Færsluflokkur: Bloggar

Bjartsýnisspá fyrir 2011 - Lifðu í lukku en ekki í krukku!

Ég hef ekki komist til að lesa völvupána í Vikunni, en hef lesið sumt af því á blogginu um það sem þar er verið að spá. Það var ekkert sérlega upplífgandi og reyndar var það bara óhollt vegna þess að mér varð ekkert gott af því. 

Mannshugurinn er ótrúlega sterkt fyrirbæri og ég er viss um að við hreinlega getum látið spár rætast, a.m.k. að hluta til.  Ég heyrði einu sinni sálfræðing lýsa því að þegar við segjum við barn sem er að hella úr mjólkurfernu "ekki hella niður" að það sé mun líklegra að barnið helli niður en ef við segðum ekki neitt.

Bara orðin "hella niður" eru þau sem greipast í huga barnsins, þetta ekki skiptir engu máli.

Eins er hægt að segja við okkur;  Ekki hugsa um hest.  Enginn sem les þetta sér eitthvað annað en hest fyrir sér. Orðið ekki skiptir þá engu máli.   En ef við segðum í staðinn;  hugsaðu um ljón,  þá færum við að sjá ljón og hesturinn hverfur. (Þessa líkingu heyrði ég hjá Guðna í Rope Yoga).

Ég ætla því að taka bjartsýnisstefnu í spádómum fyrir árið 2011.  Þessu get ég t.d. spáð:

Það munu koma margir sólardagar,  þar sem fólk getur notið sín t.d. á Austurvelli og fengið sér cappuchino eða sódavatn á Café Paris,  nú eða t.d. á Ráðhústorginu á Akureyri! Við munum hafa nóg af fersku lofti til að anda að okkur og gnægð ferskvatns til að svolgra í okkur. 

 Margir munu njóta vináttu. Margir munu finna ástina, eiga unaðsstundir saman - mörg heilbrigð börn munu fæðast á árinu. (Í sumum tilfellum afrakstur unaðsstundanna).   Mörgum mun ganga fanta vel í vinnu og námi,  margir munu njóta þess að syngja - bæði einir í sturtu og í kórum.  Við eigum örugglega heimsmet í kórsöng.

Margir munu fá hlátursköst á árinu og margir munu finna að lífshamingjan er ákvörðun sem hægt er að taka.

Sú sem hér skrifar,  mun opna heimasíðuna www.lifshamingjan.is  þar sem hún ætlar að skrifa um mannbætandi hluti og er að vinna í nokkurs konar mannbætimiðstöð líka sem hægt er að sjá á síðunni www.lausnin.is  (Mín persónulega síða kemur með kalda vatninu, er með fínan strák mér til aðstoðar, að hjálpa mér að búa hana til).  

Að lifa í lausnum og lífshamingju er svona svipað og að lifa í lukku en ekki í krukku! Smile

Endilega bætið við í athugasemdum einhverju sem þið spáið að muni gerast á árinu og nú skulum við bara setja athyglina á hið góða,  því það sem við veitum athyglii VEX.  

Ég er ekki með þessu að segja að fólk eigi að stinga höfðinu í sandinn og vera ekki með meðvitund um umhverfi sitt og ástand,  en að með því að veita plúsunum meiri athygli fækkar mínusunum.  Þó að stormar geysi allt í kring þá er hægt að eiga innri frið og gleði í hjarta. 

Hérna er ein hress ömmustelpa - verum jákvæð fyrir okkur sjálf og ungu kynslóðina sem er að vaxa úr grasi  Smile ..  

p1010012.jpg

"Út með illsku og hatur, inn með gleði og frið" ...

Það er gott að vakna á aðfangadagsmorgun, þótt það sé kannski full snemmt svona klukkan sex eitthvað, með allt í góðum gír. Æðruleysi er orð dagsins, ég gera það besta úr þeirri stöðu sem ég er í.  Er þakklát fyrir að vera bara í gír yfirhöfuð! Smile

Ég var með með árlega "Opið hús" í gær og fékk fjölskylduna og nána vini í heimsókn.  Allt fólk sem mér þykir gríðarlega vænt um og er svo innilega þakklát fyrir að eiga að.  Ég útbjó hlaðborð með ýmsu góðgæti og svo drukkum við heitt kakó með rjóma, gos og/eða öl! .. 

Eftir að vinir og vandamönn höfðu kvatt og ég hafði gengið frá að mestu leyti, leyfði ég mér að setjast niður og horfa á Örvæntingafullu eiginkonurnar á RUV plús,  en þar dúkkar alltaf eitthvað óvænt upp. Þátturinn í gær átti að gerast um Þakkargjörðarhátíðina,  sem er ekki síður mikilvæg hátíð í Bandaríkjunum en jólin.  Á þakkargjörðarhátíð minnist fólks  þess sem það er þakklátt fyrir og hjó ég eftir þessu "To Count your Blessings"   bein þýðing "Að telja blessanir þínar"  sem er auðvitað bara að rijfa upp það sem þú getur verið þakklát/ur fyrir.  

Jólin eru þannig tími, að við getum sest niður - með öðrum, eða með sjálfum okkur og rifjað upp það sem við erum þakklát fyrir. 

Ég hef margt að þakka þetta árið, en það sem stendur upp úr er fólkið sem ég hef í kringum mig, bæði það sem ég hef þekkt lengi og nýja fólkið sem ég hef fengið að kynnast og hefur rekið á fjörur mínar.  Ég nota viljandi þetta orðalag "að hafa rekið á fjörur"  því að stundum er merkilegt hvernig fólk kemur til manns eins og okkur sé ætlað að hittast.

Talandi um að telja blessanir sínar; "Barn er blessun" og ég eignaðist nýtt barnabarn á árinu, og eru þau því orðin þrjú talsins og það er svo sannarlega eitt af stóru þakkarefnunum.  Í mótlæti minu varðandi  aðdraganda og uppsögn og síðan baráttu mína við að verja skólastarf Hraðbrautar hef ég fengið endalausan stuðning og styrk frá fyrrverandi og núverandi nemendum - í formi tölvupósta, kveðja á Facebook og svo hafa þeir tjáð sig á blogginu mínu.  Fyrir það er ég  afskaplega þakklát. Ég er líka þakklát öðru góðu fólki sem hefur haft samband varðandi þetta og annað og hvatt mig áfram og sýnt stuðning. Ég met það mikils. 

Ég er þakklát fyri nýja starfið mitt,  bæði við að fara að sinna málum varðandi brottfall nemenda úr skóla og svo hjá Lausninni,  en hvað er dásamlegra en að fara að starfa að lausnum?  Ég er líka sérlega þakklát fyrir samverkamenn mína þar,  sem ásamt sr. Önnu Sigríði Pálsdóttur og Margréti Scheving tókst að kenna mér loksins hvað meðvirkni þýddi í raun og veru.  Ég er líka þakklát fyrir Dale Carnegie námskeiðið sem ég fór á, góða fólkinu sem ég kynntist þar og frábærum þjálfara.  Ég er þakklát fyrir hvað ég er hraust og að ég hafi orku til að gefa af mér. 

Ég næ aldrei að þakka allt hið góða sem mér hefur verið fært á sl. ári og árum í upptalningu hér, en ég held áfram að hugsa í þakklæti.   Þakklæti fyrir fjölskyldu, vini og velviljað fólk.  Þakklæti til þín sem hefur gefið þér tíma til að lesa hugleiðingar mínar og deilt með mér gleði og sorg.  Ég ætla ekki að gleyma sjálfri mér - en ég er þakklát fyrir sjálfa mig!  (Við eigum það nefnilega til að gleyma okkur sjálfum).  

Um leið og við þökkum það sem gott er hugsum til þeirra sem hafa minna úr að moða, eru einmana eða sárir - hugsum til þeirra með umhyggjusömu hjarta og sendum þeim birtu og yl.  Sendum þeim því ekki áhyggjur okkar heldur bæn um betri tíð og blóm í haga. 

MEÐ EINLÆGRI ÓSK UM GLEÐI OG FRIÐ UM JÓL! 

 

 


Menntun er forvörn og sparnaður fyrir þjóðfélagið

Ég tók eftir þessari grein þegar hún kom og langaði að skrifa um hana, en hafði ekki tíma. Náði sem betur fer að veiða hana upp úr hafsjó frétta með því að gúgla eins og sagt er á góðu máli. 

Það sem vakti athygli mína var m.a. þetta:  

"Í tilkynningu frá Barnaheillum segir að jafnræði til náms sé einn af hornsteinum íslensks samfélags og þegar þrengi að, sé brýnt að hlúa að menntuninni. Sterk efnahagsleg rök hnígi að því að skerða alls ekki skólagöngu barna og ungmenna heldur auka við hana á krepputímum ef þess sé nokkur kostur."

Ég sat á Þjóðfundinum 2009 þar sem þúsund manns lögðu sitt af mörkum til að leita að gildum og stoðum samfélagsins.  Stærsta gildið var HEIÐARLEIKIi og stærsta stoðin var MENNTUN.  

Ef við ætlum að vera heiðarleg þjóð þá verðum við að virða gildi og stoðir Þjóðfundar, annars erum við ekki að nýta það tæki sem hann er.

Varðandi menntun barna og unglinga, þá vil ég taka undir með Barnaheillum hversu mikilvægt er  að hlúa að menntun barnanna.  Auk þess langar mig að bæta því við hversu mikilvægt það er að bjóða upp á tækifæri til menntunar öllum þeim sem hafa þrá til menntunar.  Líka þeim sem hafa fallið úr námi en eru tilbúnir að takast á við menntun í dag sem þeir voru ekki tilbúnir á sínum tíma.  Ýmislegt getur hafa komið til.

En - og þarna er stórt EN,  menntunin þarf að höfða til einstaklingana og umhverfið að vera þannig að nemendum líði vel í sínu námi og að eldmóður þeirra sé virkjaður.  Ef að skólinn er þannig að öllum leiðist þá er eitthvað að.  Mikilvægt er að menntun sé ekki bara bókleg, heldur að þar fái nemendur tækifæri á að rækta sjálfsmynd, tjáningu, sjálfstæði o.s.frv. og það á öllum skólastigum,  því þetta er nám sem aldrei hættir.  Áherslan á að vera á hamingju nemendanna í skólanum og í náminu, hamingjusamir nemendur falla varla frá námi. 

Með því að styrkja sjálfsmynd nemenda og leyfa þeim einnig að átta sig á þeirra innra fjársjóði,  draga fram þeirra eigin hæfni og talentur,  þá erum við um leið að vinna að forvörnum.  Sterkari einstaklingar fara síður út í óreglu.  Þegar upp  er staðið er það því sparnaður fyrir samfélagið ef að vel að menntun er staðið og hún byggð upp þannig að sterkari einstaklingar komi út í þjóðfélagið. 


mbl.is Barnaheill skora á stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hún bar harm sinn í hljóð" þetta þótti mjög kúl - þar til .....

Ég er ekki að mæla með því að fólk þyrpist öskrandi út á götur að upplýsa um sorgir sínar og sár. Nei, nei .. en þessi hrósyrði "Hann bar harm sinn í hljóði" eða "hún bar ekki tilfinningar sínar á torg" .. er eitthvað sem má endurskoða hvort að er í raun eitthvað til að hrópa húrra fyrir eð mæra fólk fyrir í minningargreinunum.

Manneskja sem byrgir inni tilfinningar og sorgir verður yfirleitt bitur og reið.  Þetta er eins og graftarkýli sem bara stækkar en aldrei er kreist og greftrinum hleypt út.  Ojbara annars hvað þetta er eitthvað ljót samlíking.  Eigum við kannski frekar að líkja þessu við goshver? 

Ég held það sé manneskjum hollast að sletta úr sér janfóðum og það fer að bóla á vonbrigðum, leiða, sorg, kvíða o.s.frv..  frekar en að safna þessu upp og gjósa svo stóru gosi.  Eða þá að gjósa ekkert og enda kannski inni á hjúkrunarheimili  fullur af reiði og vonbrigðum, og hver veit hvernig fólk gýs þá? 

Sumir þurfa hjálp - og má þá hella smá grænsápu til að hjálpa við útrásina! 

Ég held s.s. að við verðum beygð á sálinni ef við höldum öllu inni, það þurfa allir á vinum að halda eða sálusorgara til að tjá sig við.  Sumir segja blogginu frá sorgum sínum,  virðum það bara.  Sumir segja fjölskyldu sinni og/eða vinum.  Auðvitað er betra að hafa eyru til að hlusta og manneskju til að deila með.  

Um leið og harmi er deilt,  þá minnkar hann.  Það er líka bara stærðfræðilega rétt. 

Berum ekki harm okkar í hljóði,  það gerir okkur kræklótt og beygð á sálinni. 

Þetta var svona hugvekja föstudagsins, en nú er komið að matseld! Smile

p.s. er að byrja með námskeið "Tjillað í tilfinningunum" sem er þannig byggt upp að ég kem með innlegg, síðan er farið í "andlegt ferðalag" og slökun í ca. 20 mínútur og svo tilfinningar ferðalagsins ræddar.  Verið óhrædd við að leita upplýsinga og sendið mér póst johanna.magnusdottir@gmail.com 

Námskeiðið er fjögur mánudagskvöld, fyrsta skipti 10. janúar - og stendur frá 20:00 - 22:00.  Upplagt að demba sér,  hvort sem maður er í gleði eða sorg.  Staðsetning:  Súðarvogur 7 í Reykjavík,  húsnæði Lausnarinnar.  Kaffi, te og kósýheit ;-)

Þetta verður ekki leiðinlegt! Wink

p.p.s. 

Er með fimm ára nám í guðfræði að baki - s.s. óvígður prestur (látið það ekki fæla frá ;-)) 

Kennsluréttindi á framhaldsskólasviði.

Fimm ára starfsreynslu sem aðstoðarskólastjóri framhaldsskóla.

Lærði hugleiðslu og slökun í tvö ár. 

Kenndi sjálfsstyrkingu og tjáningu. 

Var leiðbeinandi á námskeiði "Líf eftir skilnað" 

Var með námskeið í sjálfsstyrkingu fyrir konur í Víðistaðakirkju. 

Hef farið á ótal námskeið tengd mannlegum samskiptum. 


Það versta við atvinnuleysið - að hafa ekki samstarfsfólk!

Ég varð formlega atvinnulaus 1. september sl., svo nú er ég búin að vera atvinnuleitandi (eins og það kallast á fínna og meira uppbyggilegra máli) í liðlega þrjá mánuði og stefnir í fjóra.  Ég sótti um slatta af störfum, komst í tvö viðtöl og fékk starfið í seinna viðtalinu.  Fannst skrítið þegar ég var ekki kölluð í viðtöl - af því mér þykir ég svo frábær! LoL  En það er augljóst að það er fullt af frábærara fólki þarna úti, og ekki þarf ég að kvarta því ég er komin með mjög áhugavert verkefni. 

Það sem ég lærði af atvinnuleysinu var að sjá hvað væri margt í boði fyrir atvinnuleitendur, alls konar námskeið og sjálfboðavinna.  Ég held að það sé ekki nóg að það sé "í boði" það er betra að hafa smá "skyldu" í þessu - því að ég áttaði mig líka á ákveðnu framtaksleysi í atvinnuleysi, - hélt ég yrði upp um alla veggi að föndra hálsmen,  í heimsóknum og á fyrirlestrum.  Það byrjaði vel en svo nennti ég ekki meira,  fór að vaka fram eftir og sofa fram eftir.  Er svolítið í þeim pakka núna. Gat að vísu lagt svolítið til samfélagsins með að vera með hugvekju fyrir heimsóknarþjónustufólk Rauða krossins og Kvenfélag Garðabæjar.  Það var gefandi að gefa af sér. 

Ég var að vísu byrjuð að undirbúa sjálfstæðan rekstur,  ráðgjöf og kennslu þar  sem ég var ekkert viss um að einhver atvinnurekandi vildi mig!  Ég held því áfram til hliðar,  því ég er búin að byggja upp eldmóðinn og finnst það mjög spennandi. 

Það sem ég saknaði og sakna líka - er svona kaffistofuhjal, jólahlaðborð og fleira sem er auðvitað ekkert þegar maður á ekki vinnustað! 

Frétti af gamla vinnustaðnum - allir fóru "rosalega gaman" o.s.frv. -  ég vorkenndi sjálfri mér svolítið þegar ég heyrði það.   Átti svo ágætt föstudagskvöld - sl. föstudag þegar ég fór fyrst með Saumó á Scandinavian þar sem ég fjárfesti í tveimur humarhölum og hálfri kartöflu fyrir 2.290.- krónur.  Eða um eitt þúsund krónur halinn!   Ég drakk óáfengt svo reikningurinn var ekki svo svakalegur. 

p1010045.jpgÞarna er ég með dýrmæta humarinn - hélt reyndar að diskurinn sæist betur á myndinni. Sylvía vinkona hallar sér að mér - gaman hjá okkur! 

Eftir Saumó hitti ég hópinn minn úr Dale Carnegie námskeiðinu á Oliver þar sem ég ætlaði að smakka kjúklingastrimla og naan brauð.  Fékk þó tvo skammta af naan brauði en engan kjúkling og afgreiðslustúlkan stóð föst á því að ég hefði pantað svona vitlaust.  Hvað varð um "The customer is always right" ? ..  Ég áttaði mig á því að í raun var ég ekkert svöng,  þrátt fyrir ríkulegt át á tveimur humarhölum og hálfri kartöflu fyrr um kvöldið og borðaði bara smá brauð með tandoori sósu og áfram var ég í pilsner.  

Var ég ekki að tala um atvinnuleysi? Gleymdi mér alveg.  Auðvitað léttir mér að vera búin að fá vinnu;  launin eru ekkert til að hrópa húrra fyrir - skara aðeins yfir atvinnuleysisbætur,  en verkefnið er gefandi svo ég lít á það sem góða reynslu og skóla.  Gott að komast í rútínu og hlakka til að eiga samstarfsfólk - það er eiginlega það sem ég sakna mest, þ.e.a.s. vinnufélagar. 

Þannig er nú það! 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 7,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki auðvelt að flytja hugvekju eftir að sexbomba á sextugsaldri hefur haldið salnum í krampakasti ;-)

Ég var boðin á jólafund hjá Kvenfélagi Garðabæjar til að fara með hugvekju,  en ég verð eflaust eins og konan sem fékk þessa eftirskrift:  "þrátt fyrir góða greind gekk hún aldrei í kvenfélag!" .. Ekki að maður eigi nokkurn tíma að segja aldrei!

Jæja, dagskráin var hlaðin og ég átti að flytja hugvekjuna svona í restina (sem ég og gerði) en fundurinn var orðinn býsna langur og margir góðir "konfektmolar" í boði, fyrir utan venjuleg fundarstörf, nefndaræður o.fl. var afhentur styrkur til Holtsbúðar, sem er hjúkrunarheimili í Garðabæ fyrir aldraðra og Sveinn H. Skúlason forstöðumaður  flutti þakkir og ræddi aðeins um starfið,  Kvennakór Garðabæjar söng o.fl. o.fl.  Fundurinn var borinn uppi af flottum konum og mættar voru til leiks flottar konur,  og gaman að segja frá því að rautt var eins og þemalitur, enda jólaliturinn. 

Það var þess utan einstaklega gaman að fá að heyra hvað þessar konur eru að láta gott af ser leiða i samfélaginu og var þvi fundurinn mjög upplýsandi um hvernig kvenfélag starfar. 

Eftir kaffi, brauðtertur og hnallþórur - steig Helga Thorberg á svið,  og kynnti bók sína: Loksins Sexbomba á sextugsaldri,  hún las,  sagði frá og svaraði spurningum.  Helga var fyndin og hitti vel í mark með hnyttnum lýsingum af ástarlífi konu á sextugsaldri m.a. þar sem hún var að finna sig í rafmagnsleysinu og meðal skorkvikinda  í Dóminikanska lýðveldinu.  Ég fór þó aðeins að stressast,  því ég tók eftir að nokkrar konur voru orðnar lúnar enda búnar að sitja frá átta og klukkan langt gengin ellefu. 

Bomban var brilljant og efni bókarinnar virkilega eitthvað sem gaman er að skoða.  En svo kom loksins að mér - og það er bara hreint ekki auðvelt að stíga á svið með hugvekju (jafnvel með húmor) eftir svona leiklistarperformance! ..og vissi jafnframt að sumar konurnar voru komnar með hugann heim í ból. 

Mér fannst ég tala óþarflega hratt - stytti hugvekjuna og heimfærði aðeins upp á kvöldið. Ekki alslæmt þó.

Well .. fullorðin kona sem sat við borðið mitt, sem ég á að muna hvað heitir því hún kynnti sig - tók í hönd mína og sagði "voðalega er gott að heyra eitthvað svona fallegt" .. ég ætti því kannski að hætta að kvarta yfir senuþjófnaði  sexbombu og vera glöð að geta glatt með einhverju fallegu. 

Svo er ekki verra að hugsa til þess að eftir tæpt ár er mín sjálf orðin sexbomba á sextugsaldri!! ..  Þá mega aðrar vara sig! Kissing


Lífið er sjarmerandi ...

Ég varði fyrri part dags að grúska í gömlum málum og þá sárum,  bloggaði frá mér leiðindin svona eins og Lóan kveður þau burt.  Var búin að ákveða að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði - en þá var snúllan mín hún Vala að fara að prófa Zúmba í World Class og bað mig um að skutla sér. Í staðinn fyrir það ákvað ég að ég myndi fara í mitt Zúmba .. eða réttara sagt ég fengi hana til að skutla mér til mömmu og ég mynd ganga heim í "góða" veðrinu.  Já, veðrið er auðvitað gott ef maður klæðir sig nægilega vel.

Í einhverju allsherjar kæruleysi fór ég af stað (Karl Berndsen myndi drepa mig)  í svörtum íþróttaskóm, brúnum velúrbuxum, rauðri og hvítri lopapeysu, með bleikar grifflur, svarta prjónaða alpahúfu og síðan yfir allt í skósíðri Mohair ullarkápu.  Að sjálfsögðu ekki með örðu af farða í andlitinu.  Ég krossaði mig bara að ég myndi engan þekkja á leiðinni, og mamma elskar mig skilyrðislaust svo ég vissi að henni væri sama. 

Það var gott að koma inn á jólaskreytta deild, þó að það væri sorglegt að sjá þarna eina grátandi konu. Ég brosti til hennar og mér sýndist hún hætta að gráta. Held hún hafi bara verið einmana.  Við mamma fórum inn á herbergið hennar og ræddum eins og venjulega hvernig henni liði og svo framvegis. Hún var glansandi fín (annað en dóttirin) nýkomin úr hárgreiðslu og alles. 

Jæja - svo var haldið út í kuldann og ég gladdist innilega yfir heitri múnderingunni. Gekk í áttina að Skólavörðustíg, svo niður Laugaveg og inn á Kaffi tár þar sem ég nældi mér í einn cappuchino "to go"  þegar ég kom út með kaffið,  þá hugsaði ég að ég væri eins og útigangskona og brosti með sjálfri mér. Um leið og ég gerði það mætti ég fullorðnum manni sem horfði á mig og flautaði "fjútt fjú" .. Jeminn eini hvað ég var þakklát þessu komplimenti.  Ætlaði einmitt að fara að detta í "the lonely guy" hugsunina - en það er ég um helgar.  Öfunda alla sem eru eitthvað að fara út að borða - eða eiga kósý kvöld með maka sínum eða eitthvað.  Svona er þetta bara! 

En mikið svakalega fattaði ég hvað ég hafði saknað þess að ganga úti í kuldanum.  Simbi er ekki mikið fyrir kuldann - svo ég hef ekki verið að bjóða honum í göngu (þegiðu Jóhanna þú ert bara löt). 

En, jú það var eitthvað ofur-rómantískt við að rölta (nei strunsa) þarna í gegnum Austurstrætið, meira að segja fulli kallinn í Kraftgallanum sem ég mætti syngjandi var eitthvað sjarmerandi. 

Ég þarf að fá meira frískt loft - það er víst og það er gott.

p.s. var að komast að því að Simba þykir gott Cappuchino, en ég missti smá froðu á puttana á mér og hann sleikti hana burtu! .. 

 


Aftur og nýbúin: Einkaskóli og einkakirkja, hvers ber að gæta.

Færslan mín um þetta  mál virkar eitthvað illa og athugasemdakerfið við hana líka - svo ég prófa að gera þetta aftur.  Fólk hefur fengið villumeldingu og ég líka.  Vona að það sé ekkert samsæri í gangi. LoL

En hér er þetta aftur, með smá viðbót í restina: 

Að mínu mati er hættan við svona "einka" að einn aðili, oftast stofnandi og/eða eigandi hafi of mikil völd og fái að starfa eftirltslaust. 

Það sem ég þekki úr Menntaskólanum Hraðbraut, en þar starfaði ég í sex ár, þar af fimm sem aðstoðarskólastjóri. 

Skólastjóri er eigandi skólans og konan hans framkvæmdastjóri rekstrarfélags. 

Í skólastjórn sitja síðan mágur skólastjóra, frænka, vinir og/eða golffélagar.  (Þetta kallast á dönsku "tantebestyrelse") eða frænkustjórn.  

Skólaráð var EKKERT þrátt fyrir að það kæmi fram í matsskýrslu um skólann frá 2005 að í skólanum starfaði skólaráð,  og þrátt fyrir að kennarar og aðstoðarskólastjóri  þrýstu á um það til langs tíma.  Skólinn hóf störf 2003, skólaráð var sett á eftir þrýsting á vormánuðum 2010 - TIL REYNSLU.  

Skólastjóra leist ekkert á þá hugmynd að við skólann væru umsjónarkennarar, enda um aukakostnað að ræða,  en þar er sömu sögu að segja og um skólaráðið,  eftir þrýsting lét hann undan. 

Skólastjóra leist ekkert á það og frábað sér að kennarar væru í sínu stéttarfélagi, Kennarasambandi Íslands,  vegna gamalla persónulegra deilna við sambandið,  eftir stórkostlegan þrýsting og eftir að kennarar ræddu við menntamálaráðuneyti eru loksins (árið 2010) komnar af stað samræður milli skólastjóra og KÍ, en ekki enn kominn stofnanansamningur.   

Skólastjóri lét jafnframt í það skína og sagði beint út að kennarar myndu mögulega knésetja skólann með því að ganga í stéttarfélagið sitt,  þar sem skólinn myndi ekki bera launagreiðslur sem félagið myndi reikna út! 

Starfsmenn  vildu ekki vera þessir "valdendur" að því að skólinn þeirra og vinnustaður yrði knésettur eða færi á hliðina - en vildu sannreyna að skólinn stæði það illa fjárhagslega að hann bæri ekki launagreiðslur sem væru greiddar skv. útreikningum Kennarasambands Íslands og það var ÞÁ sem loksins einhver  fór að fetta fingur út í arðgreiðslur til skólastjóra/eiganda,  og jafnframt 50 milljón króna lán sem skólinn lánaði skyldu félagi á sínum tíma.  Þeim þótti merkilegt að skólastjóri gæti þegið arðgreiðslur upp á tugi milljóna - en þeir gætu ekki fengið borgað skv. útreikningum KÍ. 

Það var s.s. árið 2010 sem Menntamálaráðuneyti - ríkisendurskoðun og menntamálanefnd fór í alvöru að skoða starfsemi skólans. Í úttekt sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið um faglegt starf skólans kom fram að starf skólans var gott, fyrir utan áðurnefnda hluti - vöntun á stöðu umsjónarkennara, skólaráðs, frænkustjórnina og  fyrir utan samskiptaörðugleika við skólastjóra og óánægju starfsfólks vegna tíðra utanlandsferða hans.  Auk þess var almenn óánægja með þá ráðstöfun skólastjóra að taka sér matartíma milli 12:00 og 14:00  enda þótti það ekki góð fyrirmynd þar sem kennarar fengu tæpar 45 mínútur í sitt hádegishlé,  og eðli starfsins samkvæmt,  þá er kennari sjaldnast kominn út úr kennslustofu klukkan 12 en þarf að vera mættur til kennslu stundvíslega - vegna þess að hann er fyrirmynd nemendanna. 

Hvað er ég að segja með þessu öllu - jú, ríkið leggur til 80% af rekstarkostnaði við þennan skóla - ætti þá ekki að vera a.m.k. svona 80%  eftirlit frá ríkinu,  varðandi stjórnsýslu og fjármál?    

Systir mín starfar í leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar og þar er horft á hverja einustu krónu sem fer í starfsemina.   Ef að leyfa á rekstur "einka" skóla - sem ég persónulega skil ekki að hægt sé að kalla einka ef að 80 prósent af rekstrarfé kemur frá ríki,  þá VERÐA að gilda sömu lög og sama eftirlit og með 100% ríkisreknum skólum.   

Ég styð framkvæmd eins og Menntaskólann Hraðbraut, styð kennara hans og kerfi - og að sjálfsögðu er skólastjóri verður launa sinna, en spurning hvort að eigi að reka skóla sem business? 

Í fyrirsögninni segi ég einkaskóli og einkakirkja - hvers ber að gæta?   Jú, það þarf að gæta þess að forystusauðurinn sé ekki einráður og misnoti ekki aðstöðu sína og það þarf að vera virkt eftirlit með starfseminni.   

Það mætti spyrja sig í lokin - hvar ég hafi verið í öllu þessu, þar sem ég starfaði sem aðstoðarskólasjóri?  Ég var að halda utan um daglegan rekstur, halda utan um áætlanir, stundaskrá, einkunnir o.s.frv.  Ég tók sl. áramót saman blað um störf mín og það blað varð að fjórum síðum.  Stundum var ég allt í senn, skólaritari, sálgæsluaðili, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri ..  Ég vildi óska að ég hefði sett niður fótinn fyrr - en ég fór að spyrna við í janúar sl. og bað um utanaðkomandi aðstoð inn í óviðunandi starfsumhverfi.  Bað m.a. um þarfagreiningu, skoða hvað þyrfti að bæta og fleira.  Skólastjóri var ekki samþykkur þeirri hugmynd, ekki frekar en að hann var ekki samþykkur stöðu umsjónarkennara, ekki samþykkur að kennarar ættu að fá hraðaálag, ekki samþykkur stofnun skólaráðs, ekki samþykkur aðild að stéttarfélagi o.s.frv.  Svo má kannski bæta því við að hann er ekki samþykkur útreikningi ríkisendurskoðunar á skuldastöðu skólans. 

Skólastjóri skrifað til bræðra sinna í frímúrarareglunnii um DV skrif:

DV 1. september 2010:

"Ég átta mig ekki enn á þessari aðför að mér og mínum, en
vonandi skýrist það einhvern tímann. Veit þó að ef aðeins brot af
ávirðingum DV væri sannleikanum samkvæmt væri væntanlega búið að
loka skólanum."

Því miður er "brot" af ávirðingunum sannleikanum samkvæmt,  en skólastjóri veit það fullvel að það væri EKKI búið að loka skólanum, því að skólinn er ekki bara hann.  Ef málið væri svo einfalt væri jú örugglega búið að loka skólanum.  Skólinn er nemendur, kennarar og annað starfsfólk - og þess vegna er ekki búið að loka skólanum.  Menntamálaráðuneytis bíður það verkefni að finna lausn fyrir nemendur og kennara og það er ekki öfundsvert. Það má líka bæta því við að skólastjóri á ekki að benda út í bæ,  á brottrekinn kennara, ávirðingar DV eða aðstoðarskólastjóra sem sagði upp til að leita að ástæðu hvers vegna skólinn er í þeirri völtu stöðu sem hann er í dag.  Hann þarf að líta í eigin barm. 

Ég upplifi mig sem hugrakka að hafa stigið út úr þessum aðstæðum,  þó að það sé vont að kveðja góða vinnufélaga og nemendur sem mér þótti afspyrnu gaman að styðja upp "Hraðbrautarfjallið" eins og ég kallaði það og enda að sjálfsögðu á toppnum - en það var stúdentsprófið þeirra,  með útsýni til allra átta! 

Þá er það sagt! 

p.s. 

Áskorun sem Ólafur skólastjóri fékk frá öllum kennurum skólans nema 3, starfandi námsráðgjafa, ritara og aðstoðarskólastjóra. 

Reykjavík,  16. apríl 2010
"Við, undirritaðir starfsmenn Menntaskólans Hraðbrautar,  viljum með hagsmuni skólans í huga,  koma því á framfæri að  ítrekuð fjarvera Ólafs Hauks Johnson skólastjóra og stjórnunarhættir,  hafi slæm áhrif á starfsanda í skólanum og skaði einnig ímynd skólans.  Við skorum því, hér með, á hann að endurskoða þá starfshætti að vera löngum stundum erlendis og fjarstýra þaðan,  með þær forsendur að leiðarljósi að sýnileiki og aðgengi að skólastjóra,  gagnvart starfsfólki,  nemendum og forráðamönnum þeirra er mikilvægur þáttur í skólastjórnun."


Þess má geta að Ólafur gat ekki ekki mætt á fund menntamálanefndar Alþingis í október sl. þegar hann átti að koma til viðtals því hann var staddur í Flórída,  en símafundi var skellt upp í staðinn. 


Að vera kát en ekki óþolandi kát ...

Í dag vaknaði ég glöð - og var með ákveðið lag í huga frá Peggy Lee - "vinkonu" minni frá unga aldri. Ég hafði nefnilega verið að hlusta á það á Youtube í gærkvöldi og var svo ánægð að muna eftir því í morgun og hlusta á það.  Ég hljóma auðvitað eins og einhver óþólandi kát manneskja - en ef það gleður einhvern að ég er ekki óþolandi kát, þá játast ég því alveg. Ég er bara í uppbyggingu og það gengur svona fj.... vel!   LoL   Framkvæmd og afleiðing er svona keðjuverkandi.  Úr því ég get grátið yfir sorgarlögum þá get ég hlegið yfir gleðilögum og hvort á ég þá að velja svona í morgunsárið? ...

Það er fleira sem er gott að velja - og ég hlustaði á fólk í gær ræða það.  Það er gott að velja það að tala ekki illa um aðra, gagnrýna ekki og kvarta.  Um leið og við einbeitum okkur að því að leita eftir kostum þeirra sem í kringum okkur eru (stundum okkar nánustu)  þá fer okkur sjálfum ósjálfrátt að líða betur - svo þetta er að sjálfsögðu allt upphugsað í eigingjörnum tilgangi.  Þ.e.a.s. til að OKKUR líði vel. 

Þetta er þessi pæling að meðmæla en ekki mótmæla. Tala vel um en ekki illa. Vera glaður með en ekki fúll á móti ... og svo framvegis. 

Þetta er líka spurning um virðingu fyrir náunganum og ekki síst sjálfum sér. Að virða náungann þýðir ekki að við þurfum að virða skoðanir hans - þar liggur oft misskilningurinn.  

En fyrst og fremst þurfum við að virða okkur sjálf,  nærast á hinu góða til að geta gefið gott af okkur. 

Ég óska öllum til hamingju með 1. desember 2010 en það er ekki verra að hafa svona 1. dag mánaðar sem svona upphafspunkt að því að íhuga sín viðhorf og hvort betur megi vanda sig gagnvart sjáflum sér eða öðrum. 

Takið ekki textann um að henda pillunum of alvarlega LoL ... Pillur eru ekki "all bad" .. 

 

 


"Um hitt blandast engum hugur að löggjafinn ræður hinni lagalegu skilgreiningu hjúskapar og þjóðkirkjan virðir að sjálfsögðu landslög," sagði Pétur.

Er í lagi að aðrar kirkjudeildir eða trúfélög virði ekki landslög? ..  Við erum ansi hörð að dæma t.d. að Sharía lög eru tekin fram landslög t.d. í einhverjum tilfellum í Bretlandi - en hvað með lög trúfélaga á Íslandi sem eru tekin fram yfir landslög á Íslandi?

Er rétt að samþykkja það að trúarsannfæring manna brjóti jafnréttislög, mannréttindalög eða önnur landslög? 

 


mbl.is Kirkjan ræðir um rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband