Færsluflokkur: Lífstíll

Jólin snúast um fólk

Fyrir nokkrum árum var ég beðin um að flytja hugvekju á Þorláksmessu hjá VÍS. Ég ákvað að reyna að tengja mig við fyrirtækið og hvað það væri að gera, og það tók ekki langan tíma. Kjörorð þeirra á þeim tíma var "Tryggingar snúast um fólk" .. og þá var ég komin með tenginguna.

Auðvitað snúast tryggingar um fólk, og það sem fólki tilheyrir eins og eignirnar þeirra og gæludýr til dæmis. 

En það sem mér fannst gaman að vinna með, var að snúa þessu upp á jólin "Jólin snúast um fólk" .. 

Þau gera það svo sannarlega.  Þau snúast um okkur, að við tökum okkur tíma til að vera með öðru fólki og sinna okkur sjálfum. Ekki bara að vera með nýja klippingu (þetta segi ég vegna þess að ég gleymdi að fara í klippingu) heldur að gefa okkur tíma og okkar nánustu. 

Á mínu heimili var það siður að setja ekki upp jólatré fyrr en á aðfangadag og það var lokað inn í stofu.  Ég hef kannski verið svona tíu ára gömul þegar ég stalst einu sinni inn í stofu, settist niður í sófa og horfði á ljósin á jólatrénu. Að öðru leyti var dimmt í stofunni. Hátíðleikinn sem ég fann í þögninni, friðnum og ljósunum situr enn í hjarta mér.  Sem barn var ég farin að átta mig á því hvað þessar yfirveguðu stundir skiptu miklu máli. Tíminn sem við gefum okkur til að horfa á ljósin, anda rólega og njóta stundarinnar. 

Ég er enn eins og þetta barn. Í dag setti ég upp jólatréð mitt og jólaljósin, og finnst enn einhver sérstök stemmning við að horfa á ljósin. 

Á morgun, Þorláksmessu, er ég með opið hús fyrir vini og vandamenn og á aðfangadag verðum við fjórtán manns í mat. Ég gæti ekki verið glaðari. Jú, kannski smá glaðari ef að barnabörnin mín væru hér líka, en ég veit að dóttir mín, tengdasonur og barnabörnin tvö eru hamingjusöm og sátt og það er nóg fyrir mig, þ.e. að vita að þeim líður vel erlendis. Úff fékk nú smá "sakn" tilfinningu þegar ég skrifaði þetta, en það er samt satt. 

Jólin mín snúast um fólk. Ég er ekki blind á að það eru ekki allir svona lánsamir eins og ég. Ég veit hvað það er að vera einmana á jólum og ég veit hvað það er að vilja taka svefntöflu fyrir jól og vakna eftir áramót þegar allt er yfirstaðið.  Ég hef verið í þeim sporum.  Ég tók meðvitaða ákvörðun í upphafi desember að þessi aðventa og þessi jól ætlaði ég ekki að fara í þann gír og það tókst. 

Hugur minn leitar vissulega til fólksins sem á erfitt um jólin, fólks sem var að missa - hvort sem var í dauðsfalli eða við skilnað. Fólks sem er í neyslu ogaðstandenda þeirra. Fólks sem er fátækt og getur ekki gefið gjafir, a.m.k. ekki veraldlegar gjafir. 

Öllu þessu fólki langar mig að biðja Guð að lýsa og umvefja. Ég er bara mennsk og ræð bara við mig og mína, ég hjálpa engum með því að láta mér líða illa.  Við sem eigum eitthvað aflögu, aflögu af ást, hlýju, samúð eða peningum þurfum að muna eftir þessu fólki og gefa þar sem við getum gefið. 

Við getum gefið fólki bros, hlýtt viðmót og stuðning. 

Það er góð regla að ákveða að vakna á morgun, og reyndar alla daga og gefa meira en nokkur manneskja væntir af okkur. 

Í dag lögðum við dóttir mín á bílastæði í miðborginni, borguðum gjald og fórum í búð. Vorum sneggri en við áttum von á, dóttir mín kvaddi og sagði um leið - "nú getur þú gefið einhverjum miðann" ..  Ég bakkaði út úr stæðinu og annar bílstjóri kom akandi í stæðið.  Ég minntist orða dótturinnar og stökk út úr bílnum og rétti manninum miðann og sagði honum endilega að nota, því það væri langur tími eftir.  Maðurinn varð mjög þakklátur og brosti sínu breiðasta, og ég eiginlega enn þakklátari fyrir að hafa getað gefið og þegið bros í staðinn.

Þetta er bara örlítil dæmisaga, hvernig við getum gefið í hversdagsleikanum. Ég á enga betri upp í erminni núna,  en svona sögur er gaman að búa til á hverjum degi - og kannski þar sem meiri er þörfin. 

Molar eru brauð,  og ef við gefum marga mola erum við farin að útdeila brauði. 

Enn á ný er ég búin að blogga allt of langt blogg, en þetta er það sem mig langaði að segja svona um jólin og fólkið.  

Gleðileg og hjálpsöm jól kæru vinir, vandamenn og þú sem lest, þetta Smile er tileinkað þér.  Takk fyrir að vera til, því að það er ekkert gaman að skrifa bara fyrir sjálfa mig! 

 

 


Maðurinn í kaffibollanum ..

Á aðventutónleikum KK og Ellenar, tók sá fyrrnefndi fyrir konur sem heimsóttu aðra konu sem spáði í kaffibolla, minnir að spákonan hafi verið amma eða mamma þeirra systkina. Hann lýsti því á mjög spaugsaman hátt hvernig einhleypar vinkonur komu í heimsókn til að fá spádóm í bolla og gengu hnarreistar út aftur með von um peninga, von um góðar fréttir og síðast en ekki síst um von um mann í kaffibolla.

 

"Hávaxinn, dökkhærður, myndarlegur" .. það er erkitýpan af einhverjum ástæðum, þó að ljóshærðir og lágvaxnir menn séu ekki minna myndarlegir.  Við erum samt flest einhvern veginn steypt í það félagslega mót, að okkur finnst að karlinn eigi að vera hávaxnari en konan, svo ég tali nú heiðarlega. 

Hver er þessi maður í kaffibollanum sem konur þrá svo heitt?  Um leið og hann skríður upp úr bollanum er hann þá eins spennandi og fullkominn eins og hann var þarna í nýdrukknum  bollanum?  Ætli maðurinn í bollanum sé bara ekki hálf ringlaður eftir að hafa verið snúið í hringi yfir höfði spákonu og síðan blásið á hann volgum blæstri rauðra vara.

En það eru nú varla bara karlar í kaffibollum. Ætli það séu ekki konur í bollum myndarlegu mannanna, eða láta þeir aldrei kíkja í bolla fyrir sig? 

 ... 

Skrifað af spámannlegum innblæstri og út frá persónulegri reynslu Wink Blush

Laugardagur er til lukku, ég leit í kaffibollann minn áðan og sá þar að það muni ekki aðeins rigna mönnum,  heldur er endalaus gæfa að hellast yfir þjóðina í heild sinni og kominn tími til. 

Gleði, gleði, gleði. Wizard

 


Lífsgangan

Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft lífsgöngu viðkomandi. Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn hungrað í lífdaga.

Einhvern tímann skrifaði ég um menntaveginn sem væri genginn eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum ca. fyrirfram hvað á að taka langan tíma. Ekki komast allir á leiðarenda,  heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meir og stytta sér því aldur. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu, sér engan tilgang til að halda áfram.

Það sem dregur helst úr mér er illskan. Illskan, hatrið og óttinn sem þrífst í heiminum og á minni göngu herjar það á mig sem illviðri. Ofbeldi, grimmd, mannvonska í allri mynd. Engin illska er þó verri en sú sem bitnar á börnum.

Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og væntanlega þinn, í lifsgöngunni  Það er elskan - það er að vera vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri gefa gott og elska því betra. Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla hjarta sitt af elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.

Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.

Gildin eru einmitt ást, heilindi, hugrekki, traust, vinátta - þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri. Leyfa þeim líka að kenna okkur.

Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung - hvorki líkamlega né andlega. Við megum ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg. Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins -  njóta þess að vera þar sem viðerum, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú. (Þetta er svona svolítið Eckhart Tolle hugsunargangur og margir aðrir hafa kynnt þetta og a.m.k. reynt að tileinka sér).  

Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska, elska sig og elska aðra. Það er auðvelt að elska börnin sín, það er mér a.m.k. auðvelt og þegar ég skrifa þetta þá vöknar mér um augu, því að þau eru mér svo óendanlega kær. (Kannski er það hérna sem ég þarf að koma því að að ég er edrú, en bara svolítið væmin týpa LoL).  Ég var reynar að lesa það að ég ætti, skv. læknisráði, að drekka eitt rauðvínsglas á dag, en kom mér ekki til að kaupa rauðvínsbeljuna í dag!

Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður - og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða. Allt sem við vökvum dafnar (þetta segja margir) þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, trúna, hugrekkið og vökva elskuna.  Sendum fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar, sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við okkar áhyggjur í viðkomandi sem við höfum áhyggjur af. Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka til viðkomandi.

Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni, kannski bara í kvöld - tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir ferska loftið, tæra vatnið og það sem við höfum hér á Íslandi og ef þú ert að lesa annars staðar þar sem fólk hefur ferskleika lofts og vatns. 

Hreint vatn og loft er grundvallarelement fyrir heilsusamlegri lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar;  líkamanum - og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum - en vissulega verður þetta tvennt að fara saman, á lífsgöngunni.

Það er ekki fyrr en að líkaminn gefst upp að andinn heldur áfram göngunni, án líkamans. Þessu eru ekki allir sammála, en þetta er það sem mér finnst og loftið sem ég anda að mér segir mér það.

Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt sem ég kynnist, allir hafa eitthvað að gefa.

Þessi færsla er orðin lengri en ég ætlaði í upphafi, - þetta er ein af þessum færslum sem eru sjálfstæðar, fæðast bara um leið og fingurnir hreyfast á lyklaborðinu.  

Að lokum; verndum börnin - setjum þau í forgang,  kennum þeim að klæða sig eftir veðri og vindum sem koma til með að herja á þau á lífsgöngunni,  kennum þeim að velja sér ferðafélaga og verum þeim góð fyrirmynd og kennum þeim að ganga sjálfum, taka ábyrgð og treysta á sig sjálf.

 


Höldum endilega áfram að taka því rólega ... ;-)

Þessi frétt gladdi mig, þó að verslunareigendur eigi auðvitað allt gott skilið.  Ég (og eflaust mjög margir) er búin að bíða eftir því í mörg ár að fólk fari að róast í kaupæðinu fyrir jólin.

Þegar Eva Lind dóttir mín var tveggja ára, biðu haugar af pökkum undir jólatrénu eins og alltaf. 

Við foreldrarnir vorum mjög spennt að sjá hana opna pakkana sína, og réttum henni einn pakka. Í pakkanum var dúkka sem hún var alsæl með og faðmaði þétt. 

Jæja, svo þegar við réttum henni næsta pakka þá bandaði hún frá sér hendinni, hristi höfuðið  og sagði "ekki meira" .. 

Við fengum hana alls ekki til að opna fleiri pakka þetta kvöld, en hún var alsæl með sína dúkku og þurfti ekki meira. 

Það er vissulega gaman að fá gjafir, ekki er ég undanskilin því, en eins og í öllu öðru þarf að stillla því í hóf. Það er erfitt að taka af það sem áður hefur verið, en það erum við sem höfum komið þessu óhófi á og gert þannig kröfur til okkar sjálfra að við þurfum að vinna myrkranna á milli til að eignast hluti og gefa gjafir sem kosta kannski allt of mikið, kosta  tíma og stundum blóð svita og tár og jafnvel heilsu. 

Stærsta gjöfin sem gefin er, er tími okkar, vinátta  og samvera. Börnin vilja spila, syngja fá að heyra sögu, leika, lita og svona má lengi upp telja.  Allt þetta kostar litla sem enga peninga.

Fullorðna fólkið þarf líka á tíma, vináttu og samveru að halda. Tími er gulls ígildi. 

Þessi hugvekja hér að ofan er ekki síst töluð til sjálfrar mín, finnst ég oft þurfa að minna mig á,  en langar að deila þessu með ykkur,  það er gott að minna sig á gildin sem skipta máli. 

Halo Verum glöð og góð  ..


mbl.is Jólaverslun fer rólega af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggtorrek ..

Ég kastaði út DoctorE

Þá kom hjörðin og sagði Meeee..

Þá hló ég og opnaði aftur

en úr því varð mikill kraftur

og áfram rifnaði kjaftur

Sæmundur var ekki glaður

með konu sem stundaði þvaður

stríðið hélt sínu striki

mín siða sem skítur á priki

hér eittþúsund gestir einn daginn

úff hvað var argur einn gæinn!

Inn komu menn og konur

og þar meðal Theódórs sonur

sem rekur bestan "bar"

ég alloft hangi þar

Þar saknar mín Jón Steinar mest

sem kann allt og veit nú best

að eigin háværa mati

en það er að sjálfsögðu allt í plati

því geltandi hundar bíta ekki

það af reynslu minni þekki

en svo mætti Gunna óglöð með Tedda

ég ætlaði að reyna því að redda

en það tókst ekki vel

og mér varð ekki um sel

Gunna fór að ræða um dóp

þá settist ég klofvega á minn sóp

flaug svo út í fagra nótt

þar sem að mér var sótt

ákvað vanstillta bloggið að geyma

og hafa það kósý heima..

Wizard


Súperfólk og súperfæði

Ég sá brot úr viðtali við David Wolfe í Kastljósinu í gær og þegar hann talaði var það eins og beint út úr mínu hjarta (og af mínu bloggi).  Hér á að vera hægt að sjá viðtalið.

Þann 27.10.2009 skrifaði ég blogg undir nafninu "Iceland Naturally" sem ég komst síðar að að er virkilega stolinn frasi og vörumerki.

Þetta blogg er farið að líta út eins og Wikipedia með öllum þessum tenglum, en til að gera langa sögu stutta er David Wolfe s.s. hér á landi að kynna súperfæði; hollt og næringarríkt fæði sem gefur okkur miklu betri orku til að hugsa og starfa.

Maðurinn er að miklu leyti það sem hann hugsar og maðurinn er líka það sem hann borðar.

healthy_body

Ef við borðum bara ruslmat, verðum við lifandi ruslatunnur. Enginn vill vera það í raun.  

Í gær sá ég í sjónvarpi að skattur á sykri, kexi og gosdrykkjum átti að hækka í 25% og finnst mér það gáfuleg hækkun. Að sama skapi ætti að hafa hollari mat eins ódýran og kostur er.

Fólk getur gert tilraun með sjálft sig, að borða hollari og næringarríkari mat og séð hvernig því líður. Það má eiginlega segja að ég hafi verið að gera ómeðvitaða tilraun á sjálfri mér undanfarið, því ég hef borðað óreglulega og ekki verið nógu dugleg í ávöxtum og grænmeti. Ég finn það að ég verð þreyttari, skortir einbeitingu og úthald.

Ég var dregin út í slembiúrtaki þeirra sem eiga að mæta á Þjóðfund á laugardag. Mín áhersla þar mun verða á sjálfbært Ísland, uppbyggingu á eigin matvælaframleiðslu að svo miklu leyti sem lega lands og aðstæður bjóða upp á.  Fleiri gróðurhús, meiri sjávarafurðir - og hollari næring.

Við eigum góða vatnið, við eigum hitann, við eigum menntun - nú vantar bara viljann.

"Where there´s a will, there is a way" ..  Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Kona nokkur var nýlega stödd í Sierra Leone, þar tók hún eftir að mango og papaya ávextir lágu eins og hráviðir um allt undir trjánum. Fólkið tók sér til átu en ekki meira, afgangurinn rotnaði. Þarna er mikil örbirgð og fátækt og hún undraðist það að ávextirnir væru ekki nýttir, seldir eða sultaðir.

Svörin sem við gáfum okkur var að fólkið hefði ekki nægilega menntun eða hugvit til að gera þetta.

Nú pæli ég í því hvort að við, Íslendingar,  erum ekki að nýta okkar góðu ávexti? Höfum við menntun eða/og hugvit til að virkja okkar góða land og flagga vörumerkinu Heilsa?

David Wolfe talaði um að hingað gætu erlendir gestir komið, andað að sér frísku lofti, drukkið hreint vatn og borðað góðan og lífrænt ræktaðan mat og með því  hlaðið batteríin.  Höldum loftinu tæru, höldum vatninu tæru - við höfum af miklu af taka, nóg fyrir okkur sjálf og nóg fyrir aðra.

Nóg komið í bili - best að fara að nærast! Wink


Kassafóbíujátning.. (á ekkert skylt við trúarjátningar) ..

Ég steig upp í gráu Honduna mína og lagði viðhaldið (fartölvuna) varlega í framsætið. Ók sem leið lá alla leið út á Granda,  framhjá ákvörðunarstaðnum Bónus,  þar sem ég var stödd í öðrum heimi, man samt ekki hvar, en snéri auðvitað við og lagði á stæðinu fyrir utan verslunina.

Ég tryggði mér eitt stykki gula kerru og gekk inn í búðina, og byrjaði að fá smá kvíða í magann. Róaðist aðeins þegar ég sá að við innganginn voru til sölu rósabúnt og ég gladdi sjálfa mig með að kaupa appelsínugular rósir, en það er liturinn minn þessa dagana, reyndar mánuðina.

 Einhvern tímann var ég að pirra mig á því að ég fengi svo sjaldan rósir, en tók þá meðvituðu ákvörðun að vera ekki að vænta einhvers sem væri ólíklegt að ég fengi og ef mig langaði svona mikið í rósir þá keypti ég þær bara sjálf! 

Ég bar rósirnar upp að köldum nebbanum, lokaði augunum sem snöggvast og dró djúpt inn andann. Ilmurinn var notalegur....

Það þýðir víst lítið að flýja veruleikann á grúfu í rósablöðum, ég varð að fara að versla því ég var að fara að halda matarboð í tilefni 83 ára afmælis mömmu. Ég reyni að forðast svona stórverslanir, en veisla úr Pétursbúð (minni uppáhaldsverslun) hefði orðið of kostnaðarsöm. 

Ég verslaði eina köku með bleiku kremi til að hafa í eftirrétt, en síðan þetta hefðbundna sem allir vilja; kjúklingalundir, brokkolí, rjómaost, hvítlauksbrauð, mango, avocado, kartöflur, spelt pasta, spínat, kristal .. váts hvað þetta er skemmtilegt blogg, upptalning á matvöru! LoL .. Ég fatta það reyndar um leið og ég skrifa þetta hversu svöng ég er orðin.  

EN nú er komið að því, ég þarf að fara með fulla gula innkaupakörfu á kassann og það er það sem ég kvíði alltaf og finnst eiginlega með því leiðinlegra sem ég geri. Skil ekki alveg þessa fóbíu en samt..

Miklu betra þegar Vala er með, þá raðar hún á beltið og ég í poka eða öfugt.  Slík samvinna er gulls ígildi. Ég gleymi ekki þegar við fórum einu sinni (fyrir löngu) í Fjarðarkaup og konan á kassanum bað Völu um að fara að athuga verð á einhverju.  Ég varð eins og kona í VR auglýsingunni, það var verið að ryðjast inn í systemið okkar!!! W00t "Vala raðar á beltið og ég raða í poka" og ég fór á límingunum..

En nú er Vala í Ameríku að versla í Publix eða einhverri álíka verslun, þar sem kerfið er miklu þægilegra reyndar, þá setur afgreiðslufólkið matvöruna í þar til gerðan pappírspoka á standi um leið og búið er að skanna. Ekkert stress fyrir viðskiptavininn, sem bíður með bros á vör eftir að pokarnir fyllist.. 

Nei, þarna stend ég ein gegn þessu kassamonsteri og þarf að ná því að setja vörurnar á í kapphlaupi við kassadömu með strípur,  sem harmonera að vísu við bleikt kremið á kökunni sem ég keypti.

Eitt núll fyrir henni, og svo æsist leikur því að hún finnur ekki númerið fyrir avocadoið og ég næ forskoti, hjúkkit... en hún er vön og váts hvað hún er fljót að skanna allt í gegn og það gerist sem ég óttast:  ég missi stjórn.  Vörurnar hrúgast upp og ég óttast um lífrænt ræktaða kókósjógurtið og mandarínurnar sem fara að velta úr pokanum ..   

Mitt í mínu svitakasti við kassann segir stelpan með bleiku strípurnar með vélrænni röddu "hvað marga poka?"  Ég blokkerast alveg en næ svo að ropa út úr mér hásri röddu: fjóra poka takk!  Þá spyr hún "ertu viss?" Ha?? Þessu hef ég ekki lent í áður, ha, jú ég er viss - eða sko ég held það og fæ snert af ákvörðunarkvíða.  Vildi samt ekki vera leiðinleg og spyrja hana hvort þau væru með spákonur á svæðinu (fyrir þau sem trúa á slíkt) nú  eða matsmenn sem gætu sagt fólki nákvæmlega fyrirfram hvað fólk þyrfti marga poka. 

Það mætti kannski gera þetta að íþróttagrein?  A.m.k. samkvæmisleik. "Gettu hvað þarf marga poka?"  Það á ekki að setja fólk undir svona mikla pressu! 

 "Tuttugogtvöþúsund,tvöhundruðfimmtíuogsjö" .. úff hún er búin að skanna allar vörurnar og stimpla inn pokana, svo ekki verður aftur snúið. Þessir fjórir verða að duga.  Ég tek fram skaddað Visakortið, en það kom brestur í það undan álaginu við að vera í hlutverki bílrúðusköfu sl. sunnudagsmorgun. 

Enn voru vörur ófrágengnar í poka og ég gjóaði augunum að næsta viðskiptavini sem beið spenntur eftir að hans vörur færu af stað og svo aftur að mínum vörum og pældi í því hvort honum finndist ég ótrúlega "slow" ..  en ég skrifaði stafina mína á slipsið,  hirti afritið,  hélt mínu striki og var á heimstími í þessu kassahlaupi  ..  enn einu sinni hafði ég sigrast á því að fara í gegnum systemið í Bónus, þó að blóðþrýstingurinn hækkaði og kaldur svitinn sprytti fram á ennið.  Sem betur fer hafði ég notað 8x4 um morguninn. 

Ég er fegin að ég þarf ekki að fara oft í svona matarinnkaupaleiðangra í stórverslanir og get haldið mig við að rölta á inniskónum út í  Pétursbúð þar sem ég fæ mínar lífrænt ræktuðu vörur þar og speltflatkökur.  Ekkert stress á kassa, bara vingjarnleg andlit og svo setur afgreiðslufólið matvöruna í poka fyrir mann. Kissing  .. ótrúlega notó ..  Áfram Pétursbúð!!

Nú eru rósirnar komnar í vasa, konan búin að setja upp svuntu, tónlistin á "fóninum" og klár í eldamennskuna og að taka á móti mínu fólki til að halda upp á afmæli móður minnar elskulegrar! Wizard

 

 


Snúlludúllurúsínurassgatsknúsímúsísnúður...

Ég hef orðið vör við það að fólk notar misjafnlega mikið af gælunöfnum.  Hér bloggaði Tigercopper á tímabili og við vorum öll eða mörg "skottin" hans.  Sem er kannski rökrétt, þar sem honum hefur þótt það heiðurstitill að við værum skott þar sem hann var í dulargerfi kattar.

 

Sumir  nota gæluorð eins og rassgat,  rúsínurass, englabossi .. og er það kannski af sömu ástæðu eða hvað? Mannfólki þykir kannski vænt um eigin afturenda?

Sumir segja snúlli, eða snúlla, dúlli eða dúlla, rúsína og eitt nýlegt sem ég heyrði er dúlludúskur.

Hefðbundara er kannski að nota orð eins og; engill, gull, góða, væna o.s.frv. 

Stundum notum við orð sem eru svona á blaði ekkert gælorðaleg, en ef þau eru sögð á mjög vinsamlegan hátt og helst með brosi verða þau að gæluorðum, dæmi: 

"litla kerlingin mín,"  "elsku rassgatið mitt,"  "Þú ert nú meiri asninn" .. 

  • Rassgat er ekki líklegt eitt og sér til að lýsa einhverju fögru eða góðu ef við tökum orðið bókstaflega, en merkilegt að við notum þetta orð sem gæluorð kannski á yndisleg falleg börn. 

Sjáum fyrir okkur hlægjandi lítið búttað barn að leik og segjum þá "Þetta er nú meira rassgatið" ..

Ég gúglaði myndir með orðið rassgat, og fékk upp slatta af krúttlegum börnum, en annað þegar enska orðið "asshole" er notað, en það er notað á andhverfan máta í enskunni, þar sem það er yfirleitt neikvætt og notað um að vera fífl.  "He´s a complete asshole" ..

  • Kerling er orð sem er oft notað í niðrandi merkingu, þ.e.a.s. ef niðrandi tónn fylgir með,  um eldri konur, og stundum til að hæðast að yngri konum.
  • Asni, er auðvitað dýr sem þykir af einhverjum orsökum frekar heimskt og því líka notað í niðrandi merkingu fylgi því þannig viðmót.

Dúlludúskur, snúlla, rúsínuskott o.fl.  er, að ég held (veit ekkert um það) nýrra af nálinni.

Gaman væri að vita hvað aðrir bloggarar þekkja í þessum gæluorðabransa og/eða hvort að þessu áðurnefnda er eitthvað sem þeir hafa tileinkað sér! 

Knúsímús og kveðjur,

Jóga á laugardegi. 


"YES Woman" vika ..

I gærkvöldi átti ég skemmtilega samveru með samstarfsfólki, þar sem Bragi Þór samstarfsfmaður og konan hans Christina, voru búin að undirbúa skemmtilegan leik, einhvers konar Pirate Murder Mystery, sem gerðist á "The Salty Sea Dog"  eða reyndar um borð í Humarskipinu sem er veitingastaður hér niður við höfn.

Stemmningin hafði verið stigmagnandi, við höfðum safnað í "fjársjóð" á kaffistofunni. Allir komu með eitthvað sem þeim fannst eiga heima í fjársjóðnum, en þar enduðu seðlar og mynt af ýmsum uppruna,  skartgripir og úr, bikarar, sælgæti o.fl.  

Ég ætla ekki að fara nánar út í leikinn, en vil minna á hversu mikilvægt er að andi sé góður á vinnustað. Gefin hefur verið út bókin Fiskur,  sem er nokkurs konar dæmisaga um það hvernig hægt er að breyta móral á vinnustað. Mottó þessarar bókar m.a. að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega en taka starf sitt hátíðlega. 

Vinnustaðurinn minn er skóli, nemendur hafa oft talað um það við mig hversu þeim finnist góður starfsandi meðal kennara smita til nemenda. Ég er ekki að tala um að það þurfi endalausar sjóræningjaveislur til að halda uppi vinnuanda, það eru alls konar smáatriði sem bæta braginn. Til dæmis að hafa uppi á vegg töflu með afmælisdögum o.fl. Alls konar litlir hlutir sem ég hvet fólk til að lesa um í bókinni Fiskur. 

Eins og ég skrifaði áðan þá söfnuðum við í fjársjóð á kaffistofunni, en hinn eiginlegi fjársjóður hvers fyrirtækis liggur auðvitað í mannauðnum, í því sem sem fólkið hefur fram að færa. Það er oft snúið að virkja þann mannauð sem best, láta hann ekki liggja á kistubotninum.  Kúnstin er að sjá hið jákvæða í fari hvers og eins og virkja það, en ekki einblína á það neikvæða og vökva það í huga sér þannig að það verði að einhverju skrímsli. 

En hvers vegna þessi titill á blogginu "YES Woman" vika ..  Jú, það er vegna þess að ég ætla að prófa að fara af stað í þessa viku með því hugarfari að vera extra jákvæð. Ég á það til að detta í smá drunga, eins og við reyndar flest. Svo þetta er bara tilraun; Jákonuvika hefst því núna, og býð þeim sem vilja að sjálfsögðu að taka þátt í tilrauninn með mér, ekki síður karla en konur. 

YES Woman and YES Man Smile 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband