Færsluflokkur: Lífstíll
9.3.2010 | 08:07
Lifandi vatn ..
Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð
... þetta er upphaf sálms 42 í Davíðssálmum Biblíunnar.
Við Íslendingar þekkjum það fæst að vera aðframkomin af þorsta eða geta ekki baðað okkur þegar okkur dettur það í hug. Í gærkvöldi fór ég í göngu með nokkrum konum og þar var m.a. systir mín sem hafði heimsótt Sierra Leone þar sem hún kom í þorp þar sem næsti brunnur var 8 kílómetra í burtu. Þar var ekki forgangsatriði að fara í sturtu daglega, eins og gefur að skilja.
Það er svo merkilegt að á meðan við höfum ofgnótt af einhverju þá tökum við því sem sjálfsögðum hlut, og það gerum við með vatnið okkar. Við megum vera þvílíkt þakklát fyrir þessa mikilvægustu auðlind heimsins; hreint og gott vatn.
Skál í vatni!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2010 | 10:17
"Time Out" - dagur 1
Sumt fólk er þannig að það segir of oft "já" og það segir of oft "ég skal" ... og þarf reyndar að skipta sér af öllu. Ég er svolítið svona eins og sumt fólk, en er að reyna að læra að segja nei og draga mig í hlé líka stundum.
Sólin rís og sólin sest án þess að ég sé að skipta mér af því.
Sumt fólk á líka erfitt með að deila með sér verkefnum, nú og stundum eru ekki margir til að deila þeim með - það kemur nú fyrir líka. Sumt fólk hlustar á annað fólk og tekur sorgir þeirra of mikið inn á sig, sérstaklega ef fólkið er ungt og hefur lítið bakland.
Án þess að hafa þennan formála lengri, þá er bikarinn minn víst fullur núna og því er ég komin í frí til að hella úr bikarnum, safna kröftum og endurnýjast fyrir áframhaldið. Það þýðir þó ekki að mín ætli að leggjast með fætur upp í loft. Ég þarf auðvitað að taka hvíld frá vinnunni, koma blóðþrýsting, sem var víst orðinn háþrýstingur niður, og beina huganum að öðru. Ekki vantar áhugamálin, en áhugamál nr. 1 er að sjálfsögðu mannræktin - sem hefst auðvitað á sjálfsrækt, að setja fókusinn á hið góða. Rækta sál og líkama.
Á meðan ég man: Með því að kjósa Nei í þjóðaratkvæðisgreiðslu í gær var ég ekki að kjósa Sjálfstæðisflokk né Framsókn, svo það sé alveg á hreinu!
Jæja, þá er það út að ganga - og reddingar með símann minn.
Elskum friðinn og strjúkum kviðinn.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.3.2010 | 07:39
Gleðin í lífinu og fýlan í "sumum"
Undanfarin sex ár hefur líf mitt verið samtvinnað ungu fólki, að sjálfsögðu mínu eigin unga fólki, þ.e.a.s. börnunum mínum, en líka öðru ungu fólki þar sem ég starfa í framhaldsskóla. Ég hef fylgst með, og verið þátttakandi, í gleði þeirra og sorgum og í gærkvöldi var gleðistund. Forkeppni fyrir söngkeppni framhaldsskólanna.
Í 170 nemenda skóla fluttu nemendur 10 atriði, og í sumum þeirra voru tveir þátttakendur. Atriðin voru ólík, en öll flutt af mikilli innlifun og ekki voru kynnarnir síðri sem voru svona "Jói og Simmi" Hraðbrautar.
Hæfileikarnir hrundu fram, þrátt fyrir pinku stress - og stundum mikið stress, tókst öllum að komast vel í gegnum sín atriði og stóðu sig með sóma. Sum auðvitað betri en önnur, enda um keppni að ræða.
Mjög góð mæting var af nemenda hálfu og við mættum nokkrir starfsmenn og höfðum ekki minna gaman af en nemendurnir. Enda tók t.d. einn nemandi frumsamið rapp þar sem skólastjóri var nefndur á nafn o.fl.
Það er oft styttra að sækja gleðina en við höldum, en vegna þess sem nú er að fara að höndum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave samninga, þá sýnist mér ekki veita af að minna svolítið á gleðina og brosin.
Brosum til hvers annars þegar mætt er á kjörstað ;-) .. og minnumst alls þess góða sem landið gefur og við gefum hvert öðru.
Fýla er að sjálfsögðu valkostur líka, ef að fólk vill nýta sér þá fyrirmynd.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.3.2010 | 22:54
Hvað knýr þig? .. hugsað upphátt á fimmtudagskvöldi
"What motivates you" var spurningin sem talsmaður tóbaksfyrirtækjanna fékk ítrekað í myndinni "Thank you for smoking" ..
Svar hans var "I have to pay the mortgage" ..
Er svarið trúverðugt, og skyldi það vera sú "motivation" sem vekur með honum starfsánægju?
Hvað knýr okkur eða gefur okkur kraft svona almennt og yfirleitt til að gera það sem við gerum?
Hvað knýr þá sem þurfa ekki að borga neitt? Eru skuldlausir?
Hversu mikla ánægju höfum við af því að elta gulrót hangandi á spýtu?
Hvað er það sem ætti að vekja áhuga á að læra, skapa og gera gott - bæði fyrir okkur sjálf og aðra?
Kannski þörfin fyrir að stjórnast innan frá en ekki utan frá, - vera stjórnendur í eigin lífi.
.. Já, þetta er hugsað upphátt, endilega hugsið upphátt, eða í hljóði, með mér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2010 | 14:05
Köld og fersk ..
Fórum fjögur í hressingargöngu kringum Tjörnina, en eins og sum sem hafa lesið bloggið hér á undan var ég með mannræktarútkall.
Hulda systir kom til mín rétt fyrir eitt og röltum við að Iðnó. Þá áttaði ég mig á því að auðvitað vissi ég ekki ef einhver væri þarna mættur til að ganga með og ekki þekktu viðkomandi mig, nema kannski af þessari einu bloggmynd .. Ég réðst á eina fína frú sem sat þarna á bekk beint fyrir framan Iðnó og spurði hvort að hún væri mætt í göngu. Hún hélt auðvitað að konan væri létt geggjuð, en sagðist nú bara vera að fara í leikhúsið. Samferðafólk mitt, en tvö höfðu bæst í hópinn í viðbót, skellihló að tilburðum mínum. Jæja, næst auglýsi ég að ég verði með bleika klút eða eitthvað, svona eins og á "blind date" ..
Það var kalt en bjart og við gengum rösklega stóran hring, sem þó bara tók innan við 20 mínútur að ganga. Við töluðum aðeins um andrúmsloftið í þjóðfélaginu og hversu mikilvægt væri að létta á því og koma með mótvægi. Hulda og Doddi vinir mínir voru þessi tvö sem gengu samferða okkur og sagðist Hulda hafa heyrt að sjálfsvígstíðni hefði aukist, sérstaklega hjá ungu fólki.
Það er ástand sem bregðast verður við.
Jæja, mér þykir leitt ef ég hef misst af því að hitta eitthvað fólk með eldmóð í hjarta, en mun standa betur að þessu næst, láta vita af bleika klútnum .. gefumst ekki upp þó norðanvindurinn blási á móti!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2010 | 09:30
Að bíða ekki (ljósa)boðanna ..
Ég er mikil selskapsmanneskja. Mín helsta skemmtun er að vera með góðu fólki, borða góðan mat, spila, rabba og hafa gaman saman. Mér leiðast "skemmti" staðir, Vínbarir, Thorvaldsen og hvað sem þetta nú allt heitir. Auðvitað getur verið gaman að fara á svona staði með skemmtilegu fólki, en umhverfið er allt hálf dapurlegt að mínu mati. Kannski vegna þess að ég er ekki 25 ára lengur.
Þegar fólk skilur eða slítur sambúð þá fækkar oft þessum boðum. Af einhverjum ástæðum er vinsælla að hafa hjónaklúbba eða hjónasamfélög, margir einstaklingar sem hafa misst maka v/skilnaðar eða dauðsfalls kannast við þetta.
Til þess að gera þetta blogg ekki allt of langt ætla ég ekkert að fara að skrifa meira um aðdraganda, en ég ákvað s.s. þegar að tvær vinkvenna minna, sem ég reyndar kynntist í gegnum minn fyrrverandi sambýlismann, komu hér í heimsókn vel í glasi í nóvember og sögðust sakna mín, já þá ákvað ég að halda boð fyrir þær, mennina þeirra og svo ákvað ég að bjóða þeim sem hefði "sameiginlega forsjá" með hópnum með líka, þar sem við erum ennþá góðir vinir.
Svo nú er komið að því, "Ljós" er þemað, því að hvað er meira tilheyrandi en ljós í janúar?.. reyndar bætti ég við silfur/gull svo fólk ætti auðveldara með að græja sig. Þemað ljós gefur marga möguelika, hægt að mæta í ljósum fötum, láta ljós sitt skína, vera upplýsandi o.s.frv...
Skilaboðin:
Bíðum ekki boðanna, bjóðum bara til okkar!... Það er bæði hægt að bjóða í mat og drykk, og síðan bjóða fólki i "samskud" þ.e.a.s. að koma með mat og drykk. Aðalatriðið er að sjálfsögðu samveran.
Gleði, gleði, gleði ..
p.s. fyrir þau sem lásu síðustu færslu um fjallgöngur, þá er ég sko lögð af stað; hugurinn flytur mann hálfa leið!!..
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2010 | 17:40
"Climb Every Mountain?"
Ég var að tala við hana Önnu Steinsen hjá Dale Carnegie í fyrradag, eða reyndar var hún að tala við mig. Kynnti hún m.a. fyrir mér hugmyndina um þægindahringinn sem við óttumst oft að stíga út fyrir, en þægindahringur getur virkað heftandi bæði andlega og líkamlega. Það sem er þægilegt er það sem við erum vön og þekkjum, en endilega ekkert voðalega mikil áskorun eða skemmtilegt.
Á heimleiðinni úr vinnunni heyrði ég í útvarpinu auglýsingu frá 66¨N og Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum. Þar er um að ræða fjallgöngunámskeið sem hefst í febrúar og lýkur í júníbyrjun með göngu á Hvannadalshnúk hvorki meira né minna.
Susan Boyle var 47 ára þegar hún toppaði í "Britains got talent" og þá gæti ég svo sem alveg eins toppað í mínum "ævintýrum." Ég hef nú ekki unnið neina stórsigra í fjallgöngum hingað til, en þó gengið á nokkur minni fjöll og dreymt stóra drauma; keypti mér að meira að segja bókina: Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind í fyrra og af stórhug mínum ætlaði ég að merkja út hvert fjallið af öðru.
Ég held að ég sé búin með þetta eina til að slétta niður í 150! .. Nei, nei .. þar er aðeins dregið úr, það má gefa sér eitt eða tvö til eða frá.
Nú er spurning hvort að þessi kona eigi að láta stóra drauma rætast, stíga út fyrir þægindahringinn (eða sófann) og drífa sig á námskeið og vera komin í "She Woman" form í júní?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.1.2010 | 08:45
Mrs. Robinson
Þetta filmubrot er úr myndinni "The Graduate" frá 1967
Og svo er það lagið með Simon & Garfunkel:
![]() |
19 ára ástmaður 58 ára þingkonu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.12.2009 | 11:23
Áramótakvíði :-/ ...
Eins og mér finnst leiðinlegt að setja neikvæðar fyrirsagnir, ætla ég að leyfa mér það núna. Ég sá brot úr gömlum þáttum í sjónvarpinu í gær, og þar var verið að sýna frá áramótabrennum, spilað "Nú árið er liðið" og flugeldadæmið .. úff.. Þvílíkur kvíðahnútur sem settist að í mínu brjósti.
Ég hreint út sagt þoli varla sprengingar og bombur. Lítil sæt stjörnuljós og blys eru ok.
Lengi vel fórum við fjölskyldan; þegar hún var svona klassísk: mamma, pabbi, börn, hundur og bíll, í sumarbústað um áramót og var það skárra og reyndar nokkuð allt í lagi bara, því að það var ekki eins mikill órói.
Áramótin 2006-2007 fórum við tvö ein í bústað ég og minn fv. sambýlismaður og voru það róleg og afslöppuð áramót. Ein kaka sprengd um miðnætti, en það var eiginlega fyrir fjarstaddan son minn sem vildi endilega gefa okkur eina slíka.
Í ár verð ég með systrum og mági og fleira góðu fólki á Skólavörðuholti, ætlum að elda sameiginlega bestu máltíð ársins og allan pakkann. Þarf aðeins að setja mig í þær stellingar að hafa gaman af þessu öllu saman því ekki getur maður flúið áramótin frekar en önnur tímamót í lífinu.
Um áramótin verðum við mörg meyr, hugsum til þess sem er liðið - samferðafólks okkar sem við höfum kvatt.
En auðvitað eigum við fullt af spræku samferðafólki sem hangir enn með okkur, það rís sól að morgni Nýársdags, og það er auðvitað besti dagur ársins því þá eru 365 dagar til áramóta!
p.s. ég held mig kvíði bara ekkert lengur fyrir áramótum eftir að hafa skrifað þessa "sjálfshjálparfærslu"
![]() |
Sprenging varð í flugeldaverði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.12.2009 | 00:52
Útivist er málið
Ég fann að ég var að mygla hægt og rólega hér inni, fyrir framan tölvu, sjónvarp í kafi í mat og bókum. Það er gott að hvíla sig, en ég fann líka að ég var orðin úrill. Ég kallaði nokkrar konur saman í göngu og mættum við í Elliðaárdalinn klukkan tvö í dag. Brrr... hvað það var kalt, en mikið svakalega var fallegt veðrið og við alveg nógu vel klæddar.
Genginn var styttri hringur, eins og ég kalla það, en hann tekur ca. 40 mín. Það er frá brúna stóra húsinu sem ég man aldrei hvað heitir, og ég nenni ekki að fletta því upp, upp að stíflu og til baka.
þarna náðum við að viðra líkama og sál og njóta dagsljóss.
Koma svo, allir út að ganga.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)