Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Til minningar um Dóru f. 30. 7. 1945 d. 10. 5. 2002

10. maí sl. voru liðin 10 ár frá því að Halldóra Borg Jónsdóttir kvaddi þennan heim.  Eftirfarandi grein skrifaði ég til minningar um hana, en Dóra var fyrsta manneskjan sem kom í huga minn í morgun, svo ég rifja þetta upp.  Smile

ghu5p87f.jpg

Um vorið 2002 hafði Kiddi sem var eiginmaður Dóru samband við þáverandi eiginmann minn í síma,  varðandi að hún fengi góða aðstöðu í flugi á leið út til Lúxemborgar,  en hún var þó orðin mjög slöpp.  Meðan þeir töluðust við í símann sá ég sýn:  10 hvítar rósir í krystalsvasa.  Ég veit ekkert hvaðan sú sýn kom, en það flaug í huga mér að þetta væri vísbending um dauðdagann,  en það voru hvítu rósirnar sem sögðu til um það. - 

Ég fór að pæla hvort það væru 10 vikur þangað til, en við vissum öll hvað stefndi.  Að morgni 10. maí  vissi ég hvað þessar 10 rósir þýddu,  og vissi að aðeins var tímaspursmál hvenær yrði hringt og við fengjum tilkynninguna.  Hún kom um kvöldið. -  

Þetta er aðeins eitt af mörgum, mörgum, og e.t.v. með þeim óskýrari sem ég hef fengið að vita, eða ég ég er tengd einhverju afli sem er mér æðra eða við erum ekki vön að hafi samband. - Ekki kann ég að útskýra það. -  Eftir andlátið fór ég að heimsækja fjölskyldu Dóru og þar voru rósirnar komnar. Hvítar í krystalsvasanum í horninu í stofunni. 

 

white-roses-in-a-crystal-vase-christine-chase-cooper.jpg

En minningagreinin sem ég skrifaði á sínum tíma er svona: 

"Mig langar að skrifa nokkur fátækleg orð til minningar um einstaka konu. Þessi einstaka kona er Halldóra Borg Jónsdóttir eða bara Dóra, eins við kölluðum hana flest. Við Dóra vorum ekki skyldar í eiginlegri merkingu þess orðs. En eins og ein úr fjölskyldunni komst svo skemmtilega að orði vorum við kannski dálítið "andlega" skyldar. Dóra var systir tengdapabba og því frænka mannsins míns og barnanna okkar.

Það eru svo margar skemmtilegar minningar sem tengjast Dóru: Heimsóknirnar á Nýbýlaveginn þegar Lilja og Eva Lind, dætur okkar, voru litlar; fertugsafmælið hennar þar sem við mættum í gömlu kjólunum; Lions-vor- og skíðaferðir; falsettusöngurinn í dansinum kringum jólatréð í nýársboðinu, danski afmælissöngurinn og Dóra sem "prímus mótor" í "hókí pókí", jarðarberjagarðinum og fleiri leikjum í hinni árlegu fjölskylduferð stórfjölskyldunnar; Dóra á stuttbuxum, fremst í flokki í gönguferð, þar sem við hin vorum kappklædd og dauðuppgefin. Margt fleira mætti til telja, listinn er langur og það er gott að eiga þessar skemmtilegu minningar.

Þegar við hugsum til þess hvernig Dóra lifði getum við ekki annað en dáðst að henni. Dáðst að hugrekki hennar og krafti. Hún lifði til hins ýtrasta. Hún tók áskorunum, ekkert fjall var of hátt til að klífa, engin á of köld til að vaða, enginn vegur of langur til að ganga. Bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu!

En á veginum reyndust ýmsar kaldar ár og há fjöll. Vegurinn eða lífsleiðin var þó ekki alltaf erfið. Oft var hún böðuð í sólskini og lyng og liljur spruttu upp með vegarköntunum. Þar var ein falleg "Lilja" sem studdi mömmu svo dyggilega síðustu sporin, ekki síður en traustur eiginmaður, systir og eldri börnin. Margir vinir og ættingjar komu þar við sögu. Öll gengum við með Dóru í hjarta okkar, og munum halda því áfram. Dóru var augljóslega umhugað að safna saman fjölskyldunni til að krækja saman höndum, hvort sem var að vaða í lygnu vatni eða stíga straumhörð stórfljót. Dóra gekk sinn veg allan og gerði það vel. En nú skilur leiðir. Vegur Dóru er ekki lengri í þessu lífi. Það er komið að vegamótum. Dóra fer eina leið, við aðra - og það er erfitt. Dóra okkar heldur inn á braut eilífa lífsins þar sem hún fær nýtt samferðafólk. Hún er lögð af stað í öðruvísi fjölskylduferð með Ragnheiði systur sinni, ömmu Guðrúnu og afa Jóni og öðrum þeim ættingjum og vinum sem á undan eru gengin. Þar verður örugglega nýtt "hókí pókí", nýr afmælissöngur og nýr jarðarberjagarður."

Blessuð sé minning Halldóru Borgar Jónsdóttur.

Jóhanna Magnúsdóttir

og fjölskylda."

 

Heart

 


Majoneskrukka og tveir bollar af kaffi á Valentínusardag

Smellið á þennan PISTIL til að lesa um forgangsröðunina, fjölskylduna og vináttuna. -

Og svo í framhaldi af því svolítið um Valentínusardaginn. -  InLove

awesome_roses-wide.jpg


Tvö 25 ára ...Þórarinn Ágúst Jónsson og Jóhanna Vala Jónsdóttir! Fjölskyldublogg ..

tobbi_og_vala_i_busta.jpg

 Tvíburarnir mínir, sem eru nú bara kölluð Tobbi og Vala, eiga 25 ára afmæli 25. september! .. tvöfalt 25 á 25. degi mánaðarins! 

Þegar þau voru lítil strauk ég á þeim bakið, söng og sagði þeim sögur. Sagan af fæðingu þeirra var í uppáhaldi hjá þeim, enda um hálfgert kraftaverk að ræða að þau voru bæði heilbrigð, ef ekki algjört!  InLove .. 

Skrifa söguna hér eins og ég sagði þeim hana: 

Það gekk mikið á, mamman gekk í tæpar 42 vikur með tvíburana, mænudeyfingin virkaði ekki svo hún fann mikið til, svo þurfti að svæfa hana smástund. En svo vaknaði mamman upp með dúsín af læknum og hjúkrunarliði í kringum sig, og spurði af veikum mætti "er allt í lagi" .. þá sýndi ljósmóðirin henni tvö fullkomlega heilbrigð og yndisleg kríli, strák og stelpu - og mamman fór að hágráta, fólkinu í kring brá við, en svo hélt mamman áfram "ég er svo hamingjusöm..og tárin héldu áfram að flæða".. annað barnið hafði verið með óreglulegan hjartslátt, og mamman hafði svona innst inni haft áhyggjur að það hefði hlotið einhvern skaða, en svo var ekki. 

Daginn eftir sagði mamman pabba þeirra frá því hvað þetta hefði verið neyðarlegt að hágráta svona fyrir framan alla, en þá sagði pabbinn "það var ekki neyðarlegt - það grétu allir með þér".... Sjálf hafði ég ekki tekið eftir því, en stundin og samlíðanin þarna á sjúkrahúsgangingum hafði vissulega verið töfrum líkust..

Þegar þarna var komið við sögu var ég yfirleitt orðin þreytt í höndunum að strjúka bak í kross..

En svo kemur hér smá myndasaga: 

 

tobbi_og_vala_flataskoli.jpg

 

 Í leið í Flataskóla við hlið Ford Fairlane ´66 árgerð! 

 

 

 

 

 

 

tobbi_og_vala_a_strond.jpg

 

 

 Á Coco Beach í Florida! 

 

 

 

 

tobbi_og_vala_spani_m_mer.jpg

 

 

 

 Á Spáni, - á veitingastað með mömmu! 

 

 

 

me_evu.jpg

 

 

 

 

Í ferðalagi, - með stóru systur Evu Lind! 

 

 

vala_og_tobbi_i_florida.jpg

 

 

 

 

 Og aftur á Flórída! .. 

 

 

 

tobbi_og_vala.jpg

 

 

 

 

 

 Í brúðkaup Evu Lindar stóru systur, glæsilegt ungt fólk! 

 

 

TIL HAMINGJU UNGARNIR MÍNIR;-)

 

 

 

 

 

 

 

 


Eva Lind Jónsdóttir 30 ára 2. september 2011

isaac_okello_1.jpg Eva Lind Jónsdóttir fæddist um kl. 22:00 að kvöldi 2. september árið 1981.  Þá var mamman búin að vera um sólarhring á fæðingarheimilinu.

Hún fæddist með kolsvart hár, en foreldrarnir báðir ljóshærðir, en faðir hennar hefði aldrei og getur aldrei svarið hana af sér. Smile

Það eru ýmsar "stökkbreytingar" í lífinu, sumar góðar og aðrar slæmar.  Mér finnst svolítil stökkbreyting að vera allt í einu orðin móðir ungrar konu á fertugsaldri! 

Ég er bara þakklát, endalaust þakklát. 

Þakklát fyrir vel innréttuð og falleg börn, sem eru Eva Lind og svo tvíburarnir Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst. 

 

eva_vaskar_upp.jpgÞarna er Eva að vaska upp í eldhúsinu á Stekkjarflötinni í Garðabæ, hjá afa Kela og ömmu Tobbý, - en ekki mátti opna pakka fyrr en eftir frágang, svo hún hefur drifið sig í eldhúsið!

 

 

 

 

 

 

vala_og_eva_knusast_1.jpg Og þarna eru litla systir og stóra systir að knúsast, í fallegum jólakjólum! 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

flott_systkini.jpg Í Ásbyrgi, Eva Lind, Þórarinn Ágúst, Jóhanna Vala og svo hundurinn okkar hún Hneta, sem svo sannarlega leit á sig sem eina af fjölskyldumeðlimunum! 

 

 

 

 

 

 

 

_strondinni.jpgOg svo var farið til útlanda og leikið á ströndinni! .. 

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_henrik_og_mani.jpgHér er farið hratt yfir sögu, og þarna er Eva komin með kærastann Henrik Jörgensen og son þeirra Ísak Mána sem er nú orðinn 7 ára. 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                                                                                                                                     Á brúðkaupsdegi Evu og Henriks, 14. ágúst  2009 - þá var Elisabeth Mai fædd, - aðeins þriggja mánaða gömul!  vala_eva_og_tobbi.jpg

 Þarna eru börnin mín þrjú - styttri útgáfan af nöfnunum:  Vala, Eva og Tobbi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_og_anton.jpgOg svo "græddu" börnin mín einn bróður í viðbót, krúsílinginn hann Anton Örn, sem pabbi þeirra á með konunni sinni henni Birnu Maríu. 

En allt gengið ætlar að borða saman hjá mér á morgun í tilefni afmælisins!  

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_og_bornin.jpgÞarna er Eva komin með  Elisabeth Mai, 2 ára.   Áttum þarna skemmtilegan dag í Tívolí í Kaupmannahöfn! 

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_family.jpg Þetta er náttúrulega bara dásamleg fjölskylda! ;-)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Óska Evu minni innilega til hamingju með daginn hennar, það er margt spennandi framundan í dag! 

Hér er svo blogg sem ég skrifaði þegar hún varð 27 ára!

 

Ég á mér draum  

(Lag: I have a dream, texti JM)

 

Ég á mér draum,  í hjarta fann

heilt samfélag, um kærleikann.

Saman styrk við stöndum,  mætumst hlið við hlið

styðjum hvert við annað,  færum hinu frið.

Ég trúi á engla,

eitthvað gott í öllum hægt að sjá

Ég trúi á engla,

og kominn tími fyrir frelsi´ að fá

Guð gefur gaum - ég á mér draum

 

 

Ég á mér draum,  eitt ævintýr

í hjarta þér, heill heimur býr.

Veröldin sem opnast,  við trú og nýja sýn

veitist okkur öllum, viskan verður þín.

Ég trúi á engla,

eitthvað gott í öllum hægt að sjá

Ég trúi á engla

Og kominn tími fyrir frið að ná

Guð gefur gaum - ég á mér draum

Guð gefur gaum - ég á mér draum.

Heart

 


Við verðum svo lítil ..

Lífsgæði mömmu eru að fjara út, sífellt verður erfiðara fyrir hana að vera virk og nýlega bættist það í hennar bikar að hún fékk einvers konar "mini stroke" sem gerir það að verkum að hún hallar meira út á aðra hliðina, er þreytt, og getur illa eða lítið tjáð sig.  Það er ekki nýtt að mamma sýnist á síðustu metrunum, hún hefur átt sín "comeback" en nú er eflaust farið að líða að "næsta geimi" eins og hún orðaði það sjálf nýlega.

Ég gleymi ekki hvað sökk í mér hjartað, þegar hún á sínum tíma spurði mig; "Hver hefur fengið þig til að þykjast vera dóttir mín?" ..   Það eru tvö ár síðan, en hún, eða hugur hennar,  kom  til baka og er búin að þekkja mig og okkur öll síðan, en þetta var vont á meðan á því stóð. 

Það er erfitt að sleppa, og skrítið að upplifa þessa munaðarleysistilfinningu á fullorðins aldri. Við höfum verið föðurlaus svo lengi við systkinin - þekkjum sum ekki annað.  En við erum að sjálfsögðu öll fullorðið fólk núna, en af einhverjum ástæðum verðum við lítil þegar um foreldra okkar er að ræða. Ég veit að sorgin yfir að missa pabba sem börn blandast og mun blandast inn í sorgina yfir að mamma sé svona ósjálfbjarga. 

Það hafa margir upplifað nákvæmlega þetta með foreldra sína, eða þessu líkt, og ég hef haft það í huga og við öll að muna að njóta þess sem við höfum núna,  lifa lífinu til fulls á meðan tækifæri er fyrir hendi. 

Það er það sem ég veit að foreldrar vilja börnum sínum og ég veit að mamma vill fyrir okkar hönd, enda hefur oft komið í ljós að mamma,  þessi elska er með hugann við okkur sysktinin  og okkar velferð á meðan hún sjálf hefur litla sem enga möguleika til að njóta lífsins. 

Njótum á meðan við getum, meðan við höfum tækifæri - verum svolítið villt, upplifum nýtt ævintýri á hverjum degi og förum ótroðnar slóðir ..  verum varkár, en óttumst ekki.  


Eva Rós Þórarinsdóttir 1 árs afmæli í dag 17.06.2011

 eva_ros_afmaeli.jpg

EVA RÓS  

Eva Rós, litla ljós
bros þitt burt tárin tekur 
lítil sæt
svo dýrmæt
með mér hamingju vekur

Megir þú dafna mitt dýrðarljós
lýsa´um ævi alla
Eva Rós, Eva Rós
Heyr þína framtíð kalla Heart

(Lag: Alparós)

 

 

 

 

p1010002.jpg

 


Hundaeigendur, og menn almennt, eru mun stærra vandamál en hundar ...

Ég er ein af þeim sem er fylgjandi hundahaldi, þó að sjálfsögðu sé það bundið ákveðnum reglum. Það er s.s. okkar mannanna að halda þær reglur.

Ég tel kostina við hundahaldið yfirskyggja ókostina.  

dog-food.jpg

Ókostir: Þegar hundaeigendur þrífa ekki upp eftir hunda sína,  þegar hundur bítur og/eða ræðst að manneskju (eins og hefur verið í fréttum núna tvisvar nýlega).   Þegar hundar eru lausir og valda fólki hræðslu sem er hrætt fyrir.   Þetta eru  þrír meginókostir við hundahald,  fyrir fjöldann. 

Hundaeigandi aftur á móti þarf líka að þrífa inni hjá sér, hár sem falla af hundinum og það er mikil vinna að sinna hundi svo vel fari. Viðra hann og passa upp á að hann fái nægilega hreyfingu. 

Það eru alltaf til svartir sauðir meðal hundaeigenda, og það eru alltaf til svartir sauðir alls staðar reyndar. 

Fór út að ganga í morgun með Simba ofurhund og mættum við öskrandi manni, sem var að koma heim af djamminu eflaust.  Mér varð ekki um sel,  en það olli því samt ekki að ég yrði hrædd við alla menn. 

Varðandi að hirða upp hundaskít, þá gildir það sama um sígarettustubba, tyggjó og annað.  Sumt fólk er sóðar, hvort sem það er með hund, reykir eða tyggir tyggjó.  Það tekur ekki þá samfélagslegu ábyrgð að halda umhverfinu okkar snyrtilegu. 

Í þessu þjóðfélagi einangrunar sem við lifum í dag þá tel ég að hunda- og kattahald sé jákvætt.  Það að hafa dýri að sinna, eða draga sig út í göngutúr (þó varla með ketti) er jákvætt fyrir einstaklinginn.  Fólk sem ekki getur eða vill eignast börn fær í sumum tilfellum lífsfyllingu út úr þvi  að sinna hundinum sínum (eða ketti).  Börn hafa gott af því að umgangast dýr og læra að virða þau.  Það er þekkt hvað varðar einhverf börn, að þau hafa gott af því að umgangast hunda t.d. 

Farið er með hunda skipulega inn á sum elli-og hjúkrunarheimili  þvi þeir kveikja gleði hjá gamla fólkinu. 

Við þurfum að beina athyglinni að hundaeigandanum þegar upp koma vandamál með hunda. Ég persónulega myndi ekki vilja eiga hund sem bítur og er hættulegur öðru fólki.  Hundar geta verið geðbilaðir eins og manneskjur,  en við setjum þá ekki á sjúkrahús eða í samtalsmeðferð eða hvað? 

Það skal tekið fram að ég var dauðskelkuð við hunda sem barn, lenti í því í Danmörku að mig elti Great Dane (hann var jafn stór mér) langar leiðir.  Ég áttaði mig að vísu á því að ef ég hljóp héldu hundar að ég væri í eltingaleik! .. Þegar ég svo fór að kynnast hundum þá sá ég kostina og hversu miklir gleðigjafar þeir geta verið.  Ég hef líka lent í því á fullorðinsárum að eiga fótum mínum fjör að launa,  en það var þegar ég ætlaði að stytta mér leið á Spáni og klifraði yfir girðingu og mætti þar varðhundum.  Það var adrenalínkikk æfi minnar þegar ég flaug yfir girðinguna til baka. 

Þetta gerði mig ekki hrædda við alla hunda, ekki frekar en að það gerir mig ekki hrædda við alla karlmenn þegar að þeir hafa verið með áreiti eða öskur á eftir mér þegar ég hef gengið heim að kvöldi til úr bænum.  Það mætti nú samt alveg skoða það að banna lausagöngu útúrdrukkinna og/eða ógnandi einstaklinga, bæði kvenna og karla. Wizard

En s.s. niðurstaðan er sú að við getum ekki dæmt alla hunda af fáum hundum og hundaeigendum. Vonum að hundaeigendur líti í eigin barm og hafi sína hunda í taumi.  Mæli með því að þeir sem eru hræddir, reyni að vinna á fóbíu sinni,  því það hlýtur að vera vont að ganga með þennan ugg í brjósti. 

p1010008.jpg

 

Sonardóttirin Eva Rós og Simbi ofurhundur að leik. 

 

 

 Úr Marley and me: "A dog doesn´t care if you´re rich or poor, give him your heart and hell give you his." ..

 


Elsku 16 ára ég ...

sunholl.jpg Þegar ég var barn starfaði mamma í Sundhöll Reykjavíkur og ég varði þar löngum stundum, ýmist ofan í lauginni eða uppúr. Finn eiginlega klórlykt þegar ég skrifa þetta. 

Ég á margar minningar úr Sundhöllinni, man eftir konunum sem unnu með mömmu,  ein tók mig í kleinu (sem mér fannst ekki leiðinlgt) og önnur heklaði föt á dúkkuna mína. Þær voru allar góðar við mig. Ég man minna eftir körlunum sem unnu þarna,  nema kannski þeim sem fylgdist með mér,  þegar ég sex ára synti 200 metrana í djúpu lauginni og fékk 200 metra merkið.  Ég stökk á litla brettinu og ég meira að segja (held samt bara einu sinni) stökk á því stóra. Það var eitt af mestu afrekum lífs míns og skrifaði ég heila prédikun um það á fullorðinsárum. 

Hún var um það að "Geta, ætla og þora" - en úff hvað mér fannst það hryllilegt.  Ég hef á fullorðinsárum reynt þetta, en bakkað. Að stökkva af háum palli eða bretti í vatn er eitthvað sem fær mig til að kitla í magann án þess að gera það!  Læt það duga.  Nóg að hafa farið eins og brjálæðingur í brattar og snúnar túburennibrautir  í Flórídavatsngörðum.  Það verður að duga.

En í sundhöllinni var siður að reka upp úr. Einn af vörðunum flautaði í flautuna sína og þá þurftu allir að fara uppúr. Raða sér meðfram veggjum.  Ég settist venjulega á syllu við einhvern ofninn og skalf. Svo var rekið upp úr,  því að tímaklukkurnar í afgreiðslunni gáfu til kynna að ákveðinn hópur var runninn út á sínum tíma.  Verð að játa, hér og nú, að ég fiktaði stundum í þessum klukkum þegar ég var að "aðstoða" mömmu í vinnunni- og hef eflaust ruglað tímanum fyrir einhverjum!  En svona almennt var kerfið réttlátt,  þó sumir mölduðu í móinn að þurfa að fara upp úr. það varð að hleypa fleirum ofan í, ekki réttlátt að sama fólkið fengi að leika allan daginn og aðrir fengju ekkert að fara ofan í og spreyta sig í sundi, á bretti eða fara upp á svalirnar og viðra sig.  Það var enginn heitur pottur þá. 

Mér datt þessi upp úr rekstur í hug um daginn þegar ég var að hugsa um lífið og dauðann.  Þegar okkar "tími" er kominn þá erum við rekinn upp úr. En það er þetta órétlæti þegar einhver fær ekki að vera fullan tíma sem við eigum erfitt með að gúddera.  Einhver bara nýkominn ofan í og þá flautaður upp úr.  Ætli einhver sé að fikta óvart í tímaklukkunni þeirra? 

Ég er nú ekkert að hugsa um dauðann svona dags daglega, nema nýlega horfði ég á þetta myndband, "Dear 16 year old me"  þar sem verið var að tala um hættuna af melanoma, sem er illkynja krabbamein og kallað sortuæxli á íslensku. Það þyrmdi svolítið yfir mig,  þar sem ég fékk "smá" svoleiðis fyrir rúmum tveimur árum,  en var ekki "rekin upp úr" .. slapp fyrir horn, eða "rosalega heppin" eins og læknirinn orðaði það.  Aftur á móti á ég vini, vinkonur og frændfólk - og svo er bara fólk út um allt,  sem hefur ekki veið heppið.  Rekið upp úr allt of snemma.  Ég fór líka að hugsa um þá sem ég hafði misst.  

"Elsku 16 ára ég, þú ert með viðkvæma húð, farðu varlega í að láta sólina steikja þig þú gætir brunnið illa og það haft slæmar afleiðingar.  Notaðu sólarvörn og þegar ljósalamparnir koma, slepptu því þá. Elskaðu þig eins og þú ert,  skinnið þitt eins og það er.  Þú ert nefnilega dásamleg.  Allur húðlitur er fallegur, og freknurnar sætar og eru hluti af þínum karakter (í bland við útstæðu eyrun, sem ég hef reyndar aldrei verið ósátt við)"..  Þetta hefði ég getað sagt við elsku 16 ára mig, og þar að auki hefði ég sagt:   "Gildi sálar þinnar er ekki metið eftir húðlit eða þyngd líkama þíns, stærð læra eða brjósta.  Þú ert verðug manneskja, og eins og allar manneskjur fæddar í þennan heim áttu allt gott skilið." 

Það sem ég fékk út úr þessu: 

Þakklæti fyrir líf mitt, tækifærið fyrir að lifa áfram og hvatningu til að lífinu til fulls (en ekki hálfs). Hvatningu til að lifa lífinu ekki einungis fyrir mig, heldur einnig fyrir þau hin sem eru farin. Það er eiginlega óvirðing við þau að gera það ekki.

74171_1370703122738_1686544977_711700_4730243_n.jpg

 

Ég í fangi pabba (Magnúsar) og er þarna yngri en svo að ég sé byrjuð að stunda "afrekssund" Hulda Kristín systir og Bjössi (Björn) bróðir, mamma svo falleg. Tvö yngri systkini komu síðar, Binni og Lotta. (Brynjólfur og Charlotta Ragnheiður).  Mamma (Valgerður - alltaf kölluð Vala) og pabbi eignuðust fimm börn á 12 árum, og pabbi lést síðan frá barnahópnum þegar sú yngsta var 8 mánaða. 

Minningin um hann hefur samt verið ótrúlega mikill styrkur í gegnum lífið.  Við systkinin höfum alltaf þjappað okkur þétt saman og má segja að við elskum hvert annað skilyrðislaust, sem er mikil gæfa.Mamma náttúrulega hálfgerð ofurhetja að koma okkur "til manns" eftir hennar hremmingar.  

 

Ég má leika mér í lauginni, stökkva af brettunum og á að gera það.  Ég á ekki að sitja á bakkanum og skjállfa og bíða þess að vera rekin upp úr.  Auðvitað kemur að því einn daginn að flautan gellur,  en "den tid den sorg"...   

En umfram allt virðum það líf sem okkur er gefið, líkama og sál með því að fara vel með okkur, njótum og leikum - verum saman. 


"Ég syng bara um lífið" ...

"Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" .. eða hvað?  Getum við þakkað það sem við höfum, það sem við eigum í dag?  

Ég fékk kvíðakast nýlega þegar ég leit á bankareikninginn minn, með því næst lágmarkslaun er ekki von á því að hann fari upp á við á næstunni,  og yfirvofandi atvinnuleysi í júlí.  (Ekki það að ég sé ekki að vinna í því að redda því). 

En svo gerðist það,  þessa sömu helgi,  að elsku litla sonardóttirin varð mjög veik og þurfti að fara inn á spítala.  Þá þurrkuðust þessar ómerkilegu áhyggjur út.  Það eina sem skipti máli var sólargeislinn hún Eva Rós - og þetta voru mér dýrmæt og mikilvæg skilaboð.  Hún er sem betur fer búin að ná sér í dag og kemur að horfa á Júróvisjón með ömmu í kvöld. Eva Rós

 

 Hvernig get ég annað en verið þakklát þegar ég horfi í þessi augu?  Og hvað með okkur öll?  Börnin sem fæðast eru börn jarðarinnar, börnin okkar allra og ábyrgð okkar allra.

 

 

 

Í gær fékk ég svona snert af kvíðakasti,  þegar að gsm sími dóttur minnar fannst í garði í Vesturbænum.  Ég hugsaði strax að eitthvað hefði komið fyrir hana. Leitaði að henni hjá vinum hennar, hringdi í vinnuna hennar og svo endaði það með því að ég keyrði úr vinnunni minni heim til hennar.  Ég ætla ekki einu sinni að byrja að lýsa öllu því sem búið var að fara í gegnum hugann að hefði komið fyrir,  en ég hugsaði reyndar um leið, hvað ég ætlaði mér að muna eftir að vera þakklát fyrir hversdagsleikann.  Að allt væri bara "normal" .. og að það sem mér þætti venjulega sjálfsagt væri kannski ekki alltaf sjálfsagt.   Að ég hefði bara hreinlega fætur, og það hrausta til að ganga á - þakka fyrir allt það góða sem dagurinn færir mér á hverjum degi. 

Dóttir mín var heima,  og ég var glöð að heyra rödd hennar í dyrasímanum og enn glaðari að faðma hana að mér.  Símann hafði hún misst á skokki fyrr um daginn. 

Ég held að við höfum flest,  ef ekki öll verið þarna einhvers staðar.  

vi_oll_bru_kaup.jpg

 

Mamman og dæturnar tvær,  Jóhanna Vala (sú sem týndi símanum!!)  og Eva Lind á brúðkaupsdegi þeirrar síðarnefndu.

 

 

 

 mai_sumar.jpg

 

 Litla Elisabeth Mai, dótturdóttir sem varð tveggja ára 7. maí! 

Við röbbuðum á Skype á afmælinu hennar og hún gaf ömmu að borða! 

 

 

 

 

 

mani_blom.jpg

 

"Stóri" dóttursonurinn Ísak Máni nýtur þess að blása á biðukollur.  Náttúran er líka eitthvað sem er þakkarverð og það kostar ekkert að henda sér í blómabreiðu og njóta ;-) 

 

 

 

Ég verð fimmtug á árinu og ég á aðeins eina ósk - og það er að við náum öll að koma saman vinir og ættingjar.  Hvort sem það verður á afmælisdaginn eða ekki.  Því að það þarf að safna fólkinu heim frá Danmörku líka ;-)  

Mamma sagði alltaf þegar hún var spurð hvað hún vildi í afmælisgjöf, - "ég vil bara góð börn" .. Ég held að ég taki undir það með henni.  Góð börn eru mikil gjöf. (svo þigg ég ilmvötn, bækur og blóm Wizard - smá væmnisjöfnun) 

 

"Ég er ánægð með söng í hjartanu og saltkorn í minn graut ... "

 


Hvar varst þú 17. júní árið 2000? ...

"Er allt í lagi hjá þér"  en þannig hljómaði áhyggjufull rödd tengdó í símanum þennan sérstaka dag í lífi Íslendinga, - og ég skildi ekki hvernig að hún vissi að eitthvað hefði komið fyrir mig.  Hún sem var stödd í öðrum hluta Hafnarfjarðar og ég hinum! ... var hún næm? skyggn?

 "Fannstu ekki skjálftann" ?  .. Ég fór að átta mig, um leið og ég sá að bókastafli sem var á gólfinu var hruninn.  "Ó, var þetta jarðskjálfti?!!... "

Körfubílar minna mig á Stóra skjálftann 17. júní árið 2000.  Það var s.s. árið sem ég málaði húsið mitt að utan. Þetta hús var ekkert lítið hús, heldur hús á þremur hæðum og stóð í brekku þannig að hæðin, svona a.m.k. í aðra áttina virkaði mun meiri. 

Þáverandi var í flugi og unglingarnir flognir í bæinn að halda upp á 17. júní með vinum sínum,  en það var á því æviskeiði þeirra sem félagsmótunin fer meira í gegnum jafnaldra en foreldra, svo mamman sem er haldin smá 17. júní mannfjöldafóbíu, naut þess að vera ein heima vopnuð penslum og málningarrúllu. 

Ég var sem sagt stödd  í hæstu mögulega stellingu á græna skrímslinu, en það var svona körfubílsgræja sem lyfti manni (og konu í þessu tilfelli) í hæstu hæðir.  Útsýnið yfir Hafnarfjörðinn var gífurlegt.  Ég þurfti að kyrja nangjila sam súm eitthvað til að byrja með til að róa mig í lofthræðslunni, en gleymdi henni svo við nautnina að mála. (málningarblæti hvað?)

En eins og hendi væri veifað,  fór græjan að skoppa og hoppa þarna niðri á jörðinni og konan í körfunni hristist og skoppaði og úr hendi hennar hristist málningarkústurinn og féll marga, marga metra niður á jörðina.  Ég hélt sem sagt að tækið væri bilað eða jafnvel andsetið og væri ákveðið að hrista mig úr körfunni. 

Ég hentist niður á gólf körfunnar og teygði hendina skjálfandi í gula takkann til að lækka (hækkun var ekki boði, enda komin í hæstu mögulegu stellingu) og hægt og rólega komst ég til jarðar aftur.  Sjaldan hef ég verið eins þakklát fyrir móður jörð og þann daginn, en svo hentist ég skjálfandi inn í hús og þá hringdi síminn. "Er allt í lagi hjá þér?" ...

gi17k42f.jpg

 


mbl.is Manni bjargað úr körfubíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband