Færsluflokkur: Lífstíll

Að velja úr 500 manna lista - er það raunhæft?

Ég starfaði einu sinni við það að selja legsteina,  fólk kom í sakleysi sínu inn og ætlaði að velja legstein, svartan, rauðan eða hvítan kannski.  Málið var þó ekki svo einfalt, hægt var að velja grástein, blágrýti, granít, marmara, líparít, gabbró ..  og ekki nóg með það,  það var hægt að velja alls konar útlit, lögun, mikið unna og lítið unna steina.  Svo þegar fólk var búið að svitna yfir steininum og komast að niðurstöðu,  kom nýtt val, það að velja letur á steinana og þar á eftir grafskriftina.  

Sumir áttu ekki erfitt með þetta, en margir fórnuðu höndum og sögðu; "ég vildi óska að það væri bara um tvær tegundir steina að velja á milli."  

Þar sem ég þekkti þetta vandamál, þá bauðst ég oft til að aðstoða fólk við að velja stein, letur og svo framvegis.  Það var að sjálfsögðu líka starf mitt sem sölumanneskju líka.

Ég nota þetta legsteina dæmi bara vegna þess að það er úr mínum persónulega reynslubanka.

Það er fleira sem við lendum í að velja úr;

Þegar ég var ung og þurfti að fá mér síma, hringdi ég í Landsímann og pantaði síma. Fékk, að mig minnir, símtæki hjá þeim.  Í dag er hægt að velja um símafyrirtæki,  alls konar greiðslumöguleika, alls konar síma o.s.frv.  

Ég er eflaust svo gamaldags að ég vil bara síma sem er hægt að hringja úr.  Þarf ekki að hafa myndavél, útvarp eða vöfflujárn í símanum mínum ;-)

Úrvalið af öllu hefur aukist og valið er sett á okkar herðar.  

Ef við höfum úr of miklu að velja þá hefur það stundum þannig áhrif að við hreinlega lömumst og veljum ekkert!

Tilfinningin fer að vera eins og þegar við eigum óleyst heimaverkefni í skólanum og þau eru svo yfirþyrmandi að við veljum að gera ekkert eða eitthvað allt annað, eins og fara bara á Facebook! ..  

Þó að frelsi til að velja hljóti að vera gott, getur það virkað neikvætt - þegar um of mikið val er að ræða.

Ég held að það sé einn af þáttunum sem höfðu áhrif á lélega kosningu til stjórnlagaþings. Að velja 25 úr 500 manns - er það raunhæft?   Og af hverju var ekki kynnt betur að það væri í lagi að kjósa einn af þessum 500?   Þetta er, að mínu mati - og vissulega eftir á að hyggja, ein stærstu mistökin og af mistökunum verðum við að læra.  

Framkvæmdin verður að vera öðru vísi,  það hefur sýnt sig. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þjóðin setjist á skólabekk og kynni sér ítarlega skoðanir 500 manns.  

Líklegast væri betra að skipa þverpólitíska valnefnd, nú eða ópólitíska (ef það er til)  sem fengi það verkefni að kynna sér þessa 500 og velja svo sterkustu kandídatana.  Þau sem teljast líkleg til að koma með góðar og sanngjarnar tillögur fyrir þau sem endanlega ákveða stjórnarskrána.

Það er vissulega ekki fyrir mig að ákveða,  en tilgangurinn með þessari færslu er að sýna fram á það að þetta mikla val getur haft (og hafði örugglega í þessu tilviki)  fráhrindandi áhrif á kosningaþátttöku.  Ekki endurtaka sömu mistökin aftur.  

 

 


02.01.2011 - Hvers virði ert þú?

Ég er enn að lesa bókina "Women, Food and God"  eftir Geneen Roth, og er reyndar ákveðin í að læra helstu gildi hennar og kenna síðan,  því mér finnst hún hafa til að bera svo mörg góð gildi og ráð.  

Samkvæmt titilinum ætti  hún einungis að fjalla  um konur, mat og Guð - en í raun fjallar hún um flest sem er manninum (líka karlmanninum) viðkomandi.  Viðhorf okkar til okkar sjálfra og að lifa í meðvitund, eða kannski sterkara að segja:  "að lifa MEÐ VITUND" ..  (Awareness).   Lifa með vitund um okkur sjálf, um hvernig við hugsum um okkur, líkama og sál.   

Einn kafli bókarinnar fjallar um "The Voice" eða Röddina.  Stundum nefnt Superego.  Þarna er um að ræða okkar innri rödd,  ekki þessi sem elskar okkur skilyrðislaust - heldur þá sem er dugleg við að kritisera okkur.  Röddin sem gæti sagt "hvað þykist þú eiginlega vera" ..   Röddin sem stelur frá okkur draumunum og skellir okkur niður flötum þegar við fáum áhuga á að framkvæma eitthvað sem er óvenjulegt eða erfitt. Þessi rödd gæti t.d. hljómað eins og mamma okkar þegar við vorum börn.  Stundum segja mömmur og pabbar eitthvað óvarlegt og drepa þá líka óvart niður sjálfstraust og drauma. 

En það er ekki það sem þýðir neitt að horfa í,  það sem er alvarlegt við þetta er þegar VIÐ höldum þessu við og gerumst þessir niður rífendur og rænum okkur sjálf af draumum okkar.

Til að við áttum okkur á þessu þurfum við einmitt að vera með vitund um þessa rödd - þegar hún fer að tala neikvætt til okkar að sussa bara á hana og afþakka pent hennar viðskipti.  Ef það dugar ekki er algjörlega óhætt að segja hreinlega "Haltu kjafti!" .. 

Ég hef heyrt svo marga segja frá því að í raun séu þeir sjálfir sín stærsta hindrun.   Sú hindrun sem liggur í því að hafa ekki trú á sjálfum sér.  Treysta sér ekki o.s.frv.  

"Ég er ekki þess verðug/ur" ...   Þetta kallast "bullshit" á góðri íslensku!   Þú ert alls góðs virði, manneskja full af hæfileikum,  stundum vannýttum vegna þess að þeir hafa ekki fengið að blómstra.  "Ekki fengið"  getur falið í sér að umhverfið hafi ekki leyft það og það getur líka falið í sér að þú hafir ekki leyft það - en vissulega er algengast að það sé bland í poka. 

Í flestum tilfelllum getum við gert eitthvað í því.  Þegar við förum að leita lausna en horfum ekki einungis á hindranir.  

Hamingja þín á að vera þitt lífsmarkmið - og hamingjusöm manneskja er ljós sem lýsir.  Það er hægt að finna líkingu fyrir þetta i Biblíunni (eins og flest)  þar sem talað er um að setja ekki ljós sitt undir mæliker.  

Láttu ljós þitt skína - það er tilgangur þinn á þessari jörðu! Heart

 P.s.  Um leið og við látum ljós okkar skína gætum þess að taka okkur ekki of hátíðlega,  manneskja með sterka sjálfsmynd þarf ekki að sýnast - og gleðin verður að fylgja með í pakkanum.  Við ætlum ekki að vera eins og yfirheyrsluljós sem lýsir í augu þeirra sem fyrir verða og blinda. 

 


Ráð fyrir Nýja árið í anda Anthony Robbins .. með "dashi" af innblæstri frá Dale Carnegie

Ég var að hlusta á myndband frá Anthony Robbins þar sem hann gefur góð ráð inn í nýja árið. Okkur finnst oft eins og okkur sé gefið nýtt tækifæri með nýju ári - reyndar er nýtt tækifæri að gefast okkur á hverri nýrri sekúndu sem hefst í lífi okkar. Heppin við! 

En svona í stuttu máli sagt þá eru ráð hans eitthvað á þá leið: 

Tökum okkur tíma tíma fyrir þankahríð og rifjum upp allar dásamlegu stundirnar frá sl. ári. Hverjir voru topparnir á árinu?  Það sem hélt þér uppi og gaf þér nýjan eldmóð?   Gerum (skriflegan) lista yfir allt sem var gaman og það sem við erum stolt af.  Hvaða ákvarðanir voru góðar - og hvaða stundir voru góðar? Er ekki ástæða til að endurtaka það? Byggðu á þessu.

Þegar búið er að tína fram það góða, þarf að hyggja að fortíð - því að að fortíð skal hyggja ef að framtíð skal byggja! 

Þá er komið að því að íhuga hvað var ómögulegt á árinu - hvað gekk ekki upp og hvað líkaði þér ekki?  Gott að gera sér grein fyrir því,  því ekki viljum við endurtaka það á næsta ári.  Til að byrja að nýju þurfum við að læra af fortíðinni.  Hvað er hægt að læra af fortíð og hvað er þá hægt að gera öðru vísi?  Þetta er ekki gert til að berja sjálfan sig fyrir það eða fá samviskubit, aðeins til að læra.  Skrifaðu þetta líka niður.

Þegar þetta er búið er hægt að fara að hugsa: 

Hvað ætlar þú að skuldbinda þig til að gera árið 2011?   Hver eru markmiðin?   Nýtt ár - nýtt líf fyrir suma.  Nýr möguleiki.   Allt sem þú þarft til að breyta er að taka ákvörðun! .. Þitt er valið. Hugurinn flytur okkur hálfa leið.  Ef þú ákveður breytingu, getur þú framkvæmt hana.  En þú verður að vera skýr hvað þú vilt.   Skilgreina vel.  

Hvað þýðir að skilgreina vel?  Það er t.d. ekki nóg að segja:  Í ár ætla ég að bæta samband mitt við manninn minn/konuna mína.  Þú verður að setja niður á blað hvernig þú ætlar að gera það! ..

Það sem þú gerir skiptir þá miklu máli.  Það þýðir ekki að segjast vilja og/eða ætla að eiga gott samband eða hjónaband,  en gera ekkert í því.  Segðu maka þínum frá tilfinningum þínum, að þú elskir hann,  virðir,  þyki vænt um hann o.s.frv.  Við þurfum öll á því að halda reglulega.  Þú gætir planað óvissuferð fyrir ykkur,  eða komið á óvart á einhvern hátt. 

Það er einnig gott að hafa mælanleg markmið og dagsetningar, t.d. í staðinn fyrir að segja að þú ætlir að mála baðherbergið á árinu niður á blað, skrifar þú að  fyrir 3. apríl ætlir þú að vera búinn að mála baðherbergð. 

Að skrifa niður er MJÖG mikilvægt - og það er búið að sanna það að skrifanleg markmið nást mun frekar en þau sem við setjum okkur í huganum.  

Ég vil endilega deila þessu með sem flestum, því þess fleiri sem ná sínum markmiðum í lífinu þess meiri vigt á hamingjuvog heimsins. Smile

Sem sagt við setjum fram hvað okkur langar að gera OG hvernig við ætlum að gera það! ..skrifum það líka niður. Okkar meginmarkmið í þessu lífi hlýtur að vera hamingjusöm svo það er líka gott að gera sér grein fyrir því hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm? Um leið og við erum hamingjusöm, eigum við auðveldara með að gefa af okkur og lýsa öðrum.  Hamingja þín er hamingja mín. 

Gangi okkur vel! 

p.s. Eitt af mínum markmiðum er að reka mína eigin hugræktarhreyfingu, -  hvernig?

1) Ég er að vinna að heimasíðu til að kynna hana, og planið að hún verði tilbúin eigi síðar en 10.jan 2011.

2) Ég er að byrja með námskeið - fyrsta hefst 10. janúar 2010 og hefur heitið "Tjillað í tilfinningunum" en þar verð ég með stutta hugvekju, síðan er farið í hugleiðslu og á eftir er það sem fólk upplifir rætt.  Þetta er mjög sniðugt fyrir t.d. þá sem eru í tilvistarkreppu og átta sig ekki á hvað er að bögga það. Þá sem eru á krossgötum í lífinu og bara hvern sem er.  - Námskeiðið verður fjögur mánudagskvöld, og kostar 8000.- krónur á mann,  sem er svipað og einn sálfræðitími. Staðsetning: Súðarvogur 7.  Hægt er að hafa samband við undirritaða í tölvupósti johanna.magnusdottir@gmail.com  til að fá nánari upplýsingar á meðan heimasíðan er ekki komin í gagnið,  eða hreinlega stökkva til og bóka sig - Smile   


Ekki áhættunnar virði

Stundum verðum við að velja og hafna - og ég tel að það sé best að bjóða ekki hættunni heim með eldfimum kertaskreytingum.  Sjálf lenti ég í því að fara ekki nógu gætilega einu sinni og gerðist það á jólanótt að við dóttir mín voru í tölvuleik (örugglega Mario Bros sem þá var í algleymingi) og fann þá dóttirin brunalykt.  Leit ég við og sá þar að loginn stóð upp úr blaðagrind og logarnir sleiktu furuhillu og bækur sem í henni voru.  Hafði ég þá gleymt logandi kerti með einhverju jólakrúsidúlli sem var á hillu fyrir ofan blaðagrindina og það sem gerðist var að kertið hafði brunnið niður og kviknað hafði í skrautinu - partur af því síðan í blaðagrindina.  Ég tel að lyktnæmni dótturinnar hafi þarna bjargað á elleftu stundu.  

Ég náði að grípa í handfang blaðagrindarinnar og færa hana af timburgólfi yfir á flísar - hljóp svo og bleytti handklæði sem ég lagði yfir og slökkti einnig í því sem var farið að loga í hillunni.  

Vil líka vara við sprittkertum - því að öðru sinni lenti ég í bruna,  en þá sátum við til borðs á gamlárskvöld,  ég hafði raðað ca. 10 sprittkertum á stóran trébakka.  Til að gera langa sögu stutta þá logaði trébakkinn vegna hitans sem myndaðist.  Ég náði taki á brúnum hans og fór með inn í baðkar og sprautaði yfir.  

Heppin í bæði skiptin - en við vitum að reynslan hefur sýnt að ekki eru allir svona heppnir. 

Hvorugt er áhættunnar virði og langaði mig að deila reynslu minni og vara við þessu.  Nú er ég með aðventukrans úr járni!   Það má alveg skreyta ef það er tryggt að loginn komist örugglega ekki að skreytingunni.  Engin/n ætlar sér að gleyma að slökkva á kerti - en það gerist. 

 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að doka við og dimma ljósin ..

Í kvöld ákvað ég að setja á "pause" slökkva öll rafmagnsljós,  en leyfði þó aðventuljósum að loga í glugganum.  Hafði slökkt á sjónvarpinu, kveikti á kertaljósum og settist í sófann minn í stofunni þar sem ég naut kyrrðar og kertaljóss. Simbi (hundur) var fljótur að átta sig á kósýheitunum og lagðist makindalega hjá mér. 

Jeminn eini hvað það er stundum gott að doka við og dimma ljósin. 

Svo syngjum við bara:  "I´d like to build the world a home, and furnish it with love" ....  Smile

 


Smá "dansdrottning" hér til að birta upp skammdegið ....


 


Rassabossa trúfélagið

Ég hef verið að fylgjast með búrku-umræðum á Facebook og bloggi og sitt sýnist hverjum.  Í raun er þessi umræða ekki svart/hvít í mínum huga.

Sumir eru með rök að enginn eigi að skipta sér af klæðaburði fólks.  Fólk eigi að hafa frelsi til að tjá sig m.a. með klæðaburði.  Búrka sé þar með talin og einnig sé það hluti af trúfrelsi fólks að fá að klæða sig í takt við sín trúarbrögð. 

Eflaust klæða einhverjar konur sig í búrku af frjálsum vilja,  eins langt og sá frjálsi vilji nær.  Ég hef stundum líkt þeim frjálsa vilja við þann vilja kvenna að ganga í háhæluðum skóm sem eru eins og pyntingatæki í sumum tilfellum.  Það má alveg tala um ákveðinn tískuþrældóm (slave to fashion)  í þeim tilfellum og þá kannski trúarþrældóm (slave to religion) þegar búrkan er notuð - því fjandakornið hún getur ekki verið þægileg, eða hvað?  Kannski jú ef notandinn er haldinn félagsfælni, er óöruggur með sjálfan sig,  nú eða á "bad hair day" .. Whistling    

Ef að konum er skipað að vera í búrku án þeirra vilja - þá er það svo sannarlega eins og hvert annað ofbeldi.  

Það liggur í augum uppi að búrka er hamlandi fyrir tjáningu - en við tjáum okkur svo sannarlega ekki aðeins með orðum - heldur einmitt með líkamstjáningu.  

Þorgerður Katrín velti af stað fyrsta steininum í þessari skriðu um búrku-umræðu. Þorgerður Katrín tilheyrir kaþólsku kirkjunni sem er stofnun sem styður ekki jafnfrétti karla og kvenna.  Konur fá þar ekki prestvígslu.  Stundum væri ágætt að skoða heima hjá sér áður en maður fer að benda út í heim er það ekki? 

En eiga ekki trúfélög að fá að starfa eftir trúarsannfæringu sinni?  Hvað segðum við um trúfélag með boð um klæðaleysi félagsmanna, heima sem að heiman?  Ætti ekki að virða þeirra trúarsannfæringu um að fá að biðjast fyrir á bossanum?  Væri það ekki liður í tjáningar-og trúfrelsi þeirra? 

nekt_300305.jpg

 

 


Af hverju ertu of þung eða þungur?

Það dylst engum sem fylgist almennt með í samfélaginu að þyngdarstjórnun er vandamál margra.  Ég er ein af þeim sem hef átt í þessu stríði - þ.e.a.s. við aukakílóin og hef eflaust tapað um 10 kílóum að meðaltali á ári sl. 20 ár, sem gera um 200 kíló! ..  Átaksnámskeið hjá Hress, Hreyfingu, Laugum, JSB, safa-og Síberíukúrar o.s.frv.  Þetta hefur virkað - um skeið - og stundum í þokkalega langan tíma, en svo er eins og allur vilji hverfi og kílóin hrannast upp aftur.  Hamingja mín hefur ekki haldist í hendur við minni vigt, þó að ég hafi glaðst yfir að líta betur út í ákveðnum kjólum og pilsum og  upplifað meira sjálfstraust í bikiníinu þegar ég hef verið á réttu róli á vigtinni. 

En er eitthvað vit í því að hjakka alltaf í sama farinu ár eftir ár, gera sömu mistökin aftur og aftur?  Og hver eru þessi mistök? 

Ég feitletraði orðið vandamál hér að ofan.  Mistökin felast í því að ráðast á umframkíló sem eru afleiðing vandamálsins í stað þess að ráðast á eða að greina orsök vandamálsins.  Það er þó mun auðveldara að uppræta vandamál þegar orsök þess er þekkt.  

Munurinn er e.t.v. sá að í öðru tilfellinu er eins og verið sé að reita arfa af yfirborði en í hinu að rífa hann upp með rótum. 

Nýlega talaði ég við móður stúlku sem sagði að stelpunni hennar gengi svo illa í skólanum, hún félli í hverju prófinu á fætur öðru. Hún skildi ekkert í því - stelpan sem væri svo greind.  Hún spurði hvort ég vissi um einkakennara til að hjálpa dóttur hennar.  Þarna benti ég móðurinni á að þegar að svo er komið að greindum nemanda gengur illa,  þá þarf að skoða orsökina, hvernig nemandum liði, áhuga, eldmóð o.s.frv. Hvers vegna er nemandinn ekki að læra, hefur það kannski eitthvað með tilfinningarnar að gera, viðmót, viðhorf?  Einkakennari getur hugsanlega komið nemandanum í gegnum stærðfræði og þýsku 103, en hvað svo?  Þarf einkakennara upp allt menntaskólaferlið? 

Á sama hátt má tala um manneskju sem vill ná árangri í þyngdarstjórnun en gengur ekkert.  Hún getur vissulega farið í "átak" og náð af sér tímabundið einhverjum kílóum en hvað svo? 

Ég hef verið að skoða leiðirnar sem Dale Carnegie bendir á við að leysa vandamál: 

Þar er spurt: "Hvert er vandamálið" .. svarið í þessu tilfelli væri - að ná stjórn á líkamsþyngd og heilsu.  Þá er ekki næsta spurning, "Hvernig leysum við það?"  heldur:  Hvað orsakar vandamálið? Síðan hverjar eru mögulegar lausnir og svo hvaða lausn er best.  Þegar lausnin er fengin þá á ekki að sitja á henni eins og gulli, heldur að framkvæma.

Í bókinni Women Food and God, eftir Geneen Roth,  er tekið á þessum málum, án þess að ég fari náið út í efni bókarinnar hér - en ég er að undirbúa fyrirlestur um bókina - og mun taka betur á efni hennar þar. 

Eftir fæðingu ölumst við flest upp við móðurbrjóst sem sefar og nærir,  flest erum við síðan vanin á snuð vegna sogþarfarinnar. Við grátum og þá sefumst við þegar að snuddunni er stungið í munninn.  

Þegar við borðum eigum við að njóta matarins, upplifa bragðið og hætta síðan þegar við höfum fengið nóg.  Af einhverjum orsökum missum við stundum stjórn á þessu, borðum af græðgi og stundum til að sefa okkur,  ekki vegna þess að við grátum upphátt,  en samt er eitthvað inni í okkur sem við erum að róa eða sefa.  Einhver tilfinningapoki eða vasi sem við erum að fylla.  

Þetta eru oft einhverjar tilfinningar sem við höfum ekki fengið útrás fyrir sem börn.  Við sem ólumst upp á heimilum þar sem tíðkaðist ekki og þótti ekki til siðs "að bera tilfinningar á torg" kyngdum tilfinningunum - og við það myndaðist kannski svona poki, sem kallar á að hann verði fylltur.  

Ef við leitum inn á við,  slökum á og stingum kannski bara gat á þessa poka eða fletjum þá alveg út,  getur þá kannski verið að þörfin fyrir að stinga einhverju í þá minnki?

Ég hlustaði nýlega á sr. Önnu Sigríði lýsa því hvað við dásömuðum nýfædd ungabörn, enginn færi að kritisera þeirra bumbu, kúptan rassinn eða hvað sem er.  Þau eru dásamleg.  Á sama hátt ættum við að horfa á okkur, hvernig sem við erum í dag - of feit eða of mjó og dást að okkur og virða.  Við erum nefnilega bara eins og þetta nýfædda barn sem við megum alveg gleðjast yfir og þykja vænt um.

Það þýðir ekki að við séum endilega sátt við að vera of þung eða of létt - því það að vera of þung eða of létt getur verið heilsunni hættulegt.  En um leið og við sættumst við okkur,  skiljum orsök þess að við borðum eins og við borðum og förum að borða og njóta til að lifa en ekki lifa til að borða,  þá gerist það hægt og rólega að við komumst í okkar kjörþyngd.  

Ég ætla þrátt fyrir þessa heimspeki - eða matarsálfræði, eða hvað sem þetta kallast að setja hér inn útlínur hvað felst í því að borða til að lifa frá henni Geneen Roth (í minni eigin útleggingu). 

1. Borðaðu þegar þú ert svöng/svangur 

2. Borðaðu sitjandi í rólegu umhverfi (bíllinn þó undanskilinn) 

3. Borðaðu án truflunar, truflun er útvarp, sjónvarp, blöð, bækur, hávær tónlist eða of rifrildi. 

4. Borðaðu það sem líkami þinn þarfnast

5. Borðaðu þar til þú ert södd/saddur

6. Borðaðu helst þannig að aðrir sjái til (ekki sérlega auðvelt fyrir einstaklinga ;-)) 

7. Borðaðu með sannri gleði og ánægju - njóttu matarins "slurp" .. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég sé slík ráð - og eflaust ekki í það síðasta.  En fyrst og fremst er gott að gera sér grein fyrir því  hvers vegna að t.d. manneskja sem hefur farið í hjáveituaðgerð og kostað til þess fjármuni, tíma, sársauka og fleira missir enn og aftur stjórn og fer í sama farið? 

Var hjáveituaðgerðin skyndilausn?  Þurfti ekki að finna orsök vandamálsins áður en hún var gerð? 

Fyrir mér var þetta nokkurs konar opinberun og mig langaði til að deila henni.  Ég ætla að setja mig enn betur inn í þetta og vænti þess að geta fylgt þessu eftir og deilt fleiru með ykkur úr bók Roth! 

Smile Munum bara að við erum yndisleg akkúrat NÚNA!  Gildi manneskju fer ekki eftir vigt. 

     "In each moment of kindness you lavish upon your breaking heart or the size of your thighs, With each breath you take - God has been there - She is you" (Geneen Roth)

 

 


Fólkið á bak við gluggatjöldin...

Það þurfa allir á ást að halda, þó að ástin skapi kannski ekki lífsviðurværi eða þak yfir höfuðið kemur hún manni býsna langt.  Hér er að vísu verið að ræða ástina - sem eros, þ.e.a.s. ástartilfinningar sem kvikna milli elskenda.  Annars konar ást er ekki síður mikilvæg - vinarþel (filos)  og svo skilyrðislausa ást (agape) til dæmismilli foreldra og barna (agape).  þessi "lærðu" nöfn eru grísk.

Það er jafn mikilvægt að fá tækifæri til að veita ást eða elsku eins og að þiggja hana, í hvaða formi sem hún er.

Félagsleg einangrun kemur stundum í veg fyrir þetta tækifæri til elsku.  Sumir eru lokaðir inni, svona í orðsins fyllstu merkingu.  Lokaðir inni á heimilum sínum,  t.d. vegna örorku, atvinnuleysis eða sjúkdóma.  Aðrir eru lokaðir inni andlega, þ.e.a.s. þeir ná ekki að tengja við annað fólk.  

Þegar við tölum um að einhver sé inni í skápnum, hugsa flestir til þeirra sem eru lokaðir inni vegna kynhneigðar sinnar.  Þeir einstaklingar hafa ekki tækifæri til að gefa eða þiggja ást að hætti elskenda, en gætu,  að sjálfsögðu, átt marga vini og elskandi foreldra.  Sumir eru að vísu hræddir við að koma út úr skápnum af ótta við að ást foreldranna sé ekki skilyrðislaus.  Þ.e.a.s. að foreldrarnir elski þau ekki nóg til að samþykkja samkynhneigð þeirra.  Það er því miður sorgleg staðreynd.  Það er því mikilvægt fyrir foreldra að upplýsa börn sín og vera skýr í því að gera þeim grein fyrir ást sinni og að upplýsa þau fyrir kynþroska um fordómaleysi sitt í garð samkynhneigðra til að börnin hafi ekki ranghugmyndir um viðbrögð foreldranna.  

Flest vitum við hvað mikilvægt er að eiga góða vini eða a.m.k. einn náinn vin.  Vinir geta gert kraftaverk.  Vinátta getur að sjálfsögðu verið milli elskenda og  fjölskyldumeðlima,  þannig að elskan getur verið fjölbreytileg. 

En hvar kemur að fólkinu bak við gluggatjöldin?  Ég rölti mikið í hverfinu mínu og horfi á gluggana,  stundum sé ég inn (afsakið!) en sumir gluggar eru með þykkum tjöldum og ég hugsa hvort að bak við sum tjöldin  sé fólk sem er eitt - án ástar - án vina, án maka, án fjölskyldu? .. 

Hvernig líður þessu fólki sem hefur ekki tækifæri til að gefa né þiggja - ást?  

Ég er eiginlega viss um að það eru einhverjir lokaðir inni,  en segja engum.  Líka sumir sem eru alls ekkert inni - heldur úti - en á bak við ósýnileg gluggatjöld. 

Í gær fylgdist heimurinn með þegar 33 námuverkamönnum var bjargað úr iðrum jarðar.  Ég held að enginn sem fylgdist með fréttum - jafnvel "live"  hafi verið ósnertur.   Engum datt í hug að láta þess menn eiga sig,  láta þá bara veslast upp og að lokum deyja.  Allt var sett í gang - ekkert til sparað.  Forseti Chile stóð vaktina.  Heimurinn stóð vaktina.  

Það er víða neyð, svo sannarlega. Skalinn er á svo ólíku stigi og neyðin birtist á ólíkum stigum. Við getum ekki áttað okkur á neyð nema með samanburði. 

Þetta er hvorki endanleg (vantar rétta oriðið í staðinn fyrir endanleg)  úttekt á neyð né ástinni .. aðeins svona hugsað upphátt um og til þeirra sem eru í andlegu dýpi jarðar - þetta blogg er tileinkað þeim,  og bara öllum sem vilja þiggja ...

Sorry - ég er í væmna skapinu í kvöld (hvenær ekki LoL) ... 

Heart

 

 

 


mbl.is Ástin linar allar þrautir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er Draumalandið þitt?

Á Dale Carnegie námskeiðinu sem ég er á þessa dagana og vikurnar,  þá er mikil áhersla á að hafa  sýn "vision" um framtíðina - sjá fyrir sér hvar maður vill vera og setja sér markmið.

Ég get sett niður svona sýn, markmið eða óskir á blað fyrir mig sjálfa,  en svo fór ég að íhuga hvort að ég gerði mér grein fyrir hvaða sýn ég hefði fyrir landið mitt. 

Við erum svo fá í þessu landi og því hlýtur að þurfa að setja fram öðru vísi markmið en ef að ég byggi t.d. í Danmörku og þá Kaupmannahöfn.  

Dæmi er t.d. um almenningssamgöngur,  þá er dýrt að reka strætó - en væri vissulega ódýrara ef að fleiri nýttu sér vagnana og þá væri (kannski) hægt að fjölga ferðum. 

Ég er ekki hrifin af álverum, vildi óska þess að hægt væri að vinna meira í sjálfbærni - við ynnum t.d. fiskinn hérna heima en sendum ekki óunninn út.  Mig vantar í rauninni svona þankahríð frá sem flestum,  hvernig þeir sjá fyrir sér að sem flestir sem hér á landi búa geti unað sáttir við sitt. 

Hvernig stuðlum við að því að: 

  • Allir hafi nóg að borða
  • Allir hafi þak yfir höfuðið
  • Allir hafi atvinnu - sem geta unnið
  • Aðrir, öryrkjar og aldraðir hafi úr nógu að spila einnig 

Er hægt að gera þetta allt án þess að misbjóða náttúru landsins?  Er möguleiki á að við séum tilbúin að klípa af okkar "lúxus" til að  aðrir hafi það betra?  Getum við einhvern tímann orðið þakklát bara fyrir að hafa nægan aðgang að þessu fína neysluvatni?  Verðum við ekki fyrst að líða skort til þess að verða þakklát fyrir það sem okkur finnst sjálfsagt í dag? .. 

Er til eitthvað draumaland - eða er það útópía? 

Segið endilega ykkar skoðun, I´m all ears!! .. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband