Lærum af sögunni

Það er varla til nokkur manneskja sem ekki fyllist óhug við að lesa þessar niðurstöður sem verið er að birta.  Það sem verkur athygli er m.a. eftirlit sem bregst. 

Fólk með fötlun er oft varnarlaust gagnvart fólki sem kann ekki á fötlun þeirra. Þess vegna er BRÁÐNAUÐSYNLEGT að hafa vel menntað og vel uppfrædda einstaklinga sem sinna þjónustunni. - 

Foreldri sem elur upp barn verður ekki sjálfkrafa sérfræðingur í uppeldi.  Það sama gildir um foreldri sem elur upp t.d. barn með einhverfu.  Flestir foreldrar læra þó á barnið sitt og kynna sér, sem betur fer, kærleiksríkar uppeldisaðferðir.  En sumt fólk notar bara uppeldisaðferðir sem notaðar voru við þau sjálf og því miður eru þær ekki alltaf góðar. -

Það sama gildir um ófaglært fólk sem er að vinna með fötluðum.  Það talar um dónaskap eða frekju viðkomandi,  þó það sé algjörlega óviðeigandi! -  Þetta fólk veit ekki eða kann ekki betur, en er samt sem áður að vinna með fötluðum.   Það þarf hærra hlutfall þroskaþjálfa - iðjuþjálfa eða þeirra sem hafa lært að vinna með fötluðum.  -  Auðvitað þarf líka kærleika og góðan vilja og það þarf ekki að vera samsem merki milli þess að manneskja sé ófaglærð og að kunna illa að umgangast fatlaða.  

Við verðum öll að vera tilbúin að læra,  hvort sem við erum foreldrar, ófaglærð eða faglærð - til þess að fólk - allt fólk - geti lifað á jafnréttisgrundvelli og upplifað almenn mannréttindi, eins og er bara svo sjálfsagður hlutur! 

Nú er verið að gagnrýna og opinbera hluti sem gerðust á Kópavogshæli.  Lítum í nútímann og skoðum hvernig staðið er að þjónustu við fólk með fötlun, - hvort að pottur sé brotinn, og þá hvernig og hvar?  Lærum af sögunni svo að ekki komi önnur skýrsla fram eftir einhver x ár þar sem fólk tekur andköf!  - 



mbl.is Börn sættu ofbeldi á Kópavogshæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjan hangir á þvottasnúrunni ..

 

HAMINGJAN HANGIR .. 

Forsaga: Ég þvoði af rúmunum einn sumardaginn fyrsta, sem er nú ekki alveg í frásögur færandi, en þegar ég var að hengja lökin og sængurverin upp - og fylgdist með þeim blakta - um leið og fuglarnir á Sólheimum sungu morgunsönginn, leið mér svo ótrúlega vel. Ég fór að ræða þessa vellíðan við samstarfskonu mína, og þá sagði hún einfaldlega: "Já þetta er hamingjan" ..

 

Hamingjan hangir á  þvottasnúrunni. 

Hún blaktir í vindinum

og það tekur í fúnar tréklemmur

sem hafa staðið af sér veturinn.

Ég anda djúpt

og hlusta á lökin taka undir

fuglasönginn.

Mikið er gott að vera hér

við þvottasnúrurnar

þar sem hamingjan hangir.  cool

 

Jóhanna Magnúsdóttir -  vorið 2016 

 


Ekki dæma grænlenska þjóð fyrir meintan verknað fárra landa þeirra ... og ekki dæma íslenska þjóð fyrir verk fárra landa þeirra.

Grænlendingar hafa mögulega brotið gegn íslenskri stúlku.  Það er RANGT og órökrétt að dæma alla Grænlendinga út frá verkum örfárra Grænlendinga.  Það held ég að við séum flest sammála um. 

Íslendingar hreyta ónotum í grænlenska menn í sjoppu.  Það er rangt að dæma alla Íslendinga út frá verkum örfárra Íslendinga. 

 

Það gildir það sama,  svo ég skammast mín ekki fyrir að vera Íslendingur - ekki fremur en að Grænlendingar eiga ekki að skammast sín fyrir að vera Grænlendingur.  

Hvernig fólk hegðar sér er bara þeirra mál, en ekki heillar þjóðar!  

Þetta virkar í báðar áttir.  

 

 

 


mbl.is Grænlendingar mæti óvild hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf og starf á Sólheimum

Þann 4. nóvember sl. skrifaði ég undir ráðningarsamning minn sem forstöðumaður félagsþjónustu á Sólheimum í Grímsnesi.  Hóf störf þar um miðjan mánuð og var flutt á Sólheima, nánar til tekið í Upphæðir 17 (merkilegt götuheiti)  í lok nóvembermánaðar.  Þá flutti ég í fallegt parhús með grasþaki, og þar sem nágrannar voru - og eru - fyrsta flokks. Í hinum enda parhússins búa prestshjónin Erla og Birgir Thomsen, en Birgi hafði ég verið samferða í guðfræðináminu.  Hólmfríður Árnadóttir, talmeinafræðingur og lífskúnsner býr svo í fallegu húsi í kallfæri, og síðast en ekki síst er í húsaþyrpingunni okkar hann Reynir Pétur Steinunnarson sem er landskunnur fyrir að hafa gengið hringveginn fyrir 30 árum síðan m.a. til styrktar Sólheimum.  Allt er þetta eðalfólk.

Heimilisfólk á Sólheimum eru yndislegir og fjölbreyttir karakterar,  og það er ævintýri í sjálfu sér að kynnast þeim hverjum og einum.  Ég hef alltaf haft áhuga á fólki sem er aðeins "öðruvísi" - en ég tel reyndar að við séum öll "öðruvísi" - en sumir eru bara skemmtilega meira öðruvísi en aðrir. 

10845792_10205738060104508_7146122895499684973_o

Sólheimar hafa starfað í 85 ár, að hugsa sér það! -  Sólheimar hafa náð að lifa þrátt fyrir andstöðu sem hefur blossað upp allt frá dögum Sesselju hér.  Áhyggjuefni þótti t.d. hvað hún gaf börnunum mikið grænmeti! -  Annað þótti ekki gott, og það var að blanda saman fötluðum og ófötluðum og var ætlast til að þeim væri haldið í sundur!

Sesselja hefur verið stórmerkileg og sterk kona að standa á móti straumnum,  með sinni sannfæringu og með sínum skjólstæðingum. 

Í dag er mikið rætt um mikilvægi þess að leggja niður öll sambýli og koma sem flestum í sjálfstæða búsetu.  Það eigum við sum, sem vinnum með fólki með fötlun ekki alltaf gott með að skilja.  Margir hafa einmitt óskir og drauma um hið gagnstæða.

Í dag eru á Sólheimum þó nokkrir einstaklingar í það sem er kallað sjálfstæð búseta, - en þeir einstaklingar fá leiðsögn og þjónustu stuðningsfulltrúa eftir þörfum hvers og eins. Á svæðið mætir líka sjúkraþjálfari, nuddari, klippari, fótaaðgerðafræðingur o.fl.

 

 

Eitt sambýli er á staðnum, Steinahlíð, þar sem sex einstaklingar eru með sín herbergi en nýta sameiginlegt rými, stofu, eldhús, sólskála og baðherbergi. Á sambýlinu er starfsmannaíbúð og býr þar alltaf einn stuðningsfulltrúi viku í senn, og skiptast tveir á um það. 

Bláskógar heitir svo húsið þar sem eldri borgarar Sólheima búa í mjög fallegu húsi, þar sem er vítt til veggja og sérútgangur út á lítinn pall úr herbergjunum. Í Bláskógum eru metnaðarfullir vakt/deildarstjórar sem halda utan um sitt hvora vikuvaktina sem gæta þess að öllum líði vel og fái topp þjónustu 

Tvö hús Sólheima hafa verið nefnd, Steinahlíð og Bláskógar, en elsta húsið á Sólheimum er Sólheimahúsið sem var byggt 1930 og flutti Sesselja þar inn í kjallarann 4. nóvember 1930 (en það vakti athygli mína að það var sama dag og ég skrifaði undir ráðningarsamning).  Nýrri hús eru svo sjálfbæra húsið sem heitir í höfuð Sesselju, eða Sesseljuhús þar sem eru ráðstefnusalir, bíósalir og kennslustofur svo eitthvað sé nefnt og á menningarveislu sumarsins er frábær sýning þar í gangi. 

Vigdísarhús er glæsilegt hús sem stendur á hæðinni - og þar er mjög vel tækjum búið eldhús og glæsilegt mötuneyti þar sem rúmast yfir 100 manns, enda oft fleiri en við starfsfólk og heimilisfólk í mat.  Alls konar Yoga - og námskeiðshópar, sjálfboðaliðar og gestir sem koma við. Boðið er upp á hádegismat alla virka daga, í mötuneytinu - og alltaf eru valkostir fyrir þau sem þurfa sérfæði eins og glútenlaust, laktósafrítt, grænmetisfæði o.s.fr. - Þannig að það er ekki flókið að borða hollt á Sólheimum.

10443059_10153032083033036_6320600260440103749_o

Ekki má gleyma fallegu kirkjunni okkar á Sólheimum, sem á nú 10 ára vígsluafmæli, en þar er altarastafla sem er unnin af Ólafi Má sem er verkstjóri á einni af vnnustofunum okkar og er sannkallað listaverk - unnið úr þæfðri ull. -  Messað er í kirkjunni aðra hvora helgi yfir vetrartímann og á laugardögum hafa þau prestshjónin haldið úti kirkjuskóla og sækja hann börn og fullorðnir víða að.   Til dæmis úr sumarhúsabyggð. 

 

Ég hef sjálf ekki upplifað annað eins félagslíf og eftir að ég flutti á Sólheima.  Alls konar uppákomur, þorrablót, jólahlaðborð, þrettándagleði, afmælisveislur, leikhúsferðir og auðvitað líflegt starf leikfélags Sólheima.   Í sumar er "stanslaust stuð" - tónleikar hverja helgi,  sýning vegna 30 ára afmælis göngunnar hans Reynis Péturs í Íþróttaleikhúsinu, sem ég var næstum búin að gleyma að nefna.  Í Ingustofu er sýning á verkum heimilsmanna - keramik, myndlist, vefnaðarist og fleira og allt er það framkvæmt undir metnaðarfullri handleiðslu frábærra verkstjóra okkar.   Í Ólasmiðju er svo kertagerð og smíðaverkstæði - og er þar ekki síður metnaðarfullt starf.  

Hér er í anda sjálfbærnistefnunnar,  heimaræktaðir ávextir og grænmeti í gróðrastöðinni Sunnu - og svo eru auðvitað sumarblómin ræktuð á svæðinu.   Það er erfitt að koma öllu að, og ég mun eflaust gleyma einhverju.

Í litla "þorpinu"  á Sólheimum er að sjálfsögðu rekin búð, verslunin Vala, sem selur ýmsa listmuni og auðvitað matvæli og það er lúxus að þurfa ekki að leita langt yfir skammt.  Þar eru brauð og kökur sem er bakað í Sólheimabakaríi sem er staðsett í kjallara Vigdísarhúss.  Þessi brauð og kökur fást víða í Reykjavíkinni og hafa löngum þótt hið mesta góðgæti.

Græna kannan heitir svo kaffihúsið á Sólheimum og þangað er farið allar helgar og hægt að fá gómsætar kökur og líka ósætar og glútenlausar kökur sem þykja afbragð.  Kaffið er að sjálfsögðu brennt og malað á staðnum,  en nýlega hófu Sólheimar að brenna kaffibaunir.  Jónas Hallgrímsson rekur bæði verslun og kaffihús og gerir það með sóma.

11713711_10206163119490727_4550562729557585939_o

Nú er ég búin að telja upp alls kona starfsemi tengda Sólheimum og innan Sólheima, en allt þetta starf er í raun byggt utan um kjarnann sem er heimilisfólkið á Sólheimum. -  Það er AÐAL.  Félagsstarfið sem ég hef verið að tala um er sótt af heimilisfólki, en að sjálfsögðu er boðið upp á fleira, - boccia hefur verið stundað í íþróttaleikhúsinu, - ég var búin að nefna leikfélagið þar sem er heldur betur flott og metnaðarfullt þar sem glæsilegar leiksýningar eru settar upp á hverju ári.  Hestaþerapía var í boði sl. vetur og voru þeir heimilismenn sem það þáðu einstaklega ánægðir og mun því vera framhaldið. Íbúar Sólheima taka þátt í ýmsu sem gerist utan okkar litla "Sólheims" að sjálfsögðu,  fulltrúar hafa tekið þátt í sýningunni List án landamæra og feiri sýningum og uppákomum bæði hérlendis og erlendis og síðan ég flutti hingað í nóvember, hafa verð farnar tvær hópferðir á elenda grund.  

Starfsfólk Sólheima leggur sitt af mörkum, og á Sólheimum erum við með okkar einkasundlaug, pælið í því :-)  og hefur þroskaþjálfi staðarins, Birna Birgisdóttir,  tekið upp á því í vetur og sumar að hafa æfingar í sundlauginni og skellir sér út í laugina með heimilisfólki.  Það þarf varla að taka fram heilunarmátt vatnsins og því er ekkert lítið mikilvægt að hægt sé að reka sundlaug hér í miðju hverfi.  Sumir hafa sýnt á sér nýjar hliðar í sundinu!

Það er af svo mörgu að taka, þessi pistill var ekki fyrirfram ákveðinn - ég hreinlega fann hjá mér þörf til að skrifa hann og segja frá Sólheimum.  Margir hafa komið á staðinn og talað um "magíska" upplifun,  kannski var það það sem Sesselja fann þegar hún valdi þennan stað.   Hér er svo bara "venjulegt" mannlíf með sorgum og sigrum, uppákomum og gleði - og einstaka stríði.  Sólheimar eru í raun eins og mikróheimur og ekkert er óviðkomandi hér sem er í hinni mannlegu tilveru hins stóra heims.   Við starfsólkið gerum okkar besta til að vera góðir leiðbeinendur og fyrirmyndir í þessu samfélagi okkar og við óskum þess að Sólheimar megi lifa og starfa um ókomin ár,  vera heimili og umgjörð fyrir okkur - bland í poka, fólk af öllum stæðrum og gerðum.  

Auk fastráðins starfsfólks, aðstoða ýmsar sérfræðingar og sú sem ég hef haft mest samskipti við er Svanhildur Svavarsdóttir,  einhverfusérfræðingur m.meiru,  sem velur það að koma hingað í sjálfboðastarf - bæði sem "starfsmaður á plani" - og veitandi ómetanlega ráðgjöf til okkar hinna.

Með endalausu þakklæti til Sesselju fyrir að hafa haft hugrekki og eldmóð að fara í gang með starf á Sólheimum og halda því lifandi í öll hennar ár og svo til þeirra sem hafa tekið við keflinu,  stjórnenda og stjórnar Sólheima á liðnum árum og að sjálfsögðu í dag.  Hér má ekki gleyma öllu starfsfólkinu, sem margt hvert hefur lagt líf og sál í starfið.  Og síðast en ekki síst - þakkir til heimilisfólks Sólheima, sem er eins og áður sagði kjarninn i starfinu, en kjarninn er líka hjartað og hjarta Sólheima er fólkið!

Eigum góðan dag og verum velkomin á afmælishátíð, það er sannarlega tilefni til að fagna.

10616721_1139289772754268_8524469189131774023_n 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sólheimar fagna 85 ára afmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissa á óvissu ofan

Það eru alltaf einhverjir óvissuþættir í lífi okkar, - en þeir aukast þegar fólk greinist með krabbamein.  Það koma upp allskonar biðtímar,  biðin eftir niðurstöðum úr greiningu, biðin eftir aðgerð o.fl. sem er kvíðavekjandi.  

Dagsetningar verða eins og vörður í lífi krabbameinssjúklings.  Það að vita af vörðunni er smá styrkur.  Það er þennan dag sem ég fæ að vita þetta, - það er þennan dag sem ég á að fara í þennan skanna/meðferð/aðgerð o.s.frv. -  Þessar vörður skipta máli. 

Svo er verkfall - og engin varða, -eða hún tekin og færð, eitthvað þar sem hún ekki sést. Ekki er vitað hvar og hvenær næsta varða verður.  Óvissustigið eykst og það bætir í vanlíðan sem var fyrir.  

Ef við ætlum að kalla okkur siðmenntaða þjóð þá verður þessu ástandi í heilbrigðismálum að fara að linna.  

Bera læknar ábyrgð?  Geislafræðingar?   Eða bera stjórnvöld ábyrgð á því að fjöldi fólks veður nú í villu og svima og finnur engar vörður?  

Það getur vel verið að svona upplifi ekki allir þetta, - en ég tala út frá eigin nafla eins og venjulega.  Ég átti að hefja undirbúning fyrir geislameðferð í dag, en fékk hringingu á föstudag um að hún frestaðist um óákveðinn tíma.  Maður þarf ekki að vera á einhverfrófi til að svona skipulagsbreytingar setji mann út af laginu.  

Þegar við erum sjúklingar erum við viðkvæm fyrir, - pinku skelkuð.  Ekki gera illt verra! 

 

 


mbl.is Vinnudeilur ógni sjúklingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóðabók frænku

"Ég er 48 ára gömul Asperger einhverf kona" ....."Ég vil breyta samfélaginu þannig að einhverf börn eigi sér bjarta framtíð" ...  

10407200_1537954919805507_4202596502678227163_n

Þetta er m.a. það sem frænka mín Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifar á fésbókarsíðu sína, - en hún er vel virk á henni. - Við erum bræðradætur, Magnús faðir minn og Björn faðir hennar voru bræður.  Blessuð sé minning þeirra beggja. - 

Ingibjörg Elsa er gift í dag og eiga þau hjón fimm ára son.  Myndin sem hér fylgir er af henni sjálfri þar sem hún var barn og í fjölskyldunni var hún kölluð Ingella. 

 

Ingibjörg Elsa - Ingella er að gefa út ljóðabók og er að leita eftir styrkjum á Karolina fund.  30 prósent hefur áunnist, en 70 prósent vantar uppá.  

Ljóðin eru fjölbreytt - en skrifuð af tilfinningu - sum koma langt innan úr skelinni og opna þannig inn í hugarheim höfundar, og þá í leið e.t.v. okkar allra, þvi öll erum við manneskjur og öll erum við eitt. -

Mig langar að vekja athygli á ljóðabók frænku, - ég er sjálf búin að styrkja útgáfuna og hlakka til að fá tækifæri til að lesa ljóðin í bók. 

Hér er hlekkur á verkefni

 

Eins og er eru komnir 19 "bakkarar" eða backers og 30 prósent af upphæð. 

Sjáum hvað setur á næstu dögum. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Anorexía og tanorexía ...

10255194_1008632072498171_6752662803802466520_n

 Þessi mynd segir eiginlega allt sem þarf um áhættuna við útlitsdýrkun.  

Löngunin til að vera mjó og brún fer yfir strikið, -

Þetta er ein af þessum myndum sem er grátbrosleg. -  Í raun afskaplega sorgleg, því hún lýsir því hvað gerist þegar farið er yfir strikið, bæði hvað megrun varðar og ljósabekkjanotkun.  

Þetta er menningartengt. Ekkert barn fæðist með þá hugmynd eða pælir í því að það sé ekki nógu grannt eða nógu brúnt.  Það hreinlega er ekki að dæma sig eða útlit sitt, fyrr en því er kennt það. Kennt af samfélagi sem segir stúlkum hvernig þær séu fallegar.

Að vísu er farið að nota brúnkusprey fyrir fegurðarsamkeppnir og fitness. Danspörin í danskeppnum úða á sig speyi. Hvað er það?  Er dansinn ekki fallegur ef fólk er með sinn eigin húðlit?  

Ég vil vara við þessari stefnu og þessum bæði leynda og augljósa áróðri sem ýtir undir bæði anorexíu eða átröskun og líka tanorexíu, þar sem fólk fær þá hugmynd að það sé ekki nóg.  Annað hvort aldrei nógu grannt eða aldrei nógu brúnt, eða bæði.

 

 


Almenn skynsemi á undanhaldi fyrir bókstafstrú á regluverk?

Kjarni þessa pistils: 

Ég hef engar áhyggjur af kirkjuheimsóknum barna, - það eru foreldrar sem eru aðaltrúboðarnir og fyrirmyndirnar í lífi barna sinna.  Það eru þeir sem eru stærstu áhrifa-og mótunarvaldar ekki kirkjustofnanir. Það má alveg hafa áhyggjur af uppeldi sumra foreldra, nú og uppeldi í skólum, líka þeirra sem kenna bókstafstrú á regluverk, hvers eðlis sem það er. 

---

Maður nokkur keypti sér pakka af Lasagna, þ.e.a.s. það eina sem vantaði var hakkið og osturinn. Lasagnaplöturnar, sósurnar, kryddið o.fl. voru í pakkanum. 

Hann las utan á pakkann, hann fór nákvæmlega eftir uppskrift, og setti réttinn i ofninn. Stillti á þar til settar gráður og stillti klukkuna á 25 mínútur eins og stóð á pakkanum.  Eftir 20 mínútur fann hann brunalykt, en á pakkanum stóð 20 mínútur svo hann beið i 5 mínútur í viðbót - en þá var sósan og osturinn ofan á lasagnanu orðið vel brennt.  Hann varð reiður, - ekkert að marka leiðbeiningarnar! -  Hann hafði ekki áttað sig á því að ofnar eru misjafnir og hann átti t.d. glænýjan ofn - og kannski hafði hann óvart stillt á grill eða? - 

En þessi pistill er ekki um lasagna, - eða matreiðslu, heldur einmitt um almenna skynsemi.

Það er svo augljóst, eða ætti að vera augljóst, að uppskriftir eru skrifaðar til leiðbeiningar. Reglur og regluverk ætti að vera það líka, og ættu að vera til að auðvelda okkur mannfólkinu lífið. - Svo er það stundum að reglurnar og regluverkið verða að bókstafstrú og það er ekki hægt að hnika.  "Reglurnar eru svona - punktur" - 

Reglur eru ekki aðeins settar til leiðbeiningar, en stundum eru þær settar til verndar. Verndar börnum, verndar fólki á öllum aldri, - til verndar fötluðum og ófötluðum. 

Á hverju ári, fyrir jól byrjar fólk að vitna í reglur til verndar börnum sem fara í kirkjuheimsóknir.  Ég skil sjónarmiðið, - því að þar kynnast börnin kristinni trú og kirkjulegum hefðum og siðum og mætti flokka það undir trúboð.  Trú á Guð og Jesú Krist.
(Fólk óttast ákveðinn heilaþvott eða ranga innrætingu).  

Trúboðið stendur reyndar alla daga. Og þar eru foreldrar lang, lang, lang sterkasti trúboðinn.  Börnin verja mestum tíma heima, þar sem þeim er sagt hverju þau eiga/mega trúa, hvernig þau eiga að lifa og vera. Þar fá þau stanslausa innrætingu um hver þau eru og hvað þau eiga að gera.  Þau fá það í gegnum samtal við foreldra, þau heyra skoðanir (trú) foreldra o.s.frv.   Ef að foreldrar eru of ýtnir með sínar skoðanir og trú er mjög líklegt að barnið fari í uppreisn einhvern tímann á ævinni.  Þegar ég er að tala um trú, er ég ekki endilega að tala um trúarbrögð, heldur bara trú almennt.  T.d. hvaða trú hefur einstaklingur á sjálfum sér?  Er hann t.d. svartur sauður og ómögulegur?   Hver kenndi honum það? 

Ég hef ekki miklar áhyggjur af örfáum heimsóknum í kirkju, eða að þar fari fram einhver heilaþvottur.  Tala nú ekki um ef að börnin hitta prestinn eða fara í kirkjuna einu sinni eða tvisvar á ári. Hvaða áhrifavaldur er það?  Foreldrar eru eins og guðir hjá börnum sínum.  Þau trúa foreldrum sínum best af öllum.  Það eru þau sem byggja grunninn fyrir líf barnsins.  Þau eru að sjálfsögðu sterkust þegar þau eru yngst, áhrifin, en síðan koma inn áhrif kennara í skóla, áhrifa félaga og áhrif samfélags almennt og fjölmiðla.  Þetta er að sjálfsögðu allt í bland, - fjölmiðlar byrja mjög snemma að hafa áhrif á líf barna, bæði beint og í gegnum foreldra. 

Pistillinn er með yfirskrift um bókstafstrú og regluverk.  Mér finnst eins og ákveðinn rétttrúnaður hafi færst út fyrir kirkjuna - kirkjuna sem keppist nú við að verða víðsýnni og stækka faðminn.  Kirkjuna sem kennir m.a. að hvíldardagurinn var gerður mannsins vegna en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins.  Kristin kirkja á Íslandi er ekki ferköntuð og íhaldssöm. Þar veit fólk að almennrar skynsemi er þörf þegar Biblían er lesin og ekki er verið að boða reglur sem ekki virka á samfélag dagsins í dag.  Biblían er eins og lífið,  þar eru sögur, allt frá þeim ljótustu til þeirra fallegustu.  Að sjálfsögðu tileinkar sér enginn með göfugt hjarta og almenna skynsemi ljótu sögurnar.  

Ef við ætluðum að vera jafn "verndandi" og þau sem vilja vernda börnin frá kirkjuheimsóknum, þá þyrftum við helst að vernda þau frá tölvuleikjum, sjónvarpi, - og gífurlega miklum áróðri sem þau fá á heimilum sínum.  Það er talað um að foreldrar viti alltaf eða oftast hvað börnum þeirra er fyrir bestu.  Æ, nei því miður.  Ég er búin að vinna það lengi í ráðgjöf og að hlusta á fólk, sem er að vinna úr "trúboði" foreldra sinna,  trúboði að þau séu ómöguleg, frek, leiðinleg, löt, einskis nýt, að því get ég ekki trúað.  Foreldar eru flestir, sem betur fer,  mjög svo velviljaðir,  en kunnáttan er ekki alltaf fyrir hendi eða getan.  Þau voru e.t.v. sjálf alin upp við að hafa ekki trú á mátt sinn og megin, og auðvitað yfirfærist það á börnin þeirra, nema að þau hafi náð að styrkja sig.

Fólk hefur áhyggjur af heilaþvætti í kirkjunum, en áttar sig kannski ekki á því að heilaþvotturinn fer fram heima.  Þar eru aðal "þvottavélarnar" -  hitt er bara heimsókn.  

Sú manneskja eða þær manneskjur sem hafa mest áhrif á líf barna, eru þær manneskjur sem þær tengjast mest og best. - Þess vegna skulum við foreldrar, afar og ömmur, frænkur og frændur, kennarar barnanna, formlegir sem óformlegir líta í eigin barm og skoða hvaða "trú" við erum að kenna þeim.  

Barnið mun vaxa úr grasi, og þá er mikilvægasta trúin sú að það hafi trú á að það sé verðmætur einstaklingur, manneskja sem stendur sterk í æðruleysi, kjark og sátt við sjálfa sig.  

Fyrir mig er það mikilvægt að Guð sé með í jöfnunni, - því það hefur stutt mig í gegnum ævintýragöngu lífsins.  

Ég held persónulega að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeirri hefð að bjóða börnum í kirkju fyrir jólin, - nú eða í Smáralind eða hvert sem er.  Það sem við þurfum að vinna að er að viðhalda almennri skynsemi, að leyfa þeim að melta sjálfum hvað er satt og hvað er ósatt og að þau opni ofninn þegar þau finna brunalykt, en treysti ekki í blindni á leiðbeiningarnar. 

Ég hef á seinni árum kallað mig trúboða, - en starf mitt hefur falist í því að boða fólki trú á sjálft sig, að virða sig, að treysta sér, að fyrirgefa sér og að elska sig, síðast en ekki síst og að elska sig er að taka ábyrgð á eigin lífi, heilsu, líðan, tilfinningum o.s.frv. 

"Guðir" nútímans (fólk) stendur stundum í veginum fyrir þessum Guði sem elskar skilyrðislaust, fyrirgefur skilyrðislaust - þeim Guði sem býr í hjarta hverrar manneskju, viskan sem hvíslar og stundum kallar en fær ekki áheyrn, því það má ekki hlusta. Beturvitrungarnir eru allt um kring.  Þessir með regluverkið á hreinu, og vita allt hvað er betra fyrir þig en þú og viskan í þinu eigin hjarta. 

Hver manneskja þarf að rifja upp eigin stórfengleika, muna hver hún er og ganga óhrædd til lífs og verka.  Tengjast sjálfri sér - og sinni innri rödd, og vera skaparinn sem hún er sköpuð til að vera. 

Að vera sköpuð í Guðs mynd hefur ekkert að gera með útlit - heldur allt með hið innra.  Við erum skaparar, að eigin veröld.  Þess sterkari sem við verðum að því leyti þess minna skiptir hverju við mætum, - þá veljum viið ávallt það góða vegna þess að heilbrigð, almenn skynsemi - viskan er virk. 

 


Af hverju kunna sumir betur á takkana í stjórnborðinu okkar en aðrir? ...

Við getum verið mjög yfirveguð, öguð í framkomu og full af sjálfstrausti og haft góða stjórn á skapi okkar og tilfinningum, þar til .....   einhver ýtir á takkana okkar,  þessa viðkvæmu! 

Það er oft sama fólkið sem kann best á takkana okkar, og hver ætli það sé? - 

Yfirleitt eru það okkar nánustu, það er fjölskyldan - nú eða maki til margra ára. Af hverju er það? - spurði Oprah Winfrey Elisabeth Gilbert, rithöfund.  

Svarið var:  "Af því að þau komu þessum tökkum fyrir" -  Þau eru s.s. með meira próf á okkar stjórnborð, - og geta því auðveldlega hitt beint á rauðu takkana, þessa ofurviðkvæmu sem setja okkur út af laginu, - við missum "kúlið" og allt sem við lærðum á sjálfstyrkingar-eða meðvirkninámskeiðinu, öll vitneskjan hverfur eins og dögg fyrir sólu. Við bregðumst bara við, eins og ósjálfrátt í takt við takkana sem notaðir eru. 

Þetta fólk gerir það kannski ekki viljandi, en við erum s.s. ofurviðkvæm fyrir því. -  Við hleyptum þessu fólki inn, fyrst höfðum við ekki val, þ.e.a.s. gagnvart foreldrum og systkinum til dæmis, - þeims sem voru í lífi okkar sem börn.  Gætu líka verið fleiri í fjölskyldunni, og/eða kennarar.  Þau sem höfðu í raun "aðgang" að stjórnkerfi okkar. -  Svo á unglingsaldri, - þegar við förum að verða ástfangin og hleypum viljandi einhverjum inn, til að fikta í stjórnkerfinu, nú eða óviljandi,  við bara opnum hjartað því að það gerum við þegar við hleypum einhverjum að okkur.  

Stundum hitta ókunnir "óvart" á okkar viðkvæmustu takka, - eða það verður einhvers konar yfirfærsla frá þeim sem settu þá inn yfir á þetta ókunnuga fólk.  Við dettum í gírinn að vera eins og barnið, og upplifum viðbrögð barns við þessu fólki sem meiðir eða særir. 

Það er ábyrgðarhluti að koma inn í líf annars aðila og fara að "fikta" í hans eða hennar stjórnborði. -  Það má kannski segja að við séum að taka ákveðna takka úr sambandi, þegar við erum að "fyrirgefa" -  "sleppa tökunum" - og svoleiðis.   Við föttum oft ekki að það er fyrir okkur sjálf. - Við erum að aftengja til að aðrir hafi ekki stjórn á okkar lífi. - Það er nefnilega hægt, en bara ef VIÐ viljum það og föttum hvernig t.d. fyrirgefningin virkar. 

Málið er kannski að við verðum að skilja hvernig við virkum, - taka stjórn og hafa valdið. Ekki gera annað fólk að stjórnendum sem geta teygt höndina inn fyrir, - og "kabúmm" - sprengt okkur tilfinningalega. 

Það er erfiðast að eiga við takkana frá bernsku og svo úr löngum ástarsamböndum, því takkarnir eru oft orðnir vel fastir og vel "ígræddir" - þræðirnir margir. 

Nú fer í hönd mikil fjölskylduhátíð - það eru margir sem hlakka til, en sumir hreinlega kvíða fyrir að vera mikið með fjölskyldunni, því það rifjast oft upp samskiptin sem kannski voru ekki til fyrirmyndar. Einhver gerir lítið úr öðrum, ýtir á viðkvæma takka o.s.frv. -  

Munkur nokkur sagði: "Okkur ber að elska alla í þessum heimi, en sumt fólk er betra að elska úr fjarlægð." - 

Það er yndislegt að lifa berskjölduð og opin, í hamingjusömu sambandi við okkur sjálf og með þeim sem við getum treyst fyrir sjálfum okkur og "stjórnborðinu" okkar. - En það getur reynt á að vera í kringum þau sem misnota þessa opnun og einlægni, - sem brjóta á traustinu og ýta kannski ítrekað á okkar viðkvæmustu og aumustu takka, það er kannski þá sem við förum að reyna að læsa og loka, og ákveðum að hleypa engum að,  þegar við vitum ekki lengur hverjum er treystandi? - 

 


"Hver er tilgangur lífsins?"

Stórt er spurt enda lífið stórt.  Önnur spurning þessu nátengd: "Hver er ég?" - 

Þegar við ákveðum að keyra hringveginn i kringum landið er upphafsreitur "heima" og áfangastaður "heima" - er þá ekki tilgangslaust að fara af stað? - 

Hver er tilgangurinn með þessari ferð ef við endum á sama stað? -  

Því getur eflaust hver svarað fyrir sig, - en ég myndi keyra hringinn til að upplifa, til að skemmta mér, til að njóta, - og vissulega tæki ég áhættu eins og með því að keyra á þjóðveginum, þar eru alls konar slysagildrur. - En ég gerði það samt vegna þess að mig langaði í ferðalag, mæta öðru fólki o.fl. - kannski með einhverjum sem væri gaman að upplifa með, en það væri ekki aðalatriðið. -  

Í þessu ferðalagi lærum við örlítið meira um landið, við bætum því í reynslubankann að hafa farið hringinn. - Það gæti verið öðru vísi reynsla í annað sinn, - aðrar upplifanir og annað fólk sem við mætum.  Svo má fara stærri hring, þess vegna hringinn i´kringum jörðina! 

Í ferðalaginu og við reynsluna útvíkkum við sjóndeildarhringinn, við vöxum og þroskumst. Þegar fólk ferðast á sjó þá "sjóast" það! 

Nú komum við aftur að spurningunni "Hver er ég?"  Ég er sú eða sá sem geng til. Ég er "tilgangarinn" -  og í raun erum við alltaf að ganga heim til okkar.  Upphafsreiturinn er heima og áfangastaðurinn er heima.  Við breytumst í raun ekki neitt, en við þroskumst og menntumst í gegnum lífsgönguna.  Mismikið þó, eftir "ævintýrunum" sem við mætum. 

Tilgangurinn og "tilgangarinn"  erum við sjálf.  Tilgangur lífsins er upplifun.  Við þurfum ekki alltaf að vera á ferðalagi - til að upplifa, - það er hægt að upplifa við lestur bóka, við hugleiðslu, við samskipti o.s.frv.  Við kyrrsetu líkamans en ferðalag hugans.  Það er hægt að upplifa í kyrrðinni.   Við leggjum af stað en við komum alltaf heim - í lokin. 

Við (mannfólkið) erum leið heimsins til að þekkja sjálfan sig. - 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband