Mótvirkni við meðvirkni - að finna eigin rödd

Meðvirkni (codependence) er tilhneyging fólks til að vera yfirmáta gott, hjálpsamt eða verndandi og ýta þannig (því miður) oft undir neikvæða hegðun og sambönd.  Þetta skaðar alltaf lífsgæði hins meðvirka sem setur líka yfirleitt sínar þarfir í annað sæti en er bullandi upptekin/n af þörfum annarra.  

Meðvirkni á sér stað í öllum samböndum, innan fjölskyldu, vinnustað, vinahópi, í ástarsambandi o.s.frv.  Meðvirkni getur falist í afneitun, lélegu sjálfsmati og stjórnsemi.

Orðið meðvirkni vill flækjast fyrir fólki, kannski vegna þess að orðið "með" er yfirleitt jákvætt  orð og að vera virkur er líka jákvætt orð, þess vegna dugar orðið illa eitt og sér.  Orðið styðjandi er líka jákvætt í sjálfu sér og þýðir það sama, en það verður neikvætt þegar það styður neikvæða hegðun.

Hið mikilvæga er að gera sér grein fyrir skilum á milli þess að styðja til jákvæðrar hegðunar og neikvæðrar.  Það er jákvætt að sýna samhug, samlíðan, að vera næm á þarfir náungans til að styðja góða siði og byggja upp og svo framarlega sem það er ekki á kostnað þess að þú klárir þín batterí,  því að batteríslaus getum við ekkert gefið og gögnumst hvorki sjálfum okkur né öðrum. 

Bein þýðing á orðinu codepencency er auðvitað meðháð, eða kannski aðstoðarháð.

Það þýðir t.d. að við erum í klappliði eða stuðningsliði fólks við að vera háð hvers konar fíknum eða ósiðum.

Við ýtum undir lesti í stað þess að bæta í bresti.  Við viljum vel, það vantar ekki en kunnum ekki betur því að við gerum það sem við höfum lært og viðbrögðin eru líka lærð.

Viðbrögð sem við lærðum í æsku.

Lærðum af því hvernig var talað til okkar.

Lærðum af meðvirku umhverfi (fjölskyldu).  

Ef við erum meðvirk óttumst við höfnun, óttumst að vera ekki elskuð óttumst að gera okkur að fífli, óttumst almenningsálit, óttumst að vera ekki samþykkt.

Þegar við erum meðvirk lifum við ekki okkar eigin lífi heldur lífi annarra.  Ekki í okkar eigin haus, heldur í höfði annarra, eða það sem við höldum að aðrir séu að hugsa eða vilji að við gerum.

Ef við erum meðvirk þá eru mörkin okkar óskýr, brotin, engin, of þröng eða of víð.

Við setjum ekki börnum okkar mörk, því við erum hrædd við viðbrögð þeirra, að glata ást þeirra og vináttu, að vera ekki elskuð.

Við setjum ekki maka okkar mörk, því erum hrædd við viðbragð hans, að glata ást hans og virðingu og að vera ekki elskuð.

Við setjum ekki vinnuveitanda okkar mörk, því við erum hrædd við viðbrögð hans, að glata virðingu og jafnvel að glata vinnu!  

o.s.frv. o.s.frv.

Þegar við höfum játast því að vera meðvirk, hvað þá?  Vandamálið/illgresið er orðið sýnilegt, en ræturnar/orsökin eru undir mold. 

Þá þurfum við að fara að grafa, skoða og auðvitað væri best að ná að rífa það upp með rótum.

Ræturnar liggja djúpt, þær liggja nær undantekningalaust í bernskunni og svo þéttast þær og styrkjast þegar við eldumst. 

Ofbeldi er andstæða uppeldis.  Ofbeldi er ekki agaleysi. Ofbeldi er ofstjórnun. Ofbeldi er markaleysi.

Við höfum sem sagt ÖLL verið beitt ofbeldi og við beitum ÖLL ofbeldi. Vegna þess að við erum ekki fullkomin og kunnum ekki betur.

Þegar við segjum við barn; "Æ þér líður ekkert svona illa, hættu þessu væli" - erum við að beita barnið ofbeldi,  því við erum ekki að taka tillit til tilfinninga þess, heldur að segja því hvernig því líður.  

Þegar við erum búin að gera það nógu oft hættir það að taka mark á sjálfu sér, tilfinningum sínum og leitar að sjálfu sér í höfðinu á foreldri sínu.  

Þegar það síðan fullorðnast gerir það rödd foreldrisins að sinni, - rödd sem er kannski rödd enn lengra aftur í ættir, því þetta gengur svona koll af kolli. 

Í staðinn fyrir að nota leiðinleg orð í uppeldinu; þú ert svo frek, þú ert svo löt..  þá þarf að snúa því við, - vertu góð elskan mín, það væri gaman að sjá þig vera duglega o.s.frv.  

Hver manneskja er verðmæt án alls utanaðkomandi, án titla, án eigna, án maka, án barna. Hver manneskja ein og sér er fjársjóður og því erum við öll rík.  Þegar við erum rík, eða gerum okkur grein fyrir ríkidæmi okkar þá fyrst getum við farið að gefa.

Ef að meðvirkni er ekki að vera góð, hvað er að vera góð?

Að vera góð (kærleikur) er að hafa hugrekki og lifa af heilu hjarta.  

Að vera góð er að þora að setja fólki  mörk og segja satt (þegar við gerum það ekki er það ekki vegna þess að við séum svona góð, heldur hrædd við viðbrögð þeirra sem við setjum mörk, við trúum að ef við gerum það ekki verðum við ekki elskuð, en auðvitað er það bara vegna brotinnar sjálfsmyndar og að við trúum ekki á verðmæti okkar).

Þegar við höfum nægilegt sjálfstraust, trú á sjálfum okkur - að við séum verðug og verðmæt, þorum við að segja það sem okkur finnst, hvað okkur langar og hvernig okkur líður.  Þorum að gera það og óttumst ekki viðbrögð annarra, vegna þess að við þekkjum okkar eigin rödd. 

Röddin sem er okkar eigin er ekki sú sem skammar okkur eða dæmir, heldur sú sem hvetur okkur til góðs.

Við erum öll meðvirk, því það er það sem við höfum lært, en fyrsta skrefið er að vita það, annað að spyrja "af hverju?" og þriðja að læra að þekkja sjálfan sig, vilja sinn og eigin rödd. 

Vinkona mín sagði í gær, - ég þori, ég get, en ég veit ekki hvað ég vil. 

Mér fannst það flott, og þekki þá tilfinningu.

Þá er oft gott að spyrja sig; "Hvað vil ég ekki?" .. "Get ég boðið mér upp á þetta"? .. "Byði ég öðrum upp á þetta?" ..

Kona safnaðu sjálfri þér saman. Maður safnaðu sjálfum þér saman.  Þjóð safnaðu sjálfri þér saman. Kirkja safnaðu sjálfri þér saman. Heimur safnaðu sjálfum þér saman. 

Hver er röddin?  Hvað vill hún annað en frið, ást og samhljóm? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig H Sveinbjörnsdóttir

Mjög góð lesning- ansi held ég að ég sé búin ða vera meðvirk í mörg ár án þess að hafa haft hugmynd um það !

Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 20.6.2011 kl. 11:41

2 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Sæl Jóhanna - í þessum pistli finnst mér þú taka svolítið djúpt í árinni að mörgu leyti, sem er vissulega gott líka því það kallar á viðbrögð og rökræðu - það er hárfín lína milli meðvirkni og leiðsagnar og ekki alltaf ljós.........

"Við höfum sem sagt ÖLL verið beitt ofbeldi og við beitum ÖLL ofbeldi. Vegna þess að við erum ekki fullkomin og kunnum ekki betur."

Ég er ekki sammála því að öllu leyti og tel reyndar að orðið ofbeldi sé ofnotað - það má þá jafnvel fullyrða að lífið sé ofbeldi gagnvart öllu sem er lifandi - við getum ekki stigið niður fæti án þess eyðileggja eitthvað, erum við að beita ofbeldi gagnvart skordýrum, jurtum ofl með því að ganga um á jörðinni???

---------------------------------------------------------

"Þegar við segjum við barn; "Æ þér líður ekkert svona illa, hættu þessu væli" - erum við að beita barnið ofbeldi,  því við erum ekki að taka tillit til tilfinninga þess, heldur að segja því hvernig því líður."

Þetta þarf ekki að flokkast sem ofbeldi, þó stundum geti farið útí öfgar - við höfum börnin okkar að láni um hríð og skylda okkar sem foreldra er að byggja þau upp til þess að þau séu í stakk búin til að takast á við lífið sem er ekki alltaf dans á rósum - barnið er að safna í sarpinn reynslu fyrir framtíðina og veit ekki hvernig á að höndla hvorki tilfinningalega eða líkamlega vanlíðan, í þessu tilviki gæti hugsast að verið sé að byggja upp viðmið fyrir barnið uppá seinni tíma og þar með sjálfsmat og hæfi til að takast á við lífið..........

"Þegar við erum búin að gera það nógu oft hættir það að taka mark á sjálfu sér, tilfinningum sínum og leitar að sjálfu sér í höfðinu á foreldri sínu."

Þarn er ég alveg sammála þér, það er mjög auðvelt að ofgera og brjóta niður og þá reynir verulega á hæfi uppalenda til verksins........

-------------------------------------------

"Þegar það síðan fullorðnast gerir það rödd foreldrisins að sinni, - rödd sem er kannski rödd enn lengra aftur í ættir, því þetta gengur svona koll af kolli."

Alveg rétt og ef vel hefur til tekist er þetta það sem gerir fólki kleift að taka eigin ákvarðanir byggðar á reynslu forfeðranna - skoða söguna til að læra af henni....

---------------------------------------------

"Í staðinn fyrir að nota leiðinleg orð í uppeldinu; þú ert svo frek, þú ert svo löt..  þá þarf að snúa því við, - vertu góð elskan mín, það væri gaman að sjá þig vera duglega o.s.frv."

 Að mínu mati á ekki að vera þörf til svona orðaskipta milli barns og uppalanda, engu að síður getur þörfin skapast ef fram úr hófi gengur frekjan og letin - hinsvegar, eins og seinni hluti setningarinna er jákvæður - verður að viðurkennast að það er eðli barns að ganga eins langt og það kemst bara til að vita hvar mörkin liggja, ef þau vita það ekki skapast óöryggi hjá þeim sem getur valdið skaða bæði hjá þeim sjálfum og öðrum í kring um þau............

En semsagt mörkin milli meðvirkni og ofstjórnunar / ofverndunar eru ekki ljós og vandrataður hinn gullni meðalvegur........... en þetta er bara mín skoðun..

Eyþór Örn Óskarsson, 20.6.2011 kl. 12:47

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Það er mikil uppgötvun - ég þóttist alltaf vita hvað það væri að vera meðvirk, en gerði mér ekki gerin fyrir því fyrr en sl. haust þegar ég fór sjálf á námskeið. Nú er ég orðin leiðbeinandi sjálf, - og starfa við að opna augu fólks við að skilja hversu dásamlegt það er í raun og veru og læra að þekkja sinn vilja.

Vegna guðfræði minnar, hef ég þá trú að þegar við finnum okkar (raunverulega) vilja, ekki bara einhverja löngun þá sé það vilji Guðs. 

Vilji Guðs sé alltaf til góðs. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2011 kl. 12:52

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þetta svar var s.s. til Sólveigar!

Eyþór, ég svar til þín kemur síðar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2011 kl. 13:01

5 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

"Þegar við segjum við barn; "Æ þér líður ekkert svona illa, hættu þessu væli" - erum við að beita barnið ofbeldi,  því við erum ekki að taka tillit til tilfinninga þess, heldur að segja því hvernig því líður."

Þarna er oft ráð, því börn eru mjög mismunandi vælugjörn út að smámunum og mikla hvern einasta smásting eða mótlæti fyrir sér sem sórslys, að ræða um vanlíðanina. Það tekur ekki langan tíma og leiða barnið rólega að meininu sem er í raun vanhæfni barns til að flokka sundur andlega eða líkamlega smástingi eða stórslys.

Ef barn er frætt um muninn á virkilegri vanlíðan eða bara ávanavæli, að setja t.d. ekki smáskurð á putta og handleggsbrot í sama flokk, spyrja það bara rólega, heldurðu að einhver taki mark á þér ef þú veikist illa og finnur til, ef þú þarft að gráta svona mikið yfir þessu? Þá byrjar það fljótlega að greina þetta í sundur.  og áður en líður er það farið að raða líka vandamálum af öðrum toga niður, oftast ómeðvitað, og verður því milku færara að glíma við þau.

Þarna er það barnið sem tekur ákvörðunina, þú spyrð og færð svarið í gjörbreyttri hegðun.

Við þetta hættir allt hversdagsvæl og þú veist hvenær eitthvað er raunverulega að og getur því snúið þér að vandamálinu með barninu. Þetta er allavega mín reynsla.

Bergljót Gunnarsdóttir, 20.6.2011 kl. 13:45

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Fellini og Frelsun frá “röddinni”  kom í huga mér varðandi börn og tilfinningar:

Giulietta degli spiriti er mynd sem ég horfði nýlega á með félögum mínum í rannsóknarhópnum Deus Ex Cinema.
Þrátt fyrir mikinn súrealisma, er myndin býsna sterkur raunveruleiki margra.
Aðalpersónan Júlíetta, er óhamingjusöm og er í því að þóknast öllum í kringum sig, þ.m.t. eiginmanni sem heldur fram hjá henni, en hún hefur valið að láta eins og ekkert sé og halda “kúlinu”. Í myndinni er ferðast aftur í tímann og hún sýnd sem barn þar sem hún er að leika í skólaleikriti og er bundin niður. Móðir hennar er stjórnsöm.  Ég man ekki fléttuna nákvæmlega, en það sem skiptir máli er hér hvernig Júlíetta vinnur úr sínum málum. 
Í myndbrotinu sem fylgir er Júlíetta komin á þann stað að íhuga að fremja sjálfsmorð, þegar hún heyrir barnsgrát, - hún spyr hvaðan þetta komi og heyrir þá í móður sinni að þetta sé aðeins vindurinn.
Hún neitar því og sér þá litla hurð, sem á að tákna undirmeðvitund hennar, og hún ákveður að opna dyrnar.  Móðir hennar segir henni að stoppa, en þá svarar Júlíetta “Ég er ekki hrædd við þig lengur” ..
Stundum er það þannig að við tileinkum okkur rödd fortíðar, rödd móður, rödd föður eða einhvers sem hefur haldið aftur af okkur.
Einhvers sem hefur ekki haft trú á að við gætum staðið á eigin fótum og við höfum þannig tileinkað okkur þá trú ómeðvitað. Við höfum viðhaldið “röddinni” sem talar niður til okkar, dregur úr okkur kjarkinn og viðhöldum óttanum.
Júlíetta hefur loksins komist á þann stað að hún þaggar niður í röddinni, fer inn í litla herbergið þar sem hún sér sjálfa sig sem litlu stelpuna í skólaleikritinu, og losar böndin sem hún er bundin með. Hún frelsar hana - leysir úr viðjum fortíðarinnar.  Hún hafði öðlast sjálfstraust til þess, tekur utan um stelpuna og sleppir henni svo út þar sem hún hverfur. 
Aðeins þannig gat Júlíetta öðlast frelsið. Aðeins þannig að fara til fortíðar og losa um barnið sem var bundið. Hún fór ekki til baka sem barn, heldur fullorðin manneskja og frelsaði barnið.
Á þennan máta frelsum við okkur sjálf, förum inn í okkar eigin meðvitund, skoðum rætur, uppruna og ef að við sjáum þar grátandi barn þá tökum við það í fangið og hleypum því svo út í sólina.
Barnið þarf ekki að vera bundið, það getur bara verið sitjandi undir borði, uppi í stiga, inní rúmi eða hvar sem er. Kannski átt þú svona sögu af sjálfri þér eða sjálfum þér.
Merkilegt nokk eigum við það flest, en oft er djúpt á að finna þetta barn. Oft er sagan í móðu, enda oft sár.
Til að við getum lifað hamingjusöm í núinu, þurfum við stundum að fara til baka í þáið til rótanna, til barnsins og frelsa það, því að þó við vitum ekki af því þá er það þarna einhvers staðar að halda aftur af okkur og heftir okkur í því sem við erum í dag. 
Heftir okkur í að elska, heftir okkur í að elska okkur sjálf og vera við sjálf.
Það þarf ekki að hafa verið dramatísk reynsla á mælikvarða fullorðinna, en hún getur hafa verið mjög erfið og óréttlát á mælikvarða barns. Barn er ekki með sömu viðmið og fullorðnir og raunir þess og tilfinningar eru alveg jafn mikilvægar og raunir okkar sem fullorðinna.
Þess vegna ætti ekki að gera lítið úr tilfinningum barns, eða sorg yfir því sem okkur finnst ómerkilegt.
Börn fara oft að bæla tilfinningar sínar ef við gerum lítið úr þeim, eða jafnvel hlæjum að þeim vegna þess að okkur finnst þær ómerkilegar. Það getur haft þær afleiðingar að þegar eitthvað stórkostlega alvarlegt kemur upp (á bæði barns og fullorðinsmælikvarða) barn verður fyrir ofbeldi eða misnotkun, þá treystir það ekki lengur hinum fullorðna til að taka við tilfinningum sínum.
Það er því dauðans alvara að gera lítið úr tilfinningum barns, jafnvel “væli” því að vælið er oft eina leið þess að tjá tilfinningarnar.
Það þarf að sjálfsögðu að gera mun á því þegar barnið er að gráta vegna þarfa eða langana.
Þörfin er þá þörfin fyrir hlýju, knús, athygli o.s.frv. en löngun er “þörfin” fyrir súkkulaði eða dót í búðinni.  En til að flækja málin má líka segja það að barn sem trompast í búðinni yfir dóti, gæti alveg eins verið að tjá vanlíðan, ef að því er ekki mætt eða hefur ekki verið sett mörk.
Ágætis regla er að segja áður en farið er inn í búð; í dag ætlum við að kaupa einn hlut, eða í dag ætlum við bara að kaupa það sem vantar í matinn, ekki dót eða nammi.  Þá veit barnið fyrirfram hvað það fær. Aldrei skal brjóta þessa reglu, því þá hrynur allt regluverkið.

Dyrnar að undirmeðvitund Júlíettu opnast þegar hún segir upphátt "Ég er ekki lengur hrædd við þig" .. - hún þaggar niður í hinni neikvæðu rödd í höfði sínu. 


En nú er ég hætt og skil ykkur eftir með hana Júlíettu.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2011 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband