Lífið er sjarmerandi ...

Ég varði fyrri part dags að grúska í gömlum málum og þá sárum,  bloggaði frá mér leiðindin svona eins og Lóan kveður þau burt.  Var búin að ákveða að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði - en þá var snúllan mín hún Vala að fara að prófa Zúmba í World Class og bað mig um að skutla sér. Í staðinn fyrir það ákvað ég að ég myndi fara í mitt Zúmba .. eða réttara sagt ég fengi hana til að skutla mér til mömmu og ég mynd ganga heim í "góða" veðrinu.  Já, veðrið er auðvitað gott ef maður klæðir sig nægilega vel.

Í einhverju allsherjar kæruleysi fór ég af stað (Karl Berndsen myndi drepa mig)  í svörtum íþróttaskóm, brúnum velúrbuxum, rauðri og hvítri lopapeysu, með bleikar grifflur, svarta prjónaða alpahúfu og síðan yfir allt í skósíðri Mohair ullarkápu.  Að sjálfsögðu ekki með örðu af farða í andlitinu.  Ég krossaði mig bara að ég myndi engan þekkja á leiðinni, og mamma elskar mig skilyrðislaust svo ég vissi að henni væri sama. 

Það var gott að koma inn á jólaskreytta deild, þó að það væri sorglegt að sjá þarna eina grátandi konu. Ég brosti til hennar og mér sýndist hún hætta að gráta. Held hún hafi bara verið einmana.  Við mamma fórum inn á herbergið hennar og ræddum eins og venjulega hvernig henni liði og svo framvegis. Hún var glansandi fín (annað en dóttirin) nýkomin úr hárgreiðslu og alles. 

Jæja - svo var haldið út í kuldann og ég gladdist innilega yfir heitri múnderingunni. Gekk í áttina að Skólavörðustíg, svo niður Laugaveg og inn á Kaffi tár þar sem ég nældi mér í einn cappuchino "to go"  þegar ég kom út með kaffið,  þá hugsaði ég að ég væri eins og útigangskona og brosti með sjálfri mér. Um leið og ég gerði það mætti ég fullorðnum manni sem horfði á mig og flautaði "fjútt fjú" .. Jeminn eini hvað ég var þakklát þessu komplimenti.  Ætlaði einmitt að fara að detta í "the lonely guy" hugsunina - en það er ég um helgar.  Öfunda alla sem eru eitthvað að fara út að borða - eða eiga kósý kvöld með maka sínum eða eitthvað.  Svona er þetta bara! 

En mikið svakalega fattaði ég hvað ég hafði saknað þess að ganga úti í kuldanum.  Simbi er ekki mikið fyrir kuldann - svo ég hef ekki verið að bjóða honum í göngu (þegiðu Jóhanna þú ert bara löt). 

En, jú það var eitthvað ofur-rómantískt við að rölta (nei strunsa) þarna í gegnum Austurstrætið, meira að segja fulli kallinn í Kraftgallanum sem ég mætti syngjandi var eitthvað sjarmerandi. 

Ég þarf að fá meira frískt loft - það er víst og það er gott.

p.s. var að komast að því að Simba þykir gott Cappuchino, en ég missti smá froðu á puttana á mér og hann sleikti hana burtu! .. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Úps var að átta mig á staðreyndarvillu þarna - Kaffi tár er í Bankastræti ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 18:46

2 Smámynd: Dagný

Stundum sakna ég Reykjavíkur. Sérstaklega þegar ég les svona færslur. Var að vinna niðri í miðbæ um tíma og það var oft svo notaleg stemning þar. Miðbærinn er eins og þorp í borginni

Dagný, 3.12.2010 kl. 21:56

3 Smámynd: Heiðar Sigurðarson

Sæl, Jóhanna.

Mig langar til að vera bjartsýnn og kátur en svo þyrmir yfir mig þegar ég hugsa til þeirra sem kvíða jólunum. Það getur vel verið að ég sé of meðvirkur, en eiginhagsmunahyggjan sem hefur heldur betur sýnt andlit sitt að undanförnu hér á Íslandi hefur gert mig mjög dapran og skömmustufullann.

Með kveðju,

Heiðar Sigurðarson, 3.12.2010 kl. 22:15

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl Dagný - mér finnst voða notó að búa í miðborginni, er nú að leita mér að nýju húsnæði, en missi íbúðina mína í janúar, er í leiguhúsnæði sem nú er búið að selja.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 22:29

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Heiðar,

Takk fyrir þitt innlegg - ég er að fara að flytja hugleiðingar á tveimur stöðum í næstu viku og ætla einmitt að skoða þennan jólakvíða. Ég hef verið stödd þar - oftar en einu sinni, en þá vegna splundraðrar fjölskyldu. Væntingarnar eru svo miklar um að allt sé eins og áður.

Við hjálpum reyndar engum sem líður skort með því að vera sorgmædd sjálf þó vissulega sé hægt að sýna samhug.

Það er auðvitað erfiðast að hugsa til fjölskyldna með börn - sem kannski geta ekki veitt þeim það sem þau eru vön, en öll þurfum við að íhuga gildi og virði lífsins. Ég á eina reynslusögu varðandi samveru foreldra og barna og hvað þarf að kosta til.

Ég var Au Pair þegar ég var 17 ára og fór stundum með börnin út í skóg í picnic eins og ég sagði það. Elsta barnið, 5 ára, kallaði það pinkink. Í þessu pinkink setti ég vatn á flöskur og tók kannski með matarkexpakka.

Einu sinni ók öll stórfjölskyldan í dýrindis skemmtigarð - þar sem börnin fengu allt sem hugann girntist - og voru búin að úða í sig nammi. Allt í einu leit ég á þann 5 ára þar sem hann sat með skeifu og stóran ís sem lak niður eftir hendinni á honum. Ég spurði hann hvað væri að - þá sagði hann " þetta er ekkert gaman - það er miklu skemmtilegra i pinkink" .. þannig að gæði barna miðast svo sannarlega ekki við hið veraldlega - heldur góða samveru.

Kannski er þetta svolítið einföld saga - og svarar ekki spurningum þeirra sem eiga hreinlega ekki fyrir mat, en ég er bara að leggja áherslu á mikilvægi þess að gæði jólanna eru ekki mæld í peningum, heldur góðri samveru og byggist hreinlega á fólkinu.

Ég ráðlegg þér að hugsa frekar til allra sem vilja gera vel - heldur en til eiginhagsmunafólksins. Hugsa svo extra fallega til þeirra sem þú veist að eiga erfitt - því að eins og einhver sagði "áhyggjur eru bæn með öfugum formerkjum" og ekki viljum við senda okkar áhyggjur til neinna.

Þetta ráð hef ég nýtt mér varðandi mín börn, fjölskyldu alla og vini - þegar þau hafa átt erfitt, því ég væri buguð manneskja annars.

Óska þér (og þeim sem lesa) alls góðs og sendi flóðbylgjur vonar og ljóss út í heiminn ;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.12.2010 kl. 22:41

6 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Einu sinni ók öll stórfjölskyldan í dýrindis skemmtigarð - þar sem börnin fengu allt sem hugann girntist - og voru búin að úða í sig nammi. Allt í einu leit ég á þann 5 ára þar sem hann sat með skeifu og stóran ís sem lak niður eftir hendinni á honum. Ég spurði hann hvað væri að - þá sagði hann " þetta er ekkert gaman - það er miklu skemmtilegra i pinkink" .. þannig að gæði barna miðast svo sannarlega ekki við hið veraldlega - heldur góða samveru. "

Takk fyrir þetta, Jóhanna.

“We are shaped by our thoughts; we become what we think. When the mind is pure, joy follows like a shadow that never leaves.”

Hörður Þórðarson, 3.12.2010 kl. 22:51

7 Smámynd: Ragnheiður

Þú ert bara flottust Jóhanna mín og mér finnst þín sýn á lífið svo heil og hrein og notaleg :)

Ragnheiður , 4.12.2010 kl. 01:49

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að fá að fara með þér í heimsókn til mömmu þinnar.  En elskuleg mín, ég hef það mottó að klæða mig bara eins og mér líður best.  Enda eru ísfirðingar löngu hættir að spá í vaðstígvélin sem ég fer gjarnan í þegar úti er krap og vatnsagi. Þarna voru líka tvö falleg dæmi,  annað þegar þú brostir til gömlu konunnar sem hætti að gráta, og svo flautið mannsins sem gladdi þig.  Það þarf oft svo lítið til að gleðja aðra, bros eða hrós eru tvö dæmi sem kosta ekkert, en gefa svo mikið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.12.2010 kl. 13:35

9 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Sæl Jóhanna og takk fyrir góðan pistil.

Klæðaburður og klæðaburður, það er þetta sem kemur innanfrá sem skiptir máli og mér sýnist þú hafa nóg af því. Sorglegt með gömlu konuna. Ég vona að þetta sé ekki viðvarandi ástand. Einmannaleikinn getur verið svo skelfilegur þegar það gerist.

Bergljót Gunnarsdóttir, 5.12.2010 kl. 09:56

10 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Jólin og jólahelgin eru að mínu mati hugarástand og það er algerlega undir hverjum og einum komið hvernig hann upplifir þau.

Ég verð ekkja  rétt fyrir jólin þegar ég var 30 ára, en maðurinn minn fórst í flugslysi. Við áttum 3 börn og ég var eiginlega utan við tilveruna, vegna sorgar og kvíða og sá ekki hvernig ég gæti haldið jól..

En gott fólk streymdi að okkur, sumt þekkti ég sáralítið, annað mjög vel. Þetta dásamlega fólk kom með pakka, kökuhús, sleða og jafnvel reiðhjól frá Flugvirkjafélagi Íslands handa börnunum, því það hafði fréttst að pabbi þeirra hefði ætlað að koma með þau heim, sem jólagjöf.

Faðmlög, bros og uppörvunarorð þessa fólks urðu þess valdandi að jólin komu inn í sálina og hugarástandið gjörbreyttist.

Ástandið núna, þegar svona margir eiga um sárt að binda vegna fátæktar, sem skapar víða mikinn kvíða og sorg, því allir vilja gleðja börnin sín en eru etv. illa færir um að finna leiðir til þess. Væntumþykja sem er sýnd með því í að vera góður við börnin sín, segja þeim sögur, klæða þau í bestu fötin, hver sem þau eru, og reyna að skapa umhverfi friðar, ástar og vináttu getur gert jólin hjá litlu barni miklu ánægjulegri, heldur en hjá því sem situr í trylltum æsingi við að rífa utan af öllum pökkunum, með súkklaðikleprana lekandi niður andlitið, ef jafnvægið á heimilinu vantar, þetta jafnvægi sem felst í því að finna að fólki, þínum nánustu og jafnvel öðrum þykir vænt um þig.

Sá sem kann að gefa, þó ekki sé nema eitt lítið bros eða uppörvunarorð, fær það margfalt endurgoldið.  Það er ekkert "give and take" þar.  því það veitir frið í sálina sem gaf, jafnt og þá sem fékk, þannig að það skapast einhverskonar "give and get". 

Takk fyrir góðar óskir, gangi þér vel.

Bergljót Gunnarsdóttir, 5.12.2010 kl. 10:48

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þitt innlegg Hörður - sé þú ert á þessum hugrænu nótum sem er gott mál!

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 23:21

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ragga þú ert yndi! ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 23:22

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ásthildur mín, þú ert sko kona sem kemur til dyranna eins og hún er klædd. Ég hef reyndar gaman af því að ögra sjálfri mér, einmitt eins og að fara í ósamstæða liti og fleira, en er annars svolítil pjattrófa þegar kemur að klæðaburði, en læt það þó ekki hindra mig í að vera ég sjálf.

Knús til þín.

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 23:24

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Bergljót - já jólin eru hugarástand að miklu leyti. Við erum búin að búa til svo marga siði og hefðir og það verður oft erfitt þegar eitthvað verður til þess að breyta því. En eins og þú segir frá og þekkir best af eigin raun þá er fólkið í kringum okkur svo mikilvægt - englar í mannsmynd. Góð samvera er gulls ígildi og vinirnir ómetanlegir.

Þegar gefið er af heilum hug, þá gefur maður sjálfum sér í leiðinni ;-)

Takk fyrir gott innlegg.

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband