Færsluflokkur: Bloggar

Mál dagsins...

..er ekki IceSave kosningin heldur: 

Söngkeppni framhaldsskólanna! Smile

Með því að smella á Youtube hlekkinn hér fyrir neðan má hlusta á fulltrúa Hraðbrautar,

mér finnst hún svaka góð!

Njótið dagsins og lagsins!  


Undir áhrifum Creed ....

Með faðminn opinn

böðuð í mætti sólar

göngum hvort öðru í mót

með orðum og tárum 

biðjum bænar

um líf 

innblásið af ást og sátt

allt er gefið

af heilum hug

með opnu hjarta

sem flýtur að fullkomnun

óskirnar rætast sem ilmandi rós

og við verðum heimur án þyrna ..  

 

 

 


Þakkir á þriðjudagsmorgni ... þó ekki þrautalausar

Konan borðaði kínamat í gær, og þess vegna er hún vakandi klukkan fjögur að nóttu.  Gleymdi að spyrja líkamann hvort að hún þyldi t.d. djúpsteiktar rækjur. Hann hefði svarað "Nei" ..  

Ég er reyndar búin að vera vakandi frá tvö, en hef verið að hika við að taka mígrenitöflu sem ég veit að slær á verkina - en það er auðvitað eina vitið þegar maður/kona er komin með hausverk í alla vinstri hlið líkamans ..eða þannig! .. þetta batnar allt áður en ég gifti mig!

Í gær sótti ég málþing um kynþáttafordóma í Neskirkju, ekki að það séu miklir fordómar þar - heldur var málþingið haldið þar! 

Áhugaverðir pólar voru ræddir, og þá sérstaklega það sem kom fram hjá Toshiki Toma um hina duldu fordóma. Sem kannski liggja í okkur öllum.  Það er mjög stutt í raun síðan að Ísland gerðist eins fjölmenningarlegt eins og það er i dag.  Börnin mín, 25 ára, voru ekkert sérlega vön fólki sem var dökkt á hörund þegar þau voru börn.  Þegar við komum í fyrsta skipti til Bandaríkjanna og vorum á flugvellinum sá sonur minn (4 ára)  svartan mann og sagði upphátt  "Þarna er hlauparakall"  ..eftir útskýringar kom í ljós að þetta var svona maður sem hann hefði séð  á hlaupabrautinni í íþróttatíma í sjónvarpinu! 

Það vakti athygli að skv. skýrslum sem tveir flutningsmenn sögðu frá höfðu 8 prósent nemenda þar sem báðir foreldrar voru Íslendingar lent í einelti, 12 prósent þar sem annað foreldri var erlent og 16 prósent báðir.  Það segir sína sögu. Það er einnig niðurstaða úr eineltiskönnun í Hagaskóla, en þar var algengasta orsök eineltis vegna uppruna. 

Ég lagði orð í belg á málþinginu, því mig langaði svo að benda á fyrirmyndirnar í þjóðfélaginu og hvernig þær tengdust stéttaskiptingu.  Það er mjög algengt að t.d. við ræstingar starfi fólk af erlendu bergi brotið og í lægst launuðu störfunum.  Ég held að það myndi hjálpa til ef að fleiri væru í hærri stöðum, sem fyrirmyndir fyrir þá sem á eftir koma.  Þetta er í raun svipað og með kvennabaráttuna. Það þarf kannski að íhuga "jákvæða mismunun" til að fá fleiri úr minnihlutahópum í stjórnendastöður? 

Batnandi fólki er best að lifa, og ef við erum meðvituð um okkar eigin fordóma eða þeirra sem eru í kringum okkur hljótum við að batna.  

Þakklæti mitt í dag snýst að því að fá að vera þátttakandi í því að reyna að vekja til umhugsunar. Þakklæti mitt er líka fyrir alla dagana sem ég er EKKI með hausverk!  

En nú er best að reyna að hvíla sig á ný! .. 

Hér er svo hlekkur á smá myndasýningu frá málþinginu í Neskirkju. 

 

 


Þakkir á mánudagsmorgni ...

Góðan dag heimur, ... efst í huga er því miður óhugnaðurinn í okkar "macho" tölvuleikjaveröld.  Mér finnst aldrei loftárásir á vonda kallinn réttlætanlegar þegar að það þýðir að það þarf að fórna fullt af góðu fólki. Stríð er ógeð. 

Stríð er andstaðan við Frið.  

Ég vil þakka fyrir friðinn á íslandi, þó vissulega sé ekki hægt að segja að hér sé mjög góður andlegur friður.  Það er mikil ólga í fólki og óánægja og innri strið eru mörg. Ég held að best sé að skipta út stjórninni. Það er eitthvað svo mikið klúður í gangi að fólk er orðið svo reitt.  Ekki síst út af skólamálunum. 

Mjög margir eru þó að leita sér að innra friði, finna aðferðir til að slaka á, fara út og anda að sér fríska loftinu eða njóta náttúrunnar á annan hátt. Það er margt í boði og kostar lítið eða ekkert.  Það er svo margt gott í boði á Íslandi. Hreint vatn úr krana, hreint loft og hrein náttúra. Það ættu því að vera hæg heimatökin að hreinsa sig af hverju sem er. 

Í dag kl. 12:00  er málþing um kynþáttafordóma í Neskirkju og ætla ég að kíkja á það. 

Eigum góðan dag. 

Birti hér að lokum ljóð sem yljar .. frá Facebookvini: 

Kristjan Hreinsson

SÓLARLJÓÐ

 

Í frosti mín vitund fer á sveim

þá finn ég yl í huga mínum,

ennþá mig sækir söngur heim

...og sólarljós í augum þínum.

 

Þegar ég heyri villtan vind

vafra um í næturfrosti

vaknar í huga himnesk mynd

af heitri sól sem til mín brosti.

 

Ennþá mig heillar hjartnæmt ljóð

sem heyrði ég í faðmi þínum,

og ennþá hún syngur sæl og góð

sólskríkjan í huga mínum.

 

:-)



 

 

 

 


Er strákur í dag ... eða a.m.k. metró gaur

Þar sem ég er yfirleitt til í þátttöku í svona uppákomum, ákvað ég að þessi yrði ekki undanskilin - og auðvitað enn frekara tilefni þar sem það er fyrir góðan málstað.  Áttaði mig svo á því að ég hafði pakkað teinóttu buxnadragtinni niður með aðstoðarskólastjóradjobbinu! .. Ekki það væri minn búningur svona dags daglega. Kjólar og pils eru minn "einkennisbúningur" og finnst það miklu þægilegri klæðnaður.  Ég fann mér þó gallabuxur, svartan bol og köflótta stutterma skyrtu yfir. Að vísu með bleikum og grænum köflum. Ég er svona metró (síðhærður að vísu) gaur.  Gamanaðessu!

 

Annars er Beoncey með svona "If I were a boy" pælingar... 


mbl.is Boða karllægan klæðnað á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver skrifaði (fyrir hönd þjóðarinnar) upp á Icesave víxilinn?

Ef ég hefði skrifað upp á víxil hjá vinum mínum, hann félli á mig, þannig að það kæmi í minn hlut sem ábyrgðarmanns að borga víxilinn - væri ég voða glöð að fá bara að kjósa um hvort ég ætlaði að greiða hann eða ekki.  Að sjálfsögðu myndi ég kjósa NEI ég ætla ekki að borga.  EN það er ekkert í boði fyrir mig, svoleiðis ganga málin ekki.   Ef ég gerist ábyrgðarmaður þá hreinlega verð ég að borga, annars lendi ég í slæmum málum.

Hvernig er þetta með Icesave?  Var ríkið ábyrgðarmaður eða ekki fyrir þessa menn sem settu þetta í gang?   Er eitthvað í boði að kjósa um þetta aftur og aftur?   Kæmi nýr og betri samningur eftir þrjóðaratkvæði númer tvö, eða yrðum við sótt til saka og boðin upp fyrir að borga ekki? 

Ef við erum ábyrg sem þjóð verðum við að axla þá ábyrgð og þá styð ég Bjarna Benediktsson í þessari ákvörðun sinni.  Ef við erum ábyrg sem þjóð og neitum að borga erum við eins og hverjir aðrir siðleysingjar.  Hverjir voru þeir annars sem skrifuðu upp á að tryggja Icesave reikninga,  upprunalega, fyrir hönd þjóðarinnar? 

Ef einhver getur svarað þessum spurningum mínum yrði ég voða þakklát, svo ég átti mig á hvar ég á að standa í þessu máli.  Ég held að margir svona "venjulegir" Íslendingar hafi ekki hugmynd um hvar þeir eigi að standa.  En ef við ætlum að kallast heiðarleg þjóð verðum við að standa við þá ábyrgð sem við höfum tekið okkur á hendur. 

Ef enginn hefur skrifað upp á neitt fyrir hönd Íslands þá, og aðeins þá, þurfum við sjálfsögðu ekki að borga.  

 


mbl.is Vilja þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægi þess að tjá sig og byggja sjálfstraust frá grunni ..

Ég hlustaði nýlega á frábært viðtal við Elínu Ebbu, iðjuþjálfa í Návígi hjá Þórhalli á RUV.

Það var margt þar sem snerti við mér, og venjulega er það þannig að það sem maður er sammála það er það sem maður veitir mest athygli.

Í viðtalinu var verið að ræða það að oft er verið að slökkva elda í staðinn fyrir það að minnka eldhættu.  Það er að segja að við erum yfirleitt að bregðast við vanda þegar hann er orðinn alvarlegur í staðinn fyrir að beita forvörnum.

Ég leyfði mér að taka mikilvæga punkta niður úr þessu viðtali, því mér finnst þeir eiga erindi til allra.

Hún sagði það mikilvægasta fyrir fólk að tjá sig, all ekki byrgja hlutina inni. 

  • Mikilvægt að tjá sig, fólk feilar með því að byrgja hlutina inni. 
  • Vinur er gulls ígildi. Vinur sem hafnar manni ekki.
  • Mikilvægt að hafa grunn að sjálfstrausti til að takast á við erfiðleika.
  • Hlusta á barnið gráta - það á ekki að horfa fram hjá kröfum barnsins, það getur  höfnun.
  • Gott eintak getur verið eyðilagt með umhverfisáhrifum, en "slæmt" eintak getur fengið hjálp við að eflast.
  • Okkar vellíðan byggist á ákvörðunartöku, þeir sem taka ekki ákvörðun - það er slítandi og eyðileggjandi fyrir heilsuna. Mannkynssagan er byggð á ákvörðunartöku. Gott ráð að segja:  „Ég tek ákvörðun og fylgi henni eftir"
  • Fólk sem tekur ekki ákvörðun, festist í því að tala illa um aðra - eða í reiði.
  • Okkar vellíðan byggist á ákvörðunartöku. Takið ákvörðun, eða fáið hjálp til þess!
  • Skólinn er mikill mótunaraðili og ákveður verðgildi, verðgildi felst þá í því t.d. að vera góð/ur í stærðfræði eða lestri.
  • Skólinn á að vera umhverfi sem er í því að finna hæfileika nemenda, í hverju þú ert góð/ur og styðja undir það.
  • Ef að stór hluti er að detta út úr menntaskóla, er eitthvað að, því að skólinn á að vera eitthvað sem þú sækist í til að efla sjálfstraustið.
  • Alltaf verið að taka einstaklingana út og meta veikleika.
  • Margir einstaklingar hafa verið „öðruvísi" og hafa átt í erfiðleikum sem unglingar, en síðar komið í ljós að þetta „öðruvísi" hefur verið þeirra vörumerki. Dæmi: Björk og Páll Óskar.

Viðtal við konu

  • Hluti af því að líða vel er að eiga stuðningsnet. Ef að einhver er einn og einangraður er eðlilegt að fara að upplifa raddir innra með sér. Raddir þurfa ekki að vera einkenni sjúkdóms, heldur er það þú að breyta heiminum. Læra að nota raddirnar. (minnir á Conversations with God aths. JM)
  • Vinnumarkaður: Af hverju gefum við öðruvísi fólki ekki tækifæri? Við eigum að taka samábyrgð á líðan fólks, vinnustað, fjölskyldu. Það mundi gefa miklu meiri árangur.
  • Ekki eðlilegt að fjölgun á öryrkjum sé að margfaldast.
  • Af hverju stoppum við ekki og spyrjum - hvaða kerfi erum við að byggja upp?
  • Erum alltaf að leita að meðalmennsku.
  • Þórhallur sagði:  Við erum að þröngva fólki inn í meðalmennsku og miðstýrða hugsun
  • Kröfur um hvað er inni og hvað er úti - þá koma líka eigin fordómar hjá fólki.

Viðtal við mann

  • Sjálfsblekking = „Mér liður vel svona einn"
  • Móðir hans vissi ekkert hvað hún átti að gera, en í raun fékk hann að komast upp með það að vera heima - allt of lengi. ( Dæmi um meðvirkni móður)
  • Hvíta bandið - engin forræðishyggja, verðug verkefni sem reyndu á og þar uppgötvaði hann að hann hefði hæfileika.
  • Fyrsta skrefið að fara út - að fara í göngutúr.
  • Þegar fólk er öðruvísi - þá hafa manneskjur í kring oft vald til að brjóta niður.
  • Greinum hæfileika hvers og eins, fókusera á styrkleika og verðug verkefni og uppgötva hvaða hæfileika við höfum.
  • Af hverju deilum við ekki óörygginu sem við höfum? (Fellum grímuna! aths JM)
  • Kerfið okkar bregst ekki við fyrr en allt er komið í óefni.
  • Ekki láta hroka plata ykkur hjá einangruðum einstaklingi og/eða sem er í vanlíðan - endilega ekki gefast upp á vinum ykkar sem einangra sig.
  • Ríkt í fólki að brjóta sig niður.
  • Foreldrar og skólakerfi - við þurfum að deila tilfinningum.
  • Hrósið - við þurfum hrós jafnvel þótt við séum með gott sjálfstraust. Nú, ef  við fáum ekki hrós getum við farið að gefa það sem okkur skortir.  (Muna eftir bergmálslíkingunni)  
  • Ef manni líður illa, þá er erfitt að koma á einhvern stað og biðja um hjálp, en þá er sniðugt að fara á einhvern stað til að hjálpa öðrum.
  • Lykillinn er að láta gott af sér leiða. Þeir sem hafa orðið fyrir áföllum geta deilt dýrmætri reynslu sem ekki er til í bókum.

Viðtal við konu 

  • Kona sannfærð um að eiturlyf hafi gert hana geðveika.
  • Rússnesk rúlletta að fara í eiturlyf
  • Það átti ekki að gefa lyf við ástarsorg
  • Læknar þurfa að hafa meira í höndum en lyfseðil
  • Virknimiðstöðvar um allt land
  • Á draumaheilsugæslustöð eru sérfræðingar en líka fólk með reynslu sem má virkja og þverfaglegur hópur. Þjónustumiðstöð - virkimiðstöð - heilsugæsla tengd
  • Í lífi okkar erum við ekki sjálfstæð. Við erum öll háð þar sem við erum ekki ein.
  • Mikið af fólki eitt með lágt sjálfsmat og heilsugæslustöðvar ekki svar við því.
  • Virknimiðstöð - t.d. gæti eldra fólkið mætt og kennt unga fólkinu og öfugt. Tengja barnaheimili og elliheimili.
  • Við erum að hólfa of mikið, setja fólk í kassa
  • Grunnurinn er að við þörfnumst ástar og kærleika og viljum láta gott af okkur leiða.
  • Það verður að vera einhver í nærumhverfi sem tekur eftir því að einhver er einn, og einhver verður að fara með þér og koma þér af stað. (Þú ert auðvitað hetja ef þú getur sjálf/ur aths. JM)
  • Gefa fólki tíma til að tengjast.
  • Allar aðferðir jafn árangursríkar. TENGSL skipta máli - t.d. að einhverjum er ekki sama um þig og hvað verður um þig.
  • verðum að praktisera náungakærleika.

Heart

Hér er slóð á viðtalið.

 


Innblástur frá Steve Jobs

Tími þinn er takmarkaður, svo ekki  tímanum með því að lifa lífi annarra.   

Ekki festast í frumskógi kenninga og kredda, sem er stundum afleiðing þess að lifa eftir hugsanagangi annarra.

Ekki láta suðið frá skoðunum annarra yfirgnæfa þína innri rödd.  (Reyndu að greina á milli hvað er þín eigin rödd og hvað rödd annarra).

Hafðu hugrekki til að fylgja fyrst og fremst hjarta þínu og innsæi, með því veistu hvað þú vilt í raun og veru fá út úr lífinu.


Staðgöngumæðrun og velgjörðarkonur

Hugmyndin um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gæti virkað mjög falleg.  Næstum of falleg til að vera sönn og reyndar efast ég um að hún gangi upp nema í undantekningatilfellum.  

Hvað þýðir þetta í raun og er hugmyndin raunsæ?  

Það eru einhverjir dýrðlingar sem stíga fram og bjóðast til að ganga með barn fyrir systur, dóttur,  frænku eða vinkonu.  Ég á bágt með að trúa því að ókunnar konur fari að ganga í gegnum meðgöngu fyrir ókunnar manneskjur án þess að fá greitt fyrir það.  

Hver ætlar svo að fylgjast með því að ekki sé greitt fyrir velgjörðina?  

Nýlega bárust fréttir af því að Nicole Kidman og hennar eiginmaður hafi eignast barn með hjálp staðgöngumóður. Þar er auðvitað varla spurning um annað en að þar hafi verið greitt fyrir líkama staðgöngumóður.  Nicole Kidman átti fyrir tvö ættleidd börn og eitt sem hún eignaðist sjálf.  Ég held að allir séu sammála því að hún er ekki þessi kandídat sem er í "desperasjón" í barnleysi.  Hún gerir þetta í valdi auðs síns og af því að hún getur keypt manneskju til verksins. 

Hvað með öll munaðarlausu börn þessa heims?  Er ekki nóg framboð af börnum?  Þarf ekki frekar að rýmka ættleiðingarreglur?

Mér þætti fróðlegt að vita hversu stór hópur það er af konum á Íslandi sem er tilbúinn að ganga í gegnum meðgöngu og fæðingu í velgjörðarskyni  og vita fyrirfram að barnið sem þær bera undir belti verður aldrei þeirra?  

Kannski er allt í lagi að samþykkja þessi lög til þess að allar þessar velgjörðarkonur geti farið að bjóða sig fram?  


mbl.is Fleiri fylgjandi staðgöngumæðrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími til að kveðja hið gamla og taka á móti hinu nýja - Gleðilegt ár!

Í dag er gamlársdagur og á þeim degi lítum við mörg yfir farinn veg.  Eins og áður hefur komið fram þá er hjarta mitt þakklátt.  

Bæn ársins, og eflaust komandi ára, er svo sannarlega æðruleysisbænin;

"Guð gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli."

 

Þessi bæn hefur hjálpað mér við stórar og litlar ákvarðanir í mínu lífi og við að játast það að ég geti ekki, þrátt fyrir einbeittan vilja - bjargað heiminum! ... 

Árið 2010,  stiklað á stóru:  

- sagði ég starfi mínu sem aðstoðarskólastjóri lausu.  Cool

- átti ég yndislega páska í Kaupmannahöfn með hluta af fjölskyldunni og barnabörnum 

- þann 17. júní eignuðust sonur minn og tengdadóttir yndislegt stúlkubarn InLove 

- fór ég á lífsbreytandi námskeið,  meðvirkninámskeið í Skálholti og Dale Carnegie námskeið  Joyful

- fékk ég vinnu við átaksverkefni gegn brottfalli nemenda úr skóla  Kissing

- gerðist ég samstarfsaðili að grasrótarsamtökunum Lausninni - www.lausnin.is   Halo

- skipti út orðinu megrun fyrir meðvitund  Wizard

- fékk ég mikla hvatningu frá fólki og mörg falleg bréf frá fyrrverandi nemendum Heart

Ég vil þakka ÖLLUM sem hafa staðið með mér á stormasömu ári,  og óska okkur öllum gleðilegs árs og friðar!

Er þakklát fyrir ykkur börnin mín;  Eva Lind, Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst  InLove ..  

Og hér kemur kveðja til liðins árs! ..  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband