Í faðmi fjölskyldu og vina = umvafin englum

Í gær áttu nokkrar frægar konur afmæli, helst má nefna þær Goldie Hawn og Björk, en svo átti ein ófræg kona, sem hér bloggar, afmæli. Nú eru aðeins tvö ár í "The Big 50" .. Wizard

Það er afskaplega margt búið að gerast á sl. ári, margt sem hefur hvatt mig til að endurskoða minn þankagang. Festast ekki í smáatriðum og upplifa hið góða, og hið góða hefur bara komið eins og á færibandi og ég hef vart undan að taka við!

"Hið góða" sem ég er að tala um hér er aðllega í formi fólks. Fólk hefur alltaf verið mitt "áhugamál" ef svo má kalla. Ég er ótrúlega mikil félagsvera og í rauninni dáist ég að fólki. Margbreytileika þess og hæfileikum.

Í gær var aldeilis ekki undantekning og sannaði að manneskjurnar í mínu lífi eru mér verðmætastar af öllu.   

Til að byrja með var það fröken Elisabeth Mai, 6 mánaða dótturdóttir sem vakti mig með hjali sínu, en hún sefur uppí þessa dagana. Ég þurfti auðvitað að þykjast sofa á meðan Eva, mamma hennar læddist fram og svo komu þær báðar syngjandi Eva og Vala "Hún á afmæli í dag" með kertaljós, hafraklatta, banana og pakka. Þetta með hafraklattann og bananann var nú eiginlega svolítill brandari, þar sem mín þykist alltaf vera í aðhaldi.

Í pakkanum voru tveir fallegir bolir og ein mynd. Við fórum á fætur, og fljótlega hringdi Tryggvi jr.(6 ára)  í mig og óskaði mér til hamingju með afmælið og ræddi lífið og tilveruna.  Tobbi sonur minn fylgdi fljótt á eftir, hafði rifið sig upp til að hringja í mömmu sína.

Ég kíkti þá inn í tölvuna og sá þá margar góðar afmæliskveðjur frá fólki á Facebook. Það er ótrúlega gaman að eiga afmæli þar, því þá rifjar maður m.a. upp mörg góð andlit sem ekki sjást svona dags daglega. Svo eru auðvitað kveðjur frá fjölskyldunni sem er líka á Facebook bæði nær og fjarstöddum. Helle (frá Danmörku) barnapían mín frá því í gamla daga rifjaði upp að hún hefði verið hér á fertugsafmælinu mínu og þá áttaði ég mig á því hvað tíminn í raun flýgur.

Ég fékk heimsókn frá Önnu fv. mágkonu minni og þáði hún kaffibolla, en hún kom með fallegan pakka með enn yndislegra innihaldi, en það var ullarkragi sem hún hafði prjónað sjálf. Við fengum okkur kaffi og spjölluðum. Vala fór á meðan  í vinnuna sína, en hún var að byrja að vinna aftur hjá Sævari Karli.  Anna stoppaði stutt. Eva dreif sig í Kringluna með litlu Mai, en ég gerði mig klára að fara í "Brunch" til hennar Leshrings-Mörtu. 

Rétt áður en ég fór út hringdi Henrik "svigeson" og Máni litli ömmustrákur (5 ára) og óskuðu "ömmu gömlu" til hamingju með daginn. Amma gamla var ánægð að heyra í honum, en saknar litla pjakksins. Þeir eru að njóta þess að vera tveir einir í Danmörku og voru á leiðnni í einhverja svaka flotta sundlaug í Silkeborg. En þeir verða örugglega glaðir að fá mömmu og Mai heim á mánudag.

Til Mörtu í Selásinn var ég mætt upp úr kl. 12:00 og þar hófum við, fimm konur,  samveruna með labbrabbi, eins og ég kalla það og gengum góðan Rauðavatnshring. Á göngunni hringdu Hulda Rósars og Bjössi bróðir til að óska mér til hamingju með daginn og ég fékk sms frá Binna bróður í Danmörku.

Þetta var meiri háttar skemmtileg og gefandi samkoma með flottum og klárum konum sem mig langar að hitta oftar.  Marta bauð upp á ljúffenga fiskisúpu og svo franska súkkulaðiköku með rjóma á eftir, svo ekki væsti um okkur eftir göngutúrinn.  Hún sendi mig síðan heim með fallega rauða gladiolu í tilefni dagsins.

Á heimleiðinni kom ég við í Passion, sem er bakarí í Álfheimum og keypti marengstertur og brauð. Síðan í Bónus og verslaði grænmeti og gos.

Eva Lind og Elisabeth Mai

Þegar ég kom heim um kl. 16:00 var Eva þar fyrir og Mai, bretti ég upp ermar og eldaði kjúklingapottrétt en Eva gerði salat.  Svindlaði aðeins á eftirréttum, eða guðdómlegum marengstertum eins og áður hefur komið fram.  Systur mínar Hulda og Lotta, Dúi mágur, börnin hennar Lottu, Birta og Rasmus, mamma og svo auðvitað börnin mín og dótturdóttir mættu svo öll milli 17:00 og 20:00 í afmælisveisluna. Ég var næstum búin að gleyma hundinum Teklu sem var heiðursgestur. Yndisleg Cavalier King Charles Spaniel tík, svona eins og hundar gerast prúðastir! ;-)

Þetta er orðin löng persónuleg færsla, vona að Mogginn fyrirgefi mér að vera persónuleg, svona á sunnudegi, og allir þeir sem eru hneykslaðir á því að fólk sé að skrifa eitthvað opinberlega sem að öðrum kemur ekki við. Það kemur að vísu mörgum þetta við, því að ég veit að margir átta sig á því að þarna er ég ekki aðeins að segja frá mínum degi, heldur mikilvægi vina og fjölskyldu. Ein af stóru stoðunum í niðurstöðu þjóðfundar var einmitt fjölskyldan, og líklegast hefur stórfjölskyldan á fáum stöðum eins mikið vægi eins og á Íslandi.

Tobbi og Ásta fóru fyrr úr afmælinu, þar sem þau fóru til að vera hjá afa barnanna minna sem er á líknardeild, og síðan fór Vala og leysti þau af. Elskulegur fyrrverandi tengdapabbi er á síðustu metrum í þessu lífi og það litar okkar líf og framkallar mörg sorgartárin, en þéttir um leið fjölskylduböndin og við metum hvern dag sem við fáum.

Því Þakka ég fyrir yndislegan afmælisdag. Fyrir tæpu ári síðan var ég ekkert viss um að þessi dagur yrði að raunveruleika. Þá greindist ég með sortuæxli, sem er illkynja húðkrabbamein og ég hélt satt að segja að ég væri þá bara úr leik en slapp fyrir horn og er núna bara með ör. Heppin ég.

 

Amma Jóga, Tekla, Mai, Ásta og Tobbi

Vala, Mai og (Lang)amma Vala

Rósa, Dúi, Ísold, Hulda, Mai og Lotta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Má ekki gleyma; að gestir komu færandi hendi, Tobbi og Ásta með risastóran bleikan blómvönd,  Birta og Rasmus með ilmandi rauðar rósir,  Lotta og Dúi með hollustute m/fyndnu möffinskorti,  og svo mamma og Hulda systir með  gjöf úr Epal, en það er borði með stöfum sem á að líma á veginn:

"Drottinn blessi heimilið"  ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.11.2009 kl. 09:24

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega til hamingju með af mælið svona eftir á Jóhanna mín.  Glæsilegt fólk og skemmtilegar myndir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.11.2009 kl. 12:49

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Til hamingju skotta. Þú ert alveg að ná mér.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.11.2009 kl. 13:44

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sjúkket, hvernig gat ég misst af deginum þínum?  innilega til hamingju elsku vinkona, mikið er fólkið þitt og þú falleg á myndunum.  Njóttu lífsins, það er best ef hægt er, stundum er vilji allt sem þarf knús í skrilljónatali

Ásdís Sigurðardóttir, 22.11.2009 kl. 13:53

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér kveðjurnar Ásthildur, það er svolítið í þínum "stíl" að setja inn myndir, en ég hef einmitt svo gaman að því að fylgjast með fjörinu hjá ykkur og blómstrandi fjölskyldulífi.

Takk fyrir Jón Steinar, nú?.. þú bara "stærri" en ég! hehe

Takk Ásdís fyrir orðin um mig og fólkið mitt. Nýt lífsins - en er svolítið þreytt í dag. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.11.2009 kl. 15:06

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ljósið mitt, það er bara svo yndælt að fá að kíkja inn um gluggan og virkilega sjá.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.11.2009 kl. 17:29

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Síðbúin afmæliskveðja.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.11.2009 kl. 23:19

8 Smámynd: Jens Guð


  Frábært afmæli og bestu afmæliskveðjur og góðar kveðjur til Tryggva.  Ég var í gær í sviðaveislu hjá Rannveigu Höskuldsdóttur ásamt fjölda fyrrverandi félaga í FF og örfárra ennþá félaga.  Tryggvi barst í tal og var hlaðinn lofi og góðum orðum.  Enda ekki annað hægt.  Frábær náungi og þú fékkst líka góða gusu af hrósyrðum frá fólki sem þekkir þig bara af þessum bloggvettvangi.  Það er bara gaman að koma því hér á framfæri án þess að nokkur hafi ætlast til þess.

Jens Guð, 23.11.2009 kl. 00:57

9 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Yndislegar myndir og frásögn, enda ekki von á öðru frá þér flotta kona.
Þú ert rík og kannt að meta það og segja frá af einlægni, það er svo mikilvægt fyrir hamingjuna elsku Jóhanna mín.

Veistu elsku best að ég þakka guði fyrir að hafa kynnst þér á blogginu, og við eigum örugglega eftir að hittast yfir góðum kaffibolla.


Þú átt mikla framtíð fyrir þér og njóttu hvers dags.
Kærleik og gleði
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 23.11.2009 kl. 08:38

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Mér þykir vænt um þessi gæluyrði sem ég hef fengið hér að vestan; skotta og ljós.  

Takk fyrir góðar kveðjur, Jóna Kolbrún, Jens og Milla. Það hefur verið svo mikið að gera hjá mér, að ég hef ekki komist til að þakka fyrir mig.

Enn fjölgar í kotinu, þar sem tengdasonurinn og dóttursonur bætast í hópinn. Það kemur nú ekki til af góðu, þar sem afi var að deyja í gær, fv. tengdafaðir til 22 ára.

Þetta eru erfiðir tímar og lítið var um svefn í nótt.

Jens, búin að koma kveðju til Tryggva - þakka hlý orð í hans garð og minn. Við erum reyndar ekki sambýlingar lengur, þó okkur sé vel til vina og höldum sambandi.  (Jæja þá vita þetta allir sem lesa  extrovert hvað)??

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.11.2009 kl. 12:01

11 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ja hérna hélt ég væri búin að týna þér eða þú hefði hent mér út á hauginn heheh  Flott fjölskylda sem þú átt!  Eigðu góðan dag Jóhanna mín.

Ía Jóhannsdóttir, 24.11.2009 kl. 12:01

12 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Kærleik og ljós í dagana þína og þinna, það er alltaf erfitt að missa sína ó aldnir séu.

Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.11.2009 kl. 13:54

13 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 24.11.2009 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband