Færsluflokkur: Lífstíll

Júróvisjónmjónusalat á fyrsta degi "Síberíukúrs" ..

Þessa stundina er ég að ofnbaka kjúklingabringur, setti örlitla kókosfeiti frá Sollu út á til að gera smá djúsí.  Kryddaði með "lemon-and pepper dill" kryddi, það er svona kvörn sem fæst í Bónus og smá Herbamare salti (öll heimili verða að eiga það)  Grilla þær aðeins í restina.

Set í skál, ferskt spínat og salat svona bara úr poka, gjarnan smá rucola líka, eða hvaða salat sem til er í ískápnum.  Sker niður tómata, gúrku, papriku, avocado, vínber .. gaman að raða því fallega, t.d. tómötunum að hluta til á barmana á skálinni og paprikuna,  en mín skál er víð eins og sést á meðfylgandi mynd!

Kannski eitthvað fleira sem ég finn,  já nammi, namm,tamari  ristuð graskersfræ, en eins og allar seiðkonur vita þá virka graskersfræ vel á kynhvötina,  bara svona ef einhvern langaði að vita!  Wizard  Svo er bara eftir að skera bringurnar sem eru tilbúnar í þunna strimla og bæta þeim í salatið .

Af því þetta er "Síberíukúrssalat" erum við ekkert að gúffa á þetta dressingu, nema helst úr ávöxtum eða einhverju meinhollu, en stelst til að setja 2 -3 tsk ólífuolíu og um leið sker ég niður 2-3 sultaða hvítlauksgeira og strái yfir..  Kryddað með salti og pipar (bara úr kvörn auðvitað) ekkert matarsaltsbull. 

Auðvitað má sá eða sú sem ekki er á Síberíukúr setja sína dressingu út á eftir á, eða t.d. fá sér feta ost með eða parmesan.  

eurovisionveisla_002.jpg

 Voila - komið!  Fyrir mér skiptir útlitið á matnum máli, því það er skemmtilegra að borða fallegan mat en ljótan.  Vona að ég verði ekki ásökuð um fordóma af neinum toga! 

 

 

 

 

 

 

eurovisionveisla_001.jpgReyndar grillaði ég "Buffalo" leggi fyrir börnin í partýinu, svo þau fengju ekki of mikla hollustu, svo er kristallinn kominn á sinn stað. 


Góðan dag veröld - Síberíukúrinn rifjaður upp

Það var árið 2006 sem ég fór að grínast með einhvers konar kúr sem ég gaf heitið Síberíukúrinn. Það er ekkert "vit" í honum en virkar vel fyrir þá/þær sem eru orðnir örvæntingarfullir með kílóin sín. 

Hann er ekki eins dramatískur og Landspítalakúrinn sem gekk hér mun fyrr, en það var megrunarkúr sem uppistóð af svörtu kaffi, molasykri og skinku eða einhverju álíka gáfulegu en sumir keyptu, já ótrúlegt en satt.  Mataræðið skipitir eflaust um 70%  þegar þú ert að reyna að létta þig, en hreyfing hjálpar svo sannarlega til, auk þess sem það styrkir. 

Ég, ásamt fleirum eigum það til að safna óþarfa forða yfir veturinn - og tja, jafnvel yfir sumarið líka. En þeir sem eru agaðir geta náð af sér kílói á viku með réttu mataræði og hreyfingu og í dag stefni ég á það. Það þýðir að í dag er fyrsti dagur í "Síberiukúr" hjá mér og systur minni, en ég ætla að vera "sponsorinn" hennar í aðhaldinu. 

 Auðvitað á Síberíukúrinn ekkert skylt við Síberíu fyrir utan það að virka frekar óspennandi, en það er hægt að leika sér með ýmislegt þar.  Erfiðast er að sleppa kaffinu.  

Svona lítur hann út í sinni einföldustu mynd:

 Sleppa:

  1. öllum sætindum
  2. snakki
  3. öllu brauði nema spelt- og hrökkbrauði
  4. hvítu hveiti og hrísgrjónum
  5. allri mjólkurvöru
  6. majonessósum
  7. kaffi og gosi
  8. áfengi
Borða:
  1. Ávexti
  2. grænmeti
  3. kjúklingabringur og fisk (allt kjöt ókey nema alls ekki unnar kjötvörur)
  4. baunir af öllum sortum og gerðum
  5. fræ
  6. hummus eða avocado í stað smjörs
  7. brún grjón
  8. grænt te
  9. vatn - lots of it

Brauð dagsins:  Speltbrauð smurt með avocado og ferskum tómatsneiðum - pipar malaður yfir. Nammi namm. 

Njótum þess að borða og aldrei borða með samviskubiti.

Svo er góður siður að borða ekki á kvöldin, þá vaknar maður miklu gáfaðri og ferskari á morgnana Wizard
Fékk annars martröð að ég var látin stíga á vigt fyrir framan alla eins og "The Biggest Looser" ég ætla ekki að gera það en mun gefa upp vigt eftir viku - eftir að hafa farið eftir eigin reglum.

 

 

handklae_i.jpg

 



Um daginn og (Lauga)veginn og "Catwalk"

Það þarf ekki mikið til að gleðja mig. Góð ganga upp og niður Laugaveginn í góðum félagsskap er nóg fyrir mig. Í dag var félagsskapurinn Lotta systir og þessi LL blanda er bara virkilega góð; þ.e.a.s. Lotta og Laugavegurinn.

Ég átti eftir að vinna smá skipulag fyrir skólann svo ég var að því í ca. tvo tíma, en þegar því var lokið þá sturtaðist ég og svo var haldið í göngu að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði, en við Lotta höfðum ákveðið það í morgunkaffinu - en við búum í mínútufjarlægð þannig  sameiginlegt morgunkaffi er svolítið daglegt brauð eða a.m.k. helgarbrauð hjá okkur. 

Jæja, hvert var ég komin, hoppaði sem sagt kát út um dyrnar - og þá beið Tómasína mín á pallinum,  og naut sólar. 

april_mai_2010_004.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég rölti þessa mínútu yfir til Lottu og mætti þar Snæfríði Charlottudóttur, sem vildi alls ekki láta taka mynd af sér, en ég náði hnakkasvipnum af henni! 

april_mai_2010_014.jpg  Lotta var klár í Laugaveginn, og við báðar vel dúðaðar lögðum af stað í leiðangurinn.  Fundum þó fljótlega að veðrið var mun betra en við áttum von á og fór þá systir mín að fækka fötum.  Við ákváðum að koma við á Austurvelli til að tékka á mótmælum eða slíku, en að sjálfsögðu voru þar heilmikil 1.maí hátíðahöld sem við vissum ekkert af, frekar svona lítið að fylgjast með, virðist vera! 

Jæja, Austurvöllur var saltaður, en upp Laugaveginn gengum við rösklega, enda aldrei rölt í okkar fjölskyldu. Mættum þar manni á Bermuda skyrtu og stuttbuxum og pældum í því eftir hvaða veðurspá hann efði farið.  Tókum síðan beygju upp Barónsstíg og beina leið á Dropó þar sem mamma beið spennt.  Það er alltaf pinku erfitt að fara til hennar, hana langar oftast að koma með, en á morgun sæki ég hana og hún kemur í mat. Hún sagði tímann svo lengi að líða og að á deildinni hennar eru "veikir menn" sem koma inn í herbergið hennar.

Úff, hvað þetta er vont að þurfa að lifa við svona. Þess vegna á að njóta hverrar mínútu, grípa daginn og lifa hátt meðan við getum!  Við sátum og spjölluðum við mömmu, skrifuðum í gestabókina hennar eins og alltaf og hún yfirheyrði Lottu hvort að hún hefði ekki örugglega skrifað að ég hefði líka komið.  Reyndar söng ég stef - má ekki gleyma að segja frá því - úr "Je ne sais quoi" fyrir mömmu og henni fannst að ég gæti farið í Eurovision.  Takk mamma Heart en það eru aðeins hún og Ísak Máni  sem hafa trú á sönghæfileikum mínum.  Tölum ekki meira um það. 

Við kvöddum mömmu, með loforði um að ég sækti hana klukkan fimm á morgun.  Gengum út í blíðuna aftur sem reyndar var orðin óblíðari, en það var vegna þess að sólin hafði tekið pásu. 

Við virtum fyrir okkur Heilsuverndarstöðina, eitt glæsilegasta hús Reykjavíkur sem stóð þarna tóm og einmana, en héldum svo "straight" á Skólavörðustíginn, þaðan niður á Laugaveg aftur, þar sem við mættum Bahamagaurnum aftur!  Okkur datt jafnvel í hug að einhver hefði bara manað hann upp í að ganga svona upp og niður Laugaveg, en auðvitað spurðum við ekki. 

Haldið var niður á saltaðan Austurvöllinn, sá þar m.a. Jón Val Jensson með Icesave skilti, og mér sýndist að maðurinn þyrfti eiginlega að komast í klippingu!   Settumst niður fyrir utan Thorvaldsen og fengum okkur Cappuchino og Lotta auðvitað Latte því það passar betur við nafnið hennar.  Því miður var þar fólk sem var búið að drekka einum, tja nei kannski þremur of marga stóra bjóra, og var farið að segja "haltu kjafti" við þjónustufólkið. 

Ótrúleg þolinmæði sem þar var sýnd, en kannski ekki eins þægilegt fyrir þá gesti sem voru edrú, eða svona þokkalega edrú.  Gleymdi auðvitað að segja frá því að Lotta hitti flest allt samstarfsfólk sitt af leikskólanum á leiðinni, allt hresst lið.  Ég hitti hana Ragnhildi sem er fyrrverandi nemandi og fögnuðum við því að hittast nú einhvers staðar annars staðar en á Facebook, sem virðist vera orðinn aðal staðurinn til að hitta fólk í dag. Ekki góð þróun. 

Jæja, haldið heim á leið og þá mætti ég hvítri kisu - held kisunni úr sögunni um Láka á Ránargötunni og hún var svo elskuleg að stilla sér upp fyrir myndatöku. 

april_mai_2010_015.jpg
Það má kannski kalla þessa laugardagsgöngu "Catwalk" !

Heim kom ég - sæl og glöð með lungun full af góða veðrinu og þegar ég kom inn opnaði ég tölvuna, kíkti á póstinn og fékk skemmtilegt skeyti frá frænku minni (ég vona að ég megi segja frá þessu)  en hún er dóttir afasystur minnar, sem sagðist hafa lesið skrif mín, en hún hvatti mig til að taka vigslu og gerast biskup! .. 

Jæja, þetta er áskorun númer þrjú held ég, hinar tvær voru frá svona semi- trúlausum mönnum. Annar sagðist ætla að ganga í þjóðkirkjuna yrði ég biskup, hinn er sonur minn sem hefur óbilandi trú á mömmu sinni. Smile

Ég skal leggja mitt á vogarskálarnar að betra og bættara þjóðfélagi - þó það verði ekki í formi þess að vera biskup. Mér sýnist að hann Bjarni Karlsson væri kjörinn aðili í það hlutverk, eftir hans brilljant ræðu eftir prestastefnu.  Það er kominn tími til að uppfæra kirkjuna til nútímans.  Svo þarf að sjálfsögðu að hugsa að fleiri mannréttindum, eins og að allir fái sínum grunnþörfum fullnægt, þ.e.a.s. fái mat og húsaskjól - og reyndar elsku líka, hún er nauðsynleg, því manneskjan lifir ekki á brauði einu saman, heldur af ást, hlýju og vináttu. 

Eigum góðan laugardag, sem og aðra daga. 


Fólk er sem gróðurnálar í öskunni ..

Gróðurinn er farinn að kíkja upp úr öskunni, og í svip sá ég mynd af kreppunni sem er eins og aska yfir landinu okkar, en gróðurinn er fólkið sem hefur fundið sér nýjan farveg, farið nýjar leiðir eftir atvinnumissi, farið að virkja hæfileika sína sem lágu niðri til hönnunar og annarra góðra framkvæmda og/eða til sjálfsræktar.

Ég veit ekki til þess að íslensk hönnun hafi staðið í eins miklum blóma eins og hún gerir í dag. 

Ekki eru allir svo lánsamir að hafa svona auka-hæfileika í farteskinu, eða möguleikann á að nýta sér hæfileika sína, en stundum vantar líka aðeins viljann. 

Það er varla góð tilfinning að  fastur undir öskulagi atvinnuleysis, en vonandi hafa sem flestir og helst allir sterka rót og sterkan vilja og gefast ekki upp á að leita upp á við,  að koma höfðinu upp úr öskunni. Koma síðan fram sem grænar gróðurnálar.

gras.jpg

 


mbl.is Nálar í öskunni og gróðurinn af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HEIMA

Flust hef á milli húsa

Garðabær, Hlíðar, Hafnarfjörður 

nýtt heimili, aftur, aftur 

og aftur 

mikill kraftur 

brotið niður, byggt að nýju 

leitað eftir ást og hlýju

RÓT  

með allt mitt dót 

 

En heima er ekki bara hús 

viska, vinátta, von

dætur og minn einkason

mínir vinir sem marglit blóm

TAKK! 

er langt frá því að vera tóm 

því að í hjarta mínu ert þú

þar vil ég þig geyma 

HEIMA 

                                                                                           

 

 


Skýrslan mín og skýrslan þín ..

Ég verð að viðurkenna að ég get ekki séð fyrir mér að líf okkar eigi eftir að breytast mikið við útkomu skýrslu dagsins. Ég þykist vissulega vita að þar komi fram svik og prettir, mútur og ýmislegt sem menn hafa gert ljótt. En ég treysti því að fólk leggist ekki í þunglyndi yfir því, treysti því að við LÆRUM af reynslunni, mér leiðist svo þegar við köllum hvert annað heimsk og vitlaus og þar fram eftir götum.  Hver er þessi heimski Íslendingur, er það ég? ert það þú?  Við erum ekki heimsk,  en eflaust má segja að við höfum verið andvaralaus, en ekki getum við öll verið lögfræðingar eða með nefið ofan í innstu málum stjórnsýslunnar.

Við þurfum að hætta að setja fólk í embætti skv. einkavinavæðingu, pólítískum tengslum og ættartenglsum.  Hæft fólk og heiðarlegt verður að vera við stjórn.  Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér. Heldur að minna okkur öll á það sem er okkur mikilvægast.  Ef við værum að fara að upplifa einhverjar hörmungar eins og gengu yfir á Haiti, þá mættum við virkilega óttast, þar sem margir deyja, veikjast, missa ættingja og svo framvegis. 

Fólkið okkar er það mikilvægasta, fjölskylda, vinir og vandamenn. Þú ert líka það mikilvægasta í þínu lífi og heilsa þín er það mikilvægasta í þínu lífi.  Við vitum öll að peningar geta aðeins keypt það sem er í kringum okkur,  en peningar geta ekki keypt vini, - alvöru vini þ.e.a.s.,  peningar geta ekki keypt fjölskyldu og peningar geta í fæstum tilfellum keypt heilsuna,  eða læknað okkur þegar við erum orðin alvarlega veik. 

Peningar geta keypt mat þegar við eru orðin svöng, og húsaskjól þegar okkur vantar húsnæði.  Það er að sjálfsögðu lágmarkskrafa allra á þessu landi að fá að borða og eiga öruggt þak yfir höfuðið.  Þar ofan á bætast smám saman kubbar, eins og atvinna,  tómstundir o.fl.  

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, en munum að hugarfarið okkar getur skipt sköpum um það hvernig við tökum á móti áföllum,  hver gildin okkar eru og hvað er það sem í raun skiptir okkur máli. 

Persónulega skiptir mig máli að mér líði vel, viðurkenni það alveg - hafi allt áðurnefnt, þ.e.a.s. mat og húsaskjól, samneyti við mitt fólk og að því liði vel og svo koll af kolli. Heilsa, andleg og líkamleg; mín, minna nánustu, þeirra nánustu, og svo má lengi telja þar til heilsa allra jarðarbúa er komin í pakkann. Þú skiptir mig máli. 

En nú verð ég að viðurkenna að nemendur mínir og samstarfsfólk skiptir máli og ég á að mæta til vinnu,  svo ég enda þetta á því að bjóða ykkur góðan dag og fer inn í hann með sól í hjarta og vona að þú gerir það líka,  þrátt fyrir utanaðkomandi áreiti og annað sem á eflaust eftir að lita daginn. 

Mundu þá eftir þínum eigin litum,  gulur, rauður, grænn og blár og láttu þá umvefja þig í gleði, og verða sterkari en svartra skýrslu. 


Að færa veggi og ferskt tau á snúru

Ég þori varla að skrifa hér drauminn minn, þar sem Jens Guð túlkar alla drauma sem Kötlugos, en ég held þessi túlki sig sjálfur, en mér fannst hann svo skemmtilega upplífgandi og ætla mér að trúa þessu statt og stöðugt - því eins og við sum höfum heyrt þá getur trúin flutt fjöll - og ekkert fjall er of hátt til að stöðva okkur frá því sem við ætlum okkur! Wizard

Ég sofnaði nefnilega aftur í morgun, eftir að hafa vaknað klukkan fimm þar sem ég var óróleg vegna dótturinnar sem tók upp á því að aka um miðja nótt eftir þjóðvegum Flórída, en fékk að vita að hún væri komin á "Delray Beach" og það róaði konuna svo að hún sofnað afturi sætt og rótt. 

Dreymdi þó alls ekki Flórída né sæta Ameríkana, heldur dreymdi mig ég var flutt á Skólavörðustíg í stóra íbúð og fullt af fólki (örugglega öllu skemmtilegasta fólki landsins, og þó víðar væri leitað - þú varst örugglega þarna líka, já, já, þú sem ert að lesa!!) og við ætluðum að fara að ræða eitthvað einstaklega gáfulegt og uppbyggilegt,  mér fannst eitthvað þröngt að komast í borðstofuna - þá gekk mín að veggnum og lyfti honum frá!! ...dýrðlegt ..

"I can move walls" ..

p.s. svo man ég eftir brakandi ferskum þvotti í bakgarðinum og endalausar þvottasnúrur .... 

 

hang-laundry-

 

 


Líf eftir skilnað - að læra eða lemja, trega eða temja, veikleiki eða viska.

Þessi færsla er tileinkuð fólki sem er fast í fortíð vegna skilnaðar og er jafnframt með fókusinn á fyrrverandi maka, jafnvel þó að makinn hafi verið "ómögulegur" .. Fólki sem er fast í fortíð og höfuðið næstum úr hálslið vegna eftirsjár og jafnframt, ef að makinn er kominn með nýjan félaga orðið upptekið af nýja félaganum, meira en sjálfu sér jafnvel. 

- Að læra eða lemja, skrifaði ég í fyrirsögn.  Ég var svo lánsöm eftir minn skilnað 2002 að ég fór beint á námskeið sem hét "líf eftir skilnað" .. og lærði helling.  En námskeið stöðvar svo sannarlega ekki sorgarferil og/eða tilfinningar en kenndi mér kannski helst að tilfinningarnar væru eðlilegar, að ég var bara eins og annað fólk.  Sorgarferli eftir skilnað getur verið alveg eins eða svipað og eftir dauðsfall. 

En vissulega koma kannski tilfinningar eins og reiði og höfnun sterkari inn við skilnað. Jafnvel þó að við höfum viljað skilnað, og vitað að það væri eina lausnin þá er skilnaður oftast sorg eða dauði, draumur um eitthvað sem átti að verða og vera hefur dáið.  Það eru að sjálfsögðu ekki bara tveir sem skilja, börn, foreldrar og aðrir aðstandendur eru þátttakendur og fórnarlömb og oft mjög vanrækt fólk í þessum aðstæðum, sérstaklega börnin - en það er svo sannarlega verðugt umræðuefni í annað blogg. 

Sjálfri fannst mér svo gott að hitta konur í sömu aðstæðum og ég, að það var í raun stærsta hjálpin. Við sátum ekki og rökkuðum niður okkar fv. maka,  við ræddum vissulega aðdraganda og ástæður, til þess einmitt að læra af þeim,  en ekki til að hvíla í fortíðinni eða lemja okkur sjálfar hennar vegna, nú eða exið okkar. Smile

Ég fékk seinna tækifæri að vera leiðbeinandi á svona námskeiði og þá uppgötvaði ég fyrir sjálfa mig ágætis samlíkingu sem mig langar að deila. Eflaust hafa margir aðrir uppgötvað hana á undan mér og eftir, þar sem ekkert er nýtt undir sólinni. 

Sorgarferli, hvort sem það er eftir dauðsfall eða skilnað er eins og meðgöngutími.  Það er hægt að ganga með margt fleira en barn í maganum,  það er t.d. hægt að ganga með skilnað í maganum! 

 

Sorgarferli er ekki hægt að tímasetja eins nákvæmlega eins og meðgöngu barns,  en samt er búið að skoða að það er nokkuð algengt að "eðlilegt" sorgarferli sé u.þ.b. ár,  en það getur vissulega verið bæði styttra og lengra.  

Við meðgöngu barns, erum við flest dugleg að afla okkur upplýsinga, láta fylgjast með okkur, lesa til um þroskann, mánuð eftir mánuð þar til barnið fæðist - þá hættum við að lesa um meðgöngu og förum að lesa um ungabörn. 

baby.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 (http://www.cwrl.utexas.edu/~ulrich/femhist/geddes221.jpg) 

 

Það sem ég er að benda á hér, er að við eigum og megum alveg sökkva okkur niður í að skilja okkur sjálf þegar við skiljum - skilja skilnaðinn. En enn og aftur;  "allt hefur sinn tíma undir sólinni" .. Það á ekki að festast í meðgöngunni/sorgarferlinu þannig að hún vari í mörg ár.  Ef einhver er enn reið/ur, bitur og leiður vegna skilnaðar sem var fyrir  2 - 4 - 10 - 20 árum,  ætti viðkomandi að fara alvarlega að líta í eigin barm og átta sig á því hvort að hann eða hún er stjórnandi í eigin lífi.  Hvort að enn eigi að trega eða hvort að þurfi aðeins að fara að temja tilfinningarnar. 

Þegar barnið er fætt,  þá hefst nýtt líf. 

Nú ætla ég ekki að hafa þessa morgunbloggfærslu lengri, en það er eitt ráð í lokin:

Það er ekki veikleiki að leita sér hjálpar, það er viska.  Heart

 

 


Er óttinn ævintýri sem við sköpum sjálf?

 


Út úr skápnum - koma svo!!!.... VVV MANNRÆKT

Ég var að lesa frétt á DV um baráttumann gegn samkynhneigð  sem var að koma út úr skápnum sem og viðurkenna samkynhneigð sína.  Aumingjans manninum hlýtur að vera létt, að vera búinn að kúldrast þarna inni í dimmum skáp í bullandi afneitun. Maðurin er orðin 55 ára gamall!! ..

Hversu margir ætli það séu sem hafi hátt og berjist gegn samkynhneigð sem eru í sömu stöðu og öldungardeildarþingmaðurinn Roy Ashburn? 

Nýlega stofnaði ég hóp á Facebook sem gengur undir nafninu VVV MANNRÆKT  og nú eru komnir 94 í þennan hóp.  Fólk sem með opinn faðminn er tilbúið að taka á móti þeim sem eru hikandi við að koma úr hinum dimmu skápum samfélagsins.  Fólk sem er tilbúið að verja annað fólk gegn fordómum og þröngsýni sem þetta fólk hræðist.  

Hugsa sér að manneskjur þurfi að kúldrast inni í skáp vegna þess að þess að þær eru hræddar um að verða stimplaðar sem minni manneskjur vegna kynhneigðar, og nú er árið 2010.  Þessu erum við að snúa við. 

En á sætum sellufundi sem við héldum sl. laugardag, ræddum nokkur um þá félagslegu einangrun sem getur sem því fylgir að mega ekki vera eins og við erum,  eða viðurkenna að vera eins og við erum. 

Þetta gildir líka um ýmislegt sem við erum að glíma við með sjálfum okkur. Við getum tekið dæmi sem margir kannast við,  en það er að vera einmana.  Fæstir vilja viðurkenna að þeir séu einmana, en ég veit að margir eru það og bara það að geta sagt það upphátt gefur okkur ákveðið frelsi. 

Einmanaleiki er t.d. oft fylgifiskur skilnaðar eða dauðsfalls maka,  við dæmum oft fólk, sérstaklega karla fyrir að hlaupa fljótt í samband aftur,  en það er kannski ekkert bara vegna þess að þeir séu svona svakalega graðir (afsakið orðbragðið)  þeir eru bara hreint út sagt einmana með sjálfum sér og vantar snertingu ástvinar,  ekki síður snertingu sálar en líkama.

Við erum misjöfn, sumir eru sjálfum sér nægir og sáttir makalausir - en alls ekki allir. 

Það er hægt að vera inni í skápnum með fleira en samkynhneigð, en vissulega myndum við ekki segja um Palla sem viðurkenndi loksins að honum liði eins og hann væri einn í heiminum, að hann væri að koma út úr skápnum. 

Ég óska öllum Roy Ashburn´s þessa heims til hamingju með þá ákvörðun að koma út úr skápunum, en verra er að kannski hefur hann sært marga með baráttu sinni gegn samkynhneigðinni með sinni framgöngu. 

Virðing - Viska - Vinátta 

Sýnum náunganum umburðalyndi þannig að hann viti að hann er velkominn út úr skápnum, hvenær sem er. Heart

 Hér er svo Stephen Fry með ágætis innlegg .. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband