30.5.2011 | 07:07
Rauð kvöldganga í Vesturbænum ..
Fyrsta sem fyrir augu bar var ósköp rauður bíll
svo ákveðinn í hasti var kvöldsins rauði stíll
Strax á næsta götuhorni sá ég rólu rauða
gekk í rólegheitunum upp Túngötuna auða
Þarna má alveg vera úti að aka en ekki keyra inn
ekki hafði ég áhyggjur af því, í þetta sinn
Ljósastaurinn hneigði sig og góða kvöldið bauð
nóttin var á næsta leyti ofurlítið rauð
Gatan hennar Öldu, ljúf sem aldrei fyrr
og veröldin nam staðar, algjörlega kyrr
Brunahaninn beið þar stilltur, ávallt reiðubúinn
Mér sýndist hann samt vera bara orðinn býsna lúinn
Ljósleiðararnir leiddir eru nú í Vesturbæinn
laskaðar keilurnar lúlla sér, en nýtast vel á daginn
Af endurskini lýsti og á rafmagnskassa krotað
krassið er frekar sóðalegt en hefur engan rotað
Gamalt hjól og glitauga þekkt hefur betri daga
því fylgir örugglega mikil og merk, en ósögð saga
Við heimkomuna í húsið biðu túlípanar lúnir
kominn tími til leggja mig, frasar mínir búnir
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2011 | 20:53
HARPAN OG FJÖLSKYLDUHJÁLPIN ...
Stundum bít ég eitthvað í mig, en svo jafna ég mig síðar (vonandi). Ég hef t.d. ekki minnstu löngun til að koma inn í Hörpuna. Hef einhverja óbeit á húsinu.
Glerhöll byggð (fyrir meira en 100% yfir kostnaðaráætlun) er byggð yfir tónlist og ráðstefnur, á meðan fótunum er kippt undan listgreinakennslu í leikskólum og sparað sem aldrei fyrr í skólum. Þakið er byggt - en grunninum fórnað.
Æ, það er bara eitthvað voðalega skakkt við þetta. Listaverkið of dýru verði keypt.
Háværar raddir hafa kvartað undan röðum við Fjölskylduhjálp Íslands. En fólk hefur líka þurft að standa í röðum til að fá miða í Hörpuna. Ekki vantar aðsókn, en það er víst eins gott - til að fjármagna hana úr því sem komið er.
Af hverju finnst okkur meiri virðing í því að standa í biðröð til að komast á tónleika í rándýru glerhúsi en í röð til að fá úthlutaðan mat eða brýnustu nauðsynjar? ..
Verðum við ekki aðeins að taka til í viðhorfabankanum hjá okkur?
Við megum ekki meta gildi manneskjunnar eftir veraldlegum eignum hennar eða þykkt seðlaveskis.
Gildi manneskjunnar fer eftir því hvernig hún kemur fram við náunga sinn og sjálfa sig.
Stöndum stolt, hvar sem er - allar manneskjur eru jafn verðmætar.
Sólin veit þetta - hún skín á alla jafnt!
Það sem skiptir máli er að standa með sjálfum sér og virða sjálfan sig, ekki eftir hinu ytra, heldur hinum innri fjársjóði sem mölur og ryð fá ekki grandað, eins og þar segir! ;-)
Menning og listir | Breytt 30.5.2011 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.5.2011 | 17:26
Ástarsamband ..
HANN
yljar mér um hendurnar þegar mér er kalt
vekur með mér tilhlökkun
röflar hvorki né kvartar
gerir engar kröfur
er sjóðheitur
örvar mig
ilmar
ÉG
fitla með fingrunum við hann
finn af honum ilminn
hræri upp í honum
nýt hans í botn
er háð honum
strýk honum
elska
Ég er auðvitað að tala um sambandið við:
K
A
F
F
I
B
O
L
L
A
N
N
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.5.2011 | 02:27
Að vera eða vera ekki ..
Ég hlustaði nýlega á viðtal við Oprah Winfrey sem sagði við upphaf fyrsta spjallþáttar síns í desember 1986; If the show doesn´t go well , I will still do well, because we are not defined by a show, but on how we treat our selves and others"...
Þetta var í upphafi ferils hennar, en hún var að segja að hvernig sem þættirnir hennar færu, myndi henni ganga vel, velgengni hennar sem manneskju var að bera virðingu fyrir sjálfri sér og öðrum.
Við vitum svo auðvitað hvernig fór með þætti Opruh Winfrey. En það er fróðlegt að íhuga þetta viðhorf hennar til velgengninnar, og það hefur alveg örugglega verið grunnur að annarri velgengni.
Að sama skapi og að manneskjan Oprah skilgreindi sig ekki af þætti, eigum við ekki skilgreina okkur af starfi, eignum, útliti eða neinu sem kemur að utan, heldur eftir elsku okkar til okkar sjálfra og til annarra.
Við erum ekki starfið okkar, við erum ekki fötin okkar, við erum ekki húsið okkar ... Ef við værum allt þetta og við misstum starfið, fötin og húsið þá værum við hvað? Úps - ekkert! ..
Við fæðumst með ákveðinn kjarna, ákveðið eðli. Síðan fer ýmislegt að setjast utan á kjarnann, sumt gott og sumt vont. Vegna þess hve við erum opin og full trúnaðartrausts í æsku þá tökum við á móti ýmsu sem við ættum í raun að hafna, en vitum ekki og kunnum ekki betur. Og lengi býr að fyrstu gerð, við sitjum uppi með margt neikvætt í sjálfsmyndinni og ranghugmyndir og við tileinkum okkur ýmislegt og við miðlum því jafnframt áfram.
Hvaða foreldri hefur ekki lent í því að segja eitthvað við barnið sitt sem það hafði sem barn lofað sér að segja aldrei við sitt barn? Hvað með viðbrögð? Hvernig við förum í vörn við gagnrýni? Hvernig við tæklum vandamál? Hvar lærðum við það?
Félagsmótunin hefst inni á heimilum, síðan í skólum, með vinum, kunningjum og svo fjarlægri áhrifavöldum eins og fjölmiðlum. Vissulega er margt sem sækir á, og um leið og við öðlumst sjálfstæði þurfum við að fara að hreinsa til. Við þurfum að fara í endurskoðun á gildum okkar, viðhorfi og viðbrögðum. Stunda gagnrýna hugsun.
Við þurfum að taka til eins og við hreinsum yfirfulla tölvu eða troðfullan fataskáp.
Oprah Winfrey lagði af stað í þáttargerð sína full af sjálfstrausti, með það nesti að hvað sem gerðist gengi henni vel, því velferð hennar fælist í hvernig hún kæmi fram við sjálfa sig og aðra.
Það er aldrei of seint að fara að taka til í fataskápnum, að henda út flíkum sem eru úreltar og passa þér ekki lengur. Það er ágæt æfing að gera þetta bókstaflega, taka til í umhverfi sínu, sortera, henda, raða - þá skilur þú enn betur hvernig þessi innri tiltekt virkar! ..
Hvað sem þú ætlar að taka þér fyrir hendur í lífinu, þá er grunnur að velgengi og hamingju okkar að þekkja, elska og virða okkur sjálf.
Við erum öll okkar elsku verð, látum ekki segja okkur neitt annað.
Takk fyrir mig, er farin að taka til!!!!..
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.5.2011 | 08:31
"All children are born artists" Picasso ... samt eru listir afgangsstærð í skólakerfinu
Mjög mikilvæg skilaboð í þessum fyrirlestri - við verðum að hlusta, þetta gæti verið hin raunverulega forvörn gegn brottfalli úr skóla. Að skilja að við verðum að hætta að troða öllum í sömu kassana.
Robinson talar um skólakerfið sem drepur niður sköpunargáfu, skólakerfið miði að því að gera alla að háskólaprófessorum. Það þarf ekki að ræða það - að samfélagið þarf ekki einungis háskólaprófessora.
26.5.2011 | 15:55
Þegar lífið er ekki nóg ...
Þegar við skoðum neyslu, þurfum við að íhuga af hvaða hvötum hún er sprottin og hver hagnast á henni.
Þetta snýst líka um framboð og eftirspurn.
Neytandinn er sá sem er að leita að einhverju til að gera lífið bærilegra, skemmtilegra - eða flýja frá lífinu. Nautnin verður aldrei nema skammvinn og afleiðingar, eins og við vitum: hörmulegar.
Það er löngu kominn tími á það að við förum að fókusera á orsakir vandans, en að sjálfsögðu sinna þeim sem þegar eru fallin ofan í brunninn og hífa þau upp.
En hvernig byrgjum við brunninn?
Enn og aftur vek ég athygli á að styrkja skólakerfið og styrkja fjölskyldur. Styðja hvert annað á erfiðum tímum. Við verðum að taka höndum saman um það sem skiptir máli - mannleg samskipti og félagsleg heilsa.
Þegar ég tala um að styrkja skólakerfið, er ég ekki að tala um að fá fleiri tíma í íslensku eða stærðfræði, heldur að í staðinn fyrir t.d. að félagsráðgjafar og sálfræðingar séu að sinna einu og einu barni á þjónustumiðstöðvum fari þeir fari út í skólana, í bekkina og séu með massíva sjálfsstyrkingu og sjálfsþekkingarsmiðjur. Að sjálfsögðu þarf að halda áfram að vinna einstaklingsmiðað líka, en ég held að það að vinna í hópum, bekkjum, komi til með að styrkja bekkinn sem heild og um leið nemendur innan bekkjanna.
Það er mikið af fólki sem hefur nú þegar lært góða hluti sem nýtast sem tæki til sjálfsþekkingar og sjálfsræktar. Þetta fólk ætti að nýta til að kenna börnum.
Hvað er unga fólkið að flýja? Hvers vegna er lífið ekki nóg?
Þurfum við, sem eldri erum að líta í eigin barm? Erum við í neyslu sem er okkur óholl og ýtir kannski undir hægfara sjálfsvíg?
Er eitthvað sem vildum í raun gera frekar en að reykja, drekka, borða það sem gerir okkur vont o.s.frv. ? Erum við í sama flótta, en ekki eins langt leidd?
Hver hagnast á þessari neyslu okkar? Hver vill okkur svo vont?
Það er stundum á gráu svæði hvað er okkur vont og hvað gott. Það er t.d. vitað að sólarbekkir geta ýtt undir það að við fáum krabbamein, en á móti að við fáum D vitamín úr geislunum og birtu sem kannski sumir sakna yfir vetrartímann. Reykingar eru að sama skapi þekktur krabbameinsvaldur, en margir tala um að þeim líði betur félagslega með að reykja. Sama á við um áfengið. Öl er böl, en öl getur líka kætt. Hvar eru mörkin?
Efnin eru þarna, ekki bara hörð eiturlyf, heldur mild - og sumir eru farnir að telja sykur sem eitur líka.
Það er mikilvægt að geta valið og hafnað, og til þess þurfum við að vita hvað við raunverulega viljum. Velja hvort við séum tilbúin í rússneska rúllettu, með því að dópa, leggja það á aðstandendur og vini. Því auðvitað hefur það áhrif á aðra en okkur. Það er líka sárt að sjá manneskju vera að drepa sig með ofáti. Það er bara meira hægfara leið en eiturlyfin. En ástæðan er sú sama:
Lífið er ekki nóg.
Ef við færum fókusinn þangað, gerum lífið nóg, finnum orsakir þess að það er það ekki og styrkjum okkur og unga fólkið til að þurfa ekki að leita sér að lífsfyllingu sem er fölsk, þá færum við kannski að ná árangri gegn bölinu. Hættum að fóðra risana sem hagnast á ógæfu annarra.
Látum ekki bjóða okkur ófögnuðinn og virðum okkur og elskum meira en svo.
Lærum að segja; "Nei takk, ég elska mig meira en þann sem ætlar að græða á ógæfu minni. Ég elska mig meira en svo að ég ætli að eitra fyrir mér. Ég elska þann sem vill græða á mér meira en svo að ég ætli að vera meðvirkur með honum og ýta undir hið slæma sem hann er að gera."
Ég þigg lífið og það er nóg og ég er nóg.
ÉG elska þig og ég elska mig ...
![]() |
Vitað um PMMA-neyslu í fimm tilvikum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2011 | 08:42
"Eins og að vera í sumarbústað í vondu veðri" ..
Óveðursský hefur hangið yfir Íslandi alveg frá hruni, Icesave I,II og III komu síðan, í fyrra bættist við öskuský úr eldgosinu í Eyjafjallajökli og svo aftur núna í Vatnajökli.
Fólkið (og dýrin líka) sem býr þar sem dimmt er allan daginn og askan smýgur inn, leitar á hug okkar og margir hugsa hvað þeir geti gert. Aðrir verða mjög leiðir og þetta leggst þungt á þá.
En það hjálpar ekki fólkinu í aðstæðum sínum ef við hér í Reykjavík, Vestfjörðum, Vestur- eða á Norðurlandi, erlendis eða hvar sem við erum stödd förum í þunglyndi og volæði.
Þá erum við að hámarka skaðann en ekki lágmarka, eins og við ættum í raun að vera að gera.
"Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum" sagði Gandhi.
Ef við viljum gera gagn, þurfum við að byrja á okkur sjálfum. Við erum engum til gagns og gefum ekkert ef við leggjumst undir sæng og grátum, ekki einu sinni okkur sjálfum. Þá bætist bara við fórnarlömb umhverfisins.
Móðirin í meðfylgjandi frétt sýnir styrk og er jákvæð og er gifurlega góð fyrirmynd í hvernig hún tekur á aðstæðum. Tekur á móti þeim og gerir það besta úr þeim.
"Bara eins og að vera í sumarbústað í vondu veðri" ..
Biðjum um æðruleysi til að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt, kjark til að breyta því sem við getum breytt og visku til að greina þar á milli.
(Ef þú heldur að engin/n sé til að hlusta, hlusta þú sjálf/ur)
Sýnum samhug, en látum ástandið ekki verða að öskuskýi innra með okkur.
![]() |
Askan læðist inn í hús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.5.2011 | 10:24
Í blíðu og stríðu - en hversu stríðu? ....
Þeir - þau - þær sem hafa verið í sambúð vita hversu flókið slíkt getur verið. Tveir einstaklingar með sínar þarfir, sjónarmið, væntingar og þrár mætast og þurfa að flétta þetta saman.
Fléttan vill oft flækjast og stundum fara þarfir annars aðilans að víkja fyrir hins og öfugt.
Það er góð æfing fyrir par/hjón að setjast niður og skrifa í sitt hvoru lagi niður:
a) sína framtíðarsýn - t.d. eftir eitt ár og svo eftir tíu ár. Hvar vil ég vera stödd/staddur?
b) sínar hugmyndir um hvernig leiðin að markmiðinu skuli farin og hvaða atriði þurfi að koma þar inn í til að leiðin verði ánægjuleg.
c) hvaða gildi á að hafa að leiðarljósi?
Þegar þessu er lokið getur parið sest niður og borið saman það sem það skrifaði niður og rætt.
Eflaust er framtíðarsýnin og óskin hjá báðum að vera hamingjusöm með hvort öðru.
Parasamband þarf næstum að vinna eins og verkefni, það er betra að hafa einfaldar en góðar leikreglur heldur en að láta hlutina reka á reiðanum og sigla stjórnlaust, og því þarf að setjast niður t.d. mánaðarlega og fara yfir gildin og markmið sem eru sett til styttri tíma.
Eru þau að ganga upp, er verið að fara eftir gildum. Segjum að gildið "heiðarleiki" sé leiðarljósið. Eru báðir aðilar búnir að koma fram af heiðarleika?
Ef að þetta er flókið og fólk hrætt við að særa hinn aðilann - þá verðum við samt að hugsa hvort að sárin verði ekki að koma fram, leyfa þeim að blæða og gróa, hvort það sé ekki heiðarlegra en að vera að blekkja? Verður ekki annars bara til eitthvað kýli eða krabbamein sem enginn talar um og hlutirnir versna bara og versna?
Báðir aðilar verða að vera duglegir að líta í eigin barm, setja sig í spor maka síns reglulega. Jafnvel prófa að rökræða út frá sjónarhóli hins. Það er ótrúlega góð æfing - og endar örugglega í óvæntum uppgötvunum.
Þetta hef ég lært "the hard way" Læra að segja hvað ég vildi og hvað ég vildi ekki. Ekki bara reynt að haga mér eins og segl eftir vindi hinna. Við erum sum svolítið mikið í þeim leik. En þannig erum við ekki heiðarleg.
Börnum er best að alast upp við heiðarleika og væntumþykju. Þau eru næm á foreldra sina og finna ef að það er spenna eða óánægja sem grasserar. Jafnvel þó að þau rífist aldrei upphátt fyrir framan þau. Þau læra síðan það sem fyrir þeim er haft og halda uppteknum hætti foreldranna, nota sömu "tækni" við úrlausn vandamála. Sumir foreldrar rífast svo hástöfum, en þegar börnin spyrja hvað sé að setja þau upp pókerfeis og segja "allt er í lagi" .. Börnin eiga betra skilið.
Ég hef ákveðið að starfa 100% hjá Lausninni frá og með 1. ágúst og get aðstoðað pör/hjón með slíka markmiðasetningu. Nánari upplýsingar og tímapantanir má sjá á síðu Lausnarinnar www.lausnin.is
Hlutverk mitt er þá að sýna hjónum/pörum hvernig þau geta sjálf unnið í sínum málum. Hjálpa fólki til sjálfsþekkingar - en það er grunnurinn að því að vita hvað maður sjálfur vill og vill ekki.
Það er mikilvægt að fólk geti gengið nokkurn veginn í takt, til þess þarf vilja, getu og framkvæmd.
Algeng vandamál þar sem hjón eru ekki í takt:
Hreyfing
Kynlíf
Umgengni
Vinna (utan og innan heimilis)
Áhugamál
....
Talið ekki illa um hvert annað, niður til hvers annars, né til ykkar sjálfra.
Þið verðið að hleypa að ferskum vindi á milli ykkar svo þið hafið ferst loft til að anda. Samband á ekki að vera sem skuld og innheimta - heldur gjöf - að gefa er að þiggja.
Kahil Gibran segir að við eigum að fylla hvers annars bikar, en ekki drekka úr þeim sama. Það er fallegur siður að gera það líka í raun og veru, þ.e.a.s. að hella í glös hvers annars þegar þið sjáið að glasið er að verða tómt. Það kennir manni líka að veita glasi hins athygli - ekki bara sínu eigin glasi.
Með þessari íhugun, markmiðasetningu og sjálfsskoðun - og gagnvkæmri virðingu eru strengirnir stilltir saman til að spila tónlist.
Hér er um að ræða tvo strengi en ekki aðeins einn, en ef að annar strengurinn er vanstilltur þá verður tónlistin fölsk.Ekki gefa hjarta þitt, því þá verður þú sjálf/ur hjartalaus. Opnaðu það heldur og gefðu og þiggðu gjafir hjartans sem eru elska, virðing, væntumþykja, heiðarleiki og traust.
Þegar hið vonda sem hjónabandið eða samband gefur af sér er orðið meira en hið góða, þarf að skoða viðhorf og sögu beggja aðila, hvers vegna var farið af stað upphaflega og allt þar yfir, undir og um kring.
Kannski var haldið af stað á röngum forsendum? ..
Munum að ef við viljum breytingar þurfum við að byrja á að breyta sjálfum okkur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.5.2011 | 07:56
Hundaeigendur, og menn almennt, eru mun stærra vandamál en hundar ...
Ég er ein af þeim sem er fylgjandi hundahaldi, þó að sjálfsögðu sé það bundið ákveðnum reglum. Það er s.s. okkar mannanna að halda þær reglur.
Ég tel kostina við hundahaldið yfirskyggja ókostina.
Ókostir: Þegar hundaeigendur þrífa ekki upp eftir hunda sína, þegar hundur bítur og/eða ræðst að manneskju (eins og hefur verið í fréttum núna tvisvar nýlega). Þegar hundar eru lausir og valda fólki hræðslu sem er hrætt fyrir. Þetta eru þrír meginókostir við hundahald, fyrir fjöldann.
Hundaeigandi aftur á móti þarf líka að þrífa inni hjá sér, hár sem falla af hundinum og það er mikil vinna að sinna hundi svo vel fari. Viðra hann og passa upp á að hann fái nægilega hreyfingu.
Það eru alltaf til svartir sauðir meðal hundaeigenda, og það eru alltaf til svartir sauðir alls staðar reyndar.
Fór út að ganga í morgun með Simba ofurhund og mættum við öskrandi manni, sem var að koma heim af djamminu eflaust. Mér varð ekki um sel, en það olli því samt ekki að ég yrði hrædd við alla menn.
Varðandi að hirða upp hundaskít, þá gildir það sama um sígarettustubba, tyggjó og annað. Sumt fólk er sóðar, hvort sem það er með hund, reykir eða tyggir tyggjó. Það tekur ekki þá samfélagslegu ábyrgð að halda umhverfinu okkar snyrtilegu.
Í þessu þjóðfélagi einangrunar sem við lifum í dag þá tel ég að hunda- og kattahald sé jákvætt. Það að hafa dýri að sinna, eða draga sig út í göngutúr (þó varla með ketti) er jákvætt fyrir einstaklinginn. Fólk sem ekki getur eða vill eignast börn fær í sumum tilfellum lífsfyllingu út úr þvi að sinna hundinum sínum (eða ketti). Börn hafa gott af því að umgangast dýr og læra að virða þau. Það er þekkt hvað varðar einhverf börn, að þau hafa gott af því að umgangast hunda t.d.
Farið er með hunda skipulega inn á sum elli-og hjúkrunarheimili þvi þeir kveikja gleði hjá gamla fólkinu.
Við þurfum að beina athyglinni að hundaeigandanum þegar upp koma vandamál með hunda. Ég persónulega myndi ekki vilja eiga hund sem bítur og er hættulegur öðru fólki. Hundar geta verið geðbilaðir eins og manneskjur, en við setjum þá ekki á sjúkrahús eða í samtalsmeðferð eða hvað?
Það skal tekið fram að ég var dauðskelkuð við hunda sem barn, lenti í því í Danmörku að mig elti Great Dane (hann var jafn stór mér) langar leiðir. Ég áttaði mig að vísu á því að ef ég hljóp héldu hundar að ég væri í eltingaleik! .. Þegar ég svo fór að kynnast hundum þá sá ég kostina og hversu miklir gleðigjafar þeir geta verið. Ég hef líka lent í því á fullorðinsárum að eiga fótum mínum fjör að launa, en það var þegar ég ætlaði að stytta mér leið á Spáni og klifraði yfir girðingu og mætti þar varðhundum. Það var adrenalínkikk æfi minnar þegar ég flaug yfir girðinguna til baka.
Þetta gerði mig ekki hrædda við alla hunda, ekki frekar en að það gerir mig ekki hrædda við alla karlmenn þegar að þeir hafa verið með áreiti eða öskur á eftir mér þegar ég hef gengið heim að kvöldi til úr bænum. Það mætti nú samt alveg skoða það að banna lausagöngu útúrdrukkinna og/eða ógnandi einstaklinga, bæði kvenna og karla.
En s.s. niðurstaðan er sú að við getum ekki dæmt alla hunda af fáum hundum og hundaeigendum. Vonum að hundaeigendur líti í eigin barm og hafi sína hunda í taumi. Mæli með því að þeir sem eru hræddir, reyni að vinna á fóbíu sinni, því það hlýtur að vera vont að ganga með þennan ugg í brjósti.
Sonardóttirin Eva Rós og Simbi ofurhundur að leik.
Úr Marley and me: "A dog doesn´t care if you´re rich or poor, give him your heart and hell give you his." ..
Vinir og fjölskylda | Breytt 6.7.2012 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.5.2011 | 16:07
Að elska líkama sinn ...
Nú eru alveg grasserandi bloggin um konur og karla sem eru að missa þvílíkt af kílóum. Í einu blogginu las ég: "Líkaminn öskrar á hið óholla." .. og í framhaldi af því að hann þyrfti að temja og það lítur því út eins og líkaminn sé óvinur.
--
Ég hef hugsað það þannig að það sé í raun ekki líkaminn sem öskrar á hið óholla, heldur bara eitthvað í þér, sem elskar þig ekki nógu mikið. Líkaminn vill bara það besta fyrir þig og sig. Vill ekki þurfa að burðast með aukakíló - nú eða vera það horaður að hann eigi erfitt með athafnir - o.s.frv. Líkaminn vill ekki vera veikur. Ofþyng og vannæring ýtir bæði undir veikindi líkamans.
Hið mikilvæga er þá að ná að hlusta á líkamann og vita hvað hann vill í raun og veru. Hann lætur okkur svo sannarlega vita þegar hann er svangur og hvenær hann er saddur. Við erum samt oft að borða þegar við erum ekki svöng og líka að bæta á þegar við erum orðin södd. Þá erum við bara að fylla upp í eitthvað allt annað hungur en hungur líkamans. Þá erum við bara á flótta frá tilfinningum, fylla upp í doða, leiða, óuppgerða hluti ... Það er talað um "emotional eating" ..
Þetta snýst s.s. um að misbjóða ekki líkamanum, elska hann og virða og um leið er maður að elska sjálfan sig og virða. Það er engin góðmennska að gefa líkamanum vonda næringu, - það er ekki að vera góð/ur við sjálfa/n sig, það er að vera vond við sjálfa/n sig. Þegar við förum að horfa á þetta svona þá þarf ekki mikinn aga, aðeins að þekkja hinn raunverulega vilja.
Líkaminn er ekki óvinur þinn sem þarf að temja heldur vinur sem þarf að elska og virða.
Allir eiga að elska líkama sinn, í hvaða ásigkomulagi sem hann er, því að frá þeim punkti sem við byrjum að elska okkur þá hættum við að fara illa með hann - fæða hann með ruslfæði, svelta eða neita honum um hreyfingu.
Allt sem lýtur því að því að bæta heilbrigði líkamans þarf því að fara fram á forsendum elskunnar.
Þökkum fyrir líkama okkar, þökkum honum fyrir allt sem hann gerir fyrir okkur, við tökum honum svo oft sem sjálfsögðum hlut. Líkaminn er musteri - hús - sálarinnar. Fáum eitt stykki úthlutaðan fyrir þetta líf og hann er á okkar ábyrgð.
Verum góð við okkur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)