Færsluflokkur: Lífstíll

Að elska, virða og treysta ...

Það sem hér er skrifað, er blanda af eigin pælingum auk innblásturs frá fyrirlestri Brian Tracy´s í Hörpunni í gær.  - Hann var frábær! .. 

Flestir sem giftast lofa að VIRÐA OG ELSKA maka sinn, auk þess að vera honum/henni TRÚR.

Þetta gera margir við hátíðlega og heilaga athöfn.  

Þegar litið er til baka, þá ættu allir að spyrja sig: "Hvenær hef ég lofað að virða og elska mig, og vera sjálfri/sjálfum mér trú? - hvað það að trúa á sjálfa/n mig og hæfileika mína? 

Vissulega eru loforðin gagnkvæm, - maki þinn hefur lofað þér að virða þig, elska og vera þér trúr.

Flestir sem hafa pælt eitthvað í samböndum, taka eftir því að einstaklingur sem ekki ber virðingu fyrir sjálfum elskar sig né hefur trú á sér, fær síður virðingu og elsku frá hinum aðilanum. 

Kannski er það í sumum tilfellum ástæðan fyrir bresti í hjónabandi, - skilaboðin frá makanum eru að hann sé ekki virðingar verður, traustsins verður né elskunnar verður.  Skilaboðin eða "leyfisbréfið": "gangtu á mér" - "notaðu mig" "ég skal þóknast þér"  "ég skal geðjast þér" .. verða ekki til þess að auka virðingu á milli fólks. 

Það er því eitt af grundvallaratriðum fyrir góðu gengi í hjónabandi að byrja á því að trúlofast sjálfum/sjálfri sér, áður en farið er í það að trúlofast eða heitbindast annarri manneskju. 

Hvort sem við erum nú þegar í hjónabandi, í sambandi við aðra manneskju, eða bara í sambandi við okkur sjálf - þá er mikilvægt að íhuga þetta.  Hversu trú erum við okkur sjálfum?  Hversu mikla sjálfsvirðingu sýnum við okkur og hversu mikla traust og elsku höfum við á sjálfum okkur? 

Lífsgæði okkar ráðast af því - þ.e.a.s. hversu mikla trú við höfum á sjálfum okkur (það er niðurstaða áratuga rannsókna skv. Brian Tracy). 

Munum að við "sjálf" erum líkami, sál og hugur.  Margir misbjóða sér, eða misvirða sig líkamlega, t.d. með því að hugsa illa um líkamann, vannæra eða misvirða með vondu mataræði, álagi o.fl. 

Við förum líka illa með okkur með því að tala illa um aðra, öfunda og rægja, því að veröldin er sem 360 gráðu spegill, svo að illt umtal um aðra endar alltaf sem skaðlegt fyrir okkur sjálf.  

Að sama skapi förum við illa með okkur með neikvæðu sjálfstali, niðurbroti, ótta og efasemdum um okkur sjálf. 

Af jákvæðni sprettur jákvæðni - af neikvæðni sprettur neikvæðni - af stríði sprettur stríð - af friði sprettur friður - af virðingu sprettur virðing - af elsku sprettur elska - af trú sprettur trú - af von sprettur von.   Ef til vill ná ekki öll fræin festu, en eftir því sem fleirum góðum fræjum er sáð er liklegra að uppskeran verði ríkulegri.  

Efasemdarfræ eru verstu fræin .. þau eru fræin sem stöðva þig í að ná árangri - 

"Happiness comes when you feel your self moving forward" ..   -"Nothing happens unless you move" .. Einstein 

 


Leyndarmálið á bak við lífshamingjuna - er að hafa ekki leyndarmál, lifa af heilu hjarta - sem er að segja hug sinn og sögu sína kinnroðalaust, - hætta að reyna að vera fullkomin/n

Brene Brown er rannsóknarprófessor í University of Houston Graduate College of Social Work. Hún hefur varið 10 árum í að rannsaka berskjöldun (vulnerability),  skömm,  áreiðanleika (authenticity) og hugrekki. Hún er höfundur bókarinnar "The Gifts of Imperfection."  

Eftirfarandi er þýðing (og smá útúrdúrar) á grein sem birtist á CNN "Want to be happy, stop trying to be perfect."  

Hún er þarna með "lykilinn" að lífshamingjunni - og efni hennar kallast algjörlega á við það sem við hjá Lausninni erum að vinna með í sambandi við meðvirkni, en sá sem er meðvirkur er einmitt alltaf með hausinn fullan af því "hvað aðrir eru að hugsa" og að geðjast umhverfinu svo að hann sé samþykktur. Sér ekki eigið verðmætamat, nema í gegnum aðra (einföldun). 

En eftirfarandi er "þýðing" - þetta er hraðsuða, en mér finnst þetta svo ótrúlega mikilvæg skilaboð og held að við værum svo mjög bætt ef að við færum að lifa í heimi án blekkinga og þykjustunnileikja. Fólk færi að þora að segja hlutina eins og þeir eru, en ekki lifa bak við grímur meira og minna allt lífið, þar sem það segir bara "allt ágætt" þrátt fyrir að vera e.t.v. í vanlíðan. 

En hér er heila klabbið: 

Mörg okkar hafa í gegnum árin rembst eins og rjúpan við staurinn við að vera fullkomin.  En undarlegt en satt, að aldrei virðist það nást og við erum orðin úrvinda, teygð og toguð að innan af skömm og vonbrigðum yfir því að ná ekki þessum meinta fullkomleika.


Við getum ekki slökkt á "röddinni" í hausnum, sem hljómar eitthvað á þessa leið "Þú ert aldrei nógu góð/ur"  - "Hvað skyldi fólk eiginlega halda?" ..


Hvers vegna, þegar við vitum að það er ekkert til sem heitir fullkomið, eyðum við svona miklum tíma og orku að vera og gera allt fyrir alla? Halda öllum ánægðum? -


Er það vegna þess að við erum svona hrifin af fullkomnun? - Öööö.. nei!
Staðreyndin er sú að við löðumst að fólki sem er raunverulegt og með báða fætur á jörðinni.  Við hrífumst af frumleika og dáumst að lífi sem er svolítil  óreiða og ófullkomið.


Við sogumst inn í fullkomleikann af einfaldri ástæðu:  Við teljum að fullkomleikinn muni vernda okkur.
Fullkomleiki er sú trú að ef við lifum fullkomin, lítum fullkomlega út, og hegðum okkur fullkomlega vel, getum við forðast eða gert sem minnst úr sársaukann við ásökun, áfellisdóm og skömm.
Við verðum öll að upplifa að við séum einhvers virði og tilheyrum einhverjum, og verðmæti okkar er í húfi þegar við erum aldrei nógu _____________ (þú getur fyllt í eyðuna: mjó, falleg, gáfuð, sérstök, hæfileikarík, dáð, vinsæl, upphafin).


Fullkomleiki er ekki það sama og reyna að gera okkar besta. Fullkomleiki er ekki um að ná heilbrigðum markmiðum og vexti;  hann er skjöldur.  Fullkomleiki er 20 tonna skjöldur, sem við dröslum með okkur, og ímyndum okkur að hann muni vernda okkur, þegar hann í raun er hluturinn sem hindrar okkur að vera séð og að ná flugi.


Þegar við búum í samfélagi þar sem yfir flæða óuppfyllanlegar væntingar í öllu mögulegu,  frá því hversu mörg kíló við eigum að vera til þess hversu oft í viku við eigum að stunda kynlíf, er ógnvekjandi að leggja frá sér varnarskjöldinn.  Að finna hugrekkið, ástríðuna og tenginguna við að flytja sig frá hugsuninni "Hvað ætli fólk hugsi"?  yfir í "Ég er nóg."  það er ekki auðvelt.  En hversu hrædd sem við erum við breytingar, kemur að því að við verðum að svara eftirfarandi:
Hvort er meiri áhætta?  Að sleppa því sem fólk hugsar - eða að sleppa því hvernig mér líður,  hvernig ég trúi, og hver ég er?


Hvernig búum við okkur undir hugrekki, ástríðu og tengingu sem við þurfum til að ná utan um okkar eigin ófullkomleika og að viðurkenna að við erum nóg - að við séum verðug ástar, að tilheyra og gleði?  Hvers vegna erum við öll svona hrædd við að láta hin sönnu okkur vera séð og þekkt. Hvers vegna erum við svona lömuð yfir því hvað aðrir hugsa um okkur?
Eftir áratuga rannsóknir Brene Brown á  berskjöldun, skömm, og áreiðanleika, hefur hún uppgötvað eftirfarandi:


Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega "víruð" til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.  
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar.


Í rannsóknarviðtölum sínum, komst hún að því að aðeins einn hlutur aðskildi konurnar og karlana sem upplifðu djúpstæðar tilfinningar ástar og þess að tilheyra frá þeim sem voru að berjast við það. Það var verðmætamat þeirra.  Það er eins flókið og einfalt og eftirfarandi:
Ef við viljum upplifa að fullu ást og það að tilheyra, verðum við að trúa að við séum verðug ástar og að tilheyra einhverjum.


Stærsta áskorunin fyrir okkur flest er að trúa að við séum verðug núna, á þessari mínútu.  Það eru engar forsendur fyrir verðmæti.


Mörg okkar hafa skapað lista fyrir forsendum verðmætis:

 

  • Ég verð vermæt/ur þegar ég hef misst 10 kíló
  • Ég verð verðmæt ef ég verð ófrísk
  • Ég verð verðmæt/ur ef ég verð/held mig edrú
  • Ég verð verðmæt/ur ef allir halda að ég sé gott foreldri
  • Ég er verðmæt/ur ef ég hangi áfram í þessu hjónabandi
  • Ég verð verðmæt ef ég næ í flottan maka
  • Ég verð verðmæt þegar foreldrar mínir samþykkja mig loksins
  • Ég verð verðmæt/ur þegar ég get gert allt, og það lítur út fyrir að ég sé ekki einu sinni að reyna


Hér er það sem er í raun kjarninn í því að lifa af heilu hjarta:

Verðmæt/ur núna. Ekki EF. Ekki ÞEGAR.  Þegar við erum verðug ástar og þess að tilheyra núna. Þessa mínútu. Eins og er.


Að sleppa forsendunum fyrir verðmæti þýðir að ganga hinn langa gang frá " Hvað heldur fólk?" til þess: "Ég er nóg."  En eins og öll mikil ferðalög,  hefst þessi ganga á einu skrefi, og þetta fyrsta skref í göngunni að heilu hjarta er að æfa sig í hugrekki.


Rót orðsins "courage" á ensku er er latneska orðið cor - fyrir hjarta.  Í fyrri tíma skilgreiningu hafði orðið "courage" aðra skilgreiningu en það hefur í dag.  Það hafði upprunalega þá þýðingu að segja hug sinn, með því að tala frá hjartanu.  Það stemmir ágætlega við íslenska orðið hugrekki, að segja hug sinn.


Í tímans rás hefur skilgreiningin breyst og í dag á hugrekki meira skylt við  hetjuskap.  Hetjuskapur er mikilvægur og við þurfum sannarlega á hetjum að halda, en Brene Brown telur að við höfum misst tenginguna við það að tala einlæglega og opinskátt um hver við erum, um tilfinningar okkar, og um reynslu okkar (góða og slæma) - það sem er skilgreining á hugrekki.


Hetjuskapur er oft um það að leggja lífið að veði.  Hugrekki er um að leggja berskjöldun okkar að veði - að fella varnir okkar. Ef við viljum lifa og elska af heilu hjarta og taka þátt í tilverunni þar sem við erum verðmæt, af sjónaróli verðugleikans, er fyrsta skrefið að æfa hugrekkið að vera saga okkar (skammast okkar ekki fyrir líf okkar) og segja sannleikann um það hver við erum.  Meira hugrekki er ekki hægt að hugsa sér."

---

"SANNLEIKURINN MUN GJÖRA YÐUR FRJÁLS" .. 

grima.jpg


Jantelagen - Janteloven í gildi á Íslandi?

Janteloven er orð  ættað úr skrifum Aksel Sandemose's 1933 ‘En flygtning krydser sit spor' (A Fugitive Crosses His Tracks)  sem er sviðsett í tilbúna bænum Jante í Danmörku.

Í hinum ímyndaða smábæ í Jante eru óformleg, en þrúgandi lög sem banna hverjum og einum að standa upp úr þvögunni.  

Janteloven

1. Þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað sérstök/sérstakur.

2. Þú skalt ekki halda að þú sért eins góð/ur og við. 

3. Þú skalt ekki halda að þú sért vitrari en við.

4. Þú skalt ekki hrífast meira af sjálfum/sjálfri þér en við. 

5. Þú skalt ekki halda að þú kunnir meira en við.

6. Þú skalt ekki halda að þú sért okkur meiri.

7. Þú skalt ekki halda að þú sért einhvers virði.

8. Þú skalt eigi hlægja að okkur.

9. Þú skalt ekki halda að einhvern varði um þig.

10. Þú skalt eigi halda að þú getir kennt okkur eitt eða neitt. 

11. Þú skalt eigi halda að það sé ekki eitthvað sem við vitum um þig. 

Þeir sem viðhalda lögunum eru að sjálfsögðu sama fólkið og er kúgað af þeim, borgararnir í Jante. Sandemosa sagði það vera í menningu Skandinava að halda hvert öðru niðri. 

Hvað með okkur Íslendinga? 

Könnumst við við þetta?

Hægt að lesa um þetta á Wikipedia


SKORTDÝR? .....


Ég man hvar ég heyrði þetta orð fyrst, en man ekki hvort það var Guðni Gunnarsson, lífsráðgjafi eða Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur sem sagði það á undan. Ég hlustaði á þá báða í Listhúsinu  Engjateigi, af sitt hvoru tilefninu.  þar sem nú eru Rope-Yogastöðin og veitingahúsið Gló. Ég held þeir noti það báðir.

Yfirlýsingin var eitthvað á þennan veg "Maðurinn er skortdýr" -

Það þarf ekki ríkt hugmyndaflug til að átta sig á hvað liggur þar á bak við.

Mér finnst gaman að hlust á heimsmyndarpælingar þessarra manna og mér finnst líka gaman að hlusta á Brene Brown. Reyndar Eckhart Tolle, Paul McGee, Stephen Fry,  Geneen Roth,  Carl Sagan (heitinn) og svo má lengi telja. 

Reyndar hefur heimsmynd mín mótast af fleiri hlutum en spekingum sem heyrist hæst í, - það er líka í umgengni við fólk, umgengni við gamla fólkið, börnin, unglinga, fjölskylduna, vini ... og mest hef ég lært af börnum, - og þá eru ekki börnin mín undanskilin (og barnabörn)  og af samskiptunum við þau. 

Það dásamlega er að fólk er yfirleitt að segja sama hlutinn en er með ólíkar nálganir. Yfirleitt má líka finna þetta sama hjá heimspekingum sem voru uppi fyrir þúsundum ára, og margt af þessu er í Biblíunni. 

Það hljómar einhvern veginn svona, svo dæmi séu tekin: 

"Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum, morgundagurinn hefur sínar áhyggjur" ..

"Etið, drekkið og verið glöð" .. 

Í fyrirlestri Brene Brown, sem er bandarískur Doktor, sem hefur lagst í miklar rannsóknir á mannlegu eðli og samskiptunum sérstaklega með orðin "Shame" og "Vulnerability" eða skömm og berskjöldun,  í huga,  talar hún um þarfalista (Want-list) og svo gleðilista (Joy-list) og skoðar þar muninn á. 

Þegar við erum að gera okkur óskalista yfir hvað okkur vantar/þörfnumst. það er smá munur þar á en oft óljós því hann getur verið afstæður miðað við hugarfar okkar,  í hvaða menningu við búum og á hvaða tímaskeiði. 

Við getum hugsað til þarfapíramída Maslows, sem er í raun umdeildur.  En grunnþarfirnar þar eru líkamlegar, þ.e.a.s. að fá næringu og að geta losað sig við úrgang. 

Auðvitað er erfitt að sinna nokkrum hlut glorhungraður og hrikalega mál á klósettið! - En þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Ég ætla ekki að fara út í rökræður um það hér, en þessi píramídi er um margt deilanlegur og kannski ekki alveg rétt að setja upp píramída, heldur einhvers konar flæði, - andlegar þarfir til jafns við líkamlegar? - 

Ástæðan: Jú, við erum ekki aðskilin: líkami, hugur og sál er allt eitt. 

 tharfapyramidi.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En komum aftur að listunum okkar tveimur: 

Ef þú myndir setjast niður og hugsa þér hvað þig langar í til að gera þig hamingjusama/n?

---- gerðu lista í huganum, því engir tveir listar eru alveg eins þó sumir séu líkir eftir því hvar og hvenær við erum stödd í lífinu. 

Ef þú myndir síðan búa til "Gleðilista" .. það er að segja að hugsa til baka og hugsa: "Á hvaða stundum lífs míns hef ég verið hamingjusömust/hamingjusamastur?" ..  Hvað hefur glatt mig mest? 

Ég get alveg deilt með ykkur mínum upplifunum;  Þær tengjast allar góðum stundum, góðum tíma með vinum og/eða fjölskyldu. 

Notalegum kvöldstundum þar sem við sitjum og spilum og leikum (mér finnst svakalega gaman að spila borðspil.)  Notalegum stundum með ástvini, sitja saman, kúra og gæla. 

Samveru vinkvenna eða systra þar sem við röbbum, göngum og gerum eitthvað saman.

Samveru með fólkinu í kvikmyndaklúbbnum mínum... 

Skemmtilegum kaffihléum í vinnunni, þar sem fólk grætur af hlátir yfir ótrúlega fyndnum frásögum hinna. 

Upplifun á aðfangadagskvöldi, með þeim sem mér þykir vænt um - þegar sest er niður við matarborðið klukkan sex og allt er klárt, - það er að vísu svolítið ljúfsárt .. 

Kvöldverður við kertaljós,  við tvö saman..

Gönguferð og kelerí í grasinu ... 

------

Þær tengjast útivist, gönguferðum, samveru með fólki, faðmlögum  ...  nánd

Vegna þess að lífið er dscn1537.jpgekki svart/hvítt eða einfalt,  þá blandast auðvitað efnislegir  hlutir inn í gleðilistann, - auðvitað finnst okkur flestum gaman að eiga fallega hluti og föt, fallegt hús o.s.frv. og langar oft til að eiga slíkt.

En eins og þegar Palli var einn í heiminum, þá myndum við fljótt finna að það er einskis að njóta ef ekki er neinn til að njóta með. 

 

Ef við værum ein alla ævina, þá myndum við ekki njóta þess að ganga í dýrustu fötum heimsins, eiga fallegast húsið og keyra um á flottasta bílnum.  Við myndum njóta þess í svakalega stuttan tíma a.m.k. 

Það sem skiptir máli er því nándin, samskiptin við annað fólk.  Samskipti eru flæði milli manna, og góð samskipti byggjast að sjálfsögðu á Þér, þ.e.a.s. að þú getir gefið og þegið.  Þess vegna er þessi mikla áhersla á sjálfsþekkingu, sjálfstraust, og sjálfsmyndaruppbyggingu.

Einangrun, aðgreining og einmanaleiki eru stóru vandamálin - og vond samskipti, enda eru þau upphafið að ófriði og stríði.

Fátt er eins vont og að eiga ekki einhvern að.  

Það er gott að draga sig í hlé við og við, í fullvissunni um að þarna úti sé einhver sem þyki vænt um okkur og sem okkur þykir vænt um.  En það er örugglega vont að vera ein/n á báti.

"Maður er manns gaman" ....  

Við getum vel verið ein um stund, og það getur verið hollt og gott,   en þegar á reynir og teygist á,  verðum við svolítið eins og Palli, sem var einn í heiminum; okkur skortir samskipti við annað fólk. 

Öll þurfum við athygli, heyra og vera heyrð, sjá og vera séð, snerta og vera snert. 

Það eru margir einangraðir eða einmana, - jafnvel þó þeir séu ekki einir. Kannski vegna þess að þá skortir jafningja til að deila með stundum og eiga í andlegum og/eða líkamlegum samskiptum við. 

Sem betur fer er fólk farið að þora að viðurkenna þetta, - það er fyrsta skrefið að breytingu.

Það er ekkert að því að þrá eðlileg samskipti, athygli, hlustun, að vera séð og snert. 

Brene Brown talar um orðin skömm og berskjöldun, - og mikilvægi þess að lifa af heilu hjarta. 

Þegar við viðurkennum að okkur skortir nándina, þá erum við að fella varnir, fella grímur og við erum að viðurkenna að við skömmumst okkar ekkert fyrir það.  Það er allt of mikill feluleikur í gangi og óheiðarleiki, sem sýnir sig m.a. í því að pör/hjón tala ekki saman og annað er farið að leita út fyrir ramma hjónabandsins til að uppfylla þarfir fyrir athygli, snertingu, hlustun, snertingu. 

(En það er efni í annan pistil) ... 

Látum TOMMY eiga síðasta/síðustu orðin:  

 

 

 


Nýr heimur - nýtt Ísland - og (ný/r) ÞÚ sem ert VONIN

Eftirfarandi hef ég birt áður á Pressunni, - en mig langar að dreifa þessum pistli víðar því ég tel hann eiga erindi til allra, og sérstaklega til ÞÍN. 

Á fleiri en einum fyrirlestri í gegnum tíðina, hef ég hlustað á fólk tjá sig um mikilvægi þess að hafa stefnu í lífinu, - að hafa framtíðarsýn.
 
 "Ef við höfum enga stefnu,  stefnum við ekkert."  (sagði leiðbeinandinn á Dale Carnegie námskeiðinu).  
 
Við höfum nú mörg lært þann bitra lærdóm að leyndarmál og lygar hafa einkennt líf margs fólks og fyrirtækja, sum okkar eru búin að uppgötva það, önnur ekki. Það má líka kalla það að lifa í blekkingu.

 grima.jpg

 
Ég ætlaði að láta pistilinn heita leyndarmál og lygar, en mundi eftir þessu gullvæga:
 
 "Það sem þú veitir athygli vex" svo ég ákvað að hafa jákvæða fyrirsögn.
 
En hvernig er upplýstur heimur?  Til að öðlast upplýstan heim þurfum við að leita þekkingar.  
 
En hvað þarf ég, borgin, landið, heimsálfan, heimurinn allur, að gera til að breytast og verða að nýjum og upplýstum heimi,  heimi sem lifir með vitund, heimi sem lifir í þekkingu?
 
Við hér á Íslandi erum búin að vera býsna dugleg við að funda, meira að segja þjóðfunda, og finna okkur vörður og gildi, og þar koma upp orð eins og heiðarleiki, jafnrétti og gagnsæi, hófsemd gægðist þar líka fram, en kannski af full mikilli hófsemi.
 
Framtíðarsýnin er því byrjuð að mótast, og auðvitað byrjum við, hvert og eitt að byrja á okkur, því að við ætlum sjálf að vera breytingin, og ýta svo við öðrum með fyrirmynd okkar og þannig fellur domino blekkingarinnar.
 
Við þurfum að hætta að hugsa "mind your own business" en í staðinn hugsa "your business is my business"  - Við þurfum að þora að skipta okkur af,  því að afskiptaleysi getur verið lífshættulegt.
 
Hér er ég ekki að tala um neikvæða afskiptasemi, heldur að láta okkur náungann varða, svipað og við gerum í eineltismálum.  
 
Það er ekki einungis siðferðileg skylda okkar. Það er einnig lagaleg skylda að láta vita ef okkur grunar að illa sé farið með barn og það er lagaleg skylda yfirvalda að sinna því.  Mjög sorglegt dæmi var nýlega leitt fram í dagsljóið í nágrannalandi okkar, Danmörku, þar sem börnum var misþyrmt af sjúkum foreldrum, og því var leyft að viðgangst í mörg ár.  
 
Við þurfum svo sem ekkert að leita út fyrir landsteinana, því að í nýútkominni skýrslu Unicef kemur í ljós að íslensk börn verða fyrir miklu ofbeldi.
 
Þegar við skiptum okkur af, eða látum vita af misgjörðum þá eru oft þeir til sem fara að benda á þann sem bendir og vinna gegn honum og jafnvel ásaka hann um slæman eða eigingjarnan ásetning.
 
Þess vegna þorir fólk stundum ekki að standa upp og láta vita. Nýlegt dæmi eru málin innan kirkjunnar. Sumt fólk sem þar hefur staðið upp til að styðja fórnarlömb embættismanna stofnunarinnar og gagnrýnt "mistökin" sem þar hafa átt sér stað, hefur
fengið orð í eyra og verið ásakað um valdabaráttu, að vera með vesen eða eitthvað álíka.  
 
Þegar  ég hef verið með vindinn í fangið, þá hefur mér reynst vel að biðja Guð um leiðsögn, og ekki hefur veitt af.  "Leið mig Guð, eftir þínu réttlæti" - er ágæt "mantra" til að þylja fyrir sér, auk orðanna úr 23. Davíðssálmi - "Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér".. 


Það þarf nefnilega hugrekki og óttaleysi til.

Fyrir mér er hugtakið "Guð" hið víða alheimshugtak, ekki gamall hvíthærður karl. Það er hægt að skipta því út fyrir "Lífið" eða "Elskuna" ... og svo "Guð í sjálfum þér".. eins og segir í ljóðinu.  Það er nefnilega ekki síður mikilvægt að leiða sjálfan sig og standa með sjálfum sér.  Fyrir mér er það sami hlutur og að standa með Guði. 

 
Hin neikvæða gagnrýni á þá sem vilja vinna með réttlætinu er þó sem betur fer undantekning, og kemur yfirleitt frá þeim sem hafa eitthvað að fela, eða vilja setja fólk í lið eða fylkingar.  Raunin er að ég er ekki í neinu "liði" og set fram gagnrýni út frá því - og ég tel okkur jarðarbúa vera eitt lið!  
 
Pólitíkin er sér kapituli - hér verður ekki farið út í hana og hún getur reynst víðsjárverður forarpyttur. Menn nýta sér hana bæði til góðs og ills. Pólitík getur orðið til ofsókna og menn kalla stundum réttlátar ábendingar pólitískar ofsóknir.  
 
Að krefjast þess að fólk taki ábyrgð á gjörðum sínum, að krefjast réttlætis og benda á það sem betur má fara og að valdhafar axli ábyrgð,  er ekki það sama að vilja hengja einhvern eða skjóta.
 
Það eru oft rök hinna röklausu.  
 
Auðvitað þurfa þau sem berjast gegn óréttlæti alltaf að byrja heima, stöðva, íhuga og koma svo fram af heilu hjarta.  Þau sem fara af stað til að rífa niður blekkingarvef, vita að ef það er ekki gert af heilindum munu þau sjálf festast í vefnum.
 
Hvað gerist þegar við tökum blekkingarvefinn niður?  Hvað sjáum við betur?
 
Það þarf að hætta að vera með leynd hvað atvinnu varðar, launaleynd á ekki að vera hluti af nýjum og betri heimi, skýrslur fyrirtækja um hagnað eiga að liggja fyrir og annað slíkt á að vera opinbert.  Nýr heimur er sýnilegur heimur, hann er ekki "undir borðið" heimur með sínum leyndarmálum, óheiðarleika og lygum.
 
Óhreinu börnin hennar Evu koma úr felum og við bjóðum þau velkomin og bjóðum þeim að fara í bað, fæðum þau og klæðum.
 
Hættum að lifa bak við grímur, komum til dyranna eins og við erum klædd, verum óhrædd við að vera við sjálf.  
 
Leyndarmál ala á skömm, stundum erum við að skammast okkar fyrir eitthvað sem er alls ekki okkar skömm, en hvort sem það er okkar skömm eða annarra þá er betra að leggja hana í ljósið og fá þannig fyrirgefninguna.
 
Hið sígræna barrtré sem þiggur næringu úr jarðveginum,  fær súrefni úr andrúmsloftinu, er baðað af dropum himins og geislum sólarinnar er örugglega hamingjusamara (ef hægt er að tala um hamingjusöm tré) en það sem hefur verið hoggið, sett í fót inn í hús og skreytt með ljósum og skrauti.
 
Fegurðin liggur í okkar innra manni, en ekki í hinu sem kemur utan frá sem á að láta okkur líta betur út, en er í raun bara blekking.
 
Fegurðin liggur í því að vera.
 
Framtíðarsýnin er því grímulaus heimur, heimur án blekkingar og yfirborðsmennsku. Án hindrana,  fáfræði og fordóma.  Upplýstur heimur.  Það getur stungið í augun til að byrja með og verið óþægilegt, en yfirleitt er hægt að venjast birtunni og tröllin verða að steini.
 
Ljósið er ekki eingöngu við enda gangnanna.  
 
Þú ert ljósið og þú ert vonin. 


SKILNAÐUR EÐA DAUÐI ...

Ég biðst afsökunar á kannski próvókerandi titli en vonandi hefur hann náð að fanga athygli þína.

Við Kjartan Pálmason verðum með námskeiðið "Lausn eftir skilnað"  nk. laugardag og það hafa nokkrar konur forfallast á síðustu stundu og okkur langar að sem flestar (já flestar, þetta er bara kvennanámskeið í þetta sinn - en karlmenn mega gjarnan senda mér póst johanna@lausnin.is ef þeir hafa áhuga) - konur fái að njóta því námskeiðið verður örugglega uppbyggilegt og lærdómsríkt! 

Kjartan mun flytja fyrirlestur "Þitt innra verðmætamat" fjallar m.a. um áhrif meðvirkni á sambönd og mikilvægi þess að fara ekki ítrekað inn í svipað eða sama samskiptamynstur. (Það er nú alveg þess virði að hlusta (horfa) á Kjartan! Wink .. 

Sjálf mun ég flytja fyrirlestur um sorgarferli sem þroskaferli, - en sorgarferli eftir skilnað er oft mjög "vanmetið" í samfélaginu.  Á sama hátt og fólk upplifir allt litróf tilfinninganna við dauðsfall, gera margir það einnig við skilnað.  Ofan á bætist stundum mikil höfnunartilfinning í bland við reiði. 

Fátítt er að einhver komi færandi hendi með blóm og samúðarkort eftir skilnað, og kveðjuathöfnin er yfirleitt ekki til staðar.  Edda Björgvins orðaði þetta á sinn tragíkómíska hátt að eftir skilnað væri maður alltaf að "mæta líkinu"... 

Ekki er ég nú að gera lítið úr dauðsfalli maka, - en að missa maka í skilnaði getur haft svipuð áhrif, sérsaklega eftir langt samband,  en samfélagið er oft ekki að átta sig á því hversu mikil áhrif. 

En kæra kona, hvort sem það er liðin vika eða mörg ár frá skilnaði, ef þú hefur ekki kvatt fyrra samband, unnið með sjálfa þig eða búin að trúlofast sjálfri þér - þá endilega komdu með! 

Verði er stillt í hóf og hægt að semja um að skipta greiðslum.  Skráning og nánari upplýsingar HÉR. 

red_rose_flowers.jpgRós fyrir þig mín kæra - ég elska sjálf að fá rósir en fæ þær því miður allt of sjaldan! 

("hint" "hint") 


...been married 45yrs...you don't need to applaud that, I didn't say happily married... #dollyparton

Þetta er skráð á vegg Fésbókarinnar hjá vini mínum sem er þessa stundina á tónleikum með Dolly Parton.  Það vantar ekki húmorinn í hana! LoL ....

Sumir þrauka 45 ár, - en galdurinn að farsæld hlýtur að vera gagnkvæm virðing, sem felst í því að hvor aðilinn fyrir sig virði líka sjálfan sig. 

Það er staðreynd að stundum beitir fólk ómeðvitað ofbeldi. Konur og karlar nota þó ólíka aðferðafræði. 

MIKLU algengara er að horfa til karlsins sem "ofbeldismannsins" bæði í líkamlegu og andlegu ofbeldi. 

En ofbeldi kvenna er lúmskara. 

Eftir því sem ég kafa dýpra í hugmyndina um meðvirkni, um sjálfsþekkinguna og sjálfstraustið sé ég skýrar hversu mikilvægt það er að horfa inn á við.

Í sumum tilfellum erum við eins og (lélegir)  hljóðfæraleikarar sem kennum hljóðfærinu um þegar við sláum á vitlausa  strengi, þegar vandamálið er að í raun vantar okkur meiri æfingu og/eða kunnáttu!

Flest fólk sem segist hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi, er í raun að beita eigin tilfinningar ofbeldi og er að nota þær til stjórnsemi (manipulation) sem verður til þess að skemma sambönd.  

Ha?

Jú, þetta er hegðun sem þú e.t.v. hefur lært frá fyrirmyndunum; foreldri eða foreldrum þínum í uppvextinum, og þú þarft ekki að skammast þín fyrir - ekki NEMA að þú haldir áfram eftir að þú áttar þig á því að hegðunin er skaðleg samböndum/sambandi þínu og skaðar einnig aðra. Aldrei of seint að læra!

Það sem verið er að segja með þessu er að margar konar álíta tilfinnar sínar vera verkfæri sem þær geta notað til að fá ummönnun eða viðbrögð frá öðrum.

"Ég er svo hrikalega leið - en ef þú elskar mig ættir þú að reyna að gera mig glaðari ... "

"Ég er svo reið - svo er þú elskar mig, ættir þú að leyfa mér að stjórna..."

"Ég er svo kvíðin - svo ef Þú elskar mig, ættir þú að sjá um mig" ...

Í öllum framangreindum tilfellum er það konan: "Ég" sem amar eitthvað að, en ég ætlast til að fá lagfæringu í gegnum þig, þú átt að "bjarga" mér!   Þú átt að skemmta mér, - þú átt að leyfa mér að ráðskast með allt og þú ættir að sjá um að ég sé örugg.  

Ef ég er ekki glöð, ef ég fæ ekki að ráða öllu og ef þú reddar ekki öllu sem veldur mér áhyggjum,  þá getur varla verið að þú elskir mig - eða hvað?

Þetta er í raun andlegt - eða tilfinningalegt - ofbeldi, vegna þess að manneskjan sem er að reyna að beita þessu er í raun að misbjóða eigin tilfinningum með því að beita þeim ranglega.

Tilfinningar eru í raun innri skilaboð um að það sé eitthvað ástand í lífin þínu sem gæti þurft óskipta athygli þína.

Manneskja með tilfinningagreind/ er tilfinningalega þroskuð,  ætti að greina skilaboðin og finna lausn innra með sér og þannig endurheimta andlegt jafnvægi,  án þess að þurfa að sækja það annað - þ.e.a.s. til að gera hana glaðari,  leyfa henni að ráða eða passa upp á hana að öðru leyti, og síðan finna út úr því hvaða skilaboð þessar tilfinningar eru að gefa, og hvað þurfi að gera í því


Bottom Line - þegar við lesum setningu eins og þessa í fyrirsögn bloggsins,  hjá Dolly Parton, - þá dettur mörgum í hug að það að hún hafi ekki endilega verið "happily married" sé kallinum hennar að kenna! .. En kannski ætti Dolly að líta í sinn eigin barm?

--- 

Ath! þetta eru allt pælingar "á jaðrinum" .. sumt sem ég hef lesið og annað sem ég hef breytt og bætt, man ekki hvar ... 


Við upphaf nýs skólaárs - nokkrar góðar lífsreglur ;-)

Ágæta fólk, það sem hér kemur á eftir eru ráð frá mér sem móður, ömmu, fv. aðstoðarskólastjóra og eftirlitskonu með fimmtán ára nemendum í Hagaskóla sl. vetur. 

Hvað þurfa börnin? 

Að sjálfsögðu þurfa börnin/unglingarnir ást og kærleika, umhyggju, hlustun, skilning, nærveru - samveru o.s.frv. 

En hér eru svona "basic" ráð sem ég hef lært í gegnum unglingana sjálfa: 

1) Það þarf að hafa skýr mörk og reglur og jafnvel búa þær til með börnunum/unglingum og fara eftir þeim!  Í því felst t.d. að fara eftir útivistartíma sem lögreglan setur og annað slíkt.  Mörk með tölvunotkun, og foreldrar þurfa að vera samstíga, en ekki brjóta reglur hins. 

2) Það þarf reglusemi, þ.e.a.s. hafa kvöldmat þar sem allir sitja saman í fjölskyldunni við MATARBORÐ og helst að ræða daginn hjá hverjum og einum.  Gera kvöldmatarstundina að gæðastund, en ekki að allir sitji með sinn disk fyrir framan tölvu eða sjónvarp.  Undantekningu má að sjálfsögðu gera um helgar, þegar það er pizza kvöld eða hvað sem fjölskyldan tekur sér fyrir hendur. 

3) Þó það sé oft hávaðasamt þá bjóðið börnum/unglingum að taka vini sína heim. Ekki úthýsa þeim, því þá kynnist þið þeim sem þeir eru að umgangast.  Vitið hverjir eru vinir þeirra og hvernig þeir koma fram.  Kannski getið þið sest niður með þeim og heyrt þeirra áhugamál. Eftir 10 bekkjarpróf hjá börnunum mínum, fengu þau að bjóða vinum sínum heim í heitan pott og ég útbjó fyrir þau pizzabrauð og færði þeim kók í pottinn. Þeim þótti þetta æðislegt!  Þessir krakkar voru ekki að pæla í að "detta í það" því allt sem þau þurftu í raun, var aðstaða og félagsskapur hvers annars. 

4) Sinnið áhugamálum barna ykkar, mætið þar sem þau eru í íþróttum eða hverju sem er, líka í skólanum.  Því betur sem þið eruð tengd því meira vitið þið hvað þau eru að gera og þau vilja líka að þið vitið það (þó þau þykist ekki vilja það).  Þetta snýst um að hafa áhuga á því sem börnin eru að gera. 

5) Verið góðar fyrirmyndir, - farið í léttar fjallgöngur saman, sund, skíði, skauta, hjóla, út að ganga, kallið stórfjölskylduna saman í gönguferðir.  Drekkið ekki áfengi óhóflega fyrir framan börnin, og helst ekki að reykja.  Ekki vera alltaf að tala um megrun, illa um innflytjendur o.s.frv.  Börnin eru þerripappír á lífstíl foreldra og samræður og þau spegla það.  Það skiptir engu máli hvað við segjum ef það er ekki í takt við það sem við gerum. 

6) Hafið bara eitt sjónvarp, ekki láta börnin horfa á sjónvarp í sínu herbergi og forðist rafmagnstæki í svefniherbergjum.  Allt sem einangrar fjölskyldumeðlimi í sitt hvert hornið er slæmt.  Samvera fyrir framan sjónvarp er betri en engin samvera. Leyfið börnunum/unglingunum að velja mynd og horfið á með þeim og jafnvel ræðið myndina.  

... Það má eflaust bæta fleiru við hér - ég veit að enginn (eða fæstir) geta lifað fullkomlega eftir þessu, en vandamálið er að fleiri og fleiri unglingar eru að falla út úr skólakerfinu, þau tína sér í tölvuleikjum (og við fullorðna fólkið á Facebook eða annað) fara allt of seint að sofa, fá of litla hreyfingu og verða því oft þung í skólanum.  Þetta vindur upp á sig og endar oft með ósköpum.  

Ég man hvað mínum krökkum þótti gaman að spila, - fyrst einföld spil, en síðan manna, kana, o.fl. það eru til skemmtileg spil eins og Fimbulfamb, heilaspuni, Trivial Pursuit o.fl.  

Við erum ekki á góðri leið, þegar tölvurnar eru að taka yfir heimilislífið ... höfum það í huga, öll - foreldrar, ömmur, afar, frænkur, frændur.  Við deilum öll ábyrgð á unga fólkinu og við þurfum aðeins að fara að líta hvert við stefnum.  

Stefnum að sameiningu en ekki sundrungu. 

Heart


Að elska sig niður eða upp í kjörþyngd ... að borða með meðvitund.

Að elska sig upp og niður .. þetta hljómaði fyrst eins og kynlífslýsing Smile ..... þess vegna bætti ég við - "að borða með meðvitund! .. 

Hvað þýðir orðið kjör-þyngd?  Það er læknisfræðilegt hugtak (held ég) fyrir þá vigt sem okkur er heilbrigðast að vera.  Það eru ekki aðeins lífslíkur okkar sem aukast heldur líka lífsgæði, ef við erum í kjörþyngd.

Manneskja í kjörþyngd getur þó bæði verið í góðu og slæmu formi, svo að kílóin skipta ekki öllu máli þó þau skipti máli. 

Það sem við þurfum öll að byrja á að gera er að elska okkur NÚNA eins og við erum, elska okkar innri mann - hvort sem við erum of feit eða grönn (og það gildir að sjálfsögðu líka um þá sem eru nú þegar í kjörþyngd). 

Það er síðan með elskunni til okkar sjálfra, og við erum líkami, hugur og sál, sem við förum að fara vel með okkur og misbjóða okkur ekki með slæmu mataræði og því sem gerir okkur illt. 

Með elsku og með vitund getum við tekið skref fyrir skref í átt að þessari blessuðu kjörþyng og í átt að betra dagsformi. 

Þegar okkur líður betur í kroppnum líður okkur betur í sálinni - og öfugt. 

Munum bara að við erum ekki sykurfíkn okkar eða önnur fíkn. Við erum heilagar manneskjur, sál, líkami og hugur og höfum allan rétt á að lifa hamingjusömu lífi, gefa kærleika og þiggja kærleika, líka okkar eigin. 

Nokkrar góðar ráðleggingar varðandi hvað kærleikurinn myndi segja við þig ef þú ætlaðir að borða með meðvitund: 

1. Njóttu þess að borða 

2. Borðaðu þar til þú ert södd/saddur (hættu þá) 

3. Borðaðu þegar þú ert svöng/svangur  (ekki svelta þig) 

4. Borðaðu með virðingu, helst við matarborð - ekki fyrir framan sjónvarpið (nema kannski á kósýkvöldum á föstudögum eða við aðrar svonleiðis undantekningar).  Ekki heldur narta í afganga við uppvaskið, eða stinga upp í þig bita þegar þú ert að útbúa mat fyrir börn.  Ekki koma sjö sinnum við hjá súkkulaðikökunni og skera þér flís í hvert skipt (það er dæmi um pjúra meðvitundarleysi). 

5. Borðaðu það sem þú veist að er líkamanum gott og hollt, og þú veist að þú færð ekki vindverki eða þyngsli af. 

6. Þú skalt eiga fullt af góðum mat heima, hnetum, fræum, grænmeti, ávöxtum, korni, grófu brauði, fisk, kjöti, eggjum .. allt svona "beint frá bónda" og sem minnst unnið.  Það er þumalfingursregla að því minna unnið því betra. (Sleppa kjötfarsi og pylsum).  Frekar að borða smjör en gervismjör og sem er "líki" ..  

Muna svo að hreyfing þarf ekki að eiga sér stað í líkamsræktarsal.  Hún getur falist í að elta börnin, fara í sund, á fjöll, í göngutúr (þó það sé ekki nema 10 mínútur á dag) kynlífi, dansi, húla, sippó ... 

Muna bara að grunnurinn að þessu öllu er að elska sig núna (right this moment), svo kemur hitt allt á eftir!  Kærleikurinn til okkar sjálfra á ekki að miðast út frá tölu á vigt, "aha" núna má ég fara að elska mig og þykja vænt um mig.... 

Útivera er góð, - við erum heppin á Íslandi að eiga ferskt loft og nóg af vatni -  tengingin við náttúruna og aðrar manneskjur er okkur nauðsynleg, við erum efnafræðilega tengd jörðinni og líffræðilega tengd öllum öðrum manneskjum ... 

p.s. Þeir/þær sem vilja fá fyrirlestur um þetta og eftirfylgni, þá verð ég með námskeið í haust sem verður auglýst fljótlega á heimasíðu Lausnarinnar - smellið hér. 

 

 


Stundum ofvökvum við börnin okkar ...

Ísak Máni, sjö ára dóttursonur minn sem flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni fyrir tveimur árum,  fékk plöntu í kveðjugjöf frá leikskólanum sínum á Íslandi. Plantan hafði dafnað þokkalega þangað til í vor að hún fór að gefa eftir, hvert laufblaðið féll af öðru.

Mamma hans setti plöntuna út á stétt með þeim orðum að kannski þyrfti hún meiri sól og súrefni. 

Ísak Máni horfði sorgmæddur á plöntuna sína og stökk síðan inn og náði í fulla könnu af vatni og fór að vökva. Plantan var nú fullvökvuð, en ekkert gerðist! .. Hann sótti því meira vatn og vökvaði enn meira og vatnið fór að leka upp úr pottinum. Hann var óþolinmóður og skildi ekkert í því að plantan brást ekki við öllu þessu vatni. 

Börn eru stundum eins og plöntur, - þau þurfa birtu, næringu og súrefni - og auðvitað vatn. En eins og plantan þola þau ekki of mikið vatn, þá er hætta á að þeim sé drekkt í atlæti og þau nái sér ekki upp af sjálfsdáðum. 

Við mömmur erum stundum sagðar "of góðar" og með því er meint að við gerum of mikið fyrir börnin okkar,  setjum þeim ekki nógu skýr mörk og látum þau komast upp með hluti sem þau ættu ekki að komast upp með.  Okkur þykir "of vænt" um þau, til að banna, aftra eða hemja þau í því sem þau oft vilja gera. 

Að sjálfsögðu eru sumir pabbar svona líka, - og sumar mömmur ekki svona. Það er breytilegt. En foreldrar allir eiga það til að ofvökva börnin sín, og það er þeim ekki til góðs. 

Þannig verðum við meðvirk í vondum siðum, ýtum undir galla í stað kosta. 

Markalaus börn verða oft leiðinleg í umgengni út á við, gengur verr í skóla og eiga erfiðara með að taka reglum samfélagsins, því að þau hafa ekki lært þær heima. 

Markalaus má kannski segja að sé svipað og agalaus, - það þarf að setja mörk, þarf að hafa reglur. Börn kunna ekki að setja sér þær sjálf, og við þurfum ekki að vera "vond" til að setja reglur eða beita aga, - það er aftur á móti akkúrat öfugt,  þannig erum við góð og þannig erum við að gefa börnum okkar gott uppeldi sem hjálpar þeim að takast á við lífið. 

 

Mátti til með að setja þessa mynd hér með, þar sem mörk varðandi tölvunotkun er að verða eitt stærsta málið milli foreldra og barna, eða unglinga aðallega. Auðvitað verðum við að vera fyrirmynd þar sem í öðru, þýðir lítið að segja eitt og gera annað. Smile .. 

funny-computer-addiction.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

p.s. það þarf varla að taka það fram - að það má heldur ekki gleyma að vökva og vera "of þurr á manninn" ... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband