HEIÐARLEIKINN kallar á þjóðina ...

Ég sat Þjóðfund í dag eins og margir vita eflaust nú þegar.  Ég var í slembiúrtaki eins og það er kallað. Ég kvartaði nú eitthvað þegar ég fékk bréfið að aldrei ynni ég í happdrættinu, en svo væri ég ein af 1200 sem lentu á Þjóðfundi! 

Ég kynnti mér þó fundinn, og sá að þetta var spennandi og var nú bara svolítið spennt að fara þarna og fá tækifæri til að tjá mig um gildi, stoðir og framtíðarsýn Íslands  en fyrstu markmið fundarins var að fá það fram. 

Í morgun var svo stóri dagurinn runninn upp, til að gera langa sögu stutta ríkti þar samhugur, samvinna, jákvæðni, vinátta og eitthvað í þessum dúr má áfram telja. Allir sem mættu voru augljóslega komnir til að vinna á uppbyggilegan hátt.

Ég sat á borði með 9  manneskjum sem voru mér ókunnar, en voru það ekki lengi þar sem við kynntumst fljótt og vel - og tókum þá ákvörðun í upphafi að vera "skemmtilegasta" borðið, þó ekki væri í raun nein keppni í því. Ég hugsa að þegar upp var staðið hafi öllum þótt þeirra borð skemmtilegast, sem er hið besta mál. 

Við ræddum fyrst um gildin og Þau gildi sem stóðu uppúr eftir að safnað hafði verið öllum spjöldum af borðunum og virtust liggja fólki mest á hjarta voru virðing, jafnrétti og svo stóra orðið HEIÐARLEIKI.  

þjóðin biður ekki bara um heiðarleika - hún ÖSKRAR eftir heiðarleika og heiðarleikinn öskrar á þjóðina. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu. Þjóðin, eða stór hluti hennar,  hefur verið kokkáluð, farið hefur verið á bak við hana af minnihluta hennar. Af fólki sem hefur leikið sér siðblint í Monopoly með peninga sem í raun voru ekki þeirra, heldur peninga öryrkjans, peninga barnanna, peninga sem áttu að fara í menntun og menningu. Ekki í einkalífeyrissjóð þeirra svo þeir gætu t.d. grillað gullkjöt við 600 m2 sumarhús  ..  

Hver lét þá svo hafa Monopoly-spilið með öllum peningunum, húsunum, hótelunum og götunum?

Eftir ruglið neyddumst við til að kjósa flokka til að stýra uppgjöri, sem innihalda aðila sem stóðu í baktaldamakki og óheilindum. Sem hafa otað sínum tota og ekki komið fram af heilindum.  

Þjóðin kallar eftir því að fá samvinnufúst fólk til að leiða. Ekki undir ægivaldi flokka sem eru uppteknir í skotgrafarhernaði eða ræðukeppnum.  Ekki fólk sem telur sig merkilegra en samborgara. Fólk sem sýnir hvert öðru og skoðunum hvers annars virðingu. (Er mikið af því á Alþingi?)  

Þjóðin kallar eftir heiðarlegum samskiptum, gagnkvæmri virðingu og upplýsingum.

Samskipti virðast vera það sem hefur skemmt fyrir á svo mörgum stöðum. Samskiptin skemmdu fyrir Frjálslynda flokknum, samskiptin skemmdu fyrir Borgarahreyfingunni, sem ég þó batt vonir við í síðustu kosningum.  Ég sá atkvæði mitt tætast og rifna vegna samskiptavandræða. 

Þjóðin kallar eftir jafnrétti, ekki bara sumra heldur allra, hún kallar eftir virðingu, og í því felst m.a. að við hana sé talað - og hún fái að tala og á hana sé hlustað. 

Á Þjóðfundi 14. október 2009 var það gert, ég vann vissulega í happdrættinu og mig langar að deila vinningnum með allri þjóðinni, því mér þykir vænt um land mitt og þjóð - og trúi að íslenska þjóðin geti komist í gegnum þessa flúðasiglingu sem framundan er með samstilltu átaki og að hún verði sem fyrirmynd í því að stuðla að heilbrigðu mannlífi og náttúru.  

HEIÐARLEIKI, VIRÐING OG JAFNRÉTTI séu leiðarljós í samskiptum okkar og í tengslum okkar við náttúruna og um leið ljós til annarra þjóða.  

Ef að við sem vorum þarna á fundinum í dag erum marktækt úrtak þjóðarinnar, höfum við sannað að þar sem viljinn er fyrir hendi er allt hægt. 

"Character is doing the right thing when nobody's looking.  There are too many people who think that the only thing that's right is to get by, and the only thing that's wrong is to get caught. "

~J.C. Watts  

Það má í gamni geta þess, að það komu fram mörg skemmtileg gömul gildi eins og; sjónvarpslaust fimmtudagskvöld,  læri í hádeginu á sunnudögum og síðan ekki svo gamalt gildi, en það er að stytta vinnuviku - þar sem það þætti fjölskylduvænna og í mörgum störfum þyrfti það ekki að minnka afköst. 

 


mbl.is Fólk logandi af áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er sammála þér að stærsta orðið er HEIÐARLEIKI, heiðarleiki er orðinn svo fágætur á Íslandi í dag.  Stjórnmálamenn og allir hinir líka ætti að skoða hug sinn og segja svo sannleikann.  Við sem þjóð þurfum á heiðarleika að halda. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.11.2009 kl. 01:25

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skilgreindu heiðarleika svona just for the heck of it.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.11.2009 kl. 05:07

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þitt innlegg Jóna Kolbrún og þakka bloggvináttu.  Það er örugglega ekki að ástæðulausu að þetta orð varð svona stórt eða umfangsmikið í umræðunni, en það er gildið sem fólk saknar í dag.  Vonandi þarf ekki að kalla fram heiðarleikann eftir einhver ár, vonandi verður hann uppi á borðum og þjóðin taki þetta til sín, þeir sem eiga það. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.11.2009 kl. 09:03

4 identicon

Vel að orði komist og algjörlega sammála.

Hef mikla trú á að þessi fundur muni skila sér til góðs -hef trú á að þetta verði einskonar butterfly effect. 1500 manna slembuúrtak gat unnið samhuga og með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi fyrir hönd Íslands. Það mun smita út frá sér.  Ekki spurning.

Þetta er upphafið að einhverju góðu.. :)

Kristín (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 09:20

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jón Steinar,  ég býst við að þig vanti ekki almenna skilgreiningu á heiðarleika, heldur mína eigin skilgreiningu á heiðarleika, og svo ætlaru auðvitað að reyna að hanka mig á einhverju trúarlegu.  

Reyndar var ég með ágætt "quote" þarna í lok innleggsins.  Það er að gera alltaf rétt, jafnvel þó enginn sjái til. Þá er ég ekki að tala um að bora í nefið eða prumpa, heldur eitthvað sem almennt er talið siðlaust og/eða glæpsamlegt.  Á t.d. mjög vel við í samskiptum hjóna. 

Til að byrja með getum við rætt um á hvaða forsendum fólk fer í pólitík, er það vegna gildanna eða vegna þeirra eigin frama? 

“Try not to
become a man of
success but rather
try to become a
man of value.”
~Albert Einstein

Einhvern tímann spurðir þú mig hvort að ég skrifaði blogg vegna athyglinnar, en ég svaraði þér að réttlætiskennd mín væri mun sterkari en athyglisþörf. Ég þarf athygli til að vera heyrð, það er alveg rétt og ekki ætla ég að þykjast vera alveg hégómalaus, því að það er engin manneskja og ekki þú heldur.  Ég hef líka bent á fólk á blogginu sem mér hefur þótt þurfa athygli og vera heyrt,  Mbl. hlustaði á röksemdir mínar og virti þær. 

Ég var einu sinni spurð að því í viðtali hvernig ég vildi láta minnast mín, ég fékk örfáar sekúndur til að hugsa en svarið var: "Að ég sé heil"  Heilindi (Integrity) er svona af svipuðum meiði og heiðarleikinn. 

Við komum til dyranna eins og við erum klædd og þurfum ekki að skammast okkar fyrir það. Við lifum lífinu eins og við teljum að sé okkur best og samferðafólki.  Við verðum aldrei fullkomin. 

Heilindi þessi eru ekki síst gagnvart okkur sjálfum, þar sem við erum oft mjög dugleg að ljúga að okkur sjálfum. 

Til að vera heiðarleg eða heil þurfum við að vera sátt við það sem við erum að segja og selja.  Ég hef aldrei getað "selt" neinum það sem ég hef ekki sjálf trú á. 

Það getur vel verið að þú eða aðrir séu ekki sammála mér í skoðunum eða í trú, en það þýðir samt ekki að ég sé að ljúga.  Ég reikna ekki með að ég sé siðblind, og vona svo sannarlega ekki.  

Þú hefur stundum kvartað yfir hvernig ég rökræði um trúmál, ég sleppi of vel og fari í kringum hlutina. Kannski er það vegna þess að sumir hlutir eru okkar prívatmál.  Við getum og eigum að komið til dyranna eins og við erum klædd, en ég er ekki tilbúin að koma nakin fram. 

Heiðarleiki er að sjálfsögðu að segja satt og rétt frá, vera samkvæmur sjálfum sér og kannski fylgir því í leiðinni einlægni og ég held að það skorti ekki á einlægni hjá mér. 

Og hvað með þig, hver er þinn heiðarleiki?

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.11.2009 kl. 09:31

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl Kristín, ég treysti því líka að þarna sé upphafið að einhverju góðu. Kannski höfum við náð að vekja stjórnmálaflokkana til vitundar  líka. Útilokum það ekki. Flestir forystumenn þeirra voru á fundinum, sá a.m.k. Bjarna Ben, Steingrím, Ástu Ragnheiði á fundinum og svo Guðfríði Lilju í sjónvarpinu seinna um kvöldið.

Vonandi hafa þau verið "snert" af þessum einkennilega en góða anda sem ríkti þarna.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.11.2009 kl. 09:41

7 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Sæl Jóhanna.

Niðurstöður fundarins,virðast vera vilji meirihluta þjóðarinnar.Ég segi meirihluta,vegna þess að því miður eru margir,sem hugsa öðruvísi,og versta við það er,að það er minnihlutinn sem hefur völdin.Hann hugsar um eiginn hagsmuni og krefur aðra að víkja af sannfæringu sinni.

Hroki,óheiðarleiki og leynd,sem veldur öðrum óhamingju er það mottó,sem þeir starfa eftir.

Örfáir synir þjóðarinnar,hafa brugðist fólki sínu,og leyst til sín verðmæti þjóðarinnar,verðmuni,stolt og bjartsýni um glæsta framtíð.

Þeim verður ekki einum kennt um,heldur ekki síður þeim,sem hafa gert það mögulegt að þetta var hægt.Þá ég við stjórnir landsins,sem opnuðu fyrir einkavæðingu á auðlindum og geymslum á verðmætum þjóðarinnar.

Þetta leiddi til óheiðarleika,grægði og stuldi á meðal manna.En þó varið með lagaumhverfi.

Ég tek undir orð þín,og skora á ráðherra og alþingismenn að snúa blaðinu og breyta starfsháttum sínum og starfa eftir niðurstöðum fundarins og ekki síður eftir sannfæringu sinni,sem þau gerðu heit um,er þau hófu störf á alþingi.

Ingvi Rúnar Einarsson, 15.11.2009 kl. 11:00

8 identicon

Tell us something we don't know... ég veit ekki betur en að öll þjóðin hafi verið að öskra á þetta sama allt frá hruni, og margir fyrir hrun líka.

Ég tel að þessi markmið náist ekki á meðan fjórflokkar eru í alþingishúsinu... við sjáum það öll að það er verið að endurreisa gamla ísland leynt og ljóst.. það hefur faktískt ekkert gert nema það eitt að við almenningur eigum að taka allt á okkur... elítan er enn elíta, sama pakkið á þingi.

DoctorE (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 11:39

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært að fá andan af þjóðfundinum svona beint í æð.  Takk fyrir það Jóhanna mín.  Ég er alveg sammála því að ég held að þetta sé upphaf af einhverju góðu.  Og við skulum bara stefna á það ótrauð.  Því ef við tökum ekki öll þátt, þá gerist ekkert.  Ég er líka sammála Doctor E í því að meðan samtryggingarflokkarnir, sem eru allir spilltir, því miður sitja þarna á Alþingi þá breytist voðalega lítið. Því þeir hafa allir eitthvað miður fallegt í pokahorninu sem þeir vilja ekki láta hreinsa út og verða almenningi ljós.  Því þurfum við að safna saman því fólki sem vill breyta, það er fólkið sem var að stórum hluta í Frjálslynda flokknum og svo búsáhaldabyltingarfólkið.  Samskiptaörðugleikar mega ekki koma í veg fyrir að við tökum á árunum saman.  Nú allir sem einn. 

Ég var að lesa viðtal við Lilju Mósesdóttir, hún er ein af þessum heiðarlegu stjórnmálamönnum og hvað gerist með hana?  ´Jú hún var vinsamlegast beðin um að segja af sér.  Heiðarleiki framámanna í flokkunum er nú ekki meiri en svo. 

Meðan þetta lið ræður ríkjum þá gerist ekkert.  Við erum bara svo miklu fleiri sem þráum breytingar.  Við þurfum að leita til fólks eins og Lilju til að bera áfram réttlætið og við verðum svo að fylgja því fast eftir sjálf.  það gerir enginn það fyrir okkur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.11.2009 kl. 11:55

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Verum bjartsýn DoctorE, ég er sammála þér og Ásthildi með fjórflokkana, enda skrifaði ég pistil um það, set slóð á hann hérna.   Hann fjallaði um það að í raun þarf bara að ýta stjórninni (eða óstjórninni) til hliðar og stofna fyrirtækið Ísland, þar verði ráðið hæfasta fólkið, bara svona eins og valið er í hvert ópólitiskt fyrirtæki, t.d. af Hagvangi eða Capacent, eða hverjir það eru sem sjá um mannaráðningar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.11.2009 kl. 14:26

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir innleggið Ingvi Rúnar, það er vissulega aldrei of seint að snúa við blaðinu og byrja upp á nýtt, vonandi eru a.m.k. einhverjir sem fara að hugsa á nýjan hátt.

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.11.2009 kl. 14:27

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kannski notuðum við ekki réttar aðferðir við öskrin, eða við öskruðum ofan í koddann okkar? eða hreinlega var sagt að "við værum ekki þjóðin" ..

Vonandi trúa ráðamenn því núna, eftir að þverskurður er tekinn af þjóðinni og hann öskrar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.11.2009 kl. 14:29

13 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Blessuð Jóhanna mín, mér fannst hlýtt að vita af þér á Þjóðfundinum, þá meina ég að allar góðar og heiðarlegar hugsanir og gjörðir eru af hinu góða, þegar svona stór hópur fólks kemur saman þá hlýtur að verða hlustað, annars látum við hlusta á okkur.

Ég er sammála þér að eigi er gott að koma nakin fram, því þá á maður ekkert til góða. Minn skilningur, humm eða þannig.

Tek undir þetta með fyrirtækið Ísland, afburða forstjóra sem ræður valinn mann/konu til starfa með sér.

Við viljum breytingar og heiðarleikann, ef við ekki vitum, þá getum við ekki leist og unnið að.

Albert Einstein er góður.

Ummæli barnakennara um Albert Einstein

Drengurinn er treggáfaður, einrænn og
fullur af bjánalegum draumórum.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.11.2009 kl. 16:48

14 identicon

Jóhanna.

Látum Capacent endilega ekki ráða í neinar mikilvægar stöður.  Þeir hafa séð um umsóknarferlið og viðtöl fyrir störf hjá Alþingi og mín prívatskoðun er sú að þeir haldi ekki beint vel á þeim spilum.

Áður en ég byrjaði að vinna hjá þér sótti ég um starf hjá Alþingi.  Capacent boðaði mig reyndar í viðtal en ég heyrði aldrei neitt meira frá þeim og fékk staðfestingu frá Alþingi að umsókn mín hefði ekki borist til starfsmannastjórans þar - þegar ég heimtaði skýringar fékk ég loksins þá  skýringu frá Capacent að ég hefði þótt "of hæfur" eða "over-qualified" eins og það heitir á útlensku.

Skítt með það að þeir vildu ekki ráða mig - það er þeirra ákvörðun (en ætti reyndar náttúrulega að vera ákvörðun sjálfs vinnuveitandans), en að einhver sé talinn geta valdið starfi of vel er eitthvað sem ég á aldrei eftir að skilja. 

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 20:53

15 Smámynd: Sveinbjörn Ragnar Árnason

Þjóðfundur er flott framtak !  Þó  læðist að manni sá grunur að FjórKlanið staSveinbjörn Ragnar Árnasonndi að þessu öllu saman, á bakvið tjöldin.  Nú þarf að deyfa mannskapinn niður.  Því ekkert er gert fyrir skuldug heimili og því er Þjóðfundur málið.  Ekki er verra að láta Gjaldþrotakallinn í OZ stýra öllu bixinu. Fólk er svo auðtrúa, sjáið hvernig bankamenn plötuðu almenning og eru enn að plata almenning. Íslendingar læra ekki, þeir eru meðvirkir stjórnmálamönnunum. 

Íslendingar  láta stjórnmálamenn og flokka plata sig ítrekað. FjórKlanið er með mikinn móral, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sennilega spilltustu stjórnmálaflokkar á Norðurhveli jarðar veita nær enga stjórnaranstöðu, þeir eru með of mikinn móral.  Búnir að leggja grunninn að glötun einnar þjóðar. Því er nær engin stjórtnarandsstaða og vinstri flokkarnir hella yfir okkur almenning ógeði útrásarmanna og bankaeigenda þeirra fyrrverandi. Þeir eru allir góðir, gamlir  og gildir  vinir FjórKlansins.

Hvernig er hægt að reka landið mitt í gjaldþrot á aðeins 66 árum.  Landið mitt er gjöfult og miðin full af sjávargulli?  Jú ég hef komist að svarinu.   Stjórnmálaflokkarnir, (FjórKlanið),  sjá til þess að tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar hefur  völdin, stjórnar og á peningana. Eftir Miklahvell s.l. haust á eingöngu að endurreisa þennan litla hluta vina FjórKlansins og fjármálseiganda við, sem ég tel vera c.a. 3-5% þjóðarinnar.   Þetta er gert beint fyrir framan augum almennings. 

 Því er mikilvægt að meðvirkt fólk  sjái að sér og taki hagsmuni sjálfs síns og hins almenna Íslendings og ráðist gegn þessu kerfi sem á sér upphaf  og hefð   í gegnum stjórnmálaflokkanna á Íslandi.

Til að greiða uppí skuldir óreiðumanna hefur verið ákveðið af FjórKlaninu að láta almenning endurbyggja FjórKlanið og fjármagnseigendur. Á innan við sólarhring tryggði Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn fjármagnseigendum og FjórKlaninu  framhaldslíf.  Geir og Ingibjörg og reyndar fleiri þarf að færa fyrir  Landsdóm.  Skaði þeirra við stjórn landsins er margvíslegur, fólksflótti, hörmungar fjölskyldna, atvinnuleysi, vonleysi og fl., en  fjármagnseigendur geta klappað  þeim lof í lófa um ókomna tíð

FjórKlanið hefur  stjórnað Íslandi með sameiginlegu ábyrgðarleysi alltof lengi og við almenningur horft á aðgerðarlaus.  Því væri réttast að almenningur myndi byrja á viðamesta vandamáli  Íslands.  Að brjóta niður fjórflokksmúrinn.  FjórKlanið er helsjúkur. Nú á  erfiðum tímum, gengur fjórflokkurinn  laus  með einhverja lægstu greindarvísitölu í manna minnum, (var reyndar ekki mælt þegar Sigmundur Ernir var í glasi).  Því ríður á að gera  viðamiklar breytingar á stjórnháttum á Íslandi. Það yrði gert með því að brjóta fjórflokksmúrinn niður, helst fyrir ársbyrjun 2010. Stórt fallegt land með fáa íbúa hefur ekki efni  á FjórKlaninu  öllu lengur. 

Stöðuveitingar í gegnum fjórflokkinn hefur tryggt að enginn á að geta brotið niður fjórflokkinn.

Það, hve ástand Íslands er orðið flókið, stafar af því að stjórnmálaflokkarnir krefjast stöðugt tryggingar fyrir því að almenningur ráðist ekki á samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna. Því brenna eignir almennings upp, gjaldborg fjármagnseigenda var tryggð í boði FjórKlansins. Gerendur geta og vilja ekki borga skaðann, almenningur skal greiða fyrir sukkið, sama hvað það kostar, nema ef vera skyldi að fjórflokkurinn myndi missa völdin. Því er verkið ærið, leggja þarf fjórflokkinn að velli. Það verður gert með óeirðum og byltingu. Það er eina von almennings að hér verði stokkað upp og gefið á garðana af sanngirni. Stefnum á að það verði afgreitt fyrir árið 2010. 

Niður með fjórflokkinn, byltingu strax.

Dæmi: Það sagði við mig einn góður vinur  minn, að Íslendingar væru sennilega eina þjóðin í heiminum sem myndi keyra fullir ef engin viðurlög væru fyrir því, reyndar talaði hann um allt 70% þjóðarinnar. Fólk væri bara akandi úti blindfullt ef engin væru viðurlögin. Íslendingar eru hugsanlega mjög sérstakt fólk meðvirkt stjórnmálamönnum.

Sveinbjörn Ragnar Árnason, 15.11.2009 kl. 23:57

16 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Að gera alltaf rétt... þó enginn sjái til, það virkar

Jónína Dúadóttir, 17.11.2009 kl. 06:31

17 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ég sem endra nær var að Gúgla mig, og fann eldra blogg hjá þér sem hefur algjörlega farið framhjá mér!! takk fyrir ráðið elsku afmælisbarn...

OG: Til hamingju með daginn Jóga mín!!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 21.11.2009 kl. 01:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband