Færsluflokkur: Lífstíll
26.6.2011 | 07:37
Sérarnir, samfélagið og grjótkastið
Ein af leiðunum til að þagga niður í gagnrýnisröddum er að leita fanga í setningum Biblíunnar, eins og smáfuglar AMX gerir hér og segja; "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum"..
Eins og við vitum er enginn maður syndlaus.
Þýðir það þá að við eigum aldrei að segja meiningu okkar, gagnrýna það sem okkur finnst miður eða óska eftir breytingum. Erum við þá bara alltaf vondu gaurarnir í grjótkastinu?
Í textanum sem vitnað er í úr Biblíunni segir:
"Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?
En hún sagði: Enginn, herra.
Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jh. 8.2-11)
Konan er ekki sakfelld af Jesú, frekar en af fólkinu sem hafði gagnrýnt - en hann býður henni að fara....
Við erum því skv. þessum biblíutexta ekki að setja okkur í dómarasæti, þó við segjum okkar meiningu, upplýsum um afstöðu okkar.
Það er talað um að umræðan hafi farið á lágt plan, hún hefur gert það LÍKA, en það má ekki einblína á það, því að margir hafa sett fram ígrundaðar skoðanir á málum, sem eru fjarri því steinkast eins og áður hefur komið fram.
Eins og áður er tekið fram, er ekkert okkar syndlaust, en við verðum, þrátt fyrir það að hafa rödd, hafa leyfi til að gagnrýna og setja fram skoðanir.
Varla myndi nokkur samþykkja að Lúther hafi kastað steinum til að koma á siðbótinni...
Vörumst áframhaldandi þöggun.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.6.2011 | 17:01
Í tilefni Kvenréttindadagsins 19. júní
19. júní er hátíðisdagur þar sem þvi er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi kosningarétt til Alþingis þegar konungur samþykkti nýja stjórnarskrá.
Konur hafa lengi verið tengdar við efni og karlar anda, og kemur skýrast fram í skiptingunni "Móðir jörð" "Faðir Himinn" .. eða faðir sem er á himnum. Hið kvenlega hefur verið hið holdlega og karllega hið andlega.
Allir gera sér þó eflaust grein fyrir eitt virkar ekki án hins. Líkaminn einn og sér er ófullkominn án anda og andinn er ófullkominn án líkama og jafnvægið á milli er það sem skiftir máli. Þess vegna skiptir svo miklu máli að virkja hið kvenlega, kvenleg gildi til jafns við karllæg gildi.
Karlar og konur eiga ekki að keppa sín á milli, heldur að hreyfa samfélagið jafnt með karlmennsku og kvenmennsku. Íslenskir feður vilja alveg örugglega sjá dætur sínar hafa sama rétt, sömu laun fyrir sömu vinnu og að þær séu virtar að verðleikum, ekkert síður en synir þeirra.
Við erum bara með svo gamalgróna heimsmynd, sem við erum hægt og rólega að vinna á, og bæði kalar og konur eiga oft erfitt með að venja sig við nýja tíma. Nýlega var keypt grill í vinnunni hjá mér, og þar starfa karlar í minnihluta. Samt kom ung samstarfskona hlaupandi til að athuga hvort að einn karlmaðurinn gæti ekki örugglega grillað pylsurnar. Annað svona dæmi kom upp í Hagaskóla þegar að kona gekk að mér og karlkyns samstarfsélaga mínum og sagði; "æ, þú ert karl getur þú ekki lagað faxtækið fyrir mig?" Til að gera langa sögu stutt, tók ég að mér bæði verkin. Í fyrra dæminu var karlinn bara of upptekin, en ég ekki og það þarf ekki karlmann til að grilla pylsur, eða hvað sem er. Í hinu síðara, þá hef ég mikla reynslu af skrifstofustörfum og tækjum, þannig að ég kom faxinu í gang með smá fiffi.
Við verðum að kveikja á perunni konur, - og líka átta okkur á því að við getum skipt um hana sjálfar.
"Þori ég, get ég, vil ég, - já, ég þori get og vil.
Við eigum ekki að hætta að gera hlutina fyrir hvert annað, dekra við hvert annað og hella í bikar hvers annars. En ekki láta eins og við getum ekki einföldustu hluti "bara af því við erum ekki karl" ..
Upphafning andans hefur verið ríkjandi, og lítið gert úr líkamanum. Honum byrjað eitur (reykingar, dóp, transfita o.s.frv.), brenndur í sól, ofnýttur til vinnu, niðurlægður ef hann er ekki með rétta "lúkkið" - misnotaður á alla mögulega vegu, - af okkur sjálfum. Það er ekki útlitsdýrkun, heldur virðing gagnvart þessum líkama, þessu eina farartæki sem okkur er úthlutað og á að endast út lífið.
Á sama hátt og við misvirðum líkamann misvirðum við móður Jörð, það er svo sannarlega gott að rækta hana, og nýta það sem við þurfum, en við göngum oft býsna illa og óþarflega um hana.
Eftirfarandi Móðurbæn kemur úr gömlu handriti sem var upphaflega á arameísku, svokallað kryptískt guðspjall. Ólafur Ragnarsson (Í Hvarfi) fékk þetta handrit frá líbanskri konu fyrir um 20 árum og heillaðist af því en þar voru tvær bænir, bæði faðir vor og móðir vor.
Þetta varð til þess að hann þýddi handritið og gaf út undir heitinu "Friðarboðskapur Jesú Krists" en í dag eru þessi handrit gefin út sem "Friðarboðskapur Essena" þetta var um 1990.
Helsta útbreiðsla bænarinnar er á ábyrgð hljómsveitarinnar Sigur-Rós VON... þeir heilluðust af móðurbæninni og hún varð textinn af laginu "Hún Jörð"...
Móðir vor sem ert á jörðu,
Heilagt veri nafn þitt.
Komi ríki þitt,
og veri vilji þinn framkvæmdur í oss,
eins og hann er í þér.
Eins og þú
sendir hvern dag þína engla,
sendu þá einnig til oss.
Fyrirgef oss vorar syndir,
eins og vér bætum fyrir
allar vorar syndir gagnvart þér.
Og leið oss eigi til sjúkleika,
heldur fær oss frá öllu illu,
því þín er jörðin
Líkaminn og heilsan.
Amen
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.6.2011 | 08:17
YOU ARE LOVED ..
Í bloggfærslunni hér á undan þar sem fjallað var m.a. um sjálfstraust, skrifaði ég þessa stuttu setningu - You are loved - til að skýra mál mitt - þ.e.a.s. að elskan væri í raun grunnur sjálfstrausts, en ekki það sem mölur og ryð geta grandað, titlar, útlit o.s.frv., allt annað - það sem kemur að utan, hversu fræg við erum og slíkt, er ekki trygging fyrir sjálfstrausti, því það er eitthvað sem eyðist og hverfur.
You are loved
- og það hittir í mark, enda getur elskan ekki geigað nema að sá sem hún er ætluð forði sér eða skýli hjarta sínu.
Við þurfum nefnilega öll að vita að við séum elskuð, og ekki bara vita, heldur trúa því.
Þú ert elskaður
Þú ert elskuð
Það sem er þó mikilvægast að trúa er að við séum okkar eigin elsku verð.
Kærleiksboðorðið virka í báðar áttir;
Elskaðu aðra eins og þú elskar þig - Elskaðu þig eins og þú elskar aðra
Sýndu sjálfri/sjálfum þér virðingu.
Við göngum oft býsna nærri okkur sjálfum, sýnum okkur ekki þá tillitssemi sem við oft á tíðum sýnum öðrum. Bjóðum okkur upp á hluti sem við myndum ekki bjóða neinum öðrum. Erum næstum dónaleg við okkur sjálf.
Í leit okkar að elsku og viðurkenningu förum við stundum yfir mörk þess boðlega fyrir okkur sjálf.
Við erum alltaf að lenda í þessu, að yfir okkur sé gengið að einhver tali niður til okkar, að okkur sé sýnd óvirðing. Þá fer það eftir viðhorfi okkar til sjálfra okkar hvernig við tökum því. Hvort við kokgelypum eins og fiskur sem gleypir agn, eða hvort við sendum það til föðurhúsanna, annað hvort í huganum eða við tölum upp, eða stígum út úr aðstæðum á annan hátt.
Ef við elskum okkur ekki nógu mikið eða gerum okkur grein fyrir verðmæti okkar þá látum við það líðast að aðrir nái að fara undir skinnið okkar og stjórna, við gefum út leyfisbréf og látum þetta jafnvel brjóta okkur niður.
En þegar við gerum okkur grein fyrir að elskan er fyrir hendi, hún hefur alltaf verið fyrir hendi - hún er hluti af þér og kemur frá hjarta þínu, þá getur þú farið að slaka á, þú átt allt gott skilið.
You are loved - Love is you
Quench my thirst, keep me alive
Just need one sip, baby, love is you
Love is you, love is you, love is you, love is you
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2011 | 07:04
"Ferðalagið frá Guði" ..
Nú fer ég að verða þreytt á þessum líkamsáróðri og verðmætamati út frá áferð húðar, nagla, litarháttar o.s.frv.
Appelsínuhúð eða ekki appelsínuhúð - Sarah Jessica Parker getur varla átt sjö dagana sæla ef hennar gildi eða verðmæti er metið út frá lærunum á henni?
Vel getur verið að hún sé farin að vega og meta sig út frá því sjálf.
Þar sem líkaminn er farartæki okkar, er mikilvægt að huga að honum, fara vel með hann svo að allt virki og við komumst sem flestar "mílur" á honum. Í því felst að sjálfsögðu að þrífa og bóna, en mikilvægast af öllu er að þykja vænt um hann hvernig sem hann er, því að hann gengur bæði fyrir andlegu og líkamlegu bensíni.
Ef það að vera ekki með appelsínuhúð er til að byggja einhvers konar traust fyrir manneskjuna er það ekki sjálfstraust, heldur einhvers konar annað-traust. Eða eins og Pia Mellody höfundur bókarinnar "FACING CODEPENDENCE" kallar það Other-esteem.
Fólk sem byggir á Other-esteem byggir á utanaðkomandi hlutum eins og;
Hvernig það lítur út
Hversu hár launaseðill þeirra er
Hverja þeir þekkja
Á bílnum þeirra
Hversu vel börnin standa sig
Hversu áhrifaríkur, mikilvægur eða aðlaðandi maki þeirra er
Gráðurnar sem þeir hafa unnið sér inn (Bjarnfreðarson með fimm háskólagráður)
Hversu vel þeim gengur í lífinu þar sem öðrum þykir þau framúrskarandi
Að fá ánægju út úr þessu, eða fullnægju er í fínu lagi, en það er EKKI sjálfstraust.
Þetta Other-esteem er byggt á gjörðum, skoðunum eða gjörðum annars fólks.
Vandamálið er að uppruni þessa Other er utan sjálfsins og því viðkvæmt vegna þess að það er eitthvað sem við getum ekki stjórnað. Það er hægt að missa þessa utanaðkomandi hluti hvenær sem er, og því án okkar stjórnar og óáreiðanlegt - ekki gott að byggja sjálfstraust á einhverju sem getur horfið eða eyðst.
Útlit okkar gerir það óumflýjanlega. Kjarni okkar er sá sami hvort sem við erum ung eða gömul, með gervineglur, botox, silikon, diplomur úr háskóla o.s.frv. Hann er alltaf sá sami og nærist á því að við sættumst við okkur, þekkjum og elskum okkur.
Sjálfstraust okkar á ekki að byggjast á hversu vel barni okkar gengur í skóla, eða hvort að því gengur illa í lífinu. Það er það sem flokkast undir Other.
Ef við lærum að við erum verðmæt og góð sköpun, hvernig sem við lítum út, hvernig sem börnum okkar farnast, þá náum við að hlúa að sjálfstrausti okkar og þá hætta utanaðkomandi öfl að þeyta okkur fram og til baka eins og laufblöðum í vindi.
Þá náum við stjórn á okkur. Þannig virkar sjálfstraustið.
Ef við látum umhverfið hafa svona mikil áhrif erum við meðvirk, og við erum það flest. Það er ekkert til að skammast sín fyrir og reyndar eigum við að skammast okkar sem minnst, heldur hleypa tilfinningunum i þann farveg að vera meðvituð.
Ef við gerum okkur grein fyrir því að það sem Sigga systir sagði í gær hafði svona neikvæð áhrif á okkur, eða það sem Óli bróðir sagði hafði svona góð áhrif kom okkur upp í skýin erum við meðvirk.
Við látum umhverfið stjórna því hvort við erum glöð eða sorgmædd.
Ég fór út í meðvirknivinnu vegna þess að ég var eins og laufblað í vindi, lifði til að þóknast. En þegar upp var staðið var það til að þóknast öllum öðrum en sjálfri mér.
"Hvað skyldi þessi segja ef ég .... " Ætli þessi verði ánægð ef ég ... " "Ég get ekki verið hamingjusöm nema þessi og þessi séu það líka.... "
Hvað græðir barn í Biafra á því að lítil stelpa á Íslandi klári matinn sinn?
Já, við lærðum þetta í bernsku.
Við þorum ekki að vera glöð vegna þess að einhverjum öðrum líður illa, - eða hefur það ekki eins gott, hvað hjálpar það þeim?
Að vilja gera lífið betra og setja lóð á vogarskálar hamingjunnar, byrjar hjá okkur. Við erum dropar í þessum hamingjusjó og ef við ætlum að gera gagn og bæta sjóinn þá skulum við huga að okkar sjálfstrausti, okkar innra manni sem er verðmæt manneskja - hvað sem á dynur.
Verðmæti okkar rýrnar aldrei.
Sem fyrirmyndir þá höfum þetta í huga, börn þessa heims vilja sjá þig með gott sjálfstraust - elsku mamma, elsku pabbi, elsku afi, elsku amma, elsku frænka, elsku frændi.
Sjálfstraust er það mikilvægasta sem fólk hefur í lífsgöngunni, því með gott og heilbrigt sjálfstraust getur þú gengið án þess að láta kasta þér til fram og til baka, án þess að láta einelti hafa áhrif á þig. Án þess að gleypa agn veiðimannsins sem vill veiða þig á beitu og láta þig engjast á önglinum.
Dæmi um slíkt er þegar einhver þarna úti pirrar þig og þú færð hann eða hana á heilann og þá ert það ekki þú sem ert við stjórnvölinn í þínu lífi lengur, heldur sá eða sú sem þú vilt síst að sé það.
Upphaf færslu minnar er því meðvirkni, ég læt umræðuna stjórna líðan minni, EN með því að skrifa þennan pistil gerði ég mér grein fyrir því. ...
Meðvitund er það sem þarf og það þarf. Sjálfsskoðun, sjálfsþekkingu og sjálfsfrelsun.
Frelsun frá því að finnast það sem öðrum finnst.
Þegar þú veist hvað ÞÉR finnst, já þér og engum öðrum, um sjálfa/n þig, þegar þú ert farin/n að samþykkja þig og þínar skoðanir, standa með sjálfri/sjálfum þér þá ertu farinn að uppgötva sjálfstraustið þitt.
Geneen Roth segir frá því sem Súfistarnir kalla "Ferðalagið frá Guði" ..
"Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr - er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum."
Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.
(Steingrímur Thorsteinsson)
Bottom læn: mér koma lærin á Söruh Jessicu Parker (eða einhverjum öðrum) andsk... ekkert við
![]() |
Sarah Jessica Parker er ekki með appelsínuhúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
8.6.2011 | 23:20
Lífsgangan, endurvakin hugvekja frá 2009
Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft hvernig við komandi lifði lífinu, og í jarðarförinni er farið yfir lífsgönguna. Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn hungrað lífdaga?
Einu sinn skrifaði ég um menntaveginn sem væri genginn eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum ca. fyrirfram hvað á að taka langan tíma.
Ekki komast allir á leiðarenda, heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meir og falla fyrir eigin hendi. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu, sér engan tilgang að halda áfram.
Það sem dregur helst úr mér er illskan. Illskan, hatrið og óttinn sem þrífst í heiminum og á minni göngu herjar það á mig sem illviðri eða mótvindur. Ofbeldi, grimmd, mannvonska í allri mynd. Engin illska er þó verri en sú sem bitnar á börnum.
Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og væntanlega þinn, í lifsgöngunni? Það er elskan - það er að vera vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri láta gott af sér leiða og elska því betra.
Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla hjarta sitt af elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.
Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.
Gildin eru einmitt ást, heilindi, hugrekki, traust, virðing og vinátta - þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri. Leyfa þeim líka að kenna okkur.
Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung - hvorki líkamlega né andlega. Við megum ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg. Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins - njóta þess að vera þar sem við erum, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú.
Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska - elska sig og elska aðra.
Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður - og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða.
Allt sem við vökvum dafnar og þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, trúna, hugrekkið og vökva elskuna.
Sendum fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar, sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við okkar áhyggjur í viðkomandi sem við höfum áhyggjur af. Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka til viðkomandi.
Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni, kannski bara í kvöld - tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir hversdaginn, þökkum það sem við venjulega tökum sem sjálfsögðum hlut. "Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" ..
Gott nesti í formi næringar er grundvallarelement fyrir heilsusamlegri lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar; líkamanum - og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum - en vissulega verður þetta tvennt að fara saman, á lífsgöngunni.
Síðast en ekki síst, er mikilvægt að minnast á samferðafólkið í lífsgöngunni. Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt og mikilvægt sem ég kynnist, allir hafa eitthvað að gefa. Sumt fólk er fyrirmyndir af því sem ég vil vera og annað fólk að því sem ég vil ekki vera.
Þau sem gefa elsku, styrk og gleði eru bestu fyrirmyndirnar og þeim kýs ég að vera samferða.
Við höfum val!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2011 | 07:16
"- Sorg indeholder glæden ved at have kendt til kærlighed."
"- Sorg indeholder glæden ved at have kendt til kærlighed."
Ég er áskrifandi af hópi á Facebook sem gengur undir heitinu "KÆRLIGHÆD" .. sem er auðvitað kærleikur eða ÁST.
Danirnir minntu mig á það í morgun að til að sorgin inniheldur gleðina við að hafa þekkt ástina. Það er af sama meiði og það sem sr. Sigfinnur Þorleifsson, sjúkrahúsprestur kenndi í sálgæslukúrsi; "Gleðin og sorgin eru systur" ...
Sorg vegna trúnaðarbests er flókin sorg, því hún innifelur fleiri tegundir tilfinninga; vantraust, höfnun, doða, reiði, depurð, vonbrigði og s.frv.
Það er okkur eðlislægt að byggja upp varnir eftir að hafa gengið í gegnum slíka sorg. Við setjum upp varnarveggi bak og fyrir því við ætlum sko ekki að lenda í þessu aftur! ..
Sumir upplifa þennan trúnaðarbrest við dauðsfall, trúnaðarbrest Guðs, trúnaðarbrest lífsins, samfélagsins, eða hreinlega trúnaðarbrest þess sem dó. Jafnvel trúnaðarbrest kærleikans eða ástarinnar.
Við eigum erfitt með að treysta og það sem verra er; erfitt með að hleypa að tilfinningunni: ÁST.
Sá eini eða sú eina sem getur læknað brotið hjarta ert þú sjálf/ur. Þú getur horft til annarra sem fyrirmynda, hlustað á aðra, lært af öðrum, en þú verður að dansa sjálf/ur. Að ætlast til að aðrir komi inn í líf þitt og lækni hjartað er eins og að dansa sem tuskubrúða á tám annarra.
Trúnaðarbrestur er gífurlega alvarlegur fyrir þau sem hann upplifa.
Eina leiðin til að byggja upp hjarta þitt að nýju er að þiggja gjöf fyrirgefningarinnar; fyrirgefa höfnunina, fyrirgefa trúnaðarbrestinn.
Ef þú treystir þér ekki til þess að þiggja, að biðja Guð um milligöngu, því það sem er mikilvægast er að þú fáir hjarta þitt heilt að nýju, til að þú getir fellt múrana, stein fyrir stein, dag fyrir dag, til að hleypa ástinni og gleðinni að þér að nýju. Þannig verður upprisa þín.
Sorgin er ferli, ekki aðeins sorgarferli heldur þroskaferli. Þú endurfæðist með þroskaðri þig, með vitrari og dýpri þig, með þig sem getur lifað af heilu hjarta og ert tilbúin/n til að opna faðminn og taka því sem koma vill. Ekki loka á möguleika þína að taka á móti gleðinni, ástinni .... taka á móti lífinu og/eða taka á móti Guði ......... ekki loka á möguleikann að taka á móti ÞÉR.
Það er fleira sem berst mér á Facebook, en skilaboð frá grúppunni; "KÆRLIGHED" ..
Verð að koma að þessari dásamlegu mynd af eldri dótturdótturinni sem á einmitt heima í Danmörku að fóta sig á bleikum plastikskó! ... þessi mynd er líka KÆRLIGHED ..
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2011 | 07:47
Hvernig líður þér?
Þegar verið var að setja af stað kennslukönnun fyrir nemendur, einu sinni sem oftar, stakk ég upp á viðbótarspurningunni "hvernig líður þér í skólanum"..
Spurningin er gild hvar og hvenær sem er, og ekki síður mikilvæg en niðurstaða einkunna, upphæð á launaseðli, eða það sem við metum kannski oftar.
Það er holl spurning að spyrja sig; hvernig líður mér? Það er hluti af sjálfsþekkingunni, sem er grundvöllur fyrir því að lifa þokkalega hamingjusamlegu og meðvituðu lífi. Lífi þar sem við erum viðstödd en ekki fjarlæg. Lífi þar sem við njótum augnabliksins, en erum ekki stödd í fortíð, framtíð - einhvers staðar langt í burtu.
Margir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir líðan sinni og því þykir góð hugmynd að skrifa tilfinningadagbók, það þarf ekki að vera mikið, aðeins nokkur orð á morgnana og nokkur á kvöldin. Jafnvel bara eitt orð. Svo finnst sumum betra að teikna líðan sína.
Það má kannski nota svona tilfinningakalla;
Glöð/glaður, leið/ur, kvíiðin/n, hamingjusöm/samur, reið/ur, prirruð/aður ...
Ástæðan fyrir því að mörgum finnst erfitt að gera sér grein fyrir tilfinningum sínum er stundum sú að þeir hafa bælt þær inni, jafnvel allt frá æsku.
Ég gekk nýlega fram hjá föður og ungrar dóttur, dóttirin var grátandi og hann sagði "Þetta var ekkert svona vont" .. skilaboðin voru til barnsins; "ég veit betur hvernig þér líður" .. Hér er ekki um að ræða vondan pabba, og alls ekki. Þetta var sagt í góðri meiningu, - en hugleiðum hvort að svona viðbrögð geta haft varanleg áhrif.
"Hættu að gráta" .. hver hefur ekki fengið að heyra þetta í bernsku? Eða kannski var hlegið að áhyggjum barnsins? Þær ekki teknar alvarlega? Hvað fengu strákarnir að heyra? "Vertu ekki að grenja eins og stelpa"? .. Það var þó aðeins meiri sveigjanleiki fyrir stelpurnar - og augljóslega frekar samþykki fyrir því. Grátur er tjáningarmáti. Í upphafi einn sterkasti tjáningarmáti barnsins, svo fara orðin að koma, en barnið er ekkert endilega búið að læra að koma tilfinningum sínum í farveg orða og því grætur það. Það er þá sem er svo mikilvægt að við sem fullorðin hjálpum barninu að yrða tilfinninguna í staðinn fyrir að slökkva á henni eða hreint út sagt banna hana.
Kannski erum við ófær, vegna eigin bernsku?
Hvað ef að við sem fullorðnar manneskjur lýstum áhyggjum okkar og einhver gerði grín að þeim? Hvaða tilfinning poppar upp við það?
Börn eiga nefnilega rétt á sínum tilfinningum, og það verður að virða þær og ræða. Ef að barn háorgar út af litlu sári, getur vel verið að þar á bak við séu önnur sár. Sjálf eigum við það til að fá útrás yfir bíómyndum, fallegu lagi, jafnvel í jarðarför hjá fólki sem er okkur lítið tengt, - þá spretta upp okkar eigin sár og sorgir yfir einhverju eða einhverjum sem við söknum.
Við þurfum að hugsa okkur tvisvar um þegar við stöðvum tilfinningaflæði barna, spyrja þau reglulega hvernig þeim líður, leyfa þeim að gráta hjá okkur, og hugga þau með því að tala við þau og vera til staðar, veita þeim athygli. Athygli er í þessu lykilorð eins og í öllum samskiptum.
Ef að barn fær ekki jákvæða athygli leitar það eftir neikvæðri athygli, og við þekkjum flest hvað það getur verið erfitt að eiga við. Börn eiga rétt á útskýringum, ef við höfum ekki tíma til að sinna þeim þá að útskýra hvers vegna og hvað við erum að gera. Þau eru yfirleitt skynsöm.
Þegar ég segi frá þessu, þá er ég að tala út frá reynslu minni sem barns og sem uppalanda, en ég gerði auðvitað mistök eins og við mörg höfum gert. Við lærum af mistökunum og þess vegna miðla ég þeim áfram.
Íslendingar hafa oft verið taldir tilfinningalega lokaðir, og nú nýlega var tekið viðtal við konur af erlendu bergi brotnar og vandræði þeirra með að nálgast Íslendinga. Þær töluðu um að Íslendingar horfðust ekki í augu við þær fyrr en í glasi.
Hvað segir það okkur?
Þó að við höfum e.t.v. verið alin upp á þann máta að ekki var á okkur hlustað, tilfinningar ekki virtar, eða hlutirnir ekki útskýrðir - þó að við sem höfum nú þegar alið upp okkar börn höfum fallið í þann pakkann líka, þá hefur unga kynslóðin tækifæri til að vera opnari, hlusta á börnin - og við sem erum ömmur og afar, frænkur og frændur, vinir og vinkonur, getum lagt okkar af mörkum.
Tilfinning er orð sem er byggt á tveimur samsettum orðum Til og finn - Það snýst um að finna til í sjálfum sér, hvort sem það er að finna til gleði eða sorgar, en bæði sprettur frá sama kjarna. Þess vegna er mikilvægt að þekkja sig, til að þekkja tilfinningar sínar. Það er þess vegna sem við oft þurfum að grafa pinkulítið í okkur, stundum mikið, fella þá tilfinningamúra sem við e.t.v. höfum hlaðið utan um okkur, læra af fortíð þó við ætlum svo sannarlega ekki að dvelja í fortíð - heldur upplifa núna.
En svona í lokin; hvernig líður þér? ...
"Að elska og finna til" .. syngur Magni sem trúir á betra líf ..
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.6.2011 | 13:08
Minn kæri eiginmaður ..
Elsku vinur, elskhugi og ástin mín,
Mig langar að skrifa þér bréf svo þú þekkir vonir mínar og væntingar til þín, svo það komi þér ekki á óvart. Við konur erum svolítið þekktar fyrir að ætlast til að mennirnir okkar skilji hvað okkur langar, en hvernig eigið þið að geta það, ekki eruð þið konur!
Mig langar að biðja þig um eftirfarandi, og ég lofa að koma til móts við þig á sama hátt í einu og öllu;
- Færðu mér gjafir við og við, - ég veit þú lætur ekki blómasalana segja þér að gefa mér blóm á konudaginn, en ekki gleyma því sem þú sagðir þá; "Ég gef bara konunni minn blóm þegar mér sýnist".. og hvenær kemur þá þetta "mér sýnist?" Gjafirnar þurfa ekki að vera dýrar, aðeins gefnar af einlægni.
- Bjóddu mér á "deit" við og við. Við þurfum ekki að hætta að eiga okkar rómantísku "rendez-vous" þó við séum farin að búa saman.
- Komdu mér á óvart, með hlutum, uppákomum eða ferðum.
- Komdu við í vinnunni hjá mér með eina rós, eða einn koss.
- Nuddaðu á mér bakið og notaðu góðu ilmolíuna
- Sestu niður með mér og setjum niður framtíðarsýn
- Horfðu á grínmynd með mér og hlæjum saman
- Lestu upphátt fyrir mig á kvöldin uppí rúmi
- haltu partý með mér fyrir vini okkar
- bjóddu mér í gönguferð
- eldaðu fyrir mig góðan mat
- borðum saman við kertaljós
- tjáðu mér ást þína og þakklæti í orðum
- láttu renna í bað fyrir mig og kveiktu á reykelsi
- Segðu mér frá líðan þinni, vonum og væntingum
- berðu virðingu fyrir sjálfum þér og talaðu fallega um þig
- gráttu hjá mér
- hlæðu með mér
- treystu mér
- vertu mér trúr
- elskaðu mig
- elskumst
- veittu mér athygli ..
Það skal í restina tekið fram að ég á ekki eiginmann (í augnablikinu) , en ég skrifa þetta fyrir okkur öll sem ráð til að gefa okkur meira að maka okkar, fara ekki í þann gír að taka honum/henni sem sjálfsögðum "hlut" í lífi okkar sem ekki þarf að vökva, næra og rækta
..Samband er eins og jurt sem þarf að hlúa að til að það blómstri, það þarf ekki að taka allan listann, en kannski að hafa þetta í huga... hvað af þessu er ÞÉR mikilvægt, og að hafa í huga setninguna um að gera fyrir aðra það sem þú vilt að þeir geri fyrir þig, það er lykilsetning í öllum samskiptum hvort sem um hjónaband er að ræða eða mannleg samskipti almennt ..
Þú mátt alveg bæta við einhverju í athugasemdir, sem þú tekur gott ráð til að viðhalda kærleika og vináttu í sambandi ;-)
2.6.2011 | 21:44
"Without your body you are a no-body" .....
Umræðan um líkamann fer oft út í það að tala um útlit hans frá fagurfræðilegu sjónarhorni. Þar eru sett ákveðin viðmið, - viðmið sem tískumógúlar og fjölmiðlar ákvarða og eru breytileg frá einum tíma til annars.
Tískan hefur verið mun óvægari við konur í gegnum tíðina, enda konur oftar tengdari við holdið og karlar andann. Sbr. Faðir á himnum og Móður jörð.
Konur reiða sjálfsmynd sína frekar á útlitið en karlmenn, - og eru það að sjálfsögðu utanaðkomandi áhrif sem við tileinkum okkur.
Háhæluðu skórnir með mjóu tánni eru t.d. eitt dæmi um það. Ég sé karlmenn (svona karlmenn/karlmenn) ekki alveg í anda fara að ganga í svona óþægilegum skóm. Að vísu láta þeir sig hafa það að ganga með bindi, sem mörgum þeirra þykir býsna óþægilegur klæðnaður, en örugglega hátíð miðað við margan kvenskóinn. Margar konur ganga í svona skóm af fúsum og frjálsum vilja, - vegna þess að umhverfið segir að það sé fallegt, jafnvel þó þær kveljist og pínist og minnir þessi siður óþægilega á fótabindingar þær sem tíðkuðust í Kína.
En því miður eru þessi "fegurðar" viðmið ekki alltaf í tengslum við það sem er best fyrir líkamann, eða honum hollast. Stundum er tískan beinlínis skaðleg fyrir líkamann.
Hver einasta manneskja sem fæðist fær úthlutað einum líkama. Líkama sem þarf að endast í að meðaltali um 80-90 ár. Eitt farartæki sem flytur okkur í gegnum lífið. Við getum jafnvel hugsað um líkama okkar sem bílana okkar, þó sú líking nái aldrei að vera fullkomin, t.d. vegna þess að líkaminn hefur þann möguleika á að endurnýja sig að vissu marki.
Við fæðumst misjafnlega hraust og sum fæðast með ýmis frávik, - og þar grípur læknisfræðin inn í og/eða hjálpartækjum er beitt. Sumir lenda í slysum eða veikindum á lífsleiðinni sem verða til þess að farartækið virkar ekki eins og skyldi, og þá takmarkast ferð þeirra um lífið af því. Líkaminn er þó nauðsynlegur því að án líkamsstarfssemi virkum við ekki.
"Withouth your body you are a no-body" Að vera nobody er því að vera án líkama, en ekki að vera án vinnu, óþekktur, fátækur o.s.frv. .... Á meðan að líkaminn fúnkerar til að halda okkur á lífi erum við some-body!
En hér skal rætt um okkar ábyrgð og mikilvægi til að viðhalda þessu farartæki - þessu "boddíi,, fara vel með bílinn okkar, hvort sem hann er Volvo eða Benz, eða kannski Citroen? ..
Það vill þannig til að þegar við viðhöldum heilsu, þá vill útlitið fylgja í kjölfarið.
Það er mikilvægt að við smyrjum vélina, fylgjumst vel með öllum mælum, notum rétt og gott benzín eða olíu, setjum vatn á rúðupissið, skiptum um kerti o.s.frv.
Það er líka gott að hreinsa bílinn að innan og utan.
Við vitum alveg hvernig fer með bíla sem illa er hugsað um. Ef við förum ekki í olíuskipti, eða gleymum að fylla á nauðsynlega vökva er hætta á að við bræðum úr vélinni.
-----
Við þurfum að virða líkama okkar, fara vel með hann, strjúka honum og bóna svo hann endist okkur ævina á enda. Auðvitað stjórnum við ekki öllu hvað hann varðar, en viðhaldið skiptir býsna miklu máli og er á okkar ábyrgð.
Það er staðreynd að sumir fara betur með bílana sína en líkama sinn! ..
Hugsum aðeins um þetta, lítum inn á við og pælum í hvernig við förum með okkar líkama, og þá um leið heilsu andlega og líkamlega því allt er þetta samtengt.
Það er aldrei nógu oft tuggið í okkur að hreyfing er eitt besta vitamín fyrir líkama og sál, og grundvallaratriði að margra mati, sem hafa gengið í gegnum þunglyndi eða aðra óvægna sjúkdóma.
Hreyfing er besta forvörnin.
Í hvaða ástandi er þitt "farartæki"? - er eitthvað sem þú gætir gert til að hugsa betur um það?
Fátt er fegurra en vel með farin antik bifreið!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2011 | 11:25
Upp úr sófanum á uppstigningardegi - síðasta útkall ;-)
Góðan dag,
Ég hef nú stofnað hópinn "Eftirlegukindur" .. en hugmyndin er auðvitað sú að kalla út þá gönguhrólfa sem hafa aðallega stundað göngu heima í sófa. Langar að fara að hreyfa sig meira en vantar bara herslumuninn. Auðvitað eru allir velkomnir að ganga með, hvort sem þeir eru sprækir eða ekki. Nóg pláss og við gleðjumst yfir góðri samveru og útivist. Þetta er svona "ganga án aðgreiningar" - ;-)
Af einhverjum ástæðum hefur það orðið mitt hlutverk í lífinu að "smala" þeim sem ganga síðastir. Þannig var það þegar ég var aðstoðarskólastjóri, - þó að sjálfsögðu gerði ég mitt besta til að innblása þeim duglegu í brjóst. Það skemmtilega er að oft verða hinir síðustu fyrstir, með breyttu viðhorfi og dugnaði. Hér má sjá: Göngur með nemendum. Þetta var auðvitað ekki í verksviði aðstoðarskólastjóra og ekki greitt fyrir sérstaklega, og ekkier ég að hvetja til göngunnar í dag til að fá greiðslu.
Ég er að gera þetta fyrir mig! .. Því ég hef þörf fyrir að hreyfa mig og þörf fyrir að gefa af mér. Vona að þú nýtir þetta tækifæri til að koma með - gangan er það létt að börn geta gengið með, ca. frá 8 ára aldri, eða eftir hvað þau eru vön.
Plan:
Mæting kl. 14:00 við vörðu sem á stendur Reykjanesfólkvangur
Ekið frá Vífilstaðavegi inn á veg 410 (til hægri) sé komið Garðabæjarmegin. Beygt til vinstri upp Heiðmerkurveg 408 og ekið í ca. 5 mínútur - eða þar til malbik endar, þá er smá spölur og varðan birtist hægra megin við veginn. Hægt er að leggja bílum á litlu stæði vinstra megin við veginn, eða við kantinn
Hafið samband við mig í síma 895-6119 eða johanna.magnusdottir@gmail.com
Á facebook er kominn hópur sem þið getið líka tengst, þó þið komið ekki endilega í þessa göngu þá kannski næstu, sem verður rölt í kringum tjörnina í Reykjavík og e.t.v. kaffihús á eftir.
Hér er tengill á Facebook - vonandi virkar hann.
Langar svo í leiðinni að auglýsa helgarnámskeið á vegum Lausnarinnar, námskeið um meðvirkni og til að gera sér grein fyrir hvað meðvirkni er. Við erum öll að minna og meira leyti meðvirk, og því er svo mikið frelsi að læra hvað er meðvirkni og hvað er bara að vera góð/ur. Stundum höldum við að við séum að gera gott en erum í raun að ala á vondri hegðun.
En - bottom læn - endilega láttu sjá þig í göngu, "YOU ARE WANTED" ..
HREYFING ER GÓÐ FYRIR HEILSUNA, SÁL OG LÍKAMA SEM FÉLAGSLEGA HEILSU.
það þarf ekkert að melda sig, þrír hafa gert það nú þegar og ég fer ein ef enginn kemur.
Verð í góðum félagsskap, hvernig sem á það er litið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)