Færsluflokkur: Bloggar

Komið þið sæl

Góðan dag,

Merkilegt nokk, ég hef aðeins hvílt mig á netheimum sl. viku og í morgun var ég að íhuga hvernig og hvort ég skyldi halda áframm með blogg, því mér er farið að leiðast ískyggilega "óhefluð umræðumenning" eins og talað er um þarna í fyrirsögn. 

Ég ætla nú samt ekki að láta það hrekja mig frá,  en hef ákveðið að breyta mínum áherslum á þann veg að ég birti ekki nafnlausar athugasemdir óheflaðra aðila, og reyndar bara engar athugasemdir sem eru settar fram af ókurteisi. 

Það er alveg hægt að ræða saman, og vera ósammála án þess að fara í einhverjar skotgrafir og hvað þá að gefa leyniskyttum tækifæri á að ganga lausum og drita úr sínum hríðskotabyssum á allt og alla. 

Markmið með mínu bloggi er ekki að "skapa deilur"  heldur að finna lausnir, velta upp hlutum sem vissulega skapa umræðu,  leggja mitt til mála líðandi dags.   Lausnirnar finnum við vonandi í sameiningu og samvinnu en ekki með stríði og persónuárásum. 

Þetta gamla "sameinuð stöndum vér - sundruð föllum vér" mottó lifir ágætu lífi og verðugt að hafa í huga. 

Ég hef örugglega tekið þátt í því einhvern tímann að sundra, er ekki að setja mig hærra en aðra, en ætla að hafa þetta í huga og vonandi gera það allar manneskjur sem vilja láta gott af sér leiða.  En ÞETTA blogg er MITT rými og ég ætla að stjórna því.  Wizard

Sendi svo ljós og frið í hjörtun ykkar og óska öllum góðrar helgar. 

 


mbl.is Óhefluð umræðumenning Íslendinga í netheimum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri svo að vinna að þessum gildum frá þverskurði þjóðarinnar?

Ég afritaði textann frá mbl.is og litaði með rauðu það sem ég vildi leggja áherslu á, annars er ég sammála þessu öllu. Þarna stendur t.d. hvergi að einstaka kvótakóngar eigi að eiga sérstaka aðild að auðlindum þjóðarinnar - svo það er á hreinu að það er ekki ósk þjóðarinnar - svo leiðréttið þetta stjórnvöld!! .. 

Réttlæti, velferð, jöfnuður
Allir eigi rétt á vinnu, framfærslu, ókeypis menntun, heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, með einn lífeyrissjóð í landinu sem ekki skerði lífeyri sökum sparnaðar.

Friður & alþjóðastarf
Ísland stuðli að friði í heiminum og eigi gott alþjóðlegt samstarf þar sem mannréttindi, sjúkdómavarnir og fullveldi Íslands verði í heiðri höfð.

Lýðræði
Ísland er lýðræðisríki og eitt kjördæmi - þar sem er persónukjör. Stjórnarskráin sé endurskoðuð við breyttar aðstæður. Meirihlutakjörinn forseti hafi synjunarvald.

Náttúra Íslands, vernd, nýting
Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign sem ber að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að aðgengi almennings sé tryggt.

Valddreifing
Við viljum þrískiptingu valdsins, valdameiri forseta og varaforseta, aðskilja ríki og kirkju, sjálfstæða dómstóla, jafnan atkvæðisrétt og eitt kjördæmi.

Siðgæði
Alþingi hlíti niðurstöðu stjórnlagaþings, nýrrar siðanefndar fólksins og alþingismenn fái sömu eftirlaunakjör og almenningur, en að auki missi þeir rétt til endurkjörs brjóti þeir af sér.

Friður & alþjóðasamvinna
Sjálfstæð þjóð í herlausu landi sem stendur vörð um auðlindir sínar og er virk í alþjóðlegu samstarfi.

Mannréttindi
Stjórnarskrá tryggi að allir hafi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu, náms og lágmarksframfærslu óháð búsetu - Mannréttindi skuli ávallt vera hornsteinn lýðveldisins.

Valddreifing, ábyrgð & gegnsæi
Tryggja sjálfstæði dómstóla, forseti hafi neitunarvald, störf alþingis gegnsæ, þrískipting valdsins algjör, ráðherrar eigi ekki sæti á alþingi. Sérfræðiþekking nýtt í ákvörðunartöku fyrir opnum tjöldum.

Lýðræði
Stjórnarskráin tryggir: -Að valdið sé þjóðarinnar -Rétt almennings til áhrifa -Virkni og endurnýjun þings án flokkahagsmuna

Siðgæði
Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi með siðareglum þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins er haft að leiðarfrelsi.  (leiðarfrelsi??)

Land og þjóð
Ísland er sjálfstætt ríki þar sem býr samheldin þjóð með áherslu á manngildi, menningu og vernd þjóðarhagsmuna.

Réttlæti - Velferð - Jöfnuður
Tryggja skal öllum landsmönnum jafnrétti, réttlæti og mannsæmandi lífskjör. Áhersla skal lögð á menntun, velferð barna og jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu

Land og þjóð
Stjórnarskráin ávarpi þjóðina, mæli til um langtímastefnu - mörkun í þjóðmálum, tiltaki að auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar og að hún mismuni ekki trúarskoðunum landsmanna

Mannréttindi
Í stjórnarskrá Íslands skal vernda mannréttindi allra þegna óháð sérkennum einstaklinga. Áhersla skal lögð á réttindi minnihlutahópa, rétt allra til náms og einnig skal eignaréttur ætíð tryggður

Land og þjóð
Íslenska tungu eflum við, auðlindir verjum af mætti, kirkja og ríki með hvort sína hlið, kannski þjóðina sætti.

Réttlæti - Velferð - Jöfnuður
Að tryggja jafnrétti landsmanna með atvinnu, húsnæði, heilbrigðisþjónustu, menntun og velferð barna. Að landið verði eitt kjördæmi og að allir séu jafnir að lögum.

Náttúra Íslands, vernd og nýting
Náttúra Íslands og auðlindir hennar eru sameign þjóðarinnar og ber að vernda þær, jafna arði og aðgengi fyrir komandi kynslóðir.

EF að ekki er hlustað á þessi gildi hefur peningum verið kastað út um gluggann. 

 



mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað upphátt um að fylgja hjarta sínu ...

Þegar ég segi við einhverja manneskju, að hún eigi að fylgja hjarta sínu, þá á ég við að hún eigi í raun að fara eftir hvað hennar eigið innsæi eða tilfinningar segi henni. 

Stundum er það bara það fyrsta sem okkur dettur í hug. Um leið og við förum að ritskoða hjartað, hugsa "hvað skyldu nú aðrir segja" og fleira þá förum við oft að brengla það sem við sjálf höldum og reynist í flestum tilfellum það rétta fyrir okkur. 

Auðvitað er það ekki alltaf rétta leiðin, en ég held að í flestum tilfellum sé það hin rétta. 

Á móti þessu mætti segja að það þyrfti að vara sig að láta ekki tilfinningar hlaupa með sig í gönur. (Gönur eru einhvers konar villigötur eða öngstræti) 

Hvað um það,  stundum gerum við eitthvað rangt og dómgreindarlaust -  en kannski þurfum við bara að gera það til að læra af því og þroskast ....

p.s. eru tilfinningarnar í hjartanu eða í höfðinu? .. eða bæði ? .. Ég er ekki að tala um læknisfræðilega. 

 


Skoðanakönnun - Ertu sammála eða ósammála tillögum mannréttindaráðs varðandi breyttar áherslur í samskiptum kirkju og skóla?

Hver er afstaða þín, lesandi góður,  varðandi tillögur mannréttindaráðs - eru þær ráð eða óráð?

Gott er að lesa þessi viðmið áður en hakað er við í skoðanakönnun.  Þar kemur fram að samstarfið á að vera á forsendum skólanna, sem kannski hefur ekki verið svo vel upplýst um. 

Svo er þetta eini staðurinn sem ég fann bókun mannréttindaráðsins. 

Ef þú hefur eitthvað um þetta að segja, eða finnst skoðanakönnunin gölluð og eigi að breyta, láttu mig þá endilega vita - vil ekki vera ósanngjörn. 

Heart Love all, serve all 


Þetta eru gamlar fréttir ...

Ekki lifa í gegnum sjónvarpið .. hugleiðing

"Ég fann gamla "Viku" síðan 1980 og þar var grein um skaðsemi sjónvarps á börn. Hmm.. við erum nú búin að vita þetta lengi. Það sem mér fannst áhugaverðast við greinina var að þar var ekki verið að tala um innihald þess efnis sem verið var að sýna heldur um tímann. Tímann sem börnin nota í að horfa á sjónvarp. Ef þau væru ekki að horfa  (eða í tölvunum) hvað væru þau að gera?

Úti að leika - eflaust. Ég er af þeirri kynslóð sem var úti alltaf þegar færi gafst.  Kom heim úr skólanum og henti frá mér skólatöskunni og hljóp útá stétt. Þar fann maður yfirleitt leikfélaga og ef ekki þá var bara smalað úr næstu húsum. Saltað brauð, fallin spýta, stórfiskaleikur .. hvað sem  var leikið. Á veturna var leikið í snjónum - og verið á skautum á öllum þeim pollum sem fundust. Þetta er svaka nostalgía, en stundum óttast ég hvert við erum komin með börnin okkar. Tæknin hefur stolið leiknum þeirra. Þau horfa á aðra "leika" í sjónvarpi og eru mötuð."

Svona voru nú pælingar mínar árið 2006.  Þær eiga ennþá við,  tíminn er líklegast orðinn meiri fyrir framan tölvu en var árið 2006,  þekki það a.m.k. sjálf,  ver sjálf meiri tíma við tölvuna núna  en við sjónvarpið.  Í raun allt of miklum tíma. 

Hvað með þig?  


mbl.is Sjónvarp ógnar geðheilsu barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opin dagbók 7. október 2010 margt að hugsa um, einmanaleika og samkennd

Ég er í ótrúlegu stuði núna, svona "bjarga heiminum" stuði.  Maður þarf víst að bjarga (í þessari röð) sjálfum sér fyrst, svo fjölskyldunni, svo vinunum, svo borginni, svo landinu og loksins heiminum. 

Verður allt að gerast í réttri röð sko! ..

Var að pæla hvað allt atvinnulausa fólkið væri að gera - hvort það vildi ekki koma út í göngutúr eða eitthvað.  Það er svo gaman að labba og rabba.  Hægt að kryfja mörg vandamál á þann hátt, eða jafnvel finna lausnir! .. kannski ég formi grúppu - a.m.k. meðan ég er sjálf svona "unemployed" er alltaf að reyna að koma fólki saman, því að það er svo notó að hitta fólk í sömu aðstöðu sem kannski skilur okkur 100% eða amk 90% 

Það hellist yfir mig einmanaleiki við og við en yfirleitt i stuttan tíma (hjúkkit) .. og svo leggst einhvern veginn alltaf eitthvað til.  Dagskráin í dag er einhvern veginn á þessa leið:

  • VMST - fara með skattkort  (heppin að fá að upplifa þá reynslu að vera atvinnulaus og skilja þá líðan) 
  • Fara út með Simba
  • Sækja um vinnu (sótti um starf dagskrárfulltrúa borgarstjóra,  læt kannski tattóvera mig með merki borgarinnar fái ég djobbið,  er það ekki bara? Smile  (þetta er ekki djók)
  • Hádegisfundur með Dale Carnegie fólkinu í Perlunni (hljómar alltaf svo flott að fara í Perluna)
  • Heimsækja mömmu á Droplaugarstaði  (fimmtudagar eru mömmudagar)
  • Fara út með Simba
  • Litun og plokkun (ég er eins og smjörlíki í framan - er með hvít augnahár annars)
  • Hitta Elínu góðu vinkonu í kaffi a Café Paris
  • Fara út með Simba

Kvöldinu er óráðstafað, en það er hægt að hafa það kósý með sjálfri sér.  Langar svo að komast til barnabarnanna í Hornslet í október - sakni, sakn.. - get fengið miða á 19 þúsund vegna vildarpunkta,  en það kostar næstum jafn mikið að ferðast með lestinni milli Köben og Aarhus.

Mig dreymdi svakalegar skítahrúgur i nótt,  ég held það sé ekki fyrir peningum, bara áhrif af öllu þessu kúkastandi á Simba. LoL  .. 

Er enn að íhuga fjallræðuna mína,  en á alveg eftir að skrifa hana niður .. langar að fjalla um réttlætið.  Sigrar réttlætið alltaf að lokum?  Ef ekki þessu lífi þá næsta lífi?  Er til næsta líf? 

Er enn að lesa "Logar engilsins" sem er nokkurs konar frásaga mannveru sem er á milli lífa, hljómar einkennilega en hvað vitum við? 

Kannski sigrar réttlætið ef við stöndum með sjálfum okkur,  jafnvel þó að við líðum þá svíkjum við okkur ekki sjálf? ..  Um leið og við förum að standa með ranglæti höfum við tapað. 

Er að vísu að lesa nokkrar aðrar bækur líka,  þess vegna gengur hver bók frekar hægt. 

Mig langar svolítið til að Íslendingar Feng - Shui Ísland,  þ.e.a.s. allir sem vettlingi geta valdið fari út og taki til í svona 1 -  2 klukkutíma,  bara þar sem þeir eru staddir.  Ef þeir sjá rusl setja það í poka.  Um leið og búið er að tína saman svona mikið rusl,  líður okkur betur.  Þetta virkar á sálina,  svona eins og heimilið okkar.  Mér líður a.m.k. mun betur í hreinu og vel umgengnu heimili en þegar allt er á hvolfi. 

Þú ert yndisleg manneskja að nenna að lesa þetta dagbókarblaður mitt,  þakka þér fyrir og eigum góðan dag. Heart

 

 

p.s. ég hef verið spurð að þvi af tveimur ólíkum aðilum nýlega hvort ég vilji ekki bara stofna nýja kirkju (að sjálfsögðu gerði ég það ekki ein)  .... hægt er að sjá hvernig ég hugsa í slíkum málum t.d. ef smellt er á:  þetta blogg. 

 


Opin dagbók 5. október 2010

Kæra dagbók,

Þar sem ég fékk svo skemmtilegt verkefni í gær, í miðju atvinnuleysi, að leika aukahlutverk í Hlemma-Vídeó,  leyfði ég mér að sofa til 10:00 í morgun.  Ég kom s.s. ekki heim úr þessi "stönti" fyrr en um ellefuleytið í gærkvöldi.  Þá átti ég eftir að fara út með Simba,  en ég hafði fengið að strjúka af "settinu" til að fara út með hann um sexleytið.  Ég verð fegin þegar mamma hans kemur úr Ameríkunni og fer að sinna þessum klósettferðum og göngutúrum. Þó hann sé ágætur og veiti mér félagsskap er ég alveg til í  að fara að fá frí. 

Ég skrifaði undir eitthvað skjal um að ég mætti ekkert segja um hvað gerðist á tökustað, svo það fer ekki lengra.  Veit ekkert hvort ég kem til með að sjást í mynd eða ekki, þetta var a.m.k. gaman.  

Ég sleppti, af þessum orsökum Dale Carnegie námskeiðinu mínu í gær, en næ vonandi að bæta það upp með öðrum hópi. Las að vísu um árangursríka ræðumennsku í öllum pásum og lærði vonandi helling.  Mig langar að verða góð í ræðumennsku og geta haft áhrif á fólk -  til góðs að sjálfsögðu.

Ég er búin að skrifa mikið um Ólaf í Hraðbraut og hans stjórnsýslu en hef ekki birt einn staf af því.  Ég þarf þó að íhuga hvort það efni sem ég hef sett á blað sé þess virði að birta það. Það kraumar í mér réttlætiskenndin. 

Ég fæ kannski smá útrás fyrir réttlætiskenndina á sunnudag, en ég ætla að semja smá fjallræðu og flytja í Fríkirkjunni í Hafnarfirði á vegum Kvennakirkjunnar.  Hef gott af því.  Fríkirkjan í Hafnarfirði er ein uppáhaldskirkjan mín en þar hef ég aldrei flutt hugvekju eða prédikun. 

Við Simbi fórum að mótmæla niðrá Austurvelli áðan, en búið var að boða til mótmæla frá kl. 14:00 Við vorum svona næstum því ein ásamt rónunum,  fjórir trumbuslagarar höfðu þó hátt. 

Lotta systir hringdi og sýndi mér eitthvað fáránlegt bréf frá lögfræðingum sem töldu hana skaðabótaskylda vegna þess að eitthvað barn hafði verið að leika sér að því að hoppa í kringum sandkassann (árið 2008)  sem þau voru að setja upp í garðinum hjá sér - og handleggsbrotnað.  Bréfið var virkilega á þann hátt að hún væri bara sakamaður.  Ég þoli ekki svona vitleysu.  

Búin að versla inn í Bónus og ætla að elda kjúkling í kók fyrir Tobba og Ástu sem koma á eftir með Evu Rós -  og hlakka ég svo til að sjá þau. 

Það á að fara að selja ofan af mér íbúðina (sem ég leigi) og þarf að hafa allt fínt fyrir ljósmyndara sem kemur á morgun. 

Ég auglýsi hér með eftir  íbúð til leigu frá 1. jan 2011 (e.t.v. líka fyrir dóttur og hund) og  atvinnu fyrir eldklára og skemmtilega konu sem kann allt, getur allt og þorir öllu.  

Ég er s.s. atvinnu-íbúðar-og karlmannslaus kona en ég á víst leyndan aðdáanda,  þar sem ég fékk sms í morgun "ávallt í huga mér" -  en það er kannski bara Guð að láta vita af sér.  Wizard

Af hverju ekki? 

 


"Sakaður um samkynhneigð" ?

Væri þá biskup sem áreitti stelpur (án þess að nefna nokkurn sérstakan)  - sakaður um gagnkynhneigð?  Hvers konar fyrirsögn er þetta eiginlega? Shocking

Þetta kemur að vísu rétt fyrir í fréttinni "kærður fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn þremur mönnum" ... en það er hvorki hægt að saka menn um samkynhneigð né gagnkynhneigð - því að ekki veit ég til þess að þessar hneigðir séu saknæmar,  a.m.k. ekki á Íslandi,  er samkynhneigð bönnuð í Atlanta?  

 


mbl.is Biskup sem berst gegn samkynhneigð sakaður um samkynhneigð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er afstaða þín til stöðu núverandi biskups Þjóðkirkjunnar? - Skoðanakönnun.

Ég setti hér til vinstri upp skoðanakönnun,  í von um að taka einhvers konar þjóðarpúls á hvaða hug menn bera til stöðu Karls Sigurbjörnssonar sem biskups þjóðkirkjunnar. 

Þær skýra sig væntanlega sjálfar, en velkomið að spyrja ef eitthvað er óskýrt!

 Velkomið er að sjálfsögðu að leggja inn athugasemdir. 

 Ég ætla þó að leyfa mér að tína burt athugasemdir, sé velsæmis ekki gætt. 

Heart 


Fýlupúkar og fussumsveiarar

Yfir íslenskri þjóð hefur hangið þrumuský, allt frá því að Geir H. Haarde bað Guð um að blessa Ísland.  Margir eru i þungum róðri, margir hafa misst fótana fjárhagslega og misst atvinnu.  Andleg líðan er eftir því.  En auðvitað er fólk sem hefur það bara þokkalegt og sumir virðast ekki finna fyrir kreppunni.  Fjárhagsraunir hafa áhrif á líðan okkar,  og þar með talið á sambönd fólks.  Sumir eru illa efnahagslega staddir og/eða eru atvinnulausir en ná samt að halda gleðinni. 

Mitt í öllum þessum raunum er gott að geta hlegið og gott að geta brosað.  Jón Gnarr er þannig gerður að hann fær fólk til að brosa,  reyndar mig til að skellihlægja og í gær hlýnaði mér um hjartarætur við að sjá hann í þessu draggi - og með því einnig að styðja við Hinsegin daga. 

Það að Jón bregði á leik og fari á svið þýðir ekki að hann sinni ekki líka vinnunni á bak við tjöldin,  eða við skrifborðið sitt,  eins og sumir virðast halda. 

Pólitískur rétttrúnaður má ekki verða til þess að menn missi húmor.  Hvað ef að þetta hefði verið Bjarni Benediktsson?  Hefði Stefáni Friðrik þótt hann "hallærislegur" .. ?  

Þessi uppákoma hjá Jóni Gnarr er eins og sagt er á einhvers konar slangi "spot on" .. eða hittir algjörlega í mark og er bara mjög viðeigandi.  Maðurinn er ekki að taka sig of hátíðlega, eða með nefið upp í loftið og megum við mörg taka okkur það til fyrirmyndar.  Lífið á ekki að vera einhver dauðans táradalur og við ganga um hokin vegna þess að þrátt fyrir allt er svo margt gott að gerast og fólk verður að líta á björtu hliðar mannlífsins og taka þeim fagnandi. 

Það hafa allir sinn stjórnunarstíl, þetta er stíll Jóns Gnarr - við erum ekki að kalla á það að Steingrímur J. eða Jóhanna fari að hegða sér eins og Jón Gnarr,  þó vissulega mættu þau kannski vera aðeins glaðlegri! Smile

Legg því til að fussumsveiararnir taki gleði sína á ný - og taki þátt í hinsegin hátíðinni í Kardimommubæ!  Wizard


mbl.is Óvæntur gestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband