Færsluflokkur: Bloggar

HEIÐARLEIKINN kallar á þjóðina ...

Ég sat Þjóðfund í dag eins og margir vita eflaust nú þegar.  Ég var í slembiúrtaki eins og það er kallað. Ég kvartaði nú eitthvað þegar ég fékk bréfið að aldrei ynni ég í happdrættinu, en svo væri ég ein af 1200 sem lentu á Þjóðfundi! 

Ég kynnti mér þó fundinn, og sá að þetta var spennandi og var nú bara svolítið spennt að fara þarna og fá tækifæri til að tjá mig um gildi, stoðir og framtíðarsýn Íslands  en fyrstu markmið fundarins var að fá það fram. 

Í morgun var svo stóri dagurinn runninn upp, til að gera langa sögu stutta ríkti þar samhugur, samvinna, jákvæðni, vinátta og eitthvað í þessum dúr má áfram telja. Allir sem mættu voru augljóslega komnir til að vinna á uppbyggilegan hátt.

Ég sat á borði með 9  manneskjum sem voru mér ókunnar, en voru það ekki lengi þar sem við kynntumst fljótt og vel - og tókum þá ákvörðun í upphafi að vera "skemmtilegasta" borðið, þó ekki væri í raun nein keppni í því. Ég hugsa að þegar upp var staðið hafi öllum þótt þeirra borð skemmtilegast, sem er hið besta mál. 

Við ræddum fyrst um gildin og Þau gildi sem stóðu uppúr eftir að safnað hafði verið öllum spjöldum af borðunum og virtust liggja fólki mest á hjarta voru virðing, jafnrétti og svo stóra orðið HEIÐARLEIKI.  

þjóðin biður ekki bara um heiðarleika - hún ÖSKRAR eftir heiðarleika og heiðarleikinn öskrar á þjóðina. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu. Þjóðin, eða stór hluti hennar,  hefur verið kokkáluð, farið hefur verið á bak við hana af minnihluta hennar. Af fólki sem hefur leikið sér siðblint í Monopoly með peninga sem í raun voru ekki þeirra, heldur peninga öryrkjans, peninga barnanna, peninga sem áttu að fara í menntun og menningu. Ekki í einkalífeyrissjóð þeirra svo þeir gætu t.d. grillað gullkjöt við 600 m2 sumarhús  ..  

Hver lét þá svo hafa Monopoly-spilið með öllum peningunum, húsunum, hótelunum og götunum?

Eftir ruglið neyddumst við til að kjósa flokka til að stýra uppgjöri, sem innihalda aðila sem stóðu í baktaldamakki og óheilindum. Sem hafa otað sínum tota og ekki komið fram af heilindum.  

Þjóðin kallar eftir því að fá samvinnufúst fólk til að leiða. Ekki undir ægivaldi flokka sem eru uppteknir í skotgrafarhernaði eða ræðukeppnum.  Ekki fólk sem telur sig merkilegra en samborgara. Fólk sem sýnir hvert öðru og skoðunum hvers annars virðingu. (Er mikið af því á Alþingi?)  

Þjóðin kallar eftir heiðarlegum samskiptum, gagnkvæmri virðingu og upplýsingum.

Samskipti virðast vera það sem hefur skemmt fyrir á svo mörgum stöðum. Samskiptin skemmdu fyrir Frjálslynda flokknum, samskiptin skemmdu fyrir Borgarahreyfingunni, sem ég þó batt vonir við í síðustu kosningum.  Ég sá atkvæði mitt tætast og rifna vegna samskiptavandræða. 

Þjóðin kallar eftir jafnrétti, ekki bara sumra heldur allra, hún kallar eftir virðingu, og í því felst m.a. að við hana sé talað - og hún fái að tala og á hana sé hlustað. 

Á Þjóðfundi 14. október 2009 var það gert, ég vann vissulega í happdrættinu og mig langar að deila vinningnum með allri þjóðinni, því mér þykir vænt um land mitt og þjóð - og trúi að íslenska þjóðin geti komist í gegnum þessa flúðasiglingu sem framundan er með samstilltu átaki og að hún verði sem fyrirmynd í því að stuðla að heilbrigðu mannlífi og náttúru.  

HEIÐARLEIKI, VIRÐING OG JAFNRÉTTI séu leiðarljós í samskiptum okkar og í tengslum okkar við náttúruna og um leið ljós til annarra þjóða.  

Ef að við sem vorum þarna á fundinum í dag erum marktækt úrtak þjóðarinnar, höfum við sannað að þar sem viljinn er fyrir hendi er allt hægt. 

"Character is doing the right thing when nobody's looking.  There are too many people who think that the only thing that's right is to get by, and the only thing that's wrong is to get caught. "

~J.C. Watts  

Það má í gamni geta þess, að það komu fram mörg skemmtileg gömul gildi eins og; sjónvarpslaust fimmtudagskvöld,  læri í hádeginu á sunnudögum og síðan ekki svo gamalt gildi, en það er að stytta vinnuviku - þar sem það þætti fjölskylduvænna og í mörgum störfum þyrfti það ekki að minnka afköst. 

 


mbl.is Fólk logandi af áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rósemd og friður, með sól í hjarta og sinni ..

Nú er kominn tími til að temja (blogg)öldur, takast á við nýjan tíma og ný tengsl. Við göngum inn í daginn, væntanlega og vonandi með sól í sáttu hjarta þó að dimmur sé dagurinn. Verkefnin eru ærin, að sinna fjölskyldu, vinum og starfi. Ekki síst sjálfum sér, því að til þess að við getum sinnt öðru og öðrum þurfum við auðvitað að vera meðvituð fyrst og fremst um okkur sjálf. 

Það er mikilvægt að laða að sér hið góða, rækta það, vökva og vernda.

Grátt og úfið hafið439965007_f3fac16b53

stundum

þegar það var kyrrt


sólin skein


reri hún

litlum báti

inn í geislana

lagðist á bakið

og var ein með

sínum gula vini

sem sáldraði á hana

freknum


Ingunn Snædal          


Af hverju blogga ég?

Alveg frá því ég var unglingur hef ég verið að skrifa greinar.  Ég hef haft mikla þörf fyrir að koma mínum skoðunum á framfæri. Fyrsta greinin mín birtist í skólablaðinu ROPI í Fellaskóla, en þá var ég 13 ára. Það var grein sem hét "Umgengni" en þá ofbauð minni eitthvað umgengni sumra skólafélaganna. Smile

Seinna skrifaði ég svona grein og grein í Moggann og var einu sinni beðin um að skrifa á Tikinni, og auðvitað fékk ég svo mikla útrás þegar ég fór að læra að skrifa hugvekjur og prédikanir. 

Bloggið var mér því kærkominn vettvangur, byrjaði á blog.central.is og færði mig svo yfir á blog.is 

Reyndar byrjaði ég með aðra síðu, undir nafninu Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir, því ég var ekkert voða spennt fyrir því að t.d. nemendur væru að lesa það sem ég var að skrifa. 

En ég alltaf viljað koma til dyranna eins og ég er klædd og mun halda því áfram og skrifa ekkert hér sem ég þarf að skammast mín fyrir. 

Kosturinn við bloggið er að það er samræða, ég kasta fram mínum hugmyndum eða skoðunum og fæ svo endurgjöf eða "feedback" á það sem ég er að ræða. Það hlýtur um leið að kenna mér. 

Það sem ég á erfitt með að skilja eru bloggarar sem setja fram blogg og leyfa engar athugasemdir. Leggja meira að segja fram spurningar, sem þá líklegast hver og einn á að svara heima hjá sér í hljóði. Mér persónulega er oft mál að svara þessu fólki, sem stundum kemur fram með rangfærslur, eða að mig langar bara að segja þeim að ég sé hjartanlega sammála. 

Ég skora á alla athugasemdalausa bloggara að opna nú fyrir flæðið, þ.e.a.s. vilji þeir hlusta á einhverja aðra en sjálfa sig. 

Að sjálfsögðu er hundleiðinlegt að fá yfir sig dónaskap og leiðindi, og finnst mér að fólk eigi ekki að hika við að loka á slíkt. 

Tilgangur bloggsins, í mínum huga er að heyra sem flestar raddir, upplýsa og vera upplýst.

Já, já, láta ljós sitt skína, en jafnframt bæta á það með ljósi frá öðrum. 

Mér finnst mjög þægilegt viðmótið hér á blogginu á Mbl.is og ákvað að láta Davíð Oddsson ekkert fæla mig héðan. Vera mín hér er hvorki yfirlýsing með eða á móti honum. 

 

Hér eru nokkrar gamlar Moggagreinar, roðna nú svolítið yfir þessu, við þykjumst alltaf hafa þroskast svo mikið ;-) 

Orlofshús og hundahald, 1997

Sígarettan í sóttkví, 1999. 

Skytterí og skítkast, 2000

Verðum við einhvern tímann stór?, 2002

 

 


Fallin ...

Ég er bara fallin fyrir einhverri flensu. Ekki veit ég hvort að ég er með H1N1 en er búin að vera á flensubrún lengi. Byrjaði að fá í hálsinn í Danmörku og hósta, síðan búin að bryðja verkjatöflur til að vera í vinnunni mánudag og þriðjudag, en svo gafst ég upp í morgun og reyndar svaf alveg eftir hádegið og er nývöknuð. Þetta er frekar óheppileg tímasetning því að ég var s.s. að koma úr viku fríi og leiðinlegt að mæta ekki til vinnu. Get þó unnið slatta að heiman og svarað tölvupósti, fátt er svo með öllu illt ... 

Ég á ekki eftir að hafa mikla þolinmæði í að vera heima, og eins og mér þykir gaman að skrifa og lesa, er ég með svo mikinn hausverk að t.d. birtan af tölvuskjánum fer í augun á mér. Djúpar rökræður við bæði trúaða og trúlausa bloggvini mína á ég erfitt með stunda af sömu ástæðu, þ.e.a.s. höfuðverkur batnar ekki við djúphugsun.  Kristinn Theódórsson stakk upp á lestri þessarrar pdf bókar,  en ég komst á bls. 6 og var þá komin með klofinn heila. 

Það er kannski rétt að taka það fram að ég er heldur ekki með Gunnari í Krossinum.  Reyndar ekki með fullt af öðrum mönnum heldur, en það virðist vera "in" að afneita Gunnari. Tounge  Gamanaðessu.

Óska öllum systrum og bræðrum í flensu góðs bata og hugsum fallega til fólksins á gjörgæslunni og sendum þeim engla úr öllum áttum.

Fann einn sem ég væri alveg til að fá sendan: 

angelus9crop

 


mbl.is 6 á gjörgæslu með H1N1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningarbrot tengd Halldóri Heiðari Jónssyni, f. 18.10.1935 d. 10.10.2009

 Í dag er bæði gleði og sorgardagur og í morgun kom í hugann ljóðið hans Tómasar; Hótel Jörð, því að í dag á hún litla systir mín 41 árs afmæli og að í dag verður Halldór Heiðar Jónsson, tengdapabbi hans bróður míns og jafnframt bróðir fv. tengdapabba, kvaddur hinstu kveðju, en hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut, þann 10. október sl. liðlega viku fyrir 74 ára afmælisdaginn sinn.

Útför hans fer fram í Hjallakirkju í dag kl. 13:00

Ég kynntist Halldóri, eða Dóra eins og hann var alltaf kallaður fyrir liðlega 30 árum þegar Bjössi bróðir kynnti okkur fyrir tengdaforeldrum Ragnheiðar (sem er kölluð Addý) þáverandi kærustu sinnar, sem varð að sjálfsögðu kona hans og móðir barna þeirra síðar. Þar að auki ágæt vinkona mín og systkina minna og höfum við átt margar góðar "systra"- og fjölskyldustundir saman, og er skemmst að minnast Huldukotskvennaferðanna okkar og að sjálfsögðu Síldarmannagötuævintýris sem farið var nú á haustdögum.

Dóri pabbi hennar Addýjar kom mér fyrir sjónir í pari, parið við Dóra var að sjálfsögðu konan hans, kjarnorkukvenmaðurinn Helga Jóhannsdóttir og minntist maður sjaldan á annað þeirra í einu, HelgaogDóri var svona samföst stærð einhvern veginn, enda samhent hjón og áttu tómstundir og hugðarefni sameiginleg og þá helstan veiðiskap.

Okkur systkinum fannst fyndið að búslóð Helgu og Dóra var eiginlega öll eins og búslóð mömmu, og svo áttu þau Ford Escort eins og mamma. Einhver "lúmsk" tenging þarna í gangi og skemmtileg. Þarna kynntist ég líka Sissa, Rúna, Tóta og Krumma, en Addý átti sem sagt fjóra bræður - sem voru og eru reyndar enn miklir grallaraspóar og hafa það eflaust frá pabbanum.

Tenging mín við fjölskyldu Addýjar mágkonu varð seinna meiri, þar sem ég var gift Jóni Þórarinssyni, bróðursyni Dóra í 20 ár og höfðum við þá verið saman í tvö ár á undan eða frá 1980. Börnin okkar eru því skyld í bæði móður og föðurætt, enda eru sérstök bönd á milli þeirra og þá helst elstu dætra okkar; Birtu og Evu, en þær eru nær því að vera systur en frænkur í hugsun. Ég veit að dætrum mínum þykir vont að geta ekki fylgt Dóra í dag, en þær eru báðar búsettar erlendis.

Börn Guðrúnar Þorkelsdóttur frá Valdastöðum í Kjós  og Jóns Þórarinssonar frá Ánanaustum sem bæði eru látin, voru upphafleg sex talsins, en Ragnheiður sem var fædd 1942 lést aðeins 12 ára að aldri, og minnist ég þess þegar "amma Guðrún" eins og við kölluðum hana, sagði frá þeirri sorg að missa barnið sitt. Halldóra Borg, eða Dóra eins og hún var alltaf kölluð lést fyrir aldur fram árið 2002 og nú er enn hoggið í systkinahópinn þegar Dóri er burt kallaður.

Eftirlifandi systkini eru þau fyrrverandi tengdapabbi minn; Þórarinn Þorkell, Guðmundur Reynir og Þórleif Drífa, allt fólk sem hefur snert mitt líf á meiri eða minni hátt eins og þessi fjölskylda öll. Stórfjölskylduferðir voru farnar ár hvert og á meðan amma Guðrún lifði voru jólaboð hjá henni og síðar í Kiwanisheimilinu í Kópavogi.

Hvar kemur svo Dóri elskulegur inn í þennan mikla fjölskyldupakka. Jú, hann var svona þessi stapili, sterki - ekki beint málglaða týpan, en gaf samt ótrúlega mikið af sér með nærveru sinni og kímni. Svo mátti Dóri eiga það að hann klikkaði aldrei á kossinum og lét sér ekki nægja að heilsa fálega. Það var eitthvað mjög hlýtt við nærveru þessa stóra manns og ekki var hann með látalæti eða að sýnast og því var kveðjan alltaf einlæg.

Hugur minn er nú hjá systkinum Dóra og fjölskyldum þeirra og hugur minn er hjá börnum, tengdabörnum og barnabörnum Dóra. Hugur minn er síðast en ekki síst hjá Helgu sem eftir stendur eftir ein úr pari, en það er huggun harmi gegn að minning um góðan mann lifir og Helga á góða að sem munu án efa umvefja hana, en Helga hefur sjálf alltaf verið eins konar kjarni í fjölskyldu sinni og mun hún örugglega halda því hlutverki áfram.  

Heart

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag...


Eru raddir kvenna ekki eins merkilegar og raddir karla?

Svanur Gísli Þorkelsson spyr hvort að konur séu ekki eins vinsælar og karlmenn.  Ýmsar tilgátur um vinsældir karla á blogginu koma fram, en ég benti á eina staðreynd sem mér finnst vert að skoða.

Ef þú slærð upp síðunni www.blog.is þá eru blog höfð sem "Umræðan" ... skora á þig, lesandi góður eða lesönd góð Tounge, að prófa þetta einu sinni og skrifa hér hvaða fjölda kvenna þú færð og hvaða fjölda karla.

Þetta er EKKI vegna þess að karlarnir eru að skrifa miklu mikilvægari hluti og endilega það sem er "í umræðunni" .. við sköpum líka umræðuna. 

Bloggið er samtal, mjög mikilvægt samtal - þó misjafnlega extróvert sé. 

Ég fullyrði að það eru margar konur sem eru þess "verðar" að vera þarna uppi á panelnum. Ég reikna með því að mælistika stjórnenda sé sú að merkilegast sé það sem er almennt og samfélagstengt og allt sem lúti undir "persónulegt" eða tilfinningamál sé ómerkilegra. Ekki það að konur bloggi einungis á þeim nótum, en eflaust er það algengara.

Það er úreltur hugsunarháttur að mínu mati, því við getum svo sannarlega lært af því að lesa svolítið á tilfinninganótunum og tilfinningar eru ekki óæðri skynsemi og tja, kannski er bara svolítil skynsemi í tiflinningunum - án þess að fara út í það nánar.

Ásthildur Cesil hefur verið að skrifa undanfarið um missi sinn og fjölskyldunnar, skrifa um veggi sem hún gekk á í samfélaginu þegar hún var að berjast fyrir son sinn. Þetta er blogg syrgjandi móður sem ég tel að ALLIR hefðu gott af því að lesa. Þetta eru ekki hennar prívatmál, þetta varðar okkur öll. Þessi kona ætti að vera í umræðunni og reyndar margar góðar konur sem deila út "kærleika á línuna" trekk í trekk. Þetta eru bara dæmi, það eru margar konur sem eiga erindi á forsíðu ekki síður en karlarnir. 

Ég tel að ég hafi erindi í umræðuna og ég tel að margar konur hafi það ekki síður en umræddur fjöldi karla. Ekki vegna þess að þær eru konur, en vegna þess að þær hafa svo margt mikilvægt að segja. 

Það er eðlilegt að það sem er meira áberandi en minna sé meira lesið. Forsíðan er mest lesin en það sem er á bls 23  minna. Á því eru þó undantekningar. 

Hvers vegna eru konurnar faldar (nema í undantekningum) ? Er þetta tilviljun eða þykir forsíðuútvalningarmönnum það sem þær hafa að segja ekki eins merkilegt og karlarnir. 

Okkur veitir ekkert af að hlusta á raddir kvenna, Svanur Gísli og karlarnir eru jafnframt að rífast um hvaða trúarbrögðum þeir tilheyri sem séu herskáastir! Úúúú..  fer það eftir trú eða fer það kannski eftir kyni?  Svanur segir kristna herskáasta,  Skúli Skúlason múslima,  en sjálf setti ég  athugasemd inn eftir þessa athugasemd Skúla:

"Múslímar  í  Danmörk  eru  5%  af íbúum,  en  hirða  40%  af  Almannabótaféinu  og  víða  fylla  þeir  um  60-70%  af  fangelsisrýminu."

og athugasemd mín er svohljóðandi: 

"Þess má geta, talandi um fangelsi - að á Íslandi eru konur um 5% af þeim sem eru í fangelsum og karlar um 95% þar af leiðandi.  Býst við að meiri hlutinn séu kristnir karlmenn en eflaust blandað.

Feminismi er málið karlar mínir! Kissing"

Ef það væri hlustað á fleiri mæður, gæti verið að fangelsin væru ekki eins yfirfull? 

Vil líka taka það fram að það að segjast vera kristin í orði þýðir ekkert endilega að vera kristin á borði. (Kristin viljandi með einu - n í endann .. því að ég er að tala um bæði kynin) 

Feminismi fjallar um jafnan rétt karla og kvenna til að vera heyrð og að hin kvenlegu gildi sé metin jafn mikilvæg og hin karllægu. 

Prófaðu nú að slá inn www.blog.is og teldu konur og karla ...  tilviljun? eða eru konur ennþá viljandi eða óviljandi gerðar ósýnilegar?  

 


Ráð fyrir Róslín ..

Flest þykjumst við vita hvernig á að halda okkur í formi, en erum óttalega léleg við það. Róslín (15 ára) spurði mig nýlega hvað hún ætti að borða og hvað ekki. Hún er nefnilega að æfa sig upp í maraþonhlaup og vill líka borða hollt.  Þetta er svona það sem ég sé í fljótu bragði og auðvitað mega "betruvitringar" koma með góð ráð í athugasemdir:

Borða:

  • grænmeti
  • ávexti
  • brún grjón
  • sætar kartöflur
  • baunir
  • hnetur
  • speltpasta
  • túnfisk
  • speltbrauð
  • fisk
  • magurt lamba-og nautakjöt
  • skyr
  • hafragraut
  • kjúklingabringur

 drekka 2-3 glös af vatni á fastandi maga og tyggja matinn vel áður en kyngt er ..

Ekki að borða eða borða lítið af

  • sykur
  • hvítt hveiti
  • pizzur  (í lagi á föstudögum og þá bara 2 sneiðar án pepperonis)
  • franskar
  • allt djúpsteikt
  • feitar sósur (remúlaði, kokteilsósu o.svol.)
  • unnar kjötvörur
  • sælgæti
  • bakkelsi
  • ..

Svo þarf að hreyfa sig reglulega, það er nauðsynlegt fyrir líkama og sál! .. Alls ekki fara út í einhverjar öfgar því þá gefumst við fljótt upp. Ekki svelta sig, heldur borða oft yfir daginn (ca 5 sinnum)  og litla skammta. Alls ekki gleyma að borða. Passa sig á saltinu líka.

 

Njóta þess að borða - ekki borða með samviskubiti og brosa svo framan í heiminn......þegar búið er að stanga úr tönnunum ....  Grin

Sjá mynd í fullri stærð


mbl.is Pundið þyngist í Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband