Fjölskyldan í blómapottinum: Jörð

Eins og fram hefur komið, var eitt af þremur málefnum Þjóðfundarins að ræða stoðir samfélagsins. Fjölskyldan var ein af þessum mikilvægu stoðum. Fjölskyldumynstur hafa tekið breytingum í aldanna rás.

Fyrir mér er fjölskyldan einstaklega mikilvægt fyrirbæri. Ég er hluti af sterkum og samheldnum systkinahópi, en við urðum það eflaust vegna aðstæðna okkar sem börn. Ég finn afskaplega til með fjölskyldum sem eru klofnar, þá á þann hátt að t.d. systkini talast ekki við vegna ósættanlegs ágreinings.

Það er forvitnilegt að láta börn teikna fjölskyldumynd og sjá hvað kemur út. Ég man eftir strák sem teiknaði heimilisköttinn sem einn af fjölskyldumeðlimu, annar fór að setja út á það, en ég stöðvaði það og sagði að við mættum í þetta sinn alveg hreint ráða hverjir tilheyrðu fjölskyldunni. Kattareigandinn varð glaður með það, því ekki vildi hann fyrir nokkurn mun útiloka kisu úr sinni fjölskyldu!  Fjölskylda er s.s. ekki bara mamma, pabbi og börn. Fjölskyldan getur verið tengd í allar áttir, kross og ská og út og suður.  Auðvitað hlýtur að vera til einhver opinber skilgreining á fjölskyldunni, en hér er ekkert spekúlerað í svoleiðis.

Í gær kvaddi fyrrverandi tengdafaðir minn þessa jarðvist,  aðeins 71 árs gamall. Mér líður svolítið á ská þar, þó ég hafi verið mjög mikið tengd honum, enda tengdadóttir í 22 ár.  Þegar hann varð 60 ára skrifuðum við öll börn og tengdabörn í afmælisminningarbók og ég skrifaði "Þegar ég var 7 ára missti ég föður, en þegar ég var 18 eignaðist ég pabba" ..  Ég man hvað andlitið á honum lýstist upp þegar hann las þetta og ég fékk eitt af hans góðu sterku faðmlögum. 

Fyrir u.þ.b. viku síðan heimsótti ég "afa" eins og ég kallaði hann í eyru barnanna minna. Settist inn hjá honum þar sem hann lá og hann tók að fyrra bragði  þétt í hönd mína og við héldumst lengi, lengi. Mér var það ómetanlegt og þótt hann væri farinn að láta á sjá vegna veikinda sinna hafði mér aldrei þótt hann fallegri.  Ég ákvað að "troða mér" ekki meira að eftir þessa fallegu stund sem við áttum saman og tímdi heldur ekki að skemma þessa fallegu minningu sem varð okkar kveðjustund.

Þó að við skiljum við maka, þá skiljum við ekkert endilega við fjölskyldu fyrrverandi, sérstaklega ef að böndin eru sterk og margofin. Þó verðum við að varast að troða ekki nýjum fjölskyldumeðlimum um tær og vera fyrir Wink

Ég er, eins og ég skrifaði í fyrra bloggi, umvafin fjölskyldunni minni núna. Eva dóttir mín er búin að vera hér í vikudvöl ásamt dásamlegri sex mánaða dótturdóttur, og í dag komu svo Henrik maðurinn hennar og stóri yndislegi dóttursonurinn hann Máni sem er fimm ára myndarpiltur. Hann sefur einmitt hér við hlið mér núna, en ég söng fyrir hann "Fram í heiðanna ró" og strauk andlitið með fingurgómunum, sem honum þykir svo gott.  Hann sofnaði vísu á methraða þar sem hann var búinn að vera á ferðalagi frá kl. 5:00  í morgun.

Ég hlusta á malið í krökkunum mínum og tengdasyni frammi og svo er líka Birta bróðurdóttir mín og frænka barnanna minna í báðar ættir, í heimsókn ásamt Rasmus manninum sínum.

Orðið sem kemur mér í huga núna er þakklæti; Þakklæti fyrir að fá að vera hluti af fjölskyldu, minni nánustu fjölskyldu sem og stórfjölskyldu og svo í raun af heimsfjölskyldunni.

Öll erum við sem blóm í þessum sameiginlega blómapotti; Jörð.

og svo lag fyrir afa Kela og okkur hin sem sitja eftir:

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.11.2009 kl. 00:27

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 25.11.2009 kl. 05:59

3 identicon

Samúðarkveðjur til ykkar allra vegna andláts Kela.  Við finnum skjól á hinum staðnum, himnaríki, frá brambolti jarðarinnar.  Þangað getum við leitað fyrir dauðann.

Brynjolfur Magnusson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 07:00

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Yndislegt að lesa þetta, og ég er svo sammála þér í þakklætinu, við eigum svo gott og ef við erum ekki þakklát þá ávinnst ekki neitt.
Ekkert á að vera sjálfgefið í þessu lífi.

Kærleik til þín og þinna
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 25.11.2009 kl. 08:52

5 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Það vissulega athyglisvert,að lesa þinn pistil.Það minnir mann,hvað ríkidæmi okkar getur verið stórt,ríkidæmi sem kallar á skyldu manns við að hlúa að,sýna þann skilning,að ekkert í veröldinni,getur komið í stað fjölskyldunnar.

Því ber að huga að því,að ástand í þjóðfélaginu,kallar jafnvel á það,að ungt fólk er að flýja fósturjörðina.Þá er hætt við,að mikill og tregur söknuður,fylgjir þeim.

Sem betur fer eru samgöngur og samskipti auðveld,á tímum tækninnar.

Kærar þakkir fyrir orð þín,sem eru vel í tíma töluð.Kveðja.

Ingvi Rúnar Einarsson, 25.11.2009 kl. 15:58

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

  Jóhanna mín ætlar þú ekki að fara að sækja um brauð?

Ía Jóhannsdóttir, 26.11.2009 kl. 11:51

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er ljúf og góð færsla, samveran við fólkið sitt er það besta sem maður upplifir. Samúðarkveðjur til þín og barna þinna.

Ásdís Sigurðardóttir, 26.11.2009 kl. 14:50

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

En hvað þetta er falleg færsla Jóhanna mín.  Sérstaklega er falleg lýsing þín á síðustu minningum um "afa" fyrrverandi tengdaföður.  Ég er auðvitað sérlega viðkvæm þessa dagana.  En það er svo gott að lesa svona.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.11.2009 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband