Færsluflokkur: Bloggar

Uppáhaldsfólkið mitt - og hundur ;-)

317772_2301724776345_1045957538_2712450_909997681_n.jpgÞað var ekki fyrr en núna í septemberbyrjun að við náðum að sameinast öll, - Amman og barnabörnin, þar sem tvö af þremur búa í Danmörku.

Þarna er Eva Rós Þórarinsdóttir, ég sjálf, Ísak Máni Jörgensen, Elisabeth Mai Jörgensen og svo Simbi Völuson. 

Það var ekkert auðvelt að festa alla á filmu í einu, - Simbi er t.d. ekkert voða mikið fyrir uppstillingar! 

Verður aldrei valinn yfirvegaðasti hundur Íslands ;-) 

 

 

Í dag upplifi ég mikið þakklæti fyrir líf mitt, nóg að stússa og ætla að fara að koma öllu á sinn stað í Lausninni.  Í fyrramálið verð ég hjá Sirrý ásamt Ingu Bjarnason að rabba um Leiklistargleðismiðju fyrir börn, sem er að fara í gang á mánudag, - verkefni sem við erum að vinna að sem á að fylla upp í eyðuna sem myndast í skólakerfinu þegar skapandi listir eru sparaðar.  Enn eru laus pláss, og ég sendi hér hlekk á skráningarsíðuna.  Gjaldið er þegar niðurgreitt af Velferðarsjóði barna.  Hægt er að nýta frístundakort og þess utan, ef að fólk er þannig statt er hægt að sækja um frekari niðurgreiðslu, en endilega hafa samband.  Öll börn sem eru þannig staðsett að geta nýtt sér þetta, á aldrinum 9-13 ára, eru velkomin.  Nánari upplýsingar: johanna@lausnin.is  

 

 

 


Við erum öll tengd

Við erum öll tengd hvert öðru, líffræðilega, jörðinni efnafræðilega.

Fegurðin liggur í tengingunni Heart

Vísindin styðja mikilvægi þess að við virðum okkur og elskum  og virðum og elskum náunga okkar. 

Trú og vísindi eru því ekki andstæður í mínum huga. 

Því við erum ÖLL hluti af því sama, dropar í mannhafinu.  

 


Hjálpum þeim ... Help them


Meira um kjörþyngd og kærleikann - ef kærleikurinn hefði rödd og ef við hlustuðum á þessa rödd!

 Ath! samskipti okkar eða umgengni við mat, er eins og dæmisaga um samskipti okkar við lífið yfir höfuð.  Þegar við viljum eitt og gerum annað, þá erum við ekki í sambandi við okkur sjálf.  Þegar við viljum vera í kjörþyngd en borðum yfir okkur.  Það gildir auðvitað líka í hina áttina.  Allt tengist þetta meðvirkni,  því sá meðvirki er alltaf í öfgunum of eða van.  Ofmetur sig eða vanmetur.  Of strangur eða of linur.  Setur of stíf mörk eða er algjörlega markalaus.  Það vantar því hinn gullna meðalveg. 

En hér er það sem ég ætlaði fjalla um - það sem á undan kemur er formáli. 

Kafli 12. -  lausleg þýðing úr bókinni Konur, ást og Guð. 

"Ef að kærleikurinn hefði rödd" (og við myndum hlusta)

  • Ef þú í raun og veru hlustar á hvað líkami þinn vill, hvað gerir honum gott, munt þú uppgötva að hann langar ekki í marengsköku alla daga.  Staðreyndin er sú að á þeirri stundu sem þú segir þér að þú getir fengið marengsköku í öll mál, verður hún ekki eins freistandi - ekki eins spennandi.  Ekki frekar en að eitthvað annað sem er bannað er freistandi.  Þegar að marengskakan er ekki lengur freisting verður hún eins venjuleg og soðinn fiskur.
  • Höfundur tekur dæmi um konuna sem fellur fyrir gifta manninum, þegar hann hætti að vera þessi spennandi elskhugi sem þú hittir í leynum -  losnar úr hjónabandinu - og verður bara kallinn sem þú þarft að röfla við um að fara út með ruslið, eða þú þværð sokkana fyrir, þá verði hann ekki eins spennandi lengur.  - Ástríðan víkur fyrir hversdagsleikanum.  Spurningin um að það sem maður má ekki sé meira spennandi en það sem má?

Höfundur bendir á að athyglin sé á röngum stað - og minnist á athyglisæfinguna þar sem fólk er að spila körfubolta. - set hana inn hér:

 

http://www.youtube.com/watch?v=Ahg6qcgoay4

 

Þessi æfing er til að sýna okkur að við tökum ekki eftir því nema sem við viljum eða ætlum okkur að taka eftir.

 

  • Þau okkar sem erum fókuseruð á mat og vigt, íhugum kannski aldrei að við séum ekki að sjá hina augljósu lausn.
  • Við ímyndum okkur að svarið sé einhvers staðar þarna úti.

Einn mánuðinn er það um hvítan sykur, hvítt hveiti, hvít grjón

Einn mánuðinn er það um að finna rétta fæðubótarefnið

Fitugenið, borða eftir blóðflokkum 

Vera sykurfíklar o.s.frv.

 

Með einhverju af þessu getum við minnkað baráttuna, og firrt okkur ábyrgð í sambandi við umgengni við mat.

En með því erum við ekki að eiga við ástæðu þess að við ráðum ekki við umgengnina við mat. Við viljum bara láta eitthvað utanaðkomandi laga okkur.  En því miður liggur svarið ekki í minni sykurnotkun,  þó að það sé jákvætt að vita að hann er óhollur heilsunni.

Frelsi frá þráhyggju fæst ekki með því að gera eitthvað eins og að sleppa einhverju,  heldur með því að kynnast hver þú ert.  Að þekkja sjálfa/n þig.  Þekkja hvað hindrar þig og hvað þreytir þig.  Hvað þú elskar og hvað þú heldur að þú elskir vegna þess að þú trúir að þú getir ekki fengið það.

 

Höfundur komst að því að borða snérist um aðeins eitt: Að næra líkamann. Og þessi líkami vildi lifa.  Hann elskaði að vera lifandi. 

 

Hinar sjö leiðbeiningar um hvernig við borðum er ein leið til að ná markmiðum þess að vera frjáls. 

 

Fyrst þegar hún kenndi þær fannst henni þær leiðinlegar, en þó nauðsynlegar leiðbeiningar til að losna við ofneyslu matar.

 

Hún segir að í raun séu leiðbeiningar sjö andleg æfing.

 

Þú getur falið mat, borðað í laumi, stolist til að fara ekki eftir leiðbeiningunum - en þú getur líka einnig falið þínar sönnu tilfinningar. 

 

Þú getur logið að fólki hvað þú vilt, þarfnast og hverju þú trúir.  Og þú getur skoðað líf þitt annað hvort með því að skoða hvernig þú lifir lífinu eða hvernig þú borðar.

 

Báðar þessar leiðir leiða okkur að því sem er undirliggjandi,  þess sem er á bakvið átið, til þess sem hefur aldrei orðið svangt, hefur aldrei borðað of mikið - aldrei grennst eða fitnað.

 

Leyfarar og hamlarar þurfa sams konar áttavita.

 

Geneen bætir þarna hinar sjö leiðbeiningar "If love could speak instructions" ...

 

Kærleikurinn myndi segja:

"Borðaðu þegar þú ert svöng elskan, því ef þú gerir það ekki muntu ekki njóta bragðsins af matnum."  - "Og af hverju ættir þú að gera eitthvað sem þú nýtur ekki?" ...

 

Kærleikurinn myndi segja:

"Borðaðu það sem líkami þinn vill elskan, annars mun þér ekki líða nógu vel, og hvers vegna ættir þú að ganga um þreytt eða þunglynd vegna þess hvað þú setur í munninn?"

 

Kærleikurinn myndi segja:

 

"Hættu að borða þegar þú ert orðin södd, annars mun þér fara að líða illa - verða illa södd,  og af hverju ættir þú að eyða einni mínútu í óþarfa óþægindum."

 

En þú átt það enn til að stelast ...

 

En þegar þú sérð ljósið,  áttar þig á möguleika frelsisins  - getur þú ekki snúið til baka.

 

En kærleikurinn talar, og kannski ertu ekki stemmd til að hlusta.  Þannig mun það ganga um tíma.

 

Höfndur ráðleggur því að byrja hægt,  taka eitt skref í einu.  Veldu þér eitthvað eitt eða tvennt til að fara eftir og bættu svo við.  Taktu eftir hvernig það er að fara eftir því og muninum; hvernig er að hunsa það.

 

Treystu á framkvæmdina, treystu á löngun þína til frelsis.  Að lokum munt þú hætta að vilja gera eitthvað sem skyggir á birtuna sem er að koma inn með að uppgötva það að vera lifandi. 

 4046465128_5d68701d2c.jpg


Bæn

Viskan, í hjarta okkar og alls staðar

Þú ert dásamleg

Gerðu heiminn kærleiksríkan,

eins og þú svo sannarlega vilt, fyrir líkama og sál.

Gefðu okkur athygli og næringu á hverjum degi.

Fyrirgefðu okkur þegar við gerum rangt

og kenndu að þiggja gjöfina að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum

Vektu okkur til  umhugsunar um hið góða og vara við illu

Því að þú ert alheimurinn,  elskan og gleðin

dots-happy-family-cartoon.gif

 


Hver ert þú?

Gæti verið meira

sem tilheyrir þessu lífi sem ég kalla "mitt" 

en ferðalag í gegnum geiminn 

eða söguþráður?

Meira en líkami sem skynjar 

það sem hugurinn getur ályktað

af reynslu

Byrjar það sem við erum með andardrættinum, 

er það háð formi og endar það með dauða? 

Skrældu burt þessi hlutverk, þessi nöfn

og segðu mér hvað stendur eftir 

og hver þú ert í raun og veru? 

Við mælum árangur

með hlutum sem okkur áskotnast

eða með tengingum sem við myndum

eða með verkum okkar

En það er allt hverfult 

og eins og við rembumst

við að halda í formið, mun formið deyja

En það sem fylgir formsins dansi

er möguleiki að sjá það sem er enn ófætt 

og möguleikinn að henda burt tækifærinu 

og festast í leikritinu 

um það hver við höldum að við séum 

Þetta er þitt lífshlaup, það gæti endað hvenær sem er

Hvar er athygli þín? 

Hvar er bæn þín? 

Hvar er söngur þinn? 

Í lánsömu lífi 

kemur kallið til frelsis

upp úr hjólfari vanans og frá falskri sjálfsmynd 

að vakna frá draumi 

og uppgötva loksins 

sannleikann um tilveru þína

áður en líkaminn deyr

Svo áður en kemur að lokasenunni

líttu á uppstillt leiksviðið

Sjáðu hvað það er sem er að horfa á þessa mig og þig

og þá sérðu, hver þú í raun ert. 

happysad.gif

 


Gengið á Búrfell og slakað á í lynginu í Búrfellsgjá .. dásemd!

Frá því í janúar sl. hef ég tekið þátt í starfi Lausnarinnar, sem eru samtök gegn meðvirkni, en það er hægt að lesa nánar um starfsemina á heimasíðunni. Ég er núna að stíga það skref að verða ráðgjafi (ráðgjöf í kvk Smile) í fullu starfi.  Eins og nafnið gefur til kynna leitum við lausna, og er þá um að ræða lausnir við alls konar samskiptavandamálum.  Samskiptum hjóna, para, foreldra og barna, einstaklinga o.s.frv.  Áherslan er þó alltaf á einstaklinginn, þ.e.a.s. að sá eða sú sem leitar aðstoðar fer að skoða sjálfa/n sig.  Þetta liggur nefnilega oftar en ekki hjá okkur sjálfum, þ.e.a.s. möguleikinn er að breyta okkur sjálfum en ekki öðrum.  Að vísu gerist það oft í kjölfarið að hin fara að breytast, fara að fara að okkar fordæmi o.s.frv.

Þegar við erum í sjálfsvinnu, er mikilvægt að þekkja okkur sjálf og eigin vilja. Upplifa sig frjáls og prófa að fara svolítið nýjar slóðir.  Bæði í raun og andlega. 

Úrræðin í Lausninni felast í einstaklingsviðtölum og para, - hópavinnu, hugleiðslu, námskeiðum og fyrirlestrum svo eitthvað sé nefnt.  

En stundum er sniðugt að fara í hópavinnu undir berum himni og í gær fór ég í göngu með "Lausnara" í Búrfellsgjá og gengum við upp á Búrfell, með það í huga hvernig okkur liði - þessa vikuna og þennan daginn.  Eftir að hafa virt fyrir okkur höfuðborgarsvæðið og miklu meira af toppi Búrfells, héldum við niður í skjólsæla laut og fólk lagðist í lyngið og fékk þar slökun og leidda hugleiðslu.  Hvíld og slökun er ekki síst mikilvæg þegar verið er í sjálfsvinnu og vorum við í léttri "vímu" eftir slökun í guðsgrænni náttúrunni. Ég er ekki frá því að heyrst hafi hrotur í einhverjum í restina! .. 

Prógrammið var liðlega tveir tímar, - fólk vel hreyft og um leið hvílt og einhver stungu upp á að við gerðum þetta að viku liðinni, og ætla ég að finna annan góðan stað til að ganga á næst, þar sem væntanlega verður farið að sjávarsíðunni, tærnar lagðar í bleyti í söltum sjó og síðan  hugleitt við öldunið. 

Sú ganga verður auglýst hjá Lausninni.  

 165310448_sws8t-l.jpg


Hættulegir hundar hjá vanhæfum eigendum ...

Fann þetta á amerískri síðu: "In the 3-year period from 2006 to 2008, pit bull type dogs killed 52 Americans and accounted for 59% of all fatal attacks. Combined, pit bulls and rottweilers accounted for 73% of these deaths."

Rottweiler hundar eru númer tvö í röðinni yfir hættulegustu hundategund heims. Númer eitt eru Pit bull. 

Mér finnst það mjög varhugavert að leyfa þessar hættulegu tegundir og einnig verðum við að fara að íhuga að skylda alla hundaeigendur á námskeið hvað varðar uppeldi hundanna. 

(Að vísu finnst mér að það eigi við foreldra líka, en það er önnur saga Wink) .. 

Fréttir af hundsbitum er að verða daglegt brauð,  og við því verður að sporna. 

Ég er sjálf mikill hundavinur og hef átt hunda og passa oft hund dóttur minnar, en veit að ábyrgðin er alltaf mín þegar ég er með hundinn.  Hundar hafa veitt mér og mínum mikla gleði og jafnvel dregið mig út úr leiðindum og einmanaleika þegar verst stóð.  Góður hundur er nefnilega frábær félagi og gleðigjafi. 

Þess vegna, og alls vegna, er vont að hættulegir hundar séu spásserandi um með eigendum sem eflaust vilja vel, en hafa ekki kunnáttu eða getu til að ala upp þessar tegundir.  

Óska stúlkunni góðs bata og vonandi nær hún sér að fullu hið fyrsta, þó það sé varla spurning að hún verður eflaust hrædd við hunda það sem eftir er. 

 

 


mbl.is Hundur réðst á 12 ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arachnophobia

Ég hef ekki verið mikið eldri en tveggja ára þegar ég sat í makindum í sandkassa upp í Lindarbrekku, sumarbústað stórfjölskyldunnar, dundaði mér með skóflu og fötu og átti mér einskis ill von, þegar að eitthvað hljóð truflaði mig og var litið upp og ein af fjölmörgum beljum sem höfðu lagt á sig leiðangur frá Laxfossi, ákvað að reka út úr sér tunguna framan í mig.

448_belja.jpg

Orgið hefur heyrst hátt, því að föðursystir min kom hlaupandi út mér til bjargar, en fullorðna fólkið var inni að drekka kaffi.

Síðan hefur mér alltaf staðið stuggur af beljum, - í leikjum mínum síðar sem barn í Lindarbrekku, þar sem ég gekk um berfætt og þóttist vera villibarn í skógi, voru beljurnar "óvinurinn" sem ég faldi mig fyrir.  

Ég hef því t.d. alltaf verið hræddari við beljur en kóngulær.  Kóngulær hafa aldrei skipt mig máli, mér finnst þær ekkert endilega huggulegar og svo horfði ég á myndina um Karlottu kónguló og fór meira að segja að þykja svolítið vænt um þær.

Nýlega varð ég vör við hlussukóngulær, en það var þegar ég var að sópa bak við ruslatunnurnar á veröndinni í húsi dóttur minnar í Danmörku, en meira að segja þær vöktu engin svakaleg viðbrögð.

spider.jpg


Ég er því augljóslega nokkuð laus við kóngulóarfóbíu, eða arachnophobia.

Árið 1990 kom út mynd með því heiti og ég hafði heyrt svaklega lýsingarorð yfir því hvað þessi mynd væri ógeðsleg þar sem kóngulær væru bókstaflega út um allt.  Ég ákvað að leigja hana einhverjum árum eftir að hún kom út, það var á tímum vídeóspóla, að sjálfsögðu!

Ég komst klakklaust í gegnum myndina, án mikilla tilfinningasveiflna eða ógeðs og gortaði mig svo af því að hafa fundist lítið til um þetta, hún hefði engin áhrif haft á mig, þetta væri sko bara bíómynd!   

Annað kom í ljós.

Þegar ég hafði burstað tennur og var á leið í háttinn fann ég eitthvað stórt og loðið skríða niður eftir bakinu og ég gjörsamlega trylltist í einhverjar sekúndur, - sá svo hvar hárbandið mitt hrundi í gólfið,  hárbandið sem hafði losnað úr hnút sem ég hafði bundið í hárið.   

Arachnophobia hafði þá haft sín áhrif eftir allt, þó ég hefði ekki gert mér grein fyrir því, þá var það komið inn í undirmeðvitundina þessi ógeðslega tilfinning fyrir skríðandi kóngulóm út um allt.

Ég hef oft hugsað út í þessa upplifun í sambandi við það efni sem á borð er borið fyrir okkur í fjölmiðlum, um tölvuleiki og annað.

Hvað vitum við um þessi utanaðkomandi áhrif, hvað skemmir og hvað síast inn án þess að við höfum hugmynd um það? ...
Kóngulóarmyndin hafði ekki langvarandi áhrif, eins og sést í innganginum, enda svo sem ekki "endurtekið efni" en spurning hvernig það sem er margendurtekið hefur áhrif.  Ofbeldistölvuleikir- og kvikmyndir, fjölmiðlaefni og fleira sem dynur á daginn út og daginn inn.

Það er merkilegt að pæla í því hvað við tökum inn og hvað ekki, hvað er "prógrammerað" inn í okkur, án þess að við höfum hugmynd um það! 

 

violent.jpg Auðvitað spretta þessar hugleiðingar að hluta til upp, vegna þeirrar mannvonnsku sem við höfum verið að upplifa undanfarið.  Mér er hugsað til þess hvernig að fallegt ungabarn verður að grimmum slátrara. 

Hver er hans leið, hvað stillti heilann á hatur og dráp? 

Hvað er verið að næra með ofbeldinu sem upp á er boðið og fólk kaupir sig inn á?  Ekki bara unga fólkið, heldur við öll. 

Við höldum að það hafi ekki áhrif,  þetta séu bara bíómyndir með blóðsúthellingum og það snerti ekki við okkur. 

 

Eckhart Tolle kallar þetta "To feed the pain body"  að næra sársaukalíkamann, - þörfina fyrir að taka inn eitthvað vont. 

Ég ætla ekki að kafa dýpra í þetta að sinni, langar bara til að vekja til umhugsunar um þá "næringu" sem verið er að taka inn, taka inn úr umhverfinu og mikilvægi þess að velja og hafna. Bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf, börnin eru oft sem ómótaður leir - og því viðkvæmari og þarf að fara með þau sem slík. 

sun-salutation.jpgSet hér inn eina fallega sem mótvægi við blóðsúthellingamyndinni að ofan! 


Hvar ertu Guð?

Hvar ertu Guð?

Hin vestræna veröld hefur nýlega fengið spark undir beltisstað og upplifir það, í sumum tilfellum, eins og að heimilismaður á eigin heimili hafi sparkað, en ekki einhver ókunnur.

Að sjálfsögðu búa margir upprunnir annars staðar frá í Skandinavíu, og eru því heimilismenn - en eru e.t.v. ekki samþykktir, eða hafðir út á jaðrinu út af trú, kynþætti o.s.frv.

Hvar er Guð í þessu öllu saman?  

Eina leiðin fyrir mig til að trúa á Guð, er að Guð sé nákvæmlega sama og hið góða, Guð sé kærleikur, Guð sé elskan.  Illskan sé því ástandið þegar við erum fjarri Guði.

Algóður Guð þýðir því að Guð er allt sem gott er, en fjarri öllu illu. Það er ekki Guð sem lætur vont gerast, hvorki náttúruhamfarir eða það illa sem er af manna völdum.

Við spyrjum hvar Guð sé þegar við sjáum börn vannærð og sveltandi í Afríku, - en hvar erum við sjálf?

Á líkamsræktarstöðum að hamast við að ná af okkur offitu?  Að sýta að við eigum ekki nógu flottar íbúðir, eða að við komumst ekki í nógu margar sólarlandaferðir?  Viðmiðin okkar eru svo há. Forfeður okkar teldu okkur auðug bara vegna þess að við búum í upphituðu húsi, með glerrúðum og höfum nóg að bíta og brenna.

Af hverju látum við mennirnir þetta gerast? Af hverju er svona mikið ójafnvægi í heiminum?
Getur verið að við elskum ekki nógu mikið?  Erum við týnd og dofin?  Pökkuð inn í einangrunarplast þannig að við heyrum ekki neyðarkall annarra jarðarbúa?

Hvar ertu Guð?  Hvar ertu manneskja?

Hér verðum við að láta til hliðar allar bækur, Biblíu, Kóran og önnur kver, þó að vissulega séu til frásagnir í þessum ritum þar sem Guð er ekkert nema kærleikur,  þá eru þær einnig ruglandi og villandi.

Kannski er Guð orðið ónýtt hugtak, vegna þess hversu breitt það er og hver getur túlkað það út frá sjálfum sér og menn fela sig á bak við bókstafinn til að beita náunga sinn órétti.

Menn skýla sér og fela ódæðisverk sín og óréttlæti bak við bókstafinn, það er vitað mál - og þeir segja að það sé þeirra trúarsannfæring.  Á grundvelli trúarsannfæringar eigi þeir síðan rétt á ákveðinni hegðun.  Meira að segja hér á Íslandi grassera enn slíkar sannfæringar sem segja t.d. að konur séu lægri körlum,  samkynhneigðir með síðri réttindi en gagnkynhneigðir o.fl.

Ef það er ekki elska, er það ekki Guð.

Öll börn fæðast heil og góð, þau mótast síðan af foreldrum, samfélagi, skóla, jafnöldrum, fjölmiðlum o.s.frv.  Öll höldum við kjarna okkar, og í innsta eðli og vilja erum við öll góð.  Því trúi ég.  Allt sem hleðst utan á okkur, umhverfið utan um kjarnann skiptir máli,  hvort það er elska eða illska.

Til að þekkja sjálfan sig þarf að þekkja vilja sinn, kjarna sinn og þannig þekkjum við líka Guð, þannig þekkjum við elskuna til Guðs og til okkar sjálfra.

Er okkur sagt við séum vond sem börn, eða er okkur sagt að vera góð í staðinn?  Orð hafa áhrif, eða eins og fröken Klingenberg orðar það;  "Orð eru álög"  - þess vegna er mikilvægt að nota falleg orð og uppbyggileg við börnin en ekki ljót.

Nú reynir á okkur að elska en ekki hata, nú reynir á að næra og rækta elskuna og svelta og kæfa illskuna.

Tökum elskuna í hægri hönd og viskuna í vinstri og göngum þannig til góðs með Guði, Guði sem er hreinn kærleikur.  Það er hinn eini sanni Guð.  

Hvar ertu svo Guð?
 
Þegar við höfum hreinsað burt hið illa og hið eigingjarna og allar hindranir sem eru múraðar utan á kjarna okkar eins og tannsteinn á tönn,  og komist að innsta eðli, innsta vilja sem er elska finnum við Guð, og við finnum Guð í hjörtum náungans og í snertingu við heim sem leitar Guðs.

Guð er í þér og Guð er í heiminum, en það er eitt og hið sama, það er kærleikur. 

Biðjum og finnum. heart_earth.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband