21.6.2011 | 09:12
Fellini og frelsunin frá "Röddinni" ...
Giulietta degli spiriti er mynd sem ég horfði nýlega á með félögum mínum í rannsóknarhópnum Deus Ex Cinema.
Myndin er litrík, og mikið konfekt fyrir skilningarvitin. Þrátt fyrir mikinn súrealisma, er myndin býsna sterkur raunveruleiki margra. Raunveruleikinn er reyndar stundum súrealískur.
Efni myndarinnar kallast á við efni það sem ég hef verið að læra um meðvirkni. Þ.e.a.s. sá hluti sem lýtur að því að finna eigin rödd, en vera ekki bundinn í raddir eða bregðast við umhverfinu með lærðri hegðun frá æsku.
Það er staðreynd, að við sjálf erum oftast okkar stærsta hindrun, vantraust okkar á sjálfum okkur. Það er okkar eigin úrtölurödd, sem talar niður drauma okkar, skammar okkur, eða hindrar í að gera hluti sem við gætum gert ef við hefðum ekki þessa hindrun. Að sama skapi þurfum við að sjálfsögðu að hafa okkar takmarkanir svo við förum ekki að voða. En við viljum þagga niður í röddinni sem hindrar okkur í að vera við sjálf.
Einn kafli bókarinnar Women, Food and God, eftir Geneen Roth, fjallar um "The Voice" eða Röddina. Stundum nefnt Superego. Þarna er um að ræða okkar innri rödd, ekki þessi sem elskar okkur skilyrðislaust - heldur þá sem er dugleg við að kritisera okkur. Röddin sem gæti sagt "hvað þykist þú eiginlega vera" .. Röddin sem stelur frá okkur draumunum og skellir okkur niður flötum þegar við fáum áhuga á að framkvæma eitthvað sem er óvenjulegt eða erfitt. Þessi rödd gæti t.d. hljómað eins og mamma okkar þegar við vorum börn. Stundum segja mömmur og pabbar eitthvað óvarlegt og drepa þá líka óvart niður sjálfstraust og drauma. Það er ekki vegna þess að þau voru vond, heldur vegna þess að þau kunnu ekki betur, voru e.t.v. að tala eins og þeim var kennt, og kannski kom þessi rödd í raun einhvers staðar úr vanvirkri fjölskyldu í fortíð.
En aftur að myndinni.
Aðalpersónan Júlíetta, er óhamingjusöm og er í því að þóknast öllum í kringum sig, þ.m.t. eiginmanni sem heldur fram hjá henni, en hún hefur valið að láta eins og ekkert sé og halda "kúlinu". Í myndinni er ferðast aftur í tímann og hún sýnd sem barn þar sem hún er að leika í skólaleikriti og er bundin niður. Móðir hennar er stjórnsöm og pabbinn ævintýragjarn og fer í burtu með sirkuskonu. Ég man ekki fléttuna nákvæmlega, en það sem skiptir máli er hér hvernig Júlíetta vinnur úr sínum málum.
Í myndbrotinu sem fylgir er Júlíetta komin á þann stað að íhuga að fremja sjálfsmorð, þegar hún heyrir barnsgrát, - hún spyr hvaðan þetta komi og þá birtist andlit móður hennar sem segir að þetta sé aðeins vindurinn.
Hún neitar því og sér þá litla hurð, sem á að tákna undirmeðvitund hennar, og hún ákveður að opna dyrnar. Móðir hennar segir henni að stoppa, en þá svarar Júlíetta
"Ég er ekki hrædd við þig lengur" .. Um leið og hún segir það opnast dyrnar.
Stundum er það þannig að við tileinkum okkur rödd fortíðar, rödd móður, rödd föður eða einhvers sem hefur haldið aftur af okkur. Við ruglumst á eigin rödd og annarra.
Einhvers sem hefur ekki haft trú á að við gætum staðið á eigin fótum og við höfum þannig tileinkað okkur þá trú ómeðvitað. Við höfum viðhaldið "röddinni" sem talar niður til okkar, dregur úr okkur kjarkinn og viðhöldum óttanum.
Stundum erum við það brotin, orðin það kjarklaus að við þurfum að fá utanaðkomandi stuðning. Nýlega las ég bréf frá nemanda til námsráðgjafa, sem hafði náð sér upp úr óreglu "Ég fór að trúa á mig, af því að þið höfðuð trú á mér." - Oft er sagt að við þurfum að treysta á okkur til að aðrir geri það, en ef við erum mjög brotin, þá þarf oft "pepplið" til.
Hvernig sem Júlíetta fer að þessu hefur hún loksins komist á þann stað í lífinu að hún þaggar niður í röddinni, hlustar á eigin rödd og fer inn í litla herbergið þar sem hún sér sjálfa sig sem litlu stelpuna í skólaleikritinu, og losar böndin sem hún er bundin með.
Hún frelsar hana - leysir úr viðjum fortíðarinnar. Hún hafði öðlast sjálfstraust til þess, tekur utan um stelpuna og sleppir henni svo út þar sem hún hverfur.
Aðeins þannig gat Júlíetta öðlast frelsið. Aðeins þannig að fara til fortíðar og losa um barnið sem var bundið. Hún fór ekki til baka sem barn, heldur fullorðin manneskja og frelsaði barnið.
Á þennan máta frelsum við okkur sjálf, förum inn í okkar eigin meðvitund, skoðum rætur, uppruna og ef að við sjáum þar grátandi barn þá tökum við það í fangið og hleypum því svo út í sólina.
Barnið þarf ekki að vera bundið, það getur bara verið sitjandi undir borði, uppi í stiga, inní rúmi eða hvar sem er. Kannski átt þú svona sögu af sjálfri þér eða sjálfum þér.
Merkilegt nokk eigum við það flest, en oft er djúpt á að finna þetta barn. Oft er sagan í móðu, enda oft sár. Margir muna ekki eftir bernskunni, heldur hafa blokkerað hana, en hún er þarna að sjálfsögðu og kannski er þar grátandi barn sem þarf að hugga.
Til að við getum lifað hamingjusöm í núinu, þurfum við stundum að fara til baka í þáið til rótanna, til barnsins og frelsa það, því að þó við vitum ekki af því þá er það þarna einhvers staðar að halda aftur af okkur og heftir okkur í því sem við erum í dag.
Heftir okkur í að elska, heftir okkur í að elska okkur sjálf og vera við sjálf.
Það þarf ekki að hafa verið dramatísk reynsla á mælikvarða fullorðinna, en hún getur hafa verið mjög erfið og óréttlát á mælikvarða barns. Barn er ekki með sömu viðmið og fullorðnir og raunir þess og tilfinningar eru alveg jafn mikilvægar og raunir okkar sem fullorðinna.
Þess vegna ætti ekki að gera lítið úr tilfinningum barns, eða sorg yfir því sem okkur finnst ómerkilegt.
Börn fara oft að bæla tilfinningar sínar ef við gerum lítið úr þeim, eða jafnvel hlæjum að þeim vegna þess að okkur finnst þær ómerkilegar. Það getur haft þær afleiðingar að þegar eitthvað stórkostlega alvarlegt kemur upp (á bæði barns og fullorðinsmælikvarða) barn verður fyrir ofbeldi eða misnotkun, þá treystir það ekki lengur hinum fullorðna til að taka við tilfinningum sínum.
Það er því dauðans alvara að gera lítið úr tilfinningum barns, jafnvel "væli" því að vælið er oft eina leið þess að tjá tilfinningarnar.
Það þarf að sjálfsögðu að gera mun á því þegar barnið er að gráta vegna þarfa eða langana.
Þörfin er þá þörfin fyrir hlýju, knús, athygli o.s.frv. en löngun er "þörfin" fyrir súkkulaði eða dót í búðinni. En til að flækja málin má líka segja það að barn sem trompast í búðinni yfir dóti, gæti alveg eins verið að tjá vanlíðan, ef að því er ekki mætt eða hefur ekki verið sett mörk.
Ágætis regla er að segja áður en farið er inn í búð; í dag ætlum við að kaupa einn hlut, eða í dag ætlum við bara að kaupa það sem vantar í matinn, ekki dót eða nammi. Þá veit barnið fyrirfram hvað það fær. Aldrei skal brjóta þessa reglu, því þá hrynur allt regluverkið.
Það er gott að reyna að átta sig á því í dag, hverjir eru í þínu "peppliði" og hvort að það sé ekki örugglega maður sjálfur.
En nú er ég hætt og skil ykkur eftir með hana Júlíettu.
Ath! Ég átti þessi skrif "á lager" en langaði að dýpka fyrra blogg um meðvirkni með þessu, endilega kíkið á það ef þið eruð að pæla í svona hlutum.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2011 | 08:31
Mótvirkni við meðvirkni - að finna eigin rödd
Meðvirkni (codependence) er tilhneyging fólks til að vera yfirmáta gott, hjálpsamt eða verndandi og ýta þannig (því miður) oft undir neikvæða hegðun og sambönd. Þetta skaðar alltaf lífsgæði hins meðvirka sem setur líka yfirleitt sínar þarfir í annað sæti en er bullandi upptekin/n af þörfum annarra.
Meðvirkni á sér stað í öllum samböndum, innan fjölskyldu, vinnustað, vinahópi, í ástarsambandi o.s.frv. Meðvirkni getur falist í afneitun, lélegu sjálfsmati og stjórnsemi.
Orðið meðvirkni vill flækjast fyrir fólki, kannski vegna þess að orðið "með" er yfirleitt jákvætt orð og að vera virkur er líka jákvætt orð, þess vegna dugar orðið illa eitt og sér. Orðið styðjandi er líka jákvætt í sjálfu sér og þýðir það sama, en það verður neikvætt þegar það styður neikvæða hegðun.
Hið mikilvæga er að gera sér grein fyrir skilum á milli þess að styðja til jákvæðrar hegðunar og neikvæðrar. Það er jákvætt að sýna samhug, samlíðan, að vera næm á þarfir náungans til að styðja góða siði og byggja upp og svo framarlega sem það er ekki á kostnað þess að þú klárir þín batterí, því að batteríslaus getum við ekkert gefið og gögnumst hvorki sjálfum okkur né öðrum.
Bein þýðing á orðinu codepencency er auðvitað meðháð, eða kannski aðstoðarháð.
Það þýðir t.d. að við erum í klappliði eða stuðningsliði fólks við að vera háð hvers konar fíknum eða ósiðum.
Við ýtum undir lesti í stað þess að bæta í bresti. Við viljum vel, það vantar ekki en kunnum ekki betur því að við gerum það sem við höfum lært og viðbrögðin eru líka lærð.
Viðbrögð sem við lærðum í æsku.
Lærðum af því hvernig var talað til okkar.
Lærðum af meðvirku umhverfi (fjölskyldu).
Ef við erum meðvirk óttumst við höfnun, óttumst að vera ekki elskuð óttumst að gera okkur að fífli, óttumst almenningsálit, óttumst að vera ekki samþykkt.
Þegar við erum meðvirk lifum við ekki okkar eigin lífi heldur lífi annarra. Ekki í okkar eigin haus, heldur í höfði annarra, eða það sem við höldum að aðrir séu að hugsa eða vilji að við gerum.
Ef við erum meðvirk þá eru mörkin okkar óskýr, brotin, engin, of þröng eða of víð.
Við setjum ekki börnum okkar mörk, því við erum hrædd við viðbrögð þeirra, að glata ást þeirra og vináttu, að vera ekki elskuð.
Við setjum ekki maka okkar mörk, því erum hrædd við viðbragð hans, að glata ást hans og virðingu og að vera ekki elskuð.
Við setjum ekki vinnuveitanda okkar mörk, því við erum hrædd við viðbrögð hans, að glata virðingu og jafnvel að glata vinnu!
o.s.frv. o.s.frv.
Þegar við höfum játast því að vera meðvirk, hvað þá? Vandamálið/illgresið er orðið sýnilegt, en ræturnar/orsökin eru undir mold.
Þá þurfum við að fara að grafa, skoða og auðvitað væri best að ná að rífa það upp með rótum.
Ræturnar liggja djúpt, þær liggja nær undantekningalaust í bernskunni og svo þéttast þær og styrkjast þegar við eldumst.
Ofbeldi er andstæða uppeldis. Ofbeldi er ekki agaleysi. Ofbeldi er ofstjórnun. Ofbeldi er markaleysi.
Við höfum sem sagt ÖLL verið beitt ofbeldi og við beitum ÖLL ofbeldi. Vegna þess að við erum ekki fullkomin og kunnum ekki betur.
Þegar við segjum við barn; "Æ þér líður ekkert svona illa, hættu þessu væli" - erum við að beita barnið ofbeldi, því við erum ekki að taka tillit til tilfinninga þess, heldur að segja því hvernig því líður.
Þegar við erum búin að gera það nógu oft hættir það að taka mark á sjálfu sér, tilfinningum sínum og leitar að sjálfu sér í höfðinu á foreldri sínu.
Þegar það síðan fullorðnast gerir það rödd foreldrisins að sinni, - rödd sem er kannski rödd enn lengra aftur í ættir, því þetta gengur svona koll af kolli.
Í staðinn fyrir að nota leiðinleg orð í uppeldinu; þú ert svo frek, þú ert svo löt.. þá þarf að snúa því við, - vertu góð elskan mín, það væri gaman að sjá þig vera duglega o.s.frv.
Hver manneskja er verðmæt án alls utanaðkomandi, án titla, án eigna, án maka, án barna. Hver manneskja ein og sér er fjársjóður og því erum við öll rík. Þegar við erum rík, eða gerum okkur grein fyrir ríkidæmi okkar þá fyrst getum við farið að gefa.
Ef að meðvirkni er ekki að vera góð, hvað er að vera góð?
Að vera góð (kærleikur) er að hafa hugrekki og lifa af heilu hjarta.
Að vera góð er að þora að setja fólki mörk og segja satt (þegar við gerum það ekki er það ekki vegna þess að við séum svona góð, heldur hrædd við viðbrögð þeirra sem við setjum mörk, við trúum að ef við gerum það ekki verðum við ekki elskuð, en auðvitað er það bara vegna brotinnar sjálfsmyndar og að við trúum ekki á verðmæti okkar).
Þegar við höfum nægilegt sjálfstraust, trú á sjálfum okkur - að við séum verðug og verðmæt, þorum við að segja það sem okkur finnst, hvað okkur langar og hvernig okkur líður. Þorum að gera það og óttumst ekki viðbrögð annarra, vegna þess að við þekkjum okkar eigin rödd.
Röddin sem er okkar eigin er ekki sú sem skammar okkur eða dæmir, heldur sú sem hvetur okkur til góðs.
Við erum öll meðvirk, því það er það sem við höfum lært, en fyrsta skrefið er að vita það, annað að spyrja "af hverju?" og þriðja að læra að þekkja sjálfan sig, vilja sinn og eigin rödd.
Vinkona mín sagði í gær, - ég þori, ég get, en ég veit ekki hvað ég vil.
Mér fannst það flott, og þekki þá tilfinningu.
Þá er oft gott að spyrja sig; "Hvað vil ég ekki?" .. "Get ég boðið mér upp á þetta"? .. "Byði ég öðrum upp á þetta?" ..
Kona safnaðu sjálfri þér saman. Maður safnaðu sjálfum þér saman. Þjóð safnaðu sjálfri þér saman. Kirkja safnaðu sjálfri þér saman. Heimur safnaðu sjálfum þér saman.
Hver er röddin? Hvað vill hún annað en frið, ást og samhljóm?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.6.2011 | 17:01
Í tilefni Kvenréttindadagsins 19. júní
19. júní er hátíðisdagur þar sem þvi er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi kosningarétt til Alþingis þegar konungur samþykkti nýja stjórnarskrá.
Konur hafa lengi verið tengdar við efni og karlar anda, og kemur skýrast fram í skiptingunni "Móðir jörð" "Faðir Himinn" .. eða faðir sem er á himnum. Hið kvenlega hefur verið hið holdlega og karllega hið andlega.
Allir gera sér þó eflaust grein fyrir eitt virkar ekki án hins. Líkaminn einn og sér er ófullkominn án anda og andinn er ófullkominn án líkama og jafnvægið á milli er það sem skiftir máli. Þess vegna skiptir svo miklu máli að virkja hið kvenlega, kvenleg gildi til jafns við karllæg gildi.
Karlar og konur eiga ekki að keppa sín á milli, heldur að hreyfa samfélagið jafnt með karlmennsku og kvenmennsku. Íslenskir feður vilja alveg örugglega sjá dætur sínar hafa sama rétt, sömu laun fyrir sömu vinnu og að þær séu virtar að verðleikum, ekkert síður en synir þeirra.
Við erum bara með svo gamalgróna heimsmynd, sem við erum hægt og rólega að vinna á, og bæði kalar og konur eiga oft erfitt með að venja sig við nýja tíma. Nýlega var keypt grill í vinnunni hjá mér, og þar starfa karlar í minnihluta. Samt kom ung samstarfskona hlaupandi til að athuga hvort að einn karlmaðurinn gæti ekki örugglega grillað pylsurnar. Annað svona dæmi kom upp í Hagaskóla þegar að kona gekk að mér og karlkyns samstarfsélaga mínum og sagði; "æ, þú ert karl getur þú ekki lagað faxtækið fyrir mig?" Til að gera langa sögu stutt, tók ég að mér bæði verkin. Í fyrra dæminu var karlinn bara of upptekin, en ég ekki og það þarf ekki karlmann til að grilla pylsur, eða hvað sem er. Í hinu síðara, þá hef ég mikla reynslu af skrifstofustörfum og tækjum, þannig að ég kom faxinu í gang með smá fiffi.
Við verðum að kveikja á perunni konur, - og líka átta okkur á því að við getum skipt um hana sjálfar.
"Þori ég, get ég, vil ég, - já, ég þori get og vil.
Við eigum ekki að hætta að gera hlutina fyrir hvert annað, dekra við hvert annað og hella í bikar hvers annars. En ekki láta eins og við getum ekki einföldustu hluti "bara af því við erum ekki karl" ..
Upphafning andans hefur verið ríkjandi, og lítið gert úr líkamanum. Honum byrjað eitur (reykingar, dóp, transfita o.s.frv.), brenndur í sól, ofnýttur til vinnu, niðurlægður ef hann er ekki með rétta "lúkkið" - misnotaður á alla mögulega vegu, - af okkur sjálfum. Það er ekki útlitsdýrkun, heldur virðing gagnvart þessum líkama, þessu eina farartæki sem okkur er úthlutað og á að endast út lífið.
Á sama hátt og við misvirðum líkamann misvirðum við móður Jörð, það er svo sannarlega gott að rækta hana, og nýta það sem við þurfum, en við göngum oft býsna illa og óþarflega um hana.
Eftirfarandi Móðurbæn kemur úr gömlu handriti sem var upphaflega á arameísku, svokallað kryptískt guðspjall. Ólafur Ragnarsson (Í Hvarfi) fékk þetta handrit frá líbanskri konu fyrir um 20 árum og heillaðist af því en þar voru tvær bænir, bæði faðir vor og móðir vor.
Þetta varð til þess að hann þýddi handritið og gaf út undir heitinu "Friðarboðskapur Jesú Krists" en í dag eru þessi handrit gefin út sem "Friðarboðskapur Essena" þetta var um 1990.
Helsta útbreiðsla bænarinnar er á ábyrgð hljómsveitarinnar Sigur-Rós VON... þeir heilluðust af móðurbæninni og hún varð textinn af laginu "Hún Jörð"...
Móðir vor sem ert á jörðu,
Heilagt veri nafn þitt.
Komi ríki þitt,
og veri vilji þinn framkvæmdur í oss,
eins og hann er í þér.
Eins og þú
sendir hvern dag þína engla,
sendu þá einnig til oss.
Fyrirgef oss vorar syndir,
eins og vér bætum fyrir
allar vorar syndir gagnvart þér.
Og leið oss eigi til sjúkleika,
heldur fær oss frá öllu illu,
því þín er jörðin
Líkaminn og heilsan.
Amen
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.6.2011 | 00:22
Ert´ ekki að grínast?
Fjögurra ára systurdóttir mín horfði áhyggjufull á fánann á föstudaginn langa og stundi svo upp að hann væri að síga niður.
Ég svaraði henni þá að þetta væri kallað að flagga í hálfa stöng.
Þar sem hún er á akkuru aldrinum, spurði hún "akkuru?" ..
Ég sagði þá að það væri verið að minnast þess að Jesús hefði dáið á föstudaginn langa.
Þá sagði hún:
"Ert´ ekki að grínast"
Okkur þótti þetta auðvitað bráðfyndið, sé tekið tillit til aldurs hennar.
------
Biskup Íslands flytur fyrstu ræðu eftir að mikil gagnrýni kemur fram í hans garð. Gagnrýni sem óþarfi er að endurtaka hér í smáatriðrum. Hægt er að lesa hana í langri sannleiksskýrslu.
Í ræðunni segir hann:
"Á tímum þegar margur horfir reiður um öxl og starir inn í skugga fortíðar skulum við leitast við að horfa fram, fram til birtunnar í von."
Hver er þessi "margur?"
Af hverju þurfti hann að orða þetta svona eins og við værum eitthvað starandi inn í skugga fortíðar eins og hálfgeggjuð?
Átti ég að segja við systurdóttur mina;
"Af því að einu sinni á ári horfa margir reiðir um öxl og stara inn í skugga fortíðar."
Þegar við erum að skoða fortíðina erum við að læra af henni, leita orsaka og leita lausna. Kannski leita að sjálfum okkur, eða broti af okkur sem týndist þegar við vorum beitt rangindum. Við gerum það með því að lýsa í öll horn, lýsa upp skuggana.
Í dag eru fórnarlömb fyrrverandi biskups, og fórnarlömb þöggunar embættismanna kirkjunnar að biðja um að fá viðurkenningu á því sem gerðist í fortíðinni. Biðja um að orðum þeirra sé trúað og biðja um að kirkjan verði heil á ný.
Þær upplifa kirkjuna ekki heila með sitjandi biskup við stjórnvölinn, og það hefur líka komið fram að mikill minni hluti þjóðar ber traust til biskups sem leiðtoga þjóðkirkjunnar.
"margur horfir reiður um öxl og starir í skugga fortíðar" .. er það virkilega þannig, eða er það að margur vill hyggja að fortíð svo hægt sé að byggja framtíð? Hyggja að fortíð svo að sömu mistökin endurtaki sig ekki aftur?
Við lfium ekki í fortíðinni, en við skoðum hana til að tína saman brotin sem hafa e.t.v. orðið eftir og til að hafa möguleika að komast heil í framtíðina.
Ef að konurnar sem rangindum voru beittar hefðu hætt að horfa, hefðu þær kannski lokað á graftarkýli sem hefði sprungið, kannski eins og systir sr. Hjálmars sem sprakk á sorglegan hátt, opnaði sig á síðu Sigrúnar Pálínu og DV og Pressan voru fljót að grípa gröftinn og dreifa honum.
Er ekki betra að vera meðvituð um hvað sárin geta gert okkur, en að fela þau?
Sjá ekkert illt, vita ekkert illt og heyra ekkert illt. Er það ekki að lifa í vanþekkingu, eða jafnvel blekkingu? Það hverfur ekki við að horfa ekki á það, en vissulega vex það við athyglina.
Athygli er eflaust eitt af lykilorðunum í þessu máli, en ein af mistökunum voru að athygli var af skornum skammti. Og hefði ekki verið svolítið sætt af biskupi að minnast beint á konurnar í þessari prédikun, ítreka það að hann væri einlæglega leiður og það úr prédikunarstól?
Fortíðin fékk reyndar mjög mikla athygli í þessari prédikun, þrátt fyrir orðin um að stara ekki í fortíðina. Jón Sigurðsson er ekki beint svona gaurinn í núinu.
Stundum er þörf á því, að beina ljósinu að sorginni, að upprunanum til að skilja betur nútíðina. Lýsa með vasaljósinu undir yfirborðið, því að vissulega er oft einungis toppurinn á ísjakanum sýnilegur.
Við erum ekki að tala um að lifa í fortíðinni, setjast þar að, heldur að skilja líf okkar betur.
Við horfum til fortíðar, á píslarsögu kvenna sem urðu fyrir ofbeldi þar sem þær áttu síst von á því.
Gleymum heldur ekki okkar hluta, hluta mínum og þínum, hluta samfélags, sem flykkist oft utan um gerandann en fordæmir þann sem brotið er á. Druslugangan væntanlega er til að minna okkur á það, ekki það ég sé hrifin af orðinu "drusla" en ég skil tilgang göngunnar að beina skömminni að gerandanum en ekki þeim sem verður fyrir ofbeldinu.
Við horfum til fortíðar, störum ekkert endilega, en minnumst Jóns Sigurðssonar til að skilja sögu okkar sem þjóðar, höldum upp á afmælisdag hans, þjóðhátíðardag okkar og flöggum í heila stöng.
Við horfum til fortíðar, flöggum í hálfa stöng til að minnast krossfestingar Krists, við lítum til hennar til að skilja og læra og líka til þess að upplifa sigurinn á krossinum, - upprisuna.
Sú von er sú besta sem við getum gefið þeim sem hafa orðið fyrir misnotkun eða ofbeldi.
Ég er ekki að grínast.
![]() |
Biður þjóðina að horfa fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
17.6.2011 | 06:45
Eva Rós Þórarinsdóttir 1 árs afmæli í dag 17.06.2011
EVA RÓS
Eva Rós, litla ljós
bros þitt burt tárin tekur
lítil sæt
svo dýrmæt
með mér hamingju vekur
Megir þú dafna mitt dýrðarljós
lýsa´um ævi alla
Eva Rós, Eva Rós
Heyr þína framtíð kalla
(Lag: Alparós)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2011 | 08:11
"Your business is my business" ..
Eftirfarandi pisti birti ég á Pressunni, en hér er hann í örlítið styttri útgáfu:
Á fleiri en einum fyrirlestri í gegnum tíðina, hef ég hlustað á fólk tjá sig um mikilvægi þess að hafa stefnu í lífinu, - að hafa framtíðarsýn.
"Ef við höfum enga stefnu, stefnum við ekkert." (sagði leiðbeinandinn á Dale Carnegie námskeiðinu).
Við höfum nú mörg lært þann bitra lærdóm að leyndarmál og lygar hafa einkennt líf margs fólks, sum okkar eru búin að uppgötva það, önnur ekki. Það má líka kalla það að lifa í blekkingu.
Ég ætlaði að láta pistilinn heita leyndarmál og lygar, en mundi eftir þessu gullvæga:
"Það sem þú veitir athygli vex" svo ég ákvað að hafa jákvæða fyrirsögn.
En hvernig er upplýstur heimur? Til að öðlast upplýstan heim þurfum við að leita þekkingar.
En hvað þarf ég, borgin, landið, heimsálfan, heimurinn allur, að gera til að breytast og verða að nýjum og upplýstum heimi, heimi sem lifir með vitund, heimi sem lifir í þekkingu?
Við hér á Íslandi erum búin að vera býsna dugleg við að funda, meira að segja þjóðfunda, og finna okkur vörður og gildi, og þar koma upp orð eins og heiðarleiki, jafnrétti og gagnsæi, hófsemd gægðist þar líka fram, en kannski af full mikilli hófsemi.
Framtíðarsýnin er því byrjuð að mótast, og auðvitað byrjum við, hvert og eitt að byrja á okkur, því að við ætlum sjálf að vera breytingin, og ýta svo við öðrum með fyrirmynd okkar og þannig fellur domino blekkingarinnar.
Við þurfum að hætta að hugsa "mind your own business" en í staðinn hugsa "your business is my business" - Við þurfum að þora að skipta okkur af, því að afskiptaleysi getur verið lífshættulegt.
Hér er ég ekki að tala um neikvæða afskiptasemi, heldur að láta okkur náungann varða, svipað og við gerum í eineltismálum.
Þetta er ekki einungis siðferðileg skylda okkar. Það er líka lagaleg skylda að láta vita ef okkur grunar að illa sé farið með barn og það er lagaleg skylda yfirvalda að sinna því. Hrikalega grátlegt dæmi var að koma upp í nágrannalandi okkar, Danmörku, þar sem börnum var misþyrmt af sjúkum foreldrum, og það viðgekkst í mörg ár.
Við þurfum svo sem ekkert að leita út fyrir landsteinana því að í nýútkominni skýrslu Unicef þá kemur í ljós að íslensk börn verða fyrir miklu ofbeldi.
Þegar við skiptum okkur af, eða látum vita af misgjörðum þá eru oft þeir til sem fara að benda á þann sem bendir og vinna gegn honum og jafnvel ásaka hann um slæman eða eigingjarnan ásetning.
Þess vegna þorir fólk stundum ekki að standa upp og láta vita. Nýlegt dæmi eru málin innan kirkjunnar. Sumt fólk sem þar hefur staðið upp til að styðja fórnarlömb embættismanna stofnunarinnar og gagnrýnt "mistökin" sem þar hafa átt sér stað, hefur fengið orð í eyra og verið ásakað um valdabaráttu, að vera með vesen eða eitthvað álíka.
Þetta hef ég svo sannarlega reynt á eigin skinni. Eb þegar ég hef verið með vindinn í fangið, þá hefur mér reynst vel að biðja Guð um leiðsögn, og ekki hefur veitt af. "Leið mig Guð, eftir þínu réttlæti" - er ágæt "mantra" til að þylja fyrir sér, auk orðanna úr 23. Davíðssálmi - "Þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér"..
Það þarf nefnilega hugrekki og óttaleysi til.
Hin neikvæða gagnrýni á þá sem vilja vinna með réttlætinu er þó sem betur fer undantekning, og kemur yfirleitt frá þeim sem hafa eitthvað að fela, eða vilja setja þetta upp sem lið. Raunin er að ég er ekki í neinu "liði" og set fram gagnrýni út frá því - og ég tel okkur jarðarbúa vera eitt lið!
Pólitíkin er sér kapituli - hér verður ekki farið út í hana og hún getur reynst víðsjárverður forarpyttur. Menn nýta sér hana bæði til góðs og ills. Pólitík getur orðið til ofsókna og menn kalla stundum réttlátar ábendingar pólitískar ofsóknir.
Að krefjast þess að fólk taki ábyrgð á gjörðum sínum, að krefjast réttlætis og benda á það sem betur má fara og að valdhafar axli ábyrgð, er ekki það sama að vilja hengja einhvern eða skjóta.
Það eru oft rök hinna röklausu.
Auðvitað þurfa þau sem berjast gegn óréttlæti alltaf að byrja heima, stöðva, íhuga og koma svo fram af heilu hjarta. Þau sem fara af stað til að rífa niður blekkingarvef, vita að ef það er ekki gert af heilindum munu þau sjálf festast í vefnum.
Hvað gerist þegar við tökum blekkingarvefinn niður? Hvað sjáum við betur?
Það þarf að hætta að vera með leynd hvað atvinnu varðar, launaleynd á að vera hluti af nýjum og betri heimi, skýrslur fyrirtækja um hagnað eiga að liggja fyrir og annað slíkt á að vera opinbert. Nýr heimur er sýnilegur heimur, hann er ekki "undir borðið" heimur með sínum leyndarmálum, óheiðarleika og lygum.
Hættum að lifa bak við grímur, komum til dyranna eins og við erum klædd, verum óhrædd við að vera við sjálf.
Leyndarmál ala á skömm, stundum erum við að skammast okkar fyrir eitthvað sem er alls ekki okkar skömm, en hvort sem það er okkar skömm eða annarra þá er betra að leggja hana í ljósið og fá þannig fyrirgefninguna.
Framtíðarsýnin er því grímulaus heimur, heimur án blekkingar og yfirborðsmennsku. Án hindrana, fáfræði og fordóma. Upplýstur heimur. Það getur stungið í augun til að byrja með og verið óþægilegt, en yfirleitt er hægt að venjast birtunni og tröllin verða að steini.
Ljósið er ekki eingöngu við enda gangnanna.
Þú ert ljósið.
Með því að vera ljósið, og stefna á ljósið - göngum við í trú á betri heim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2011 | 12:51
Guðfræðin mín - varúð ótrúlega langt blogg! ..
Ég skráði mig utan trúfélaga fyrir ca. ári síðan, ég upplifi mig samt sem hluta af kirkju Guðs á jörðu, greiði reyndar félagsgjöld ennþá til styrktar Kvennakirkjunni og sæki einstaka messur þar. Ég vil þó ekki tilheyra bara Kvennakirkju og ekki bara Karlakirkju, eða Karlskirkju? ..
Skrifaði svolitla grein um afstöðu mína á Pressunni fyrir þau sem hafa áhuga.
Jæja - ég var eiginlega búin að ákveða að skrá mig aftur í þjóðkirkjuna þegar hún væri búin að gera hreint fyrir sínum dyrum, farin að fara eftir jafnréttisáætlunum og starfa eftir kristilegu siðferði, en ég held ég segi bara pass, eftir að hafa heyrt af upphafi kirkjuþings.
Æðruleysi er orð dagsins.
Ég fór út úr bænum - ein ásamt hundinum Simba, og var í sólarhring í sveitinni. Ákvað þá að skrifa niður mínar hugsanir um Guð, - en ég er guðfræðingur auk þess að hafa lært gífurlega mikið um meðvirkni sl. ár, og í þeirri göngu hefur guðfræði mín dýpkað til muna og skilningur aukist.
En hér fer það sem ég skrifaði:
Hugtakið "Guð" er mjög umdeilt og vítt hugtak, séð á jafn marga mismunandi vegu og mennirnir eru margir. Fyrir suma er hugtakið stuðandi.
Vissulega eiga margir næstum alveg sömu guðsmynd, en aldrei alveg 100% vegna þess að það eru engar tvær manneskjur 100% eins og við getum aldrei horft frá nákvæmlega sama sjónarhóli, - jú á stað en þá ekki á sama tíma.
Þegar við tölum um Guð þá erum við því alltaf að tala út frá okkar eigin forsendum um Guð eða þennan x-faktor sem margir kalla Guð. Sumir vilja frekar tala um "Being" eða Verund, æðri mátt, eða hvað sem er. Það sem er á bakvið er það sem skiptir máli, eins og í flestu. Ekki hugtakið eða nafnið.
Þegar við þroskumst hefur guðsmynd okkar tilhneygingu til að þroskast með okkur.
Guðsmynd mín hefur þroskast mikið með mínum þroska, námi og reynslu.
Bókin "Kristur í Oss", Davíðssálmur 23 í Biblíunni og ljóð Steingríms Thorsteinssonar; Trúðu á tvennt í heimi, eru meðal áhrifaríkustu lesninga sem ég hef lesið hvað guðsmynd varðar. Nýjasta "aha momentið" var svo bók Geneen Roth; Women, Food and God auk efnis sem ég hef lesið um meðvirkni.
Allt hefur þetta það sameiginlegt að ég skil að það er aðeins einn Guð, - þó við trúum á "tvennt í heimi, Guð í alheimsgeimi og Guð í sjálfum þér" er það einn og sami guðinn.
Við erum sem dropar í hafi sem er myndað af okkur og hafið er þá Guð.
Við erum sköpuð í Guðs mynd, sköpuð sem dropar af Guði.
Guð er samferðaraðili foreldra okkar í uppeldinu, en þegar að foreldrar sleppa af okkur hendinni sleppur Guð henni ekki, og aldrei. Því þar sem Guð er í sjálfum okkur yfirgefur Guð okkur aldrei.
Við getum aftur á móti forðast Guð með ýmsu móti, með fíknum og með því að vera upptekin af öllu öðru en að horfa inn á við og það sem raunverulega skiptir máli.
Jesús kallaði Guð föður, því hann fann fyrir styrkri föðurhendi. Það var hans sjónarhóll. Einhver upplifir Guð sem móður, og um það hefur verið skrifað og ljóð samin. Guð er svo margt, hirðir, vinur, vinkona .. alltaf eitthvað eða einhver sem gefur þér mátt eða styður.
Guð er .. það er nóg og við erum, og það er líka nóg.
Barrtré í skógi er fullkomið barrtré og það bara ER. Það er ekki fyrr en við förum að leita okkur að jólatré og við höfum staðlaðar hugmyndir um hvað fallegt jólatré er að barrtréið er ekki lengur fallegt svona eitt og sér.
En barrtréið er sem betur fer ekkert meðvitað og pælir ekkert í því hvað öðrum finnst um það. Það nýtur þess að láta sólina skína á sig, sækja næringu úr moldinni og finna vindinn blása. Það er nóg.
En svo komum við og höggvum - veljum það skásta. Skreytum með kúlum og slaufum, og setjum stjörnu eða engil á toppinn. Pakka í kring. Og "Voila" - það er komið fallegt jólatré. Það ilmar ennþá því er haldið vakandi með vatni, en það er að fjara út. Þrátt fyrir skrautið og pakkana.
Hvaðan koma þessar væntingar um að við skreytum okkur, séum með rétta "jólatrés" lúkkið og hlaðin pökkum og pinklum? - Við getum litið á pakkana og pinklana sem launaseðla og efnahagsleg gæði.
Tréð þarf á mold, vatni og lofti að halda - og birtu.
Við þurfum á næringu að halda og elsku. Við þurfum líka á því að halda að tilheyra. Tilheyra einingu, samfélagi, hópi.
Kannski er það þess vegna sem við breytum okkur til að þóknast. Til að vera talin gild í hópnum okkar og til að vera elskuð?
En kannski erum við bara alveg nógu dásamleg, sígræn og lifandi sem barrtré án pakkanna, án skrautsins og án engilsins á toppnum.
Þið vitið að hann er bara gerfi? ..
Þó að við trúum á Guð í sjálfum okkur, þá erum við ekki Guð heldur af Guði og sama eðlis.
Guð er hafið og við erum dropinn.
Þegar við deyjum þá erum við eins og dropinn, gufum upp og verðum að skýi. Skýin og hafið eru eitt. Allt er eitt, við og Guð.
Að vera hólpinn fyrir trú er að vera hólpinn fyrir trú á sjálfan sig/Guð í sjálfum þér.
Þegar við vinnum vond verk erum við orðin fjarlæg okkur og um leið fjarlæg Guði. Sá sem titlar sig trúlausan en hefur óskert sjálfstraust hefur hvorki týnt sjálfum sér né Guði, þó að það sjálfstraust kalli hann ekki Guð. Það skiptir engu máli.
Það skiptir engu máli.
Merkimiðinn er bara eins og skrautið á jólatrénu.
Á meðan að manneskjan þekkir sjálfa sig, þekkir hún Guð. Guð bara ER og Guð er nafnlaus.
Hið ytra getur hjálpað okkur í sjálfsþekkingunni.
Sjálfsþekking gæti bætt ástandið í heiminum til muna.
Því sá sem þekkir sjálfan sig veit að hann vill frið, veit að hann vill ekki meiða náunga sinn, veit að hann vill vera góður - en kann það ekki því hann er fjarri sér, því fjarri vilja sínum. Því fjarri sem hann er þess meira gerir hann eitthvað sem er ekki hann sjálfur.
Því fjarri sem hann er sjálfum sér og þar með Guði.
Guð er því líka sameiningarafl - sameiningarafl hugar og líkama, eins og í Yogafræðunum og hugurinn mætir líkamanum í andardrættinum.
Við leiðarlok í þessari jarðvist þá tökum við einn lokaandardrátt til að kveðja líkamann, farartækið sem hefur flutt okkur um í tilverunni og þjónað frá vöggu til grafar.
Við svífum í sálarlíkama okkar upp til skýjanna til að sameinast Guði og þeim sem á undan eru farin.
Svo kemur rigning.
Nú gætu margir farið að hugsa; hún er ekki kristin, þetta er grautartrú, hún er .....
Er það ekki dásamlegt - að vilja fara að hengja á mig merkimiða, eða skrautið og setja plastengilinn á toppinn! ...
Við erum sköpuð í Guðs mynd og því erum við svo heppin að þurfa ekkert annað en að vera. Að vera vera.
Guð ER, þú ERT og ég ER .. punktur.
Ég ætla ekkert að skilja ykkur eftir í tómarúmi eftir að lýsa útsýninu frá mínum sjónarhóli - en segja frá minni leið til sjálfsþekkingar, til þekkingar á Guði:
Við erum af jörðinni, (jörðin er jafn góð líking og ský og haf - "af jörðu ertu komin/n að jörðu muntu aftur verða") - virðum jörðina og umhverfið allt og upplifum með að snerta hana, ganga berfætt og anda djúpt að okkur loftinu og baða okkur í vatni og drekka vatnið. Nýtum elementin eins og barrtréð gerir.
Æfum okkur með að hugleiða inn á við - alveg inn að hjartarótum. Hlustum á andardrátt okkar.
Tölum fallega til okkar og annarra. Bæði upphátt og í huganum.
Óttumst ekki álit annarra, eða byggjum á því - því þá flýjum við okkur sjálf
Samþykkjum ekki neikvætt tal í okkar garð og stundum sjálfsskoðun
"verum breytingin sem við viljum sjá í heiminum" - friður, elska og jafnrétti
Íhugum það sem skrifað var í minningarbækurnar okkar sem börn;
"Lifðu í lukku en ekki í krukku - lifðu lengi en ekki í fatahengi" ..
----
Setningar úr "Kristur í Oss"
Ég er
Ein af bókunum sem ég hef lesið (og þær eru margar) heitir "Kristur í oss" sem er skrifuð 1907 af ókunnum höfundi og þýdd af ókunnum þýðanda - dularfullt?
Ég held að mér hafi þótt þessi bók svo góð vegna þess að ég kannaðist við svo margt í henni og var svo sammála mörgu.
Eftirfarandi eru nokkrar tilvitnanir sem ég skrifaði niður:
Að vera heilagur er að vera heill
Þar sem Guð er, þar eru engar takmarkanir
Heimurinn er hugsun Guðs
Biblían er stigi hinna dauðu kennisetninga, hinna dánu einstaklinga
Mannlegt mál er algjörlega ófullnægjandi til að túlka andleg sannindi (höf. tekur það fram í upphafi að bókin sé skrifuð með það í huga, að gera sitt besta en þessi takmörk séu fyrir hendi)
Sköpunaröfl eru ósýnileg - myndin á striga listamannsins er aldrei sú sama og kemur á strigann
Himnaríki er vitund um Guð, ekki staður
Kirkjur og kapellur eru aðgreiningarmúrar
Hlýddu andanum innra með þér
Láttu hjarta þitt vera fullt af Guði
Það er í hjartanu sem skilningurinn býr
Smámunasemi má ekki ná valdi á lífi okkar og taka stjórn
Hver einstaklingur skapar framtíð sína með hugsun sinni
Heilinn nærist af andanum
Leitaðu ekki elskunnar, gefðu hana - það er næring
Bænin er andardráttur lífsandans
Það er röng afstaða að bíða eftir sælu í fjarlægri framtíð
Þegar þú biður fyrir veiku fólki sjáðu það þá heilt fyrir þér en ekki veikt
Þú ert alltaf - og munt verða
Hið eina sem hefur hjálpað þér til æðri þekkingar á Guði hefur komið innan að
Hugsun er útöndun orðsins - Orðið er innra með þér
Þú ert, vegna þess að Guð er
Það er óttatilfinning sem skapar aðgreinandi múra
Sjáðu og viðurkenndu aðeins það góða í þínum nánustu - traust þitt á þeim skapar í þeim nýja von
Elskaðu af öllu hjarta, sál og huga og þér mun enginn hlutur ómögulegur
Kristur er uppspretta sem aldrei þrýtur
Við erum öll þríein og lifum á þremur tilverustigum, sviði andans, sálar og líkama
Leyndardómur við lestur Biblíunnar er innblástur (þinn eigin innblástur ekki þeirra sem skrifuðu)
Bækur skal nota sem farvegi
Eilífðin er núna
Kastaðu á djúpið, djúpið er Guð
Hangið ekki við hlekkina, sleppið þeim
Ég er mikill inklúsívisti í hjarta mínu, þ.e.a.s. ég vil ekki útiloka nokkra manneskju - enda inklúsívismi andstæða exklúsívisma. Með því að setja merkimiða á fólk, þá er hætta á að útiloka. Reynum því að komast hjá því eins og mögulegt er.
Mín einlæg skoðun er sú að við eigum, hverju sem við trúum, eða trúum ekki, að geta setið við sama borð og neytt saman matar þó við þurfum ekki á bragða á því sem hentar okkur ekki eða okkur þykir vont. Borðið er gnægtarborð, hlaðið mat úr öllum fæðuflokkum og eldað á alla mögulega vegu (eða hrátt) ..
Hver og ein/n þarf að velja það sem hentar honum/henni og við þurfum ekki að amast við jurtaætunni eða jurtaætan að amast við okkur.
"Hvað með þá sem borða af hömluleysi eða borða ekkert eins og t.d. anorexíusjúklingar?" gæti einhver spurt.
Á því þarf að taka eins og hverjum öðrum sjúkleika eða fíkn.
Líkingar hafa alltaf sín takmörk, en þessi líking fannst mér ná einna skást til að lýsa því hvernig mismunandi trúaðir/trúlausir einstaklingar eiga að geta lifað sem ein heild án þess að þurfa að byggja veggi sín á milli.
Ég er ekki á móti kirkjum eða samkomum yfirhöfuð - reyndar alveg öfugt. Flest fólk er félagsverur og finnst oft gott einmitt að vera saman til að biðja, syngja eða hlusta á hugvekjur eða prédikanir. Sumu fólki finnst styrkurinn aukast með því að deila saman rými, bænum og hugsunum sínum.
Þegar talað er um að kirkur eða kapellur skapi múra, þá hlýtur það að vera í þeim tilfellum þegar að þeir sem innan "múranna" eru telja sig betri en þeir sem eru fyrir utan.
Þetta snýst í raun um hugsanamúra.
"Þú ert vegna þess að Guð er" .. þetta er það sem höfundur segir og ég er sammála þessu, þ.e.a.s. "Guð er" .. en hvað segir þá sá eða sú sem ekki trúir á Guð? "Ég er vegna þess að ég er" .. það kemur á sama stað niður: "Ego eimi" sagði Guð "Ég er"..
Guð er í oss, en við erum ekki guðir - heldur dropar af Guði sama eðlis, enda sköpuð í Guðs mynd.
Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi
Guð í sjálfum þér.
Steingrímur Thorsteinsson
---
Sl. hvítasunnudag fórum við nokkrar konur saman í göngu í Nauthólsvíkinni, gengum í góða veðrinu meðfram ströndinni, sumar gengu lengra en aðrar, allt eftir getu. Önduðum að okkur sól og sjávarilm. Við settumst svo niður í grænt grasið og ég leiddi þær í stutta hugleiðslu þar sem við köstuðum af okkur klyfjunum og hentum þeim alla leið í sjóinn. (Lærði þetta hjá Maríu Ellingsen, taka svartan þungan stein úr hjartanu og setja þar sólina í staðinn). Þegar við höfðum notið þess að sitja og spjalla smá stund, þá fórum við og fengum okkur kaffibolla og smá snæðing sumar.
Fylltum lungu okkar af lofti, fengum sól á vanga og í hjarta.
Þannig er kirkjan fyrir mér, í raun þarf ég ekki meira. - Hvernig og hvar ég ætla að láta jarða mig verður bara að koma í ljós síðar, "den tid den sorg" ..
![]() |
Þjóðkirkjan glataði trausti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.6.2011 | 08:17
YOU ARE LOVED ..
Í bloggfærslunni hér á undan þar sem fjallað var m.a. um sjálfstraust, skrifaði ég þessa stuttu setningu - You are loved - til að skýra mál mitt - þ.e.a.s. að elskan væri í raun grunnur sjálfstrausts, en ekki það sem mölur og ryð geta grandað, titlar, útlit o.s.frv., allt annað - það sem kemur að utan, hversu fræg við erum og slíkt, er ekki trygging fyrir sjálfstrausti, því það er eitthvað sem eyðist og hverfur.
You are loved
- og það hittir í mark, enda getur elskan ekki geigað nema að sá sem hún er ætluð forði sér eða skýli hjarta sínu.
Við þurfum nefnilega öll að vita að við séum elskuð, og ekki bara vita, heldur trúa því.
Þú ert elskaður
Þú ert elskuð
Það sem er þó mikilvægast að trúa er að við séum okkar eigin elsku verð.
Kærleiksboðorðið virka í báðar áttir;
Elskaðu aðra eins og þú elskar þig - Elskaðu þig eins og þú elskar aðra
Sýndu sjálfri/sjálfum þér virðingu.
Við göngum oft býsna nærri okkur sjálfum, sýnum okkur ekki þá tillitssemi sem við oft á tíðum sýnum öðrum. Bjóðum okkur upp á hluti sem við myndum ekki bjóða neinum öðrum. Erum næstum dónaleg við okkur sjálf.
Í leit okkar að elsku og viðurkenningu förum við stundum yfir mörk þess boðlega fyrir okkur sjálf.
Við erum alltaf að lenda í þessu, að yfir okkur sé gengið að einhver tali niður til okkar, að okkur sé sýnd óvirðing. Þá fer það eftir viðhorfi okkar til sjálfra okkar hvernig við tökum því. Hvort við kokgelypum eins og fiskur sem gleypir agn, eða hvort við sendum það til föðurhúsanna, annað hvort í huganum eða við tölum upp, eða stígum út úr aðstæðum á annan hátt.
Ef við elskum okkur ekki nógu mikið eða gerum okkur grein fyrir verðmæti okkar þá látum við það líðast að aðrir nái að fara undir skinnið okkar og stjórna, við gefum út leyfisbréf og látum þetta jafnvel brjóta okkur niður.
En þegar við gerum okkur grein fyrir að elskan er fyrir hendi, hún hefur alltaf verið fyrir hendi - hún er hluti af þér og kemur frá hjarta þínu, þá getur þú farið að slaka á, þú átt allt gott skilið.
You are loved - Love is you
Quench my thirst, keep me alive
Just need one sip, baby, love is you
Love is you, love is you, love is you, love is you
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2011 | 07:04
"Ferðalagið frá Guði" ..
Nú fer ég að verða þreytt á þessum líkamsáróðri og verðmætamati út frá áferð húðar, nagla, litarháttar o.s.frv.
Appelsínuhúð eða ekki appelsínuhúð - Sarah Jessica Parker getur varla átt sjö dagana sæla ef hennar gildi eða verðmæti er metið út frá lærunum á henni?
Vel getur verið að hún sé farin að vega og meta sig út frá því sjálf.
Þar sem líkaminn er farartæki okkar, er mikilvægt að huga að honum, fara vel með hann svo að allt virki og við komumst sem flestar "mílur" á honum. Í því felst að sjálfsögðu að þrífa og bóna, en mikilvægast af öllu er að þykja vænt um hann hvernig sem hann er, því að hann gengur bæði fyrir andlegu og líkamlegu bensíni.
Ef það að vera ekki með appelsínuhúð er til að byggja einhvers konar traust fyrir manneskjuna er það ekki sjálfstraust, heldur einhvers konar annað-traust. Eða eins og Pia Mellody höfundur bókarinnar "FACING CODEPENDENCE" kallar það Other-esteem.
Fólk sem byggir á Other-esteem byggir á utanaðkomandi hlutum eins og;
Hvernig það lítur út
Hversu hár launaseðill þeirra er
Hverja þeir þekkja
Á bílnum þeirra
Hversu vel börnin standa sig
Hversu áhrifaríkur, mikilvægur eða aðlaðandi maki þeirra er
Gráðurnar sem þeir hafa unnið sér inn (Bjarnfreðarson með fimm háskólagráður)
Hversu vel þeim gengur í lífinu þar sem öðrum þykir þau framúrskarandi
Að fá ánægju út úr þessu, eða fullnægju er í fínu lagi, en það er EKKI sjálfstraust.
Þetta Other-esteem er byggt á gjörðum, skoðunum eða gjörðum annars fólks.
Vandamálið er að uppruni þessa Other er utan sjálfsins og því viðkvæmt vegna þess að það er eitthvað sem við getum ekki stjórnað. Það er hægt að missa þessa utanaðkomandi hluti hvenær sem er, og því án okkar stjórnar og óáreiðanlegt - ekki gott að byggja sjálfstraust á einhverju sem getur horfið eða eyðst.
Útlit okkar gerir það óumflýjanlega. Kjarni okkar er sá sami hvort sem við erum ung eða gömul, með gervineglur, botox, silikon, diplomur úr háskóla o.s.frv. Hann er alltaf sá sami og nærist á því að við sættumst við okkur, þekkjum og elskum okkur.
Sjálfstraust okkar á ekki að byggjast á hversu vel barni okkar gengur í skóla, eða hvort að því gengur illa í lífinu. Það er það sem flokkast undir Other.
Ef við lærum að við erum verðmæt og góð sköpun, hvernig sem við lítum út, hvernig sem börnum okkar farnast, þá náum við að hlúa að sjálfstrausti okkar og þá hætta utanaðkomandi öfl að þeyta okkur fram og til baka eins og laufblöðum í vindi.
Þá náum við stjórn á okkur. Þannig virkar sjálfstraustið.
Ef við látum umhverfið hafa svona mikil áhrif erum við meðvirk, og við erum það flest. Það er ekkert til að skammast sín fyrir og reyndar eigum við að skammast okkar sem minnst, heldur hleypa tilfinningunum i þann farveg að vera meðvituð.
Ef við gerum okkur grein fyrir því að það sem Sigga systir sagði í gær hafði svona neikvæð áhrif á okkur, eða það sem Óli bróðir sagði hafði svona góð áhrif kom okkur upp í skýin erum við meðvirk.
Við látum umhverfið stjórna því hvort við erum glöð eða sorgmædd.
Ég fór út í meðvirknivinnu vegna þess að ég var eins og laufblað í vindi, lifði til að þóknast. En þegar upp var staðið var það til að þóknast öllum öðrum en sjálfri mér.
"Hvað skyldi þessi segja ef ég .... " Ætli þessi verði ánægð ef ég ... " "Ég get ekki verið hamingjusöm nema þessi og þessi séu það líka.... "
Hvað græðir barn í Biafra á því að lítil stelpa á Íslandi klári matinn sinn?
Já, við lærðum þetta í bernsku.
Við þorum ekki að vera glöð vegna þess að einhverjum öðrum líður illa, - eða hefur það ekki eins gott, hvað hjálpar það þeim?
Að vilja gera lífið betra og setja lóð á vogarskálar hamingjunnar, byrjar hjá okkur. Við erum dropar í þessum hamingjusjó og ef við ætlum að gera gagn og bæta sjóinn þá skulum við huga að okkar sjálfstrausti, okkar innra manni sem er verðmæt manneskja - hvað sem á dynur.
Verðmæti okkar rýrnar aldrei.
Sem fyrirmyndir þá höfum þetta í huga, börn þessa heims vilja sjá þig með gott sjálfstraust - elsku mamma, elsku pabbi, elsku afi, elsku amma, elsku frænka, elsku frændi.
Sjálfstraust er það mikilvægasta sem fólk hefur í lífsgöngunni, því með gott og heilbrigt sjálfstraust getur þú gengið án þess að láta kasta þér til fram og til baka, án þess að láta einelti hafa áhrif á þig. Án þess að gleypa agn veiðimannsins sem vill veiða þig á beitu og láta þig engjast á önglinum.
Dæmi um slíkt er þegar einhver þarna úti pirrar þig og þú færð hann eða hana á heilann og þá ert það ekki þú sem ert við stjórnvölinn í þínu lífi lengur, heldur sá eða sú sem þú vilt síst að sé það.
Upphaf færslu minnar er því meðvirkni, ég læt umræðuna stjórna líðan minni, EN með því að skrifa þennan pistil gerði ég mér grein fyrir því. ...
Meðvitund er það sem þarf og það þarf. Sjálfsskoðun, sjálfsþekkingu og sjálfsfrelsun.
Frelsun frá því að finnast það sem öðrum finnst.
Þegar þú veist hvað ÞÉR finnst, já þér og engum öðrum, um sjálfa/n þig, þegar þú ert farin/n að samþykkja þig og þínar skoðanir, standa með sjálfri/sjálfum þér þá ertu farinn að uppgötva sjálfstraustið þitt.
Geneen Roth segir frá því sem Súfistarnir kalla "Ferðalagið frá Guði" ..
"Í Ferðalaginu frá Guði trúir þú því að þú sért það sem þú gerir, það sem þú vigtar, áorkar, svo þú eyðir tíma þínum í að reyna að skreyta þig með ytri mælikvarða um gildi þitt.
Vegna þess að jafnvel grannt og frægt fólk verður óhjákvæmilega gamalt, fær appelsínuhúð og deyr - er ferðalag frá Guði 100% líklegt til að valda vonbrigðum."
Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.
(Steingrímur Thorsteinsson)
Bottom læn: mér koma lærin á Söruh Jessicu Parker (eða einhverjum öðrum) andsk... ekkert við
![]() |
Sarah Jessica Parker er ekki með appelsínuhúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
8.6.2011 | 23:20
Lífsgangan, endurvakin hugvekja frá 2009
Þegar einhver deyr þá hugleiðum við oft hvernig við komandi lifði lífinu, og í jarðarförinni er farið yfir lífsgönguna. Þegar verið er að tala um gamalt fólk er oft sagt að það hafið dáið satt lífdaga, en þá deyr unga fólkið væntanlega enn hungrað lífdaga?
Einu sinn skrifaði ég um menntaveginn sem væri genginn eins og Fimmvörðuháls, en það má alveg eins nota þá líkingu um lífsgönguna, líkinguna um fjallgöngu eða vegalengd sem við vitum ca. fyrirfram hvað á að taka langan tíma.
Ekki komast allir á leiðarenda, heldur heltast úr lestinni; veikjast, verða fyrir slysi eða þola hreinlega ekki meir og falla fyrir eigin hendi. Sumir leggjast bara niður og geta ekki meira. Það er of dimmt, það vantar vilja til að halda áfram, því að fólk sér enga ástæðu, sér engan tilgang að halda áfram.
Það sem dregur helst úr mér er illskan. Illskan, hatrið og óttinn sem þrífst í heiminum og á minni göngu herjar það á mig sem illviðri eða mótvindur. Ofbeldi, grimmd, mannvonska í allri mynd. Engin illska er þó verri en sú sem bitnar á börnum.
Hvað er þá það sem heldur mér helst gangandi og hver er tilgangur minn, og væntanlega þinn, í lifsgöngunni? Það er elskan - það er að vera vogarafl gegn illskunni. Tilveran er barátta góðs og ills, og eftir því sem fleiri láta gott af sér leiða og elska því betra.
Því er svo mikilvægt að hvert okkar sem getur gefið gott viti af því hversu mikilvægu hlutverki við höfum að gegna til að halda hinu góða uppi í heiminum. Hvert eitt og einasta okkar hefur þann tilgang að fylla hjarta sitt af elsku, og láta það skína fyrir sig og til þeirra sem í kring eru.
Í lífsgöngunni þurfum við ferðafélaga, ekki einungis fólk, heldur þurfum við ferðafélaga í formi gilda.
Gildin eru einmitt ást, heilindi, hugrekki, traust, virðing og vinátta - þessu öllu þurfum við að pakka með í lífsgönguna og þessu þurfum við sem eldri erum að deila með og kenna hinum yngri. Leyfa þeim líka að kenna okkur.
Á göngunni þurfum við að passa okkur að hlaða ekki of miklu á okkur, ekki verða of þung - hvorki líkamlega né andlega. Við megum ekki draga fortíðina á eftir okkur í bandi, þá getur gangan orðið of þung og stundum óbærileg. Ef við horfum of langt fram, þá missum við kannski af því að sjá þær dásemdir sem eru í kringum okkur. Við þurfum að stoppa reglulega og njóta útsýnisins - njóta þess að vera þar sem við erum, en ekki aðeins hugsa hvernig verði þegar við erum komin lengra. Svo er öruggara að líta í kringum sig til að gæta að hvað er að gerast hér og nú.
Mér finnst það fallegur tilgangur lífsins: að elska - elska sig og elska aðra.
Mörg erum við kvíðin, stundum erum við að kvíða því sem aldrei verður - og eflaust er það oftast svoleiðis. Kvíðinn býr til meiri kvíða.
Allt sem við vökvum dafnar og þess vegna má ekki vökva kvíðann og ekki vökva áhyggjurnar. Við verðum að vökva traustið, trúna, hugrekkið og vökva elskuna.
Sendum fallegar hugsanir til okkar nánustu í stað þess að senda þeim áhyggjur okkar, sumir segja að áhyggjur séu bæn, í staðinn fyrir að senda gott sendum við okkar áhyggjur í viðkomandi sem við höfum áhyggjur af. Þá er bara að breyta áhyggjunum yfir í ljós og elsku og senda það í einum góðum pakka til viðkomandi.
Þegar við stöldrum við á lífsgöngunni, kannski bara í kvöld - tökum þá djúpt andann, þökkum fyrir hversdaginn, þökkum það sem við venjulega tökum sem sjálfsögðum hlut. "Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" ..
Gott nesti í formi næringar er grundvallarelement fyrir heilsusamlegri lífsgöngu okkar, við berum svo ábyrgð á því að huga vel að farartækinu okkar; líkamanum - og huga vel að því sem drífur okkur áfram; andanum - en vissulega verður þetta tvennt að fara saman, á lífsgöngunni.
Síðast en ekki síst, er mikilvægt að minnast á samferðafólkið í lífsgöngunni. Ég hef gengið samferða mörgu fólki, er alltaf að kynnast nýju fólki og stórmerkilegu fólki. Reyndar finnst mér flest fólk stórmerkilegt og mikilvægt sem ég kynnist, allir hafa eitthvað að gefa. Sumt fólk er fyrirmyndir af því sem ég vil vera og annað fólk að því sem ég vil ekki vera.
Þau sem gefa elsku, styrk og gleði eru bestu fyrirmyndirnar og þeim kýs ég að vera samferða.
Við höfum val!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)