Opin dagbók 5. október 2010

Kæra dagbók,

Þar sem ég fékk svo skemmtilegt verkefni í gær, í miðju atvinnuleysi, að leika aukahlutverk í Hlemma-Vídeó,  leyfði ég mér að sofa til 10:00 í morgun.  Ég kom s.s. ekki heim úr þessi "stönti" fyrr en um ellefuleytið í gærkvöldi.  Þá átti ég eftir að fara út með Simba,  en ég hafði fengið að strjúka af "settinu" til að fara út með hann um sexleytið.  Ég verð fegin þegar mamma hans kemur úr Ameríkunni og fer að sinna þessum klósettferðum og göngutúrum. Þó hann sé ágætur og veiti mér félagsskap er ég alveg til í  að fara að fá frí. 

Ég skrifaði undir eitthvað skjal um að ég mætti ekkert segja um hvað gerðist á tökustað, svo það fer ekki lengra.  Veit ekkert hvort ég kem til með að sjást í mynd eða ekki, þetta var a.m.k. gaman.  

Ég sleppti, af þessum orsökum Dale Carnegie námskeiðinu mínu í gær, en næ vonandi að bæta það upp með öðrum hópi. Las að vísu um árangursríka ræðumennsku í öllum pásum og lærði vonandi helling.  Mig langar að verða góð í ræðumennsku og geta haft áhrif á fólk -  til góðs að sjálfsögðu.

Ég er búin að skrifa mikið um Ólaf í Hraðbraut og hans stjórnsýslu en hef ekki birt einn staf af því.  Ég þarf þó að íhuga hvort það efni sem ég hef sett á blað sé þess virði að birta það. Það kraumar í mér réttlætiskenndin. 

Ég fæ kannski smá útrás fyrir réttlætiskenndina á sunnudag, en ég ætla að semja smá fjallræðu og flytja í Fríkirkjunni í Hafnarfirði á vegum Kvennakirkjunnar.  Hef gott af því.  Fríkirkjan í Hafnarfirði er ein uppáhaldskirkjan mín en þar hef ég aldrei flutt hugvekju eða prédikun. 

Við Simbi fórum að mótmæla niðrá Austurvelli áðan, en búið var að boða til mótmæla frá kl. 14:00 Við vorum svona næstum því ein ásamt rónunum,  fjórir trumbuslagarar höfðu þó hátt. 

Lotta systir hringdi og sýndi mér eitthvað fáránlegt bréf frá lögfræðingum sem töldu hana skaðabótaskylda vegna þess að eitthvað barn hafði verið að leika sér að því að hoppa í kringum sandkassann (árið 2008)  sem þau voru að setja upp í garðinum hjá sér - og handleggsbrotnað.  Bréfið var virkilega á þann hátt að hún væri bara sakamaður.  Ég þoli ekki svona vitleysu.  

Búin að versla inn í Bónus og ætla að elda kjúkling í kók fyrir Tobba og Ástu sem koma á eftir með Evu Rós -  og hlakka ég svo til að sjá þau. 

Það á að fara að selja ofan af mér íbúðina (sem ég leigi) og þarf að hafa allt fínt fyrir ljósmyndara sem kemur á morgun. 

Ég auglýsi hér með eftir  íbúð til leigu frá 1. jan 2011 (e.t.v. líka fyrir dóttur og hund) og  atvinnu fyrir eldklára og skemmtilega konu sem kann allt, getur allt og þorir öllu.  

Ég er s.s. atvinnu-íbúðar-og karlmannslaus kona en ég á víst leyndan aðdáanda,  þar sem ég fékk sms í morgun "ávallt í huga mér" -  en það er kannski bara Guð að láta vita af sér.  Wizard

Af hverju ekki? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Fyndið - var að lesa beint eftir að ég fór af þessari síðu að það að segja sannleikann væri eins og að taka lýsi, það væri vont á bragðið en væri það hollasta fyrir mann. 

So true. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.10.2010 kl. 18:25

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Það er hollast fyrir mann að segja sannleikan, svo satt.

Yndislegt að vakna upp við svona sms og svo eru bara fullt af verkefnum til að leysa og lausnin á þeim koma bara er þau eiga að koma, kannski var guð að láta þig vita að hann væri að vinna í þessu fyrir þig.

Mundi vilja vera í Fríkirkjunni í Hafnafirði og hlusta á þig, en það verður að bíða betri tíma.

Knús í hús

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.10.2010 kl. 07:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband