Við verðum svo lítil ..

Lífsgæði mömmu eru að fjara út, sífellt verður erfiðara fyrir hana að vera virk og nýlega bættist það í hennar bikar að hún fékk einvers konar "mini stroke" sem gerir það að verkum að hún hallar meira út á aðra hliðina, er þreytt, og getur illa eða lítið tjáð sig.  Það er ekki nýtt að mamma sýnist á síðustu metrunum, hún hefur átt sín "comeback" en nú er eflaust farið að líða að "næsta geimi" eins og hún orðaði það sjálf nýlega.

Ég gleymi ekki hvað sökk í mér hjartað, þegar hún á sínum tíma spurði mig; "Hver hefur fengið þig til að þykjast vera dóttir mín?" ..   Það eru tvö ár síðan, en hún, eða hugur hennar,  kom  til baka og er búin að þekkja mig og okkur öll síðan, en þetta var vont á meðan á því stóð. 

Það er erfitt að sleppa, og skrítið að upplifa þessa munaðarleysistilfinningu á fullorðins aldri. Við höfum verið föðurlaus svo lengi við systkinin - þekkjum sum ekki annað.  En við erum að sjálfsögðu öll fullorðið fólk núna, en af einhverjum ástæðum verðum við lítil þegar um foreldra okkar er að ræða. Ég veit að sorgin yfir að missa pabba sem börn blandast og mun blandast inn í sorgina yfir að mamma sé svona ósjálfbjarga. 

Það hafa margir upplifað nákvæmlega þetta með foreldra sína, eða þessu líkt, og ég hef haft það í huga og við öll að muna að njóta þess sem við höfum núna,  lifa lífinu til fulls á meðan tækifæri er fyrir hendi. 

Það er það sem ég veit að foreldrar vilja börnum sínum og ég veit að mamma vill fyrir okkar hönd, enda hefur oft komið í ljós að mamma,  þessi elska er með hugann við okkur sysktinin  og okkar velferð á meðan hún sjálf hefur litla sem enga möguleika til að njóta lífsins. 

Njótum á meðan við getum, meðan við höfum tækifæri - verum svolítið villt, upplifum nýtt ævintýri á hverjum degi og förum ótroðnar slóðir ..  verum varkár, en óttumst ekki.  


Að elska sig niður eða upp í kjörþyngd ... að borða með meðvitund.

Að elska sig upp og niður .. þetta hljómaði fyrst eins og kynlífslýsing Smile ..... þess vegna bætti ég við - "að borða með meðvitund! .. 

Hvað þýðir orðið kjör-þyngd?  Það er læknisfræðilegt hugtak (held ég) fyrir þá vigt sem okkur er heilbrigðast að vera.  Það eru ekki aðeins lífslíkur okkar sem aukast heldur líka lífsgæði, ef við erum í kjörþyngd.

Manneskja í kjörþyngd getur þó bæði verið í góðu og slæmu formi, svo að kílóin skipta ekki öllu máli þó þau skipti máli. 

Það sem við þurfum öll að byrja á að gera er að elska okkur NÚNA eins og við erum, elska okkar innri mann - hvort sem við erum of feit eða grönn (og það gildir að sjálfsögðu líka um þá sem eru nú þegar í kjörþyngd). 

Það er síðan með elskunni til okkar sjálfra, og við erum líkami, hugur og sál, sem við förum að fara vel með okkur og misbjóða okkur ekki með slæmu mataræði og því sem gerir okkur illt. 

Með elsku og með vitund getum við tekið skref fyrir skref í átt að þessari blessuðu kjörþyng og í átt að betra dagsformi. 

Þegar okkur líður betur í kroppnum líður okkur betur í sálinni - og öfugt. 

Munum bara að við erum ekki sykurfíkn okkar eða önnur fíkn. Við erum heilagar manneskjur, sál, líkami og hugur og höfum allan rétt á að lifa hamingjusömu lífi, gefa kærleika og þiggja kærleika, líka okkar eigin. 

Nokkrar góðar ráðleggingar varðandi hvað kærleikurinn myndi segja við þig ef þú ætlaðir að borða með meðvitund: 

1. Njóttu þess að borða 

2. Borðaðu þar til þú ert södd/saddur (hættu þá) 

3. Borðaðu þegar þú ert svöng/svangur  (ekki svelta þig) 

4. Borðaðu með virðingu, helst við matarborð - ekki fyrir framan sjónvarpið (nema kannski á kósýkvöldum á föstudögum eða við aðrar svonleiðis undantekningar).  Ekki heldur narta í afganga við uppvaskið, eða stinga upp í þig bita þegar þú ert að útbúa mat fyrir börn.  Ekki koma sjö sinnum við hjá súkkulaðikökunni og skera þér flís í hvert skipt (það er dæmi um pjúra meðvitundarleysi). 

5. Borðaðu það sem þú veist að er líkamanum gott og hollt, og þú veist að þú færð ekki vindverki eða þyngsli af. 

6. Þú skalt eiga fullt af góðum mat heima, hnetum, fræum, grænmeti, ávöxtum, korni, grófu brauði, fisk, kjöti, eggjum .. allt svona "beint frá bónda" og sem minnst unnið.  Það er þumalfingursregla að því minna unnið því betra. (Sleppa kjötfarsi og pylsum).  Frekar að borða smjör en gervismjör og sem er "líki" ..  

Muna svo að hreyfing þarf ekki að eiga sér stað í líkamsræktarsal.  Hún getur falist í að elta börnin, fara í sund, á fjöll, í göngutúr (þó það sé ekki nema 10 mínútur á dag) kynlífi, dansi, húla, sippó ... 

Muna bara að grunnurinn að þessu öllu er að elska sig núna (right this moment), svo kemur hitt allt á eftir!  Kærleikurinn til okkar sjálfra á ekki að miðast út frá tölu á vigt, "aha" núna má ég fara að elska mig og þykja vænt um mig.... 

Útivera er góð, - við erum heppin á Íslandi að eiga ferskt loft og nóg af vatni -  tengingin við náttúruna og aðrar manneskjur er okkur nauðsynleg, við erum efnafræðilega tengd jörðinni og líffræðilega tengd öllum öðrum manneskjum ... 

p.s. Þeir/þær sem vilja fá fyrirlestur um þetta og eftirfylgni, þá verð ég með námskeið í haust sem verður auglýst fljótlega á heimasíðu Lausnarinnar - smellið hér. 

 

 


Arachnophobia

Ég hef ekki verið mikið eldri en tveggja ára þegar ég sat í makindum í sandkassa upp í Lindarbrekku, sumarbústað stórfjölskyldunnar, dundaði mér með skóflu og fötu og átti mér einskis ill von, þegar að eitthvað hljóð truflaði mig og var litið upp og ein af fjölmörgum beljum sem höfðu lagt á sig leiðangur frá Laxfossi, ákvað að reka út úr sér tunguna framan í mig.

448_belja.jpg

Orgið hefur heyrst hátt, því að föðursystir min kom hlaupandi út mér til bjargar, en fullorðna fólkið var inni að drekka kaffi.

Síðan hefur mér alltaf staðið stuggur af beljum, - í leikjum mínum síðar sem barn í Lindarbrekku, þar sem ég gekk um berfætt og þóttist vera villibarn í skógi, voru beljurnar "óvinurinn" sem ég faldi mig fyrir.  

Ég hef því t.d. alltaf verið hræddari við beljur en kóngulær.  Kóngulær hafa aldrei skipt mig máli, mér finnst þær ekkert endilega huggulegar og svo horfði ég á myndina um Karlottu kónguló og fór meira að segja að þykja svolítið vænt um þær.

Nýlega varð ég vör við hlussukóngulær, en það var þegar ég var að sópa bak við ruslatunnurnar á veröndinni í húsi dóttur minnar í Danmörku, en meira að segja þær vöktu engin svakaleg viðbrögð.

spider.jpg


Ég er því augljóslega nokkuð laus við kóngulóarfóbíu, eða arachnophobia.

Árið 1990 kom út mynd með því heiti og ég hafði heyrt svaklega lýsingarorð yfir því hvað þessi mynd væri ógeðsleg þar sem kóngulær væru bókstaflega út um allt.  Ég ákvað að leigja hana einhverjum árum eftir að hún kom út, það var á tímum vídeóspóla, að sjálfsögðu!

Ég komst klakklaust í gegnum myndina, án mikilla tilfinningasveiflna eða ógeðs og gortaði mig svo af því að hafa fundist lítið til um þetta, hún hefði engin áhrif haft á mig, þetta væri sko bara bíómynd!   

Annað kom í ljós.

Þegar ég hafði burstað tennur og var á leið í háttinn fann ég eitthvað stórt og loðið skríða niður eftir bakinu og ég gjörsamlega trylltist í einhverjar sekúndur, - sá svo hvar hárbandið mitt hrundi í gólfið,  hárbandið sem hafði losnað úr hnút sem ég hafði bundið í hárið.   

Arachnophobia hafði þá haft sín áhrif eftir allt, þó ég hefði ekki gert mér grein fyrir því, þá var það komið inn í undirmeðvitundina þessi ógeðslega tilfinning fyrir skríðandi kóngulóm út um allt.

Ég hef oft hugsað út í þessa upplifun í sambandi við það efni sem á borð er borið fyrir okkur í fjölmiðlum, um tölvuleiki og annað.

Hvað vitum við um þessi utanaðkomandi áhrif, hvað skemmir og hvað síast inn án þess að við höfum hugmynd um það? ...
Kóngulóarmyndin hafði ekki langvarandi áhrif, eins og sést í innganginum, enda svo sem ekki "endurtekið efni" en spurning hvernig það sem er margendurtekið hefur áhrif.  Ofbeldistölvuleikir- og kvikmyndir, fjölmiðlaefni og fleira sem dynur á daginn út og daginn inn.

Það er merkilegt að pæla í því hvað við tökum inn og hvað ekki, hvað er "prógrammerað" inn í okkur, án þess að við höfum hugmynd um það! 

 

violent.jpg Auðvitað spretta þessar hugleiðingar að hluta til upp, vegna þeirrar mannvonnsku sem við höfum verið að upplifa undanfarið.  Mér er hugsað til þess hvernig að fallegt ungabarn verður að grimmum slátrara. 

Hver er hans leið, hvað stillti heilann á hatur og dráp? 

Hvað er verið að næra með ofbeldinu sem upp á er boðið og fólk kaupir sig inn á?  Ekki bara unga fólkið, heldur við öll. 

Við höldum að það hafi ekki áhrif,  þetta séu bara bíómyndir með blóðsúthellingum og það snerti ekki við okkur. 

 

Eckhart Tolle kallar þetta "To feed the pain body"  að næra sársaukalíkamann, - þörfina fyrir að taka inn eitthvað vont. 

Ég ætla ekki að kafa dýpra í þetta að sinni, langar bara til að vekja til umhugsunar um þá "næringu" sem verið er að taka inn, taka inn úr umhverfinu og mikilvægi þess að velja og hafna. Bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf, börnin eru oft sem ómótaður leir - og því viðkvæmari og þarf að fara með þau sem slík. 

sun-salutation.jpgSet hér inn eina fallega sem mótvægi við blóðsúthellingamyndinni að ofan! 


Stundum ofvökvum við börnin okkar ...

Ísak Máni, sjö ára dóttursonur minn sem flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni fyrir tveimur árum,  fékk plöntu í kveðjugjöf frá leikskólanum sínum á Íslandi. Plantan hafði dafnað þokkalega þangað til í vor að hún fór að gefa eftir, hvert laufblaðið féll af öðru.

Mamma hans setti plöntuna út á stétt með þeim orðum að kannski þyrfti hún meiri sól og súrefni. 

Ísak Máni horfði sorgmæddur á plöntuna sína og stökk síðan inn og náði í fulla könnu af vatni og fór að vökva. Plantan var nú fullvökvuð, en ekkert gerðist! .. Hann sótti því meira vatn og vökvaði enn meira og vatnið fór að leka upp úr pottinum. Hann var óþolinmóður og skildi ekkert í því að plantan brást ekki við öllu þessu vatni. 

Börn eru stundum eins og plöntur, - þau þurfa birtu, næringu og súrefni - og auðvitað vatn. En eins og plantan þola þau ekki of mikið vatn, þá er hætta á að þeim sé drekkt í atlæti og þau nái sér ekki upp af sjálfsdáðum. 

Við mömmur erum stundum sagðar "of góðar" og með því er meint að við gerum of mikið fyrir börnin okkar,  setjum þeim ekki nógu skýr mörk og látum þau komast upp með hluti sem þau ættu ekki að komast upp með.  Okkur þykir "of vænt" um þau, til að banna, aftra eða hemja þau í því sem þau oft vilja gera. 

Að sjálfsögðu eru sumir pabbar svona líka, - og sumar mömmur ekki svona. Það er breytilegt. En foreldrar allir eiga það til að ofvökva börnin sín, og það er þeim ekki til góðs. 

Þannig verðum við meðvirk í vondum siðum, ýtum undir galla í stað kosta. 

Markalaus börn verða oft leiðinleg í umgengni út á við, gengur verr í skóla og eiga erfiðara með að taka reglum samfélagsins, því að þau hafa ekki lært þær heima. 

Markalaus má kannski segja að sé svipað og agalaus, - það þarf að setja mörk, þarf að hafa reglur. Börn kunna ekki að setja sér þær sjálf, og við þurfum ekki að vera "vond" til að setja reglur eða beita aga, - það er aftur á móti akkúrat öfugt,  þannig erum við góð og þannig erum við að gefa börnum okkar gott uppeldi sem hjálpar þeim að takast á við lífið. 

 

Mátti til með að setja þessa mynd hér með, þar sem mörk varðandi tölvunotkun er að verða eitt stærsta málið milli foreldra og barna, eða unglinga aðallega. Auðvitað verðum við að vera fyrirmynd þar sem í öðru, þýðir lítið að segja eitt og gera annað. Smile .. 

funny-computer-addiction.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

p.s. það þarf varla að taka það fram - að það má heldur ekki gleyma að vökva og vera "of þurr á manninn" ... 


Hvar ertu Guð?

Hvar ertu Guð?

Hin vestræna veröld hefur nýlega fengið spark undir beltisstað og upplifir það, í sumum tilfellum, eins og að heimilismaður á eigin heimili hafi sparkað, en ekki einhver ókunnur.

Að sjálfsögðu búa margir upprunnir annars staðar frá í Skandinavíu, og eru því heimilismenn - en eru e.t.v. ekki samþykktir, eða hafðir út á jaðrinu út af trú, kynþætti o.s.frv.

Hvar er Guð í þessu öllu saman?  

Eina leiðin fyrir mig til að trúa á Guð, er að Guð sé nákvæmlega sama og hið góða, Guð sé kærleikur, Guð sé elskan.  Illskan sé því ástandið þegar við erum fjarri Guði.

Algóður Guð þýðir því að Guð er allt sem gott er, en fjarri öllu illu. Það er ekki Guð sem lætur vont gerast, hvorki náttúruhamfarir eða það illa sem er af manna völdum.

Við spyrjum hvar Guð sé þegar við sjáum börn vannærð og sveltandi í Afríku, - en hvar erum við sjálf?

Á líkamsræktarstöðum að hamast við að ná af okkur offitu?  Að sýta að við eigum ekki nógu flottar íbúðir, eða að við komumst ekki í nógu margar sólarlandaferðir?  Viðmiðin okkar eru svo há. Forfeður okkar teldu okkur auðug bara vegna þess að við búum í upphituðu húsi, með glerrúðum og höfum nóg að bíta og brenna.

Af hverju látum við mennirnir þetta gerast? Af hverju er svona mikið ójafnvægi í heiminum?
Getur verið að við elskum ekki nógu mikið?  Erum við týnd og dofin?  Pökkuð inn í einangrunarplast þannig að við heyrum ekki neyðarkall annarra jarðarbúa?

Hvar ertu Guð?  Hvar ertu manneskja?

Hér verðum við að láta til hliðar allar bækur, Biblíu, Kóran og önnur kver, þó að vissulega séu til frásagnir í þessum ritum þar sem Guð er ekkert nema kærleikur,  þá eru þær einnig ruglandi og villandi.

Kannski er Guð orðið ónýtt hugtak, vegna þess hversu breitt það er og hver getur túlkað það út frá sjálfum sér og menn fela sig á bak við bókstafinn til að beita náunga sinn órétti.

Menn skýla sér og fela ódæðisverk sín og óréttlæti bak við bókstafinn, það er vitað mál - og þeir segja að það sé þeirra trúarsannfæring.  Á grundvelli trúarsannfæringar eigi þeir síðan rétt á ákveðinni hegðun.  Meira að segja hér á Íslandi grassera enn slíkar sannfæringar sem segja t.d. að konur séu lægri körlum,  samkynhneigðir með síðri réttindi en gagnkynhneigðir o.fl.

Ef það er ekki elska, er það ekki Guð.

Öll börn fæðast heil og góð, þau mótast síðan af foreldrum, samfélagi, skóla, jafnöldrum, fjölmiðlum o.s.frv.  Öll höldum við kjarna okkar, og í innsta eðli og vilja erum við öll góð.  Því trúi ég.  Allt sem hleðst utan á okkur, umhverfið utan um kjarnann skiptir máli,  hvort það er elska eða illska.

Til að þekkja sjálfan sig þarf að þekkja vilja sinn, kjarna sinn og þannig þekkjum við líka Guð, þannig þekkjum við elskuna til Guðs og til okkar sjálfra.

Er okkur sagt við séum vond sem börn, eða er okkur sagt að vera góð í staðinn?  Orð hafa áhrif, eða eins og fröken Klingenberg orðar það;  "Orð eru álög"  - þess vegna er mikilvægt að nota falleg orð og uppbyggileg við börnin en ekki ljót.

Nú reynir á okkur að elska en ekki hata, nú reynir á að næra og rækta elskuna og svelta og kæfa illskuna.

Tökum elskuna í hægri hönd og viskuna í vinstri og göngum þannig til góðs með Guði, Guði sem er hreinn kærleikur.  Það er hinn eini sanni Guð.  

Hvar ertu svo Guð?
 
Þegar við höfum hreinsað burt hið illa og hið eigingjarna og allar hindranir sem eru múraðar utan á kjarna okkar eins og tannsteinn á tönn,  og komist að innsta eðli, innsta vilja sem er elska finnum við Guð, og við finnum Guð í hjörtum náungans og í snertingu við heim sem leitar Guðs.

Guð er í þér og Guð er í heiminum, en það er eitt og hið sama, það er kærleikur. 

Biðjum og finnum. heart_earth.jpg


Óttatilfinningin sem skapar aðgreinandi múra .. og börn deyjandi úr vannæringu

Það fyrsta sem flaug í gegnum hugann við sprengingu í Noregi, og e.t.v. megin hluta hinna ljóshærðu, bláeygðu (þ.m.t. minn huga) var að þarna væru íslömsk hryðjuverkasamtök á ferðinni, en sem betur fer kom hið sanna fljótlega í ljós (vegna reiði sem eflaust hefði skapast í garð múslima) ljóshærður Norðmaður sem hefði eflaust runnið eins og áll í gegnum tékk-innið á flugvöllum Evrópu, var sekur um fjöldamorð og þvílík hryllileg fjöldamorð. 

Að sjálfsögðu er ekki hægt að setja alla af sama litarhætti undir sama hattinn. En miðað við sömu viðbrög sem hefðu orðið EF að þarna hefðu verið íslömsk hryðjuverkasamtök, þá ættu hvítir ljóshærðir, kristnir karlmenn að fela sig inni til að verða ekki fyrir aðkasti. 

Þessi sprenging er m.a.  til að vekja okkur af þeim draumi  að hið ókunna sé það sem á að óttast en hið kunnuglega, - fólki sem lítur út eins og við hin norrænu, sé aftur á móti fulltreystandi.

En hvað á þá að gera?  Á að hætta að treysta öllum?  Nei, -  við verðum bara að fara að sporna við fæti við alls konar öfgum, landamærum, yfir- og undirmennsku, - fella hina aðgreinandi múra milli manna, múra sem eru skapaðir af ótta. 

Anders Behring Breivik var haldinn, eða hlýtur að hafa verið haldinn, einhvers konar mikilmennskubrjálæði að honum bæri að hreinsa heiminn af þeim sem hugsuðu "öðruvísi" en hann. 

Við sjáum því miður ekki innræti fólks utan á því,  og lengdin á nefinu lengist ekki við allar lygarnar og óheiðarleikann eins og gerðist hjá Gosa spítustrák. 

Enn og aftur þarf að hugsa að rótunum, hvernig við framleiðum fólk sem vill sprengja annað fólk, sem vill drepa annað fólk og telur sig æðra öðru fólki. 

Við verðum að huga að mannhelginni frá bernskunni, hætta að ala upp börn í stríðs-og drápsleikjum.  Það verður í raun bara hver að byrja heima hjá sér.  

Líta í eigin barm og hugsa hvað hann eða hún getur gert, til að vera ekki þátttakandi í ofbeldinu, yfirleitt er það ómeðvitað að við erum það. 

Hvert eitt barn fæðist ekki vont, en smátt saman fer það að meðtaka hið illa, það er alið á því og þegar að hjarta þess er orðið fullt af illsku hefur það ekkert nema vont að gefa. 

Þess vegna þarf að snúa þessu við og fylla hjörtu barnanna með hinu góða, til að þau þegar þau vaxa upp til að vera sjálfstæð hafi þau mikið gott að gefa. 

Við fórnum höndum og spyrjum okkur, "hvað get ég gert" ? ..  Mannslíf hafa verið tekin, mannslíf eru enn í hættu og þar með talið þúsundir barna í Austur - Afríku sem eru að deyja úr vannæringu. 

Við getum ekki bjargað lífum þeirra sem eru fallin fyrir hinum morðóða manni, en við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til til að bjarga lífum barna.  Með því að gefa af góðum hug og elsku, nærum við ekki aðeins aðra, heldur einnig okkur sjálf.  Því þarf ekki að leita elskunnar, aðeins gefa hana. 

Þess vegna minni ég á neyðarsöfnun Unicef

Höfum við eitthvað lært?  

Smelið hér. 

 


mbl.is Bjó til sprengju á 80 dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgist með úr fjarlægð ...

Ég er stödd í Danmörku að passa elsku barnabörnin mín,  Ísak Mána og Elisabeth Mai, - fylgist svo með óróa í fjöllum og jöklum á Íslandi. 

Kíkti snöggt á meðfylgjandi frétt og fannst myndin eins og auga á einhvers konar skrímsli! Gasp .. spurning hver fylgist með hverjum?

En knús á línuna þarna heima á Íslandi, sendi klístraðar ástar-og saknaðarkveðjur í anda Laga unga fólksins! .. 


mbl.is Náið fylgst með Mýrdalsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérarnir, samfélagið og grjótkastið

Ein af leiðunum til að þagga niður í gagnrýnisröddum er að leita fanga í  setningum Biblíunnar, eins og smáfuglar AMX gerir hér og segja;  "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum"..   

Eins og við vitum er enginn maður syndlaus. 

Þýðir það þá að við eigum aldrei að segja meiningu okkar, gagnrýna það sem okkur finnst miður eða óska eftir breytingum.  Erum við þá bara alltaf vondu gaurarnir í grjótkastinu? 

Í textanum sem vitnað er í úr Biblíunni segir:

"Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?

En hún sagði: Enginn, herra.   

Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jh. 8.2-11)

Konan er ekki sakfelld af  Jesú, frekar en af fólkinu sem hafði gagnrýnt - en hann býður henni að fara.... 

Við erum því skv. þessum biblíutexta ekki að setja okkur í dómarasæti, þó við segjum okkar meiningu,  upplýsum um afstöðu okkar.

Það er talað um að umræðan hafi farið á lágt plan, hún hefur gert það LÍKA, en það má ekki einblína á það, því að margir hafa sett fram ígrundaðar skoðanir á málum, sem eru fjarri því steinkast eins og áður hefur komið fram. 

Eins og áður er tekið fram, er ekkert okkar syndlaust, en við verðum, þrátt fyrir það að hafa rödd, hafa leyfi til að gagnrýna og setja fram skoðanir. 

Varla myndi nokkur samþykkja að Lúther hafi kastað steinum til að koma á siðbótinni...

Vörumst áframhaldandi þöggun. 


Jesús grét .. kærleikurinn grætur " Love is not a victory march Love is a cold and broken Halleluja"

 

 

 Brene Brown (og Cohen) kann að orða hlutina - vonandi skilja lesendur ensku!


"Let´s make it easy, to watch the world with love" ......


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband