Færsluflokkur: Lífstíll
17.4.2011 | 23:20
Ný blaðsíða í hverju andartaki ...
Mikið erum við heppin að nýtt upphaf hefst við hvert andartak. Nýtt andartak er nýtt upphaf, auð blaðsíða til að skrifa upp líf okkar .. og það dásamlega er að það er ekkert að óttast, hugurinn flytur mig hálfa leið - og hjartað alla leið
...eða eins og segir í textanum í (lofgjörðar)laginu Thank you - með Dikta:
"the book is open now and the pen keeps on writing
the story of my life; it starts right here
now I reach the stars, can grab them and hold them
with no fear "...
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sextán ára fékk ég vinnu við Verkamannabústaðina í Reykjavík. Það er skemmst frá því að segja að vinnuflokknum mínum féll næstum aldrei verk úr hendi. Það var ekki vegna þess að verkstjórinn okkar, roskinn fyrrverandi bóndi, væri svona duglegur við að reka á eftir okkur. Heldur vegna þess að hann var svo góð fyrirmynd. Hann mætti alltaf stundvíslega, byrjaði fyrstur að vinna bæði á morgnana og eftir matar og kaffipásur og við höfðum aldrei geð í neitt annað en að fylgja honum eftir. Létum hann s.s. ekki standa einan og vinna.
---
Eftir því sem ég hef meiri samskipti við börn og unglinga verður þetta orðatiltæki: "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft" sterkara í mínum huga. Við getum reynt að kenna þeim og segja þeim endalaust til, en ef við erum ekki sjálf fyrirmynd þá er það sem við segjum orðin tóm og hafa lítið sem ekkert innihald.
Mæður sem eru sífellt að tala um megrun, óánægðar með sjálfsmyndina og stunda niðurbrjótandi sjálfstal þurfa ekki að vera hissa þegar dóttir þeirra fetar sama veginn. Faðir sem reykir er ekki sérlega trúverðugur forvarnarfulltrúi barna sinna. Þetta eru bara tvö dæmi af handahófi, það má líka íhuga hvernig foreldrar leysa úr deilumálum. Sama hvað þau eru lærð í fræðunum, það er framkvæmdin sem skiptir máli. Það er fyrirmyndin sem þau gefa sem skiptir máli.
Ef við lítum á skítkast sem einhverjir hafa tamið sér í já-og nei umræðunni undanfarið mega margir hugsa sinn gang. Eru börnin og unglingarnir að hlusta og/eða lesa?
Börnin læra af því sem fyrir þeim er haft.
Ég held að við þurfum öll að líta í eigin barm og spyrja okkur: "Hvers konar fyrirmynd er ég?" .. því að við erum svo sannarlega öll kennarar og getum haft varanleg áhrif á óharðnað ungviðið, til ills - en sem betur fer líka til góðs. Að sjálfsögðu getum við líka verið fyrirmyndir hvers annars, auk þess að leita utanaðkomandi fyrirmynda.
Enn á ný: "Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar" .. höfum framboðið af því góða meira en af hinu illa, því svo sannarlega hljótum við öll að óska þess að börnin læri hið góða.
Ég tek hér úr eigin reynslubanka (banka sem er ekkert að fara á hausinn), ég hef ekki alltaf verið góð fyrirmynd, stundum bara alveg hræðileg. En við lærum svo lengi sem lifum, og nýjasta fyrirmyndaæfingin mín, sem verður vonandi að lífsstíl er að hætta slæmu umtali um aðra, og svo líka um sjálfa mig! Það er áskorun!
- Veitum hinu góða í fari náungans athygli og verum óspör á hrósin þegar vel er gert
- Berum gagnkvæma virðingu fyrir hvert öðru ung og gömul, jafnvel þó að við höfum ólíkar skoðanir og berum virðingu fyrir okkur sjálfum
- Tölum ekki illa um náungann - það kemur engum að gagni, ekki sjálfum okkur, þeim sem hlustar eða náunganum
- Hlustum af athygli á það sem aðrir (börn sem fullorðnir) hafa að segja (ekki vera að undirbúa svar á meðan hinn talar - þá ertu með athygli á sjálfum þér en ekki náunganum)
- Verum ekki dómhörð
- Fyrirgefum
- Reynum að setja okkur í spor annarra
- Sýnum þakklæti
- Brosum
- Verum heiðarleg
- Verum góðar fyrirmyndir
- þú mátt gjarnan bæta við þínum ráðum í athugasemdum ;-)
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.4.2011 | 15:03
Ég er hjá mér ..
Enn er ég að bögglast með Mátt viljans, í tvennum skilningi. Ég er að lesa bókina hans Guðna Gunnarssonar og svo er ég að vinna með mátt míns vilja.
Guðs er vissulega mátturinn og dýrðin, en mátturinn og dýrðin er líka okkar og fyrir mér er þetta ekkert sem er aðskiljanlegt. Ein bestu orðin sem lýsa þessu koma fram í þessum orðumi:
Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.
Þetta ljóð er eftir Steingrím Thorsteinsson sem var uppi frá 1831 - 1851.
Í Biblíunni stendur:
"Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð." Jóh. 8:47
Davíðssálmur nr. 23, Drottinn er minn hirðir er ein af mínum uppáhalds hvatningarleiðum, t.d. til að sigrast á einhverju sem ég óttast að takast á við. Í bók Guðna Gunnarssonar skiptir hann til gamans (og alvöru) út Drottinn og setur "ég" í staðinn. Það er áhugavert og eflandi að lesa það. Það er ekki gert til að gera lítið úr Guði, heldur til að ítreka þennan mátt sem er bæði Guðs og manna, óaðskiljanlegur. Því til stuðnings, fyrir þá sem vilja leita staðfestingar í Biblíunni má t.d. bara lesa sköpunarsöguna þar sem stendur að Guð hafi skapað karl og konu í sinni mynd. Þau eru sköpuð til að skapa, sköpuð til að lýsa sem ljós heimsins.
Ég er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum læt ég mig hvílast,
leiði mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
Ég hressi sál mína,
leiði mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns míns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert íllt,
því ég er hjá mér,
sproti minn og stafur hugga mig.
Ég bý mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
ég smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi mínu
bý ég langa ævi.
Ég er minn hirðir
mig mun ekkert bresta.
Þennan sálm geta allir sungið, landamæralaust og í vináttu við sjálfa sig og aðra. Það er svo mikilvægt að eiga vináttu sjálfs sín, því að vissulega þekkjum við það flest að versti óvinurinn, sá sem hindrar okkur í að komast áfram í lífinu, getur leynst í okkur sjálfum.
Ég man eftir að hafa farið á fyrirlestur hjá Guðna, á tímabili sem ég var frekar ósátt við lífið og tilveruna. Fannst ég einmana og afskipt, en þegar ég kom heim hugsaði ég hvað ég væri frábær félagsskapur sjálfrar mín, heppin að eiga MIG.
Guðni fjallar um Dal dimmunnar, "þegar blekkingunni sleppi komum við í dal dimmunnar" til að komast í gegnum þennan dal þurfum við að vera okkar eigið ljós og njóta dalsins. Nóttin er ekki slæm, myrkrið er ekki slæmt þegar við göngum í gegnum það í ljósi.
Nóttin er spennandi því þá sofum við og kveikjum oftast á draumunum okkar. Nóttin er ekkert til að flýja, heldur til að dvelja í og njóta, á sama hátt og gott er að dvelja í deginum og njóta. Ef við erum alltaf að bíða eftir að það komi nótt og bíða eftir að það komi dagur þá njótum við hvorugs.
Dveldu í sjálfum/sjálfri þér, dveldu í Guði (eða því afli sem þú kýst eða upplifir) dveldu á þeim stað sem þú ert stödd/staddur í og þannig hljótum við að lifa í hinu margrómaða Núi, ekki satt? ..
Skrifað uppí rúmi með sjálfri mér og lap-toppnum mínum (að vísu) og á meðan að ég skrifaði steingleymdi ég að ég væri með bullandi höfuðverk, sem brýst nú fram sem óður væri! ..
Eigum góðar stundir með sjálfum okkur og öðrum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.4.2011 | 15:50
Samskipti - hamskipti
An Excerpt from
The 100/0 Principle
eftir Al Ritter
Hver er áhrifaríkasta aðferðin við að skapa og viðhalda frábæru sambandi við aðra? Það er 100/0 meginreglan. Þú axlar fulla ábyrgð á þér og á sambandinu, býst ekki við neinu á móti (eða 0 á móti). (Þarna er verið að tala um skilyrðislausan kærleika, þar sem ekki er alltaf verið að ætlast til einhvers í staðinn ekki: "If youll scratch my back I will scratch yours" ..
Þetta er fæstum okkur eðlislægt að ætlast ekki til að fá eitthvað til baka. það þarfnast mikils sjálfsaga og skuldbindingar í sambandinu og að vera meðvituð um að gefa og gera 100 prósent.
Þessi 100/0 meginregla gildir í samskiptum okkar við fólk sem er okkur of mikilvægt til þess að vera sífellt að dæma það, eða bregðast við því í stað þess að velja okkur viðbrögð gagnvart því. Þetta getur átt við starfsfélaga, viðskiptavini, fjölskyldu og vini.
Hvernig gerum við þetta þá?
Stig 1 - Taktu ákvörðun um að þú getir látið sambandið ganga upp.. gerðu það síðan. Berðu virðingu fyrir hinni manneskjunni og sýndu henni hlýhug, hvort sem hún á það skilið eða ekki.Stig 2 - Ekki búast við neinu í staðinn, núll og nix.
000000
Stig 3 - Ekki leyfa neinu sem hin manneskjan segir eða gerir (hversu pirrandi sem það er)að hafa áhrif á þig. Með öðrum orðum, ekki bíta á agnið.
(- þetta er svaka góð samlíking, þá hugsum við okkur að við séum fiskurinn og hinn aðilinn veiðimaðurinn - um leið og við pirrumst, ergjum okkur, eða látum hafa neikvæð áhrif á okkur, erum við búin að bíta á agnið, föst á önglinum og dinglum þar, kveljumst jafnvel vegna þess)
000000
Stig 4 - Hafðu úthald, með því að halda tign þinni, virðingu og hlýhug. Við gefumst oft of fljótt upp, sérstaklega þegar aðrir svara ekki í sömu mynt. Mundu að búast ekki við neinu á móti.
Stundum, reynist sambandið ögrandi, jafnvel eitrað, þrátt fyrir 100% staðfestu og sjálfsaga. Þegar það gerist þarftu að forðast að vera sá eða sú sem er uppfullur af þekkingu, "Hinn Vitandi" (stundum kallað beturvitringur) og skipta yfir í hlutverk "Þess Lærandi" .. Forðastu yfirlýsingar/hugsanir hins vitandi, eins og "þetta mun ekki virka" "Ég hef rétt fyrir mér, þú rangt" "Ég veit þetta en þú ekki" "Ég skal kenna þér" "Þannig er þetta bara" "Ég þarf að segja þér það sem ég veit" o.s.frv.
Í staðinn skaltu nota yfirlýsingar/hugsanir þess sem Lærir eins og "Leyfðu mér að finna út úr aðstæðum og átta mig á því sem er í gangi." "Ég gæti haft rangt fyrir mér." "Ég er að pæla hvort að þetta hefur eitthvað gildi." o.s.frv. Með öðrum orðum, sem Lærandi, sýndu áhuga, vertu forvitin/n.
Mótsögnin í meginreglunni
Þetta getur hljómað undarlega, en eftirfarandi er mótsögnin: Þegar þú tekur einlæga ábyrgð á sambandi, velur hin manneskjan, oftar en ekki, lika að taka ábyrgð. Þar af leiðir að þetta 100/0 samband breytist fljótlega yfir í eitthvað sem lítur út eins og 100/100. Þegar það gerist, verða straumhvörf í lífi einstaklinganna sem um ræðir, lið þeirra, stofnanir og fjölskyldur.
--
Fyrirsögn mín var samskipti - hamskipti. Hér að ofan skrifaði ég straumhvörf. Getur verið að við getum lært af þessu? Hvernig eru samskiptin í dag. Erum við alltaf að ætlast til að fá borgað? Erum við fúl út í allt og alla því að okkur finnst við vera að gera allt fyrir alla en fáum ekkert til baka. Getur verið að það sé vegna þessa viðhorfs, að vera með tilætlunarsemi? Við foreldrar ættum kannski að hugsa þetta, makar o.s.frv.
Hvað finnst þér? Getur þetta passað? Ég gæti haft rangt fyrir mér?
Annars er sagt að einhver maður hafi sagt einhvers staðar:
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra" ... talandi um meginreglur!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.3.2011 | 07:40
"Ekki gera drauma súra" ..
Eitt af því sem ég heyrði nýlega var þessi setning:
"When the time is on you start and the pressure will be off" ..
Það sem mér datt helst í hug var frásögn systur minnar sem sagðist hafa verið á leiðinni að taka til í geymslunni sinni í langan tíma, var með það hangandi yfir höfði sér og svo loksins þegar hún dreif í því þá tók það 15 mínútur og var mikill léttir. (Ég er reyndar með nokkur svona "unfinished business" sem væri gott að klára og tengi því vel við þetta, efast ekki um að þú sért það líka!)
Að taka til í geymslu er svo sannarlega enginn draumur. En þetta virkar svipað. Við erum með bók í maganum, við erum með alls konar hugmyndir og drauma sem eru að gerjast í okkur. Hugmyndir sem við geymum og geymum og spurningin sem kemur þá upp hversu langt geymsluþolið er. Geta draumar súrnað?
Það er talað um "pressure" í enska máltækinu. Pressan kemur að sjálfsögðu oft innan frá. Pressan getur líka verið tákn um eldmóðinn til að gera hlutina, svona "Carpé Diem" .. grípa daginn, grípa tækifærið þegar það berst upp í hendur þínar. Ekki hika við þegar að tækifærið býðst. Hvort sem þú býður þér það sjálf/ur eða það kemur utan að frá.
Ég á mér drauma og flest eigum við drauma. Spurning hvort að við þurfum að fresta þeim eða hvort við getum byrjað að láta þá rætast, og spyrja okkur - hvað stoppar þig? Er það eitthvað utanaðkomandi eða ert þú að stöðva drauma þína sjálf/ur? Hver er þín stærsta hindrun?
Ég veit svarið fyrir mig: ÉG ...
p.s. pældu aðeins í hver þín stærsta hindrun er - og hvaða úrtölurödd eða raddir þú heyrir. Ég veit að ég er mín stærsta hindrun og stunda niðurbrot með reglulegu eða óreglulegu millibili, ef það er ekki ég þá gef ég út leyfisbréf fyrir aðra að gera það, alveg í tonnum sko, jafnvel raddir úr fortíð eru með leyfisbréf!
.. Eða kannski gaf ég út leyfisbréf sem þarf að ógilda, þykist vera búin að átta mig á þessu öllu, en það er stutt í teygjunni sem kippir manni í gamla farið og þess vegna er mikilvægt að halda henni strekktri og það gerum við með að vera meðvituð um mátt hugans.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2011 | 07:44
Manneskja- ekki eins og þú, heldur bara þú ..
Á frábæru námskeiði í Opna Háskólanum í HR um lífsgæði, fengum við fyrirlestur og æfingar í jóga. Vænt þótti mér um að læra að gælunafnið mitt Jóga þýðir "Union" eða sameining, ekki skóla - heldur líkama og sálar.
Auður Bjarnadóttir hjá Jógasetrinu var leiðbeinandi okkar, með þetta líka nærandi og jákvæða viðmót.
Við gerðum froska-, hunda-, fjalla-, trjáa- og ég veit ekki hvað- æfingar og allt með gleði. Það var mjög áhugavert að prófa þetta og reglan var að dæma okkur ekki.
Úff, það er erfitt og datt ég iðulega í það að dæma mig fyrir stirðleika. Skamma sjálfa mig fyrir að hafa ekki verið að hreyfa mig nóg undanfarið.
Í staðinn fyrir að skammast í sjálfri mér á ég auðvitað bara að byrja á 0 punkti, með hreina blaðsíðu og nýta þessa upplifun og draga af henni lærdóm. Jú, ég þarf að liðka mig og hreyfa meira. Ég held að Jóga gæti alveg orðið leið Jógu!
En þetta er bara forsagan, þó að margt sitji eftir eftir að hlusta á Auði og ég hafi skrifað niður hvaða reykelsi hún notaði og ýmsan fróðleik, þá sagði hún okkur söguna af manni sem fór að læra í Sanford háskóla. Pabbi hans gaf honum í "veganesti" að sama hvað hann lærði og gerði, alltaf yrði einhver sem skaraði fram úr honum. (Stundum "pain in the ass" eða verkur í rass þessir foreldrar!).
Sonurinn svaraði þá, "það er ekki rétt - enginn getur orðið betri ég en ég" ..
Auðvitað eigum við að leitast við að vera besta eintakið af okkur sjálfum. Rækta þær gjafir og gáfur sem okkur eru gefnar. "A gift" er gjöf á ensku, en þýðir líka gáfa. Það er ekki að ástæðulausu. Það er eiginlega bara hirðuleysi að fara ekki vel með það sem okkur er gefið. Gáfurnar okkar, hæfileikar okkar eru fræ sem við þurfum að vökva, gefa birtu og yl, akkúrat til að þær dafni.
(Smá fróðleiksmoli úr Biblíunni - þar er talað um talentur og hvernig við förum með þær, en auðvitað eru talenturnar bara hæfileikar, sbr. talents á ensku.)
Það er mikilvægt að grafa ekki talentur sínar, hylja ekki hæfileika sína, heldur einmitt að láta ljósið skína á þig og hæfileika þína til þess að þú náir að skína.
Allir hafa hæfileika, en á mismunandi sviðum. Það er mikilvægt að lista upp sína hæfileika - sína kosti, því þannig er auðveldara að rækta þá. Ef þú ert í vafa, spurðu þá fólkið í kringum þig. Hvaða kosti hef ég? .. Það á eftir að koma þér á óvart hvað þú hefur í raun marga kosti. Sjálfsþekking er mikilvæg, einmitt til þess að við getum kannast við og ræktað hið góða, það sem við veitum athygli vex. (Það er staðreynd).
Þegar við áttum okkur á því að engin/n verður betri við en við, þá er líka mikilvægt að sættast við okkur sjálf, og reyndar ekki bara að sættast, heldur að þykja vænt um okkur sjálf.
Það verður aldrei neinn betri þér í að vera þú .. takmarkinu er náð þegar við höfum gert okkar besta, en ekki besta einhvers annars!
Þú ert dásamleg sköpun,
sem ert gerð til að blómstra og ilma
Gefa angan þína öðrum
svo þeir fái að blómstra og ilma.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2011 | 07:40
Froskasaga (sein)froskasaga? ...
Tveir forvitnir froskar féllu ofan í stóra rjómakönnu, ekki spyrja mig hvernig þeir fóru að því!
Það var hátt upp á brún og annar froskurinn gafst fljótlega upp, sá ekki tilganginn í því að sprikla þarna og lét sig sökkva til botns.
Hinn froskurinn var þrjóskari og spriklaði og spriklaði og hrópaði á hjálp.
Allt í einu fann hann fast land undir fótum, og gat gripið í brún rjómakönnunnar og stigið upp úr! Ribbid ..
Hvað gerðist? ....
Mér var sögð þessi saga fyrir nokkrum árum og hef oft notað hana síðan, ekki síst fyrir nemendur sem eru í uppgjafarhug. Ef við spriklum nógu lengi og gefumst ekki upp þá eru miklar líkur á því að rjóminn þeytist og verði að smjöri!
Ég þekki ekki uppruna þessarar sögu, en hún er vel þess virði að dreifa áfram.
p.s. flestir sjá að "pointið" með þessari sögu er hvatning til að gefast ekki upp þrátt fyrir að aðstæður virki jafnvel vonlausar, en orðið tilgangur skiptir líka stóru máli í sögunni. Þó við komum ekki auga á tilganginn hér og nú með því sem við erum að gera, þá sjáum við hann oftar en ekki eftir á.
p.p.s. (tveimur tímum síðar)
Fann við einfalda leit uppruna sögunnar, sem var reyndar í ljóðformi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.3.2011 | 08:30
Lausnin er ..
Að mér sækja mörg mál og spurningar, bæði mín eigin og annarra. Ég fórna oft höndum upp í loft og spyr hvað á ég að gera???? og hef komist að því að það er bara góð leið - því að þegar ég fórna höndum er ég um leið að biðja almættið um aðstoð. "Come what may" ..
Eitt af því sem kom í fangið á mér við svona "fórnarhandaathöfn" var að breyta um fókus, setja hann af vandamálinu yfir á lausnina og finna svo leiðir að lausninni. Lausnin er s.s. markmiðið.
Hvar er ég stödd í dag svona hamingjulega séð á skalanum 1-10 og svo spyr ég mig, hvar vil ég vera stödd á skalanum 1-10? Vilja ekki allir vera staddir á 10?.. Ef ég er stödd á skalanum 6 í dag, hvað skortir upp á að ég t.d. kæmist upp á 7 eða 8? ..
(Það skal tekið fram að 10 er þegar við toppum, það er flott að vera á 7 - 8! .. Við verðum líka að fara aðeins niður á milli til að toppa aftur).
Það getur verið ýmislegt tengt:
- efnahag (get ekki greitt reikninga, get ekki leyft mér neitt)
- sambandslegt (ósætti við maka, makaleysi, ósætti við systkini, fjölskyldu, vini)
- vinnu eða námstengt (atvinnuleysi, óánægð í vinnu/skóla, gengur illa í vinnu/skóla)
- heilsufarslegt (veikindi, andleg eða líkamleg, hreyfingarleysi)
- tómstundir (vantar áhugamál, vantar tíma til að sinna áhugamálum)
...
Eflaust mætti tína fleira til, en þarna eru svona ýmis atriði sem koma í hugann að mætti skoða, stundum er aðeins eitt af þessum fimm sem er vandamál, stundum er tilveran bara öll einhvern veginn úr skorðum og þessi atriði skarast vissulega stundum. Heilsan er t.d. hluti af þessu öllu. Hreyfing gæti verið lykill að því að allt þetta færi að rúlla o.s.frv.
Maður gæti kannski gefið sér einkunn fyrir hvern stað. Hver er stærsti póllinn hjá þér? .. Hvar skorar þú lægst? Hvar skorar þú hæst?
Ok, ef við höfum fundið það út - þá er næst að spyrja sig, hvert er vandamálið og hvernig leysum við það. Hvernig komumst við á þann stað sem okkur langar að vera og hvaða úrræði eru í boði?
Oft er þetta spurning um vilja. Hver og ein/n verður að spyrja sig - hvað vil ég? Hvernig vil ég að samband mitt sé við aðra, hvernig vil ég standa efnahagslega, náms/atvinnulega, hvað vil ég hafa fyrir stafni í tómstundum o.s.frv.
Þá er næst að skrifa niður hjá sér framtíðarsýnina, hvernig hún er ef hún er upp á 10! ..
Dæmi eftir eitt ár (og nú fer ég út fyrir öll persónuleg mörk, vegna þess að ég er að gera þetta til að ÞÚ getir gert þetta fyrir þig).
Í dag er 27. mars árið 2012, ég þarf ekki að hafa áhyggjur af peningamálum því að ég er farin að vinna við fyrirlestra og ráðgjöf, sem gefa mér nóg til framfærslu og ég hef efni á að gauka að börnunum mínum við og við, ég er í góðu sambandi við fjölskyldu mína og við hittumst reglulega og höfum gaman saman, börnunum mínum gengur vel og líður vel og þau eru miklir vinir, ég er ástfangin af manni sem er sálufélagi minn og samstarfsmaður í blíðu og stríðu og við styrkjum og virðum hvort annað. Við förum reglulega saman í göngutúra, og við stórfjölskyldan gerum það líka, þó ekki eins oft. Ég er að dunda mér við að mála myndir fyrir fólk, með skilaboðum um hvernig það á að taka á sínum málum. Ég nýt hvers dags og tek á málunum þegar þau koma í fang mér. Ég elska lífið.
Þetta gæti verið 10 hjá mér, hvernig er 10 hjá þér?
Eftir að þú hefur skrifað þetta niður, þá þarf að fara að forgangsraða og skoða, hvað get ÉG gert?
Ég hef það eftir Sigursteini Mássyni hjá Geðhjálp að fyrsti steinninn sem best sé að setja í krukkuna sé ávallt hreyfingin og ég er sammála honum. Hreyfa sig og anda að sér frísku lofti daglega er grundvöllur. (Auðvitað hafa ekki allir þennan möguleika, t.d. þeir sem eru á sjúkrabeði, en þá er t.d. gott að hlusta á hugleiðslu sem innifelur í sér hreyfingu og hægt sé að komast á einhvers konar flug) og fríska loftið er ókeypis fyrir hvern sem er.
Samskipti koma sterkt inn á eftir hreyfingunni, okkur líður varla vel í nokkru sem við gerum ef að hnökrar eru á samskiptum. En hvað getur þú gert ef að allir hinir eru leiðinlegir? .. Átt þú þá bara að vera í sama gír, eða getur þú lagað eitthvað hjá þér. Getur verið að þú sért sjálf/ur ekki að tækla fólk eins og þú gætir?
Samskipti okkar eru því miður oft forrituð inn í okkur frá bernsku, við dettum í sömu svörin og viðbrögðin sem við vitum að eru ekki rétt, sem við pirruðum okkur á varðandi foreldra okkar. Allt í einu erum við orðin dómhörð, leiðinleg, ófús til sátta o. s.frv. allt eins og við viljum akkúrat EKKI vera. Þá verðum við að fara í "endurforritun" því að það sem við höfum gert hingað til er ekki að virka fyrir okkur. (Þetta er að vísu efni í annan pistil en t.d hægt að lesa sér til um meðvirkni).
Áður en pistillinn verður allt of langur - sem hann eflaust er orðinn - ætla ég að endurtaka það sem málið snýst um. Lausnin er:
Að átta sig á að um vandamál sé að ræða
Sjá fyrir sér hvernig maður vill að lífið sé án þessa vandamáls
Stíga skref fyrir skref að lausn og þá helst með því að horfa inn á við, hvað get ÉG gert, það er miklu auðveldara að breyta sjálfum sér en öðrum (en þegar að aðrir sjá breytinguna á þér, gætu þeir farið að gera slíkt hið sama).
Einfalt dæmi: Ef þig langar í hrós, en færð aldrei hrós, .. farðu að hrósa! .. Þá ert þú orðin fyrirmynd.
Ekki sitja ein/n með vandamál, leitaðu hjálpar því það er viska að viðurkenna vanmátt sinn, deila með öðrum sem eiga kannski úrræði og vilja gjarnan hjálpa. Að biðja aðra um hjálp er ein stærsta gjöf sem þú getur gefið viðkomandi, því í því felst tilgangur okkar; að hjálpa hvert öðru.
Hér er ég ekki að tala um algjört hjálparleysi, að gera aldrei neitt sjálf/ur og biðja strax aðra um að gera fyrir sig, þannig er enginn sáttur. Ég er að tala um hjálp í vanda - nú og auðvitað má biðja um hjálp í gleði. Vinkona mín bað mig nýlega um hjálp varðandi veislustjórnun. Það gladdi mig, því að með því sýndi hún að hún trúði á að ég gæti hjálpað, hefði eitthvað til málanna að leggja.
Á sama hátt, þegar þið eruð beðin um hjálp í vandamáli - þá gleðjist, því að viðkomandi hefur það traust á ykkur að hann telur að þið hafið eitthvað til málanna að leggja. Trúir á vináttu og/eða fagmennsku, innsæi o.s.frv. þitt. Það er því verið að sýna þér virðingu með því.
Lausnin er að gera sér grein fyrir stöðu sinni, spyrja sig hvort að maður sé sáttur við hana, ef ekki að leita lausna. Þær eru alltaf til.
Stundum er djúpt á þeim, en þá þarf að kafa - stundum niðrá botn, en svo er hægt að spyrna frá botni.
Við verðum að flæða - en ef að rennslið stöðvast í eða úr þá verður til fúll pyttur. Það flæðir til okkar og það flæðir frá okkur. "Let the river run" ..
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
26.3.2011 | 17:10
Játning kaup(g)óðrar konu ....
Á þessari mynd er kjóll (sem var á 50% afslætti), lífrænt ræktað "Cakao nibs" og "Mulberry berries" sem konan ætlar að nota út á morgunkornið. Solid ávaxtaorkudrykkur, sem var frumkvöðlaverkefni nemenda í FG, smekkur fyrir Evu Rós sem á stendur "Það geta ekki allir verið gordjöss, eins og ég" og samfella fyrir hana sem á stendur "Ég er ekki að kúka ég er bara að hugsa mjög stíft"
(amma með frekar spes húmor). Svo er bolur fyrir Elisabeth Mai sem á stendur "Little Miss Chatterbox" (gæti tilheyrt ömmunni að vísu) og að lokum einhver ómissandi olíupenni sem á stendur "Deep relief" og það hefur ekkert með kynlíf að gera!
Þetta var s.s. uppskeran eftir að fara í Smáralind, sem ég venjulega forðast eins og heitan eldinn - og það sama má segja um Kringluna. Fór í þessa ferð með Huldu systur í þeim tilgangi að skoða sýninguna "Heilsa og hamingja" .. en hluti af góssinu er að sjálfsögðu fenginn þaðan!
Ég er að hugsa um að nota ráðið sem ég heyrði hjá konunni, sem setti visakortið sitt ofan í mjólkurfernu fyllta með vatni - og frysti síðan. Slæmt nefnilega að eyða meira en maður/kona aflar!
Þetta gerist sem betur fer ekki oft, .....
Heilsa og hamingja það er málið!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2011 | 08:27
Hugrekki .. að lifa af heilu hjarta
Ég hlustaði á mjög góðan fyrirlestur á ted.com í gær, þar sem Brene Brown sagði sína reynslu og frá sínum rannsóknum á Mætti berskjöldunar eða varnarleysis. "Power of Vulnerability" .. Ég er í vandræðum með þýðingu á þessu!
Það er hægt að skoða margt í þessum fyrirlestri,og ég er búin að skrifa marga punkta, en það sem mér er efst í huga núna er það sem hún minntist aðeins á en það er hugrekkið, eða "courage" ..
Íslenska orðið hugrekki bendir til hugans, en courage bendir til hjartans, en er komið af latneska orðinu core, sem þýðir hjarta. Á frönsku er hjartað coeur. Enskan tekur core og notar það fyrir kjarna.
En hugrekkið er eitthvað sem kemur frá kjarnanum, frá hjarta manneskjunnar. Það er þó umdeilt í andans fræðum hvort að kjarni hugsunar manneskjunnar sé í maganum (gut feeling) eða hjartanu (follow your heart). Kannski bara bæði. Naflinn er a.m.k. miðpunktur og skil ég vel pælingarnar með það - enda með nafnið á blogginu mínu "Naflaskoðun" .. sem þýðir auðvitað að líta inn á við, líta í sinn innsta kjarna.
En hvaða hugrekki er Brene að tala um? Hún er að tala um hugrekkið:
- við að sætta sig við að vera ófullkomin
- við að leyfa sér að lifa,
- við að lifa eins og við viljum sjálf
- að lifa eins og við erum í innsta kjarna en ekki eins og utanaðkomandi vilja eða halda að maður vilji lifa
- til að meta sjálfa sig sem gilda manneskju
--------
Fólk sem er tilbúið að faðma sjálft sig fyrst og svo aðra, er hugrakkt.
Fólk sem er tilbúið að vera það sjálft, láta af því að vera það sem aðrir vildu að þeir væru.
- til að samþykkja varnarleysi sitt eða viðkvæmni sína, varnarleysi er nauðsynlegt.
Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat. En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum.
Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást - þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv. Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.
Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis. Nýlega var grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.
Hugrekki - er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við. Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.
Við þurfum að hafa hugrekki til að ganga inn í aðstæður, án þess að vita hver útkoman verður. Hætta að strengja öryggisnet fyrir tilfinningar.
Ástæðan fyrir því að við oft höfnum ást er óttinn við að vera hafnað sjálfum, eða óttinn við að særa aðra. Það þýðir að við erum farin að setja óttann í forgang fyrir ástina. Hugrekki er að fara af stað þrátt fyrir óttann, þannig sigrumst við á honum. Útkoman verður bara að koma í ljós, en ef við stöðvum okkur vegna óttans verður engin útkoma og við lifum í stöðnun.
Það sem hér á undan kemur er blanda af mínum eigin hugrenningum og Brene Brown.
Hlustið endilega á þessa Brene Brown (smellið á nafnið hennar). það er margt sem hægt er að læra af henni. Ég er að safna mér fyrirmyndum og hugmyndum í mína körfu, hún er komin.
Fann svo þessa fallegu mynd af jörðinni sem hjarta - það er gott að hugsa til hennar sem hjartað sem slær fyrir okkur öll sem eitt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)