Lífsgangan

Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft lífsgöngu viðkomandi. Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn hungrað í lífdaga.

Einhvern tímann skrifaði ég um menntaveginn sem væri genginn eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum ca. fyrirfram hvað á að taka langan tíma. Ekki komast allir á leiðarenda,  heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meir og stytta sér því aldur. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu, sér engan tilgang til að halda áfram.

Það sem dregur helst úr mér er illskan. Illskan, hatrið og óttinn sem þrífst í heiminum og á minni göngu herjar það á mig sem illviðri. Ofbeldi, grimmd, mannvonska í allri mynd. Engin illska er þó verri en sú sem bitnar á börnum.

Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og væntanlega þinn, í lifsgöngunni  Það er elskan - það er að vera vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri gefa gott og elska því betra. Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla hjarta sitt af elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.

Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.

Gildin eru einmitt ást, heilindi, hugrekki, traust, vinátta - þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri. Leyfa þeim líka að kenna okkur.

Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung - hvorki líkamlega né andlega. Við megum ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg. Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins -  njóta þess að vera þar sem viðerum, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú. (Þetta er svona svolítið Eckhart Tolle hugsunargangur og margir aðrir hafa kynnt þetta og a.m.k. reynt að tileinka sér).  

Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska, elska sig og elska aðra. Það er auðvelt að elska börnin sín, það er mér a.m.k. auðvelt og þegar ég skrifa þetta þá vöknar mér um augu, því að þau eru mér svo óendanlega kær. (Kannski er það hérna sem ég þarf að koma því að að ég er edrú, en bara svolítið væmin týpa LoL).  Ég var reynar að lesa það að ég ætti, skv. læknisráði, að drekka eitt rauðvínsglas á dag, en kom mér ekki til að kaupa rauðvínsbeljuna í dag!

Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður - og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða. Allt sem við vökvum dafnar (þetta segja margir) þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, trúna, hugrekkið og vökva elskuna.  Sendum fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar, sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við okkar áhyggjur í viðkomandi sem við höfum áhyggjur af. Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka til viðkomandi.

Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni, kannski bara í kvöld - tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir ferska loftið, tæra vatnið og það sem við höfum hér á Íslandi og ef þú ert að lesa annars staðar þar sem fólk hefur ferskleika lofts og vatns. 

Hreint vatn og loft er grundvallarelement fyrir heilsusamlegri lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar;  líkamanum - og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum - en vissulega verður þetta tvennt að fara saman, á lífsgöngunni.

Það er ekki fyrr en að líkaminn gefst upp að andinn heldur áfram göngunni, án líkamans. Þessu eru ekki allir sammála, en þetta er það sem mér finnst og loftið sem ég anda að mér segir mér það.

Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt sem ég kynnist, allir hafa eitthvað að gefa.

Þessi færsla er orðin lengri en ég ætlaði í upphafi, - þetta er ein af þessum færslum sem eru sjálfstæðar, fæðast bara um leið og fingurnir hreyfast á lyklaborðinu.  

Að lokum; verndum börnin - setjum þau í forgang,  kennum þeim að klæða sig eftir veðri og vindum sem koma til með að herja á þau á lífsgöngunni,  kennum þeim að velja sér ferðafélaga og verum þeim góð fyrirmynd og kennum þeim að ganga sjálfum, taka ábyrgð og treysta á sig sjálf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrrir þessa fallegu hugvekju.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.12.2009 kl. 00:07

2 Smámynd: Ragnheiður

frábær hugvekja, kærar þakkir Jóga mín

Ragnheiður , 13.12.2009 kl. 01:14

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þetta var yndisleg lesning...

Jónína Dúadóttir, 13.12.2009 kl. 07:29

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sælar, takk fyrir innlitið. Þetta er grunnurinn að hugvekju sem ég er að fara að flytja í kvöld. Ég ætla reyndar að bæta við, breyta o.fl. mig langar svo að tileinka hana þeim sem við elskum og hafa kvatt okkur - verða ekki með þessi jól.

Því sem ég ætla að bæta í er mikilvægi þess að ganga glaður og njóta. Njóta þess sem við erum akkúrat að upplifa. Innblástur minn í það er æskuvinkona mín sem ég missti fyrir tveimur árum tæpum,  hún lifði svo fallega og naut.  Það var svo gaman að ganga með henni, í bókstaflegri merkingu því hún tók eftir því fallega í umhverfinu. Við gátum líka svosem alveg gleymt okkur á göngu,  því það var svo gaman að tala saman. 

Ég mun örugglega bæta smá englum í þetta líka, því að englar eru ómissandi, hvort sem þeir eru sýnilegir eða ósýnilegir.  Sýnilegir englar eru auðvitað fólk sem er alltaf að hjálpa okkur og styðja.

Hugheilar þakkir; Jóna Kolbrún, Ragnheiður og Jónína.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.12.2009 kl. 08:45

5 identicon

Sæl ,Jóhanna.

Svo sannarlega hugljúf og góð grein ,hún hittir mig svo víða nánast alls staðar ! Veistu það, já þú veist það að að uppsprettu hreinleikans er að finna í börnunum, að hlusta á þau getur verið ómæld gleði og upplifun.

Takk kærlega fyrir þessa grein þína.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 11:06

6 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Sæl Jóhanna.

 Hugljúf og hjartnæm grein.Það er besta sem maður á lífleiðinni,er gott samferðafólk.En allir verða að gæta þess,að við vegarkantinn,bíða árar illsku og öfundar,Mammon ,Bakkus og aðrir ,sem eru tilbúnir að hrifsa til sín þá,sem beygja út af.Því ber að halda fast og gæta að samferðafólki,því margar eru freistingarnar.

Kærar þakkir.þú ert

Ingvi Rúnar Einarsson, 13.12.2009 kl. 11:54

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kærar þakkir Jóhanna fyrir hugljúfa og góða grein.  Reglulega notalegur pistill

Ágúst H Bjarnason, 13.12.2009 kl. 15:14

8 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Yndislegt að lesa Jóhanna mín þú ert svo einlæg í þínum skrifum og það passar svo vel að mínu mati.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.12.2009 kl. 16:56

9 Smámynd: Inga María

Búin að lesa hugvekjuna þina tvisvar og ætla mér að lesa hana aftur í kvöld upphátt fyrir minn ektakarl.  Hollur húslestur.   Takk kærlega!

Inga María, 13.12.2009 kl. 20:06

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þórarinn:"uppsprettu hreinleikans er að finna í börnunum" .. gæti ekki verið meira sammála!  Þakka þér fyrir falleg orð.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.12.2009 kl. 23:14

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ingvi Rúnar,  þetta var ágætis ábending - um það sem getur legið við vegarkantinn, og þess vegna verðum við að vera með meðvitund og gæta vel hvar og hvernig við stígum til jarðar og sýna styrk þegar á reynir.

Takk fyrir að kalla mig  .. ég verð bara feimin.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.12.2009 kl. 23:16

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir heimsókn og falleg orð Ágúst.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.12.2009 kl. 23:17

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Æ, við skiljum hvor aðra Milla mín, skrifum frá hjartan og erum ekki hræddar við það. Takk, takk.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.12.2009 kl. 23:18

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir Inga María, mikið er ég glöð að hún gagnast einhverjum þessi hugvekja sem var eiginlega upphaflega töluð til sjálfrar mín. Á stundum býsna erfitt með að halda ljósi mínu lifandi, en fólk eins og hér hefur komið og tjáð sig hjálpar mér svo mikið. 

Við þurfum bara að vera duglega að gefa á víxl.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.12.2009 kl. 23:20

15 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir enn einn góðan pistil.

Marta B Helgadóttir, 14.12.2009 kl. 00:05

16 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Marta mín.

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.12.2009 kl. 17:31

17 Smámynd: Sigrún Óskars

Vá hvað þetta er flott skrifað hjá þér - það ættu bara allir að lesa þetta. Þetta vekur mann til umhugsunar um sína eigin lífsgöngu.

Takk fyrir Jóhanna og gangi þér vel á þinni lífsgöngu

Sigrún Óskars, 22.12.2009 kl. 21:44

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér innilega fyrir Sigrún.

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.12.2009 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband