Færsluflokkur: Bloggar

Óttatilfinningin sem skapar aðgreinandi múra .. og börn deyjandi úr vannæringu

Það fyrsta sem flaug í gegnum hugann við sprengingu í Noregi, og e.t.v. megin hluta hinna ljóshærðu, bláeygðu (þ.m.t. minn huga) var að þarna væru íslömsk hryðjuverkasamtök á ferðinni, en sem betur fer kom hið sanna fljótlega í ljós (vegna reiði sem eflaust hefði skapast í garð múslima) ljóshærður Norðmaður sem hefði eflaust runnið eins og áll í gegnum tékk-innið á flugvöllum Evrópu, var sekur um fjöldamorð og þvílík hryllileg fjöldamorð. 

Að sjálfsögðu er ekki hægt að setja alla af sama litarhætti undir sama hattinn. En miðað við sömu viðbrög sem hefðu orðið EF að þarna hefðu verið íslömsk hryðjuverkasamtök, þá ættu hvítir ljóshærðir, kristnir karlmenn að fela sig inni til að verða ekki fyrir aðkasti. 

Þessi sprenging er m.a.  til að vekja okkur af þeim draumi  að hið ókunna sé það sem á að óttast en hið kunnuglega, - fólki sem lítur út eins og við hin norrænu, sé aftur á móti fulltreystandi.

En hvað á þá að gera?  Á að hætta að treysta öllum?  Nei, -  við verðum bara að fara að sporna við fæti við alls konar öfgum, landamærum, yfir- og undirmennsku, - fella hina aðgreinandi múra milli manna, múra sem eru skapaðir af ótta. 

Anders Behring Breivik var haldinn, eða hlýtur að hafa verið haldinn, einhvers konar mikilmennskubrjálæði að honum bæri að hreinsa heiminn af þeim sem hugsuðu "öðruvísi" en hann. 

Við sjáum því miður ekki innræti fólks utan á því,  og lengdin á nefinu lengist ekki við allar lygarnar og óheiðarleikann eins og gerðist hjá Gosa spítustrák. 

Enn og aftur þarf að hugsa að rótunum, hvernig við framleiðum fólk sem vill sprengja annað fólk, sem vill drepa annað fólk og telur sig æðra öðru fólki. 

Við verðum að huga að mannhelginni frá bernskunni, hætta að ala upp börn í stríðs-og drápsleikjum.  Það verður í raun bara hver að byrja heima hjá sér.  

Líta í eigin barm og hugsa hvað hann eða hún getur gert, til að vera ekki þátttakandi í ofbeldinu, yfirleitt er það ómeðvitað að við erum það. 

Hvert eitt barn fæðist ekki vont, en smátt saman fer það að meðtaka hið illa, það er alið á því og þegar að hjarta þess er orðið fullt af illsku hefur það ekkert nema vont að gefa. 

Þess vegna þarf að snúa þessu við og fylla hjörtu barnanna með hinu góða, til að þau þegar þau vaxa upp til að vera sjálfstæð hafi þau mikið gott að gefa. 

Við fórnum höndum og spyrjum okkur, "hvað get ég gert" ? ..  Mannslíf hafa verið tekin, mannslíf eru enn í hættu og þar með talið þúsundir barna í Austur - Afríku sem eru að deyja úr vannæringu. 

Við getum ekki bjargað lífum þeirra sem eru fallin fyrir hinum morðóða manni, en við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til til að bjarga lífum barna.  Með því að gefa af góðum hug og elsku, nærum við ekki aðeins aðra, heldur einnig okkur sjálf.  Því þarf ekki að leita elskunnar, aðeins gefa hana. 

Þess vegna minni ég á neyðarsöfnun Unicef

Höfum við eitthvað lært?  

Smelið hér. 

 


mbl.is Bjó til sprengju á 80 dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgist með úr fjarlægð ...

Ég er stödd í Danmörku að passa elsku barnabörnin mín,  Ísak Mána og Elisabeth Mai, - fylgist svo með óróa í fjöllum og jöklum á Íslandi. 

Kíkti snöggt á meðfylgjandi frétt og fannst myndin eins og auga á einhvers konar skrímsli! Gasp .. spurning hver fylgist með hverjum?

En knús á línuna þarna heima á Íslandi, sendi klístraðar ástar-og saknaðarkveðjur í anda Laga unga fólksins! .. 


mbl.is Náið fylgst með Mýrdalsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jesús grét .. kærleikurinn grætur " Love is not a victory march Love is a cold and broken Halleluja"

 

 

 Brene Brown (og Cohen) kann að orða hlutina - vonandi skilja lesendur ensku!


"Let´s make it easy, to watch the world with love" ......


Mótvirkni við meðvirkni - að finna eigin rödd

Meðvirkni (codependence) er tilhneyging fólks til að vera yfirmáta gott, hjálpsamt eða verndandi og ýta þannig (því miður) oft undir neikvæða hegðun og sambönd.  Þetta skaðar alltaf lífsgæði hins meðvirka sem setur líka yfirleitt sínar þarfir í annað sæti en er bullandi upptekin/n af þörfum annarra.  

Meðvirkni á sér stað í öllum samböndum, innan fjölskyldu, vinnustað, vinahópi, í ástarsambandi o.s.frv.  Meðvirkni getur falist í afneitun, lélegu sjálfsmati og stjórnsemi.

Orðið meðvirkni vill flækjast fyrir fólki, kannski vegna þess að orðið "með" er yfirleitt jákvætt  orð og að vera virkur er líka jákvætt orð, þess vegna dugar orðið illa eitt og sér.  Orðið styðjandi er líka jákvætt í sjálfu sér og þýðir það sama, en það verður neikvætt þegar það styður neikvæða hegðun.

Hið mikilvæga er að gera sér grein fyrir skilum á milli þess að styðja til jákvæðrar hegðunar og neikvæðrar.  Það er jákvætt að sýna samhug, samlíðan, að vera næm á þarfir náungans til að styðja góða siði og byggja upp og svo framarlega sem það er ekki á kostnað þess að þú klárir þín batterí,  því að batteríslaus getum við ekkert gefið og gögnumst hvorki sjálfum okkur né öðrum. 

Bein þýðing á orðinu codepencency er auðvitað meðháð, eða kannski aðstoðarháð.

Það þýðir t.d. að við erum í klappliði eða stuðningsliði fólks við að vera háð hvers konar fíknum eða ósiðum.

Við ýtum undir lesti í stað þess að bæta í bresti.  Við viljum vel, það vantar ekki en kunnum ekki betur því að við gerum það sem við höfum lært og viðbrögðin eru líka lærð.

Viðbrögð sem við lærðum í æsku.

Lærðum af því hvernig var talað til okkar.

Lærðum af meðvirku umhverfi (fjölskyldu).  

Ef við erum meðvirk óttumst við höfnun, óttumst að vera ekki elskuð óttumst að gera okkur að fífli, óttumst almenningsálit, óttumst að vera ekki samþykkt.

Þegar við erum meðvirk lifum við ekki okkar eigin lífi heldur lífi annarra.  Ekki í okkar eigin haus, heldur í höfði annarra, eða það sem við höldum að aðrir séu að hugsa eða vilji að við gerum.

Ef við erum meðvirk þá eru mörkin okkar óskýr, brotin, engin, of þröng eða of víð.

Við setjum ekki börnum okkar mörk, því við erum hrædd við viðbrögð þeirra, að glata ást þeirra og vináttu, að vera ekki elskuð.

Við setjum ekki maka okkar mörk, því erum hrædd við viðbragð hans, að glata ást hans og virðingu og að vera ekki elskuð.

Við setjum ekki vinnuveitanda okkar mörk, því við erum hrædd við viðbrögð hans, að glata virðingu og jafnvel að glata vinnu!  

o.s.frv. o.s.frv.

Þegar við höfum játast því að vera meðvirk, hvað þá?  Vandamálið/illgresið er orðið sýnilegt, en ræturnar/orsökin eru undir mold. 

Þá þurfum við að fara að grafa, skoða og auðvitað væri best að ná að rífa það upp með rótum.

Ræturnar liggja djúpt, þær liggja nær undantekningalaust í bernskunni og svo þéttast þær og styrkjast þegar við eldumst. 

Ofbeldi er andstæða uppeldis.  Ofbeldi er ekki agaleysi. Ofbeldi er ofstjórnun. Ofbeldi er markaleysi.

Við höfum sem sagt ÖLL verið beitt ofbeldi og við beitum ÖLL ofbeldi. Vegna þess að við erum ekki fullkomin og kunnum ekki betur.

Þegar við segjum við barn; "Æ þér líður ekkert svona illa, hættu þessu væli" - erum við að beita barnið ofbeldi,  því við erum ekki að taka tillit til tilfinninga þess, heldur að segja því hvernig því líður.  

Þegar við erum búin að gera það nógu oft hættir það að taka mark á sjálfu sér, tilfinningum sínum og leitar að sjálfu sér í höfðinu á foreldri sínu.  

Þegar það síðan fullorðnast gerir það rödd foreldrisins að sinni, - rödd sem er kannski rödd enn lengra aftur í ættir, því þetta gengur svona koll af kolli. 

Í staðinn fyrir að nota leiðinleg orð í uppeldinu; þú ert svo frek, þú ert svo löt..  þá þarf að snúa því við, - vertu góð elskan mín, það væri gaman að sjá þig vera duglega o.s.frv.  

Hver manneskja er verðmæt án alls utanaðkomandi, án titla, án eigna, án maka, án barna. Hver manneskja ein og sér er fjársjóður og því erum við öll rík.  Þegar við erum rík, eða gerum okkur grein fyrir ríkidæmi okkar þá fyrst getum við farið að gefa.

Ef að meðvirkni er ekki að vera góð, hvað er að vera góð?

Að vera góð (kærleikur) er að hafa hugrekki og lifa af heilu hjarta.  

Að vera góð er að þora að setja fólki  mörk og segja satt (þegar við gerum það ekki er það ekki vegna þess að við séum svona góð, heldur hrædd við viðbrögð þeirra sem við setjum mörk, við trúum að ef við gerum það ekki verðum við ekki elskuð, en auðvitað er það bara vegna brotinnar sjálfsmyndar og að við trúum ekki á verðmæti okkar).

Þegar við höfum nægilegt sjálfstraust, trú á sjálfum okkur - að við séum verðug og verðmæt, þorum við að segja það sem okkur finnst, hvað okkur langar og hvernig okkur líður.  Þorum að gera það og óttumst ekki viðbrögð annarra, vegna þess að við þekkjum okkar eigin rödd. 

Röddin sem er okkar eigin er ekki sú sem skammar okkur eða dæmir, heldur sú sem hvetur okkur til góðs.

Við erum öll meðvirk, því það er það sem við höfum lært, en fyrsta skrefið er að vita það, annað að spyrja "af hverju?" og þriðja að læra að þekkja sjálfan sig, vilja sinn og eigin rödd. 

Vinkona mín sagði í gær, - ég þori, ég get, en ég veit ekki hvað ég vil. 

Mér fannst það flott, og þekki þá tilfinningu.

Þá er oft gott að spyrja sig; "Hvað vil ég ekki?" .. "Get ég boðið mér upp á þetta"? .. "Byði ég öðrum upp á þetta?" ..

Kona safnaðu sjálfri þér saman. Maður safnaðu sjálfum þér saman.  Þjóð safnaðu sjálfri þér saman. Kirkja safnaðu sjálfri þér saman. Heimur safnaðu sjálfum þér saman. 

Hver er röddin?  Hvað vill hún annað en frið, ást og samhljóm? 

 


"Your business is my business" ..

Eftirfarandi pisti birti ég á Pressunni, en hér er hann í  örlítið styttri útgáfu: 

 

Á fleiri en einum fyrirlestri í gegnum tíðina, hef ég hlustað á fólk tjá sig um mikilvægi þess að hafa stefnu í lífinu, - að hafa framtíðarsýn. 

 "Ef við höfum enga stefnu,  stefnum við ekkert."  (sagði leiðbeinandinn á Dale Carnegie námskeiðinu).  
Við höfum nú mörg lært þann bitra lærdóm að leyndarmál og lygar hafa einkennt líf margs fólks, sum okkar eru búin að uppgötva það, önnur ekki. Það má líka kalla það að lifa í blekkingu. 


Ég ætlaði að láta pistilinn heita leyndarmál og lygar, en mundi eftir þessu gullvæga:
 "Það sem þú veitir athygli vex" svo ég ákvað að hafa jákvæða fyrirsögn. 


En hvernig er upplýstur heimur?  Til að öðlast upplýstan heim þurfum við að leita þekkingar.  
En hvað þarf ég, borgin, landið, heimsálfan, heimurinn allur, að gera til að breytast og verða að nýjum og upplýstum heimi,  heimi sem lifir með vitund, heimi sem lifir í þekkingu? 


Við hér á Íslandi erum búin að vera býsna dugleg við að funda, meira að segja þjóðfunda, og finna okkur vörður og gildi, og þar koma upp orð eins og heiðarleiki, jafnrétti og gagnsæi, hófsemd gægðist þar líka fram, en kannski af full mikilli hófsemi. 


Framtíðarsýnin er því byrjuð að mótast, og auðvitað byrjum við, hvert og eitt að byrja á okkur, því að við ætlum sjálf að vera breytingin, og ýta svo við öðrum með fyrirmynd okkar og þannig fellur domino blekkingarinnar. 


Við þurfum að hætta að hugsa "mind your own business" en í staðinn hugsa "your business is my business"  - Við þurfum að þora að skipta okkur af,  því að afskiptaleysi getur verið lífshættulegt. 
Hér er ég ekki að tala um neikvæða afskiptasemi, heldur að láta okkur náungann varða, svipað og við gerum í eineltismálum.

 
Þetta er ekki einungis siðferðileg skylda okkar. Það er líka lagaleg skylda að láta vita ef okkur grunar að illa sé farið með barn og það er lagaleg skylda yfirvalda að sinna því.  Hrikalega grátlegt dæmi var að koma upp í nágrannalandi okkar, Danmörku, þar sem börnum var misþyrmt af sjúkum foreldrum, og það viðgekkst í mörg ár.  


Við þurfum svo sem ekkert að leita út fyrir landsteinana því að í nýútkominni skýrslu Unicef þá kemur í ljós að íslensk börn verða fyrir miklu ofbeldi. 


Þegar við skiptum okkur af, eða látum vita af misgjörðum þá eru oft þeir til sem fara að benda á þann sem bendir og vinna gegn honum og jafnvel ásaka hann um slæman eða eigingjarnan ásetning. 
Þess vegna þorir fólk stundum ekki að standa upp og láta vita. Nýlegt dæmi eru málin innan kirkjunnar. Sumt fólk sem þar hefur staðið upp til að styðja fórnarlömb embættismanna stofnunarinnar og gagnrýnt "mistökin" sem þar hafa átt sér stað, hefur fengið orð í eyra og verið ásakað um valdabaráttu, að vera með vesen eða eitthvað álíka.   

 

Þetta hef ég svo sannarlega reynt á eigin skinni. Eb þegar ég hef verið með vindinn í fangið, þá hefur mér reynst vel að biðja Guð um leiðsögn, og ekki hefur veitt af.  "Leið mig Guð, eftir þínu réttlæti" - er ágæt "mantra" til að þylja fyrir sér, auk orðanna úr 23. Davíðssálmi - "Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér"..  
Það þarf nefnilega hugrekki og óttaleysi til. 


Hin neikvæða gagnrýni á þá sem vilja vinna með réttlætinu er þó sem betur fer undantekning, og kemur yfirleitt frá þeim sem hafa eitthvað að fela, eða vilja setja þetta upp sem lið.  Raunin er að ég er ekki í neinu "liði" og set fram gagnrýni út frá því - og ég tel okkur jarðarbúa vera eitt lið!   
Pólitíkin er sér kapituli - hér verður ekki farið út í hana og hún getur reynst víðsjárverður forarpyttur.  Menn nýta sér hana bæði til góðs og ills. Pólitík getur orðið til ofsókna og menn kalla stundum réttlátar ábendingar pólitískar ofsóknir.  


Að krefjast þess að fólk taki ábyrgð á gjörðum sínum, að krefjast réttlætis og benda á það sem betur má fara og að valdhafar axli ábyrgð,  er ekki það sama að vilja hengja einhvern eða skjóta. 
Það eru oft rök hinna röklausu.  

 
Auðvitað þurfa þau sem berjast gegn óréttlæti alltaf að byrja heima, stöðva, íhuga og koma svo fram af heilu hjarta.  Þau sem fara af stað til að rífa niður blekkingarvef, vita að ef það er ekki gert af heilindum munu þau sjálf festast í vefnum. 


Hvað gerist þegar við tökum blekkingarvefinn niður?  Hvað sjáum við betur? 
Það þarf að hætta að vera með leynd hvað atvinnu varðar, launaleynd á að vera hluti af nýjum og betri heimi, skýrslur fyrirtækja um hagnað eiga að liggja fyrir og annað slíkt á að vera opinbert.  Nýr heimur er sýnilegur heimur, hann er ekki "undir borðið" heimur með sínum leyndarmálum, óheiðarleika og lygum. 


Hættum að lifa bak við grímur, komum til dyranna eins og við erum klædd, verum óhrædd við að vera við sjálf.

 
Leyndarmál ala á skömm, stundum erum við að skammast okkar fyrir eitthvað sem er alls ekki okkar skömm, en hvort sem það er okkar skömm eða annarra þá er betra að leggja hana í ljósið og fá þannig fyrirgefninguna.


Framtíðarsýnin er því grímulaus heimur, heimur án blekkingar og yfirborðsmennsku. Án hindrana,  fáfræði og fordóma.  Upplýstur heimur.  Það getur stungið í augun til að byrja með og verið óþægilegt, en yfirleitt er hægt að venjast birtunni og tröllin verða að steini. 
Ljósið er ekki eingöngu við enda gangnanna.


Þú ert ljósið.
 

Með því að vera ljósið, og stefna á ljósið - göngum við í trú á betri heim. 


Guðfræðin mín - varúð ótrúlega langt blogg! ..

Ég skráði mig utan trúfélaga fyrir ca. ári síðan, ég upplifi mig samt sem hluta af kirkju Guðs á jörðu, greiði reyndar félagsgjöld ennþá til styrktar Kvennakirkjunni og sæki einstaka messur þar. Ég vil þó ekki tilheyra bara Kvennakirkju og ekki bara Karlakirkju, eða Karlskirkju? .. 

Skrifaði svolitla grein um afstöðu mína á Pressunni fyrir þau sem hafa áhuga. 

Jæja - ég var eiginlega búin að ákveða að skrá mig aftur í þjóðkirkjuna þegar hún væri búin að gera hreint fyrir sínum dyrum, farin að fara eftir jafnréttisáætlunum og starfa eftir kristilegu siðferði, en ég held ég segi bara pass, eftir að hafa heyrt af upphafi kirkjuþings. 

Æðruleysi er orð dagsins. 

Ég fór út úr bænum - ein ásamt hundinum Simba, og var í sólarhring í sveitinni. Ákvað þá að skrifa niður mínar hugsanir um Guð, - en ég er guðfræðingur auk þess að hafa lært gífurlega mikið um meðvirkni sl. ár, og í þeirri göngu hefur guðfræði mín dýpkað til muna og skilningur aukist. 

En hér fer það sem ég skrifaði: 

Hugtakið "Guð" er mjög umdeilt og vítt hugtak, séð á jafn marga mismunandi vegu og mennirnir eru margir. Fyrir suma er hugtakið stuðandi.   

Vissulega eiga margir næstum alveg sömu guðsmynd, en aldrei alveg 100% vegna þess að það eru engar tvær manneskjur 100% eins og við getum aldrei horft frá nákvæmlega sama sjónarhóli, - jú á stað en þá ekki á sama tíma.

Þegar við tölum um Guð þá erum við því alltaf að tala út frá okkar eigin forsendum um Guð eða þennan x-faktor sem margir kalla Guð. Sumir vilja frekar tala um "Being" eða Verund, æðri mátt, eða hvað sem er. Það sem er á bakvið er það sem skiptir máli, eins og í flestu. Ekki hugtakið eða nafnið.

Þegar við þroskumst hefur guðsmynd okkar tilhneygingu til að þroskast með okkur.

Guðsmynd mín hefur þroskast mikið með mínum þroska, námi og reynslu.

Bókin "Kristur í Oss", Davíðssálmur 23 í Biblíunni  og ljóð Steingríms Thorsteinssonar;  Trúðu á tvennt í heimi,  eru meðal áhrifaríkustu lesninga sem ég hef lesið hvað guðsmynd varðar. Nýjasta "aha momentið" var svo bók Geneen Roth; Women, Food and God auk efnis sem ég hef lesið um meðvirkni.

Allt hefur þetta það sameiginlegt að ég skil að það er aðeins einn Guð, - þó við trúum á "tvennt í heimi, Guð í alheimsgeimi og Guð í sjálfum þér" er það einn og sami guðinn.

Við erum sem dropar í hafi sem er myndað af okkur og hafið er þá Guð.

Við erum sköpuð í Guðs mynd, sköpuð sem dropar af Guði.

Guð er samferðaraðili foreldra okkar í uppeldinu, en þegar að foreldrar sleppa af okkur hendinni sleppur Guð henni ekki, og aldrei.  Því þar sem  Guð er í sjálfum okkur yfirgefur Guð okkur aldrei.   

Við getum aftur á móti forðast Guð með ýmsu móti, með fíknum og með því að vera upptekin af öllu öðru en að horfa inn á við og það sem raunverulega skiptir máli.  

Jesús kallaði Guð föður, því hann fann fyrir styrkri föðurhendi.  Það var hans sjónarhóll. Einhver upplifir Guð sem móður, og um það hefur verið skrifað og ljóð samin.  Guð er svo margt, hirðir, vinur, vinkona .. alltaf eitthvað eða einhver sem gefur þér mátt eða styður.

Guð er ..  það er nóg og við erum,  og það er líka nóg.

Barrtré í skógi er fullkomið barrtré og það bara ER.  Það er ekki fyrr en við förum að leita okkur að jólatré og við höfum staðlaðar hugmyndir um hvað fallegt jólatré er að barrtréið er ekki lengur fallegt svona eitt og sér.

En barrtréið er sem betur fer ekkert meðvitað og pælir ekkert í því hvað öðrum finnst um það.  Það nýtur þess að láta sólina skína á sig, sækja næringu úr moldinni og finna vindinn blása. Það er nóg.

En svo komum við og höggvum - veljum það skásta. Skreytum með kúlum og slaufum, og setjum stjörnu eða engil  á toppinn.  Pakka í kring.  Og "Voila" - það er komið fallegt jólatré.  Það ilmar ennþá því er haldið vakandi með vatni, en það er að fjara út.  Þrátt fyrir skrautið og pakkana.

p1010009_1091112.jpg

Hvaðan koma þessar væntingar um að við skreytum okkur, séum með rétta "jólatrés" lúkkið og hlaðin pökkum og pinklum?  - Við getum litið á pakkana og pinklana sem launaseðla og efnahagsleg gæði.

Tréð þarf á mold, vatni og lofti að halda - og birtu.  

Við þurfum á næringu að halda og elsku. Við þurfum líka á því að halda að tilheyra.  Tilheyra einingu, samfélagi, hópi.  

Kannski er það þess vegna sem við breytum okkur til að þóknast. Til að vera talin gild í hópnum okkar og til að vera elskuð?

En kannski erum við bara alveg nógu dásamleg, sígræn og lifandi sem barrtré án pakkanna, án skrautsins og án engilsins á toppnum.

Þið vitið að hann er bara gerfi? ..

Þó að við trúum á Guð í sjálfum okkur, þá erum við ekki Guð heldur af Guði og sama eðlis.
Guð er hafið og við erum dropinn.

Þegar við deyjum þá erum við eins og dropinn, gufum upp og verðum að skýi. Skýin og hafið eru eitt.  Allt er eitt, við og Guð.

Að vera hólpinn fyrir trú er að vera hólpinn fyrir trú á sjálfan sig/Guð í sjálfum þér.  

Þegar við vinnum vond verk erum við orðin fjarlæg okkur og um leið fjarlæg Guði.  Sá sem titlar sig trúlausan en hefur óskert sjálfstraust hefur hvorki týnt sjálfum sér né Guði, þó að það sjálfstraust kalli hann ekki Guð.  Það skiptir engu máli.

Það skiptir engu máli.

Merkimiðinn er bara eins og skrautið á jólatrénu.

Á meðan að manneskjan þekkir sjálfa sig, þekkir hún Guð.  Guð bara ER og Guð er nafnlaus.

Hið ytra getur hjálpað okkur í sjálfsþekkingunni.  

Sjálfsþekking gæti bætt ástandið í heiminum til muna.  

Því sá sem þekkir sjálfan sig veit að hann vill frið, veit að hann vill ekki meiða náunga sinn, veit að hann vill vera góður - en kann það ekki því hann er fjarri sér, því fjarri vilja sínum. Því fjarri sem hann er þess meira gerir hann eitthvað sem er ekki hann sjálfur.

Því fjarri sem hann er sjálfum sér og þar með Guði.

Guð er því líka sameiningarafl - sameiningarafl hugar og líkama, eins og í Yogafræðunum og hugurinn mætir líkamanum í andardrættinum.

Við leiðarlok í þessari jarðvist þá tökum við einn lokaandardrátt til að kveðja líkamann, farartækið sem hefur flutt okkur um í tilverunni og þjónað frá vöggu til grafar.  

Við svífum í sálarlíkama okkar upp til skýjanna til að sameinast Guði og þeim sem á undan eru farin.

Svo kemur rigning.

Nú gætu margir farið að hugsa;  hún er ekki kristin, þetta er grautartrú, hún er .....

Er það ekki dásamlegt - að vilja fara að hengja á mig merkimiða, eða skrautið og setja plastengilinn á toppinn! ...

Við erum sköpuð í Guðs mynd og því erum við svo heppin að þurfa ekkert annað en að vera.  Að vera vera.

Guð ER, þú ERT og ég ER .. punktur.

Ég ætla ekkert að skilja ykkur eftir í tómarúmi eftir að lýsa útsýninu frá mínum sjónarhóli - en segja frá minni leið til sjálfsþekkingar, til þekkingar á Guði:

Við erum af jörðinni, (jörðin er jafn góð líking og ský og haf - "af jörðu ertu komin/n að jörðu muntu aftur verða") -  virðum jörðina og umhverfið allt og upplifum  með að snerta hana, ganga berfætt og anda djúpt að okkur loftinu og baða okkur í vatni og drekka vatnið.  Nýtum elementin eins og barrtréð gerir.

Æfum okkur með að hugleiða inn á við - alveg inn að hjartarótum. Hlustum á andardrátt okkar.

Tölum fallega til okkar og annarra. Bæði upphátt og í huganum.

Óttumst ekki álit annarra, eða byggjum á því - því þá flýjum við okkur sjálf

Samþykkjum ekki neikvætt tal í okkar garð og stundum sjálfsskoðun

 "verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum" - friður, elska og jafnrétti

Íhugum það sem skrifað var í minningarbækurnar okkar sem börn;

"Lifðu í lukku en ekki í krukku - lifðu lengi en ekki í fatahengi" ..

 

----

Setningar úr "Kristur í Oss" 

Ég er   


Ein af bókunum sem ég hef lesið (og þær eru margar)   heitir "Kristur í oss" sem er skrifuð 1907 af ókunnum höfundi og þýdd af ókunnum þýðanda - dularfullt?  


Ég held að mér hafi þótt þessi bók svo góð vegna þess að ég kannaðist við svo margt í henni og var svo sammála mörgu.


Eftirfarandi eru nokkrar tilvitnanir sem ég skrifaði niður:
Að vera heilagur er að vera heill
Þar sem Guð er, þar eru engar takmarkanir
Heimurinn er hugsun Guðs
Biblían er stigi hinna dauðu kennisetninga, hinna dánu einstaklinga
Mannlegt mál er algjörlega ófullnægjandi til að túlka andleg sannindi (höf. tekur það fram í upphafi að bókin sé skrifuð með það í huga, að gera sitt besta en þessi takmörk séu fyrir hendi)
Sköpunaröfl eru ósýnileg - myndin á striga listamannsins er aldrei sú sama og kemur á strigann
Himnaríki er vitund um Guð, ekki staður
Kirkjur og kapellur eru aðgreiningarmúrar
Hlýddu andanum innra með þér
Láttu hjarta þitt vera fullt af Guði
Það er í hjartanu sem skilningurinn býr
Smámunasemi má ekki ná valdi á lífi okkar og taka stjórn
Hver einstaklingur skapar framtíð sína með hugsun sinni
Heilinn nærist af andanum
Leitaðu ekki elskunnar,  gefðu hana - það er næring
Bænin er andardráttur lífsandans
Það er röng afstaða að bíða eftir sælu í fjarlægri framtíð
Þegar þú biður fyrir veiku fólki sjáðu það þá heilt fyrir þér en ekki veikt  
Þú ert alltaf - og munt verða
Hið eina sem hefur hjálpað þér til æðri þekkingar á Guði hefur komið innan að
Hugsun er útöndun orðsins - Orðið er innra með þér
Þú ert, vegna þess að Guð er
Það er óttatilfinning sem skapar aðgreinandi múra
Sjáðu og viðurkenndu aðeins það góða í þínum nánustu - traust þitt á þeim skapar í þeim nýja von
Elskaðu af öllu hjarta, sál og huga og þér mun enginn hlutur ómögulegur
Kristur er uppspretta sem aldrei þrýtur
Við erum öll þríein og lifum á þremur tilverustigum, sviði andans, sálar og líkama
Leyndardómur við lestur Biblíunnar er innblástur (þinn eigin innblástur ekki þeirra sem skrifuðu)
Bækur skal nota sem farvegi
Eilífðin er núna
Kastaðu á djúpið,  djúpið er Guð
Hangið ekki við hlekkina, sleppið þeim
 
Ég er mikill inklúsívisti í hjarta mínu, þ.e.a.s. ég vil ekki útiloka nokkra manneskju - enda inklúsívismi andstæða exklúsívisma.  Með því að setja merkimiða á fólk, þá er hætta á að útiloka. Reynum því að komast hjá því eins og mögulegt er. 
 
Mín einlæg skoðun er sú að við eigum, hverju sem við trúum, eða trúum ekki,  að geta setið við sama borð og neytt saman matar þó við þurfum ekki á bragða á því sem hentar okkur ekki eða okkur þykir vont.  Borðið er gnægtarborð,  hlaðið mat úr öllum fæðuflokkum og eldað á alla mögulega vegu (eða hrátt) ..
 
Hver og ein/n þarf að velja það sem hentar honum/henni og við þurfum ekki að amast við jurtaætunni eða jurtaætan að amast við okkur.  
 
"Hvað með þá sem borða af hömluleysi eða borða ekkert eins og t.d. anorexíusjúklingar?" gæti einhver spurt.  
 
Á því þarf að taka eins og hverjum öðrum sjúkleika eða fíkn.
 
Líkingar hafa alltaf sín takmörk, en þessi líking fannst mér ná einna skást til að lýsa því hvernig mismunandi trúaðir/trúlausir einstaklingar eiga að geta lifað sem ein heild án þess að þurfa að byggja veggi sín á milli.
 
Ég er ekki á móti kirkjum eða samkomum yfirhöfuð - reyndar alveg öfugt.  Flest fólk er félagsverur og finnst oft gott einmitt að vera saman til að biðja, syngja eða hlusta á hugvekjur eða prédikanir.  Sumu fólki finnst styrkurinn aukast með því að deila saman rými, bænum og hugsunum sínum.  
 
Þegar talað er um að kirkur eða kapellur skapi múra, þá hlýtur það að vera í þeim tilfellum þegar að þeir sem innan "múranna" eru telja sig betri en þeir sem eru fyrir utan.  
 
Þetta snýst í raun um hugsanamúra.  
 
 "Þú ert vegna þess að Guð er" .. þetta er það sem höfundur segir og ég er sammála þessu, þ.e.a.s. "Guð er" .. en hvað segir þá sá eða sú sem ekki trúir á Guð?  "Ég er vegna þess að ég er"  .. það kemur á sama stað niður:   "Ego eimi" sagði Guð   "Ég er"..
 
Guð er í oss, en við erum ekki guðir - heldur dropar af Guði sama eðlis, enda sköpuð í Guðs mynd.

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi
Guð í sjálfum þér.

Steingrímur Thorsteinsson  

---

Sl. hvítasunnudag fórum við nokkrar konur saman í göngu í Nauthólsvíkinni, gengum í góða veðrinu meðfram ströndinni, sumar gengu lengra en aðrar, allt eftir getu. Önduðum að okkur sól og sjávarilm.  Við settumst svo niður í grænt grasið og ég leiddi þær í stutta hugleiðslu þar sem við köstuðum af okkur klyfjunum og hentum þeim alla leið í sjóinn.  (Lærði þetta hjá Maríu Ellingsen, taka svartan þungan stein úr hjartanu og setja þar sólina í staðinn).  Þegar við höfðum notið þess að sitja og spjalla smá stund, þá fórum við og fengum okkur kaffibolla og smá snæðing sumar. 

Fylltum lungu okkar af lofti, fengum sól á vanga og í hjarta. 

Þannig er kirkjan fyrir mér, í raun þarf ég ekki meira. - Hvernig og hvar ég ætla að láta jarða mig verður bara að koma í ljós síðar, "den tid den sorg" .. 

WizardHalo 


mbl.is Þjóðkirkjan glataði trausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og gerist nú konan íþróttafréttaritari - en rennur blóðið til (fjöl)skyldunnar....

Mig langar að vekja athygli á honum "litla" frænda mínum og afrekum hans á íþróttasviðinu, en þessi frændi heitir Kári og er sonur Brynjólfs "litla" bróður míns og konu hans Þóru Ingvadóttur.  Báðir eru þeir vel yfir 190 cm á hæð og sonurinn meira að segja vaxinn föður sínum yfir höfuð,  svo að litli á að sjálfsögðu hér við að þeir eru yngri en ekki minni. 

Kári Brynjólfsson sem er fæddur 1988, fór snemma að hafa áhuga á hjólreiðum (vá hvað þetta er eitthvað "maður er nefndur-legt") og Binni bróðir var  á tímabili formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur svo áhugamálið var svo sannarlega innan fjölskyldunnar.  Það var reyndar svolítið skondið,  að við héldum að Binni myndi aldrei læra að hjóla, en þegar hann fékkst loksins upp á hjól fór hann ekki af því.  Hann hjólaði tímunum saman og varð svo veikur af harðsperrum.  LoL

En s.s. til að gera langa sögu stutta (og svo kann ég kannski ekki söguna best manna) þá býr fjölskyldan, Binni, Þóra, Kári og Ingvi núna í Kaupmannahöfn og Kári er að læra að verða einhvers konar hjóla "mekaniker" .. og er kominn í einhvers konar hjóla-elitu-lið.  

Árið 2010 kom hann til Íslands, sá (eða hjólaði) og sigraði, þ.e.a.s. hann varð Íslandsmeistari í fjallareiðhjólum 2010. 

Ég hef nokkrum sinnum orðið  vitni að því hve stíft Kári æfir, og nú síðast þegar hann kom í heimsókn til Íslands sl. páska m.a. til að chilla (að ég hélt)  en þá fékk hann lánað hjól og hjólaði amk  tvisvar fyrir Hvalfjörð fyrir utan allt annað,  í annað skiptið var það á Skírdag, en þá var ég að keyra Hvalfjörðinn og veðrið var þannig í Brynjudalnum að áin fussaðist upp úr farvegi sínum.  Binni bróðir var orðinn áhyggjufullur og bað mig að fylgjast með hvort ég yrði vör við Kára, en ég var á ferð með systursyni mínum og sagði ég við hann að líklegast þyrftum við frekar að leita utan vegar en innan, hann hlyti bara að hafa fokið út af veginum!   En Kári hafði komist klakklaust, en þó hraktur og blautur inn að skinni í bústað til fjölskyldunnar í Hvalfirði,  svo ekki lá hann utan vegar sem betur fer. 

En Kári uppsker nú sem fyrr,  fyrir elju sína og dugnað og í fyrradag náði hann frábærum árangi í keppni í Danmörku,  sem kallast H12  en það er hjólað í 12 klukkutíma og sá sigrar sem fer flesta hringi (vantar skýringu hvar) á þessum 12 tímum.  Sá sem sigraði fór 23 hringi - 18,19 km á klukkustund,    en Kári lenti í 5. sæti fór 22 hringi - 17.43 km á klukkustund.  Mér sýndust vera 72 skráðir til leiks í einstaklingskeppni karla.  (Þvílíkur íþróttafréttaritari W00t

Pabbi hans skrifaði á Facebook: 

"Kári Brynjólfsson tók þátt í 12 tíma hjólreiðakeppni í gær og náði frábærum árangri, 5. sæti í einstaklingsflokki en einnig er 4 manna liðakeppni. Kári byrjaði mjög vel og var fyrstu tímana í 3. sæti. Svo dróg af honum og hann datt niður í 6. sæti en náði glæsilegum lokahringjum og tryggði sér þar með 5. sætið í þessari erfiðu keppni."

Pabbinn er sem sagt ánægður með sinn dreng, væri auðvitað ánægður með hann hvort sem hann hjólaði eða ekki, en hamingjusamur yfir árangrinum á "hjólasviðinu" og frænkan er það sem sagt líka!

Óska Kára frænda hjartanlega til hamingju með að standa sig svona vel, og að sjálfsögðu að vera besta eintakið af sjálfum sér - gera SITT besta, en meira getur ekkert okkar gert. 

 

 kari.jpg

 


Fótaþvottur...

washing_of_feet006.jpg Ég leyfði mér þann lúxus að fara í fótsnyrtingu í gær.  Já, ég veit - ég hef ekki efni á því, en það er önnur saga.  Den tid den sorg! .. (tid=þegar Visareikningurinn kemur)

Á snyrtistofunni voru tvær ungar stelpur í starfskynningu, en höfðu að vísu, að eigin sögn,  meiri áhuga á hárgreiðslu en  fótsnyrtingu og sást á svip þeirra að þær voru hissa á því að einhver hefði yfirhöfuð áhuga á að eiga við fætur annarra. 

Sú sem mér sinnti sagði þá við þær að starfsgleði hennar kæmi að miklu leyti við það hversu fólki liði miklu betur eftir fótsnyrtinguna og væri oft þakklátt. En frískleiki fótanna skiptir í raun ótrúlega miklu máli. Svo fórum við aðeins að ræða um það hvað margir færu að tala um persónulega hluti, þegar þeir upplifðu snertinguna og fleira í þeim dúr. 

Við getum að sjálfsögðu dekrað við okkur sjálf, farið í fótabað í einhverju góðu baðsalti,  hreinsað siggið, klippt neglur fallega og borið á okkur krem - og fengið út úr því frískar fætur,  en það er ekki það sama og að upplifa það að einhver annar sinni þínum fótum. 

Í raun er það að sinna fótum annarra eitt af þeim auðmjúkustu kærleiksverkum sem um er rætt í Biblíunni, og sýnir á áhrifamikinn hátt hina þjónandi forystu. Fyrirmyndin er skýr, enginn er of "merkilegur" til að þjóna náunga sínum.  

Þó að snyrti- og fótaaðgerðafræðingar fái að sjálfsögðu greitt fyrir sína vinnu, þá held ég að það að þeir sem velji sér þetta starf,  að sinna fótum annarra (yfirleitt konur) séu kærleiksríkar manneskjur. 

 

happyfeet-10toes.jpg


Silfur Egils og Jóga á mánudagsmorgni ... "emotional landscape" ..

Ég veit að lagið Jóga var samið fyrir aðra Jógu, en ég held að allir megi taka það til sín. Sjálf er ég sem landið, hið tilfinningalega landslag, sem undir niðri krauma sem kvika í eldfjalli og langar til að brjótast út yfir jarðskorpuna.  Elvira Mendez ýtti svolítið við kvikunni í Silfri Egils í gær,  þegar hún kynnti ritið, eða ritlinginn: Indignez vous eftir hinn 93 ára Stéphane Hassel;   "Cry out" er heitið á ensku .. Heykslist sagði Egill Helga.  Ég myndi bara kalla ritið Vaknið! .. 

Við þurfum að vakna og halda okkur vakandi. Ekki samþykkja samfélag þar sem fjármagn er sett í forgang en fólkið og félagsauður er sett aftar í röðina. Í bókinni er mælt með friðsamlegri byltingu gegn kapítalískri áhættufjárfestingu.  En mikilvægt atriði sem kom fram í máli Elviru "The Banks will not change if we don´t change" .. (Bankarnir breytast ekki ef við breytumst ekki - eða breytum ekki hegðun okkar).  Þetta fer eftir framboði og eftirspurn. 

Við þyrftum að skoða þessi mál og ræða með röksemi í stað karpsemi (sem Gunnar Hersveinn kynnti - einnig í Silfri Egils)  Góðu fréttirnar eru að það er fullt af fólki sem er mjög vel vakandi og margir farnir að ýta við þeim sem enn sofa eða eru fastir jafnvel í martröð. Að vera vakandi þýðir í þessu samhengi að vera meðvitaður.

..smá um karpsemi vs/röksemi: 

Karpsemi er andstæða röksemi. Einkenni á karpi er löngun til að sigra andstæðing (viðmælandi þá álitinn andstæðingur) karpið verður persónulegt, og þar birtist vissa, og einkenni er að hlusta ekki á hinn.  (könnumst við við þetta?)

Röksemi - þá er markmiðið að leita að svari, en svarið ekki fyrirfram gefið. Aðferðin er að hlusta, hlusta á umhverfið og viðmælandann og jafnvel að geta skipt um skoðun.

Við hljótum að sjá hver stigsmunurinn er á virðingu eftir hvort við körpum eða rökræðum. Getur verið að við séum ekki nógu góð í að virða hvert annað? ..  Nú eða sjálf okkur, - því hver er sjálfsvirðingin í því að valta yfir náungann?  

Brosið okkar kemur aftur á endanum til  okkar og á það þá ekki líka við um ullið okkar ...  "Ullaðu á heiminn og hann ullar á þig" .. ?  

Þetta er spurning um að samþykkja ekki óréttlæti,  við þurfum ekki að hneykslast eða hvað?  Þurfum við ekki bara að fara að taka þjóðgildin hátíðlega, um heiðarleika, jafnrétti,  o.s.frv. og meina það sem við segjum ... "Nennir einhver að vera heiðarlegur" ? .. spyr Gunnar Hersveinn

"Thousands of candles can be lit from one candle without diminishing it's life. Happiness never decreases by being shared" - Buddha

 

 



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband