Færsluflokkur: Lífstíll

Afsakið hlé - - - - - - - - - - - - - - - - -

Ég hef ekki bloggað um pólitík né trú undanfarið - en það er meðvituð ákvörðun. Það eru vist nógu margir um hituna hvað það varðar.  Er ekki frá því að ég sé komin með vægt, nei höfum það heiftarlegt ofnæmi fyrir Æseif - só tú seif mí ákvað ég gera eins og baggalútsmenn og taka Frúnna í Hamborg á þetta, þar sem hvorki má segja Nei eða Já, Svart eða Hvítt,  og segja bara Kannski. 

Lífið á gráa svæðinu er virkilega unaðslegt. Lífið á gráa svæðinu er svona eins og að lifa eftir æðruleysisbæninni.  Að vera ekkert að böggast í því sem maður getur ekkert að gert! Leyfiapólitíkusunum að vinna vinnuna sína  og mér að vinna mína. 

Hjúkkit hvað það er mikill léttir. Ég fæ ekkert samviskubit yfir því að vera ekki brjáluð á blogginu út af öllum fj..... 

Trúmál og kirkja hefur líka fengið að eiga sig á blogginu hjá mér. Guð sér um sig og sína (við erum öll Guðs)  - punktur. Við þurfum ekkert að koma honum/henni/þvi til varnar. 

Ýmsir valdamenn innan þjóðkirkju Íslands eru að naga hana innan frá, það kemur Guði ekkert við - og þessir menn breyta ekki Guði. 

Nú er ég komin út á hálan ís og hætt að hugsa grátt og komin yfir í svart/hvítt. 

Eftir hlé: 

Förum nú aðeins út í föstudagsnotalegheitin ... 

11inpiggy.jpg

 

 


Þakkir fyrir föstudag og konan á leið í velúrinn ....

Vaknaði timbruð í morgun, þrátt fyrir að hafa ekkert drukkið. Sideways  .. Frekar óréttlátt, en reyndar vissi ég orsökina, en hún var sú að ég vaknaði upp í nótt og gat ekki sofið. Það er hugurinn sem er svo upptekinn að hann vekur mig aftur og aftur, það flæðir út fyrir svefninn.  Það er ekki endilega slæmt, en ég held stundum að það sé offramboð af hugmyndum og hugsunum í höfðinu mínu. Nú er bara að koma eitthvað af þessum hugmyndum í framkvæmd.

Ég náði s.s. að sofna, en vakna timbruð eins og áður sagði. Fór í fína svarta Elm kjólinn minn, svartar sokkabuxur og svört stígvél .. alveg eins og ég væri að fara í jarðarför, sem var reyndar á stefnuskránni. Setti meira að segja hnút í hárið, svo ég var orðin ein virðulegasta kona Vesturbæjar. 

Rabbaði við systurnar á Facebook þar sem stóra systir fullyrti að engin minningargrein um Helgu frænku og móðursystur okkar hefði birst á mbl.is - en ég hafði nýlokið við að lesa einmitt æviágripið og minningargreinarnar og þar á meðal þá sem ég hafði sent. En, nei, nei .. einhver vitleysa í mér, fullyrti hún. (Sem var að sjáflsögðu ekki rétt).  Ekki var ég að lesa ímyndaðar greinar! "Standa á sínu Jóhanna"  (þetta var uppbyggilega röddin!) 

Fór svo til vinnu og sat ágætan starfsmannafund, síðan í skólann til að rabba við nemanda, sem kom í ljós að var ekki sama sinnis,  þ.e.a.s. hann ætlaði ekkert að rabba við mig því hann hafði tekið þá vafasömu ákvörðun að mæta bara alls ekki í skólann. Í starfi mínu skiptast á skin og skúrir,  þ.e.a.s. eftir hvernig gengur með nemendur - að virkja þau og vekja,  en stundum er þetta eins og að raða spilum upp í  spilaborg, það þarf svo lítið til að allt hrynji.  Þetta tekur á, en virkilega gaman þegar vel gengur, og þegar ég fer að sjá einhvern blómstra.  Hver og ein/n skiptir gríðarlega miklu máli. 

Fór svo að sækja mömmu á Droplaugarstaði, þar sem yndislegar starfskonur voru búnar að klæða hana upp í jarðarfarardressið og hún var nýbúin í hárgreiðslu. Gat ekki verið betra! 

Útförin var virkilega falleg og sr. Þór Hauksson stóð sig með sóma. Okkur systkinum tóks að villast í Gufuneskirkjugarði,  en "what else is new" ? ... 

Enn og aftur, ákváðum við systkinabörnin í erfidrykkjunni að hætta að hittast einungis í jarðarförum, en spurning hvort og þá hvenær við látum verða af því? .. 

Nú er ég s.s. komin heim - búin að rífa úr mér hnútinn, hárið eins og illgresi um allt (löngu kominn tíma á klippingu) og stefni í velúrbuxur, þægilegan bol og kósý kvöld í sófanum. 

Það verður nú eiginlega ekkert betra - svona miðað við efni og aðstæður! 

Þessar konur eru þó nokkuð meira aðlaðandi í velúrnum en sú sem hér ritar ... 

velur.jpg


Þakkir á fimmtudagsmorgni ..

Það er margt í pípunum hjá konunni, á mörgum vígstöðvum - það eru samt engar "víg" stöðvar!

Eitt af þakkarefnum gærdagsins var þegar að stelpan sem stal pelsi dóttur minnar sl. laugardagskvöld gekk í gærkvöldi inn á veitingastaðinn sem dóttirin starfar á! .. Hversu óheppin er sá þjófur?  - Þetta er eiginlega eins og farsi. En þetta var saga sem endaði vel. Það sem af þessu má m.a. læra  var að dóttir mín var alltaf ákveðin í þvi að finna þennan pels aftur og missti ekki sjónar af því. Gott mál hjá henni.

Ég ákvað í gær að skella upp einu hugleiðslunámskeiði, þrjú kvöld - þar sem ég fer í "andlegt ferðalag" og leyfi fólki að prófa að uppgötva leyndardóma þess sem það á innra með sér.  Skráning á www.lausnin.is 

Í dag er "mömmudagur" þ.e.a.s. ég heimsæki mömmu á Droplaugarstaði, - en á morgun fer fram útför systur hennar og frænku minnar, Helgu Kristjánsdóttur og skrifaði ég smá minningarbrot um hana fyrr í vikunni. Birti það hér á morgun - og væntanlega kemur það í Mogganum líka. Mér fannst notalegt í gær þegar að presturinn sagði að nú væri hún orðin engill.  Við svífum út úr líkama okkar við dauðann, eins og risastór gegnsær hvítleitur fugl - það er mín sýn, þó aðrir sjái þetta öðruvísi. 

Í gær samdi ég vísu sem svar við ljóði Magnúsar Geirs Guðmundssonar, sem hann setti inn á Facebook - status: 

Saurgist mín samviska hrein
og sálar glati ég styrk
þá bíður mín þögnin ein,
þrúgandi döpur og myrk.

(MGG)

Upp rís sálar styrkur

syngja englaraddir

sólin sigrar myrkur

sorgartónar kvaddir. 

(JM) 

Það er svona "Upp, upp, mitt geð og öll mín sál" .. tónn í þessu, enda alin upp við að heyra þessar línur sálmaskáldsins á morgnana þegar mamma var að vekja okkur systkinin. Oft hefur það komið mér á fætur og styrkt mig. 

Ég sá að Ragnheiður Gröndal er að fara að syngja á Græna Hattinum, - verst að vera ekki fyrir norðan! - hún er ein af mínum uppáhaldssöngkonum, röddin einstök og ljóðin ekki af verri endanum sem hún hefur valið að flytja! ..

 


Alheimurinn í mér og ég í alheimnum ..

photo_on_2011-03-02_at_09_41_2.jpg Þessi fjólubláa kona horfði á þáttinn um Snæfellsjökul á RUV áðan, margt áhugavert og dularfullt. Þekki sjálf þessa tilfinningu að staðir hafi mismunandi orku, það gildir að sjálfsögðu líka um heimili fólks og stofnanir.

Í miðjum þætti var mér litið upp á málverkið á veggnum fyrir ofan sjónvarpið - "Rauð Jörð" eftir Þorbjörgu Höskuldsdóttur, sem er frænka míns fyrrverandi.  Hún gaf okkur þessa mynd í brúðargjöf, en ég fékk að halda henni og þykir mér vænt um það. 

Myndin er af Snæfellsjökli,  en eins og rautt hraun fyrir framan og svo í anda Þorbjargar setur hún þarna vegg og eina ferkantaða súlu, svo er eins og að jörðin opnist. 

Ég kannast við þetta aðdráttarafl jökulsins og sérstakan anda undir Jökli. Hef dvalið þar og sjaldan upplifað náttúruna eins vel.  Mér finnst þetta svo satt sem söngvarinn (sem ég man ekki hvað heitir en syngur eins og kona) sagði - um að hann hefði upplifað alheiminn í sér og sig í alheiminum.  Svo var talað um hvíta ljósið, alheimsorkuna "sem sumir kalla Guð" ... 

Ef við samþykktum þetta, að við erum öll eitt,  myndum við skilja betur að það sem við gerum öðrum hefur áhrif á okkur.  Bæði það sem við gerum gott og það sem við gerum illt.  

Ég veit alveg að sumum finnst svona tal um álfa, krafta, orku, ljós, tíðni o.s.frv. algjört bull, og ég skil það alveg.  Mér finnst aftur á móti heimur án þess leiðinlegur heimur. 

Heimurinn er voðalega ófullkominn, eins og við sjálf, enda erum við heimurinn. 

 Hér er svo "útsýnið" að sjónvarpinu og Rauðri jörð 

photo_on_2011-03-20_at_23_15_1071302.jpg


Þakklæti fyrir sunnudagsmorgun ...

Það stefnir allt í svona "göngum við í kringum" bloggviku hjá mér þar sem þakkað er fyrir dagana. Göngum við í kringum byrjar þó á mánudegi en ekki á laugardegi eins og þessi bloggvika mín. Í gær sá ég að vinkona mín auglýsti á facebook status eftir nafni á dönsku hljómsveitinni sem flytti lag sem verið væri að boxa gaur með rauðum boxhanska. Ég var ekki lengi að kveikja, enda alræmd fyrir að ota þessu lagi fram, og þá nýlega í útskriftarveislu bróðursonar.  Ég smellti því upplýsingum um lagið og tengli af Youtube á síðuna hennar, og hún losnaði við uppsafnaða spennu vanþekkingarinnar.  Enda  skrifaði hún þá Ahhhhhhhhhhhh.. eða eitthvað álíka. 

En þessu fylgdi meira, því rétt á eftir hringdi hún í mig og bauð mér að koma með á árshátíð! Jeii..  Þar sem ég fæ ekki oft tækifæri á glamúr,  sagði ég já, fyrirpartý og allt!  Árshátíðin var hin glæsilegasta, Eurovisjón stjörnur tróðu upp hver af annarri og góður matur.  Til að gera langa sögu stutta, þá er heilsan í dag ekki eins góð og í gærmorgun,  og ekki ætla ég að fara neitt ítarlegar út í það. (Þið eigið að láta þá drekka sem geta það)  (þessi rödd kemur frá fv. tengdó)).   Hressist ef ég fæ mér góðan göngutúr. (Vertu ekki með svona yfirlýsingar ef þú nennir ekkert að fara! (þetta var bara mín rödd)).

Ég er þakklát fyrir vini mína sem hafa hugsun á að hafa mig með - því það er ekkert alltaf gefið að við svona "singles" fáum að vera með í þessu parasamfélagi.  Flest matarboð eru nefnilega pöruð.  Ég er líka þakklát vini mínum sem skutlaði mér heim eftir árshátíðina. (????)  Það er bara til svo mikið af notó fólki sem er tilbúið að dansa saman í kringum einiberjarunn. Stundum er ég þetta tré og stundum ert þú tréð.  Aðal málið er að dansa saman en ekki sundur. 

Ég þakka hér með alla þá vináttu sem mér er sýnd og þakka fyrir að fá tækifæri til að gefa vináttu. (Eretta ekki að verða svolítið of væmið hjá þér Jóhanna?).. andsk.. innri röddin alltaf að bögga mig!Tounge ...  

Vöknum svo hressilega með Thomas Holm og "Nitten" .. textinn er brilljant!

 

 

 


Þakklæti fyrir laugardagsmorgun ...

Ég tilkynnti sjálfri mér það hátíðlega í gærkvöldi að nú yrði sofið frameftir í fyrramálið. Vaknaði þó fyrir allar aldir, líka fyrir Nýöld og öld kvenorkunnar, sem sagt er að sé að skella á með tilheyrandi braki og brestum, landreki, eldgosum,  stríði, sólgösum og blindfullum tunglum. 

Hugleiddi orðið dis-ease, sem þýðir að ef að fólk slakar ekki á getur það, og verður að öllum líkindum, veikt. Take it easy. 

Er þakklát fyrir ljósbleiku kertin í kertastjökunum á hundrað ára gamla borðinu hennar ömmu Kristínar.  Líka fyrir túlípanana sem ég gaf mér í gær og standa svo vel í hvíta postulínsvasanum, brúðargjöf  sem stendur enn þó hjónabandið sé búið.   Það er svo yndislegt að hafa eitthað fallegt að horfa á þegar við vöknum. Sængin mín er brakandi góð.  Úti snjóar eins og í Disney mynd. 

Í gær gekk ég heim úr vinnunni,  verslaði kindarlegar lundir í Melabúðinni og kartöflur sem einhver dugleg "móðir" gaf af sér í moldinni þannig að hún endaði sem úr sér gengin,  eldaði svo fyrir soninn og tengdadóttur og meðlætið var meðal annars brokkolí  sem Eva sonardóttir og sautjándajúníbarn,   naut þess að maka í sig og á. Hún fékk sér brokkolí-andlitsbað. Túlípanarnir voru reyndar líka keyptir í Melabúðinni. 

Þegar ég horfi í morguninn, hugsa til Evu litlu og brokkolíssins, og veit að á eftir mér bíður fyrsti kaffibolli laugardagsmorgunsins og diskurinn af múslíinu með ísköldu mjólkinni úr ísskápnum sem ég fékk á svo góðum kjörum á barnalandi,  get ég ekki annað en verið þakklát fyrir tilveru mína - og ekki má gleyma heitu sturtunni sem bíður mín spennt og tilbúin til að hlýja mér á hverjum morgni. 

p1010020.jpg

 

 


Hver stjórnar þínu lífi?

Baráttan við að hafa val og vald á eigin lífi .. hugsað upphátt

free_will ...

Ekki veit ég hvenær forritunin byrjar, sumir segja að hún hefjist í móðurkviði.  Ef að móðirin hlustar á tónlist hafi það t.d. ákveðin áhrif og líðan móður hafi einnig áhrif á fóstur.   Samkvæmt því hefjast utanaðkomandi áhrif í móðurkviði.  En hvað um það – þau hefjast alveg örugglega þegar við erum fædd. Þá byrja lætin og bægslagangurinn. Hvernig er umhverfið? ..  Við erum klædd í föt og svo byrjar gúgúdada,  fólk að tala við okkur á barnamáli, í flestum tilfellum ofursætt – en sum börn  lenda því miður hjá vondu fólki. 

En reiknum með svona þokkalega normal aðstæðum þar sem við njótum ástar og umhyggju.  Ef við erum stelpur er farið að segja „oh hvað hún er dæt“ ..  og strákur  „oh hvað hann er mikill nagli“ eða eitthvað álíka.  Pinku svona kynja-eitthvað hefst mjög snemma.  Alveg óvart – og kemur fyrir okkur öll.  Við fáum fyrirmyndir og skilaboð hjá fjölskyldunni okkar, hvað má gera og hvað ekki.  Fyrst þykir öllum voða fyndið og krúttlegt þegar við prumpum án þess að roðna, svo fer einhver að segja okkur að það sé ekki pent að prumpa eða ropa fyrir framan aðra og þá skömmumst við okkar ef það kemur fyrir.  Sumir læra það að vísu aldrei, en það er önnur saga. 

Við förum svo í leikskóla og lærum þar, grunnskóla, framhaldsskóla flest, háskóla ... sum.  Alls staðar eru kennarar, leiðbeinendur, fyrirmyndir.  Líka í sjónvarpinu, tölvunni, bókum .. alls staðar í umhverfinu.

Við lærum rétt og rangt og við lærum að velja og hafna – eða hvað? ...  Stundum lærum við nefnilega ekki að velja og hafna.  Við látum velja okkur og hafna okkur.   Við ráðum ekki alltaf við það, en gætum í raun ráðið betur við það ef við fylgjum eigin sannfæringu – sem reyndar kemur oft úr röddum fortíðar og alls þess sem er í kringum okkur.  Þess vegna er svo mikilvægt að kafa djúpt í sjálfa/n sig og þekkja EiGIN vilja.   Jeminn!.. hvað það getur samt verið snúið, og hvað það er djúpt stundum í þennan frjálsa eigin vilja.   Frjálsan frá áreiti fortíðar og fyrirmynda.  Er hægt að komast að þessum vilja? ..  Er ekki mikilvægast að spyrja sig „hvað vil ég“  og stunda heiðarleika við sjálfa/n sig? ..

Ég hef ekki svörin, en ég held að ef við erum meðvitað að leita að þeim séum við líklegri til að finna þau.  Hvað vilt þú í raun og veru?   Vilt þú þetta eða hitt vegna þess að hinir vilja það eða finnst það flott, eða viltu það vegna þess að það er þinn einlægur vilji? 

„Vilt þú leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns“ er spurt í fermingunni.   Þarna er ekki spurt „vilt þú gera“  heldur „ vilt þú leitast við“?     Hvernig getur fjórtán ára barn svarað þessu –  úff.. Mikið á barnið lagt.  Og fullorðna fólkið kemur sér ekki einu sinni saman um hvað það er að vera kristin manneskja.

Það fyrsta sem kemur í hugann, þegar við erum spurð að einhverju,  er oftast rétt.  Um leið og við förum að ritskoða viljann þá truflast hann af alls konar áreiti.  Hugurinn fer að gúgla svör annarra við sömu spurningu.  Nei, þessi sagði þetta og hinn sagði hitt.  Hvað finnst mér í raun og veru? ..  

Er mín niðurstaða  asnaleg eða hallærisleg?  Það er ekki til neitt svoleiðis svar.   Hversu oft hefur þú ekki verið með svarið og breytt því við ritskoðun eigin hugsana?  Svo kom í ljós að þú hafðir rétt fyrir þér. 

Við höfum vilja og við höfum val.  Verum okkar eigin "puppet master"   .. hreyfum okkur til hægri ef við viljum fara til hægri og vinstri ef við viljum fara til vinstri.  Að sjálfsögðu verðum við að taka tillit til laga og reglna (nú eða taka afleiðingum þess að brjóta þær)  og þegar við förum til hægri og/eða vinstri að við rekumst ekki á næsta mann eða stígum á tær einhvers.

Leyfðu ÞÉR að ráða,  ekki gefa út leyfisbréf fyrir aðra að ráða þínum skoðunum,  hvort sem það er val í pólitík, trúarbrögðum,  smekk, ástar- eða vinarsambandi.  Spurðu þig og svaraðu hratt – ekki hika,  ...

þú veist best hvað þú vilt.


Dellulaus forseti ...

Einn af mínum uppáhaldsprófessorm talar oft um bréf í skeytastíl, þ.e.a.s. þegar fréttirnar eru skrifaðar í fljótheitum og lítill þráður á milli þeirra.  Ég, í minni (oft of miklu) tölvunotkun, hef tekið eftir því að ég hugsa stundum í svona skeytastíl eða Facebook-statusum.  Ég fór í smá sveitaferð og ákvað að skilja tölvuna eftir heima í rúman sólarhring, en ég losnaði ekki við statusana úr hausnum. (Þarf eflaust lengri "afvötnun") 

Þar sem ég var að aka hálfmeðvitundarlaus undir Hafnarfjalli hlustaði ég á fréttir, fyrst um eitthvað Dellusafn sem verið er að setja á laggirnar á Flateyri, í næstu frétt kom Ólafur Ragnar forseti og fór að tala um hans  "hans heilagleika páfann" .. - heilagleikatalið fór eitthvað í pirrurnar á mér, eflaust vegna pirrings á yfirborðsmennsku .. og þá kom þessi Facebook status í hugann - og ég held að ég hafi sagt það líka upphátt: 

"Finnst að Ólafur Ragnar Grímsson eigi heima á Dellusafni" ... 

Þrátt fyrir þetta skyndihugmynd, þ.e.a.s. þetta með forsetann á dellusafnið, þá verð ég að segja það að mér fannst það rétt niðurstaða hjá dellukallinum  að beita málskotsrétti varðandi Ixxxxx (er komin með ofnæmi fyrir þessu svo ég skrifa það ekki að fullu), þegar  svona stór hluti þjóðarinnar kemur með áskorun um það og ekki síður vegna þess að málið er það stórt að það vissulega varðar alla þjóðina.

Fleiri statusar sem komu í hugann úr sveitaferð: 

  • sneiðir niður sveppi á Landnámssetri og fær borgað í mat 
  • hitti Mr. Skallagrímsson "in person" ..
  • stjörnubjart í Huldukoti 
  • á systur sem skar sig næstum á púls (óvart) ..
  • sofnaði yfir Disney mynd um kjúkling
  • heimsótti góðan vin á Snæfellsnesið
  • fauk heim og sparaði með því bensín..
  • íhugar dellulaust forsetaframboð

Smá svona "andans" í þjóðmálaumræðuna ...

Okkur mörgum líður eins og Ísland sé í einhvers konar "allt að fara til andskotans" ástandi í efnahagsmálum og pólitík.  Vissulega hafi komið kreppa og efnahagshrun, en úrvinnslan sé einna verst. Það er að segja hvernig uppbygging hefur farið fram, eða hvernig hún hefði átt að fara fram.  Þar er hver höndin upp á móti annari, en vantar mikið upp á "Love, peace and harmony" .. eða ást, frið og samkennd.

Nú standa mál eins og Icesave og skólamálin hæst - og ekki að ástæðulausu.  Þarna er annars vegar verið að ræða fjárhagsgrundvöll eða hluta fjárhagsgrundvallar þjóðar, og hins vegar menntunargrunn þjóðar.  Það er ekkert smáræði.  

Grunnurinn, eða stoðirnar skipta nefnilega öllu máli, og að þeim ber að hlúa og þær skal styrkja. 

Þegar að svona herjar á, eru margir kvíðnir, leiðir, þungir, vonlitlir o.s.frv. (ég verð bara leið af því að skrifa svona mikið af neikvæðum orðum!!!) 

Við þurfum að hleypa inn fersku og jákvæðu lofti, fylla lungun af gleði og kærleika og sjá hvort að með því er ekki hægt að fara að starfa saman - en ekki sundur eins og búið er að gera undanfarið.  Breyta niðurrifi í uppbyggingu.  Því að t.d. þessi niðurskurður í skólamálum er ekkert annað en að rífa stoðir undan þjóðfélaginu!  Það þarf að horfa í yfir-yfirstjórnun, bílastyrki, fríðindi,  stjórnarsetuþóknanir (ofan á súperlaun) öll þessi "duldu" laun, sem að almennt launafólk fær ekki og gætu verið, þegar saman safnast, peningar sem gætu nýst til að viðhalda og bæta um betur skólakerfið og fagmennskuna.  Það þarf að fara fram á mannsæmandi lágmarkslaun, OG það má alveg líka setja hatt á hámarkslaun.  Ég fullyrði að það hefur enginn gott af því að fá meira en milljón í laun á mánuði! ..   (reyndar er það óþarflega há upphæð).  "Toppurinn"  þarf líka að átta sig á því að ef að grunnurinn hrynur þá hrynur hann með og hvar stendur hann þá, þegar að ekki er lið til að halda honum uppi? 

En hvað getum við gert, hér og nú?  Byrjað á því að breyta hugarfarinu, hugsað jákvætt, dregið að okkur jákvæðni eins og segulstál og sent alla okkar jákvæðu orku í allar áttir. 

"Low energy attracts low energy. By
changing your inner thoughts to the
higher frequencies of love, harmony,
kindness, peace, and joy, you'll attract
more of the same, and you'll have
those higher energies to give away."
           Dr Wayne Dyer 

(Lausl. þýðing) Veik orka dregur að sér veika orku. Með því að breyta hugsunum okkar í sterkari orkusvið kærleika, samkenndar, góðvildar, friðar og gleði, dregur þú að þér hið sama, og þú hefur þessa sterku orku að gefa. 

Tölum fallega um hvert annað - við erum öll jafngild sem manneskjur og eigum að njóta virðingar og mannhelgi sem slík.  Hvað við gerum og störfum er svo önnur "ella" .. en það er auðvitað plús að það sé virðingarvert og sé í þágu bæði okkar og samfélagsins. (Ekki bara okkar) 

(Fyrir raunvísindamennina: Hér er orka ekki eðlisfræðilegt hugtak ;-)) ..


Jarí, jarí á sunnudagsmorgni ... og þrjú mikilvæg atriði til að öðlast hamingjuna

Góðan dag, hér ætla ég aðeins að tala um daginn og veginn, sem sumir kalla "jarí, jarí".. 

Ég er búin að vera lasin eiginlega alla vikuna og var orðin nett óþolinmóð að fá hausinn á mér aftur í lag (eins og hann hafi einhvern tímann verið það?) og heilsuna. Þetta er allt að koma. Ég reyndi samviskusamlega að mæta í vinnu á fimmtudag, en bara svitnaði og kólnaði til skiptis og höfuðið virkaði ekki alveg, mundi ekki einu sinni lykilorðið inn á tölvuna mína, sem er mjööög einfalt.  Af þessum orsökum missti ég líka af vinnustaðagleðinni sem var á föstudag, sem mér finnst ferlega leiðinlegt, því það er gaman að kynnast nýjum vinnufélögum í gegnum annað en bara að vinna saman. 

Nóg um það, ég var að horfa á hálfgerða hryllingsmynd í gærkvöldi, einhvers konar samsæriskenningu um Elítu í Ameríku sem stjórnaði heiminum. Meira að segja gæti stjórnað því hvar hvirfilvindar lentu með einhverri rafeindatækni. Þetta var ekki bíómynd heldur heimildarmynd!!  Hverju á maður að trúa?  En auðvitað dreymdi mig illa eftir svona samsæriskenningar. Þeir sögðu frá því að þessi Elíta stjórnaði efnahagskerfi heimsins. Árið 2011 á dollarinn að falla það hratt að fólk í BNA á ekki eftir að hafa efni á að versla sér í matinn,  það verði þó til nægur matur í hillum búðanna.  Ég slökkti á þessu í miðju kafi, en sýndist að þeir væru búnir að ákveða þriðju heimsstyrjöldina 2012 líka.  Það er einhver Lindsey Williams sem segist vera í sérstöku sambandi við þessa Elites - en svarið við hugmyndum hans má sjá hér: 

Í gær fékk ég hringingu frá Saga film - en ég er á skrá þar sem aukaleikari, og beðin um að koma í smá "gig" í dag. Ég fer í það í smástund en svo er aðal "gigið" að fara með mömmu í boð til Margrétar konunnar hans Jóns frænda heitins, sem hefði orðið 80 ára 26. janúar sl. hefði hann lifað blessaður. 

Gaman hvað þau eru ræktarleg,  föðurfjölskyldan mín, og dugleg að kalla fólk saman. 

Ég er enn að bíða eftir að fá íbúð, en er orðin mjög heit með íbúð hér á Holtsgötunni í sama húsi og Hulda systir.  Ég sakna fjölskyldulífs MJÖG mikið,  langar ekkert meira en að sameina börnin mín, en það verður víst biðtími í það af ýmsum aðstæðum. Stærsta er auðvitað sú að sú elsta, Eva Lind, er í Danmörku með sína fjölskyldu. 

Ég er ungamamma í hjarta mínu, langar svo að hafa ungana mína undir vængnum - en veit að það er kolröng hugsun. Þeir eru löngu flognir úr hreiðrinu og orðin vel fleyg og þurfa ekki að vera undir væng móður sinnar.  Það er meira mín þörf en þeirra. 

Jæja, þetta var mitt jarí, jarí .. á sunnudagsmorgni.  Svolítið persónulegt - en það er ég. Ég er persónuleg og sit uppi með sjálfa mig. 

Að lokum; verð að deila þessu.  Var að lesa á bloggsíðu Magga Múr: 

Eftir tveggja áratuga íhugun hefur Abraham komist að þeirri niðurstöðu að þrjú atriði eru mikilvægust til að öðlast hamingjuna;

1. Hugsaðu góðar hugsanir.

2. Drekktu meira vatn.

3. Andaða djúpt. 

www.abraham-hicks.com  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband