Sann-leikur, leikur sá er mér kær!

Við eigum einstaklega skemmtileg orð í íslenskunni yfir "Truth" = Sannleikur og "Love"= Kærleikur, sem auðvitað er hægt að þýða beint yfir í ást og/eða elsku.

Þessi íslensku orð hafa það sameiginlegt að hafa viðskeytið -leikur!

Ef við iðkum að segja satt og vera kær þá förum við "leikandi" þrönga veginn og rötum inn um þrönga hliðið. 

Um leið og við förum að ljúga að sjálfum okkur og öðrum, förum að hata í stað þess að elska þá erum við í hættu að detta inn um "breiða hliðið" .. 

Það sem kemur hér á undan er svona nett túlkun á eftirfarandi Biblíutexta: 

Gangið inn um þrönga hliðið.
Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður,
sem liggur til glötunar,
og margir þeir, sem þar fara inn.
Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur,
er liggur til lífsins,
og fáir þeir, sem finna hann.

Matteus 7:13-14 

Það er nú svolítið mikil bölspá í þessu, en þarna má segja að glötunin sé að lifa óheiðarlega og ástunda ekki kærleika. Auðvitað glötum við sjálfum okkur (og öðrum) ef við lifum ekki af heiðarleika og ástundum ekki kærleika.

heart_earth.jpg


Meira um kjörþyngd og kærleikann - ef kærleikurinn hefði rödd og ef við hlustuðum á þessa rödd!

 Ath! samskipti okkar eða umgengni við mat, er eins og dæmisaga um samskipti okkar við lífið yfir höfuð.  Þegar við viljum eitt og gerum annað, þá erum við ekki í sambandi við okkur sjálf.  Þegar við viljum vera í kjörþyngd en borðum yfir okkur.  Það gildir auðvitað líka í hina áttina.  Allt tengist þetta meðvirkni,  því sá meðvirki er alltaf í öfgunum of eða van.  Ofmetur sig eða vanmetur.  Of strangur eða of linur.  Setur of stíf mörk eða er algjörlega markalaus.  Það vantar því hinn gullna meðalveg. 

En hér er það sem ég ætlaði fjalla um - það sem á undan kemur er formáli. 

Kafli 12. -  lausleg þýðing úr bókinni Konur, ást og Guð. 

"Ef að kærleikurinn hefði rödd" (og við myndum hlusta)

  • Ef þú í raun og veru hlustar á hvað líkami þinn vill, hvað gerir honum gott, munt þú uppgötva að hann langar ekki í marengsköku alla daga.  Staðreyndin er sú að á þeirri stundu sem þú segir þér að þú getir fengið marengsköku í öll mál, verður hún ekki eins freistandi - ekki eins spennandi.  Ekki frekar en að eitthvað annað sem er bannað er freistandi.  Þegar að marengskakan er ekki lengur freisting verður hún eins venjuleg og soðinn fiskur.
  • Höfundur tekur dæmi um konuna sem fellur fyrir gifta manninum, þegar hann hætti að vera þessi spennandi elskhugi sem þú hittir í leynum -  losnar úr hjónabandinu - og verður bara kallinn sem þú þarft að röfla við um að fara út með ruslið, eða þú þværð sokkana fyrir, þá verði hann ekki eins spennandi lengur.  - Ástríðan víkur fyrir hversdagsleikanum.  Spurningin um að það sem maður má ekki sé meira spennandi en það sem má?

Höfundur bendir á að athyglin sé á röngum stað - og minnist á athyglisæfinguna þar sem fólk er að spila körfubolta. - set hana inn hér:

 

http://www.youtube.com/watch?v=Ahg6qcgoay4

 

Þessi æfing er til að sýna okkur að við tökum ekki eftir því nema sem við viljum eða ætlum okkur að taka eftir.

 

  • Þau okkar sem erum fókuseruð á mat og vigt, íhugum kannski aldrei að við séum ekki að sjá hina augljósu lausn.
  • Við ímyndum okkur að svarið sé einhvers staðar þarna úti.

Einn mánuðinn er það um hvítan sykur, hvítt hveiti, hvít grjón

Einn mánuðinn er það um að finna rétta fæðubótarefnið

Fitugenið, borða eftir blóðflokkum 

Vera sykurfíklar o.s.frv.

 

Með einhverju af þessu getum við minnkað baráttuna, og firrt okkur ábyrgð í sambandi við umgengni við mat.

En með því erum við ekki að eiga við ástæðu þess að við ráðum ekki við umgengnina við mat. Við viljum bara láta eitthvað utanaðkomandi laga okkur.  En því miður liggur svarið ekki í minni sykurnotkun,  þó að það sé jákvætt að vita að hann er óhollur heilsunni.

Frelsi frá þráhyggju fæst ekki með því að gera eitthvað eins og að sleppa einhverju,  heldur með því að kynnast hver þú ert.  Að þekkja sjálfa/n þig.  Þekkja hvað hindrar þig og hvað þreytir þig.  Hvað þú elskar og hvað þú heldur að þú elskir vegna þess að þú trúir að þú getir ekki fengið það.

 

Höfundur komst að því að borða snérist um aðeins eitt: Að næra líkamann. Og þessi líkami vildi lifa.  Hann elskaði að vera lifandi. 

 

Hinar sjö leiðbeiningar um hvernig við borðum er ein leið til að ná markmiðum þess að vera frjáls. 

 

Fyrst þegar hún kenndi þær fannst henni þær leiðinlegar, en þó nauðsynlegar leiðbeiningar til að losna við ofneyslu matar.

 

Hún segir að í raun séu leiðbeiningar sjö andleg æfing.

 

Þú getur falið mat, borðað í laumi, stolist til að fara ekki eftir leiðbeiningunum - en þú getur líka einnig falið þínar sönnu tilfinningar. 

 

Þú getur logið að fólki hvað þú vilt, þarfnast og hverju þú trúir.  Og þú getur skoðað líf þitt annað hvort með því að skoða hvernig þú lifir lífinu eða hvernig þú borðar.

 

Báðar þessar leiðir leiða okkur að því sem er undirliggjandi,  þess sem er á bakvið átið, til þess sem hefur aldrei orðið svangt, hefur aldrei borðað of mikið - aldrei grennst eða fitnað.

 

Leyfarar og hamlarar þurfa sams konar áttavita.

 

Geneen bætir þarna hinar sjö leiðbeiningar "If love could speak instructions" ...

 

Kærleikurinn myndi segja:

"Borðaðu þegar þú ert svöng elskan, því ef þú gerir það ekki muntu ekki njóta bragðsins af matnum."  - "Og af hverju ættir þú að gera eitthvað sem þú nýtur ekki?" ...

 

Kærleikurinn myndi segja:

"Borðaðu það sem líkami þinn vill elskan, annars mun þér ekki líða nógu vel, og hvers vegna ættir þú að ganga um þreytt eða þunglynd vegna þess hvað þú setur í munninn?"

 

Kærleikurinn myndi segja:

 

"Hættu að borða þegar þú ert orðin södd, annars mun þér fara að líða illa - verða illa södd,  og af hverju ættir þú að eyða einni mínútu í óþarfa óþægindum."

 

En þú átt það enn til að stelast ...

 

En þegar þú sérð ljósið,  áttar þig á möguleika frelsisins  - getur þú ekki snúið til baka.

 

En kærleikurinn talar, og kannski ertu ekki stemmd til að hlusta.  Þannig mun það ganga um tíma.

 

Höfndur ráðleggur því að byrja hægt,  taka eitt skref í einu.  Veldu þér eitthvað eitt eða tvennt til að fara eftir og bættu svo við.  Taktu eftir hvernig það er að fara eftir því og muninum; hvernig er að hunsa það.

 

Treystu á framkvæmdina, treystu á löngun þína til frelsis.  Að lokum munt þú hætta að vilja gera eitthvað sem skyggir á birtuna sem er að koma inn með að uppgötva það að vera lifandi. 

 4046465128_5d68701d2c.jpg


"Hver þykist ég eiginlega vera" .. ?

Sum okkar þurfa ekki að kafa djúpt til að átta okkur á hver okkar stærsta hindrun er í lífinu.  
Í flestum tilfellum er stærsta hindrunin við sjálf!

Við getum líka gengið svo langt að í sumum tilfellum erum við okkar verstu óvinir!

Það er oft vantrúin á okkur sjálf og á hæfileika okkar sem stöðvar eða hindrar  okkur í því að gera það sem okkur langar til, vantrú og ótti.  Ótti við að mistakast og í framhaldi af því oft að gera okkur að fífli. 
Við hugsum "hvað ætli þessi segi"  eða "hvað ætli hinn hugsi" þannig að öll tilvera okkar er farin að snúast um hvað HINIR hugsa, en ekki um hvað við viljum í raun og veru gera. 
Í námskeiðinu sem ég kenndi í framhaldsskóla "Tjáning 103" setti ég  m.a. tvö markmið.

 
1. Að vera maður sjálfur.  2. Að reyna að gera sig að fífli. 


Svona markmið létta oft á þrýstingnum að reyna að setja sig í hlutverk, "þykjast vera eitthvað" o.s.frv.  Um leið og markmiðið er að reyna að gera sig að fífli, hverfur óttinn og um leið og óttinn hverfur þá verður allt léttara. Það er því í raun óttinn sem stöðvar okkur. 


Sumir eiga þó erfitt með að komast út úr hugsuninni:  "Hvað eru þau að hugsa um mig." 

Ég hugsaði þessa hugsun af ákveðnu tilefni nýlega.

 
Tilefnið er að kunningjakona mín er búin að setja upp Facebook - like síðu þar sem mælt er með mér sem næsta forseta lýðveldisins.  Sú sem ábyrgð ber á síðunni heitir Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir, eðlisfræðingur og kennari, - gift Brynju Brynleifsdóttur og eiga þær tvö krúttleg börn. Röggu kynntist ég þegar við vorum í kennsluréttindanámi í KHÍ 2006-2007.  Síðan er það kosningastýra númer eitt sem stýrir síðunni líka, og það er hún Róslín Alma Valdemarsdóttir, 18 ára Hornafjarðarmær, sem á kærastan Rabba, - en henni kynntist ég á netinu og höfum við hist nokkrum sinnum síðan, hún heimsótti mig t.d. á skrifstofuna í Hraðbraut, og einu sinni bauð ég henni í bíó þegar hún var í bæjarferð.  Það er enginn samur eftir að hann hefur hitt Róslín! ;-) .. Hennar framtíð er að vera leikkona. 

En ..  já, já, þið lásuð rétt, ég er að skoða framboð til forseta á næsta kjörtímabili og í framhaldi af því hafa 99 hakað við "Like" og er ég þakklát fyrir hvert og eitt. 

Það þyrfti eflaust kraftaverk til að ég komist alla leið, en það heppilega er að ég trúi á kraftaverk! Hvort þetta tekst í þessarri lotu eða annarri kemur svo bara í ljós! 

Ég er ekki fræg - hef ekki verið í pólitík - og hvað vil ég þá upp á dekk?  Það er ekki laust við að skjótist upp í kollinn á mér þetta þreytta ráma egó sem spyr mig "hvað þykist þú nú vera Jóhanna mín" ..  og ég gæti hlaupið í felur, orðið agnarsmá. 


Ég verð ekki lítil, því ég er búin að semja við barnið í mér að vera ekki að skipta sér af og bregðast við því sem kemur til mín í dag sem.  Ég bregst við sem fullorðin og þroskuð manneskja.  Ég bregst við á réttum forsendum, segi já þegar ég meina já og nei þegar ég meina nei.  Segi ekki bara já til að þóknast eða geðjast, heldur þegar ég meina það af einlægni. 


Mér er ekki alveg sama hvað fólki finnst, fólk segir o.s.frv.  Ég er of mannleg til að þykjast alveg köld fyrir því.  En vegna þess að ég veit hvað ég stend fyrir, mín gildi og ósk mína að bæta meiri elsku í vogarskálar þessa heims,  auka sameiningu manna, vinna gegn sundrungu og fyrst og fremst vonast til þess að fólk þori að vera það sjálft, geng ég óttalaus til verks.  Ég þori að rugga bátnum, ef það er það sem þarf til að vekja skipverjana af blundi meðvitundarleysis. 
Ég er ekki að leika, ég er ekki í hlutverki og ég þykist ekki vera neitt. 


Ég er bara ég. 


Ég þarf að vera á sífelldri vakt við að þagga niður í neikvæðu röddinni. Ýmis reynsla úr mínu lífi hefur kennt mér mikilvægi þess að lifa lífinu af heilindum, lifa því til fulls á meðan tækifæri er til.  Ég missti pabba í slysi þegar ég var sjö ára, ég horfði á eftir bestu vinkonu minni falla fyrir krabbameini í blóma lífsins, og ég horfi nú á mömmu á hjúkrunarheimilinu og hversu ósjálfbjarga hún er.  Í stað þess að falla í þá eymdarhugsun yfir þessu að lífið sé óréttlátt og tilgangslaust, hef ég frekar valið að lifa mínu lífi enn betur,  fyrir vinkonu mína, fyrir pabba og fyrir mömmu, fyrir fjölskylduna, vini, nemendur mína,  fyrir börnin mín og barnabörn...og svona gæti ég lengi talið, en síðast en ekki síst, fyrir sjálfa mig!
(Nú kom "röddin" með athugasemd um að ég væri orðin fullvæmin!) 


Hvað um það - ég skrúfaði bara niður í henni, hún verður að sætta sig við mig. Mæli með að þú skrúfir niður í þinni neikvæðu rödd, og veljir að lifa til fulls sem þú.  Við eigum öll eða flest svona rödd innra með okkur sem talar úr okkur kjarkinn, gerir lítið úr okkur  og stöðvar okkur í  að lifa heil og af ástríðu.

Ég þori, get og vil vera ég sjálf og ég er verðmæt manneskja,  og ég veit líka að þú þorir, getur og vilt - og ert - verðmæt manneskja. 
Takk fyrir mig 
og - 
Takk fyrir þig!

Hér er hægt að skoða facebook síðu! 

Eitt af mínum lífsgildum er að taka sjálfa mig ekki hátíðlega, en að sjálfsögðu taka störf mín hátíðlega og vinna af samviskusemi.  Við Piggy erum kannski ekkert mjög ólíkar ;-) 

11inpiggy.jpg 


Eva Lind Jónsdóttir 30 ára 2. september 2011

isaac_okello_1.jpg Eva Lind Jónsdóttir fæddist um kl. 22:00 að kvöldi 2. september árið 1981.  Þá var mamman búin að vera um sólarhring á fæðingarheimilinu.

Hún fæddist með kolsvart hár, en foreldrarnir báðir ljóshærðir, en faðir hennar hefði aldrei og getur aldrei svarið hana af sér. Smile

Það eru ýmsar "stökkbreytingar" í lífinu, sumar góðar og aðrar slæmar.  Mér finnst svolítil stökkbreyting að vera allt í einu orðin móðir ungrar konu á fertugsaldri! 

Ég er bara þakklát, endalaust þakklát. 

Þakklát fyrir vel innréttuð og falleg börn, sem eru Eva Lind og svo tvíburarnir Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst. 

 

eva_vaskar_upp.jpgÞarna er Eva að vaska upp í eldhúsinu á Stekkjarflötinni í Garðabæ, hjá afa Kela og ömmu Tobbý, - en ekki mátti opna pakka fyrr en eftir frágang, svo hún hefur drifið sig í eldhúsið!

 

 

 

 

 

 

vala_og_eva_knusast_1.jpg Og þarna eru litla systir og stóra systir að knúsast, í fallegum jólakjólum! 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

flott_systkini.jpg Í Ásbyrgi, Eva Lind, Þórarinn Ágúst, Jóhanna Vala og svo hundurinn okkar hún Hneta, sem svo sannarlega leit á sig sem eina af fjölskyldumeðlimunum! 

 

 

 

 

 

 

 

_strondinni.jpgOg svo var farið til útlanda og leikið á ströndinni! .. 

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_henrik_og_mani.jpgHér er farið hratt yfir sögu, og þarna er Eva komin með kærastann Henrik Jörgensen og son þeirra Ísak Mána sem er nú orðinn 7 ára. 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                                                                                                                                     Á brúðkaupsdegi Evu og Henriks, 14. ágúst  2009 - þá var Elisabeth Mai fædd, - aðeins þriggja mánaða gömul!  vala_eva_og_tobbi.jpg

 Þarna eru börnin mín þrjú - styttri útgáfan af nöfnunum:  Vala, Eva og Tobbi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_og_anton.jpgOg svo "græddu" börnin mín einn bróður í viðbót, krúsílinginn hann Anton Örn, sem pabbi þeirra á með konunni sinni henni Birnu Maríu. 

En allt gengið ætlar að borða saman hjá mér á morgun í tilefni afmælisins!  

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_og_bornin.jpgÞarna er Eva komin með  Elisabeth Mai, 2 ára.   Áttum þarna skemmtilegan dag í Tívolí í Kaupmannahöfn! 

 

 

 

 

 

 

 

 

eva_family.jpg Þetta er náttúrulega bara dásamleg fjölskylda! ;-)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Óska Evu minni innilega til hamingju með daginn hennar, það er margt spennandi framundan í dag! 

Hér er svo blogg sem ég skrifaði þegar hún varð 27 ára!

 

Ég á mér draum  

(Lag: I have a dream, texti JM)

 

Ég á mér draum,  í hjarta fann

heilt samfélag, um kærleikann.

Saman styrk við stöndum,  mætumst hlið við hlið

styðjum hvert við annað,  færum hinu frið.

Ég trúi á engla,

eitthvað gott í öllum hægt að sjá

Ég trúi á engla,

og kominn tími fyrir frelsi´ að fá

Guð gefur gaum - ég á mér draum

 

 

Ég á mér draum,  eitt ævintýr

í hjarta þér, heill heimur býr.

Veröldin sem opnast,  við trú og nýja sýn

veitist okkur öllum, viskan verður þín.

Ég trúi á engla,

eitthvað gott í öllum hægt að sjá

Ég trúi á engla

Og kominn tími fyrir frið að ná

Guð gefur gaum - ég á mér draum

Guð gefur gaum - ég á mér draum.

Heart

 


Frábært úrræði til sjálfstyrkingar fyrir börn 9-10 ára og 11-12 ára!

LEIK - LISTAR - GLEÐI - SMIÐJA

happysad.gif

Ég bað Róslín Ölmu Valdemarsdóttur um að skrifa nokkur orð um áhrif þess að taka þátt í leiklist á líf hennar og ekki stóð á svari:

"Ég byrjaði í leiklist í 8. bekk, en þar sem ég bý úti á landi voru aldrei nein námskeið tengd leiklist fyrir yngri krakka, en leikhópurinn Lopi tók við okkur þegar við komum upp í 8. bekk. Fyrsta árið mitt í Lopa lék ég lítið hlutverk, enda vorum við um 20 í leikhópnum og þeir sem reyndari voru gengu fyrir. Ég átti senu í leikritinu þar sem ég gekk inn á svið með ferðatösku og sagði tvær línur við mótleikarann minn. Ég get ekki lýst því hve stressuð ég var á sviðinu, en sýningarnar tókust vel. Ég tók öll þrjú árin mín þátt í Lopa og í síðasta verkinu mínu var ég með aðalhlutverkið og var orðin mun reyndari í framkomu en tveimur árum áður, mér leið vel á sviðinu og þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Eftir að ég fór í framhaldsskóla fór ég í Leikfélag FAS og var með stór hlutverk í síðustu tveimur uppsetningum og naut mín svo vel. Ég fór fyrr á árinu á framkomunámskeið Evrópu Unga fólksins þar sem að mest var farið í leiklistina og gerð leiklistaæfinga. Ef það væri ekki fyrir leikhópana og námskeiðin sem ég hef sótt, þá væri ég ennþá eins og í 8. bekk, feimin að koma fram fyrir framan fólk sem ég þekki og þekki ekki. Ég get léttilega kynnst fólki og kynnt mig fyrir fólki."  


Róslín Alma Valdemarsdóttir, 18 ára.

 ----------

Meðvirkni - nokkur kjarnaatriði.

Fyrst skulum við skoða orðið meðvirkni:   þú ert ekki stjórnandi í eigin lífi, þekkir ekki eigin tilfinningar, því þú ert alltaf að hugsa hvað öðrum finnst, hvort að öðrum finnist eitthvað í lagi og hvað aðrir hugsa og gerir þeim jafnvel upp skoðanir.  Þú treystir ekki eigin dómgreind = virkar aðallega í gegnum aðra,  virkar með en ekki án annarra. Þú spyrð:  "Hvað skyldi Gunnu eða Jóni finnast að ég ætti að gera" miklu frekar en að spyrja sjálfa/n þig.

Brenglað sjálfstraust  - ofmat / vanmat   miðar þig við aðra, finnst þú ómerkilegri eða merkilegri en aðrir.   

Markaleysi
- þú átt erfitt með að setja þín mörk gagnvart öðrum, lætur "vaða" yfir þig, eða þú "veður" inn á rými annarra.  Segir já, þegar þú meinar nei, en ergir þig síðan yfir því eftir á og finnst veröldin óréttlát.  Þú segir já, m.a. vegna þess að þú óttast að þér verði hafnað eða sért ekki elskuð/elskaður eða verðug sem manneskja nema þú sannir það með verkum þínum.   Andstæðan við markaleysi er of stíf mörk og er þá komið út í hinar öfgarnar.

Erfiðleikar við að átta sig á eigin raunveruleika.
- Finnst mér þetta flott, gott?  Kann ég að vega og meta á eigin forsendum, eða hleyp ég eftir dyntum annarra.  Er minn smekkur nógu góður?  Svolítið "Ragnar Reykás" syndrom, að hlaupa eftir skoðunum annarra.

Erfiðleikar með að mæta eigin þörfum og löngunum
. - Við gerum væntingar til annara um að sinna okkar þörfum og verðum fyrir vonbrigðum þegar þeim er ekki sinnt. Yrðum ekki langanir okkar og þarfir.  Spyrjum okkur ekki hvað við eigum skilið.
 
Erfiðleikar með að upplifa eða tjá í meðalhófi
- annað hvort í ökkla eða eyra. -  Þú átt erfitt með að ganga meðalveginn, ert annað hvort gífurlega hamingjusöm/samur eða mjög leið/ur.  Annað hvort full/ur af eldmóði varðandi verkefni eða algjörlega úr sambandi.  Þér finnst aldrei nóg gert en í raun er aðeins "of mikið" nógu mikið.  Þú sérð tilveruna í svart/hvítu,  réttu/röngu, góðu/illu. Segir:  "Ef þú ert ekki 100% sammála mér, ertu algjörlega ósammála mér"... segir sá meðvirki.  Ef þú hefur alist upp við ofbeldi á heimili þar sem barsmíðar hafa átt sér stað, ferðu í gírinn "ég ætla sko ekki að gera þetta" en ferð út í það miklar öfgar að setja engin mörk og algjört agaleysi.  Þannig ratar þú ekki meðalveginn, en verður ofverndandi.

Lausnin www.lausnin.is  hefur verið starfrækt frá 2009, sem baráttusamtök gegn meðvirkni. Til að vinna gegn meðvirkni þarf að vinna með manneskjunni og  manneskjan þarf að vinna með sér. 

Sjálfsþekking, sjálfstyrking og það að hlúa að rótum manneskjunnar,  gefa henni "áburð" í jarðveginn,  er betra að gera fyrr en síðar, eins og sagði í barnamatsauglýsingunni "Lengi býr að fyrstu gerð" ..

Okkur þykir því afar mikilvægt að sinna ekki aðeins fullorðnum einstaklingum, heldur einmitt að stunda forvarnir gegn meðvirkni, forvarnir gegn því að börn upplifi sig með brenglað stjálfstraust, fari í gegnum lífið í markaleysi og upplifi sig ekki verðmætt, þori að segja upphátt - hvað því finnst fallegt og/eða gott, og hvað það vill,  þori að biðja um að þörfum þeirra sé sinnt og fari ekki út í fullkomnunaráttuhegðun.

Leiklistargleðismiðja fyrir börn 9-10 ára og síðan 11-12 ára, er aðeins fyrsta úrræðið sem við bjóðum upp á, af vonandi mörgum,  í framtíðinni fyrir börn og unglinga.   Að sjálfsögðu vonum við að stjórnendur menntamála taki við og átti sig á forgangsröðinni og forvarnargildinu, og að þegar upp er staðið sé sparnaður af aukinni vinnu með leik, list og gleði í skólakerfinu.

En við erum ekki að ergja okkur á því, - við miðum við stöðuna í dag og í dag er eyða sem þarf að fylla upp í, og því viljum við koma til móts við þau börn (og foreldra þeirra) sem hafa hug á að efla sig með leiklist þar sem gleðin er m.a.  sett sem leiðarljós. 

Unglingasmiðja verður síðan sett í gang í október, fyrir unglinga 13-15 ára,  þar sem leiðarljós eru hugrekki og gleði.  Það þarf nefnilega hugrekki til að vera við sjálf, eða hlusta á eigin hjarta. 

Nánari upplýsingar um Leiklistargleðismiðju og skráning er á heimasíðu Lausnarinnar

Ath! Kostnaði er haldið í lágmarki.  Foreldrar sem ekki hafa efni á að greiða 15.000.- fyrir þessar 10 vikur, eða vilja athuga með lækkun eða fullan styrk er bent á að senda póst til mín:  johanna@lausnin.is  

Námskeiðið verður haldið í Síðumúla 13, 105 Reykjavík. 

Okkur þykir mikilvægt að peningar stjórni ekki alveg hverjir komast að og hverjir ekki! Wizard

 


Bæn

Viskan, í hjarta okkar og alls staðar

Þú ert dásamleg

Gerðu heiminn kærleiksríkan,

eins og þú svo sannarlega vilt, fyrir líkama og sál.

Gefðu okkur athygli og næringu á hverjum degi.

Fyrirgefðu okkur þegar við gerum rangt

og kenndu að þiggja gjöfina að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum

Vektu okkur til  umhugsunar um hið góða og vara við illu

Því að þú ert alheimurinn,  elskan og gleðin

dots-happy-family-cartoon.gif

 


Við upphaf nýs skólaárs - nokkrar góðar lífsreglur ;-)

Ágæta fólk, það sem hér kemur á eftir eru ráð frá mér sem móður, ömmu, fv. aðstoðarskólastjóra og eftirlitskonu með fimmtán ára nemendum í Hagaskóla sl. vetur. 

Hvað þurfa börnin? 

Að sjálfsögðu þurfa börnin/unglingarnir ást og kærleika, umhyggju, hlustun, skilning, nærveru - samveru o.s.frv. 

En hér eru svona "basic" ráð sem ég hef lært í gegnum unglingana sjálfa: 

1) Það þarf að hafa skýr mörk og reglur og jafnvel búa þær til með börnunum/unglingum og fara eftir þeim!  Í því felst t.d. að fara eftir útivistartíma sem lögreglan setur og annað slíkt.  Mörk með tölvunotkun, og foreldrar þurfa að vera samstíga, en ekki brjóta reglur hins. 

2) Það þarf reglusemi, þ.e.a.s. hafa kvöldmat þar sem allir sitja saman í fjölskyldunni við MATARBORÐ og helst að ræða daginn hjá hverjum og einum.  Gera kvöldmatarstundina að gæðastund, en ekki að allir sitji með sinn disk fyrir framan tölvu eða sjónvarp.  Undantekningu má að sjálfsögðu gera um helgar, þegar það er pizza kvöld eða hvað sem fjölskyldan tekur sér fyrir hendur. 

3) Þó það sé oft hávaðasamt þá bjóðið börnum/unglingum að taka vini sína heim. Ekki úthýsa þeim, því þá kynnist þið þeim sem þeir eru að umgangast.  Vitið hverjir eru vinir þeirra og hvernig þeir koma fram.  Kannski getið þið sest niður með þeim og heyrt þeirra áhugamál. Eftir 10 bekkjarpróf hjá börnunum mínum, fengu þau að bjóða vinum sínum heim í heitan pott og ég útbjó fyrir þau pizzabrauð og færði þeim kók í pottinn. Þeim þótti þetta æðislegt!  Þessir krakkar voru ekki að pæla í að "detta í það" því allt sem þau þurftu í raun, var aðstaða og félagsskapur hvers annars. 

4) Sinnið áhugamálum barna ykkar, mætið þar sem þau eru í íþróttum eða hverju sem er, líka í skólanum.  Því betur sem þið eruð tengd því meira vitið þið hvað þau eru að gera og þau vilja líka að þið vitið það (þó þau þykist ekki vilja það).  Þetta snýst um að hafa áhuga á því sem börnin eru að gera. 

5) Verið góðar fyrirmyndir, - farið í léttar fjallgöngur saman, sund, skíði, skauta, hjóla, út að ganga, kallið stórfjölskylduna saman í gönguferðir.  Drekkið ekki áfengi óhóflega fyrir framan börnin, og helst ekki að reykja.  Ekki vera alltaf að tala um megrun, illa um innflytjendur o.s.frv.  Börnin eru þerripappír á lífstíl foreldra og samræður og þau spegla það.  Það skiptir engu máli hvað við segjum ef það er ekki í takt við það sem við gerum. 

6) Hafið bara eitt sjónvarp, ekki láta börnin horfa á sjónvarp í sínu herbergi og forðist rafmagnstæki í svefniherbergjum.  Allt sem einangrar fjölskyldumeðlimi í sitt hvert hornið er slæmt.  Samvera fyrir framan sjónvarp er betri en engin samvera. Leyfið börnunum/unglingunum að velja mynd og horfið á með þeim og jafnvel ræðið myndina.  

... Það má eflaust bæta fleiru við hér - ég veit að enginn (eða fæstir) geta lifað fullkomlega eftir þessu, en vandamálið er að fleiri og fleiri unglingar eru að falla út úr skólakerfinu, þau tína sér í tölvuleikjum (og við fullorðna fólkið á Facebook eða annað) fara allt of seint að sofa, fá of litla hreyfingu og verða því oft þung í skólanum.  Þetta vindur upp á sig og endar oft með ósköpum.  

Ég man hvað mínum krökkum þótti gaman að spila, - fyrst einföld spil, en síðan manna, kana, o.fl. það eru til skemmtileg spil eins og Fimbulfamb, heilaspuni, Trivial Pursuit o.fl.  

Við erum ekki á góðri leið, þegar tölvurnar eru að taka yfir heimilislífið ... höfum það í huga, öll - foreldrar, ömmur, afar, frænkur, frændur.  Við deilum öll ábyrgð á unga fólkinu og við þurfum aðeins að fara að líta hvert við stefnum.  

Stefnum að sameiningu en ekki sundrungu. 

Heart


Hver ert þú?

Gæti verið meira

sem tilheyrir þessu lífi sem ég kalla "mitt" 

en ferðalag í gegnum geiminn 

eða söguþráður?

Meira en líkami sem skynjar 

það sem hugurinn getur ályktað

af reynslu

Byrjar það sem við erum með andardrættinum, 

er það háð formi og endar það með dauða? 

Skrældu burt þessi hlutverk, þessi nöfn

og segðu mér hvað stendur eftir 

og hver þú ert í raun og veru? 

Við mælum árangur

með hlutum sem okkur áskotnast

eða með tengingum sem við myndum

eða með verkum okkar

En það er allt hverfult 

og eins og við rembumst

við að halda í formið, mun formið deyja

En það sem fylgir formsins dansi

er möguleiki að sjá það sem er enn ófætt 

og möguleikinn að henda burt tækifærinu 

og festast í leikritinu 

um það hver við höldum að við séum 

Þetta er þitt lífshlaup, það gæti endað hvenær sem er

Hvar er athygli þín? 

Hvar er bæn þín? 

Hvar er söngur þinn? 

Í lánsömu lífi 

kemur kallið til frelsis

upp úr hjólfari vanans og frá falskri sjálfsmynd 

að vakna frá draumi 

og uppgötva loksins 

sannleikann um tilveru þína

áður en líkaminn deyr

Svo áður en kemur að lokasenunni

líttu á uppstillt leiksviðið

Sjáðu hvað það er sem er að horfa á þessa mig og þig

og þá sérðu, hver þú í raun ert. 

happysad.gif

 


Gengið á Búrfell og slakað á í lynginu í Búrfellsgjá .. dásemd!

Frá því í janúar sl. hef ég tekið þátt í starfi Lausnarinnar, sem eru samtök gegn meðvirkni, en það er hægt að lesa nánar um starfsemina á heimasíðunni. Ég er núna að stíga það skref að verða ráðgjafi (ráðgjöf í kvk Smile) í fullu starfi.  Eins og nafnið gefur til kynna leitum við lausna, og er þá um að ræða lausnir við alls konar samskiptavandamálum.  Samskiptum hjóna, para, foreldra og barna, einstaklinga o.s.frv.  Áherslan er þó alltaf á einstaklinginn, þ.e.a.s. að sá eða sú sem leitar aðstoðar fer að skoða sjálfa/n sig.  Þetta liggur nefnilega oftar en ekki hjá okkur sjálfum, þ.e.a.s. möguleikinn er að breyta okkur sjálfum en ekki öðrum.  Að vísu gerist það oft í kjölfarið að hin fara að breytast, fara að fara að okkar fordæmi o.s.frv.

Þegar við erum í sjálfsvinnu, er mikilvægt að þekkja okkur sjálf og eigin vilja. Upplifa sig frjáls og prófa að fara svolítið nýjar slóðir.  Bæði í raun og andlega. 

Úrræðin í Lausninni felast í einstaklingsviðtölum og para, - hópavinnu, hugleiðslu, námskeiðum og fyrirlestrum svo eitthvað sé nefnt.  

En stundum er sniðugt að fara í hópavinnu undir berum himni og í gær fór ég í göngu með "Lausnara" í Búrfellsgjá og gengum við upp á Búrfell, með það í huga hvernig okkur liði - þessa vikuna og þennan daginn.  Eftir að hafa virt fyrir okkur höfuðborgarsvæðið og miklu meira af toppi Búrfells, héldum við niður í skjólsæla laut og fólk lagðist í lyngið og fékk þar slökun og leidda hugleiðslu.  Hvíld og slökun er ekki síst mikilvæg þegar verið er í sjálfsvinnu og vorum við í léttri "vímu" eftir slökun í guðsgrænni náttúrunni. Ég er ekki frá því að heyrst hafi hrotur í einhverjum í restina! .. 

Prógrammið var liðlega tveir tímar, - fólk vel hreyft og um leið hvílt og einhver stungu upp á að við gerðum þetta að viku liðinni, og ætla ég að finna annan góðan stað til að ganga á næst, þar sem væntanlega verður farið að sjávarsíðunni, tærnar lagðar í bleyti í söltum sjó og síðan  hugleitt við öldunið. 

Sú ganga verður auglýst hjá Lausninni.  

 165310448_sws8t-l.jpg


Hættulegir hundar hjá vanhæfum eigendum ...

Fann þetta á amerískri síðu: "In the 3-year period from 2006 to 2008, pit bull type dogs killed 52 Americans and accounted for 59% of all fatal attacks. Combined, pit bulls and rottweilers accounted for 73% of these deaths."

Rottweiler hundar eru númer tvö í röðinni yfir hættulegustu hundategund heims. Númer eitt eru Pit bull. 

Mér finnst það mjög varhugavert að leyfa þessar hættulegu tegundir og einnig verðum við að fara að íhuga að skylda alla hundaeigendur á námskeið hvað varðar uppeldi hundanna. 

(Að vísu finnst mér að það eigi við foreldra líka, en það er önnur saga Wink) .. 

Fréttir af hundsbitum er að verða daglegt brauð,  og við því verður að sporna. 

Ég er sjálf mikill hundavinur og hef átt hunda og passa oft hund dóttur minnar, en veit að ábyrgðin er alltaf mín þegar ég er með hundinn.  Hundar hafa veitt mér og mínum mikla gleði og jafnvel dregið mig út úr leiðindum og einmanaleika þegar verst stóð.  Góður hundur er nefnilega frábær félagi og gleðigjafi. 

Þess vegna, og alls vegna, er vont að hættulegir hundar séu spásserandi um með eigendum sem eflaust vilja vel, en hafa ekki kunnáttu eða getu til að ala upp þessar tegundir.  

Óska stúlkunni góðs bata og vonandi nær hún sér að fullu hið fyrsta, þó það sé varla spurning að hún verður eflaust hrædd við hunda það sem eftir er. 

 

 


mbl.is Hundur réðst á 12 ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband