Sérarnir, samfélagið og grjótkastið

Ein af leiðunum til að þagga niður í gagnrýnisröddum er að leita fanga í  setningum Biblíunnar, eins og smáfuglar AMX gerir hér og segja;  "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum"..   

Eins og við vitum er enginn maður syndlaus. 

Þýðir það þá að við eigum aldrei að segja meiningu okkar, gagnrýna það sem okkur finnst miður eða óska eftir breytingum.  Erum við þá bara alltaf vondu gaurarnir í grjótkastinu? 

Í textanum sem vitnað er í úr Biblíunni segir:

"Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?

En hún sagði: Enginn, herra.   

Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jh. 8.2-11)

Konan er ekki sakfelld af  Jesú, frekar en af fólkinu sem hafði gagnrýnt - en hann býður henni að fara.... 

Við erum því skv. þessum biblíutexta ekki að setja okkur í dómarasæti, þó við segjum okkar meiningu,  upplýsum um afstöðu okkar.

Það er talað um að umræðan hafi farið á lágt plan, hún hefur gert það LÍKA, en það má ekki einblína á það, því að margir hafa sett fram ígrundaðar skoðanir á málum, sem eru fjarri því steinkast eins og áður hefur komið fram. 

Eins og áður er tekið fram, er ekkert okkar syndlaust, en við verðum, þrátt fyrir það að hafa rödd, hafa leyfi til að gagnrýna og setja fram skoðanir. 

Varla myndi nokkur samþykkja að Lúther hafi kastað steinum til að koma á siðbótinni...

Vörumst áframhaldandi þöggun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Þetta virðist hafa verið viðvarandi vandamál, Jóhanna, í okkar samfélagi sem öðrum.
Með ýmsu móti reyna valdhafar og stjórnendur á hinum ýmsu sviðum að leiða réttmæta gagnrýni hjá sér, sjálfum sér til framdráttar. Umræða á grunni framkominnar gagnrýni gæti nefnilega leitt til umtalsverðra breytinga á ríkjandi skipan á viðkomandi sviði og teflt stöðu stjórnendanna í tvísýnu. Flestum virðist nefnilega ekki síður annt um eiginn hag en hag skjólstæðinga sinna og þeirra sem þeim hefur verið falin forráð yfir. Eiginhagsmunir og sérhagsmunir vilja því þvælast fyrir því að almannahagsmunir eða hagur undirsátanna séu settir í öndvegi.

Menn leitast við að gera lítið úr framkominni gagnrýni með ýmsum "viðurkenndum" hætti eins og þú bendir á svo sem með því að bera fyrir sig viðurkenndan "sannleika", kenningum trúarlegrar orðræðu og tabúum.
"Sérarnir", eins og þú kallar einn hóp manna, tala t.d. um fyrirgefninguna og að fremur beri að "horfa til framtíðar" en að eltast við drauga fortíðar, þar með talið sökudólga í kynferðisofbeldismálum innan kirkju og ábyrgðamenn eftirlitsleysis á opinberum sviðum.
Stjórnmálamenn og þátttakendur í efnahagshruni landsins tala sömuleiðis um að meira máli skipti að bregðast við og gera sem best úr hlutunum til að byggja upp fyrir framtíðina en að eyða kröftum í að draga menn til ábyrgðar.
Meira að segja kjósendur kjósa "hrunráðherra" sína aftur á þing í kjölfarið; Svo mikil er firringin meðal þeirra.
Fræðimenn og embættismenn hins opinbera (með örfáum undantekningum) þegja þunnu hljóði og svara engu þegar almenningur reynir að hefja málefnalega umræðu við þá um þýðingarmikil málefni á döfinni hverju sinni. Má þar t.d. benda á "umræðuna" um hávaxtastefnu Seðlabankans, Icesave-málið og kvótamálið.
Alþingismenn, margir hverjir, svara gagnrýni hvers annars með skætingi og útúrsnúningum og halda sig þar með fjarri staðreyndum og málefnalegri rökræðu, enda kunna þeir margir lítil skil á slíku. Þar grasserar "Nei-Jú"-orðræða eins og hjá leikskólabörnum.

Það er að vísu rétt að mestu máli skiptir fyrir framvindu mála hverju sinni að horfa til framtíðar í ljósi núverandi staðreynda, en þar með veri ekki sagt að gleyma beri hinni siðferðislegu vídd og láta misindisverk eða alvarleg mistök gleymd og grafin þannig að þau geti endurtekið sig er minnst varir og jafnvel með sömu leikendum og áður, eða með samsvarandi hætti.
Ef almenningi er gert að horfa upp á slíkt er það ávísun á víxlverkandi siðspillingu. Síkt samfélag kúgandi þöggunar fær ekki staðist til lengdar. Dæmin um það blasa við: Nýlenduharðstjórnir, Sovétríkin, "kommúnisminn", kirkjuvald (þú nefndir siðbreytinguna á 16. öld í því sambandi) og harðstjórnarkúgarar í arabalöndunum í ár. 
Upplýstir þegnar sem kunna að lesa og skrifa og hafa mannlega réttlætiskennd ásamt óskum um betri lífskjör bregðast við um síðir sér og sínum til varnar.

Það er því betra að hlú að lýðræðislegri umræðu um daginn og veginn, ekki síst þjóðmálin og hvers kyns opinbera stjórnsýslu á hvaða vettvangi sem er, heldur en reyna að þagga niður í henni. Slík stefna ber í sér feigð þeirra sem það reyna.

Vörumst því "áframhaldandi þöggun", eins og Jóhanna hrópar í eyðimerkurþögninni.

Kristinn Snævar Jónsson, 26.6.2011 kl. 15:30

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Jóhanna. Oft hef ég séð skýrari boðskap frá þér en þennan. Þessi pistill er frekar dularfullur, allavega fyrir mig . Hverjir vilja kasta steinum en þora ekki vegna eigin synda? Prestar og biskup? Hverjum á að bjóða að fara? Biskupnum okkar núverandi? Án þess að dæma hann? Er það samt ekki dómur ef hann hleypur burt frá sínum störfum núna þegar skútan er að sökkva?

Þegar þú segir að ENGINN sé syndlaus? Hvaða syndir ertu að tala um? Dauðasyndirnar eða mannlega breyskleika sem mér finnst ekki vera synd?  

Annars er ég búin að fá nóg að heyra af konum sem einhverjir hafa reynt við. Sama virðist hafa verið með Jesu samkvæmt dæmisögunni. Hann virðist ekki kippa sér mikið upp við umrætt mál. Hvorki að stoppa það né halda því til streytu. Skrifar bara í sandinn

Það má nú á milli vera eða þöggun um óþverramál.

Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 26.6.2011 kl. 17:56

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kolbrún, - ég er að vísa í AMX og setti hlekk inn á þá síðu í greinina.  Þar er verið að fjalla um sr. Örn Bárð að hann sé óhæfur til að kasta steinum þar sem hann sé svo syndugur, reyndar gera þeir grín að honum og kalla hann "syndlausa" manninn.

Ég er þarna að taka dæmi um það að menn eru sagðir kasta steinum, þegar þeir eru að gagnrýna eða koma með sínar tillögur. 

Meira síðar: 

Jóhanna Magnúsdóttir, 26.6.2011 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband