9.7.2010 | 07:02
Takmarkinu náð - á undan áætlun! - 7,1 kg á sex og hálfri viku
Ég hef tekið eftir þvi að þegar ég blogga um að tapa kílóum þá rýkur upp súlan sem sýnir gestafjöldann, það segir mér auðvitað að margir hafa áhuga á aðhaldi, að missa kíló o.s.frv.
Ég verð að viðurkenna að ég vigta mig á hverjum morgni, en hef yfirleitt heyrt að maður eigi aðeins að vigta sig einu sinni í viku, en segjum bara að þetta sé "einstaklingsmiðað" hvað hentar.
Það þýðir ekkert að fara í fýlu þó að vigtin fari stundum nokkur hundruð grömm upp aftur, það er algjörlega eðlilegt - því að vökvamagn líkamans er breytilegt eftir hvað við látum ofan í okkur t.d. af matvöru sem inniheldur mikið salt.
En s.s. í morgun var vigtin komin úr 85,8 kg í 78,7 kg en það eru - 7,1 kg og 7 vikurnar ekki liðnar. Takmarkið var 7 kg, en ég er ekki hætt - því nú er komið að því sem er AÐAL málið og það er að halda vigtinni. Mig langar reyndar í 77 kg og að styrkja mig, svo kannski ég hætti að vera styrktaraðili að Laugum og fari að mæta til að "massa" mig. Ætla að hlaupa með Evu minni í Danmörku, eða a.m.k. ganga rösklega. Þyngdin segir svo sem ekki allt, ég er 178 cm há og frekar stórbeinótt og því er þungt í mér pundið eins og sumir segja.
En hér eru nokkur góð ráð sem ég nota:
VATN
Byrja daginn á því að drekka 2 - 3 glös af vatni á fastandi maga, og drekka svo alltaf vatnsglas fyrir hverja máltíð. Auðvitað muna að drekka vatn allan daginn. Vatn er í mínum huga meðal við mörgu og oft stafar höfuðverkur eða vanlíðan einungis af vatnsskorti.
MORGUNMATUR
Það er mjög mikilvægt að sleppa ekki morgunmat. Koma brennslunni í gang. Muesli með hrísmjólk eða fjörmjólk, banani út á eða til hliðar - eða annar ávöxtur, ávaxtasafi með og svo jurtate t.d. "revitalise" Pukka te sem fæst nú bara í Bónus til dæmis. Ef ég vakna of seint eða er í stressi hef ég mixað mér drykk úr línu frá Natures: "Rego-Slim" dufti, psyllium husk (fyrir meltinguna), og svo vitaminox pro og fengið mér í staðinn fyrir hefðbundinn morgunmat. Líklegast hef ég gert þetta að meðaltali svona tvisvar í viku. Ég gerðist söluaðili fyrir "Natures" vörur í janúar, en hef lítið selt öðrum en sjálfri mér. En kannski fer ég meira í það í haust!
VITAMÍN
Ég tek lýsispillur, magnesium og kalk + D vitamín og svo brokkolítöflur - (til yngingar) en þær eru líka frá Natures og heita Cognicore. Þær eru í raun konsentrerað brokkolí svo allt það besta úr því fer í líkamann. Tvær konur, mér tengdar, sem taka þetta hafa skánað, næstum batnað alveg, af mígreni, en ég held að töflurnar séu ekki seldar sem slíkar. Það er að vísu í þeim turmeric líka (eins og kryddið) sem er náttúrulega bólgueyðandi efni og gæti það haft þessi áhrif? Ég held að það sé mikilvægt að fólk passi upp á vitamínin sín. Það þarf að sjálfsögðu líka að vera einstaklingsmiðað!
HÁDEGISMATUR
Hádegismatur á að vera léttur en þó næringarríkur og orkumikill því að hann er bensínið fyrir restina af deginum. Sjálf hef ég mest borðað blandað salat, m/túnfisk eða kjúkling. Annars er Salatbarinn við hliðina á vinnunni og þar eru líka oft heitir grænmetisréttir. Allt sem fæst á Saffran er líka ótrúlega gott. Fiskur, kjúklingur og fleira. Ef fólk fær sér fajitas eða eitthvað mexíkóskt er sniðugt að velja heilhveiti tortillur, og nota meira gaucamole og minni sýrðan rjóma. Í sumum tilfellum má sleppa honum ef fólk heldur sig við mjólkurleysið.
MILLISNAKK
Ef að fólk tekur kaffitíma þá er sniðugt að fá sér gróft brauð (spelt líka) smyrja með lífrænt ræktuðu hnetusmjöri eða uppáhaldinu mínu; avocado og sólþurrkuðum tómötum og strá nýmöluðum pipar yfir. Hummus er líka gott á brauð. Ég hef algjörlega gefið ostinum frí, nema í saumaklúb fékk ég mér camembert (fékk reyndar í magann á eftir). Hnetur (ósaltaðar), möndlur og ýmis fræ er sniðugt að hafa sem nasl milli mála. Ávextir eru alltaf "in" svo endilega borða nóg af ávöxtum. Samt betra að hafa það fyrri part dags.
KVÖLDMATUR
Kvöldmatur má í raun og veru vera hvað sem fólk er vant að borða, nema auðvitað helst innan marka "Síberíumataræðis" þ.e.a.s. ekki hvítt pasta, rjómasósa, majones o.s.videre ... Venjulegt kjöt, kjúklingur, fiskur, o.s.frv. Kartöflum hef ég eiginlega alveg sleppt en sætar kartöflur má borða í staðinn, bygg, brún grjón og cous cous er meðlæti sem er fínt.
Í öllu þessu skiptir máli að borða ekki þannig að líkaminn finni til. Það er að segja að þér líði illa eftir matinn. Borða hóflega skammta og helst ákveða bara einn skammt og njóta hans vel, borða hægt, tyggja oft. Guðni í Yoga segir það "Trixið" fyrir góðri meltingu að tyggja nógu oft. Þá brennum við fyrr! Það er gott að hafa bara nógu mikið af fersku grænmeti, spínati, káli, gulrótum o.s.frv. til að fylla diskinn.
Auðvitað virar þetta fyrir allar máltíðir ekki bara kvöldmatinn.
TE Á KVÖLDIN
Ég hef skipt alveg úr kaffi í te, en ætla líklegast að byrja að drekka kaffi aftur síðar, en ekki ákveðin. Þegar ég byrjaði þennan annálaða "Síberíukúr" þá keypti ég mikið af alls konar bragðgóðu tei, Yogi te og Pukka te. Á kvöldin þegar ég er að horfa á sjónvarpið langar mig oft í eitthvað snakk en þá hita ég mér gott te, t.d. Detox eða Relax, og set í stærsta bolla sem ég á og sötra svo tesopa við og við þegar ég fæ löngun til að borða eitthvað. Það dugar mér.
GÖNGUR
"Að fara út að ganga er góð skemmtun" ..Þó að mataræðið skipti einna mestu til að létta sig (það finnst mér) þá hjálpar það vissulega til að hreyfa sig og er bara hollt og gott öllum, ekki bara þeim sem vilja létta sig. Það léttir okkur líka andlega að anda að okkur fersku lofti. Það þarf ekki að vera einhver kraftganga í klukkutíma í hvert skipti og reyndar alls ekki. 20 - 30 mínútna ganga um hverfið þar sem garðar, gluggar og blóm eru skoðuð er bara fínt og hefur hentað mér. Ég hef að vísu ágætis hvatningu sem er hundurinn Simbi, sem biður um göngutúr þegar konan í raun nennir ekki. Það á ekkert að ofætla sér því þá gefst maður upp og fer ekkert út að ganga!
Þegar fólk byrjar í ræktinni og ætlar að "taka þetta" með fimm timum í viku og svoleiðis fjöri þá springa flestir á limminu og hætta alveg að fara.
KOMA SVO! ..
Ég get þetta og ég er viss um að þú getur þetta, það er svakalega gaman að uppgötva að gallabuxurnar frá 2002 eru passlegar og öll fínu fötin sem hafa verið þröng eru orðin víð. Það er sparnaður! Ég vil ekki þurfa einhverjar aðhaldsbuxur og control top sokkabuxur til að halda inni maganum. Maginn á bara að haldast inni sjálfur. Svo nú er næsta skref hjá mér að ræktast - og ég ætla að halda þessu við og skora á ykkur að gera slíkt hið sama. Mér passar að skrifa um þetta, kannski passar það líka fyrir þig, svo endilega prófa, nú eða bara framkvæma og hætta með afsakanir fyrir spikinu.
Fyrir mér liggur svo áskorun að standa mig í kósýheitunum í Danmörku hjá dóttur minni og tengdasyni en þar er nú yfirleitt slatti af "gouf og slik" á boðstólum, en það er skemmtileg áskorun og ég mun tækla hana.
Á þriðjudag eru liðnar 7 vikur frá því að umræddur Síberíukúr hófst, og 7,1 kg farin nú þegar.
Síðan á þriðjudag hafa því farið 800 grömm, en ég set auðvitað inn færslu á akkúrat 7 vikum. Býst ekki við að ég léttist meira fyrir þann tíma, enda 800 grömm alveg feykinóg á viku.
Og svo endurtekið efni:
Hér er tengill á blogg eftir viku 6 - 6,5 kg farin ( 200 gr á viku)
Hér er tengill á blogg eftir viku 5 -6,3 kg farin (1400 gr á viku)
Her er tengill á blogg eftir viku 4 -4,9 (800 gr á viku)
Hér er tengill á blogg eftir viku 3. - 4,1 kg (-200 gr á viku)
Hér er slóð á blogg eftir viku 2. -3,9 kg (-900 gr á viku)
Og svo hér eftir viku 1. - 3,0 kg (- 3000 gr á viku)
Og hér startið, 25. maí 2010.
Set bara inn listann til að létta lífið:Svona lítur "kúrinn" út í sinni einföldustu mynd:
Sleppa (eða borða í hófi).
- öllum sætindum
- snakki
- öllu brauði nema spelt- og hrökkbrauði
- hvítu hveiti og hrísgrjónum
- allri mjólkurvöru
- majonessósum
- kaffi og gosi
- áfengi
- Ávexti
- grænmeti
- kjúklingabringur og fisk (allt kjöt ókey nema alls ekki unnar kjötvörur)
- baunir af öllum sortum og gerðum
- fræ
- hummus eða avocado í stað smjörs
- brún grjón
- grænt te
- vatn - lots of it
Þetta er mynd af síberískum mat, þó að þessi blessaði Síberíukúr tengist honum ekki neitt!
Gangi okkur svo öllum vel, lifum heil á sál og líkama.
Athugasemdir
Best að setja athugasemd hjá sjálfri mér, Það er eitt sem er MJÖG mikilvægt og það er að sleppa ekki að borða. Það hægir á brennslu og gerir okkur máttlaus og orkulaus. Mæli algjörlega á móti slíku og þó að ég hafi misst svona hratt í byrjun þá þýðir það ekki að það sé einhver regla, það var bara nýtilkomið þar sem ég "datt í smá sjálfsvorkunnarát" á tímabili.
Það er í raun frábært að missa um 500 grömm að meðaltali á viku, allt niðrá við er gott en ekki heldur gefast upp þó að vigtin fari aðeins upp - við og við.
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.7.2010 kl. 07:23
Til hamingju þú ert bara frábær og ég veit að þú munt halda þessu í réttum skorðum.
Veit alveg hvernig tilfinningu þú hefur, ef manni tekst það sem maður hefur sett sér þá fær maður þessa tilfinningu, Já mér tókst það.
Ég er nefnilega að upplifa þessa tilfinningu núna þó það sé ekki á sama leveli og þú, en það kemur í kjölfarið.
Gangi þér vel flotti sporðdreki
Kveðja
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.7.2010 kl. 07:54
Samkvæmt þessu er Anorexía prinsessa flutt inn hjá þér.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.7.2010 kl. 08:57
Mig grunar að þú hafir aðeins lesið fyrirsögnina Vilhjálmur en skil vel að þú nennir ekki að lesa allan textann sem er langur.
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.7.2010 kl. 09:34
Takk Milla mín
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.7.2010 kl. 09:34
Var að lesa og las allt. Hef í gegnum tíðinna haft svolítin áhuga á þessum þyngdar málum. Hef frá ég var krakki tekið þátt í og á stundum æft mjög vel margar greinar íþrótta.
En allt hefur þetta verið með hléum, stundum löngum og verið bundið að mestu leiti við Gim síðustu 15ár eða svo. Þó ekki síðustu 3 þar sem ég get varla sagt ég hafi mætt.
Fyrir fleiri árum en ég vil muna hafði ég æfingafélaga í einu giminu sem var slíkur hafsjór af fróðleik um næringarfræði og þjálfun, þyngdar tap og aukningu að hann rak þá sem áttu að vera fræðingar iðulega á gat með spurningum sem þeir höfðu aldrei heyrt áður. Hann hafði líka prófað nær allt á sjálfum sér, sloppin yfir miðjan aldur og verið keppnismaður í lyftingum og vaxtarækt þar sem hann var ávalt í toppbarátu.
Ég er því dálítið forvitin um hvernig gengur hjá þér, þar sem við félagarnir höfðum oft gaman að fylgjast með mörgum þeirra sem komu í stöðina til að slást við auka kílóin.
Ætla ekki að tjá mig um kúrinn þinn að sinni, en veit að gamli félagi minn hefði verið ánægður með matseðilinn væri fólk að létta sig. (nema kannski kaffileysið) Hef gaman þeim keppnisanda sem þú sýnir og langar að fylgjast með ef ég má. En ég á þá líka eftir að koma með efasemdir þær sem ég hef almennt um svona kúra. Lofa þó að hafa þær þannig að draga ekki úr þér, því vissulega duga kúrar sumum
Dingli, 9.7.2010 kl. 10:52
Flottur árangur, nú er bara að halda þessu.
Ásdís Sigurðardóttir, 9.7.2010 kl. 11:05
Ég viðurkenni það, að ég las ekki allt. Ég er bara öfundsjúkur og þarf að komast á svona kúr í 5 mánuði en get það líklega ekki. Genamengi mitt getur ekki virkað nema að til komi örlítið að eðalsúkkulaði. Mjólkurvöruna er ég laus við því ég er með mjólkuróþol, sem ég uppgötvaði fyrst þegar ég var kominn á miðjan aldur. Ég ætla að stúdera þetta hjá þér. Til hamingju með að vera orðin kona létt.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.7.2010 kl. 15:50
Kannski set ég bara upp námskeið í haust, - fyrir líkama og sál, hef svosem gert það áður, en þá einungis fyrir sálina. Það er auðvitað kolvítlaust að kalla þetta kúr og líka tengist þetta ekkert Síberíu, það er djókið ..
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.7.2010 kl. 16:12
So
Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 01:53
Sæl Jóhanna! Ég nota mikið Vitaminox pro og ekki er verra að taka husk með. Seinasta vetur var ég byrjuð á Brockoli töflunum,sem drógu mikið úr verkjum vegna slitgigtar,algengs kvilla á mínum aldri(ég er 3 árum eldri en Tobbý). Datt í hug að lesa upplýsingar og leiðbeiningar á pakkanum. Þar segir að ekki hafi verið rannsakuð áhrif taflanna á fólk,sem er á blóðþynningarlyfjum (covar).Ég hafði samband við hjartalækni minn (ég er með gáttaflökt),sem sagði mér að taka Brockoli-töflurnar í viku,fara þá í blóðprufu og sjá hvort það breytti nokkru. Frá því er skemmst að segja að ég var í sama gildinu hvað þynninguna varðaði,svo ég er alsæl með það. Vonandi gera þær einnig það sem þær eru framleiddar fyrir,að örva endurnýjun heilafrumnanna. Kveð þig að sinni.
Helga Kristjánsdóttir, 10.7.2010 kl. 04:51
Sæl Helga, það er alltaf að bætast í reynslusögurnar með þetta Cognicore, það virkar of gott til að vera satt og er ég stundum feimin við að segja frá því. Það er líka reynsla systur minnar að það hefur góð áhrif á slitgigt, hún verður bólgin í hnúunum en bólgan hjaðnar mikið eða hverfur. Hún tók eftir þessu, prófaði svo að hætta og þá versnaði henni aftur.
Vinkona min hefur látið lækni kíkja á töflurnar og það hann sagði ekkert því til fyrirstöðu að hún tæki þær, einmitt út af blóðþynningarlyfjum.
Jóhanna Magnúsdóttir, 10.7.2010 kl. 13:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.