Eru raddir kvenna ekki eins merkilegar og raddir karla?

Svanur Gísli Þorkelsson spyr hvort að konur séu ekki eins vinsælar og karlmenn.  Ýmsar tilgátur um vinsældir karla á blogginu koma fram, en ég benti á eina staðreynd sem mér finnst vert að skoða.

Ef þú slærð upp síðunni www.blog.is þá eru blog höfð sem "Umræðan" ... skora á þig, lesandi góður eða lesönd góð Tounge, að prófa þetta einu sinni og skrifa hér hvaða fjölda kvenna þú færð og hvaða fjölda karla.

Þetta er EKKI vegna þess að karlarnir eru að skrifa miklu mikilvægari hluti og endilega það sem er "í umræðunni" .. við sköpum líka umræðuna. 

Bloggið er samtal, mjög mikilvægt samtal - þó misjafnlega extróvert sé. 

Ég fullyrði að það eru margar konur sem eru þess "verðar" að vera þarna uppi á panelnum. Ég reikna með því að mælistika stjórnenda sé sú að merkilegast sé það sem er almennt og samfélagstengt og allt sem lúti undir "persónulegt" eða tilfinningamál sé ómerkilegra. Ekki það að konur bloggi einungis á þeim nótum, en eflaust er það algengara.

Það er úreltur hugsunarháttur að mínu mati, því við getum svo sannarlega lært af því að lesa svolítið á tilfinninganótunum og tilfinningar eru ekki óæðri skynsemi og tja, kannski er bara svolítil skynsemi í tiflinningunum - án þess að fara út í það nánar.

Ásthildur Cesil hefur verið að skrifa undanfarið um missi sinn og fjölskyldunnar, skrifa um veggi sem hún gekk á í samfélaginu þegar hún var að berjast fyrir son sinn. Þetta er blogg syrgjandi móður sem ég tel að ALLIR hefðu gott af því að lesa. Þetta eru ekki hennar prívatmál, þetta varðar okkur öll. Þessi kona ætti að vera í umræðunni og reyndar margar góðar konur sem deila út "kærleika á línuna" trekk í trekk. Þetta eru bara dæmi, það eru margar konur sem eiga erindi á forsíðu ekki síður en karlarnir. 

Ég tel að ég hafi erindi í umræðuna og ég tel að margar konur hafi það ekki síður en umræddur fjöldi karla. Ekki vegna þess að þær eru konur, en vegna þess að þær hafa svo margt mikilvægt að segja. 

Það er eðlilegt að það sem er meira áberandi en minna sé meira lesið. Forsíðan er mest lesin en það sem er á bls 23  minna. Á því eru þó undantekningar. 

Hvers vegna eru konurnar faldar (nema í undantekningum) ? Er þetta tilviljun eða þykir forsíðuútvalningarmönnum það sem þær hafa að segja ekki eins merkilegt og karlarnir. 

Okkur veitir ekkert af að hlusta á raddir kvenna, Svanur Gísli og karlarnir eru jafnframt að rífast um hvaða trúarbrögðum þeir tilheyri sem séu herskáastir! Úúúú..  fer það eftir trú eða fer það kannski eftir kyni?  Svanur segir kristna herskáasta,  Skúli Skúlason múslima,  en sjálf setti ég  athugasemd inn eftir þessa athugasemd Skúla:

"Múslímar  í  Danmörk  eru  5%  af íbúum,  en  hirða  40%  af  Almannabótaféinu  og  víða  fylla  þeir  um  60-70%  af  fangelsisrýminu."

og athugasemd mín er svohljóðandi: 

"Þess má geta, talandi um fangelsi - að á Íslandi eru konur um 5% af þeim sem eru í fangelsum og karlar um 95% þar af leiðandi.  Býst við að meiri hlutinn séu kristnir karlmenn en eflaust blandað.

Feminismi er málið karlar mínir! Kissing"

Ef það væri hlustað á fleiri mæður, gæti verið að fangelsin væru ekki eins yfirfull? 

Vil líka taka það fram að það að segjast vera kristin í orði þýðir ekkert endilega að vera kristin á borði. (Kristin viljandi með einu - n í endann .. því að ég er að tala um bæði kynin) 

Feminismi fjallar um jafnan rétt karla og kvenna til að vera heyrð og að hin kvenlegu gildi sé metin jafn mikilvæg og hin karllægu. 

Prófaðu nú að slá inn www.blog.is og teldu konur og karla ...  tilviljun? eða eru konur ennþá viljandi eða óviljandi gerðar ósýnilegar?  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég vil taka það fram að mér finnst karlmenn yfirleitt alveg frábærir og reyndar konur líka. Ég er ekki að tala um að karlar séu vondir og konur góðar, enda er það fráleitt, en ég er að spyrja hvort að það sé ekki rétt að halda hinum kvenlegu gildum á lofti, sem reyndar margir karlar gera einnig.

Feminismi er ekki um forréttindi kvenna, hann er um það að bæði kynin eru í samræðu á jafnréttisgrundvelli. Hann styður við bakið bæði á körlum og konum. Hann gefur körlum og konum "leyfi"  til að vera mild í mætti sínum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.10.2009 kl. 08:15

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þú ert til dæmis ein af okkur konum sem átt svo sannarlega heima á toppnum með skrifin þín... bara hvar sem er

Jónína Dúadóttir, 9.10.2009 kl. 08:29

3 identicon

Feminismi er bull.. .humanismi er málið.... en ok ég skal gefa því séns að feminismi hafi átt rétt á sér til að vekja vitleysinga til umhugsunar um að það er traðkað á dömum á marga vegu.
En þetta er löngu komið út í ofurfeminisma sem hreinlega hata karlmenn.. sjá okkur bara sem viðbjóðslega nauðgara.. og konulemjara...

Sameinumst undir humanisma.. konur eru líka menn.

DoctorE (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 08:59

4 identicon

"...rétt að halda hinum kvenlegu gildum á lofti"   ?? eru íslenskir karlmenn eitthvað að koma í veg fyrir að kvenlegum gildum sé haldið á lofti?

Loori (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 09:33

5 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

7:1 körlum í hag

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 9.10.2009 kl. 10:42

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt! 

Ég sem hélt að femínismi snérist um það að vera upptekin af því að kona með strik en ekki prik 

Sigurður Þórðarson, 9.10.2009 kl. 11:57

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

P.s.

 M.v. þína skilgreiningu Jóhanna þá er ég á móti femínisma.

Ástæðan er sú að mér finnst konur eins og þú miklu skemmtilegri en nokkur karl.

Sigurður Þórðarson, 9.10.2009 kl. 12:05

8 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ef feminismi á að fjalla um jafnan rétt karla og kvenna til að vera heyrð og allt það, af hverju heitir hann þá "Feminismi"?  Þeta orð fælir karlmenn frá þessu sameiginlega markmiði.  Ég tek undir með Doksa að þetta ætti bara að fara undir húmanistahattinn, eða ætti að minnsta kosti að fara að varpa af sér þessum kvenmiðaða fókus.  Þetta ætti auðvitað að vera jafnréttisbarátta, en ekki kvennabarátta.

Theódór Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 12:25

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég veit alveg að orðið "feminismi" ef farið að hljóma eins og blótsyrði í hugum margra, þannig að orðið hefur eflaust misst gildi sitt.

Kannski er það tengt við "femin" vegna þess að vissulega er verið að koma þarna að kvenlegum sjónarmiðum og gildum. Við getum ekkert neitað því að við erum svolítið öðru vísi konur og karlar og fókusinn oft á ólík málefni, þó það séu vissulega á breiðum level og sumir svona við miðju.

Kannski væri rétt að koma þessu að sem mother-ism, það skilst kannski betur. Mamman er yfirleitt "mýkri" en pabbinn,  þó mjúku mennirnir verði fleiri og fleiri. Ég er ekki að tala um að gefa afslátt af góðu uppeldi og aga, því að það gerir engum gott. 

Mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða, og þetta snýst um grunninn að þjóðfélaginu þannig að þetta er engin pjattumræða.  En ég verð að hætta í bili þar sem ég er að fara að hitta barnabörnin mín í Danmörku ..  

p.s. 

Auðvitað styð ég húmanisma, þar sem manneskjan er sett í fyrirrúmi eins og hún er vonandi.  Án tillits til kyns, litarháttar, kynhneigðar o.s.frv... 

Allt sem tengist "superority" .. þá sem telja sig æðri öðrum vegna þess eins hvers kyns eða kynhneigðar þeir eru tel ég vera á villigötum. 

Að þessu sögðu vil ég benda á að það eru margir karlar feministar og margar konur á móti feminisma. Feminismi er kannski hættulega breytt/ víðtækt hugtak - og til eru róttækir feministar sem vilja bara hreinlega alla karla burt. Nei, takk segi ég nú bara, oj hvað lífið væri leiðinlegt þá.

Takk fyrir hrósið Siggi og Jónína.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.10.2009 kl. 13:02

10 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Flott að vanda Jóhanna mín og góða fer til barnabarnanna, veit að þú átt eftir að njóta ferðarinnar.
Kærleik í ferðina
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.10.2009 kl. 13:30

11 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég skil ekki karla sem kalla sig feminista.  Það kann að vera órökrétt hjá mér, en þannig líður mér.  Það er kanske kominn tími til að karlar stofni maskúlínistahreyfingu.  Það er eitt og annað í sambandi við réttindamál karla sem mætti fara að skoða.

Theódór Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 13:30

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég vil hafa þetta í bland, þannig erum við best. Góða helgi darling.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.10.2009 kl. 13:58

13 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég hef verið heppinn þegar ég leit núna inn á blog.is, 2 konur, 2 karlar og 4 félagasamtök/fyrirtæki.

Annars tek ég undir með öðrum hér að húmanismi er það sem skiptir máli, ekki femínismi.  Kynjakvóta er ég algerlega á móti, hvar svo sem hann er, því það er hæfni þín í e-h sem skiptir máli, ekki hvað þú ert með á milli fótanna.

Axel Þór Kolbeinsson, 9.10.2009 kl. 15:58

14 identicon

Jóhanna aðstoðarskólastýra er EKKI femínisti. Hún er ein af tærustu einstaklingum sem ég hef kynnst !!!

Fyrrum nemandi í Hraðbraut.

runar (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 18:05

15 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég vil taka það fram að mér finnst orðið feministi ekki vera neitt skammaryrði og hef enga skömm á konum sem kalla sig feminista.  Ég skil vel að þessi hreyfing skyldi verða til og skil alveg að það hafi verið nauðsynlegt fyrir konur að fara í þessa hörðu baráttu.  Mér finnst bara að það mætti fara að slaka á þessu og einbeita sér að jafnrétti fyrir bæði kynin.

Theódór Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 18:22

16 Smámynd: Kristinn Theódórsson

runar
Jóhanna aðstoðarskólastýra er EKKI femínisti. Hún er ein af tærustu einstaklingum sem ég hef kynnst !!!

Femínistar geta sem sagt ekki verið "tærir"

Kristinn Theódórsson, 9.10.2009 kl. 18:26

17 identicon

He,he Kristinn...það er rétt hjá þér að texti minn myndast hálf illa

Vissulega geta femínistar verið tærir, en það eru til tvær tegundir af femínistum.. gamla gerðin (sem ég tilheyri) og nýja gerðin sem hefur, vægt til orða tekið, komið vondu orði á stéttina.

Femínisti er því miður nánast orðið blótsyrði í dag.

Þökk sé þessum klámeygðu og litafælnu ráðfrúm sem sjá illsku karlmanna í öllum hlutum og verkum, bæði á jörðu sem á himni.

Þessar valkyrjur eru ekki tærar og þær voru viðfangsefni mitt í fyrri texta.

runar (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 11:35

18 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Feministar eru ráðvilltir og þeim hefur ekki tekist að auka velsæld kvenna heldur þvert á móti fyllir hann konur af óánægju, beiskju og streitu. Það er auðvitað hryggilegt en þetta er alltaf fylgifiskur aðgreiningarhyggju eins og þessi hreyfing boðar.

Karlmenn og konur þurfa að vinna saman og viðurkenna hvort annað það er klassík sem gildir í dag og mun gilda áfram. Ég tel að þetta það sé þjóðhagslega mikilvægt ekkert síður en heilbrigður fjármálakúltúr: að hafa góða menningu milli kvenna og karla, örfandi, spennandi, erótíska, hvetjandi.

Guðmundur Pálsson, 10.10.2009 kl. 13:27

19 Smámynd: hilmar  jónsson

Feministi er greinileg í augum sumra hér mjög ógnvekjandi, allt að því jafn ógnvekjandi og orðið kommúnisti..

Þetta er alþekkt fyrirbæri hjá íhaldsfólki. Allt sem ber keim af mannréttindum eða náttúruvernd er stór háskalegt..

hilmar jónsson, 10.10.2009 kl. 18:28

20 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Jóhanna reit; "Okkur veitir ekkert af að hlusta á raddir kvenna, Svanur Gísli og karlarnir eru jafnframt að rífast um hvaða trúarbrögðum þeir tilheyri sem séu herskáastir! Úúúú..  fer það eftir trú eða fer það kannski eftir kyni?"

Nú er það svo að oftast eru það karlmenn sem hafa verið hæstráðendur þeirra þjóða sem hafa farið með styrjöldum gegn öðrum þjóðum. En þau dæmi sem við þó höfum í seinni tíð af kven-þjóðar-leiðtogum sem hafa veið kosnir lýðræðislegum kosningum, sýna að þær hafa þær ekki setið á friðarstóli frekar en karlarnir. Sem dæmi má nefna;

Golda Meir Forsætisráðsfrú í Ísrael -  Yom Kippur Stríðið

Indira Gandhi  Forsætisfrú á Indlandi - Styrjöldin við Pakistan 1971 og upphaf kjarnorkuáætlunar Indverja.

Margrét Thatcher Forsætisráðsfrú í Bretlandi - Falklandseyjastríðið og átökin í Norður Írlandi.

Hvað fær konur til að bregðast eins við og karlar þegar kemur að blóðsúthellingum fyrir einhvern málstað eða annan Jóhanna?

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.10.2009 kl. 19:22

21 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég þakka ykkur, góða fólk, fyrir að halda loga í þessum umræðum. Ég hef verið fjarri góðu gamni í enn meira gamni - þar sem ég er stödd í henni Danmörku að hitta hluta fjölskyldu minnar. Átti skemmtilegar samræður við bróður minn um Kirkegaard, sem er efni í næsta blogg, þegar ég kemst í það og ekki síður skemmtilegar samræður viðbarnabörnin þegar ég komst í tæri við þau! Nú er ég vöknuð eftir að sá litli kallaði "moooor" .. en mamma kom hlaupandi þegar hann kallaði, eins og flestar mömmur gera, sem betur fer. 

Jæja, hér hefur margt komið fram sem krefst svara. Skemmtilegar pælingar og mér sýnist orðið "feministi" valda mestum usla og vekja upp flestar spurningar - eins og fleira sem á sér breiðar skilgreiningar.  Nú ætla ég að ýta á "senda" því ég þori ekki að skrifa meira í bili - án þess að prófa þessa tölvu! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 01:30

22 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Theódór skilur ekki mikið í körlum sem kalla sig feminista og ræðir jafnframt möguleikann á að stofna einhvers konar "maskúlínistahreifingu"  jafnframt spyr Svanur hvað því veldur að Golda Meir, Indira Gandhi og Margaret Thatcher bregðist við eins og karlar þegar kemur að blóðsúthellingum fyrir einhvern málstað eða annan.

Án þess að ég sé "sérfræðingur" í málefnum feminista, þá veit ég að það eru til nokkrar skilgreiningar á feminisma, þeir sem hafa gaman af "prófum" geta tekið feminista próf hér (ekki algilt).  Sjálf fékk ég út "moderate feminist" og kemur það sjálfri mér ekki á óvart.  

Radical feminism eða róttækur feminismi hlýtur að snúast um forréttindi kvenna á sem flestan hátt. Sá háttur að barn fylgi alltaf móður í trúfélag, móðir hafi sterkari umgengnisrétt með barni við skilnað, mætti eflaust flokka sem "radical feminism" en þá er að sjálfsögðu pendúllinn á konuna. Sjálf er ég andsnúin forréttindum kvenna. 

Ég tel aftur á móti að kynjakvóti - á hvorn veginn sem er, karlar/konur, geti átt rétt á sér í einhverjum tilfellum, þar sem það kemur samfélaginu augljóslega betur. Þá kemur það því ekkert kynfærum við, heldur einmitt þeim mismun á hugsunarhætti sem oftast er í gildi hjá konum eða körlum.

Ég held það sé að stinga höfðinu í sandinn að segja að konur og karlar séu yfirleitt með samskonar áherslur í málum, þó að á því séu undantekningar. Ég ætla ekki að dæma hér hvort það sé vegna eðlis eða uppeldis, en eins og heimurinn er í dag er munur á umræðum karla og kvenna. Konur eru yfirleitt persónulegri og meira á tilfinninnganótum. 

bl. menn velja karla í "umræðuna"  á blogginu, eflaust vegna þess að þeir fjalla meira almennt um mál en konur á persónulegri nótunum. Ég þekki það þegar ung vinkona mín sendi bréf til ritstjóra og vildi komast á panel, þá fékk hún það svar að það sem væri á persónulegum nótum væri síður "í umræðunni".. sem er eflaust skiljanlegt að hluta til. 

Þó má segja að undantekning sé t.d. Ragnhildur Sverrisdóttir sem hefur að mestu bloggað, á mjög skemmtilegan hátt, um fjölskyldulíf sitt - og aðallega um skemmtilegar uppákomur hvað varðar tvíburadætur hennar. Spurning hvort að það er ætternni hennar eða það að hún er einstaklega góður penni sem hefur hjálpað til ef ekki bæði. 

Þó að blogg sé á slíkum persónulegum nótum, þá á það, að mínu mati alveg eins heima í "umræðunni" vegna þess að okkur er öllum hollt að lesa um hressandi og jákvætt fjölskyldulíf, sem er jú grunnurinn að þjóðfélaginu. Jafn hollt ef ekki hollara en lesning um Icesave eða ESB, þó erfitt sé að bera slikt saman. 

Innlegg Ragnhildar, eru einnig mikilvæg í umræðuna vegna þeirra fordóma sem ríkja í garð para sama kyns, ekki það að það þurfi að sanna fyrir mér að samkynhneigðir séu jafnvígir á að ala upp börn eins og gagnkynhneigðir og kemur það reyndar kynhneigð þeirra ekkert við. En sumir virðast halda að það sé eitthvað meiri háttar mál og vilja hindra þeirra framgöngu í t.d. ættleiðingamálum o.fl. 

Svo ég snú mér aftur að feminismanum: 

Þegar ég fór að lesa guðfræði þá komst ég að því að t.d. að flest guðfræði var skrifuð af körlum, og því hefði alveg mátt bæta forskeytinu "karla" við guðfræðina. Til að mæta þessari slagsíðu á karlaguðfræði fóru konur að skrifa kvennaguðfræði, sem er þá guðfræði skrifuð af konum, út frá reynsluheimi kvenna.  Já, reynsluheimur kvenna er öðruvísi en karla, eins og áður hefur komið fram. 

Konur fóru t.d. að lesa Biblíuna með feminískum gagnrýnisgleraugum, og þá sáu þær ýmislegt áhugavert, eins og t.d. hvað lítið hafði verið gert úr hlut kvenna í guðfræði karlanna, guðfræði sem var skrifuð út frá Biblíunni. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 02:10

23 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Enn er ýmsu ósvarað, og þá kannski sérstaklega "maskúlínisma" Theódórs. Ég held reyndar að slagsíðan hafi verið, framan af, á "maskúlínisma" .. en vegna feminismans hafi náðst að rétta myndina en vanti þó slatta upp á að hún sé lárétt enn.

Við getum einnig séð þetta sem pendúl sem  leitar í aðra áttina, en markmiðið sé að stöðva hann í miðjunni, og þegar í miðjuna er komið sé komið á jafnrétti kynjanna. Svo framarlega sem það er hægt líffræðilega.

Ég skil þó hvað Tehódór er að fara þegar hann talar um að það þurfi að sinna ákveðnum málefnum karla.  Ég tel að ekki þurfi meiri maskúlínisma til að leiðrétta það, heldur einmitt feminisma (þá moderate).  

Í dag eru gerðar öðru vísi væntingar til ungra manna en kvenna. Við dæmum strákana öðruvísi en stelpurnar og þeir eru undir miklu meiri pressu að "standa sig" og þessar væntingar verða oft til þess að þeir upplifi sig ekki nógu góða eða duglega.  þarna er komin ein af meginástæðum þess að sjálfsvíg eru algengari meðal ungra karlmanna en kvenna.

"Rut hún er svo sönn og góð og Daníel fylltur hetjumóð" var sungið í sunnudagaskólanum.  Hvað ef að Daníel stóðst ekki væntingar um að vera hetjan?  Var þá ekki Daníel lúser?  Er ekki auðveldara að vera bara sannur og góður en að vera hetja?  ..  

Í dag líta margir á heimavinnandi karlmenn hornauga. Spyrja sig, "hva" nennir hann ekki að vinna? .. Ef að kona kýs að vera heimavinnandi, spyrja fæstir slíkra spurninga.  Það er feminismi að "leyfa" körlum að vera sannir og góðir og heimavinnandi án þess að það sé litið á þá sem letiblóð.

þess vegna geta sumir karlmenn kallað sig feminista.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 02:26

24 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Rúnar, má ekki gleyma þér!   Takk fyrir þessi fallegu orð í minn garð, ég er endalaust þakklát þegar ég fæ svona komment frá núverandi eða fyrrverandi nemendum, því það segir mér að ég sé að gera eitthvað rétt. Ég er eins og allar manneskjur,  geri mín mistök, en mitt lífsmottó er að vera heil manneskja og það að vera "tær" er örugglega spor i þá átt.

Ég skildi alveg fyrra innleggið, það er nefnilega ekki það sama feministi og feministi og ég vona að mér hafi tekist hér í gríðarlega stórum innleggjum að útskýra mína tegund feminisma.

Hann vinnur jafnt fyrir karlmenn sem konur, og kona eins og ég sem á bæði son og dótturson og svo hrúguna af frábærum fv. og núverandi karlkyns nemendum gæti aldri haldið kyndli stelpnanna hærra á lofti en strákanna og vona að ég komi aldrei til með að gera það.  Þeir eiga að sjálfsögðu að loga jafn hátt. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 02:35

25 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ekki má gleyma "járnfrúnum" ..  þær flokkast nú varla undir"Token Women"..en það eru konur sem eru settar í forsvar, til að "róa" lýðinn - en eru í raun strengjabrúður maskúlínisma.  

Kvennabaráttan fjallar ekki um það að konum langi til að verða eins og karlmenn og stjórna eins og karlmenn og blóðsúthella eins og karlmenn og að fleiri verði herskáar og fleiri fari í fangelsin. Kvennabaráttan - eða jafnréttisbaráttan fjallar um það að forða fleiri karlmönnum frá fangelsi og færri verði herskáir.  Þar koma þessi feminísku - eða kvenlegu gildi sterk inn.

Feminismi fjallar um frið, frelsi og fegurð mannlífs. Ef að húmanismi gerir hið sama þá er mér alveg sama hvað -isminn heitir. 

Friður á jörðu.

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 02:43

26 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

"Kvennabaráttan - eða jafnréttisbaráttan fjallar um það að forða fleiri karlmönnum frá fangelsi og færri verði herskáir.  Þar koma þessi feminísku - eða kvenlegu gildi sterk inn.  -"

 Þetta ætti að vera konum í lófa lagt að framkvæma, ef þær hafa á því áhuga, því þær eru fyrstu og fremstu mótendur huga einstaklinga.

Jóhanna skrifar; "Ekki má gleyma "járnfrúnum" ..  þær flokkast nú varla undir"Token Women"..en það eru konur sem eru settar í forsvar, til að "róa" lýðinn - en eru í raun strengjabrúður maskúlínisma"

Afsakaðu Jóhanna, en ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að segja með þessu svari. Kannski að þú útskýrir betur.

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.10.2009 kl. 12:57

27 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Svanur, ég er ósammála því að konur séu ráðandi í því að móta huga einstaklinga. Feður koma þar sterkir inn.

Fyrirgefðu Svanur, ég var eiginlega að hugsa upphátt þarna og ekki nema von að þú skiljir mig ekki.   Hugtakið "Token Women" - er s.s. um konur sem er stillt upp í forsvar til að láta sýnast að konur séu við stjórn og jafnvel til að róa þær bylgjur sem krefjast þess að konur séu settar í stjórn. 

Ef við hugsum um konu sem Margaret Thatcher þá er varla hægt að segja að hún hafi ekki unnið á eigin forsendum og er því ekki "Token woman" ..  

Margar konur koma inn í stjórn á forsendum karla, og setja sig frekar í þeirra spor en að komast inn á eigin forsendum. Konur sem eru harðar í horn að taka (sbr. járnfrúin) breyta varla miklu í aðkomu að stjórn í átt að þeim mýkri gildum sem ég hef í huga sem feminísk. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 17:21

28 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

 Jóhanna reit;

Svanur, ég er ósammála því að konur séu ráðandi í því að móta huga einstaklinga. Feður koma þar sterkir inn.

Gott og vel að þú sért ósammála Jóhanna. Ég get aðeins vitnað til þess sem ég hef reynt og lesið. Í veikri tilraun til að fá þig til að endurmeta skoðun þína sem er greinilega í andstöðu við mat flestra alþjólegra stofnana sem hafa bent á að menntun kvenna í heiminum (ekki bara á Íslandi) er mikilvægasti liðurinn í að gera heiminn friðsamari, bendi ég þér á þessa grein eftir Dr. Laina Farhat-Holzman

Hér er smá úrtak úr greininni sem að hluta tekur til þessarar umræðu:

The practices that these three psychologists consider disastrous focus on the vicious misogyny and habitual physical violence of domestic life. Polygamy, which has once more become widespread, especially among the new Islamists, degrades women from the outset. They become the private property of often "absentee landlords," otherwise known as husbands. As fathers, these men are generally distant and uninvolved with child rearing. The mothers are largely ignorant, anxious (because they can easily be divorced or humiliated by the addition of a new wife), and they further the society’s prejudices. Girl children are severely disciplined and grow up with the same low self-esteem as their mothers. Boy children, however, are not disciplined, and are taught to be bullies toward everyone younger and smaller. They become men with inflated egos, who believe that they are entitled to adulation.

Greinin í heil er hér;

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.10.2009 kl. 20:43

29 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Jóhanna,

Þú segir, "Ég skil þó hvað Theódór er að fara þegar hann talar um að það þurfi að sinna ákveðnum málefnum karla.  Ég tel að ekki þurfi meiri maskúlínisma til að leiðrétta það, heldur einmitt feminisma (þá moderate). "

Hvað meinarðu eiginlega?  Af hverju þarf þessi andskoti að heita feminismi? Ef það er nauðsynlegt fyrr konur að sveipa um sig feminisma, af hverju er þá ekki rétt að karlmenni komi sér upp maskúlínisma?  Eigum við bara að liggja kylliflatir þar til þið eruð búnar að valta gersamlega yfir okkur?

Ég veit ekki hver skýringin er, en ég trúi ekki að það séu ekki tengsl milli árangurs kvennabaráttunnar og þeirrar staðreyndar, að karlar eru um það bil að hrökklast úr langskólanámi.  Með sama áframhaldi verður sá hæfasti, þegar meta skal hvaða umsækjandi er hæfastur til að sinna eftirsóttustu störfunum, alltaf kona vegna þess að það verður engum langskólagengnum karlmönnum til að dreifa.  Ég get alveg skilið að það þurfti að breyta ástandinu eins og það var, og ég veit að konum finnst aldrei nóg komið, en ég fæ ekki annað séð en að karlmenn þurfi að fara að athuga sinn gang.  Það gera þeir ekki með því að gerast feministar.

Theódór Gunnarsson, 11.10.2009 kl. 22:56

30 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Theódór - búin að svara þér hér.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 05:45

31 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Svanur - þarf að skoða þitt innlegg.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 05:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband