Færsluflokkur: Lífstíll
8.6.2010 | 06:55
Tvær vikur liðnar af breyttu mataræði (blogg fyrir þá sem vilja fylgjast með þyngdartapi)
Það fór eins og mig grunaði, fyrstu kílóin hrynja hraðast af, en það fóru 3 kg fyrstu vikuna en nú er liðin vika 2 og ég var nú að vonast til að ná 1 kg en það voru 900 gr nákvæmlega. Það er mjög gott mál, en 1 kg á viku var upphaflegt markmið. BMI eða Body Mass Index eða þyngdarstuðull er núna 25.8 en þarf að fara niður í 24.9 til að teljast í kjörþyngd. Til þess að ná því vantar mig 3,1 kg í viðbót svo ég hætti ekkert fyrr en því markmiði er náð, reyndar ætla ég ekki að hætta heldur að halda mig við "Nýja lífið" og eiga einn nammidag í viku.
Þetta er skalinn yfir þyngdarstuðul:
- Undir kjörþyng = <18.5
- Kjörþyng = 18.5-24.9
- Yfir kjörþyng = 25-29.9
- Offita = BMI er 30 eða meira
Ef ég veit að upp er að koma afmæli, eða eitthvað spes, þá get ég notað þann vikudag sem nammidag. Að öðru leyti halda mig við að vanda mataræðið, því ekkert er leiðinlegra en að rjúka aftur upp í vigt þegar búið er að standa sig svona vel!
Í gærkvöldi fór ég á Thorvaldsen við Austurvöll, bauð börnunum mínum og tengdadóttur. Pantaði Ceasar Salat, sleppti flestum brauðteningunum og sósunni. Það er hægt að biðja um hana til hliðar. Ég hlakka mikið til að komast yfir 4 kg þröskuldinn, en það verður auglýst síðar!
Fyrir þá sem eru að lesa í fyrsta skipti set ég hér fyrir neðan lista yfir mataræðið mitt, reyndar ætla ég að gera tilraun þessa viku og bæta við Rego Slim dufti í morgunmat. Ég fór í svona Multi Level Marketing dæmi en hef aldrei drifið mig í að fá fleira sölufólk, og þá fær maður ekki "prósentur" en kaupi þetta fyrir sjálfa mig.
Ég get útvegað það á kostnaðarverði ef einhver vill, þarf ekki að "græða" á því og einnig Brokkolítöflur sem líka er hægt að lesa um á síðunni sem bæði systir mín og vinkona segi að sé töfralyf gegn mígreni og jafnvel timburmönnum. Það er í raun ekkert auglýst sem slíkt, heldur "yngingartöflur" en nánar má lesa um það á þessari síðu.
Svo á ekki að gefast upp, það er ekkert "normalt" að missa 3 kg á einni viku, en eflaust er það mataræði sem ég var á áður þess valdandi að ég hef safnað vökva og þess vegna fara fyrstu kílóin svona hratt. En niðurstaðan eftir 2 vikur sléttar er samtals 3.9 kg og ég er sátt. Nú er spennandi að vita hvernig vika 3 fer en partur af aðhaldinu mínu eru að sjálfsögðu að gera þetta svona "í beinni"
Það sem ég kalla "Síberíukúrinn" minn:
Svona lítur hann út í sinni einföldustu mynd:
Sleppa:
- öllum sætindum
- snakki
- öllu brauði nema spelt- og hrökkbrauði
- hvítu hveiti og hrísgrjónum
- allri mjólkurvöru
- majonessósum
- kaffi og gosi
- áfengi
- Ávexti
- grænmeti
- kjúklingabringur og fisk (allt kjöt ókey nema alls ekki unnar kjötvörur)
- baunir af öllum sortum og gerðum
- fræ
- hummus eða avocado í stað smjörs
- brún grjón
- grænt te
- vatn - lots of it
Ég hef haldið þetta svona 99% hef borðað 1 barnaís á tímabilinu og smá parmesan og feta ost sem óhjákvæmlilega er stundum í salati og öðru þegar farið er út að borða. Ein árshátíð í pakkanum en þar borðaði ég bara pent og sleppti eftirrétti.
Jæja, en áfram með smjörið (eða ekki smjörið reyndar).
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.6.2010 | 07:24
Að einangra sig og vernda með fitu ..
Í aðhaldinu mínu sem oftar verður mér hugsað til þess fólks sem hreinlega hefur ekkert að borða. Hugsað til hungraðra sem hafa ekkert val milli ávaxta eða sælgætis og þurfa svo sannarlega ekki að vera í aðhaldi þar sem matur er af skornum skammti og úrvalið sama sem ekkert. Í sumum tilfellum er lúxusinn hreinlega að fá að borða.
Öfgarnar eru gífurlegar og sjást m.a. í Biggest Loser þáttunum þar sem fólk er orðið afmyndað af spiki og ósátt við sjálft sig. Þetta fólk biður um aga, biður um hjálp við að losna við kíló, en þarf alveg örugglega, í mörgum tilfellum, að losna við mörg "kíló" af sálinni.
Það vill enginn vera hungraður og það vill enginn borða of mikið. Ofát er ákveðin vanstilling og kemur oftar en ekki af vanlíðan. Eins og kemur fram í orðin "van" þá er það eitthvað sem fólki vantar - ekki endilega matur.
Ég horfði á "Biggest Loser" þátt þar sem einn keppandinn grét þar sem hún sagðist hafa verið einmana og borðað til að fá öryggi í stórum líkama. Þetta er líka þekkt fyrirbrigði fyrir stelpur/konur sem hafa verið misnotaðar, kannski drengi líka? Fólk einangrar sig með spiki, í orðsins fyllstu merkingu. Stundum borðar fólk bara of mikið af því að því leiðist, eða því líður illa.
Það er aldrei á vísan að róa með hamingjuna. Matur færir okkur ekki hamingjuna. Matur getur verið fullorðinni manneskju eins og snuð er barni. Eitthvað til að róa og sefa eitthvað sem hefur ekki verið tekist á við.
Það er gott að borða góðan mat og njóta hans og það eigum við að gera, en þegar vanlíðan hellist yfir er óeðlilegt að þurfa að "hygge sig" með mat, þá þarf miklu frekar að reyna að finna rót vanlíðunar og komast yfir hana.
Auðvitað eru ekki allir með andleg vandamál sem eru of feitir, stundum er það bara umhverfið sem fólk fæðist inn í, og við erum með misjafnlega hröð efnaskipti, enda eru dæmi þess að heilu fjölskyldurnar og þá börnin meðtalin eru í umframþyngd.
Garnastyttingar og aðrar "extreme" aðgerðir eru til lítils gagns ef að ekki er tekið á raunverulegum vanda manneskjunnar. Ef að þörfin fyrir að stinga einhverju í munninn er ekki lengur aðeins þörf heldur fíkn, fíkn til að bæla eitthvað sem þarf í raun að koma út.
Öll skrif um offitu eru viðkvæm og stundum særandi, því að margir eiga við það vandamál að stríða en líta jafnvel ekki á það sem vandamál. Það er þó vitað að offita er hættuleg heilsu manna ekki síður en reykingar og margir reykingamenn líta ekki á reykingar sínar sem vandamál.
Ég er að íhuga framtíðina mína og ein af hugmyndunum er að vera með sálgæsluviðtöl, bæði fyrir feita og granna .. nýta mína reynslu og menntun til góðs. Sjálf er ég að sigrast á aukakílóunum og finn að ég er ekkert óhamingjusamari þó ég borði minna, reynar bara glaðari því ég er að komast í kjörþyngd!
Einfalt mataræði og agi, örlítil hreyfing og agi, það er það sem virkar. Að ógleymdri ást og umhyggju fyrir sjálfum sér.
Sumir eru feitir að utan og aðrir að innan, sumir bæði að utan og innan - við berum þetta ekki öll utan á okkur. En það er vont að þurfa að burðast með umframþunga, af hvaða sort sem hann er.
Eftir að ég skrifaði bloggið, fékk ég þessa speki senda í pósti og fannst það passa við pistilinn, svo þetta "quote" er "seinni tíma viðbót" .. eins og sagt er.
"The body is the servant of the mind.
It obeys the operations of the mind,
whether they be deliberately chosen
or automatically expressed. Disease
and health, like circumstances, are
rooted in thought."
James Allen
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2010 | 08:11
"Chill" dagur og mín í mussu
Í dag er "Chill" þema dagur í boði nemendafélagsins í skólanum. Í tilefni af þessum chill degi ætla ég mér að mæta í mussu og bandaskóm með tærnar frjálsar og reyndar fagurlega lakkaðar neglur.
Ekki veit ég þó hversu mikið verður hægt að chilla í vinnunni, því að margt liggur fyrir og það fyrsta er fundur sem hefst eftir 30 mínútur um þróunarvinnu í námskrárgerð. Efast þó um að fleiri af þátttakendum taki Chill daginn svona hátíðlega.
Árshátíð nemendafélagsins var í gær og mættu 12 starfsmenn sem voru heiðraðir með ýmsu móti, eins og t.d. "Rass skólans" ...ég er svo stolt af mínum titli sem kom út úr kosningunum að ég ætla að leyfa mér að bera hann á torg (af því ég er svo "útvortis" manneskja en það er víst þýðingin á extrovert) en það var hvorki meira né minna en "Sál skólans" en eflaust hefur það hjálpað til að þeim þykir extra vænt um mig núna þar sem ég er að fara að breyta um starfsvettvang og verð ekki næsta vetur.
Reyndar er þessi breytti nýi starfsvettvangur ekki kominn í ljós, það verður vonandi eitthvað skemmtilegt! ..
Jæja, ekki má þessi sál mæta of seint á fund, en óskar ykkur öllum góðs dags.
Kveðja, Mussukerling
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.6.2010 | 16:23
Árshátíð í kvöld, obb, obb, obb, hvað gera konur á Síberíukúr þá?
"Í forrétt verður boðið upp á humarsúpu með ristuðum humarhölum og nýbökuðu brauði. Í aðalrétt verður boðið upp á Sinnepsgljáðan lambahryggsvöðva með sætum kartöflum, rjómasoðnum sveppum og rauðvínssósu. Í eftirrétt verður boðið upp á volga súkkulaðiköku með sólberjasósu og vanilluís." Slurp! ..
Þetta er matseðill kvöldsins, þá þarf að:
1) Veiða humarhalana uppúr - baða þá í vatnsglasinu og borða svo, sleppa brauðinu.
2) Borða lambakjötið og sætu kartöflurnar, skola sveppina á sama hátt og humarhalana.
3) Gefa átvaglinu á borðinu eftirréttinn sinn en fá sér grænt te í staðinn.
Að sjálfsögðu verða humarhalar og sveppir ekkert baðaðir í vatni, en þetta var "extreme" útgáfa á því hvernig má redda sér frá því að borða rjóma!
Það þarf líka ekki alveg að gúffa í sig öllum matnum, heldur bara smakka á góðgætinu!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2010 | 21:43
Einfaldur, léttur en góður kjúklingaréttur í ofni eldaður fyrir börnin og tengdadóttur
Það þýðir ekkert að hætta að fæða fjöldann þó konan sé sjálf í aðhaldi, það er hægt að elda létta en gómsæta rétti og passa bara að borða mikið af salatinu og öðru léttu meðlæti í boði.
Réttur kvöldsins:
800 grömm kjúklingalundir (eða bringur)
1 dós Hunt´s diced tomatoes m/basil og garlic
1 krukka Salsa medium (mild eða hot eftir hvað við viljum hafa sterkt)
1 lítil dós kókosmjólk
1 msk Oscar´s kjúklingakraftur
2 - 3 sneiðar jalapeno (fleiri ef sósan á að vera sterkari)
1 rauðlaukur
1 hvítlaukur (ítill eða 2 hvítlauksrif)
Laukur í rauðu og hvítu brytjaður og hitaður í kókosfeiti eða léttri olíu á pönnu
Tómatteningunum, salsanu og kókosmjólk hellt út á og hrært. Kjúklingakrafti bætt í og síðan jalapeno.
Sósan klár.
Steikið kjúlingalundir/bringur, kryddið með sítrónupipar, herbamare eða uppáhaldskryddunum ykkar.
Ég setti svo lundirnar í eldfast mót og hellti sósunni yfir, bætti að vísu út í fersku niðurskornu brokkolí og sökkti því bara í sósunni svo það myndi soðna í ofninum. Hitaði þetta í ca 10 - 15 mínútur og setti aðeins á grill í restina.
Bar þetta svo fram með lífrænt ræktuðu íslensku byggi og hrásalati.
Bragðmikið og gott!
Svo er bara að fá sér einu sinni á diskinn og ekki meira.
Þetta féll vel í kramið hjá fjölskyldunni, en byggið er eitthvað sem sonurinn er ekki alveg að kaupa ;-) .. Það er þá hægt að sjóða hrísgrjón (helst Tilda grjón - brún) í staðinn.
Ætlaði að taka mynd en steingleymdi því, en þetta leit bara býsna vel út, en set í staðinn bara mynd af tómötunum! .. Hunt´s er góð vara, ég vann hjá Heildsölunni í sex ár og þekki vel til!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2010 | 17:41
Tvær systur á Síberíukúr og 4,9 kíló farin af á tæpri viku
Ég veit að einhverjar og einhverjir sem lesa bloggið eru að pæla í að létta sig svo ég held áfram að lýsa ótrúlegum árangri okkar systra í aðhaldinu.
Við héldum Eurovisionpartý á laugardag og þá útbjó ég rækju- og humarsalat með káli, spínati, tómötum, púrrulauk, cashew hnetum, smá sesam olíu, hvítlauk o.fl.
Um kvöldið þegar aðrir lágu í Doritos og nammi borðuðum við niðurskornar gúrkur, sveppi, vínber og fleira gott með avocado ídýfu og hummus. Kristall var drykkurinn og te hjá mér en systirin er enn í kaffi.
Sjálf trúði ég ekki eigin augum í morgun þegar ég steig á vigtina, en ég er búin að missa 3 kg síðan á þriðjudagsmorgun (25. maí) og systir mín 1,9 kg fékk ég á sms (þau eru þung þessi sms!) síðan á miðvikudagsmorgun (26.maí). Eini munurinn á okkar aðhaldi er að hún drekkur ennþá kaffi, en ég sleppi því og drekk mikið af grænu tei, sem er um leið afeitrandi.
Í gærkvöldi eldaði systir mín grænmetissúpu og settum við smá kjúkling útí, algjört sælgæti. Mig vantar að vísu uppskrift af súpunni en hún var matarmikil og bragðgóð.
Í kvöld ætla ég svo að ganga rösklega með mánudagsgönguhópnum, en reyni að gera það annan hvern mánudag.
Það merkilega við svona mataræði er að maður/kona léttist ekki bara líkamlega heldur andlega líka!
Skora á þá sem eru að berjast við aukakílóin að fara að nota réttu vopnin - þ.e.a.s. breyta mataræði og auðvitað gott að hreyfa sig eitthvað með.
Allt um árangurinn og mataræðið sjálft er hægt að lesa ef smellt er á "Lífstíll"
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2010 | 12:23
Systur á Síberíukúr ... 3,8 kg samtals á fjórum dögum!
Jæja, þegar konan er búin að ákveða sig, eða næstum ákveða sig hvað hún ætlar að kjósa þá er best að snúa sér að mataræðinu. Sem er reyndar ekkert æði, bara mjög hófsamt. Við systurnar hófum sem sagt Síberíugöngu okkar 25. maí sl. það eru nú aðeins fjórir dagar síðan. En það þýðir að við breyttum algjörlega eða miklu leyti um mataræði. Auðvitað á ekki að gefa upp tölur fyrr en eftir viku, en það er svo gaman að sjá árangurinn strax að ég ætla að hvísla því að þeim sem eru að fylgjast með.
Ég hef sett hér inn í fyrri færslum, í hverju mataræðið felst - í þessu sem ég kalla Síberíukúr og svo þrjár einfaldar uppskrftir af því sem ég hef fengið mér í kvöldmat. Í gær fékk ég mér svo Subway kjúklingasalat án dressingar, bara smá ólífuolía, salt og pipar. Ég borða ekkert eftir kvöldmat, í mesta lagi hálfan ávöxt eða nokkrar hnetur. Grænt /koffínlaust te er stór partur af árangrinum, en ég sleppi kaffi í staðinn sem hefur reynst einna erfiðast.
Tertur hafa verið flæðandi í vinnunni, en ég hef fengið mér peru eða epli í staðinn, úje..
En þá er komið að nýjustu tölum. Eftir samtal við systur í morgun þá er niðurstaðan eftir fjóra daga að undirrituð hefur tapað 2,4 kg og systir 1,4 kg Auðvitað er það vökvatap og eitthvað, en váts það er þess virði. Auðvitað þykir það ekkert normalt eða "hollt" að tapa svona hratt, en ég hef ákveðið að halda þetta út þar til ég er komin í óskavigt og halda svo áfram en taka einn nammidag í viku.
Auðvitað mæli ég með hreyfingu líka, enda gekk ég niður Laugaveg í gær og hafði gaman af!
Bikiníið bíður, eða þannig!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.5.2010 | 20:09
Mjónukvöldmatur enn og aftur ..... og sendibréf frá Hönnu Birnu

Ég ætlaði að versla lax á heimleiðinni úr vinnunni, en steingleymdi því.
Rölti mér því út í Pétursbúð þar sem ég keypti Lambhagasalat á 305 krónur, ýsuflak roð - og beinhreinsað (það skiptir auðvitað öllu ) á 580.- krónur og svo átti ég restina í ísskápnum, tómata, gúrku, rauðlauk, hvítlauk og jalapeno.
Steikti fiskflökin úr örlítilli kókosfeiti frá Sollu, kryddaði með herbamare jurtasalti og sítrónupipar.
Einfalt, gott og grennandi. Eins og alltaf má borða kotasælu með svona mat og/eða mango chutney. Við Vala mín deildum þessu fiski á salatbeði og líður léttum og ljúfum á eftir. Sko, það þarf ekki alltaf að hafa kartöflur með fisk, eða grjón. Íslenskt bygg væri t.d. ferlega passandi með þessu ef fólk vill meira meðlæti.
Að sjálfsögðu drukkið dásamlegt vatn úr krana með! ;-) Að vísu sett í glas!
p.s. ætlaði að fara að blogga um bréfið sem ég fékk frá Hönnu Birnu: Kæra Jóhanna........ hvað?
.. en ég fór í svo vont skap við það að ég hætti við. Ég frábið mér aftur á móti fleiri sjálfshólsbréf á sparibréfsefni frá tilvonandi fyrrverandi borgarstjóra.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2010 | 07:29
Sjálfsagi er allt sem þarf ... fyrir fólk sem vill létta sig
Ég held það sé ekki tilviljun að ég er búin að léttast um 1,3 kg á tveimur dögum bara með breyttu mataræði. Ég er aldrei svöng, kannski pinku á kvöldin svo ég fékk mér 1/2 banana í gærkvöldi.
Auðvitað fara fyrstu kílóin hraðast, en sjáum til.
Sjálfsblekking hvað varðar mataræði er ansi algeng. Þ.e.a.s. fólk segir: "Oh, ég borða svo lítið en samt fitna ég" .. EN kannski er fólk ekki alveg meðvitað hvað það er að borða og hvað er fitandi.
Allt sem er með svokallaðri transfitu er mjög óhollt og sum matvara er þannig að hún er ávanabindandi. "Einu sinni smakkað, getur ekki hætt" .. Líklegast er það sama trixið hjá matvælaframleiðendum og tóbaksframleiðendum. Ég tek það fram að ég er ekki sérfræðingur og langt í frá, tala bara af reynslu og því sem ég hef heyrt.
Börnin vilja ekki síður borða niðurskorna ávexti séu fyrir þau lagðir heldur en nammi eða snakk og það er okkar að bjóða upp á það. Nýlega bjó ég til "eplavatn" sem var ekki flóknara en svo að ég skar niður epli og setti í vatnskönnu. Frænkur mínar þriggja ára komu í heimsókn og fannst voðalega spennandi að fá eplavatn að drekka, en mér leiðist að bjóða hvort sem er börnum eða fullorðnu fólki upp á gosdrykki. Að sjálfsögðu má setja alls konar ávexti út í vatn og það er tilbreyting.
Í dag verða kökur í vinnunni svo ég ætla að taka með mér epli og vínber til að freistast ekki. Það er alltaf gott að hafa með sér eitthvað í staðinn svo þú sitir ekki með tóman disk.
Jæja, kominn tími á sturtu og sól og kannski fallegan kjól!
Set í gamni hér mynd frá dimmission nemenda í síðustu viku, við erum þarna nokkrar starfskonur og svo nokkrar mörgæsir, bara gaman!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2010 | 18:10
Icesave - nei ég meina Iceberg! ..
Hvað varð eiginlega um Icesave annars? Heyrði á Útvarpi Sögu sem ég hlusta að sjálfsögðu aldrei á, að verið væri að hrossakaupast með Icesave á þann hátt að Sjálfstæðismenn fengju að vera í friði með kvótann og þá samþykktu þeir ný Icesave lög. Ég veit ekki hvort ég tók rétt eftir, það mega aðrir vita, enda er Iceberg það sem ég er að einbeita mér að núna en ekki Icesave.
Hér verðurs.s. ekki meira fjallað um Icesave en sný mér að mjónubloggi dagsins:
Þetta blogg mitt er svona framhalds-síberíukúrsblogg, fyrir þá sem ekki vita hvað Síberíukúrinn er þá má skoða það hérna, og svo hérna.
Ég er bara á degi númer tvö, borðaði banana í morgunmat, spelt rúgbrauð með avocado og tómat og svo brokkolíböku í hádeginu, aftur banana í kaffinu (hefði kannski mátt vera epli til að sýna fjölbreytni en bananinn er svo snöggétinn þegar mikið er að gera og gefur orku.) Svo drakk ég að sjálfsögðu alls konar dýrindis te og mikið af vatni, það er algjört möst eins og sagt er á góðri íslensku.
Nú hef ég hugsað mér að útbúa einhvers konar kalt túnfisk salat "as we speak" Set salat á botninn - rucola og blöndu af iceberg salati, svo túnfisk úr dós, m/vatni alls ekki olíuneitt. Svo m.sker ég niður rauðlauk og bæti í, avocado því það gerir húðina svo fallega og er afeitrandi með meiru. Jalapeno setti ég smá, capers og svo grænar ólífur. Það eru nú ekki allir fyrir þetta þrennt, en mér finnst það allt gott og capers passar sérstaklega vel með túnfisknum. Að lokum skreytti ég með smá Mango Chutney, sem er auðvitað sætt - en ekkert extreme! ..
Nýrnabaunir hefðu passað með þessu líka, en ég átti engar - svo það verður bara næst.
Kryddað með salti, pipar og e.t.v. sítrónu- dill - piparnum sem ég var að fjárfesta í! Krydd er mín della og reyndar servíettur líka en það er önnur saga. Þeir sem eru ekki í súper aðhaldi geta að sjálfsögðu borðað með þessu kotasælu eða sælu að eigin vali.
Annars gengur annar dagur vel, en það eina sem er farið að hrjá mig er kaffibindindið því ég er komin með fráhvarfseinkenni. Svona er kaffið nú mikið eitur!
p.s. ég stalst til að vigta mig í morgun eftir fyrsta dag - en það á ekki að gera fyrr en eftir fyrstu viku og ég var 400 gr léttari í dag en í gær, en auðvitað er það ekkert að marka, en samt hvetjandi.
Ekkert kaffi, ekkert vín ... en sólin áfram skín!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)