Af hverju ertu of þung eða þungur?

Það dylst engum sem fylgist almennt með í samfélaginu að þyngdarstjórnun er vandamál margra.  Ég er ein af þeim sem hef átt í þessu stríði - þ.e.a.s. við aukakílóin og hef eflaust tapað um 10 kílóum að meðaltali á ári sl. 20 ár, sem gera um 200 kíló! ..  Átaksnámskeið hjá Hress, Hreyfingu, Laugum, JSB, safa-og Síberíukúrar o.s.frv.  Þetta hefur virkað - um skeið - og stundum í þokkalega langan tíma, en svo er eins og allur vilji hverfi og kílóin hrannast upp aftur.  Hamingja mín hefur ekki haldist í hendur við minni vigt, þó að ég hafi glaðst yfir að líta betur út í ákveðnum kjólum og pilsum og  upplifað meira sjálfstraust í bikiníinu þegar ég hef verið á réttu róli á vigtinni. 

En er eitthvað vit í því að hjakka alltaf í sama farinu ár eftir ár, gera sömu mistökin aftur og aftur?  Og hver eru þessi mistök? 

Ég feitletraði orðið vandamál hér að ofan.  Mistökin felast í því að ráðast á umframkíló sem eru afleiðing vandamálsins í stað þess að ráðast á eða að greina orsök vandamálsins.  Það er þó mun auðveldara að uppræta vandamál þegar orsök þess er þekkt.  

Munurinn er e.t.v. sá að í öðru tilfellinu er eins og verið sé að reita arfa af yfirborði en í hinu að rífa hann upp með rótum. 

Nýlega talaði ég við móður stúlku sem sagði að stelpunni hennar gengi svo illa í skólanum, hún félli í hverju prófinu á fætur öðru. Hún skildi ekkert í því - stelpan sem væri svo greind.  Hún spurði hvort ég vissi um einkakennara til að hjálpa dóttur hennar.  Þarna benti ég móðurinni á að þegar að svo er komið að greindum nemanda gengur illa,  þá þarf að skoða orsökina, hvernig nemandum liði, áhuga, eldmóð o.s.frv. Hvers vegna er nemandinn ekki að læra, hefur það kannski eitthvað með tilfinningarnar að gera, viðmót, viðhorf?  Einkakennari getur hugsanlega komið nemandanum í gegnum stærðfræði og þýsku 103, en hvað svo?  Þarf einkakennara upp allt menntaskólaferlið? 

Á sama hátt má tala um manneskju sem vill ná árangri í þyngdarstjórnun en gengur ekkert.  Hún getur vissulega farið í "átak" og náð af sér tímabundið einhverjum kílóum en hvað svo? 

Ég hef verið að skoða leiðirnar sem Dale Carnegie bendir á við að leysa vandamál: 

Þar er spurt: "Hvert er vandamálið" .. svarið í þessu tilfelli væri - að ná stjórn á líkamsþyngd og heilsu.  Þá er ekki næsta spurning, "Hvernig leysum við það?"  heldur:  Hvað orsakar vandamálið? Síðan hverjar eru mögulegar lausnir og svo hvaða lausn er best.  Þegar lausnin er fengin þá á ekki að sitja á henni eins og gulli, heldur að framkvæma.

Í bókinni Women Food and God, eftir Geneen Roth,  er tekið á þessum málum, án þess að ég fari náið út í efni bókarinnar hér - en ég er að undirbúa fyrirlestur um bókina - og mun taka betur á efni hennar þar. 

Eftir fæðingu ölumst við flest upp við móðurbrjóst sem sefar og nærir,  flest erum við síðan vanin á snuð vegna sogþarfarinnar. Við grátum og þá sefumst við þegar að snuddunni er stungið í munninn.  

Þegar við borðum eigum við að njóta matarins, upplifa bragðið og hætta síðan þegar við höfum fengið nóg.  Af einhverjum orsökum missum við stundum stjórn á þessu, borðum af græðgi og stundum til að sefa okkur,  ekki vegna þess að við grátum upphátt,  en samt er eitthvað inni í okkur sem við erum að róa eða sefa.  Einhver tilfinningapoki eða vasi sem við erum að fylla.  

Þetta eru oft einhverjar tilfinningar sem við höfum ekki fengið útrás fyrir sem börn.  Við sem ólumst upp á heimilum þar sem tíðkaðist ekki og þótti ekki til siðs "að bera tilfinningar á torg" kyngdum tilfinningunum - og við það myndaðist kannski svona poki, sem kallar á að hann verði fylltur.  

Ef við leitum inn á við,  slökum á og stingum kannski bara gat á þessa poka eða fletjum þá alveg út,  getur þá kannski verið að þörfin fyrir að stinga einhverju í þá minnki?

Ég hlustaði nýlega á sr. Önnu Sigríði lýsa því hvað við dásömuðum nýfædd ungabörn, enginn færi að kritisera þeirra bumbu, kúptan rassinn eða hvað sem er.  Þau eru dásamleg.  Á sama hátt ættum við að horfa á okkur, hvernig sem við erum í dag - of feit eða of mjó og dást að okkur og virða.  Við erum nefnilega bara eins og þetta nýfædda barn sem við megum alveg gleðjast yfir og þykja vænt um.

Það þýðir ekki að við séum endilega sátt við að vera of þung eða of létt - því það að vera of þung eða of létt getur verið heilsunni hættulegt.  En um leið og við sættumst við okkur,  skiljum orsök þess að við borðum eins og við borðum og förum að borða og njóta til að lifa en ekki lifa til að borða,  þá gerist það hægt og rólega að við komumst í okkar kjörþyngd.  

Ég ætla þrátt fyrir þessa heimspeki - eða matarsálfræði, eða hvað sem þetta kallast að setja hér inn útlínur hvað felst í því að borða til að lifa frá henni Geneen Roth (í minni eigin útleggingu). 

1. Borðaðu þegar þú ert svöng/svangur 

2. Borðaðu sitjandi í rólegu umhverfi (bíllinn þó undanskilinn) 

3. Borðaðu án truflunar, truflun er útvarp, sjónvarp, blöð, bækur, hávær tónlist eða of rifrildi. 

4. Borðaðu það sem líkami þinn þarfnast

5. Borðaðu þar til þú ert södd/saddur

6. Borðaðu helst þannig að aðrir sjái til (ekki sérlega auðvelt fyrir einstaklinga ;-)) 

7. Borðaðu með sannri gleði og ánægju - njóttu matarins "slurp" .. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég sé slík ráð - og eflaust ekki í það síðasta.  En fyrst og fremst er gott að gera sér grein fyrir því  hvers vegna að t.d. manneskja sem hefur farið í hjáveituaðgerð og kostað til þess fjármuni, tíma, sársauka og fleira missir enn og aftur stjórn og fer í sama farið? 

Var hjáveituaðgerðin skyndilausn?  Þurfti ekki að finna orsök vandamálsins áður en hún var gerð? 

Fyrir mér var þetta nokkurs konar opinberun og mig langaði til að deila henni.  Ég ætla að setja mig enn betur inn í þetta og vænti þess að geta fylgt þessu eftir og deilt fleiru með ykkur úr bók Roth! 

Smile Munum bara að við erum yndisleg akkúrat NÚNA!  Gildi manneskju fer ekki eftir vigt. 

     "In each moment of kindness you lavish upon your breaking heart or the size of your thighs, With each breath you take - God has been there - She is you" (Geneen Roth)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Flottur pistill Jóga mín, að vanda.

Mitt vandamál er helst það að mér hættir til síðustu fáein ár að vera ca 2 cm of lítil!  - miðað við "ideal weight". 

Marta B Helgadóttir, 23.11.2010 kl. 16:15

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Marta góð!

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.11.2010 kl. 22:32

3 identicon

Fínn pistill. Áhugavert viðfangsefni.

Brynjólfur Ólason (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 09:31

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður pistill og þörf ábending Jóhanna mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2010 kl. 11:31

5 identicon

Varstu nokkuð að spá í detox Jónínu Ben.. og blessun á leiðinni út...

Sjálfur hef ég haldið kjörþyngd alla mína ævi, ég er líka örugglega með kjörþyngdar-genið og fínheit

doctore (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband