að segja að mér finndist ég ekki nógu góð manneskja. Ætti erfitt með að trúa fólki sem segði eitthvað gott um mig. Ég held þetta gildi um okkur flest. Við erum svo fljót að rífa okkur sjálf niður. 

Í mínu tilviki er það að mér finnst ég hafi klikkað sem móðir á ákveðnum tímum í lífi mínu, t.d. eftir skilnað við föður barnanna datt ég niður í að fókusera alveg á sjálfa mig,  Tjasla sjálfri mér saman og fór á fullt að leita að staðgengli fyrir fyrrverandi maka. (Jafnvel þó ég hafi ekki verið tilbúin í það tilfinningalega). Enda tekur maður þá gömlu viðbrögðin inn í nýtt samband.  Rót komst á líf mitt og barnanna og hef ég aldrei fyrirgefið mér fyrir að hafa ekki traustara bakland fyrir þau.  Það er minn hælbítur, en hælbitar eru vondir og draga úr manni á lífsgöngunni.  Þess vegna þarf maður að sparka þeim frá sér. 

Ég skrifa þetta hér ekki síst fyrir aðra sem eru í þeirri stöðu að vera að skilja, eða eiga eftir að skilja og eiga börn. Skilnaður er sorgarferli, en foreldrar verða að gera sér grein fyrir því að börnin þeirra eru ekki síður í sorg og þurfa enn meiri stuðning en áður.  Því verður að hyggja að þeim. En auðvitað, eins og í öllum tilvikum þurfa foreldrar að hyggja að sjálfum sér til að hlúa að börnunum.  Bara ekki gleyma sér eftir að þau hafa sjálf sett á sig súrefnisgrímuna. 

Ég hef hlustað á svo marga nemendur sem kvarta undan nákvæmlega þessu, hversu mjög skilnaður foreldra hefur bitnað á þeim og hefur kippt undan þeim fótunum.  

Það verður ekki farið til baka - bara gert það besta úr aðstæðum í dag. Við verðum öll að fyrirgefa sjálfum okkur fyrir fortíðina, ekki naga nútíðina hennar vegna, heldur nota lærdóminn sér og öðrum til uppbyggingar. 

Foreldrar elska yfirleitt börnin sín skilyrðisluaust og þar er ég ekki undantekning. En foreldrar eru ekki fullkomnir og verða aldrei fullkomnir - því að engin manneskja er fullkomin.  Við gerum okkar besta, með þeim náðargjöfum sem við komum með í heiminn.  Þegar við ætlum að fara að bæta fyrir "syndir" okkar göngum við kannski of langt og förum óumbeðin að skipta okkur af eða gera hluti fyrir börnin okkar og stelum af þeim þroska.

Okkar stærsta verkefni í lífinu er að elska okkur sjálf, en við sjálf erum hindrunin.  Við finnum því allt of oft eitthvað til foráttu. Förum í niðurbjótandi tal um að við séum ekki verð okkar eigin elsku.  Það þekki ég.  En eins og áður sagði - að elska sjálfan sig er forsenda þess að elska aðra. 

Þá er ég ekki að tala um sjálfselsku í merkingunni eigingirni, heldur að virða sjálfa/n sig og meta og þykja vænt um sjálfa/n sig. 

Við erum að mínu mati gjöf Guðs til okkar sjálfra og við eigum að meta þessa gjöf og fara vel með hana. Hlúa að henni. Hún er brothætt en um leið dýrmæt. 

Hlúum að börnunum, - hvort sem þau eru börnin okkar eða annarra. Þau eru börn jarðarinnar og á ábyrgð okkar allra.  Þökkum fyrir þessi börn og styrkjum þau til að verða betri og sterkari en við sjálf. Þannig bætum við heiminn. 

"Elskum friðinn og strjúkum kviðinn" - þessa setning kemur beint frá mömmu, og þær eru víst nokkrar þannig, sem koma frá öðrum og sitja í okkur.  Reynum að muna þær góðu. 

En hvaða setning skyldi nú koma frá mínu eigin hjarta? .. 

 

 

 

 

 

 


Þakkir á þriðjudagsmorgni ... þó ekki þrautalausar

Konan borðaði kínamat í gær, og þess vegna er hún vakandi klukkan fjögur að nóttu.  Gleymdi að spyrja líkamann hvort að hún þyldi t.d. djúpsteiktar rækjur. Hann hefði svarað "Nei" ..  

Ég er reyndar búin að vera vakandi frá tvö, en hef verið að hika við að taka mígrenitöflu sem ég veit að slær á verkina - en það er auðvitað eina vitið þegar maður/kona er komin með hausverk í alla vinstri hlið líkamans ..eða þannig! .. þetta batnar allt áður en ég gifti mig!

Í gær sótti ég málþing um kynþáttafordóma í Neskirkju, ekki að það séu miklir fordómar þar - heldur var málþingið haldið þar! 

Áhugaverðir pólar voru ræddir, og þá sérstaklega það sem kom fram hjá Toshiki Toma um hina duldu fordóma. Sem kannski liggja í okkur öllum.  Það er mjög stutt í raun síðan að Ísland gerðist eins fjölmenningarlegt eins og það er i dag.  Börnin mín, 25 ára, voru ekkert sérlega vön fólki sem var dökkt á hörund þegar þau voru börn.  Þegar við komum í fyrsta skipti til Bandaríkjanna og vorum á flugvellinum sá sonur minn (4 ára)  svartan mann og sagði upphátt  "Þarna er hlauparakall"  ..eftir útskýringar kom í ljós að þetta var svona maður sem hann hefði séð  á hlaupabrautinni í íþróttatíma í sjónvarpinu! 

Það vakti athygli að skv. skýrslum sem tveir flutningsmenn sögðu frá höfðu 8 prósent nemenda þar sem báðir foreldrar voru Íslendingar lent í einelti, 12 prósent þar sem annað foreldri var erlent og 16 prósent báðir.  Það segir sína sögu. Það er einnig niðurstaða úr eineltiskönnun í Hagaskóla, en þar var algengasta orsök eineltis vegna uppruna. 

Ég lagði orð í belg á málþinginu, því mig langaði svo að benda á fyrirmyndirnar í þjóðfélaginu og hvernig þær tengdust stéttaskiptingu.  Það er mjög algengt að t.d. við ræstingar starfi fólk af erlendu bergi brotið og í lægst launuðu störfunum.  Ég held að það myndi hjálpa til ef að fleiri væru í hærri stöðum, sem fyrirmyndir fyrir þá sem á eftir koma.  Þetta er í raun svipað og með kvennabaráttuna. Það þarf kannski að íhuga "jákvæða mismunun" til að fá fleiri úr minnihlutahópum í stjórnendastöður? 

Batnandi fólki er best að lifa, og ef við erum meðvituð um okkar eigin fordóma eða þeirra sem eru í kringum okkur hljótum við að batna.  

Þakklæti mitt í dag snýst að því að fá að vera þátttakandi í því að reyna að vekja til umhugsunar. Þakklæti mitt er líka fyrir alla dagana sem ég er EKKI með hausverk!  

En nú er best að reyna að hvíla sig á ný! .. 

Hér er svo hlekkur á smá myndasýningu frá málþinginu í Neskirkju. 

 

 


Þakkir á mánudagsmorgni ...

Góðan dag heimur, ... efst í huga er því miður óhugnaðurinn í okkar "macho" tölvuleikjaveröld.  Mér finnst aldrei loftárásir á vonda kallinn réttlætanlegar þegar að það þýðir að það þarf að fórna fullt af góðu fólki. Stríð er ógeð. 

Stríð er andstaðan við Frið.  

Ég vil þakka fyrir friðinn á íslandi, þó vissulega sé ekki hægt að segja að hér sé mjög góður andlegur friður.  Það er mikil ólga í fólki og óánægja og innri strið eru mörg. Ég held að best sé að skipta út stjórninni. Það er eitthvað svo mikið klúður í gangi að fólk er orðið svo reitt.  Ekki síst út af skólamálunum. 

Mjög margir eru þó að leita sér að innra friði, finna aðferðir til að slaka á, fara út og anda að sér fríska loftinu eða njóta náttúrunnar á annan hátt. Það er margt í boði og kostar lítið eða ekkert.  Það er svo margt gott í boði á Íslandi. Hreint vatn úr krana, hreint loft og hrein náttúra. Það ættu því að vera hæg heimatökin að hreinsa sig af hverju sem er. 

Í dag kl. 12:00  er málþing um kynþáttafordóma í Neskirkju og ætla ég að kíkja á það. 

Eigum góðan dag. 

Birti hér að lokum ljóð sem yljar .. frá Facebookvini: 

Kristjan Hreinsson

SÓLARLJÓÐ

 

Í frosti mín vitund fer á sveim

þá finn ég yl í huga mínum,

ennþá mig sækir söngur heim

...og sólarljós í augum þínum.

 

Þegar ég heyri villtan vind

vafra um í næturfrosti

vaknar í huga himnesk mynd

af heitri sól sem til mín brosti.

 

Ennþá mig heillar hjartnæmt ljóð

sem heyrði ég í faðmi þínum,

og ennþá hún syngur sæl og góð

sólskríkjan í huga mínum.

 

:-)



 

 

 

 


Alheimurinn í mér og ég í alheimnum ..

photo_on_2011-03-02_at_09_41_2.jpg Þessi fjólubláa kona horfði á þáttinn um Snæfellsjökul á RUV áðan, margt áhugavert og dularfullt. Þekki sjálf þessa tilfinningu að staðir hafi mismunandi orku, það gildir að sjálfsögðu líka um heimili fólks og stofnanir.

Í miðjum þætti var mér litið upp á málverkið á veggnum fyrir ofan sjónvarpið - "Rauð Jörð" eftir Þorbjörgu Höskuldsdóttur, sem er frænka míns fyrrverandi.  Hún gaf okkur þessa mynd í brúðargjöf, en ég fékk að halda henni og þykir mér vænt um það. 

Myndin er af Snæfellsjökli,  en eins og rautt hraun fyrir framan og svo í anda Þorbjargar setur hún þarna vegg og eina ferkantaða súlu, svo er eins og að jörðin opnist. 

Ég kannast við þetta aðdráttarafl jökulsins og sérstakan anda undir Jökli. Hef dvalið þar og sjaldan upplifað náttúruna eins vel.  Mér finnst þetta svo satt sem söngvarinn (sem ég man ekki hvað heitir en syngur eins og kona) sagði - um að hann hefði upplifað alheiminn í sér og sig í alheiminum.  Svo var talað um hvíta ljósið, alheimsorkuna "sem sumir kalla Guð" ... 

Ef við samþykktum þetta, að við erum öll eitt,  myndum við skilja betur að það sem við gerum öðrum hefur áhrif á okkur.  Bæði það sem við gerum gott og það sem við gerum illt.  

Ég veit alveg að sumum finnst svona tal um álfa, krafta, orku, ljós, tíðni o.s.frv. algjört bull, og ég skil það alveg.  Mér finnst aftur á móti heimur án þess leiðinlegur heimur. 

Heimurinn er voðalega ófullkominn, eins og við sjálf, enda erum við heimurinn. 

 Hér er svo "útsýnið" að sjónvarpinu og Rauðri jörð 

photo_on_2011-03-20_at_23_15_1071302.jpg


Þakklæti fyrir sunnudagsmorgun ...

Það stefnir allt í svona "göngum við í kringum" bloggviku hjá mér þar sem þakkað er fyrir dagana. Göngum við í kringum byrjar þó á mánudegi en ekki á laugardegi eins og þessi bloggvika mín. Í gær sá ég að vinkona mín auglýsti á facebook status eftir nafni á dönsku hljómsveitinni sem flytti lag sem verið væri að boxa gaur með rauðum boxhanska. Ég var ekki lengi að kveikja, enda alræmd fyrir að ota þessu lagi fram, og þá nýlega í útskriftarveislu bróðursonar.  Ég smellti því upplýsingum um lagið og tengli af Youtube á síðuna hennar, og hún losnaði við uppsafnaða spennu vanþekkingarinnar.  Enda  skrifaði hún þá Ahhhhhhhhhhhh.. eða eitthvað álíka. 

En þessu fylgdi meira, því rétt á eftir hringdi hún í mig og bauð mér að koma með á árshátíð! Jeii..  Þar sem ég fæ ekki oft tækifæri á glamúr,  sagði ég já, fyrirpartý og allt!  Árshátíðin var hin glæsilegasta, Eurovisjón stjörnur tróðu upp hver af annarri og góður matur.  Til að gera langa sögu stutta, þá er heilsan í dag ekki eins góð og í gærmorgun,  og ekki ætla ég að fara neitt ítarlegar út í það. (Þið eigið að láta þá drekka sem geta það)  (þessi rödd kemur frá fv. tengdó)).   Hressist ef ég fæ mér góðan göngutúr. (Vertu ekki með svona yfirlýsingar ef þú nennir ekkert að fara! (þetta var bara mín rödd)).

Ég er þakklát fyrir vini mína sem hafa hugsun á að hafa mig með - því það er ekkert alltaf gefið að við svona "singles" fáum að vera með í þessu parasamfélagi.  Flest matarboð eru nefnilega pöruð.  Ég er líka þakklát vini mínum sem skutlaði mér heim eftir árshátíðina. (????)  Það er bara til svo mikið af notó fólki sem er tilbúið að dansa saman í kringum einiberjarunn. Stundum er ég þetta tré og stundum ert þú tréð.  Aðal málið er að dansa saman en ekki sundur. 

Ég þakka hér með alla þá vináttu sem mér er sýnd og þakka fyrir að fá tækifæri til að gefa vináttu. (Eretta ekki að verða svolítið of væmið hjá þér Jóhanna?).. andsk.. innri röddin alltaf að bögga mig!Tounge ...  

Vöknum svo hressilega með Thomas Holm og "Nitten" .. textinn er brilljant!

 

 

 


Þakklæti fyrir laugardagsmorgun ...

Ég tilkynnti sjálfri mér það hátíðlega í gærkvöldi að nú yrði sofið frameftir í fyrramálið. Vaknaði þó fyrir allar aldir, líka fyrir Nýöld og öld kvenorkunnar, sem sagt er að sé að skella á með tilheyrandi braki og brestum, landreki, eldgosum,  stríði, sólgösum og blindfullum tunglum. 

Hugleiddi orðið dis-ease, sem þýðir að ef að fólk slakar ekki á getur það, og verður að öllum líkindum, veikt. Take it easy. 

Er þakklát fyrir ljósbleiku kertin í kertastjökunum á hundrað ára gamla borðinu hennar ömmu Kristínar.  Líka fyrir túlípanana sem ég gaf mér í gær og standa svo vel í hvíta postulínsvasanum, brúðargjöf  sem stendur enn þó hjónabandið sé búið.   Það er svo yndislegt að hafa eitthað fallegt að horfa á þegar við vöknum. Sængin mín er brakandi góð.  Úti snjóar eins og í Disney mynd. 

Í gær gekk ég heim úr vinnunni,  verslaði kindarlegar lundir í Melabúðinni og kartöflur sem einhver dugleg "móðir" gaf af sér í moldinni þannig að hún endaði sem úr sér gengin,  eldaði svo fyrir soninn og tengdadóttur og meðlætið var meðal annars brokkolí  sem Eva sonardóttir og sautjándajúníbarn,   naut þess að maka í sig og á. Hún fékk sér brokkolí-andlitsbað. Túlípanarnir voru reyndar líka keyptir í Melabúðinni. 

Þegar ég horfi í morguninn, hugsa til Evu litlu og brokkolíssins, og veit að á eftir mér bíður fyrsti kaffibolli laugardagsmorgunsins og diskurinn af múslíinu með ísköldu mjólkinni úr ísskápnum sem ég fékk á svo góðum kjörum á barnalandi,  get ég ekki annað en verið þakklát fyrir tilveru mína - og ekki má gleyma heitu sturtunni sem bíður mín spennt og tilbúin til að hlýja mér á hverjum morgni. 

p1010020.jpg

 

 


Hver stjórnar þínu lífi?

Baráttan við að hafa val og vald á eigin lífi .. hugsað upphátt

free_will ...

Ekki veit ég hvenær forritunin byrjar, sumir segja að hún hefjist í móðurkviði.  Ef að móðirin hlustar á tónlist hafi það t.d. ákveðin áhrif og líðan móður hafi einnig áhrif á fóstur.   Samkvæmt því hefjast utanaðkomandi áhrif í móðurkviði.  En hvað um það – þau hefjast alveg örugglega þegar við erum fædd. Þá byrja lætin og bægslagangurinn. Hvernig er umhverfið? ..  Við erum klædd í föt og svo byrjar gúgúdada,  fólk að tala við okkur á barnamáli, í flestum tilfellum ofursætt – en sum börn  lenda því miður hjá vondu fólki. 

En reiknum með svona þokkalega normal aðstæðum þar sem við njótum ástar og umhyggju.  Ef við erum stelpur er farið að segja „oh hvað hún er dæt“ ..  og strákur  „oh hvað hann er mikill nagli“ eða eitthvað álíka.  Pinku svona kynja-eitthvað hefst mjög snemma.  Alveg óvart – og kemur fyrir okkur öll.  Við fáum fyrirmyndir og skilaboð hjá fjölskyldunni okkar, hvað má gera og hvað ekki.  Fyrst þykir öllum voða fyndið og krúttlegt þegar við prumpum án þess að roðna, svo fer einhver að segja okkur að það sé ekki pent að prumpa eða ropa fyrir framan aðra og þá skömmumst við okkar ef það kemur fyrir.  Sumir læra það að vísu aldrei, en það er önnur saga. 

Við förum svo í leikskóla og lærum þar, grunnskóla, framhaldsskóla flest, háskóla ... sum.  Alls staðar eru kennarar, leiðbeinendur, fyrirmyndir.  Líka í sjónvarpinu, tölvunni, bókum .. alls staðar í umhverfinu.

Við lærum rétt og rangt og við lærum að velja og hafna – eða hvað? ...  Stundum lærum við nefnilega ekki að velja og hafna.  Við látum velja okkur og hafna okkur.   Við ráðum ekki alltaf við það, en gætum í raun ráðið betur við það ef við fylgjum eigin sannfæringu – sem reyndar kemur oft úr röddum fortíðar og alls þess sem er í kringum okkur.  Þess vegna er svo mikilvægt að kafa djúpt í sjálfa/n sig og þekkja EiGIN vilja.   Jeminn!.. hvað það getur samt verið snúið, og hvað það er djúpt stundum í þennan frjálsa eigin vilja.   Frjálsan frá áreiti fortíðar og fyrirmynda.  Er hægt að komast að þessum vilja? ..  Er ekki mikilvægast að spyrja sig „hvað vil ég“  og stunda heiðarleika við sjálfa/n sig? ..

Ég hef ekki svörin, en ég held að ef við erum meðvitað að leita að þeim séum við líklegri til að finna þau.  Hvað vilt þú í raun og veru?   Vilt þú þetta eða hitt vegna þess að hinir vilja það eða finnst það flott, eða viltu það vegna þess að það er þinn einlægur vilji? 

„Vilt þú leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns“ er spurt í fermingunni.   Þarna er ekki spurt „vilt þú gera“  heldur „ vilt þú leitast við“?     Hvernig getur fjórtán ára barn svarað þessu –  úff.. Mikið á barnið lagt.  Og fullorðna fólkið kemur sér ekki einu sinni saman um hvað það er að vera kristin manneskja.

Það fyrsta sem kemur í hugann, þegar við erum spurð að einhverju,  er oftast rétt.  Um leið og við förum að ritskoða viljann þá truflast hann af alls konar áreiti.  Hugurinn fer að gúgla svör annarra við sömu spurningu.  Nei, þessi sagði þetta og hinn sagði hitt.  Hvað finnst mér í raun og veru? ..  

Er mín niðurstaða  asnaleg eða hallærisleg?  Það er ekki til neitt svoleiðis svar.   Hversu oft hefur þú ekki verið með svarið og breytt því við ritskoðun eigin hugsana?  Svo kom í ljós að þú hafðir rétt fyrir þér. 

Við höfum vilja og við höfum val.  Verum okkar eigin "puppet master"   .. hreyfum okkur til hægri ef við viljum fara til hægri og vinstri ef við viljum fara til vinstri.  Að sjálfsögðu verðum við að taka tillit til laga og reglna (nú eða taka afleiðingum þess að brjóta þær)  og þegar við förum til hægri og/eða vinstri að við rekumst ekki á næsta mann eða stígum á tær einhvers.

Leyfðu ÞÉR að ráða,  ekki gefa út leyfisbréf fyrir aðra að ráða þínum skoðunum,  hvort sem það er val í pólitík, trúarbrögðum,  smekk, ástar- eða vinarsambandi.  Spurðu þig og svaraðu hratt – ekki hika,  ...

þú veist best hvað þú vilt.


Er strákur í dag ... eða a.m.k. metró gaur

Þar sem ég er yfirleitt til í þátttöku í svona uppákomum, ákvað ég að þessi yrði ekki undanskilin - og auðvitað enn frekara tilefni þar sem það er fyrir góðan málstað.  Áttaði mig svo á því að ég hafði pakkað teinóttu buxnadragtinni niður með aðstoðarskólastjóradjobbinu! .. Ekki það væri minn búningur svona dags daglega. Kjólar og pils eru minn "einkennisbúningur" og finnst það miklu þægilegri klæðnaður.  Ég fann mér þó gallabuxur, svartan bol og köflótta stutterma skyrtu yfir. Að vísu með bleikum og grænum köflum. Ég er svona metró (síðhærður að vísu) gaur.  Gamanaðessu!

 

Annars er Beoncey með svona "If I were a boy" pælingar... 


mbl.is Boða karllægan klæðnað á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dellulaus forseti ...

Einn af mínum uppáhaldsprófessorm talar oft um bréf í skeytastíl, þ.e.a.s. þegar fréttirnar eru skrifaðar í fljótheitum og lítill þráður á milli þeirra.  Ég, í minni (oft of miklu) tölvunotkun, hef tekið eftir því að ég hugsa stundum í svona skeytastíl eða Facebook-statusum.  Ég fór í smá sveitaferð og ákvað að skilja tölvuna eftir heima í rúman sólarhring, en ég losnaði ekki við statusana úr hausnum. (Þarf eflaust lengri "afvötnun") 

Þar sem ég var að aka hálfmeðvitundarlaus undir Hafnarfjalli hlustaði ég á fréttir, fyrst um eitthvað Dellusafn sem verið er að setja á laggirnar á Flateyri, í næstu frétt kom Ólafur Ragnar forseti og fór að tala um hans  "hans heilagleika páfann" .. - heilagleikatalið fór eitthvað í pirrurnar á mér, eflaust vegna pirrings á yfirborðsmennsku .. og þá kom þessi Facebook status í hugann - og ég held að ég hafi sagt það líka upphátt: 

"Finnst að Ólafur Ragnar Grímsson eigi heima á Dellusafni" ... 

Þrátt fyrir þetta skyndihugmynd, þ.e.a.s. þetta með forsetann á dellusafnið, þá verð ég að segja það að mér fannst það rétt niðurstaða hjá dellukallinum  að beita málskotsrétti varðandi Ixxxxx (er komin með ofnæmi fyrir þessu svo ég skrifa það ekki að fullu), þegar  svona stór hluti þjóðarinnar kemur með áskorun um það og ekki síður vegna þess að málið er það stórt að það vissulega varðar alla þjóðina.

Fleiri statusar sem komu í hugann úr sveitaferð: 

  • sneiðir niður sveppi á Landnámssetri og fær borgað í mat 
  • hitti Mr. Skallagrímsson "in person" ..
  • stjörnubjart í Huldukoti 
  • á systur sem skar sig næstum á púls (óvart) ..
  • sofnaði yfir Disney mynd um kjúkling
  • heimsótti góðan vin á Snæfellsnesið
  • fauk heim og sparaði með því bensín..
  • íhugar dellulaust forsetaframboð

Menntavegurinn genginn eins og Fimmvörðuháls - til gleði og góðs ..

Þar sem ég er (enn) að starfa að skólamálum, rifjaðist upp þessi dæmisaga sem ég skrifaði á bloggið árið 2008. Hún er í raun klassísk og langar mig að deila henni á ný! ;-) .. smá endurskoðaðri og uppfærðri.

SmileCoolSmileGrinCoolKissing

Þegar ég fór í göngu sem bar reyndar heitið "Gengið til góðs"  að hausti 2008 yfir Fimmvörðuháls, hafði allt göngufólki sama takmark (fyrir utan auðvitað að ganga til góðs):  

Það að komast í Þórsmörk og halda veislu í framhaldinu. Ég hafði lesið á upplýsingavef að þessi ganga tæki um 9 - 10 klst með stoppum.  Alveg frá upphafi hafði verið í boði að hópurinn myndi skiptast; þ.e.a.s. um tuttugu af sjötíu manns ætluðu að þiggja rútufar hluta leiðarinnar, sem var í raun mest upp í móti.

Þegar við hin, fimmtíu höfðum gengið í ca. 30 mínútur, sáum við að teygst hafði úr hópnum leiðsögumenn ákváðu að skipta honum í tvennt.  Þá sem völdu að ganga hratt og þá sem völdu að ganga hægar.

Þeir sem notuðu rútuna, eru að sjálfsögðu eins og þeir nemendur sem þurfa meiri stuðning upp erfiðasta hjallann. 

Þeir sem vilja fara hratt, eru þeir sem finnst ekkert gaman að göngu, nema spretta vel úr spori og svitna ærlega.

Þriðji hópurinn er þá sá hópur sem vill fara nokkuð hratt og örugglega, en gefa sér þó tíma til að njóta útsýnis, taka sér góðar pásur, eins og nemendur sem vilja njóta meira félagslífs.

Það sem gerist þegar stór hópur gengur saman, er að einhverjir dragast aftur úr og aðrir vilja ganga hraðar. Ef þess er krafist að sá hópur sem vill ganga hraðar er alltaf að bíða eftir hinum, fer honum að leiðast, hann kólnar niður og gleðin yfir göngunni minnkar. 

Það sama er um miðhópinn, honum leiðist að bíða eftir þeim hægfarnasta, og bæði hægfarnasta og miðhópnum leiðist að láta bíða eftir sér og finnst þeir vera skyldugir að flýta sér því þeir, annað hvort, geta það ekki, eða njóta þá ekki göngunnar sem skyldi.

Að setja sama tíma á alla nemendur t.d.  í framhaldsskóla; fjögur ár, er að mínu mati orðið úrelt fyrirbæri. Ég held að við getum minnkað skólaleiða að miklu marki og brottfall í framhaldi af því.

Allir eiga að geta keppt að sama lokamarkmiði, á sínum hraða innan ákveðins ramma, ef vel er að verki staðið.

Þetta var nú það sem ég var að pæla í 2008, en þá var ég líka starfandi aðstoðarskólastjóri í Menntaskólanum Hraðbraut og þekkti vel þessa nemendur sem þurftu aukinn hraða til að hafa gaman af náminu, nú eða aðra aðferðafræði við námið.  Enn er ég að starfa með nemendum og enn að hindra brottfall nemenda.

 

Munum að gleðin er eitt aðal veganesti til að ná árangri (ég heyrði það á virðulegu námskeiði í HR)

- hvort sem er í námi eða bara í lífinu sjálfu.

Til að nemendur upplifi gleði þurfa þeir að hafa verkefni við hæfi.  

Gleðilaust nám = leiðinlegt nám! ..  

skoppa og skrítla

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband