‎"- Sorg indeholder glæden ved at have kendt til kærlighed."

 ‎"- Sorg indeholder glæden ved at have kendt til kærlighed."

Ég er áskrifandi af hópi á Facebook sem gengur undir heitinu "KÆRLIGHÆD" .. sem er auðvitað kærleikur eða ÁST. 

Danirnir minntu mig á það í morgun að til að sorgin inniheldur gleðina við að hafa þekkt ástina. Það er af sama meiði og það sem sr. Sigfinnur Þorleifsson, sjúkrahúsprestur kenndi í sálgæslukúrsi;  "Gleðin og sorgin eru systur" ...

Sorg vegna trúnaðarbests er flókin sorg, því hún innifelur fleiri tegundir tilfinninga; vantraust, höfnun, doða, reiði, depurð, vonbrigði og s.frv. 

Það er okkur eðlislægt að byggja upp varnir eftir að hafa gengið í gegnum slíka sorg. Við setjum upp varnarveggi bak og fyrir því við ætlum sko ekki að lenda í þessu aftur! .. 

Sumir upplifa þennan trúnaðarbrest við dauðsfall, trúnaðarbrest Guðs, trúnaðarbrest lífsins, samfélagsins,  eða hreinlega trúnaðarbrest þess sem dó.  Jafnvel trúnaðarbrest kærleikans eða ástarinnar. 

Við eigum erfitt með að treysta og það sem verra er; erfitt með að hleypa að tilfinningunni: ÁST. 

Sá eini eða sú eina sem getur læknað brotið hjarta ert þú sjálf/ur.  Þú getur horft til annarra sem fyrirmynda, hlustað á aðra, lært af öðrum,  en þú verður að dansa sjálf/ur. Að ætlast til að aðrir komi inn í líf þitt og lækni hjartað er eins og að dansa sem tuskubrúða á tám annarra. 

Trúnaðarbrestur er gífurlega alvarlegur fyrir þau sem hann upplifa. 

Eina leiðin til að byggja upp hjarta þitt að nýju er að þiggja gjöf fyrirgefningarinnar;  fyrirgefa höfnunina, fyrirgefa trúnaðarbrestinn. 

Ef þú treystir þér ekki til þess að þiggja, að biðja Guð um milligöngu,  því það sem er mikilvægast er að þú fáir hjarta þitt heilt að nýju, til að þú getir fellt múrana, stein fyrir stein, dag fyrir dag,   til að hleypa ástinni og gleðinni að þér að nýju.  Þannig verður upprisa þín.

Sorgin er ferli, ekki aðeins sorgarferli heldur þroskaferli.  Þú endurfæðist með þroskaðri þig, með vitrari og dýpri þig, með þig sem getur lifað af heilu hjarta og ert tilbúin/n til að opna faðminn og taka því sem koma vill. Ekki loka á möguleika þína að taka á móti gleðinni,  ástinni .... taka á móti lífinu og/eða taka á móti Guði ......... ekki loka á möguleikann að taka á móti ÞÉR. 

Það er fleira sem berst mér á Facebook, en skilaboð frá grúppunni; "KÆRLIGHED" ..

Verð að koma að þessari dásamlegu mynd af eldri dótturdótturinni sem á einmitt heima í Danmörku að fóta sig á bleikum plastikskó!  Heart ... þessi mynd er líka KÆRLIGHED .. 

20110607195329_4.jpg

 


Hvernig líður þér?

Þegar verið var að setja af stað kennslukönnun fyrir nemendur, einu sinni sem oftar, stakk ég upp á viðbótarspurningunni "hvernig líður þér í skólanum"..

Spurningin er gild hvar og hvenær sem er, og ekki síður mikilvæg en niðurstaða einkunna, upphæð á launaseðli, eða það sem við metum kannski oftar. 

Það er holl spurning að spyrja sig; hvernig líður mér?  Það er hluti af sjálfsþekkingunni, sem er grundvöllur fyrir því að lifa þokkalega hamingjusamlegu og meðvituðu lífi.  Lífi þar sem við erum viðstödd en ekki fjarlæg. Lífi þar sem við njótum augnabliksins, en erum ekki stödd í fortíð, framtíð - einhvers staðar langt í burtu. 

Margir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir líðan sinni og því þykir góð hugmynd að skrifa tilfinningadagbók,  það þarf ekki að vera mikið, aðeins nokkur orð á morgnana og nokkur á kvöldin.  Jafnvel bara eitt orð.  Svo finnst sumum betra að teikna líðan sína. 

Það má kannski nota svona tilfinningakalla; 

SmileFrownCrying

Glöð/glaður, leið/ur, kvíiðin/n, hamingjusöm/samur, reið/ur, prirruð/aður ... 

Ástæðan fyrir því að mörgum finnst erfitt að gera sér grein fyrir tilfinningum sínum er stundum sú að þeir hafa bælt þær inni,  jafnvel allt frá æsku.  

Ég gekk nýlega fram hjá föður og ungrar dóttur,  dóttirin var grátandi og hann sagði "Þetta var ekkert svona vont" .. skilaboðin voru til barnsins; "ég veit betur hvernig þér líður" ..  Hér er ekki um að ræða vondan pabba, og alls ekki.  Þetta var sagt í góðri meiningu, - en hugleiðum hvort að svona viðbrögð geta haft varanleg áhrif. 

"Hættu að gráta" .. hver hefur ekki fengið að heyra þetta í bernsku?  Eða kannski var hlegið að áhyggjum barnsins?  Þær ekki teknar alvarlega?  Hvað fengu strákarnir að heyra? "Vertu ekki að grenja eins og stelpa"? ..  Það var þó aðeins meiri sveigjanleiki fyrir stelpurnar - og augljóslega frekar samþykki fyrir því.  Grátur er tjáningarmáti. Í upphafi einn sterkasti tjáningarmáti barnsins,  svo fara orðin að koma, en barnið er ekkert endilega búið að læra að koma tilfinningum sínum í farveg orða og því grætur það.  Það er þá sem er svo mikilvægt að við sem fullorðin hjálpum barninu að yrða tilfinninguna í staðinn fyrir að slökkva á henni eða hreint út sagt banna hana. 

10003632-crop.jpg

Kannski erum við ófær, vegna eigin bernsku? 

 

 

 

 

 

Hvað ef að við sem fullorðnar manneskjur lýstum áhyggjum okkar og einhver gerði grín að þeim?  Hvaða tilfinning poppar upp við það? 

Börn eiga nefnilega rétt á sínum tilfinningum, og það verður að virða þær og ræða. Ef að barn háorgar út af litlu sári, getur vel verið að þar á bak við séu önnur sár.  Sjálf eigum við það til að fá útrás yfir bíómyndum, fallegu lagi, jafnvel í jarðarför hjá fólki sem er okkur lítið tengt, - þá spretta upp okkar eigin sár og sorgir yfir einhverju eða einhverjum sem við söknum. 

Við þurfum að hugsa okkur tvisvar um þegar við stöðvum tilfinningaflæði barna,  spyrja þau reglulega hvernig þeim líður, leyfa þeim að gráta hjá okkur, og hugga þau með því að tala við þau og vera til staðar, veita þeim athygli.  Athygli er í þessu lykilorð eins og í öllum samskiptum. 

Ef að barn fær ekki jákvæða athygli leitar það eftir neikvæðri athygli,  og við þekkjum flest hvað það getur verið erfitt að eiga við.  Börn eiga rétt á útskýringum, ef við höfum ekki tíma til að sinna þeim þá að útskýra hvers vegna og hvað við erum að gera.  Þau eru yfirleitt skynsöm. 

Þegar ég segi frá þessu, þá er ég að tala út frá reynslu minni sem barns og sem uppalanda, en ég gerði auðvitað mistök eins og við mörg höfum gert.  Við lærum af mistökunum og þess vegna miðla ég þeim áfram. 

Íslendingar hafa oft verið taldir tilfinningalega lokaðir, og nú nýlega var tekið viðtal við konur af erlendu bergi brotnar og vandræði þeirra með að nálgast Íslendinga.  Þær töluðu um að Íslendingar horfðust ekki í augu við þær fyrr en í glasi. 

Hvað segir það okkur?  

Þó að við höfum e.t.v. verið alin upp á þann máta að ekki var á okkur hlustað, tilfinningar ekki virtar, eða hlutirnir ekki útskýrðir  - þó að við sem höfum nú þegar alið upp okkar börn höfum fallið í þann pakkann líka, þá hefur unga kynslóðin tækifæri til að vera opnari, hlusta á börnin - og við sem erum ömmur og afar, frænkur og frændur, vinir og vinkonur,  getum lagt okkar af mörkum. 

Tilfinning er orð sem er byggt á tveimur samsettum orðum Til og finn -  Það snýst um að finna til í sjálfum sér,  hvort sem það er að finna til gleði eða sorgar, en bæði sprettur frá sama kjarna.  Þess vegna er mikilvægt að þekkja sig, til að þekkja tilfinningar sínar.  Það er þess vegna sem við oft þurfum að grafa pinkulítið í okkur, stundum mikið, fella þá tilfinningamúra sem við e.t.v. höfum hlaðið utan um okkur,  læra af fortíð þó við ætlum svo sannarlega ekki að dvelja í fortíð - heldur upplifa núna.   

En svona í lokin; hvernig líður þér?  ... 

 happy-sad.jpg

 

 

 

 

 

 

"Að elska og finna til" .. syngur Magni sem trúir á betra líf .. 


Minn kæri eiginmaður ..

Elsku vinur, elskhugi og ástin mín, 

Mig langar að skrifa þér bréf svo þú þekkir vonir mínar og væntingar til þín, svo það komi þér ekki á óvart. Við konur erum svolítið þekktar fyrir að ætlast til að mennirnir okkar  skilji hvað okkur langar, en hvernig eigið þið að geta það, ekki eruð þið konur! 

Mig langar að biðja þig um eftirfarandi, og ég lofa að koma til móts við þig á sama hátt í einu og öllu;

  • Færðu mér gjafir við og við, - ég veit þú lætur ekki blómasalana segja þér að gefa mér blóm á konudaginn, en ekki gleyma því sem þú sagðir þá; "Ég gef bara konunni minn blóm þegar mér sýnist".. og hvenær kemur þá þetta "mér sýnist?"  Gjafirnar þurfa ekki að vera dýrar, aðeins gefnar af einlægni.
  • Bjóddu mér á "deit" við og við. Við þurfum ekki að hætta að eiga okkar rómantísku "rendez-vous" þó við séum farin að búa saman.
  • Komdu mér á óvart, með hlutum, uppákomum eða ferðum.
  • Komdu við í vinnunni hjá mér með eina rós, eða einn koss.
  • Nuddaðu á mér bakið og notaðu góðu ilmolíuna
  • Sestu niður með mér og setjum niður framtíðarsýn
  • Horfðu á grínmynd með mér og hlæjum saman
  • Lestu upphátt fyrir mig á kvöldin uppí rúmi
  • haltu partý með mér fyrir vini okkar
  • bjóddu mér í gönguferð
  • eldaðu fyrir mig góðan mat 
  • borðum saman við kertaljós
  • tjáðu mér ást þína og þakklæti í orðum
  • láttu renna í bað fyrir mig og kveiktu á reykelsi
  • Segðu mér frá líðan þinni, vonum og væntingum 
  • berðu virðingu fyrir sjálfum þér og talaðu fallega um þig
  • gráttu hjá mér
  • hlæðu með mér 
  • treystu mér
  • vertu mér trúr 
  • elskaðu mig
  • elskumst
  • veittu mér athygli ..

Það skal í restina tekið fram að ég á ekki eiginmann (í augnablikinu) , en ég skrifa þetta fyrir okkur öll sem ráð til að gefa okkur meira að maka okkar,  fara ekki í þann gír að taka honum/henni sem sjálfsögðum "hlut" í lífi okkar sem ekki þarf að vökva, næra og rækta

..Samband er eins og jurt sem þarf að hlúa að til að það blómstri,  það þarf ekki að taka allan listann, en kannski að hafa þetta í huga...  hvað af þessu er ÞÉR mikilvægt, og að hafa í huga setninguna um að gera fyrir aðra það sem þú vilt að þeir geri fyrir þig, það er lykilsetning í öllum samskiptum hvort sem um hjónaband er að ræða eða mannleg samskipti almennt .. 

Þú mátt alveg bæta við einhverju í athugasemdir, sem þú tekur gott ráð til að viðhalda kærleika og vináttu í sambandi ;-) 


BROS ...

"Wrinkles should merely indicate where smiles have been." ~Mark Twain

old-woman.jpg

Bros er aðlaðandi

Bros breytir geðinu

Bros er smitandi

Bros brýtur niður áhyggjur

Bros styrkir ónæmiskerfið

Bros heldur burt flensu og kvefi

Bros lækkar blóðþrýstinginn

Bros losar um endorfín, náttúruleg verkjalyf og serótónin

Bros er besta dópið

Bros er ókeypis andlitslyfting Wizard

 

 (safnað saman hér og þar af netinu) 

 


"Without your body you are a no-body" .....

Umræðan um líkamann fer oft út í það að tala um útlit hans frá fagurfræðilegu sjónarhorni.  Þar eru sett ákveðin viðmið, - viðmið sem tískumógúlar og fjölmiðlar ákvarða og eru breytileg frá einum tíma til annars. 

Tískan  hefur verið mun óvægari við konur í gegnum tíðina, enda konur oftar tengdari við holdið og karlar andann. Sbr. Faðir á himnum og Móður jörð. 

Konur reiða sjálfsmynd sína frekar á útlitið en karlmenn, - og eru það að sjálfsögðu utanaðkomandi áhrif sem við tileinkum okkur. 

 

Háhæluðu skórnir með mjóu tánni eru t.d. eitt dæmi um það.  Ég sé karlmenn (svona karlmenn/karlmenn) ekki alveg í anda fara að ganga í svona óþægilegum skóm. Að vísu láta þeir sig hafa það að ganga með bindi, sem mörgum þeirra þykir býsna óþægilegur klæðnaður, en örugglega hátíð miðað við margan kvenskóinn.  Margar konur ganga í svona skóm af fúsum og frjálsum vilja, - vegna þess að umhverfið segir að það sé fallegt, jafnvel þó þær kveljist og pínist og minnir þessi siður óþægilega á fótabindingar þær sem tíðkuðust í Kína. 

 

oxford.jpg

 

 

 

 

 

 

 

rup006_l.jpg

En því miður eru þessi "fegurðar"  viðmið ekki alltaf í tengslum við það sem er best fyrir líkamann, eða honum hollast. Stundum er tískan beinlínis skaðleg fyrir líkamann. 

Hver einasta manneskja sem fæðist fær úthlutað einum líkama. Líkama sem þarf að endast í að meðaltali um 80-90 ár.  Eitt farartæki sem flytur okkur í gegnum lífið.  Við getum jafnvel hugsað um líkama okkar sem bílana okkar, þó sú líking nái aldrei að vera fullkomin, t.d. vegna þess að líkaminn hefur þann möguleika á að endurnýja sig að vissu marki. 

Við fæðumst misjafnlega hraust og sum fæðast með ýmis frávik, - og þar grípur læknisfræðin inn í og/eða hjálpartækjum er beitt.  Sumir lenda í slysum eða veikindum á lífsleiðinni sem verða til þess að farartækið virkar ekki eins og skyldi, og þá takmarkast ferð þeirra um lífið af því. Líkaminn er þó nauðsynlegur því að án líkamsstarfssemi virkum við ekki. 

"Withouth your body you are a no-body"   Að vera nobody er því að vera án líkama, en ekki að vera án vinnu, óþekktur, fátækur o.s.frv. ....  Á meðan að líkaminn fúnkerar til að halda okkur á lífi erum við some-body! 

En hér skal rætt um okkar ábyrgð og mikilvægi til að viðhalda þessu farartæki - þessu "boddíi,, fara vel með bílinn okkar, hvort sem hann er Volvo eða Benz,  eða kannski Citroen? .. 

toyota_yaris_sr.jpg

 Það vill þannig til að þegar við viðhöldum heilsu, þá vill útlitið fylgja í kjölfarið. 

Það er mikilvægt að við smyrjum vélina, fylgjumst vel með öllum mælum, notum rétt og gott benzín eða olíu,  setjum vatn á rúðupissið, skiptum um kerti o.s.frv. 

Það er líka gott að hreinsa bílinn að innan og utan. 

Við vitum alveg hvernig fer með bíla sem illa er hugsað um.  Ef við förum ekki í olíuskipti, eða gleymum að fylla á nauðsynlega vökva er hætta á að við bræðum úr vélinni.  

-----

Við þurfum að virða líkama okkar, fara vel með hann, strjúka honum og bóna svo hann endist okkur ævina á enda. Auðvitað stjórnum við ekki öllu hvað hann varðar, en viðhaldið skiptir býsna miklu máli og er á okkar ábyrgð.  

Það er staðreynd að sumir fara betur með bílana sína en líkama sinn! .. 

Hugsum aðeins um þetta, lítum inn á við og pælum í hvernig við förum með okkar líkama, og þá um leið heilsu andlega og líkamlega því allt er þetta samtengt. 

Það er aldrei nógu oft tuggið í okkur að hreyfing er eitt besta vitamín fyrir líkama og sál, og grundvallaratriði að margra mati, sem hafa gengið í gegnum þunglyndi eða aðra óvægna sjúkdóma. 

Hreyfing er besta forvörnin.  

 

807_40_1644-rusty-old-car_web.jpg

 

 Í hvaða ástandi er þitt "farartæki"? - er eitthvað sem þú gætir gert til að hugsa betur um það? 

 

 

 

 

 

 Fátt er fegurra en vel með farin antik bifreið! 

 classic-car-news-car.jpg


Upp úr sófanum á uppstigningardegi - síðasta útkall ;-)

Góðan dag,

Ég hef nú stofnað hópinn "Eftirlegukindur" .. en hugmyndin er auðvitað sú að kalla út þá gönguhrólfa sem hafa aðallega stundað göngu heima í sófa. Langar að fara að hreyfa sig meira en vantar bara herslumuninn.   Auðvitað eru allir velkomnir að ganga með, hvort sem þeir eru sprækir eða ekki. Nóg pláss og við gleðjumst yfir góðri samveru og útivist. Þetta er svona "ganga án aðgreiningar" - ;-)

Af einhverjum ástæðum hefur það orðið mitt hlutverk í lífinu að "smala" þeim sem ganga síðastir.  Þannig var það þegar ég var aðstoðarskólastjóri, - þó að sjálfsögðu gerði ég mitt besta til að innblása þeim duglegu í brjóst.  Það skemmtilega er að oft verða hinir síðustu fyrstir, með breyttu viðhorfi og dugnaði.  Hér má sjá: Göngur með nemendum.  Þetta var auðvitað ekki í verksviði aðstoðarskólastjóra og ekki greitt fyrir sérstaklega, og ekkier ég að hvetja til göngunnar í dag til að fá greiðslu. 

Ég er að gera þetta fyrir mig! Smile .. Því ég hef þörf fyrir að hreyfa mig og þörf fyrir að gefa af mér. Vona að þú nýtir þetta tækifæri til að koma með - gangan er það létt að börn geta gengið með, ca. frá 8 ára aldri, eða eftir hvað þau eru vön. 

Plan: 

Mæting kl. 14:00 við vörðu sem á stendur Reykjanesfólkvangur 

Ekið frá Vífilstaðavegi inn á veg 410 (til hægri) sé komið Garðabæjarmegin.  Beygt til vinstri upp Heiðmerkurveg 408 og ekið í ca. 5 mínútur - eða þar til malbik endar,  þá er smá spölur og varðan birtist hægra megin við veginn.  Hægt er að leggja bílum á litlu stæði vinstra megin við veginn, eða við kantinn 

Hafið samband við mig í síma 895-6119 eða johanna.magnusdottir@gmail.com  

Á facebook er kominn hópur sem þið getið líka tengst, þó þið komið ekki endilega í þessa göngu þá kannski næstu,  sem verður rölt í kringum tjörnina í Reykjavík og e.t.v. kaffihús á eftir. 

Hér er tengill á Facebook   - vonandi virkar hann.

Langar svo í leiðinni að auglýsa helgarnámskeið á vegum Lausnarinnar, námskeið um meðvirkni og til að gera sér grein fyrir hvað meðvirkni er. Við erum öll að minna og meira leyti meðvirk, og því er svo mikið frelsi að læra hvað er meðvirkni og hvað er bara að vera góð/ur.  Stundum höldum við að við séum að gera gott en erum í raun að ala á vondri hegðun. 

En - bottom læn - endilega láttu sjá þig í göngu,  "YOU ARE WANTED" ..  

HREYFING ER GÓÐ FYRIR HEILSUNA, SÁL OG LÍKAMA SEM FÉLAGSLEGA HEILSU.

það þarf ekkert að melda sig,  þrír hafa gert það nú þegar og ég fer ein ef enginn kemur. 

Verð í góðum félagsskap, hvernig sem á það er litið. 

Wizard

 


Mest lesið á mbl.is 1. júní kl. 21:05

  1. Er hún komin með fyllingu í varirnar?
  2. Þessi kjóll er ekki flottur á öllum
  3. Uppstrílaðar stúlkur í Þórsmörkinni
  4. Ásta hefur lést 4 kíló           


1. Nicole Kidman með sjálfstraustið innsprautað í varirnar 

2. Kate Middleton dásömuð fyrir að vera í kjóllufsu sem hangir utan á henni allt of horaðri 

3. Þessi er nú saklaus, verið að taka upp myndband - 

4. Ásta borðar  NOW duft - í stað þess að lesa Power of NOW (eftir Eckhart Tolle)  þar sem hún myndi læra að sættast við sig hér og nú (ekki þegar hún er orðin grennri), -  svona kúrar virka, ég veit það - en ég veit líka að um leið og NOW duftið þrýtur eða kúrnum er hætt er hætta á að hún bæti á sig því sem NOW duftið át af og algengast er að það bæti um betur :-/  .. þess meiri verða vonbrigðin.

Tala af reynslu, það er ekki langt síðan ég var í þessu stríði. 

Nicole Kidman, Kate Middleton og Ásta verða að læra að meta sig og virða, sætta sig við líkama sinn og elska. 

Að svelta sig, borða megrunarduft eða sprauta í sig bótóx -  gerir engan hamingjusaman.

Hamingjan kemur innan frá, þegar þú finnur fyrir elskunni til sjáfrar þín/sjálfs þín þá þarftu ekki að breyta þér. Losaðu þig við skömmina, sektarkenndina og gerðu þér grein fyrir að fullkomleiki þinn felst ekki í að sníða af þér, svelta þig eða bæta í varir þínar.

Þegar þú gerir þér grein fyrir því að líkaminn er vinur þinn en ekki óvinur, þá ferðu að virða hann, þú gefur honum hollt að borða vegna þess að það er heilsuspillandi að vera allt of þung og það er heilsuspillandi að vera of létt -  en ekki bara vegna þess að eitthvað eða einhver útí bæ segir þér að þú sért ekki elsku verð eða falleg nema þú grennir þig.  Þetta snýst um að sættast við sjálfa sig og svo kemur allt hitt.

- Sjálfstraust er sexy og sjálfstraustið er ekta þegar það kemur frá innsta kjarna þínum en ekki að utan. -  Það er ekki að ástæðulausu að talað er um útgeislun, en ekki inngeislun. 

Vertu þú sjálf - komdu fram við ÞIG af þeirri virðingu sem þú átt skilið, og þú átt allt gott skilið, - ekki láta segja þér annað. 

Bonnie Ware, hjúkrunarfræðingur sem vann við að hjúkra dauðvona fólki sagði að það algengasta sem fólk sæi eftir á dánarbeði:  

"I wish I'd had the courage to live a life true to myself, not the life others expected of me."

 

 thin-perfect-body-de.jpg


Frelsið til að velja milli góðs og ills, - er okkur treystandi til að velja en láta ekki velja okkur?

Fyrir mörgum árum skrifaði ég grein sem hét "Setjum sígarettuna í sóttkví" og byggðist hún á sömu hugmyndafræði og nú er í gangi hjá þessum níu þingmönnum sem standa að frumvarpinu um tóbakið í apótek o.fl. í þeim dúr. Ég tel mig hafa lært ýmislegt síðan, og gert mér ljóst að þessi aðferð að að banna virkar þveröfugt á landann.

Í þessu samhengi kemur upp dæmisagan um sólina og vindinn sem voru að metast um hvert þeirra væri máttugra.  Vindurinn var borubrattur og stakk upp á því við sólina að þau veðjuðu hvort þeirra gæti verið sneggra að ná skikkju utan af manni sem þau sáu þarna á gangi. 

 

Vindurinn fór að blása, - hamoral-stories-for-children2-300x164.jpgnn blés og blés, en eftir því sem hann blés meira vafði maðurinn skikkjunni fastar utan um sig, vindurinn gafst því upp.   Sólin tók þá við og skein glatt á manninn, hún skein svo heit að hann tók þá ákvörðun að honum liði betur án skikkjunnar og fór úr henni. 

Það má kannski segja að þessi "samningatækni" sé það sem kallað er "win-win" situation. Sólin fær það sem hún vill og maðurinn fær það sem hann vill. - 

Þetta er býsna einfalt dæmi,  en mér finnst það alveg geta skýrt muninn þó dæmisögur gangi aldrei alveg upp. 

Ég er ein af þeim sem hef lengi verið á móti reykingum,  og sérstaklega finnst mér sorglegt að sjá unga fólkið hefja sinn "reykingarferil" en eins og áður sagði duga ekki svona boð og bönn, hvorki gagnvart reykingum né annarri fíkn.  Það segir sagan okkur og þá fara undirheimarnir í gang og svarti markaðurinn.  Með því aukast einnig ofbeldisglæpir. 

En hvað skal þá til bragðs taka? 

Jú, á sama hátt og fólki er "sagt" að byrja að reykja, verður að "segja" því að hætta.  Með góðu en ekki með illu.  Með dulbúnum áróðri. Fólk lætur segja sér að byrja,  jafnvel þó að það viti af óhollustunni,  og þá verður bara að nota sömu kænskuna til að fá fólk til að hætta.  Það verður bara að halda áfram að beita forvörnum, nota hluti sem virka.

Með því að lyfta hulunni af tóbaksiðnaðinum, hverja við erum að fita með því að reykja, hverjir hagnast á því að fólk sogar að sér eiturefni.  Þetta er billjóna-business. Hver vill í raun fita þann gullkálf?  Við ættum að fá tannlækninn til að  lýsa manni með ónýtar tennur eftir reykingar, sjúkraþjálfann konu á besta aldri sem er komin í hjólastól, með lungnaþembu og lítur út fyrir að vera tuttugu árum eldri,  eða hjúkrunafræðing sem lýsir reynslunni af fólki með súrefniskúta á Reykjalundi.  Ef svona samræður yrðu teknar upp og settar á Youtube,  myndu eflaust einhverjir hugsa sig tvisvar um.  Þó er slíkur áróður ekki alltaf að virka, það er helst ef talað er um útlit, lykt og getuleysi sem það hefur áhrif.  

Svo verður það að játast, - að þrátt fyrir skaðsemi reykinga, þá eru einhverjir kostir við það - sem snúa að félagslegri heilsu.  Það kom bersýnilega fram í myndinni "Englar alheimsins og margir þekkja það að mjög margir sem veikjast af geðsjúkdómum leita fróunar í tóbaksreyknum" ..  Menn hittast í tóbakspásum - til að rabba saman. 

Þetta er eflaust svipað og þegar sá sem tekst ekki á við tilfinningar sínar, eða er ekki fær til þess  úðar í sig snakki eða súkkulaði þrátt fyrir offitu.  

Bottom line;  Við þurfum að tala meira saman, gera meira skapandi og skemmtilegt, fylla upp í tómarúmið - eða bæta úr "sogþörfinni"  með öðru en tóbaki, áfengi, óhollum mat o.s.frv.  Kannski er sígarettan bara snuð hins fullorðna?   Við höfum misjafna þörf fyrir það - sum alveg háð því. 

Það er STÓRA verkefnið okkar að venja okkur af þessu snuði, - nú eða finna okkur eitthvað sem ekki skaðar heilsu okkar.  Tómstundir, félagsskap o.s.frv.

Lausnin er EKKI að setja allt hið "vonda" í efstu hillurnar svo að fólk nái ekki í það, - því að jú, það mun ná í það einhvern veginn og finnast það jafnvel meira spennandi svona í fjarska og forboðið. 

Það þarf ekki sálfræðing til að finna það út. 

Við verðum í raun að geta umgengist það,  vegna þess að við þurfum að taka ákvörðun um hvað við viljum.  Við látum það heldur ekki velja okkur. 

Við erum fædd með þennan dásamlega frjálsa vilja, vilja til að velja milli góðs og ills, - og þá er bara að þekkja hvað er gott og hvað er illt.  

Þekkja muninn á löngun og vilja og þekkja þá sinn raunverulega vilja. 


mbl.is Tóbak verði bara selt í apótekum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar fyrirgefningin verður okkur um megn er gott að setja Guð inn í jöfnuna ..

Mikið hefur verð spáð og spekúlerað í fyrirgefningunni undanfarið.  Hvað fyrirgefningin tákni, hvort henni sé beint að öðrum eða sjálfum sér.  Rætt er um þessa stóru gjöf.

Vissulega gjöf fyrir þann sem fyrirgefur, en líka er gott þegar okkur er fyrirgefið af öðrum. Sérlega þegar það er gert af einlægni.

Reyndar er það svo að fæstir vilja þiggja fyrirgefningu nema hún sé gefin af heilum hug.

Hvað sagði Jesús á krossinum "Faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra" .

Við getum kannski snúið þessu upp á öll ofbeldis - og níðingsverk?  

Af hverju sagði Jesús ekki bara "Ég fyrirgef ykkur því að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera" ..  

Kannski vegna þess að hann í hlutverki manns, með mannlegar tilfinningar, manns af holdi og blóði?  Kannski vegna þess að fyrirgefningin var honum um megn.  

Þegar að við upplifum sársaukann og/eða reiðina svo sterkt að það er ekki í okkar mannlega valdi að fyrirgefa  - þá getum við beðið Guð um að gera það.  Sumir kalla það að viðurkenna vanmátt sinn. 

Með því að varpa fyrirgefningunni til Guðs, erum við að sleppa takinu og upplifa frelsið. Sjá þú um þetta Guð, ég get þetta ekki - ég viðurkenni  það bara hér og nú, ég ætla ekki að þykjast vera ofurmannleg eða ofurmannlegur.

Við megum leggja þennan beiska bikar í hendur Guðs.  Það er gjöf Guðs til okkar.

forgiveness-quotes.jpg


Ertu eftirlegukind, eða viltu styðja eftirlegukindur?

n1045957538_511832_1179384  Gengið til góðs 2006

Það eru ekki allir sem hafa ráð á einkaþjálfun, svo við getum kannski bara verið okkar einka-einkaþjálfarar?  Ég ákalla nú allar sófakartöflur að stíga upp úr sófanum á Uppstigningardag og koma með í göngu,  með nýstofnuðum gönguhóp sem kallast Eftirlegukindur.

Kannski svona eftirlegukindur í sófanum? .. 

Algengast er að leggja í göngu að Búrfelli frá Selgjár misgenginu við suðausturenda Vífilsstaðahlíðar í Heiðmerkurlandi og við gerum það! ..

Gangan miðast við að fólk sé EKKI í súperformi, en allir velkomnir -  svo fyrsta ganga verður í Búrfellsgjá og gengið í ca. einn klukkutíma og síðan til baka, svo áætlið tíma frá 14:00 - 16:00

 Afskaplega falleg náttúra.  

Við göngum þá til góðs fyrir okkur sjálf og aðra, upplagt að koma með nesti - en skiptir ekki máli hvort að skórnir eru gamlir eða nýir. 

Verum öll hjartanlega velkomin! .. hópur Eftirlegukinda á Facebook - komdu með!

(Ath! http://www.facebook.com/#!/home.php?sk=group_207724795932692&ap=1)


mbl.is Einkaþjálfarinn tekur 30 þúsund á tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband