19.5.2011 | 08:15
Framhjáhald og forboðnir ávextir ...
Barn er auðvitað ein augljósasta afleiðing framhjáhalds, en eflaust sú sjaldgæfasta. Framhjáhald hefur alltaf afleiðingar, hvort sem að barn verður til eða ekki, í fyrsta lagi svíkur sá eða sú sem heldur fram hjá, sjálfan sig, þá maka sinn og börn (ef einhver eru).
Ég man ekki prósentutöluna hvað varðar framhjáhald í sambúð og/eða hjónaböndum en hún er býsna há.
En vegna þess að ég hef lært að beina athyglinni minni að orsök fyrst og skoða síðan afleiðingar, - skoða hinn leka krana, frekar en pollinn á gólfinu, þá er athyglisvert að skoða stöðu þeirra sem halda fram hjá maka sínum eða brjóta trúnaðartraustið.
Einfaldasta orsökin er auðvitað bara kynlífsþörf (og þörf fyrir nánd stundum) viðkomandi, - að hann eða hún fái ekki útrás fyrir hana.
Stundum er það bara spennufíknin sem rekur fólk áfram. Hið forboðna verður meira spennandi en það sem hægt er að fá dags daglega. Það mætti taka dæmið af konunni sem þráir gifta manninn í næsta húsi, finnst hann spennó - þau fara að "dingla sér" saman, en svo ákveður hann að skilja og verður allt i einu frjáls maður og hvað þá? .. Er hann eins spennandi þá?
Það er hægt að heimfæra þetta upp á flest í lífinu. Ef við mættum borða marengstertur í hvert mál - og þær myndu ekki ftia okkur, væri það eins freistandi eins og þegar upp á þær er boðið við einstaka tækifæri? Það er þetta með grasið sem er grænna hinum megin girðingar og fjarlægðina sem gerir fjöllin blá og mennina mikla.
Við verðum að taka hið mannlega inn í myndina - mennsku okkar. Horfast í augu við að girndin getur orðið allri skynsemi yfirsterkari. Aðstæður geta verið heitar og "ómótstæðilegar" .. og til dæmis er vinnuumhverfi mjög misjafnlega "varasamt" hvað líkur á framhjáhaldi varðar.
Þegar menn dvelja langtímum saman í fjarlægð frá fjölskyldu, verður heimurinn óraunverulegur. Maður eða kona sem endar uppí rúmi með vinnufélaga gerir það ekkert endilega vegna þess að þar sé einhver ást á ferð, aðeins skortur á snertingu, kynlífi o.s.frv.
Það er ekki hægt að fela sig á bak við áfengi, en áfengið ýtir undir það að fólk láti það eftir sér sem það langar til, eða heldur að það langi til. Það vill varla nokkur manneskja í raun og veru særa maka sinn, brjóta á sínum eigin prinsipum. Þarna er um sama lögmál að ræða og að sá sem veit að hann á ekki að borða djúpsteiktan mat, lætur eftir freistingum sínum. - Yljar sér á fótum með því að missa piss í skóna. - Hlýnar um stund, en afleiðingarnar eru alltaf vondar.
Skert sjálfsmynd, því að búið er að óvirða sjálfan sig, brjóta trúnað, loforð o.s.frv.
Oft réttlætir fólk þetta með ofangreindu; að það hafi verið svo aðframkomið - hafi ekki "fengið nóg heima" .. makinn kaldur o.s.frv.
Það reiknar varla nokkur hjón með því, þegar að þau standa fyrir framan prest eða borgardómara (eða hvernig sem farið er að) að það komi sá tími að þau þurfi að horfast í augu við þessa uppákomu (í orðsins fyllstu merkingu). En það er auðvitað verið að skauta fram hjá mikilvægum staðreyndum - að það er staðreynd að margir "lenda" í framhjáhaldi, einhvern tímann á lífsleiðinni, annað hvort sem gerendur eða þolendur - eða bæði.
Þess vegna er mikilvægt að pör komi fram af heiðarleika allt frá upphafi, ræði um trúnað sín á milli og hvernig þeim líður gagnvart hinum aðilanum. Stundum verður fólk bara að beita sig sjálfsaga, velja á milli þess að halda traust og taka áhættuna á því að brjóta upp annars gott samband. Svipað og það er bara ekki í boði að drekka áfengi þegar að verið er að taka ákveðin lyf.
Það er ýmislegt varðandi kynlíf sem ég gæti skrifað hér, en það sem er þó aðalmálið er að kynlíf er ekki bara að athafna sig í samförum. Kynlíf er ekki síður andlegt, það byggist upp með náinni tengingu, sambandi milli pars. Ef að allt hefur leikið á reiðiskjálfi yfir daginn, fýluköst, nú eða að fólk talar lítið saman og byrgir hluti inni, þá er hætta á að það verði "kalt" í bólinu um kvöldið.
Þá er kynlífið bara flótti frá því að takast á við það sem raunverulega er i gangi, takast á við tilfinningar og umræður sem þarf að fara inn í. Sumir vilja það ekki. Það er alveg eins og að skófla í sig Candy-floss - næring en ekki góð næring og dugar stutt.
Titillinn er "Forboðnir ávextir" ... ávextirnir sem eru í boði innan sambands eða hjónabands eru alveg eins sætir og djúsí eins og þeir sem eru utan veggja sambands eða hjónabands. En ávexti þarf að rækta, gefa þeim birtu og vökvun.
Öll sambönd þarf að rækta, og hver einstaklingur þarf að hlúa að sér og rækta.
Ef að síðan "mistökin" eru gerð, þarf sá aðili innan sambandsins að taka afleiðingum gjörða sinna, koma hreint til dyranna strax, skaðinn er skeður, en hann er mun verri ef yfir honum er þagað og hann komi upp á yfirborðið seint og um síðir. Hann grasserar þá innra með þeim sem hefur brotið traustið og veldur þeim sem brotið er á mun stærra sári. Sárið kemur alltaf fram, á einn eða annan hátt.
Gjörningurinn er eins og krabbamein, það er betra að það uppgötvist fyrr en síðar. Að lifa með lygi er í raun eins og krabbamein. Þegar að sá sem hefur brotið trúnaðartraust segist ekki vilja særa maka sinn með því að segja sannleikann, er hann í raun að segja "ég treysti mér ekki til að upplifa sársaukann og skömmina við að særa konuna mína/manninn minn" ..
Höfum þetta í huga - orsakir og afleiðingar. Framhjáhald getur verið ein af birtingarmyndum þess að fólk talar ekki saman, er með óuppgerð mál úr fortíð/bernsku, líður illa á einn eða annan hátt og fer því í þessa flóttaleið eða leið til að deyfa sig. Barn fylgir í fæstum tilfellum, þó það sé auðvitað alltaf möguleiki. (Miði er möguleiki). En afleiðingin getur verið sú að þú getur verið að fórna lífi sem þú vilt í raun ekki missa, eða lífi sem þú vilt missa, en kannt ekki að stíga út úr því? Allt snýst þetta um heiðarleika við sjálfa/n þig og aðra.
Leiðir til að átta sig á því hvað maður raunverulega vill er að leggjast í leiðangur sjálfsþekkingar, og best er auðvitað að báðir aðilar í hjónabandi geri það.
Meðvirkni er orð sem margir skilja ekki eða illa, en meðvirkni er m.a. það að ala á óæskilegri hegðun. Þegar við höldum að við séum að gera gott en erum í raun að gera illt. Að segja ekki sannleikann er í fæstum tilfellum góð hegðun.
Að lokum: Framhjáhald hefur alltaf afleiðingar, jafnvel þó þú hugsir "hjúkk - ég slapp, konan/maðurinn veit ekkert" - þá er það ekki sannleikur að þú sért sloppin/n .. Þú veist þetta sjálf/ur og það er nóg til að skaða þig og breyta þér sem manneskju fyrir lífstíð. Þess vegna er betra að lifa af heilindum og koma hreint fram við maka sinn og ekki síst sjálfa/n sig.
Þeir sem vilja kynna sér meira um meðvirkni geta farið inn á síðuna okkar hjá Lausninni www.lausnin.is
Óttumst ekki að segja satt, því að það er engum í hag að lifa í blekkingu.
Bæti þessu fallega ljóði við sem birtist mér í morgunsárið á hinni alræmdu Facebook;
AÐ ELSKA OG MISSA
í orðum þínum er von
ósk og einlægt innsæi
sem hvíslar því að mér
...að framtíð mín sé tryggð
ósk okkar um ást og hamingju
er einsog sólargangur
þegar myrkrið er mest
þá eru loforð birtunnar sterkust
ég óttast ekki svikin loforð
vegna þess að ég held
að betra sé að elska og missa
en missa af því að elska
(Kristján Hreinsson)
![]() |
Bruni með barn undir belti og Schwarzenegger utan hjónabands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2011 | 07:51
Hænur hafa ekki val ...
Ég hef verið að íhuga hvers vegna við; manneskjan í vestrænu nútíma þjóðfélagi, værum svona miklir neytendur. Já neytendur og þá þiggjendur í leiðinni. Jafnframt hef ég íhugað hvers konar neysla er í gangi og hver sé orsök hennar. Tímarnir hafa breyst og við þurfum að fylla í tóm-stundirnar okkar.
Ég tel að ákveðið tómarúm hafi myndast í "velmeguninni" og um leið í vanlíðaninni. Í vanlíðan höfum mið mikla þörf fyrir að "gleðja" okkur með ýmsum hlutum eða með að drekka eða borða of mikið. Þá erum við ekki að eignast hluti eða borða vegna þess að við erum í raun svöng, eða að okkur vanti eitthvað nauðsynlega. Við erum að seðja hinn vanlíðandi einstaklng. Að seðja þann sem þjáist.
Vandamálið er að við verðum ekki södd af þessu, hvorki andlega né líkamlega. Þetta er í raun eins og að missa piss í skóna, stundarfriður og ekkert meira og meira að segja er stundarfriðurinn oft blendinn því að þegar við erum að næra þessa vanlíðan (og undir niðri vitum við að við erum að gera það) þá erum við full af skömm eða samviskubiti.
"Æ, ég veit ég á ekki að borða yfir mig"
"Ferlegt vesen - ég ætlaði ekki að borða allt þetta súkkulaði - snakk - brauð ..." eða hvað það er sem þú VEIST að er þér óhollt til langs tíma litið.
"Úff, mér líður nú bara illa eftir þessar fréttir" ..
"Ojbara - hvað þetta var viðbjóðslegur karakter í þessari mynd" ..
"Ég ætla að fela þessa skó, segi engum frá því að ég hafi eytt öllum þessum peningum og ég hafði ekki efni á því" .. eða "á þúsund pör fyrir heima" ...
Allt er þetta dæmi um manneskju sem er að myndast við að næra eitthvað. Í raun er hún að næra vanlíðan sína. Það skiptir ekki máli hvort hún er rík eða fátæk.
Til þess að átta sig á því hvernig okkur líður í raun, skiptir máli að vera viðstödd sjálfa/n sig. Vera með andlega nærveru við sjálfan sig. Leita inn á við og leita sátta við þessa í raun dásamlegu veru sem þú ert.
Sættast við sig, bera virðingu fyrir sér, bera virðingu fyrir náunganum. Slúður og baktal er eitt form slæmrar neyslu, sú næring er ekki uppbyggileg fyrir neinn.
Uppbyggileg er mikilvægt orð í þessu sambandi. Við erum að vaxa, þroskast, dafna ..
Í dag er mikið talað um lífrænt ræktaðan mat. Dýr sem alast upp við gott fóður og góð skilyrði gefur mun hollara kjöt af sér - og mun hollara fyrir okkur að snæða.
Ef við hegðum okkur eins og hænur í búri sem fá tilbúið fóður, erum heft í búrunum (af okkur sjálfum) þá endum við sem slæmar og óhollar hænur.
Hænur sem fá að vappa úti í sólarljósinu - nú eða í rigningunni, gefa af sér "hamingjuegg" og stundum kallaðar hamingjuhænur.
Munurinn á mönnum og hænum, er m.a. sá að við höfum val, við getum útbúið okkur nokkurs konar "Rimla hugans" eins og Einar Már rithöfundur kallaði það í bókartitli sínum. Við getum boðið okkur upp á myrk og aðþrengd búr og vont fóður sem fitar okkur hratt og vel. En við getum líka valið að sleppa rimlunum, frelsa hugann og næra okkur með góðu fóðri.
Við erum heppin að vera ekki hænur!
Hófsemd er orð sem Íslendingum er ekki sérlega tamt, ekki mér heldur, en hefur verið mér hugleikið undanfarið.
Allt sem er "of" eitthvað er yfirleitt vont. Ofát, ofneysla. "Öfga" eitthvað er líka vont, og talað um að fólk sveilist öfganna á milli.
Dæmi um slíkt eru blessaðir megrunarkúrarnir. Þess vegna eru þeir slæmir, því að þeir stuðla að öfgum á milli. Jójó þyngd.
Meðvitund er annað lykilorð, að gera sér grein fyrir hvenær maður er raunverulega saddur, hvenær maður þarf á nýjum skóm að halda. Hvenær maður hefur fengið sér nóg í glas o.s.frv.
Til þess að átta sig, þarf maður að þekkja sjálfa/n sig, átta sig á sjálfri/sjálfum sér. Sjálfsþekking fæst með því að spyrja sig spurninga, skoða hvað er ysta lagið og hvað er í innsta kjarna.
Það er talað um að við flysjum laukinn og komumst þannig að kjarnanum. Það fara nú margir að gráta við það og það er bara eðlilegt og allt í lagi. Það er líka gott að ræða við einhverja nána, vini og vandamenn og biðja þá um að vera heiðarlega í okkar garð.
Þegar við áttum okkur á sjálfum okkur, rótinni fyrir því að við sækjum í hina og þessa neysluna, þráhyggjuna eða hvað það nú er sem er ekki að virka uppbyggilegt, getum við farið að vinna í uppbyggingunni.
Það er stundum kallað að viðurkenna vanmátt sinn. Vanmátt gegn hinu og þessu.
Að viðurkenna vanmátt sinn er um leið hugrekki og styrkleikamerki, þó það virki þversagnarkennt. Það er sterkara að lifa í sannleika en í blekkingu.
Það þýðir heldur ekki að við séum ekki verðugar og góðar manneskjur. Það þýðir að við erum tilbúin að takast á við að eiga gott líf. Veita okkur lífsfyllingu sem nærir, en ekki fylla tómið inni í okkur með rusli.
Dæmi um nærandi lífsfyllingu:
- samvera með maka (sem er æskilegt að sé á sömu línu og maður sjálfur)
- samvera yfirleitt, með börnum, fjölskyldu, vinum. - með sjálfum sér og Guði.
- alls konar list, bæði að þiggja og skapa - uppbyggileg sköpun
- hrós
- hlátur
- lestur
- matur með góðri næringu sem borðaður er við góðar aðstæður (ekki fyrir framan ísskápinn)
- göngur, fjallgöngur, ferðalög,
- spila spil
- dansa
- syngja
- leika
- skrifa
- teikna
- hugleiða
- að hanna fallegt heimili
- að vera í náttúrunni
- að þakka hið hversdagslega - það sem við venjulega lítum á sem sjálfsagðan hlut
- o.fl. o. fl....
Við verðum að hafa í huga að fara ekki út í öfgar, hvorki of né van. Finna hvenær er komið nóg, finna hvenær vantar. Skalinn er 1-10, hvar erum við stödd á hungurskalanum, bæði hvað mat og aðra neyslu varðar.
Það er mikilvægt að átta sig á því hvað er það sem veitir manni í raun lífsfyllingu, sátt, hamingju og gleði.
Á listanum hér fyrir ofan er mikið talað um samveru, margir eru einmana, einangraðir og finnst það bara ekkert gott. Það er afleiðing þess þjóðfélags sem við lifum í, þó að við vildum eflaust ekkert okkar skipta við þá sem lifðu hér á Íslandi á tímum baðstofulofta þá var fólkið a.m.k. saman. Fjölskyldur þurfa að huga að því að tengjast betur, vinir að huga að vinum sínum. Sjálf er ég oft einmana og hef hugsað til allra hinna sem eru einmana - að mynda vinabönd við annað einmana fólk, og vonandi finn ég aðferðafræðina við það. Það skal tekið fram að við getum svo sannarlega líka verið einmana með fullt af fólki og í hjónabandi jafnvel, ef fólk nær ekki góðu sambandi við hvert annað.
En auðvitað er þar meðalhófsreglan sem gildir líka, okkur þykir stundum gott að vera ein, í friði - það má bara ekki vera "of" .. Fólk þarf að koma út úr einmana skápnum, eða einangraða skápnum, kannski verður til félagsskapur EA og þá verður fólk "einmana i bata" ? .. Hvað veit ég? ..
Gott er að spyrja sig hvar við erum stödd, hvers konar neytendur erum við og hvers konar neitendur líka kannski? Erum við að afneita sjálfum okkur? Það er pæling. Æfum okkur í að segja:
Ég er verðug/ur, ég er elsku verð/ur.
Byrjunin er að taka sjálfan sig í sátt, elska og virða ... svo kemur hitt allt í kjölfarið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2011 | 18:00
"Jesús er besti vinur banana" ..
Nei, það vantar ekki - r - í fyrirsögnina, litla fjögurra ára systurdóttir mín horfði "óvart" á sunnudagaskólaþátt heima hjá sér og hefur ekki stoppað að syngja um Jesú sem sé besti vinur banana. Hún náði þessu ekki alveg með "barnanna." En það er auðvitað bara sætt.
Þegar ég var barn (ekki banani - enda hef ég aldrei verið það) hélt ég að allir væru að synda í höfninni þegar ég endaði bænina kvöldbænina mína "allri synd ég hafni" ..
Þekktur er misskilingur um að setja ost í frysti sem er misheyrt: "Leið oss eigi í freistni" ..
Það er vor; - "Faðir vor"...
Einn pjakkur fór svo með allt Faðirvorið í kirkjunni ásamt söfnuði og presti, og þegar allir höfðu sagt Amen og þögn sló á kirkjugesti, heyrðist í stráksa "og farðu svo að sofa" .. en hann hélt það væri endirinn á bæninni.
Mörg börn hafa eflaust séð fyrir sér nautgripi, þegar var verið að tala um skuldunauta! Hvernig eru svona skuldunaut?
Það er ekki bara trúarlegur texti sem börnin mistúlka:
Ég held ég hafi áður sagt frá því á blogginu þegar sonur minn spurði mig hvernig það gætu verið tær á himninum. "Himininn heiður og tær" söng mamman.
Annar lítill pjakkur horfði upp í himininn á sínum tíma og spurði mig hvernig fólk færi að því að sjá Fílamanninn í regnboganum! ... en myndin Fílamaðurinn var einmitt sýnd i kvikmyndahúsinu Regnboganum.
Svona má lengi telja - en þetta er svona það sem ég man í fljótu bragði. Kannski kunnið þið sögur af álíka.
11.5.2011 | 07:52
Elsku 16 ára ég ...
Þegar ég var barn starfaði mamma í Sundhöll Reykjavíkur og ég varði þar löngum stundum, ýmist ofan í lauginni eða uppúr. Finn eiginlega klórlykt þegar ég skrifa þetta.
Ég á margar minningar úr Sundhöllinni, man eftir konunum sem unnu með mömmu, ein tók mig í kleinu (sem mér fannst ekki leiðinlgt) og önnur heklaði föt á dúkkuna mína. Þær voru allar góðar við mig. Ég man minna eftir körlunum sem unnu þarna, nema kannski þeim sem fylgdist með mér, þegar ég sex ára synti 200 metrana í djúpu lauginni og fékk 200 metra merkið. Ég stökk á litla brettinu og ég meira að segja (held samt bara einu sinni) stökk á því stóra. Það var eitt af mestu afrekum lífs míns og skrifaði ég heila prédikun um það á fullorðinsárum.
Hún var um það að "Geta, ætla og þora" - en úff hvað mér fannst það hryllilegt. Ég hef á fullorðinsárum reynt þetta, en bakkað. Að stökkva af háum palli eða bretti í vatn er eitthvað sem fær mig til að kitla í magann án þess að gera það! Læt það duga. Nóg að hafa farið eins og brjálæðingur í brattar og snúnar túburennibrautir í Flórídavatsngörðum. Það verður að duga.
En í sundhöllinni var siður að reka upp úr. Einn af vörðunum flautaði í flautuna sína og þá þurftu allir að fara uppúr. Raða sér meðfram veggjum. Ég settist venjulega á syllu við einhvern ofninn og skalf. Svo var rekið upp úr, því að tímaklukkurnar í afgreiðslunni gáfu til kynna að ákveðinn hópur var runninn út á sínum tíma. Verð að játa, hér og nú, að ég fiktaði stundum í þessum klukkum þegar ég var að "aðstoða" mömmu í vinnunni- og hef eflaust ruglað tímanum fyrir einhverjum! En svona almennt var kerfið réttlátt, þó sumir mölduðu í móinn að þurfa að fara upp úr. það varð að hleypa fleirum ofan í, ekki réttlátt að sama fólkið fengi að leika allan daginn og aðrir fengju ekkert að fara ofan í og spreyta sig í sundi, á bretti eða fara upp á svalirnar og viðra sig. Það var enginn heitur pottur þá.
Mér datt þessi upp úr rekstur í hug um daginn þegar ég var að hugsa um lífið og dauðann. Þegar okkar "tími" er kominn þá erum við rekinn upp úr. En það er þetta órétlæti þegar einhver fær ekki að vera fullan tíma sem við eigum erfitt með að gúddera. Einhver bara nýkominn ofan í og þá flautaður upp úr. Ætli einhver sé að fikta óvart í tímaklukkunni þeirra?
Ég er nú ekkert að hugsa um dauðann svona dags daglega, nema nýlega horfði ég á þetta myndband, "Dear 16 year old me" þar sem verið var að tala um hættuna af melanoma, sem er illkynja krabbamein og kallað sortuæxli á íslensku. Það þyrmdi svolítið yfir mig, þar sem ég fékk "smá" svoleiðis fyrir rúmum tveimur árum, en var ekki "rekin upp úr" .. slapp fyrir horn, eða "rosalega heppin" eins og læknirinn orðaði það. Aftur á móti á ég vini, vinkonur og frændfólk - og svo er bara fólk út um allt, sem hefur ekki veið heppið. Rekið upp úr allt of snemma. Ég fór líka að hugsa um þá sem ég hafði misst.
"Elsku 16 ára ég, þú ert með viðkvæma húð, farðu varlega í að láta sólina steikja þig þú gætir brunnið illa og það haft slæmar afleiðingar. Notaðu sólarvörn og þegar ljósalamparnir koma, slepptu því þá. Elskaðu þig eins og þú ert, skinnið þitt eins og það er. Þú ert nefnilega dásamleg. Allur húðlitur er fallegur, og freknurnar sætar og eru hluti af þínum karakter (í bland við útstæðu eyrun, sem ég hef reyndar aldrei verið ósátt við)".. Þetta hefði ég getað sagt við elsku 16 ára mig, og þar að auki hefði ég sagt: "Gildi sálar þinnar er ekki metið eftir húðlit eða þyngd líkama þíns, stærð læra eða brjósta. Þú ert verðug manneskja, og eins og allar manneskjur fæddar í þennan heim áttu allt gott skilið."
Það sem ég fékk út úr þessu:
Þakklæti fyrir líf mitt, tækifærið fyrir að lifa áfram og hvatningu til að lífinu til fulls (en ekki hálfs). Hvatningu til að lifa lífinu ekki einungis fyrir mig, heldur einnig fyrir þau hin sem eru farin. Það er eiginlega óvirðing við þau að gera það ekki.
Ég í fangi pabba (Magnúsar) og er þarna yngri en svo að ég sé byrjuð að stunda "afrekssund" Hulda Kristín systir og Bjössi (Björn) bróðir, mamma svo falleg. Tvö yngri systkini komu síðar, Binni og Lotta. (Brynjólfur og Charlotta Ragnheiður). Mamma (Valgerður - alltaf kölluð Vala) og pabbi eignuðust fimm börn á 12 árum, og pabbi lést síðan frá barnahópnum þegar sú yngsta var 8 mánaða.
Minningin um hann hefur samt verið ótrúlega mikill styrkur í gegnum lífið. Við systkinin höfum alltaf þjappað okkur þétt saman og má segja að við elskum hvert annað skilyrðislaust, sem er mikil gæfa.Mamma náttúrulega hálfgerð ofurhetja að koma okkur "til manns" eftir hennar hremmingar.
Ég má leika mér í lauginni, stökkva af brettunum og á að gera það. Ég á ekki að sitja á bakkanum og skjállfa og bíða þess að vera rekin upp úr. Auðvitað kemur að því einn daginn að flautan gellur, en "den tid den sorg"...
En umfram allt virðum það líf sem okkur er gefið, líkama og sál með því að fara vel með okkur, njótum og leikum - verum saman.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.5.2011 | 08:43
"Ég syng bara um lífið" ...
"Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" .. eða hvað? Getum við þakkað það sem við höfum, það sem við eigum í dag?
Ég fékk kvíðakast nýlega þegar ég leit á bankareikninginn minn, með því næst lágmarkslaun er ekki von á því að hann fari upp á við á næstunni, og yfirvofandi atvinnuleysi í júlí. (Ekki það að ég sé ekki að vinna í því að redda því).
En svo gerðist það, þessa sömu helgi, að elsku litla sonardóttirin varð mjög veik og þurfti að fara inn á spítala. Þá þurrkuðust þessar ómerkilegu áhyggjur út. Það eina sem skipti máli var sólargeislinn hún Eva Rós - og þetta voru mér dýrmæt og mikilvæg skilaboð. Hún er sem betur fer búin að ná sér í dag og kemur að horfa á Júróvisjón með ömmu í kvöld.
Hvernig get ég annað en verið þakklát þegar ég horfi í þessi augu? Og hvað með okkur öll? Börnin sem fæðast eru börn jarðarinnar, börnin okkar allra og ábyrgð okkar allra.
Í gær fékk ég svona snert af kvíðakasti, þegar að gsm sími dóttur minnar fannst í garði í Vesturbænum. Ég hugsaði strax að eitthvað hefði komið fyrir hana. Leitaði að henni hjá vinum hennar, hringdi í vinnuna hennar og svo endaði það með því að ég keyrði úr vinnunni minni heim til hennar. Ég ætla ekki einu sinni að byrja að lýsa öllu því sem búið var að fara í gegnum hugann að hefði komið fyrir, en ég hugsaði reyndar um leið, hvað ég ætlaði mér að muna eftir að vera þakklát fyrir hversdagsleikann. Að allt væri bara "normal" .. og að það sem mér þætti venjulega sjálfsagt væri kannski ekki alltaf sjálfsagt. Að ég hefði bara hreinlega fætur, og það hrausta til að ganga á - þakka fyrir allt það góða sem dagurinn færir mér á hverjum degi.
Dóttir mín var heima, og ég var glöð að heyra rödd hennar í dyrasímanum og enn glaðari að faðma hana að mér. Símann hafði hún misst á skokki fyrr um daginn.
Ég held að við höfum flest, ef ekki öll verið þarna einhvers staðar.
Mamman og dæturnar tvær, Jóhanna Vala (sú sem týndi símanum!!) og Eva Lind á brúðkaupsdegi þeirrar síðarnefndu.
Litla Elisabeth Mai, dótturdóttir sem varð tveggja ára 7. maí!
Við röbbuðum á Skype á afmælinu hennar og hún gaf ömmu að borða!
"Stóri" dóttursonurinn Ísak Máni nýtur þess að blása á biðukollur. Náttúran er líka eitthvað sem er þakkarverð og það kostar ekkert að henda sér í blómabreiðu og njóta ;-)
Ég verð fimmtug á árinu og ég á aðeins eina ósk - og það er að við náum öll að koma saman vinir og ættingjar. Hvort sem það verður á afmælisdaginn eða ekki. Því að það þarf að safna fólkinu heim frá Danmörku líka ;-)
Mamma sagði alltaf þegar hún var spurð hvað hún vildi í afmælisgjöf, - "ég vil bara góð börn" .. Ég held að ég taki undir það með henni. Góð börn eru mikil gjöf. (svo þigg ég ilmvötn, bækur og blóm - smá væmnisjöfnun)
"Ég er ánægð með söng í hjartanu og saltkorn í minn graut ... "
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.5.2011 | 12:38
Ertu matur eða manneskja? Erum við það sem við borðum eða erum við það sem við erum? Veistu hver þú ert?
Svolítið dramatískur titill, að sjálfsögðu skiptir máli að maturinn sem við látum ofan í okkur sé næringarríkur, það er bara almenn skynsemi. Hér er ég meira að tala um að virði mannssálarinnar, virði okkar er eigi metið né vegið eftir hvað við borðum.
Hvað segir þú um að skoða þann möguleika að vandamál tengd offitu hafi ekkert eða lítið með mat að gera? Það sé aðeins birtingarmynd, aðeins toppurinn á ískjakanum! Líkamsþyngdin sé aðeins birtingarmynd vandans?
Sumir eru andlegir offitusjúklingar og það sést aldrei utan á þeim. Það þarf hugrekki til að ganga inn í tilfinningar sínar, að horfast í augu við lífið, upplifa höfnun, upplifa sorg - við eigum það til að svæfa þær með neyslu, fáum okkur bjór, vín, mat, leitum í tölvur, vinnu...
Þegar þú hefur leitað sátta milli líkama og huga, sátta við sjálfa þig hættir þú að nota mat sem huggun, þunglyndis-eða deyfilyf. Þú lærir að hlusta á líkama þinn og virða, borða þegar þú ert svöng og nýtur þess, en hættir þegar þú ert södd.
Hvað ef umgengni þín við mat endurspeglar umgengni þína við allt annað í lífinu? ... Missir þú meðvitund þegar þú borðar? Viltu lifa í meðvitundarleysi og hvað segir það um lífið þitt almennt? Hvað þarf að skoða?
"Food for thought"
Af hverju þarftu að borða popp og drekka kók í bíó á meðan að þú ert að njóta veislu fyrir hugann? Hver græðir á því? Af hverju ekki að njóta þess að borða popp og drekka kók með fullri meðvitund, eða er myndin ekki nógu góð til að sleppa því að borða á meðan?
Í námskeiðinu "Meðvitund í stað megrunar" skoðum við saman rótina fyrir meðvitundarleysinu og vöknum! Nokkur pláss laus - byrjum í kvöld kl. 20:00 ;-) Vertu með - vertu hugrökk!
Hægt að skrá sig hér: Lausnin.is
p.s. ég er að byrja að vinna með þessa lausn, þess vegna er verði haldið í lágmarki. Fyrsta (vonandi af mörgum) námskeiðið verður haldið fyrir konur. Ef fólk hefur áhuga á þessu málefni er möguleiki að halda fyrirlestur fyrir hópa eða stofnanir.
Upplýsingar: johanna.magnusdottir@gmail.com
----
Smá "viðbót" um hugrekkið:
Hugrekki .. að lifa af heilu hjarta
Innblástur frá Brene Brown - The Power of Vulnerability"
Máttur berskjöldunar - Máttur varnarleysis - Máttur þess að fella varnir
Hugrekki - Courage
Íslenska orðið hugrekki vísar til hugans, en courage vísar til hjartans, en er komið af latneska orðinu core, sem þýðir hjarta. Á frönsku er hjartað: coeur. Í enskunni er orðið core notað fyrir kjarna.
En hugrekkið er eitthvað sem kemur frá kjarnanum, frá hjarta manneskjunnar. Það er þó umdeilt í andans fræðum hvort að kjarni hugsunar manneskjunnar sé í maganum (gut feeling) eða hjartanu (follow your heart).
En hvaða hugrekki er Brene Brown að tala um?
Hún er að tala um hugrekkið:
- við að sætta sig við að vera ófullkomin/n
- við að leyfa sér að lifa,
- við að lifa eins og við sjálf viljum
- að lifa eins og við erum í innsta kjarna en ekki eins og utanaðkomandi vilja eða halda að maður vilji lifa
- til að meta sjálfa sig sem gilda og verðuga manneskju
--------
Fólk sem er tilbúið að taka utan um sig sjálft fyrst og svo aðra, er hugrakkt.
Fólk sem er tilbúið að vera það sjálft, láta af því að vera það sem aðrir vildu að þeir væru er hugrakkt.
Fólk er hugrakkt sem er tilbúið til að samþykkja varnarleysi sitt eða viðkvæmni sína, það að fella varnir er nauðsynlegt.
Hvað er að fella varnir? Það er að horfast í augu við lífið eins og það er, taka á móti því sem koma skal, en ekki flýja af hólmi, hörfa undan eða deyfa sig.
Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat - leita í tölvur, vinnu.. allt sem tengja má við fíkn. En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum.
Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást - þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv. Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.
Ef við brynjum okkur, er hætta á að við brynjum okkur líka (óvart) fyrir hinu góða.
Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis. Nýlega var grein í fjölmiðlum þar sem var rætt um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.
Hugrekki - er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við. Jafnvel að bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.
Við þurfum að hafa hugrekki til að ganga inn í aðstæður, án þess að vita hver útkoman verður. Hætta að strengja öryggisnet fyrir tilfinningar.
Ástæðan fyrir því að við oft höfnum ást er óttinn við að vera hafnað sjálfum, eða óttinn við að særa aðra. Það þýðir að við erum farin að setja óttann í forgang fyrir ástina. Hugrekki er að fara af stað þrátt fyrir óttann, þannig sigrumst við á honum. Útkoman verður bara að koma í ljós, en ef við stöðvum okkur vegna óttans verður engin útkoma og við lifum í stöðnun.
Við eigum ekki alltaf að þurfa að vita "hvað næst" og hvernig þetta eða hitt fer. Það stöðvar mann í áskorunum sem okkur er ætlað að takast á við, aftengir okkur frá fólki sem okkur er ætlað að þekkja og kynnast. Við þurfum ekki, og eigum ekki, að vera alltaf að skammast okkar fyrir þetta og hitt. "Skammastu þín" er eitt það ljótasta sem hægt er að segja við fólk, hvað þá við okkur sjálf.
Viðbót:
Hér er mikið fjallað um að gera eins og maður sjálfur vill, en ekki alltaf vera að fara eftir öðrum. Sjálfsþekking, þekking á eigin vilja er því bráðnauðsynleg. Hver erum við í okkar innsta kjarna, hverju þurfum við að eyða af harða diskinum til að geta lifað sem 100% við sjálf? ..
p.s. er það hægt?
Það sem hér á undan kemur er blanda af mínum eigin hugrenningum og Brene Brown.
Jóhanna Magnúsdóttir
Maí 2011
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mig langar að vekja athygli á honum "litla" frænda mínum og afrekum hans á íþróttasviðinu, en þessi frændi heitir Kári og er sonur Brynjólfs "litla" bróður míns og konu hans Þóru Ingvadóttur. Báðir eru þeir vel yfir 190 cm á hæð og sonurinn meira að segja vaxinn föður sínum yfir höfuð, svo að litli á að sjálfsögðu hér við að þeir eru yngri en ekki minni.
Kári Brynjólfsson sem er fæddur 1988, fór snemma að hafa áhuga á hjólreiðum (vá hvað þetta er eitthvað "maður er nefndur-legt") og Binni bróðir var á tímabili formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur svo áhugamálið var svo sannarlega innan fjölskyldunnar. Það var reyndar svolítið skondið, að við héldum að Binni myndi aldrei læra að hjóla, en þegar hann fékkst loksins upp á hjól fór hann ekki af því. Hann hjólaði tímunum saman og varð svo veikur af harðsperrum.
En s.s. til að gera langa sögu stutta (og svo kann ég kannski ekki söguna best manna) þá býr fjölskyldan, Binni, Þóra, Kári og Ingvi núna í Kaupmannahöfn og Kári er að læra að verða einhvers konar hjóla "mekaniker" .. og er kominn í einhvers konar hjóla-elitu-lið.
Árið 2010 kom hann til Íslands, sá (eða hjólaði) og sigraði, þ.e.a.s. hann varð Íslandsmeistari í fjallareiðhjólum 2010.
Ég hef nokkrum sinnum orðið vitni að því hve stíft Kári æfir, og nú síðast þegar hann kom í heimsókn til Íslands sl. páska m.a. til að chilla (að ég hélt) en þá fékk hann lánað hjól og hjólaði amk tvisvar fyrir Hvalfjörð fyrir utan allt annað, í annað skiptið var það á Skírdag, en þá var ég að keyra Hvalfjörðinn og veðrið var þannig í Brynjudalnum að áin fussaðist upp úr farvegi sínum. Binni bróðir var orðinn áhyggjufullur og bað mig að fylgjast með hvort ég yrði vör við Kára, en ég var á ferð með systursyni mínum og sagði ég við hann að líklegast þyrftum við frekar að leita utan vegar en innan, hann hlyti bara að hafa fokið út af veginum! En Kári hafði komist klakklaust, en þó hraktur og blautur inn að skinni í bústað til fjölskyldunnar í Hvalfirði, svo ekki lá hann utan vegar sem betur fer.
En Kári uppsker nú sem fyrr, fyrir elju sína og dugnað og í fyrradag náði hann frábærum árangi í keppni í Danmörku, sem kallast H12 en það er hjólað í 12 klukkutíma og sá sigrar sem fer flesta hringi (vantar skýringu hvar) á þessum 12 tímum. Sá sem sigraði fór 23 hringi - 18,19 km á klukkustund, en Kári lenti í 5. sæti fór 22 hringi - 17.43 km á klukkustund. Mér sýndust vera 72 skráðir til leiks í einstaklingskeppni karla. (Þvílíkur íþróttafréttaritari )
Pabbi hans skrifaði á Facebook:
"Kári Brynjólfsson tók þátt í 12 tíma hjólreiðakeppni í gær og náði frábærum árangri, 5. sæti í einstaklingsflokki en einnig er 4 manna liðakeppni. Kári byrjaði mjög vel og var fyrstu tímana í 3. sæti. Svo dróg af honum og hann datt niður í 6. sæti en náði glæsilegum lokahringjum og tryggði sér þar með 5. sætið í þessari erfiðu keppni."
Pabbinn er sem sagt ánægður með sinn dreng, væri auðvitað ánægður með hann hvort sem hann hjólaði eða ekki, en hamingjusamur yfir árangrinum á "hjólasviðinu" og frænkan er það sem sagt líka!
Óska Kára frænda hjartanlega til hamingju með að standa sig svona vel, og að sjálfsögðu að vera besta eintakið af sjálfum sér - gera SITT besta, en meira getur ekkert okkar gert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.5.2011 | 08:46
Að skera af sér hæl og tá ... til að ná takmarkinu - í tilefni megrunarlausa dagsins
Við þekkjum eflaust flest söguna um Öskubusku og systurnar tvær - allar höfðu þær hið sama takmark; að eiga prinsinn og lifa hamingjusamar eftir það.
Margar konur - og reyndar menn líka, álíta að hamingjan felist í því að vera mjó/r.
Það er ekki alveg svo einfalt, svo sannarlega er æskiegt að vera í kjörþyngd, ekki of feit og ekki of mjó. En þeir vita það sem hafa prófað að hamingjan þarf að koma innan frá. Hún fæst með sjálfsþekkingu, að skynja sjálfan sig og að elska sjálfan sig. Ef við erum óánægð með útlit okkar elskum við ekki sjálf okkur.
Í staðinn fyrir að röðin sé:
1. Grenna mig 2. elska mig 3. vera hamingjusöm
er betra að hún sé
1. Elska mig 2. vera hamingjusöm 3. kemst í kjörþyngd
Kjörþyngd er heilsufarslegt atriði, en það er vitað að offita og/eða vannæring veldur aukinni hættu á ótímabærum dauða. Fólk getur verið of feitt en vannært, vissuð þið það?
Þegar við elskum okkur og virðum - og elskum lífið, já, akkúrat eins og við erum í dag, þá elskum við og virðum líkama okkar, hreyfum okkur, borðum af hófsemi og skynsemi. Það er allt í lagi að fá sér bananasplitt eða eplaköku með rjóma með, við erum að tala um hófsemd, hinn gullna meðalveg.
Spurðu bara líkamann hvað hann vill og hvernig honum líður vel.
Kæri líkami viltu að ég reyki smá reyk ofan í þig? .... "Nei takk" ..
Kæri líkami viltu að ég borði meiri djúpsteiktar rækjur (þrátt fyrir bakflæðið og ég sé pakksödd fyrir?) .." ö, nei takk"
Kæri líkami, ég er svöng og hef ekkert borðað síðaðn klukkan þrjú og nú er kominn kvöldmatur, viltu fá svona kjúkling með tómatmauki, og ég lofa að borða bara þar til ég er södd? ... "Jei, já takk" ..
Ef við setjum okkur markmið með því að ná af okkur kílóum þá verðum við að hafa það í huga að það skiptir máli hvers vegna við erum að því og hvaða aðferðafræði við notum.
Það væri hægt að skera af sér fótinn, þá myndi vigtin örugglega sýna lægri tölur.
Megrun er í raun álíka "gáfuleg" og að skera af sér hönd eða fót.
Ég segi þetta af reynslu - því ég er, eins og þið þarna úti mörg, búin að prófa flest átaksnámskeið sem í boði eru, brennslutöflur, trimform, djúskúra o.fl.
Fattaði ekki að ég þyrfti bara að tala við líkama minn og spyrja hvað hann vildi, fattaði ekki að ég þyrfti bara að elska sjálfa mig og sýna mér virðingu þá kæmi hitt að sjálfu sér.
Þessa uppgötvun fékk ég í gegnum ýmsa aðila og miðla, og er nú að miðla henni í námskeiði á vegum Lausnarinnar. En Lausnin er grasrótarsamtök um meðvirkni.
Meðvirkni er þegar við höldum að við séum að vera góð en erum í raun að ala á slæmri hegðun (mjög mikil einföldun).
Þegar að manneskja sem er í áhættu vegna þyngdar sinnar ætlar að vera "góð" við sig og/eða verðlauna sig með því sem er fitandi, er hún ekki góð, heldur að ýta undir vonda breytni. Þannig verðum við í raun meðvirk með sjálfum okkur.
"Það er skammgóður vermir að missa piss í skóna" .. segir í textanum ..
Ef við erum að bögglast við heilsufarið, leitum þá annarra leiða til að vera "góð" við okkur en að borða þegar við erum ekki svöng, rifjum upp áhugamálin, fáum fullnægju í öðru en súkkulaði eða frönskum karftöflum. Eru ekki til aðrar og betri leiðir til að vera góð við okkur sjálf og ná langtímamarkmiðum? Langtímamarkmiðum sem liggja m.a. í góðu heilsufari og fleira sem því fylgir.
Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas (glös) eða of mikið af mat. En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum.
Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást - þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv. Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.
Að fara inn í sorgarferli krefst hugrekkis. Nýlega var grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.
Kannski eigum við eftir að gera upp eitthvað í fortíðinni, eða erum að takast á vði nútíðina með því að deyfa okkur.
Ég verð með kvennanámskeið þar sem ég mun deila mínum "uppgötvunum" sem hefst á mánudag 9. maí kl. 20:00 í Lausninni Meðvitund í stað megrunar, og býð einnig einstaka fyrirlestra um málið fyrir fyrirtæki og stofnanir, leitið endilega upplýsinga hjá mér þið sem hafið áhuga; johanna.magnusdottir@gmail.com (skráning á sama stað)
Það er frelsi að losna úr megrunarkúrum og kaloríutalningum. Við þurfum ekki að skera af okkur hæl eða tá til að ná að takmarki okkar. Við erum ekki föst á milli steina eins og fjallgöngumaðurinn sem þurfti að skera af sér fótinn til að losna. Steinarnir eru okkar eigin hugarsmíð.
Misbjóðum ekki líkama okkar, hvorki með því að bjóða honum upp á það sem veikir okkur (reykingar, matur sem er okkur óhollur) né með að skera af okkur tær eða hæla. Þannig verður lífsgangan sjálfsskipuð þrautaganga.
p.s. af hverju ætli ævintýrin endi alltaf við brúðkaupið? ... Hvað svo?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2011 | 23:32
Sólarhylling ..
Ég get ekki státað af mikilli hreyfingu undanfarið. Rölt í vinnuna fram og til baka og léttir göngutúrar við og við var svona það mesta, en svo gerðist það bara alltíeinu, réttara sagt í dag, að konan hreyfði sig.
Ég er búin að fá að heyra það úr mismunandi áttum að hreyfing sé alveg svakalega lífsnauðsynleg, ekki minna fyrir sálina en líkamann. Sumir taka það djúpt í árinni að þú bara hreinlega verðir þunglyndur ef þú hreyfir þig ekki. 30 mínútur á dag lágmark - það er málið!
Jæja, Hulda systir spurði mig í gær hvort ég vildi fara að ganga með henni á morgnana klukkan 7:30, og ég var fljót að svara játandi, reyndar ekki bara hlaupa heldur að fara í eitthvað hlaupaprógram "From Couch to 5K" .. K stendur þá fyrir kílómetrar.
Hún mætti stundvíslega klukkan hálfátta fyrir utan dyrnar hjá mér og við lögðum af stað út í veðurblíðuna. Hlupum 8 x 1 mínútu og gengum í 3 mínútur á milli (held ég). Hlupum út á Seltjarnarnes! Fór svo í vinnuna og var með einn nemanda í viðtali klukkan 10, en þar sem veður var svo gott stakk ég upp á útiviðtali, eða labbrabbi sem hún tók bara mjög vel í. Gengum við í tæpan klukkutíma - næstum út í Nauthólsvík.
Eftir vinnu fór ég svo á lífsgæðanámskeiðið mitt í HR og þá var okkur boðið í klukkutíma Jógatíma með Auði Bjarnadóttur, - og það úti í sól og sumaryl á grasbala við sjóinn. Það var FRÁBÆRT .. mæli með svona sólarhyllingu úti í góða veðrinu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2011 | 08:52
Ef að líkaminn gæti talað ..
Líkami: Ég er svangur
Hugur: Ég skal gefa þér að borða
Líkami: Ég er saddur
Hugur: Æ, það er eitthvað tómarúm í mér ég ætla að borða meira
Líkami: Nei, nei, ég mótmæli, mér er farið að líða illa og er orðinn veikur ..
Hugur: Piff, hlusta ekki á þig líkami, heyri ekki í þer og held bara fyrir eyrun ..
Líkami: Ég er svangur
hugur: ég ætla ekki að gefa þér að borða þú átt ekki að stjórna, heldur ég
Líkami: Ég mótmæli mér er farið að liða illa og orðinn veikur
hugur: Piff líkami, ég hlusta ekki á þig ..
Að elska sjálfa/n sig er að elska sig allan sem heild. Líka líkama sinn. Þarna gæti líka verið mynd af reykingarmanni, einhverjum sem hreyfir sig aldrei .. eða hvað sem við leggjum á líkama okkar sem er honum slæmt og hefur varanlegar afleiðingar.
Ég trúi því ekki að einhver vilji einlæglega misbjóða líkama sínum með ofeldi, vannæringu og að neita að hlusta á hann, en við þurfum að spyrja okkur hvers vegna við gerum það, þegar að líkaminn er hluti af okkur?
Getur verið að þarna vanti einhver tengsl, þarna sé brot í sálinni sem þarf að skoða, neikvæð skilaboð frá umhverfi sem við hlustum frekar á en okkar eigin.. ?
Ég er að kenna sjálfri mér að elska sjálfa mig og rækta, og hef fundið það út að sambandsleysi líkama og hugar er eitt af því sem hindrar okkur í því að lifa heilbrigð.
Þegar þetta sambandsleysi er milli líkama okkar og hugar þá þurfum við að íhuga að laga það.
Við megum og eigum að láta okkur þykja vænt um okkur sem heila manneskju. Vanda sig á lífsgöngunni og með því uppskera betri heilsu: líkamlega, andlega og félagslega.
Að borða með meðvitund, er að muna eftir því að hlusta á líkamann - garnagaulið, pirringinn þegar við erum svöng, og einnig hlusta þegar við erum södd.
Geneen Roth setur upp "guidelines" til að hjálpa okkur við að læra að borða með meðvitund, og ljáir þannig kærleikanum rödd. "If love could speak" .. þessar ráðleggingar eru í takt við að þykja vænt um líkama sinn, um sjálfa/n sig.
- Eat when you are hungry.
- Eat sitting down in a calm environment. This does not include the car.
- Eat without distractions. Distractions include radio, television, newspapers, books, intense or anxiety-producing conversations or music.
- Eat what your body wants.
- Eat until you are satisfied.
- Eat (with the intention of being) in full view of others.
- Eat with enjoyment, gusto and pleasure.
Með þessu ertu að segja skilið við kúra, að telja kaloríur, vigta ..hætta stríðinu, en auðvitað þarf að vita hvað það er sem er gott fyrir líkama sinn.
Ég hef verið að kynna mér það sem Geneen hefur verið að segja frá í bókinni Women, Food and God, an Unexpected path to almost everything, langar til að deila því og verð með námskeið sem hefst 9. maí og hægt að skrá sig hjá www.lausnin.is
"Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli."
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)