Færsluflokkur: Bloggar

TÁP OG FJÖR OG FRÍSKIR MENN

Til hamingju með BÓNDADAGINN synir Íslands. 

MINNI KARLA

Táp og fjör og frískir menn
finnast hér á landi enn,
þéttir á velli og þéttir í lund,
þrautgóðir á raunastund.
Djúp og blá blíðum hjá
brosa drósum hvarmaljós.
Norðurstranda stuðlaberg
stendur enn á gömlum merg.

Aldnar róma raddir þar,
reika svipir fornaldar
hljótt um láð og svalan sæ,
sefur hetja' á hverjum bæ.
Því er úr doðadúr,
drengir, mál að hrífa sál,
feðra vorra' og feta' í spor
fyrr en lífs er gengið vor.

Höf texta: Grímur Thomsen


Bullað frá Bessastöðum ..

Jæja, ég horfi hér út um gluggann og sé að allt er dottið í dúnalogn. Sólin sest og stilltur sjór. Svei mér þá ef það er ekki fjólublá birta sem stafar frá Bessastaðakirkjunni, en það er kannski bara eitthvað í augunum í mér.

Ég man þá tíð þegar Ísland logaði í ís, já, skrítið - einhvers konar frost og funi sem kallað var IceSave. Nú er það aðeins ritað í sögubækur og verkefni í Íslandssögukennslu,  ekki beint einfalt verkefni.  Merkilegt að það sem gerðist að litla Ísland varð allt í einu nafli alheims og allra augu beindust að því,  fjármálahamförum þessa litla lands þannig að jafnvel náttúruhamfarirnar sem urðu í Haiti urðu eins og aukafrétt og náði aldrei eins miklum hæðum og komust ekki að í Silfrinu.

Að vísu tóku fréttirnar frá Haiti kipp  þegar nokkrir Íslendingar með brotna sjálfsmynd bentu á að við  værum þátttakendur í "The Amazing Race" þ.e.a.s.  hverjir værum fyrst af efnahagslega hamfarasvæðinu yfir á náttúruhamfarasvæðið.  Tugir þúsunda létu lífið, tugir þúsunda voru særð, tugir þúsunda ráfuðu um í nálykt.  En alltaf hafði IceSave vinninginn, enda þar um að ræða milljarða. 

Beiskir bikarar voru bornir á borð, barmafullir bikarar.  Þjóðin kaus um kaleikinn og hún valdi að drekka ekki úr honum, enda ógeðis drykkur og blandaður með ólyfjan eins og þeirri sem Íslendingur nokkur sem  tældur var í Tælandi drakk. 

Í framhaldinu sprakk stjórnin, Jóhanna fór á Náttúrulækningahælið og Steingrímur í Detox til Jónínu, reyndar líka útrásarvíkingarnir en önnur eins garnahreinsun hafði sjaldan átt sér stað.  Það þurfti að kveikja í London Docs vindlum og hella úr Old Spice flöskum til að þola fnykinn sem upp gaus þegar sú hreinsun var yfirstaðin. 

Davíð Oddsson hafði horft 50 sinnum á "The Secret" og séð sig fyrir sér í aðstæðum kóngs og forseta til vara.  Reyndar var konungsdæmið inni við sundin blá, hann hélt bara að hann væri kóngur, en það gerði ekkert til því að hann fékk kórónu, skikkju og allt. 

Dorrit og Óli komu aldrei heim frá Indlandi, en versluðu sér Yoga Center þar sem þau gátu hlaupið um nakin í sólskininu, eins og börn á vordegi.  Dorrit þó með skartgripi og Ólafur með gleraugun. 

Þegar þarna var komið vantaði bæði "forseta vorn og ríkisstjórn" þrátt fyrir að mikið væri beðið fyrir hvoru tveggja í kirkjum landsins.  Nú voru góð ráð dýr, reyndar eins og allt á Íslandi svo það var engin nýlunda.

Páll Óskar, ofurhetjan úr áramótaskaupinu, var sjálfkjörinn  forseti og ríkisstjórn; einræðisherra, eða réttara sagt "Queen of Iceland"  

Gleði, glimmer og sparnaður voru hans einkunnarorð. Hann samdi jafnframt við Bretland og Holland að syngja IceSave lögin, og klára það á 10 árum með uppklappi og á handahlaupum. 

Þjóðin klappaði og stappaði og landsmenn fóru í halarófum um sveit og borg í conga dansi og Jenka. 

Allir þjóðarleiðtogar voru sáttir við Palla, því hann var eitthvað svo "International" 

Og hvað er ég svo að gera á Bessastöðum?  Nú bara að horfa út um gluggann. LoL

 


F fyrir helvítis fokking fokk? ..

Ég fylgdist mikið með Frjálslyndum á sínum tíma þar sem ég var tengd þangað inn. Fylgdist með ósættinu (það þurfti að vísu ekki að vera innanbúðar til að fylgjast með því) og fleira. Sá að sá sem átti að leiða réð ekki við hjörð sína og hefði átt að stíga til hliðar og gefa betra manni/konu færi á að spreyta sig.

Ég segi það ennþá. Guðjón Arnar er vænn maður, að ég best veit, en það þýðir ekki endilega að hann hafi þá forystuhæfileika sem þarf. Ásýnd flokksins þarf endurnýjun og hana mikla. Og þá er ég ekki að tala um að setja þar Sturlu vörubílstjóra.  

Svo ættu þau að breyta því hvernig þau tala um sig, tala um  frjálslynd eins og Vinstri græn gera. Ekki frjálslyndir,  það mildar ásjónu flokksins og minnir okkur á að þar séu konur innandyra líka. 

PR, PR, PR ... er málið, fá sér talsmenn og konur sem setja ekki allt í háaloft og fá alla á móti sér. 

Ég öfunda ekki fólk sem er að dansa í pólitískum dansi, en einmitt vegna þess ástands sem nú ríkir er enn meiri ástæða til að vanda sig. 

Ef að Frjálslynd stokka sín spil og leggja þau á nýjan leik, þá eiga þau ágætis von á að ná árangri. 

Það er ekkert smá sem má gera við þennan bókstaf; F .. F fyrir fjölskylduna, F fyrir frelsi, F fyrir frið, að vísu ef það er notað rangt verður það F fyrir "helvítis fokking fokk." LoL


mbl.is Frjálslyndir í framboð í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fire and Ice(Save)

Ég verð að viðurkenna að ég er ein af þeim sem hefur verið að vænta Heklugoss (enda Hekla komin á tíma) þess vegna er það varla undarlegt að mig dreymdi eldgos í Heklu í nótt. 

 

Það óvænta var að ég var stödd í sumarhúsi og það óhugnanlega var að hraunstraumur var kominn upp að pallinum og var einhvern veginn allt um lykjandi.

Eigandi hússins var kona, veit ekki hvaða kona og var hin rólegasta. Mér fannst hún frekar vitlaus, því að auðvitað myndi kvikna í timburhúsinu þegar glóandi hraunið færðist alveg að! 

 

 

 

Það náði þó aldrei að kvikna í og allt í einu var gjóskan sem hafði svifið í loftinu (já þetta var draumur) orðin að fallega löguðum snjókristöllum sem svifu um og kældu síðan hraunið.Ísinn bjargaði, og vissulega hef ég verið að hugsa, ekki aðeins um Heklugos undanfarið heldur orð annað sem flestir eru orðnir lifandis, skelfing, óskapar þreyttir á. Já, djúp er blessuð undirmeðvitundin. Þetta var svona öðruvísi útfærsla á IceSave.


ALÞINGI 64. fundur 29.12.2009 .. essasú?

Var að fylgjast með farsanum á Alþingi í Íslendinga með öðru auganu og þá eflaust öðru eyranu líka. 

Það sem ég heyrði voru upplýsingar um að: 

Utanríkisráðherra segðist ekki hafa verið á fundi sem lögmannsstofan Mischon de Reya segir hann hafa verið á. Einhver þingmaðurinn spurði þá hver það hafi eiginlega verið sem hafi sagst vera utanríkisráðherra á fundinum, þá heyrðist kallað úr sal Alþingis "essasú" .. Wizard

Forsendur hafa breyst eftir að ný skjöl voru lögð fyrir, einhver skjöl sem Steingrímur J. taldi ekki skipta máli, en skipta greinilega miklu máli og búin að koma öllu og öllum í uppnám. 

Leiðréttið mig ef ég fer rangt með. 

 


mbl.is Meginefnið liggur skýrt fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Englar í snjónum ..

Einu sinni var maður, þessum manni leið ekki vel og var hnípinn og beygður inn í sjálfan sig. Hann hnipraði sig saman, kraup og var með hendur í krosslagðar yfir brjóstið. Umgjörðin í kringum manninn var lítið kalt og dimmt herbergi, með litlum glugga.

Í huga mannsins var myrkur og í kringum hann var myrkur og algjör nótt.

Svo reis sólin, og geislar hennar náðu að brjótast inn um litla gluggann og sleikja kinn mannsins. Hann varð forvitinn, leit upp í átt að glugganum og sá þá sólina brosa blíðlega. Afar rólega stóð maðurinn upp, teygði úr sér og það birti yfir andliti hans og það birti yfir huga hans.

Hann stóð nú uppréttur og teygði handleggina upp í loftið. Maðurinn upplifði umbreytingu sína. Hann varð smátt og smátt léttur, bæði í anda og líkama og hann fann hvernig hann flaug af stað, líkaminn varð eins og fínleg snjókoma í formi fiðrildis.

Maðurinn flaug út um gluggann og hann flögraði upp í morgunhimin. Hann brosti þegar hann sá börn að leik, þar sem þau lágu hlægjandi í snjónum og bjuggu til engla.

Snow20Angel_main_Full


Frá fótanuddtækjum til Hvannadalshnjúks ..

Við erum svo krúttleg þjóð, við Íslendingar. Við tökum svo innilega þátt í mörgum bólum, það er aldrei neitt hálfkák í dellunum hjá hinni íslensku þjóð. 

Einhver töffarinn tók upp á því að synda í sjónum og var talinn hetja, nú er ekki þverfótað fyrir sjósundhetjum og þykir næstum orðið "klént" að stunda sjósund ..

Fólk leggur sömuleiðis í löngum bunum á Hvannadalshnjúk og gildir það sama og um sjósundið, vinkona mín ætlaði að gorta sig af því við sjúkraþjálfann að daginn áður hefði hún "brugðið sér" á Hnjúkinn, en hann svaraði að bragði "Ha, varst þú þar líka - skrítið að ég skyldi ekki rekast á þig, ég gekk líka á Hvannadalshnjúk í  gær" .. LoL 

Esjan er auðvitað bara orðin eins og Laugavegurinn, enda komið kaffihús við Esjurætur til að sinna öllu göngufólkinu ..

Nýjasta bólan er reyndar mjög jákvæð bóla - eins og þær áðurnefndu,  sem vonandi springur ekki, en úr hinum óvæntustu skúmaskotum spretta nú hönnuðir og íslenskur heimilisiðnaður hefur sjaldan blómstrað eins og núna á krepputímum. 

Fólk sem hefur gengið með drauma um að hanna og framleiða hefur heldur betur sannað málsháttinn um neyðina sem kennir naktri konu að spinna.

Það hefur ýmislegt sprottið fram á undanförnum árum sem hefur notið vinsælda hjá þjóðinni, eflaust man ég ekki eftir öllu en datt í hug eftirfarandi:

  • Fótanuddtæki
  • Sólbaðsstofur
  • Videóleigur
  • Jólaglögg
  • Pizzastaðir
  • Sjósund
  • Soda Stream
  • Herbalife
  • kórastarf
  • Blogg
  • Facebook
  • Mannauðsstjórnun
  • Esjuganga
  • Hvannadalshnjúkur
  • íslensk hönnun ..

Ég ætlaði að kaupa KYNLÍF og fá hamborgarhrygg í kaupbæti en ......

Ég var í konuboði nýlega með Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur, sem var að gefa út bókina KYNLÍF, heilbrigði, ást og erótik. Þar sagði hún okkur  að nú færi bókin að koma í búðir. Ég frétti síðar að verið væri að selja bókina og kaupendur fengju hamborgarhrygg í kaupbæti! 

kynlif.jpg

Þetta mundi ég áðan og lagði s.s. leið mína í Eymundsson í Austurstræti,  sá bókina og spurði afgreiðslukonu hvort maður fengi ekki hamborgarhrygg í kaupbæti. Svipurinn sem hún gaf mér var svolítið sposkur, en hún kannaðist ekkert við dæmið.  Ég áttaði mig þá á því  að líklegast væri það önnur verslun sem væri með tilboðið.  Blush

Ég ákvað að fresta kaupunum, kom heim og fletti upp á síðu ráðgjafastofu Jónu Ingibjargar:  http://www.kynstur.is/  en þar stendur: 

"5. desember 2009.

Bókabúð Máls og menningar ætlar að snúa blaðinu við.

Þegar keypt er eintak af bókinni minni Kynlíf - heilbrigði, ást og erótík fylgir hamborgarahryggur frá Gallerí Kjöt með í kaupbæti."

Nú er bara spurning hvort að tilboðið gildir ennþá!  Smile

....

 

 


Morgunsjónvarp fyrir enok ... "Gay Education"

Á bloggi sem ég setti hér inn á undan fékk ég spurningar frá manni sem kallar sig enok (með litlu- ei)  ég veit ekki aldur á þessari persónu, en henni er umhugað að ég "sjái ljósið" að samkynhneigð sé EKKI eðlislæg.  Þeir sem nenna geta skoðað samskiptin hérna,  en mig langar að setja hér inn smá fræðslu fyrir enok þar sem hann áttar sig vonandi á því hvar ljósið skín. 

 

 


Þórarinn Þorkell Jónsson, minning

 Þórarinn Þorkell Jónsson, fv. tengdafaðir minn fæddist í Reykjavík 7. júní 1938. Hann lést á líknardeild Landspítalans Kópavogi 23. nóvember sl. Foreldrar hans voru hjónin Jón Þórarinsson, skipstjóri frá Ánanaustum í Reykjavík, f. 29.6. 1905, d. 10.11. 1967, og Guðrún Þorkelsdóttir, húsfreyja frá Valdastöðum í Kjós, f. 11.8. 1911, d. 28.11. 1982. Systkini Þórarins eru: 1) Halldór Heiðar, f. 18.10. 1935, d. 10.10.2009, eftirlifandi maki Helga Jóhannsdóttir, f. 10.11. 1935. 2) Guðmundur Reynir, f. 10.1. 1940, maki Kolbrún Halldórsdóttir, f. 28.10. 1941. 3) Ragnheiður, f. 10.5. 1942, d. 15.11. 1954. 4) Halldóra Borg, f. 30.7. 1945, d. 10.5. 2002, eftirlifandi maki Kristján Kristjánsson, f. 18.4. 1944, samb.k. Kristín Einarsdóttir. 5) Þórleif Drífa, f. 6.9. 1951, maki Finnbogi B. Ólafsson, f. 1.2. 1949. Hinn 20. febrúar 1960 kvæntist Þórarinn Þorbjörgu Jónsdóttur, f. 20.12. 1939. Foreldrar hennar voru Jón Eiður Ágústsson, málarameistari Reykjavík, f. 24.10. 1909, d. 27.4. 1974, og Helga Þorbergsdóttir húsfreyja, f. 7.11. 1909 á Þingeyri við Dýrafjörð, d. 14.8. 1978. Börn Þórarins og Þorbjargar eru: 1) Jón, f. 26.7. 1960, maki Birna María Antonsdóttir, f. 8.3. 1977. Börn Jóns eru: a) Eva Lind, f. 2.9. 1981, maki Henrik Jörgensen, f. 25.1. 1974, börn þeirra eru Ísak Máni, f. 27.4. 2004 og Elisabeth Mai, f. 7.5. 2009. b) Jóhanna Vala, f. 25.9. 1986. c) Þórarinn Ágúst, f. 25.9. 1986, samb.k. Ásta Kristín Marteinsdóttir, f. 27.8. 1991. Móðir þeirra er Jóhanna Magnúsdóttir. 2) Helga Halldóra, f. 27.4. 1965, maki Dagur Jónasson, f. 17.10. 1961. Börn þeirra eru: a) Breki, f. 18.3. 1995. b) Hulda, f. 2.1. 1997. Sonur Dags er Kristmann Freyr, f. 22.1. 1986, samb.k. Auður G Pálsdóttir, f. 27.2. 1988. 3) Bryndís, f. 26.9. 1971, maki Halldór Geir Þorgeirsson, f. 6.11. 1970. Börn þeirra eru: a) Snær, f. 21.12. 1997. b) Eik, f. 24.10.,2000. c) Nói, f. 28.8. 2002. d) Ilmur, f. 29.12. 2006. 4) Þórarinn Eiður, f. 20.10. 1976, samb.k. Alexandra María Klonowski, f. 8.10. 1979. Þórarinn stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með verslunarskólapróf 1957. Að því loknu hélt hann til Englands til enskunáms. Þórarinn fór í löggildingarnám í endurskoðun við Háskóla Íslands 1962-1965 og hlaut löggildingu sem endurskoðandi 31.1. 1966. Þórarinn fór ungur til sjós með Halldóri bróður sínum og föður þeirra. Hann starfaði síðan hjá Hirti Péturssyni endurskoðanda frá 1959 til 1962. Hann var skrifstofustjóri og síðan framkvæmdastjóri hjá Kristján Ó. Skagfjörð frá 1962 til 1973. Þórarinn hóf rekstur eigin endurskoðunarskrifstofu árið 1970 og starfaði sem endurskoðandi allt til dauðadags, lengst af á Grensásvegi 16 í Reykjavík, eða síðan 1987. Þórarinn sat í ýmsum stjórnum og nefndum, m.a. í aðalstjórn SÁÁ 1984-1990, í stjórn Þróunarsjóðs Lagmetis, í stjórn Kristján Ó. Skagfjörð 1992 og sem stjórnarformaður frá   1993-1997/8 og stjórnarformaður Þorbjarnar Fiskaness hf 2000-2004. Þórarinn var einn stofnfélaga Lionsklúbbsins Týs sem stofnaður var 1973. Þar gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum og var endurskoðandi klúbbsins frá upphafi. Hann spilaði bridge með Krummaklúbbnum og blak með Blakendum. Útför Þórarins fór fram frá Langholtskirkju í dag, þriðjudaginn 1. desember.

Mig langar að skrifa hér nokkur  þakkar- og minningarorð til afa barnanna minna; Þórarins Þorkels eða afa Kela og minnist um leið bróður hans Halldórs Heiðars eða Dóra sem var jafnframt tengdafaðir Björns bróður míns, en Dóri lést 10. október sl.

Enn á ný hefur verið hoggið skarð í samheldinn systkinahóp. Ragnheiður  var sú fyrsta til að fara, en hún lést aðeins 12 ára gömul, Halldóra Borg kvaddi síðan í maí árið 2002. Dóri í október sl. eins og áður hefur komið fram og nú rúmum mánuði síðar fellur Keli frá í nóvember.  Þau sem standa eftir úr systkinahópnum eru Guðmundur  Reynir og Þórleif Drífa.

Ég kynntist Dóra og þá Helgu konu hans áður en ég kynntist Tobbý og Kela, en bæði voru þessi hjón samrýmd hvort á sinn hátt. Helga og Dóri voru  eins og áður hefur komið fram  tengdaforeldrar Bjössa bróður og það var því skemmtileg tilviljun sem olli því að ég kynntist syni Kela og Tobbýjar; Jóni Þórarinssyni fv. eiginmanni  mínum og barnsföður. Börnin okkar eru því skyld í báðar ættir!

Þessi fjölskylda; afkomendur Guðrúnar  Þorkelsdóttur frá Valdastöðum í  Kjós og  Jóns Þórarinssonar  frá  Ánanaustum átti og eiga marga siði og hefðir eins og gengur og gerist í fjölskyldum,  en eftirminnilegust þykja mér  jólaboðin hjá ömmu Guðrúnu,  og seinna jóla-eða nýársboð í Kiwanisheimilinu í Kópavogi,  en toppurinn voru auðvitað fjölskylduferðirnar þar sem Dóra heitin stjórnaði jarðarberjagarði, hókí póki og fleiri fjörugum leikjum.

Ég man eins og gerst hafi í gær, eftir magnaðri spennunni þegar verið var að setja upp tjöldin, með sínu ómissandi tauti og röfli sem þó risti ekki dýpra en svo að það  breyttist í sælu og gleði um leið og tjöld voru risin og farið var að grilla pylsurnar.  Ættarhöfðingjarnir, eins og systkinin og makarnir kölluðu sig stundum, skiptust á að skipuleggja og alltaf var fjör, þó gengi stundum á með vondu veðri og vindum og í verstu tilfellum þyrfti að flýja. Ein slík ferð endaði í grillveislu í garðinum á Otrateig, en þar var það Keli sem var á sínum uppáhaldsstað, en það var  við grillið.

Það var einmitt á Otrateignum sem ég kynntist þessum elskulega hjónum með stóra faðminn fyrst, en síðan lá leið þeirra í Garðabæinn og þá í Hafnarfjörð og við bjuggum ávallt nærri.  Keli var einstaklega hlýr og yndislegur tengdafaðir og afi og áttu þau amma Tobbý alltaf pláss fyrir börnin mín enda voru þau mjög hænd að þeim og er andlát afa þeirra þeim afskaplega erfitt núna.  Við yljum okkur þó við góðar og fallegar minningar af afa, traustum og sterkum með sitt þó milda og kankvísa bros.

Bræðurnir Dóri og Keli áttu það sameiginlegt að heilsa eins og góðra herramanna er siður, með vænum kossi en nú verð ég að láta mér nægja að senda þeim fingurkoss þangað sem þeir eru nú saman komnir, ásamt foreldrum og systkinum sem á undan eru farin.  Þangað sem fjölskyldan mun að lokum öll koma saman í himneska fjölskylduferð þar sem kannski verður  örlítið tautað og röflað, en síðan sest niður við varðeld og sungið hver með sinni röddu.

Hugur minn er nú hjá ömmu Tobbý sem hefur staðið sterk við hlið afa í erfiðum veikindum, í gegnum súrt og sætt, hugur minn er hjá Helgu hans Dóra, einnig sterkri og duglegri konu og  hugur minn er einnig hjá Gumma og Þórleifu sem hafa nú á skömmum tíma misst tvo bræður. Börnum Kela;  Nonna, Helgu, Binnu og  Eisa  og börnum Dóra; Addý, Sissa, Rúna, Tóta og Krumma votta ég innilega  samúð mína, mökum þeirra og afkomendum öllum og öllum fjölskyldumeðlimum og vinum sem eiga um sárt að binda og sakna.

Elsku Keli, þakka þér fyrir mig,   Þakka þér fyrir að vera svona góður afi barnanna minna og þakka þér fyrir að vera þú. Heart

Jóhanna Magnúsdóttir  (Jóga)

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband