Og gerist nú konan íþróttafréttaritari - en rennur blóðið til (fjöl)skyldunnar....

Mig langar að vekja athygli á honum "litla" frænda mínum og afrekum hans á íþróttasviðinu, en þessi frændi heitir Kári og er sonur Brynjólfs "litla" bróður míns og konu hans Þóru Ingvadóttur.  Báðir eru þeir vel yfir 190 cm á hæð og sonurinn meira að segja vaxinn föður sínum yfir höfuð,  svo að litli á að sjálfsögðu hér við að þeir eru yngri en ekki minni. 

Kári Brynjólfsson sem er fæddur 1988, fór snemma að hafa áhuga á hjólreiðum (vá hvað þetta er eitthvað "maður er nefndur-legt") og Binni bróðir var  á tímabili formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur svo áhugamálið var svo sannarlega innan fjölskyldunnar.  Það var reyndar svolítið skondið,  að við héldum að Binni myndi aldrei læra að hjóla, en þegar hann fékkst loksins upp á hjól fór hann ekki af því.  Hann hjólaði tímunum saman og varð svo veikur af harðsperrum.  LoL

En s.s. til að gera langa sögu stutta (og svo kann ég kannski ekki söguna best manna) þá býr fjölskyldan, Binni, Þóra, Kári og Ingvi núna í Kaupmannahöfn og Kári er að læra að verða einhvers konar hjóla "mekaniker" .. og er kominn í einhvers konar hjóla-elitu-lið.  

Árið 2010 kom hann til Íslands, sá (eða hjólaði) og sigraði, þ.e.a.s. hann varð Íslandsmeistari í fjallareiðhjólum 2010. 

Ég hef nokkrum sinnum orðið  vitni að því hve stíft Kári æfir, og nú síðast þegar hann kom í heimsókn til Íslands sl. páska m.a. til að chilla (að ég hélt)  en þá fékk hann lánað hjól og hjólaði amk  tvisvar fyrir Hvalfjörð fyrir utan allt annað,  í annað skiptið var það á Skírdag, en þá var ég að keyra Hvalfjörðinn og veðrið var þannig í Brynjudalnum að áin fussaðist upp úr farvegi sínum.  Binni bróðir var orðinn áhyggjufullur og bað mig að fylgjast með hvort ég yrði vör við Kára, en ég var á ferð með systursyni mínum og sagði ég við hann að líklegast þyrftum við frekar að leita utan vegar en innan, hann hlyti bara að hafa fokið út af veginum!   En Kári hafði komist klakklaust, en þó hraktur og blautur inn að skinni í bústað til fjölskyldunnar í Hvalfirði,  svo ekki lá hann utan vegar sem betur fer. 

En Kári uppsker nú sem fyrr,  fyrir elju sína og dugnað og í fyrradag náði hann frábærum árangi í keppni í Danmörku,  sem kallast H12  en það er hjólað í 12 klukkutíma og sá sigrar sem fer flesta hringi (vantar skýringu hvar) á þessum 12 tímum.  Sá sem sigraði fór 23 hringi - 18,19 km á klukkustund,    en Kári lenti í 5. sæti fór 22 hringi - 17.43 km á klukkustund.  Mér sýndust vera 72 skráðir til leiks í einstaklingskeppni karla.  (Þvílíkur íþróttafréttaritari W00t

Pabbi hans skrifaði á Facebook: 

"Kári Brynjólfsson tók þátt í 12 tíma hjólreiðakeppni í gær og náði frábærum árangri, 5. sæti í einstaklingsflokki en einnig er 4 manna liðakeppni. Kári byrjaði mjög vel og var fyrstu tímana í 3. sæti. Svo dróg af honum og hann datt niður í 6. sæti en náði glæsilegum lokahringjum og tryggði sér þar með 5. sætið í þessari erfiðu keppni."

Pabbinn er sem sagt ánægður með sinn dreng, væri auðvitað ánægður með hann hvort sem hann hjólaði eða ekki, en hamingjusamur yfir árangrinum á "hjólasviðinu" og frænkan er það sem sagt líka!

Óska Kára frænda hjartanlega til hamingju með að standa sig svona vel, og að sjálfsögðu að vera besta eintakið af sjálfum sér - gera SITT besta, en meira getur ekkert okkar gert. 

 

 kari.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Var að frétta það frá áreiðanlegum heimildum að keppnin hafi farið fram í:  Isterød, sem er u.þ.b. 20 km frá Kaupmannahöfn.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.5.2011 kl. 09:14

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. áreiðanlegar heimildir komu frá móðurinni: Þóru Ingvadóttur - en að sjálfsögðu á hún sín gen í þessum dreng, en hún æfði víst líka sund á Skaganum "í den" ...

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.5.2011 kl. 09:30

3 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Sæl Jóhanna - einhversstaðar heyrði ég hér áður fyrr af manni sem sagði skemmtilegar sögur og var sagður hafa skemmtilegan talanda - hvort það á við þig get ég ekki fullyrt, þar eð ég hefi ekki talað við þig - hitt er annað mál, að það er ljómandi gaman að lesa það sem þú skrifar, meira að segja um svona íþróttir og ég viðurkenni að þær eru ekki mitt uppáhalds lesefni eða áhugamál - semsagt miðað við það sem ég sagði hér í upphafi, finnst mér þú hafa skemmtilegan skrifanda....

Eyþór Örn Óskarsson, 8.5.2011 kl. 11:48

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér kærlega fyrir Eyþór, eitt af því skemmtilegast sem ég geri er einmitt að skrifa - og það er því gaman að fá hrós fyrir skrifin.  Þakka þér fyrir að gefa þér tíma til að lesa og þakkir fyrir að hafa fyrir því að hrósa. Við gleymum því allt of oft að láta vita þegar okkur finnst vel gert.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.5.2011 kl. 12:38

5 identicon

Takk fyrir þessa frétt kæra sys! Það var gaman að vera á hliðarlínunni og þjóna stráknum sínum þessa 12 tíma sem hann hjólaði. Oft á tíðum er það ansi stressandi, og vandasamt hlutverk að halda húmornum uppi hjá úrvinda og uppgefnum keppnismanninum. Það tókst í þetta skipti þót að róðurinn hafi verið erfiður um miðbik keppninnar. Hann lauk henni með glæsibrag og var hraðasti maðurinn í brautinni síðustu 2 hringina, þá af sólóistunum, liðakeppendurnir geta hvílt sig á milli og hjóla því hraðar, sérstaklega þegar líður á keppnina.

Þetta var svakalega skemmtileg upplifun og er einn af stærstu hjólreiðaviðburðum danmerkur í fjallahjólreiðum, vel yfir 1000 manns samankomnir til þess að svitna og brosa saman.

Eigum við ekki bara að stofna systkinalið fyrir næsta ár? Bjössi bró er liðtækur, man eftir "keppni" á Háaleitisbrautinni þar sem hann vann andstæðing á philips gírahjóli en hann var á gamla hjólinu hans pabba, gírlausu (eiginlega er það með einum gír og þarafleiðandi engum gírskipti : ) ) Það er keppt í mixi, þ.e karlar og konur í sama liði.

Kærar kveður heim

Binni litli bró

Brynjolfur Magnusson (IP-tala skráð) 9.5.2011 kl. 05:54

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Duglegur hann frændi þinn :)

Ásdís Sigurðardóttir, 9.5.2011 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband