Ný blaðsíða í hverju andartaki ...

Mikið erum við heppin að nýtt upphaf hefst við hvert andartak.  Nýtt andartak er nýtt upphaf, auð blaðsíða til að skrifa upp líf okkar .. og það dásamlega er að það er ekkert að óttast,  hugurinn flytur mig hálfa leið - og hjartað alla leið

...eða eins og segir í textanum í (lofgjörðar)laginu Thank you - með Dikta: 

"the book is open now and the pen keeps on writing
the story of my life; it starts right here
now I reach the stars, can grab them and hold them
with no fear "... 

 


Samkvæmt kristilegri siðfræði á ekki að kenna um kristna trú (eingöngu) í skólum ..

Eftirfarandi er svar mitt um það hvort að kenna eigi kristilega siðfræði í skólum,  en þetta skrifaði ég í athugasemd við pistil minn hér á undan þar sem ég var að biðja um að siðfræði, virðing, vinátta, samskipti o.s.frv. fengi jafn mikið pláss í stundaskránni frá fyrsta bekk grunnskóla og uppúr, eins og hefðbundin kjarnafög.  Því ef að fyrrgreint er ekki kjarninn, hvað er það þá? 

....

Ég er sammála því að kristin siðfræði er góð, enda byggist hún á því fallega boðorði að elska náungann eins og sjálfan sig. Svo einföld er hún í mínum huga. 

Ég kenndi þetta í sunnudagaskóla í tvö ár,  með ýmsum útfærslum. Og svo auðvitað að gera það fyrir aðra sem þú vilt að þeir geri fyrir þig, sem er í raun og veru sami hluturinn. 

Þetta er nú komið í alls konar nýjan búning, enda ekkert nýtt undir sólinni. Flest af því sem ég les í dag get ég fundið í einhverri útgáfu í Biblíunni.  Meira að segja fjölgreindarkenningu Gardners.  Páll Postuli talar um að við höfum öll mismunandi náðargáfur,  höfum anda til að gera mismunandi hluti. 

En það eru ekki allir undir hatti hinnar kristnu kirkju og ég tel að við getum kennt þetta alveg án þess að kalla þetta kristna siðfræði,  þetta er siðfræði sem gengur þvert í trúarbrögðum og einnig hjá þeim sem kalla sig guðlausa. 

Kristinfræði má kenna í kirkjum (barna og unglingastarfi)  og í fermingarfræðslu.  Mér finnst persónulega við skapa meiri ófrið en frið með því að ætlast til að allir sitji í kennslustund sem er kölluð kristin siðfræðikennsla,  því að það hentar ekki öllum.

Þeir sem trúa á Guð kristninnar, eða bara Guð yfirhöfuð (ég tel Guð bara vera eitt og ekki tengdan aðeins einum flokki eða hópi) vita að Guð er með í verki og það er nóg. 

Sjálf starfa ég þannig að ég bið Guð um handleiðslu, en er ekki að "ota" honum/henni/því upp á skjólstæðinga mína og/eða nemendur.  Ég trúi á Guð í mér og Guð í þeim - Guð með okkur.  

Ég færi létt með að kenna kristilega siðfræði í skólum án þess að nefna Krist eða Guð á nafn og örugglega margir aðrir.  

Það er kristileg siðfræði að gera það ekki.  Það er tillitsemi við náungann. 

"Allt sem að þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra" .. 

Við sem teljum okkur hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, erum beðin um að hlífa börnum ákveðins hóps við beinni kennslu um hann,  því að hópnum finnst á sér brotið. (bæði guðlausum og annarrar trúar)  Þá gerum við það.  Öll börnin fá kennsluna,  foreldrar geta sjálfir uppfrætt um Jesú Krist og kirkjan, eða þjónar hennar,  eins og áður sagði,  og svo sannarlega fá börnin að læra um hann og aðra leiðtoga í trúarbrögðum í trúarbragðafræði.  

Margar setningar í Búddisma eru mjög líkar þeim sem eru í Biblíunni og gegnum sneitt í trúarbrögðum. 

Skemmtileg kennsla í trúarbragðafræðum væri t.d. að leyfa börnunum að finna samnefnara í trúarbrögðunum og þá í siðfræðinni.  

Þegar upp er staðið tel ég að það sé ekki spurningu hvað það verður: 

Kærleikur - og það er það sem lífið snýst um. 


Foreldrar, fyrirmyndir, fjölbreytileikinn, skólinn og eineltið ..

Einelti er staðreynd í skólum.  Nýlega skrifaði ég pistil um það að það læri börnin sem fyrir þeim er haft. 

Enginn má vera öðru vísi á neinn hátt, ef þú passar ekki nokkurn veginn inn í normið áttu á hættu að lenda í einelti. Eiginlega eiga allir á hættu að lenda í einelti, því öll erum við pinku öðru vísi en sérstaklega ertu í hættu ef: þú ert of klár, of "vitlaus", of feit/ur, of mjó/r, of lítil/l, of stór, of dökk/ur, of ljós, of útlensk/ur, of íslensk/ur (sveitó), of falleg/ur, of ófríð/ur ...o.s.frv...

Þú ferð í pirrurnar á einhverjum  vegna þess að þú ert of öðru vísi Sideways ..  að sjálfsögðu er það þeirra vandamál en þau gera það að sínu og/eða upphefja sjálf sig á þinn kostnað. 

Í viðtali við ástralskan strák nýlega sagði hann, og átti að vera hughreysting fyrir ung fórnarlömb eineltis.  "School aint gona last forever" eða skólinn mun ekki endast ekki að eilífu. 

Elsku bestu foreldrar og allir fullorðnir, lítum nú í eigin barm og hugsum hvort að við séum að senda börnunum einhver skilaboð um að það að vera öðru vísi sé ástæða til að fara að áreita viðkomandi þannig að hann eða hún upplifi skólavist sem helvítisvist (það er ekki orðum aukið). 

Um leið,  þarf skólinn (vildi ég óska) að hafa lífsleikni sem skyldufag frá fyrsta bekk í grunnskóla og upp úr, þar sem farið er í atriði eins og heiðarleika, virðingu, vináttu, sjálfstyrkingu o.s.frv. þar sem börnin æfa sig daglega í því undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda. Alls konar siðfræðiæfingar,  æfingar í að standa með sjálfum sér og svo framvegis. (Við fullorðna fólkið erum að uppgötva þetta á miðjum aldri, oft - að við höfum í raun aldrei lært þetta, enda erum við ennþá að stunda einelti inn á vinnustöðum).

Aðeins með því, getum við átt möguleika á að vinna gegn þessu æxli í samfélaginu.  Að skólinn, foreldrar og samfélagið í heild taki sig á.  

Þetta myndi þar að auki spara samfélaginu gríðarlegar fjárhæðir, svo út í það sé farið, sem fara annars í sálfræðinga og velferðarþjónustu ýmsa.  Þar að auki flýja iðulega eineltisþolendur inn í heim fíknar og það þarf ekki að spyrja neinn hvað það kostar, bæði fyrir þolandann og samfélagið.  

Það sem upp úr stæði væri betra, vel menntaðra og sjálfsöruggara samfélag, því að börn sem fá góðan aðbúnað í lífsleikni fá einnig meira sjálfstraust í grunnfögum eins og stærðfræði og íslensku.

Verum meðvituð um: 

  • að við erum fyrirmyndir (og börnin hlusta á "allt" sem við segjum)
  • skoðanir okkar á því og þeim sem eru "öðruvísi"
  • þá andlegu fæðu sem við neytum og þá sem við bjóðum börnunum
  • þau tæki sem við beitum við uppeldi, hrós, að taka eftir því sem vel er gert o.s.frv. 
  • að veita börnunum okkar athygli og hlusta á það sem þau langar að tala um
  • og margt margt fleira auðvitað ... 

Sólin skín jafnt á okkur öll  ...

 

shutterstock_9102127.jpg

 


Þið þarna veðurfræðingar hættið að tala sólina niður!... er ekki hægt að fá ÓRG í beina að skamma ykkur fyrir þetta?

"Él í dag nema Norðaustanlands" .. þetta er ekki í boði! .. 

Jæja kæru landar, nú verðum við að leggjast öll á eitt og fara að tala upp sólina! (Þið ráðið hvort þið lesið þetta með rödd ÓRG eða ekki).

Konan sem á þessa síðu er komin með stóla á svalirnar og farin að gera klárt fyrir vini og vandamenn að koma í spjall og kaffi (nú eða hvítvín) svo þetta auma veður er ekki í boði.  (Þarna braut ég eitt af eigin boðorðum og talaði illa um veðrið).  Só bí it 

Annars góðan dag og gleðilega helgi! 

Legg til að við kyrjum þetta sem flest (veðurspámenn og aðrir spámenn líka) og gáum svo til veðurs: 

Sól úti

Sól inni

Sól í hjarta 

Sól í sinni 

Sól bara sól

kids_sunshine_1077084.gif


mbl.is Él í dag nema Norðaustanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum við fyrirmyndir eða ómyndir? ... aldrei of seint að laga til hjá sér ;-)

Sextán ára fékk ég vinnu við Verkamannabústaðina í Reykjavík.   Það er skemmst frá því að segja að vinnuflokknum mínum  féll næstum aldrei verk úr hendi.  Það var ekki vegna þess að verkstjórinn okkar, roskinn fyrrverandi bóndi, væri svona duglegur við að reka á eftir okkur.  Heldur vegna þess að hann var svo góð fyrirmynd.  Hann mætti alltaf stundvíslega, byrjaði fyrstur að vinna bæði á morgnana og eftir matar og kaffipásur og við höfðum aldrei geð í neitt annað en að fylgja honum eftir.  Létum hann s.s. ekki standa einan og vinna.  

---

Eftir því sem ég hef meiri samskipti við börn og unglinga verður þetta orðatiltæki: "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft" sterkara í mínum huga.  Við getum reynt að kenna þeim og segja þeim endalaust til, en ef við erum ekki sjálf fyrirmynd þá er það sem við segjum orðin tóm og hafa lítið sem ekkert innihald. 

Mæður sem eru sífellt að tala um megrun, óánægðar með sjálfsmyndina og stunda niðurbrjótandi sjálfstal þurfa ekki að vera hissa þegar dóttir þeirra fetar sama veginn.  Faðir sem reykir er ekki sérlega trúverðugur forvarnarfulltrúi barna sinna.  Þetta eru bara tvö dæmi af handahófi,  það má líka íhuga hvernig foreldrar leysa úr deilumálum.  Sama hvað þau eru lærð í fræðunum, það er framkvæmdin sem skiptir máli.  Það er fyrirmyndin sem þau gefa sem skiptir máli.

Ef við lítum á skítkast sem einhverjir hafa tamið sér í já-og nei umræðunni undanfarið mega margir hugsa sinn gang.  Eru börnin og unglingarnir að hlusta og/eða lesa? 

Börnin læra af því sem fyrir þeim er haft. 

Ég held að við þurfum öll að líta í eigin barm og spyrja okkur: "Hvers konar fyrirmynd er ég?" .. því að við erum svo sannarlega öll kennarar og getum haft varanleg áhrif á óharðnað ungviðið,  til ills - en sem betur fer líka til góðs. Að sjálfsögðu getum við líka verið fyrirmyndir hvers annars, auk þess að leita utanaðkomandi fyrirmynda. 

Enn á ný: "Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar" ..  höfum framboðið af því góða meira en af hinu illa,  því svo sannarlega hljótum við öll að óska þess að börnin læri hið góða. 

Ég tek hér úr eigin reynslubanka (banka sem er ekkert að fara á hausinn), ég hef ekki alltaf verið góð fyrirmynd, stundum bara alveg hræðileg.  En við lærum svo lengi sem lifum, og nýjasta fyrirmyndaæfingin mín, sem verður vonandi að lífsstíl er að hætta slæmu umtali um aðra, og svo líka um sjálfa mig!   Það er áskorun!  

  • Veitum hinu góða í fari náungans athygli og verum óspör á hrósin þegar vel er gert
  • Berum gagnkvæma virðingu fyrir hvert öðru ung og gömul, jafnvel þó að við höfum ólíkar skoðanir og berum virðingu fyrir okkur sjálfum
  • Tölum ekki illa um náungann - það kemur engum að gagni, ekki sjálfum okkur, þeim sem hlustar eða náunganum
  • Hlustum af athygli á það sem aðrir (börn sem fullorðnir) hafa að segja (ekki vera að undirbúa svar á meðan hinn talar - þá ertu með athygli á sjálfum þér en ekki náunganum) 
  • Verum ekki dómhörð
  • Fyrirgefum
  • Reynum að setja okkur í spor annarra
  • Sýnum þakklæti
  • Brosum
  • Verum heiðarleg
  • Verum góðar fyrirmyndir 
  • þú mátt gjarnan bæta við þínum ráðum í athugasemdum ;-) 

6a00d8345161a069e20120a4ce7b04970b-320wi.jpg


Ég er hjá mér ..

Enn er ég að bögglast með Mátt viljans, í tvennum skilningi.  Ég er að lesa bókina hans Guðna Gunnarssonar og svo er ég að vinna með mátt míns vilja.  

Guðs er vissulega mátturinn og dýrðin, en mátturinn og dýrðin er líka okkar og fyrir mér er þetta  ekkert sem er aðskiljanlegt.  Ein bestu orðin sem lýsa þessu koma fram í þessum orðumi: 

Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.

Þetta ljóð er eftir Steingrím Thorsteinsson sem var uppi frá 1831 - 1851. 

Í Biblíunni stendur:

"Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð."  Jóh. 8:47 

Davíðssálmur nr. 23,  Drottinn er minn hirðir er ein af mínum uppáhalds hvatningarleiðum, t.d. til að sigrast á einhverju sem ég óttast að takast á við.  Í bók Guðna Gunnarssonar skiptir hann til gamans (og alvöru) út Drottinn og setur "ég" í staðinn.  Það er áhugavert og eflandi að lesa það.  Það er ekki gert til að gera lítið úr Guði,  heldur til að ítreka þennan mátt sem er bæði Guðs og manna, óaðskiljanlegur.  Því til stuðnings, fyrir þá sem vilja leita staðfestingar í Biblíunni má t.d. bara lesa sköpunarsöguna þar sem stendur að Guð hafi skapað karl og konu í sinni mynd. Þau eru sköpuð til að skapa, sköpuð til að lýsa sem ljós heimsins.

 

Ég er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum læt ég mig hvílast,

leiði mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

 

Ég hressi sál mína,

leiði mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns míns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert íllt,

því ég er hjá mér,

sproti minn og stafur hugga mig.

 

Ég bý mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

ég smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

 

Gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi mínu

bý ég langa ævi.

 

Ég er minn hirðir 

mig mun ekkert bresta. 

 

Þennan sálm geta allir sungið, landamæralaust  og í vináttu við sjálfa sig og aðra. Það er svo mikilvægt að eiga vináttu sjálfs sín,  því að vissulega þekkjum við það flest að versti óvinurinn, sá sem hindrar okkur í að komast áfram í lífinu,  getur leynst í okkur sjálfum.  

Ég man eftir að hafa farið á fyrirlestur hjá Guðna, á tímabili sem ég var frekar ósátt við lífið og tilveruna. Fannst ég einmana og afskipt, en þegar ég kom heim hugsaði ég hvað ég væri frábær félagsskapur sjálfrar mín, heppin að eiga MIG.  

Guðni fjallar um Dal dimmunnar, "þegar blekkingunni sleppi komum við í dal dimmunnar" til að komast í gegnum þennan dal þurfum við að vera okkar eigið ljós og njóta dalsins.  Nóttin er ekki slæm, myrkrið er ekki slæmt þegar við göngum í gegnum það í ljósi.  

Nóttin er spennandi því þá sofum við og kveikjum oftast á draumunum okkar.  Nóttin er ekkert til að flýja, heldur til að dvelja í og njóta,  á sama hátt og gott er að dvelja í deginum og njóta. Ef við erum alltaf að bíða eftir að það komi nótt og bíða eftir að það komi dagur þá njótum við hvorugs. 

Dveldu í sjálfum/sjálfri þér, dveldu í Guði (eða því afli sem þú kýst eða upplifir) dveldu á þeim stað sem þú ert stödd/staddur í og  þannig hljótum við að lifa í hinu margrómaða Núi, ekki satt? ..

Skrifað uppí rúmi með sjálfri mér og lap-toppnum mínum (að vísu) og á meðan að ég skrifaði steingleymdi ég að ég væri með bullandi höfuðverk, sem brýst nú fram sem óður væri! ..

Eigum góðar stundir með sjálfum okkur og öðrum. Smile


Er enginn hagur fyrir Evrópusambandið að Ísland verði aðili? ..

„Ég tel að á þessari stundu sé enginn möguleiki á því að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu. Á því er enginn möguleiki."

"Þetta segir Sylvester Eijffinger, prófessor í hagfræði við Tilburg-háskóla og einn ráðgjafa Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni, í Morgunblaðinu í dag um afleiðingar þess ef íslensk stjórnvöld efni ekki nýja Icesave-samninginn fyrir aðildarumsókn Íslands að ESB."

Halló! -  nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki vel til hvað er í því fyrir Ísland að fara í ESB og á móti hvað er í því fyrir ESB, en finnst þetta svolítið dramatískt  að vegna "hegðunar" Íslendinga varðandi IceSave séu uppi svona aðdróttanir og yfirlýsingar um að Ísland fái ekki aðild. 

Mér finnst vont að þarna úti séu einhverjir aðilar sem eru með hótanir um hvernig íslenska þjóðin eigi að sitja og standa.  

Ég er fylgjandi því að fella niður múra, tengjast sem flestum - en það verður að vera á grundvelli vinskapar og bræðralags ekki einhverra þvingana og kúgunar.  

Þetta lítur ekki út fyrir að vera upphaf á fallegri vináttu ef að verið er að hóta svona. Það má taka dæmi um um par í giftingarhugleiðingum og  einhver sem tengdist brúðgumanum kæmi og segði:

„Ég tel að á þessari stundu sé enginn möguleiki á því að Kalli giftist henni Stínu.  Á því er enginn möguleiki."  

Nú, jæja ef að Kalli vill ekki Stínu þar sem hún hegðar sér ekki skv. hans geðþótta, er það ekki bara hans tap? ..

Auðvitað hljótum við að sækjast eftir "Win-Win" sambandi en ekki að fá að kúra upp í hjá einhverjum ofstopamanni.  Nú nema að íslenska þjóðarsálin sé spennt fyrir að vera undirgefin? ..   Öðru vísi mér áður brá.

"A beautiful freindship" .. 

 

 


mbl.is Hóta að standa í vegi aðildar að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar" ..

Hvað sem Ólafur sagði annað í þessari yfirlýsingu sinni, þá náðu þessi orð hans um að tala upp íslenskt atvinnulíf til minna eyrna.  Ég er að lesa bók Guðna Gunnarssonar um Mátt Viljans, og á forsíðu hennar standa þau orð sem ég setti í titil "Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar" .. 

Ef við tölum eitthvað niður þá fer það niður og ef við tölum eitthvað upp þá fer það upp, það er mín einlæga trú og ekki aðeins trú - heldur reynsla. 

Ef þú segir nógu oft við þig að ástandið sé ömurlegt, hversu miklar líkur eru á því að það verði ömurlegt áfram?  Ég myndi segja 100% líklegt ...      Þannig að "thumbs up"  fyrir forsetanum frá mínum bæjardyrum séð. Reynum að horfa hlutlaust á þessa ræðu, hvort sem okkur líkar vel við manninn eða ekki, og aðrar gjörðir hans,  hvort að þarna liggi ekki mörg sannleikskorn?  

Ég fór nýlega í heimsókn til CCP með hóp af unglingum, þar sagði leiðsögumaðurinn frá því hvað þeir græddu hrikalega mikið dag hvern.  Þar er blómlegt starf í gangi.  Samt sem áður er þetta fyrirtæki, eða forsvarsmenn þess,  með hótanir um að flýja land vegna efnahagsástandsins. 

Hvenær er nóg nóg?  Eða hvað er ég að misskilja? 

 ---

daffodil.jpg


mbl.is Hættið að tala niður íslenskt atvinnulíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Neither you nor I´m to blame when all is said and done" .. hættum ásökunum og förum að vinna saman.


mbl.is Nei fékk tæp 60% atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál dagsins...

..er ekki IceSave kosningin heldur: 

Söngkeppni framhaldsskólanna! Smile

Með því að smella á Youtube hlekkinn hér fyrir neðan má hlusta á fulltrúa Hraðbrautar,

mér finnst hún svaka góð!

Njótið dagsins og lagsins!  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband